Jafnvægi og framsýni

Fyrrverandi fjármálaráðherra hafði betri tök á starfinu en margir forvera hans.  Hann einfaldaði skatta- og innflutningsgjaldakerfið mikið, til hagsbóta fyrir alla, og umbæturnar virkuðu til verðlagslækkunar, og eru ein skýringin á lágri verðbólgu undanfarin misseri, miklu lægri en í öllum verðlagsspám Seðlabankans, sem eru kapítuli út af fyrir sig. 

Þá lagði hann sem fjármála- og efnahagsráðherra grunn að losun gjaldeyrishaftanna með samningum við þrotabú föllnu bankanna, sem eru almenningi hérlendis mjög hagstæðir, mun hagstæðari en flestir bjuggust við. 

Síðast en ekki sízt hefur hann með aðhaldi í rekstri ríkissjóðs og örvun hagkerfisins náð að rétta hann svo mjög við, að við árslok 2016 námu skuldir A-hluta ríkissjóðs tæplega 40 % af VLF, sem er með því lægsta sem þekkist í Evrópu, og þótt víðar væri leitað, en voru hæstar árið 2010 eða rúmlega 60 % af VLF. 

Þá lagði hann grunninn að fjármálastefnu ríkisins til 5 ára, sem er öflugt stjórntæki til eflingar fjármálastöðugleika. 

Nú er kominn nýr fjármála- og efnahagsráðherra, og fjármálaáætlun hans þykir mörgum vera of laus í reipunum með þeim afleiðingum, að geta ríkissjóðs til að taka á sig efnahagsáföll á gildistíma fjármálaáætlunarinnar verður ófullnægjandi og mun minni en í aðdraganda Hrunsins.  

Í janúar 2017 myndaði Bjarni Benediktsson sína fyrstu ríkisstjórn.  Þann 19. janúar 2017 ritaði hann grein í Morgunblaðið:

"Með jafnvægi og framsýni að leiðarljósi", þar sem hann útlistaði Stjórnarsáttmálann ögn nánar og gaf innsýn í, um hvað ríkisstjórn hans er mynduð:

"Ný ríkisstjórn vill nálgast úrlausn mála undir merkjum frjálslyndis og réttsýni.  Ísland á að vera eftirsóknarvert fyrir alla þá, sem vilja taka þátt í að byggja upp íslenzkt samfélag til framtíðar.  Mannréttindi, jöfn tækifæri, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð, ásamt virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum, mynda þar sterkan grunn."

Málefni heilbrigðiskerfisins munu reka oft á fjörur ríkisstjórnarinnar, enda er það að mestu fjármagnað og rekið af ríkissjóði, og þar er við mikil vandkvæði að fást. Að jafnviðkvæm starfsemi skuli vera svo háð duttlungum stjórnmálamanna, er stórgalli og stjórnunarlegur veikleiki. Taka þarf fyrirmyndir frá nágrannalöndunum og stefna á, að veita sjúkrahúsunum fé per sjúkling eftir eðli máls. Reyna þarf að mynda fjárhagshvata til bætts rekstrarárangurs, sem vantar að mestu í núverandi fjármögnunarkerfi.

Við ákvarðanir, sem þarf að taka um þróun heilbrigðiskerfisins á kjörtímabilinu, er ekki ónýtt að hafa ofangreint stefnumið í blaðagreininni að leiðarljósi.  Það á t.d. við um spurninguna, hvort leyfa eigi einkafyrirtæki, sem Landlæknir hefur úrskurðað faglega hæft, að stunda sérhæfðar læknisaðgerðir og umsjá í kjölfarið í takmarkaðan tíma, t.d. 5 sólarhringa, sem meiri spurn er eftir en Landsspítalinn getur annað um þessar mundir með hræðilega löngum biðlistum sem afleiðingu. 

Jákvætt svar ríkisstjórnarinnar við ósk hæfs einkafyrirtækis um að fá að veita slíka þjónustu með sama kostnaði fyrir ríkissjóð og sjúklingana og á Landsspítalanum væri til merkis um frjálslyndi, og réttsýni væri fólgin í að jafna ögn stöðu ríkis og einkafyrirtækja á þessum markaði. Hvers vegna má ekki veita Landsspítalnum örlitla samkeppni ? Núverandi fyrirkomulag annar ekki eftirspurn og er ekki heilög kýr.  Það er hrjáð af göllum einokunar.

Þá mundi jáyrði skapa fleiri sérfræðingum tækifæri til að koma heim til Íslands og "byggja upp íslenzkt samfélag til framtíðar".  Þá mundi jákvæð afstaða ríkisstjórnarinnar falla algerlega að síðustu tilvitnuðu málsgreininni í téðri blaðagrein.  Neikvæð afstaða mundi ekki efla mannréttindi, hér atvinnuréttindi, jöfnun tækifæra, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð. Orðum þurfa að fylgja gjörðir, ef traust á að takast að mynda.  Varðhundar kerfisins urra slefandi fyrir utan.  Ráðherra þarf að vera hundatemjari líka.  Grimmir hundar rífa heybrækur á hol.

"Á marga mælikvarða stöndum við Íslendingar vel, þegar borin eru saman lífskjör þjóða.  Frekari sókn mun byggjast á því, að okkur takist að auka samkeppnishæfni landsins, bæta framleiðni og fjölbreytni í atvinnulífinu, skapa ný verðmæti og fjölga vel borgandi störfum.  Þetta mun tryggja getu okkar til að halda áfram að byggja upp heilbrigðisþjónustuna, draga úr kostnaði sjúklinga, efla menntakerfið og bæta samgöngur.  Ný ríkisstjórn hyggst bæta og styrkja heilbrigðisþjónustuna, því að örugg og góð heilbrigðisþjónusta, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu, er forgangsmál."

Mikilvægur mælikvarði á efnahagslega velgengni þjóða er landsframleiðsla á mann (með íslenzkt ríkisfang).  Á þessari öld hefur hún þróazt með jákvæðum hætti, ef undan eru skilin árin 2008-2010.  Að meðaltali hefur þessi vöxtur verið 1,6 %/ár, og árið 2016 var Ísland komið í 10. sæti, hvað þetta varðar, á eftir Lúxemborg, Sviss, Noregi, Qatar, Írlandi, Bandaríkjunum, Singapúr, Danmörku og Ástralíu, og var röðin þessi frá 1-9. 

Þessi röð er þó ekki mælikvarði á kaupmátt launa, því að verðlag er ólíkt frá einu landi til annars.  Samkvæmt Peningamálum Seðlabankans 2016/1 var búizt við hækkun launakostnaðar á framleidda einingu um 9,3 % (8,7 %) 2016, 4,7 % (4,1 %) 2017 og 5,0 % (3,7 %) árið 2018, og, að kaupmáttur ráðstöfunartekna ykist um tölurnar í svigunum.  Það lætur nærri, að launakostnaður á framleidda einingu vaxi tvöfalt meira en landsframleiðslan á mann, og það sýnir, hversu viðkvæm fyrirtækin, sem undir kjarabótunum standa, hljóta að vera gagnvart ágjöf.  Slík ágjöf er t.d. hækkun gengisskráningar, minni hagvöxtur o.s.frv. 

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, bendir á þessa veikleika í viðtali við Snorra Pál Gunnarsson í Viðskiptablaðinu 2. febrúar 2017,

"Óábyrg fjármálastefna",

þar sem hún gagnrýnir þensluhvetjandi fjármálastefnu núverandi fjármála- og efnahagsráðherra.  Hún hefur gert næmnigreiningu á stöðugleika rekstrarafkomu ríkissjóðs og fundið út, að miðað við hagvaxtarspá stjórnvalda verður rekstrarafgangur 1,0 %/ár - 1,6 %/ár af VLF árabilið 2017-2022, en verði hagvöxtur 1,0 %/ár minni en spáin, sem hæglega getur gerzt, þá snarist á merinni og hallinn verði allt að 2,5 %/ár af VLF/ár.

Umsvif hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, eru mjög mikil á Íslandi, og hvorki heilbrigð né sjálfbær, og fjármálastefnan setur þakið við 41,5 % af VLF. 

"Er svo komið, að umfang hins opinbera í hagkerfinu er hvergi meira innan OECD en í háskattalandinu Íslandi, þar sem skatttekjur eru 34 % af VLF, og opinberir aðilar ráðstafa um 42 % af allri verðmætasköpun í landinu." 

Það er alveg öruggt, að þessi gríðarlegu opinberu umsvif á Íslandi virka hamlandi á framleiðniaukningu og sjálfbæran hagvöxt, sem undanfarið hefur verið haldið uppi af ósjálfbærri aukningu ferðamannafjölda hingað til lands.  Uppskurðar og skattalækkunar er þörf til að landið verði samkeppnihæft til lengdar.  Í landinu eru stjórnmálaöfl blindingja allöflug, sem vilja leiða landsmenn fram af bjargbrúninni, eins og læmingja.  Ef/þegar það gerist, er nauðsynlegt, að staða ríkissjóðs sé miklu sterkari en nú.  Um þetta segir Ásdís í viðtalinu:

"Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir afgangi á rekstri hins opinbera í fjármálastefnunni, er þetta lítill afgangur miðað við forsendurnar um áframhaldandi hagvöxt. Áætlaður afgangur miðar við samfelldan hagvöxt næstu 5 árin á grundvelli hagspár Hagstofunnar.  Stefnan treystir þannig á, að núverandi hagvaxtarskeið verði það lengsta í sögu lýðveldisins eða 12 ár.  Ef hagvöxtur verður 1 %/ár minni en gert er ráð fyrir, getur afgangur breytzt í umtalsverðan halla, eins og við sýnum fram á með næmnigreiningu.  Það má því lítið út af bregða. 

Þetta er sérstaklega mikið áhyggjuefni í ljósi alvarlegrar skuldastöðu hins opinbera.  Hið opinbera er meira en tvöfalt skuldsettara nú en í aðdraganda bankakreppunnar árið 2008.  Samkvæmt áætlunum stjórnvalda verða opinberar skuldir áfram meiri en á síðasta þensluskeiði næstu 5 árin, þrátt fyrir að ráðstafa eigi stöðugleikaframlögum og arðgreiðslum til skuldalækkunar.  Að mati SA er því ekki verið að greiða skuldir nógu hratt og ekkert er í hendi með ráðstöfun fjármuna til skuldalækkunar."   

Hér liggur víglínan á milli frjálslyndis með ábyrgðartilfinningu og afturhalds með ábyrgðarlausum yfirboðum í landinu um efnahagsmálin.  Við  misheppnaðar stjórnarmyndunartilraunir Katrínar Jakobsdóttur og Birgittu Jónsdóttur var verið að leggja drög að þveröfugri stefnumörkun en Ásdís leggur áherzlu á.  Það var ætlunin að sprengja hér allt í loft upp, meðvitað eða ómeðvitað, með því að draga úr skuldalækkun ríkissjóðs og hækka skatta á almenning, einstaklinga og fyrirtæki, til að gefa eldsneytisgjöfina í botn hjá hinu opinbera, sem þá hefði á skömmum tíma þanizt upp í 50 % af VLF, stöðnun og óðaverðbólgu ("stagflation"). 

Núverandi ríkisstjórn er á réttri leið, en hún teflir með útgjöldum ríkissjóðs á tæpasta vað og leggur ekki fram nógu framsýna, róttæka og örugga fjármálastefnu til að varðveita stöðugleikann og undirbúa varnir gegn næstu niðursveiflu, sem sennilega verður innan 5 ára. 

"Ásdís segir fjármálastefnuna og áætlanir stjórnvalda í fjármálum hins opinbera einkennast af ábyrgðarleysi auk skorts á framtíðarsýn og forgangsröðun með betri nýtingu fjármuna að leiðarljósi."

Fjármála- og efnahgsráðherra er þar með sendur "back to the drawing desk", hann verður að lesa betur tilvitnaða grein forsætisráðherra: "Með jafnvægi og framsýni að leiðarljósi", koma síðan til baka frá teikniborðinu og kæla hagkerfið áður en sýður uppúr.

""Þess vegna óskum við eftir því, að stjórnvöld sýni ábyrgð og leggi fram langtímaáætlanir um það, hvernig eigi að bæta úr skák og skapa skilyrði til að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki, t.d. með agaðri forgangsröðun, hagkvæmari nýtingu fjármuna og fjölbreyttari rekstrarformum.  Þar liggja tækifæri t.a.m. á sviði heilbrigðismála og menntamála", segir Ásdís.

"Einhvern tímann mun koma fram aðlögun, og við óttumst, að ekki sé verið að búa í haginn fyrir það, eins og staðan er núna. Ef til bakslags kemur, erum við óundirbúin.""


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband