Slæm lýðheilsa er stærsti bagginn

"Berum ábyrgð á eigin heilsu" var yfirskrift merkrar greinar Gunnlaugs Kristjáns Jónssonar í Morgunblaðinu 16. febrúar 2017.  Er þetta hugvekja, sem vert er að gefa gaum að, af því að þar eru mikilvæg heilsufarsmál reyfuð frá sjónarhorni, sem er of sjaldséð. Gunnlaugur Kristján bendir á leið til að stemma stigu við hóflausum kostnaðarhækkunum læknisfræðilegrar meðhöndlunar á sjúkrahúsum, sem sliga nú þegar ríkissjóð.  Sú leið er þó bæði grýtt og torfarin, því að hún felst í, að einstaklingarnir bæti ráð sitt snemma á ævinni og taki ábyrgð á eigin heilsu.  Margir gera það, en hinir eru æði dýrir á fóðrum fyrir samfélagið.

Á Vesturlöndum er meginbyrði sjúklingameðferðar af völdum svo kallaðra lífstílssjúkdóma, sem stafa af lifnaðarháttum, sem mannslíkaminn er alls ekki gerður fyrir, og hann hættir fyrir aldur fram að starfa eðlilega við þær óeðlilegu aðstæður, sem honum eru búnar í nútímaþjóðfélagi, ef skynsemin er látin lönd leið.  Lífeðlisfræðilega hefur líkaminn sáralítið breytzt á síðast liðnum 10 þúsund árum, en lifnaðarhættirnir hafa hins vegar gjörbreytzt. Þetta kann augljóslega ekki góðri lukku að stýra, enda veldur þetta misræmi sjúkdómum, sem auðveldlega má forðast.  Viðgerðir eru alltaf dýrari og kvalafyllri en fyrirbyggjandi líferni, og "syndararnir" hlunnfara sjálfa sig um lífsgæði.  Kostnaðarlega snýst þetta um þjóðhagslega stórar stærðir, svo að hér er ekki um sérvizkutuð út af smáræði að ræða.   

Jafnframt hefur mannsævin tvöfaldazt vegna bætts aðbúnaðar manna og aukinnar þekkingar, t.d. á mikilvægi hreinlætis, húsakynni eru orðin þurr, björt og hreinleg, og tæknin hefur leyst hið eilífa strit af hólmi. Ekki má vanþakka hlut háskólalæknisfræðinnar í því, að ungbarnadauði og dauði sængurkvenna er hérlendis orðinn afar fátíður, og með læknisfræðilegri greiningarvinnu og skurðaðgerðum er hægt að losa fólk við lífshættuleg mein, t.d. botnlangabólgu, sem mörgum urðu áður fyrr að aldurtila.  Þá má ekki gleyma nánast útrýmingu margra skeinuhættra sjúkdóma, sem áður leiddu til snemmbúins dauðdaga.   

Þessi þróun á umhverfi hins vestræna manns hefur þó sínar dökku hliðar, því að líkaminn hefur lítið þróazt, þó að andinn hafi kannski þróazt eitthvað, en tilfinningalíf homo sapiens er líklega lítið breytt, frá því að hann lagði land undir fót frá Afríku á sinni tíð og lagði undir sig aðrar heimsálfur. 

Þó hafa flestir Vesturlandamenn losað sig við óttann við yfirskilvitleg hindurvitni og reiði guðanna, sem krefjist fórna af mönnum til að blíðkast, en þröngsýni og pólitískt ofstæki hrjáir þó marga, að ógleymdu trúarofstækinu, sem enn er plága, þótt furðulegt megi telja á okkar tímum.  Á Vesturlöndum skiptast menn um of í trúarbragðakenndar fylkingar eftir skoðunum, þótt jarðbundnar séu, t.d. um það, hvernig skynsamlegast er að bregðast við lífstílssjúkdómum. Þó blasa lausnirnar við þeim, sem eru sæmilega sjálfstæðir í hugsun og láta ekki berast með straumum múgsefjunar og áróðursmáttar auglýsinganna.    

Sem skuggahliðar "siðmenningarinnar" má nefna hóglífið, ruslfæði og fíkniefni hvers konar.  Þessar 3 skuggahliðar eru valdar að langflestum sjúkdómum á Vesturlöndum nú á dögum og eru allar sjálfskaparvíti hins viljalitla fórnarlambs "siðmenningarinnar", sem neyzlusamfélagið er hluti af.  Þar er of mikil áherzla á magn og of lítil áherzla á gæði.  Til að átta sig á, hvað er gott og hvað er slæmt fyrir heilsuna, er hollt að hafa uppruna mannsins og líferni við frumstæðar aðstæður í huga, þ.e. að gefa því gaum, sem náttúrulegt er fyrir homo sapiens.  

Það skortir þó hvorki þekkingu í samfélaginu á þessum 3 tegundum skaðvalda nútímamannsins né viðvaranir frá hrópendum í eyðimörkinni, sem hafa bætt 4. skaðvaldinum við, lyfjamisnotkun.  Hún framkallar niðurbrot mótstöðuþreks ónæmiskerfisins og alls kyns neikvæðar aukaverkanir frá vöggu til grafar. Lyf eru vandmeðfarin, og ofnotkun þeirra veldur heilsuleysi og miklum samfélagslegum kostnaði, ekki sízt fyrir ríkiskassann.  Landlæknir þarf að herða eftirlitið með útgáfu lyfseðla með miðlægri skráningu.  Há opinber útgjöld eru ekki einkamál, og persónuvernd á ekki alls kostar við hér.  

Aðrar leiðir en háskólalæknisfræðin boðar eru til, og miða þær að bættri lýðheilsu.  Sem kenningasmið á seinni tímum má t.d. nefna hinn gagnmerka mann, Rudolf Steiner, höfund antroposófíunnar (mannspeki) og Waldorf-skólans.  Hann var fæddur í austurrísk-ungverska keisaradæminu á landsvæði, sem nú er Króatía, árið 1861 og lézt árið 1925.  Eftir hann liggja fjölmörg fræðirit og leiðbeiningar fyrir nútímamanninn, hvernig hann getur hagað líferni sínu í sátt við uppruna sinn og náttúruna, t.d. með lífrænni ræktun matvæla og lífskvikum landbúnaði (e. biodynamic agriculture).  Steiner ritaði líka mikið um hina andlegu hlið mannsins, svo að kenningakerfi mannspekinnar er heildstætt. Í Þýzkalandi og á Norðurlöndunum skutu kenningar Steiners rótum, og þar eru öflugar hreyfingar, sem jafnvel reka sjúkrahús, um starfsemi samkvæmt mannspeki. 

Á Íslandi hefur skyld stefna skotið alltraustum rótum, þótt einfaldari sé í sniðum, en hugsanlega hefur stofnandi Náttúrulækningafélags Íslands, Jónas Kristjánsson, læknir, dáinn 1960, þó komizt í tæri við kenningar Rudolfs Steiners. Um Jónas skrifar Gunnlaugur Kristján:

"Jónas Kristjánsson, læknir (f. 1870) hóf árið 1923 opinberlega að messa yfir landslýð um samspil lifnaðarhátta og heilsu [undirstr. BJo].  Hann stóð í þessari baráttu þar til hann lézt árið 1960.  Yfirleitt í mikilli andstöðu við aðra lækna og samtök þeirra, en flestir kollega Jónasar gerðu lítið úr hugmyndum hans um samspil lifnaðarhátta og heilsu.  Í dag þykir grátbroslegt, að Jónas átti á sínum tíma í harðvítugum deilum við Læknafélag Íslands, sem hann gagnrýndi harðlega fyrir að birta tóbaksauglýsingar í tímariti félagsins."

Það er hald blekbónda, að vaxandi skilningur sé í læknastéttinni á gildi kenninga Jónasar Kristjánssonar og Náttúrulækningafélagsins fyrir heilsufar og heilsueflingu í landinu, og að læknisstörfin snúist ekki einvörðungu um sjúkdómsgreiningar, lyfjagjafir og aðgerðir, heldur einnig um næringarfræðilegar ráðleggingar um að gæta rétts jafnvægis í fæðuvali o.fl., sem snýr að líferni, sem minnkar líkur á sjúkdómum.  Grein sinni lýkur Gunnlaugur Kristján með eftirfarandi rúmlega sjötugu ávarpi Jónasar Kristjánssonar, þáverandi forseta NLFÍ.  Það á erindi til nútímafólks:

"Náttúrulækningastefnan lítur svo á, að flestir sjúkdómar stafi af því, að vér brjótum lögmál þau og skilyrði, sem heilbrigði er háð.  Vísindi framtíðarinnar eiga án nokkurs vafa eftir að sýna fram á þessa staðhæfingu, þegar vísindamönnum þjóðanna ber sú gæfa til að leita orsaka sjúkdóma í stað þess að leita að meinunum sjálfum. 

Til þess að skapa heilbrigt og dugandi þjóðfélag þarf andlega og líkamlega heilbrigða þegna.  Undirstaða heilbrigðinnar eru réttir lifnaðarhættir og rétt fræðsla.  En heilsurækt og heilsuvernd verður að byrja áður en menn verða veikir. 

Æsku landsins á að uppfræða um lögmál heilbrigðs lífs.  Í þessu starfi þurfa allir hugsandi menn að taka þátt; allir góðir synir og dætur fósturjarðar vorrar verða að telja það sína helgustu skyldu að vernda heilsu sína ættjörðinni til handa.  Og takmark allra þarf að vera það að deyja frá betri heimi en þeir fæddust í."

Hver einasta málsgrein í þessu ávarpi helzta lýðheilsufrumkvöðuls Íslands á 20. öldinni á brýnt erindi við landsmenn nú, þegar hallar undan fæti í heilsufarslegum efnum landsmanna, eins og tölur um veikindafjarverur á vinnustöðum sem og álag á heilsugæzlustöðvum og sjúkrahúsum sýna, svo að ekki sé nú minnzt á hrikalegt lyfjaát landsmanna, sem er í hæstu hæðum alþjóðlegs samanburðar.  Vítahringur slæms lífernis og mikils lyfjaáts leiðir til stjórnlauss vaxtar útgjalda við lækningar, sem engin þörf er hins vegar fyrir, ef hugað er að heilsunni í tæka tíð, eins og Jónas Kristjánsson, læknir, o.fl. hafa boðað. Þegar kemur að heilsufarslegum efnum, eru engar skyndilausnir í boði. 

Það stendur þessum málum öllum fyrir þrifum, að læknisfræðin og náttúrulækningastefnan hafa ekki náð að sameina krafta sína.  Hvort tveggja er nauðsynlegt, ef vel á að fara: hollustusamlegir lifnaðarhættir almennings og mikill greiningar- og viðgerðarmáttur háskólalæknisfræðinnar. Þessar 2 greinar þurfa að leiðast hönd í hönd til að tryggja farsæld í landinu.  

Gunnlaugur Kristján kastaði í upphafi greinar sinnar ljósi á umfang afleiðinga rangra lifnaðarhátta:

"Tölur sýna, að u.þ.b. 70 % fjármagns, sem veitt er til heilbrigðisþjónustunnar, fer til meðferðar á lífstílssjúkdómum.  Með öðrum orðum til viðgerða, sem telja má afleiðingar rangra lifnaðarhátta."

Að snúa af braut ofneyzlu, leti og rangs mataræðis, hefur tvöfaldan ávinning í för með sér; það mundi hemja ofvöxt útgjalda til sjúklingakerfisins og bæta lífsgæði almennings til muna.  Hvers vegna hefur sá boðskapur ekki náð eyrum fólks ?  Getur verið, að "viðgerð" lífstílssjúkdóma komi ekki nægilega beint við budduna ? Kostnaðurinn er vissulega fyrir hendi, en hann greiða bæði þeir, sem haga sér vel, kaupa sér jafnvel dýrara fæði af hærri gæðum, vottaðar lífrænar vörur, og hinir, sem litla eða enga forsjálni sýna um heilsufar sitt, heldur láta skeika að sköpuðu og treysta á mátt herra eða frú "Quick Fix".  

"Yfirvöld, að óbreyttu, munu um ókomna tíð kljást við háværar kröfur um meira fjármagn, ekki sízt í viðgerðarþjónustuna, enda fá teikn á lofti um, að almenningur breyti lifnaðarháttum sínum og beri ábyrgð á eigin heilsu." 

Hér er um vaxandi þjóðarmein að ræða, sem enda mun með ósköpum, ef fólk sér ekki að sér í ofgnótt sætinda og megns óþverra, sem að því er haldið. Í samfélagi, þar sem fólki á eftirlaunaaldri fjölgar hlutfallslega meir en fólki á vinnumarkaði, þýðir skefjalaus vöxtur ríkisútgjalda efnahagslega kollsteypu, sem verst mun koma niður á tekjulægstu hópunum.  Gunnlaugur Kristján varpar fram mikilvægum spurningum:

"Tæknin gerir okkur kleift að framlengja lífslíkur umtalsvert.  En er það markmið í sjálfu sér ?  Ættu markmið heilbrigðisþjónustunnar og okkar sjálfra ekki frekar að beinast að auknum gæðum lífsins frekar en lengd þess ?

Í huga blekbónda er svarið við fyrri spurningunni skýlaust neitandi og við hinni seinni játandi.  Spurningarnar beina athyglinni að því, að hið svo kallaða heilbrigðiskerfi hérlendis er á kolrangri braut með sinni forgangsröðun.  Er það ekki gjörsamlega siðlaust að nota peninga annarra til að framlengja eymd og volæði skjólstæðinga svokallaðs heilbrigðiskerfis ?

"Heilbrigðisþjónusta kostar peninga og mikil áherzla er lögð á, að ákveðinn hluti verðmætasköpunar í landinu sé settur í þennan málaflokk.  Líklega er þetta stærsti einstaki liður samfélagsþjónustu okkar.  Kostnaður samfélagsins í framtíðinni mun aukast vegna heilbrigðismála, m.a. vegna aukinna krafna samfélagsins, en ekki síður vegna afleiðinga nútíma lífshátta og oft á tíðum óábyrgrar hegðunar okkar sem einstaklinga."

Með sama áframhaldi stefnir í, að í landinu verði tvær þjóðir; hinir heilbrigðu, heppnu og ábyrgu og hinir sjúku, óheppnu og óábyrgu.  Á endanum mundi það með núverandi þróun útgjalda líklega leiða til uppreisnar hinna fyrr nefndu.  Þess vegna þarf að taka opinbera lýðheilsustefnu heilbrigðisyfirvalda alvarlega í tæka tíð.  Að breyta um lifnaðarhætti, þegar heilsan er farin, er of seint.  Gunnlaugur Kristján skrifar:

"Í október s.l. [2016] samþykkti sérstök ráðherranefnd lýðheilsustefnu ásamt áætlun um aðgerðir, sem eiga að stuðla að heilsueflandi samfélagi.  Í stefnunni er sett fram sú framtíðarsýn, að Íslendingar skuli vera meðvitaðir um, að þeir beri ábyrgð á eigin heilsu og að skólakerfið, vinnustaðir og stofnanir, séu heilsueflandi og vinni stöðugt að því að auka hreyfingu og útivist, bæta mataræði og efla geðrækt, því að slíkt leiði til betri heilsu og aukinnar vellíðunar.  Þá segir, að stefnumótun og ákvarðanir ríkis og sveitarfélaga séu forsenda þess, að lýðheilsusjónarmið séu sett í forgrunn og að heilsueflandi samfélag verði innleitt á landsvísu."

Gunnlaugur telur hér vera eintóman fagurgala á ferð, því að nauðsynlegar fjárveitingar fylgi enn ekki fögrum áformum.  Hann tekur dæmi af nýgerðum búvörusamningi, þar sem lífræn ræktun hljóti sáralítið vægi.  Þó fer fjölbreytni lífrænna landbúnaðarafurða vaxandi á markaðinum, en svo mundi ekki vera, nema vegna vaxandi eftirspurnar frá neytendum.  Þeir eru tilbúnir að greiða hærra verð fyrir vottaðar lífrænar afurðir. 

Það eru fleiri jákvæð teikn á lofti.  Í Fréttablaðinu 16.02.2017 mátti sjá niðurstöðu könnunar, sem kom þægilega á óvart.  Þar sagði, að 76 % eldri borgara stundi líkamsrækt á hverjum degi og að 76 % telji heilsufar sitt vera frekar gott eða jafnvel mjög gott miðað við aldur.  Nú er þetta ekki ítarleg könnun, svo að huglægt er, hvað líkamsrækt getur talizt, og hvort eitthvað muni um hana í heilsufarslegum efnum, eða hvað er frekar gott heilsufar miðað við aldur. 

Þó er jákvætt, að það, sem fólk stundar, þótt e.t.v. lítið sé, er gert daglega, og að það virðist hafa góð áhrif á heilsufarið, því að sama hlutfalli líður, eins og það sé við hestaheilsu, sem er mikils um vert. 

Ef 24 % eldri borgara eru hins vegar ekki við þokkalega heilsu, má gizka á, að ríflega helmingur þeirra eða 15 % eldri borgara búi við heilsuleysi og þurfi að reiða sig í ríkum mæli á þjónustu lækna og hjúkrunarfólks.  Það eru líklega um 7000 manns eða 2,0 % þjóðarinnar.  Þetta er ótrúlega fámennur hópur í ljósi þess, að megnið, yfir 70 % af kostnaði sjúkrahúsanna, er sagt falla, til við þjónustu við eldri borgara, og kostnaður ríkissjóðs af sjúklingum mun í heildina nema um 150 milljörðum króna um þessar mundir.  Það er eitthvað bogið við allan þennan gríðarlega kostnað við að lappa upp á bágborið heilsufar eldri borgara sem annarra borgara.

Ein skuggahlið tilverunnar, sem nefnd var hér að ofan, var neyzla fíkniefna hvers konar.  Áfengið er í þessum hópi, en það er samt lögleg neyzluvara hérlendis og alls staðar á Vesturlöndum.  Hérlendis ríkir samt tvískinnungur um aðgengið, og virðast margir halda, að neyzlunni sé haldið í skefjum með því að selja áfengið í sérverzlunum ríkisins.  Þá staðhæfingu mætti út af fyrir sig prófa með því að leyfa sölu bjórs í matvöruverzlunum eða færa sælgætið þaðan og í ríkisverzlanirnar. Líkast til mundi þetta aðallega breyta því, að keypt yrði minna í einu af vörum, þar sem aðgengið er betra og meira í einu, þar sem aðgengið er verra.  Um heildarneyzluna er áhorfsmál.  Það, sem öllu máli skiptir fyrir neyzluna, er ábyrgðartilfinning neytandans gagnvart eigin heilsu. 

Um hana skrifaði Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður, stutta og hnitmiðaða (knappan texta að hætti góðs lögfræðings) grein í Morgunblaðið, 24. febrúar 2017:

"Edrú í 38 ár" (og átti þar við sjálfan sig):

"Ég tel, að eina ráðið gegn áfengisbölinu sé, að hvert og eitt okkar taki ábyrgð á sjálfu sér.  Ekkert annað ráð hefur sýnt sig í að virka.  Bann eða takmarkanir á sölu eru að mínum dómi máttvana ráð gegn bölinu og siðferðilega röng, ef því er að skipta.  Við höfum engan rétt til að beita valdskotnum ráðum gegn öðru fullburðugu fólki.  Það er reyndar undarlegt, hversu mönnum, sem reynt hafa þetta á sjálfum sér, er gjarnt að telja forsjá og yfirráð yfir öðrum vænlegar leiðir gegn bölinu.  Allt slíkt er hreinn misskilningur."

Þarna skrifar maður, sem reynt hefur á eigin skinni að verða þræll fíknarinnar (í áfengi), en áttaði sig í tæka tíð með hjálp góðra manna og náði stjórn á eigin tilveru.  Hlutverk lýðheilsustefnu hins opinbera og frjálsra félagasamtaka ætti að vera að finna þau ráð, sem bezt duga til að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og til að efla hugarfarið, sem leiðir til ábyrgðartilfinningar um heilsufarsleg málefni. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband