Karl Marx afturgenginn

Reynslan hefur sýnt almenningi, að meðal Karls Marx við sjúkdómum auðvaldskerfisins hafði miklu verri afleiðingar fyrir fólkið, sem fyrir barðinu varð, en sjúkdómarnir höfðu sjálfir. 

Engu að síður höfða kenningar karlsins enn til nokkurra áhugamanna um stjórnmál, en almenningur hefur greint hismið frá kjarnanum fyrir löngu og telur hag sínum mun ver borgið undir einhvers konar Marxisma, sem stundum er kölluð jafnaðarstefna, en með blönduðu borgaralegu hagkerfi, þar sem stuðzt er við kenningar Adams Smith og lærisveina hans með félagslegu ívafi, eins og öryggisneti almannatrygginga. 

Einkenni á málflutningi Marxista er, að þeir hugsa ekki málin til enda, heldur gefa sér alls konar sviðsmyndir, sem ekki standast í raunveruleikanum.  Hið sama einkenndi karlinn sjálfan, og því er reynslan af sósíalisma alls staðar hörmuleg, þar sem hann hefur verið reyndur.  Kjarni Marxismans er, að hverjum beri eftir þörfum og láti af hendi rakna eftir getu.  Þetta er algerlega opin fullyrðing, því að hver á að ákveða, hvað þú þarft og hvað þú getur látið af hendi rakna ?  Í framkvæmd, þar sem sósíalismanum var komið á, var "nómenklatúrunni", þ.e. yfirstétt kommúnistaflokksins eða jafnaðarmannaflokksins falið þetta vald.  Í því fólst og felst enn auðvitað reginranglæti og misrétti. "Nómenlatúran" hefur yfirtekið ríkisvaldið og ríkt án nokkurs lýðræðislegs aðhalds. 

Dæmi um stöðnun og forræðishyggju jafnaðarmanna nú á dögum er ný stefnuskrá brezka Verkamannaflokksins, sem felur í sér þjóðnýtingu á ýmissi almannaþjónustu, og þá er næsta skrefið að þjóðnýta atvinnutækin, sem auðinn skapa, í anda kenninga Karls Marx.  Almenningur á Bretlandi er ekki ginnkeyptur fyrir þessu, enda hefur fylgið hrunið af Verkamannaflokkinum, þótt hann annars mundi eiga fjölmörg sóknarfæri á hendur Íhaldsflokki Theresu May nú í aðdraganda þingkosninga, s.s. lækkandi gengi sterlingspundsins í aðdraganda Brexit.  Brexit verður flókið viðfangsefni fyrir Brüssel og London, og kannski fer allt í háaloft. 

Hvers vegna er almenningur ekki ginnkeyptur fyrir stefnu Verkamannaflokksins ?  Í fyrsta lagi hefur fólk  samanburð á milli ríkisrekstrar og einkarekstrar, og í öðru lagi kærir almenningur sig ekki um, að flokkshestar og vekalýðsrekendur ráði yfir fyrirtækjum, sem almenningur á mikið undir, því að þetta fólk hefur ekki hundsvit á því, hvernig á að reka fyrirtæki á hagkvæman og þjónustuvænan hátt.  Með öðrum orðum veit almenningur, að fjárhagsbyrðum sukks "nómenklatúrunnar" verður velt yfir á hann með íþyngjandi skattahækkunum og þjónustan verður lakari. 

Reynslan af jafnaðarmanninum Francois Hollande og sósíalistaflokki hans í Frakklandi þótti svo slæm þar, að fylgi beggja hrundi niður úr öllu valdi, og ungur bankamaður og ráðherra á vegum Sósíalistaflokksins var endurunninn og búinn til frjálslyndur borgaralegur frambjóðandi í nafni umbóta á stöðnuðu frönsku þjóðfélagi og Evrópusambandi-ESB. Macron ætlar að hleypa nýju lífi í öxulinn Berlín-París, nú þegar Bretar eru á förum, með því að fylgja umbótastefnu í efnahagsmálum, sem hann telur muni falla Merkel betur í geð en lítið aðhald Hollandes við ríkisreksturinn. Þá ætlar Macron að lengja vinnuvikuna í 40 klst úr 35 klst.  Þótt sósíalistar styttu hana, fækkaði ekki atvinnulausum, sem eru um 10 % af vinnuaflinu. 

Í staðinn vill Macron fá enn meiri samtvinnun í bankamálum og fjármálum almennt, sem Þjóðverjum hugnast illa, því að þeir óttast meiri útgjöld þýzkra skattborgara vegna fjárhagsstuðnings við veikburða ESB-ríki.   

Evrópuþingmaðurinn Schulz átti að bjarga "die Sozialistische Partei Deutschlands - SPD" eða Jafnaðarmannaflokki Þýzkalands frá niðurlægingu í Sambandsþingskosningunum í september 2017.  Í upphafi blés byrlega fyrir SPD, en þegar kjósendur hafa heyrt og séð meira til þessa rykfallna kerfiskarls frá Brüssel, verða þeir meira afhuga hugmyndinni um að dubba hann upp sem kanzlara Sambandslýðveldisins í Berlín í stað prestsdótturinnar frá Austur-Þýzkalandi. 

Þetta er vandi jafnaðarmannaflokka alls staðar í hinum vestræna heimi. Þeir eru tákngervingar liðins tíma. Tímabili stéttastríðs er lokið á Vesturlöndum, verkamannastörfum hefur fækkað, lágmarkslaun eru víðast hvar tryggð og hlutverk jafnaðarmannaflokkanna hefur skroppið saman í að gæta hagsmuna búrókrata og annarra forréttindahópa og afæta.  Þetta er stundum kölluð "elítan", sem er þó rangnefni, því að kerfissnatar bera ekki af á nokkurn hátt annan en í ómerkilegri "rentusækni", þ.e. að skara eld að sinni köku á kostnað almennings og án þess að verðskulda sérstaka umbun frá hinu opinbera.

Á Íslandi er nú draugagangur á vinstri væng stjórnmálanna.  Flokkur fjármagns og búrókrata í Brüssel er að tærast upp, en vinstri grænum vegnar betur þrátt fyrir fastheldni við marxíska stefnu um háa skatta á fyrirtæki og fólk, einkum þá, sem mestan þjóðfélagsauðinn skapa, og ríkiseinokun á sem flestum sviðum.  Flokkurinn má ekki heyra minnzt á fjölbreytni rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu og framhaldsskólakerfinu, svo að tveir geirar þjónustu, sem ríkið stendur straum af, séu tíundaðir, þótt slíkt geti aðeins leitt til sparnaðar og betri þjónustu, því að ella yrði samningum sagt upp. 

Það sýnir bókstafstrú vinstri grænna á falskenningar Karls Marx, sem taldi einkarekstur ósamrýmanlegan sæluríki kommúnismans.  Vinstri grænum er sem fyrr annara um form en innihald, og þá varðar ekkert um hagsmuni skjólstæðinga þessara kerfa, sjúklinga og nemenda.  Þetta er sannkallaður afturhaldsflokkur, þar sem yfirdrepsskapurinn tröllríður húsum.

Forstokkun vitleysunnar gengur svo langt, að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs vilja heldur, að Sjúkratryggingar Íslands greiði tvöfaldan kostnað Landsspítala af bæklunaraðgerð á sjúklingum á einkasjúkrahúsi í Svíþjóð en að greiða Klínikinni Ármúla 95 % af kostnaði sömu aðgerðar á Landsspítala.  Þegar umgengnin við skattfé borgaranna er orðin með þessum hætti í anda Karls Marx, þarf engan að undra, að marxísk hagkerfi hafi yfirleitt orðið gjaldþrota fyrr en seinna eða hjarað á hungursbarmi, eins og Kúba Karíbahafsins, þar sem mánaðarlaun lækna munu vera 10-20 bandaríkjadalir.  Þá er gott að eiga garðholu fyrir matjurtir.

Ingólfur S. Sveinsson, læknir, skrifaði fróðlega grein um efnið í Morgunblaðið 14. marz 2017 undir fyrirsögninni,

""Tvöföld heilbrigðisþjónusta", skammaryrði eða skýr nauðsyn":

Þar kom m.a. fram:

"Allar ríkisstjórnir síðustu 30 ár hafa unnið að því að þvinga heilbrigðisþjónustuna inn í kommúnískt ríkisrekstrarkerfi miðstýringar og ofstjórnar."

Nú hefur þetta kerfi gengið sér til húðar.  Það lýsir sér með gegndarlausri kostnaðarhækkun heilbrigðiskerfisins, sem nú er líklega dýrasta heilbrigðiskerfi í Evrópu á hvern íbúa lands, þegar tekið hefur verið tillit til tiltölulega lágs meðalaldurs þjóðarinnar.  Kerfið er kostnaðarleg hít, enda samkeppni og samanburður innanlands af skornum skammti.

Einnig koma skýr einkenni slíkra kerfa, óviðráðanlega langir biðlistar eftir þjónustu, vel fram á Íslandi.  Ein versta sukktillaga um tilhögun ríkisútgjalda kom fyrir rúmu ári frá auðvaldskommanum Kára Stefánssyni, opinberum bréfritara Decode, þess efnis, að í fjárlögum skyldi binda 11 % af VLF við heilbrigðisgeirann, þrátt fyrir að VLF/íb sé einna hæst á Íslandi allra landa og aldurssamsetning þjóðarinnar kalli ekki á að keyra útgjöld til málaflokksins upp í rjáfur. 

Meira úr grein Ingólfs Sveinssonar:

"Aðkoma Færeyinga mætti gagnast Íslendingum nú sem oft áður.  Þeir gerðu fyrst stuttan samning við Klínikina fyrir konur með brjóstakrabbamein.  Eftir reynslutíma og án efa kostnaðargreiningu á þjónustunni gerðu Sjúkratryggingar þeirra samning til lengri tíma.  Færeyingarnir fóru með gætni, skynsemi, ábyrgð og umhyggju."

Hér á Íslandi eru marxistískt hugarfar og bókstafstrú greinilega rótgrónari og illvígari en í Færeyjum.  Það er til háborinnar skammar, að íslenzk yfirvöld skuli ekki þegar hafa farið svipaða leið og yfirvöld heilbrigðismála í Færeyjum gagnvart einkarekinni heilbrigðisþjónustu, sem til boða stendur á Íslandi. 

Hér eru tveir rugguhestar í veginum, forstjóri Landsspítalans, Páll Matthíasson, og Landlæknir, Birgir Jakobsson.  Afstaða beggja vitnar um þröngsýni, því að þeir bera því við, að hagur Landsspítala verði fyrir borð borinn, ef fleiri rekstrarform fá að njóta sín.  Það er útilokað, því að streituvaldandi langir biðlistar munu styttast fyrir vikið, og allt of mikil yfirvinna á Landsspítalanum mun geta minnkað, sem er jákvætt fyrir greiðendur þjónustunnar og þá, sem veita hana.  Þessir fulltrúar sjónarmiða ríkiseinokunar mála skrattann á vegginn, eins og skoðanabræður þeirra á öðrum sviðum þjóðfélagsins.  Fyrr en síðar mun það verða lýðum ljóst hér sem víðast annars staðar.

Í eftirfarandi kafla varpar Ingólfur, læknir, ljósi á dragbítana, sem við er að etja og verður að ryðja úr vegi, nema menn ætli að láta falsspámanninn Karl Marx ganga hér aftur ljósum logum endalaust:

"Gamalgróin er andstaðan gegn sjálfstætt starfandi heilbrigðisþjónustu, lækningastofum og stöðvum utan sjúkrahúsa.  Þangað hefur fólk í áratugi sótt þjónustu að eigin vali og greitt með tryggingum sínum og eigin fé. 

Staðnaðir sósíalistar og aðrir ofstjórnarsinnar amast við flestu, sem ekki er ríkisrekið, og hafa talað um "tvöfalda heilbrigðisþjónustu", eins og sjálfstæður rekstur eigi ekki tilverurétt. 

BSRB hefur sent frá sér ótrúlega ályktun varðandi Klínikina.  Telja frekari einkavæðingu í andstöðu við meirihluta þjóðarinnar.  Telja það ranga leið að reyna að stytta biðlista með því að greiða fyrirtækjum reknum í hagnaðarskyni.  Sjúklingar skulu bíða. 

Hér má minnst orða Willy Brandts: "Sá, sem ekki er sósíalisti um tvítugt, er hjartalaus.  Sé hann það enn um fertugt, er hann heilalaus."

Sú staðreynd, að fjármagnseigendur eiga hlut í húsnæðinu, sem um ræðir, vekur ýmsum ugg, öðrum ofnæmi.  En hefur það forgang framfyrir þarfir sjúklinga ?  Gera má samning þannig, að hagnaður eigenda , ef verður, renni að mestu til að styrkja reksturinn."

Mótmæli stéttarfélaga við tilraun til fjölbreytilegri rekstrarforma koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum, og eru eitt af því, sem er "heilalaust" við þessa marxistísku andstöðu með skírskotun til Willys Brandt.  Einokun í atvinnugrein leiðir aldrei til betri kjara starfsfólksins, nema síður sé.  Hér eru verkalýðsrekendur að hnýta félagsmönnum sínum nútíma vistarbönd. 

Fyrrverandi Landlæknir, Ólafur Ólafsson, hefur lengi steininn klappað, og hér að neðan fer hann með öfugmæli.  Sjúklingar, sem beðið hafa mánuðum saman, jafnvel meira en eitt ár, eftir aðgerð, sárþjakaðir og óvinnufærir, finna á eigin skinni, að það er marxistísk mantra, að "opinber rekstur tryggi gæði og jöfnuð í heilbrigðiskerfinu".  Miklu nær er að fullyrða, að blandaður rekstur, sem veitir kost á samanburði á milli mismunandi vinnustaða, virki hvetjandi til að bæta stöðugt gæði þjónustunnar.  Um jöfnuð þarf vart að fjölyrða í þessu sambandi, því að greiðslur sjúklinga verða hinar sömu, en skattborgararnir borga minna. 

Ingólfur S. Sveinsson, læknir, lýkur ágætri grein sinni með eftirfarandi hætti:

"Ýmsir kunna að taka undir orð Ólafs Ólafssonar, fv. landlæknis (Læknabl. 2/2017): "Opinber rekstur tryggir gæði og jöfnuð í heilbrigðiskerfinu".  Aðrir efast.  Barnatrú á sósíalisma er fögur í fjarlægð.  En við eigum nýja reynslu af ríkissósíalisma í framkvæmd og og eigum hins vegar fyrirmyndir úr okkar eigin sögu. 

Fyrir utan að eiga gott starfsfólk eru Sjúkratryggingarnar, skyldutryggingar í okkar eigu - ekki ríkisins - það dýrmætasta í heilbrigðisþjónustunni.  Ríkisrekstur heilbrigðisstofnana býður upp á vanrækslu.  Ég tek því undir orð Ólafs, fv. landlæknis, með fyrirvara.  Opinber rekstur tryggir gæði og jöfnuð í heilbrigðiskerfinu - að því gefnu, að neytendur kerfisins, sjúklingarnir, hafi valfrelsi um þjónustuna og að kerfið - þjónustukerfið sjálft njóti þess öryggis og aðhalds að hafa virka samkeppni utan frá  [undirstrikanir eru frá BJo]". 

Það er fjarri blekbónda að halda því fram, að allt, sem Karl Marx setti fram á sinni tíð, hafi reynzt vera vitleysa.  Kjarni kenninga hans er, að auðstéttina skipi ekki verðmætaskaparar, heldur rentusækjendur, þ.e. fólk, sem hefur lag á að eigna sér verk annarra og kynna þau sem sín eigin.  Þetta þekkist í öllum samfélögum, og kommúnismi læknar ekki þetta mein.  Það hefur sýnt sig, þar sem kommúnistar hafa náð völdunum.

Hins vegar var Marx blindur á mikilvægi framtaksmannsins, sem skapar verðmæti úr engu.  Marx horfði framhjá hlutverki stjórnenda við að bæta framleiðnina.  Sé t.d. horft á brezkt athafnalíf, fæst staðfest, að mikil rentusækni á sér þar stað [The Economist 13. maí 2017-"The Marxist moment"].  Árið 1980 þénuðu forstjórar 100 stærstu skráðu fyrirtækjanna 25 falt það, sem dæmigerður starfsmaður þeirra þénaði.  Árið 2016 var þetta hlutfall orðið 130. 

Þetta er alger óhæfa, og það er gæfa Íslendinga, að á Íslandi er mestur jöfnuður innan OECD, eins og hann er alþjóðlega mældur á kvarða GINI.  Árið 2014 var jafnvel svo mikill jöfnuður launa, að hagfræðingum OECD þótti nóg um og gerðu þá athugasemd, að of mikill jöfnuður væri skaðlegur samkeppnishæfni landsins, því að hæfileikafólk leitaði þá á önnur mið.  Þetta heitir atgervisflótti þangað, sem jöfnuður er minni. 

Síðan 2014 hafa orðið stakkaskipti á vinnumarkaði, atvinnuþátttaka er hér í hæstu hæðum, kjarasamningar hafa verið gerðir um u.þ.b. 30 % launahækkun á 3-4 árum og ISK hefur hækkað um ein 50 % á tímabilinu.  Boginn er reyndar of hátt spenntur, og nú er svo komið, að læknar og hjúkrunarfræðingar hafa þriðjungi hærri fastalaun og helmingi hærri heildarlaun en kollegar þeirra á hinum Norðurlöndunum.  Hvernig mundi Karl Marx greina þá stöðu, væri hann á dögum ?  Á þeim bullustömpunum, sem hérlendis trúa á hann, er lítið að græða í þeim efnum og öðrum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Góð hugsun kollege Bjarni.

Þetta væri hnitmiðaðra ef það væri redigerað af leiðindagaurum úr blaðamannastétt. Þó vitlausir séu þá vita þeir stundum eitthvað um hvað meðalskussinn þolir sem lesandi. Það verður að hafa hlutina einfalda fyrir venjulega þýska idjótinn sagði maður sem hét Adolf að fornafni og var sérstaklega skarpur í áróðurstækni og fjölmiðlun sem hann kom til skila á fjöldafundum þar sem þúsundir mættu og æptu af hrifningu þegar þeir urðu upptendraðir af baráttuandanum sem er víst að verða útdauður hjá mannkyninu utan ISIS og ISLAM . KISS er bandarískt heilræði til skríbenta sem þú kannt áreiðanlega kollega Bjarni.

Halldór Jónsson, 26.5.2017 kl. 03:43

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir innlitið, kollega Halldór.

Eric Hübner hét maður og starfaði um árabil í Straumsvík.  Hann var í hópi þýzkra æskumanna, sem hrifust af ræðumennsku téðs Adolfs, og er fátt við það að athuga í ljósi aðstæðna í Weimar-lýðveldinu og í ljósi þeirra umskipta, sem urðu í Þýzkalandi við valdatöku flokks AH í lok janúar 1933, að afloknum kosningum. Svo fór auðvitað allt í handaskolum, og hafa Tevtónar aldrei haft verri stjórnanda.  Téðum EH áskotnuðust upptökur af frægustu ræðum AH, og Eric kvaðst ekkert botna í sjálfum sér fyrir að hafa hrifizt með, því að sundurlausari slagorðaflaum og orðaglamur hefði hann aldrei heyrt. 

Mér hefur aldrei dottið til hugar að fá einhvern til að gerilsneyða bloggið.  Ef persónulegur stíll á ekki að fá að njóta sín, þá verður bloggið algerlega safalaust. 

"Keep it simple, stupid" er gott að hafa á bak við eyrað.  Ég trúi vart, að nokkrum þyki textinn hér að ofan vera flókinn, en hann er nokkuð langur, og hann er það m.a. vegna tilvitnana, sem ég tel við hæfi að hafa með fyrir kröfuharða og fróðleiksfúsa lesendur. 

Með góðri kveðju /  

Bjarni Jónsson, 26.5.2017 kl. 21:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband