Af laxalús og öðru fári

Sitt sýnist hverjum um vöxt og viðgang laxeldis hér við land.  Hin hagrænu og byggðarlegu áhrif af fiskeldinu hafa verið góð undanfarin ár, en umhverfisleg áhætta þessa rekstrar fer vaxandi með auknu laxeldi, og fyrir eru í eldisfjörðunum atvinnugreinar, sem gætu beðið tjón af sambýlinu.  Þó að þær sumar hverjar hafi minna efnahagslegt vægi, eiga þær þó ekki minni tilverurétt en fiskeldið.

  Hlutverk yfirvalda er að finna út, með hvaða hætti þessi "nýja" og vaxandi grein getur aðlagað sig íslenzkum aðstæðum, þannig að mengun frá henni valdi engu tjóni á íslenzku lífríki og geri hefðbundnum greinum ekki erfiðara um vik við markaðssetningu á "hreinum náttúruafurðum" sínum.  Tól yfirvalda til að sinna þessu mikilvæga hlutverki eru rannsóknir.  Það þarf t.d. miklar viðbótar rannsóknir á lífríki eldisfjarðanna.  Þar til þeim rannsóknum er lokið, ætti ekki að leyfa sýklalyfjagjöf eða eitrun fyrir lús í opnum eldiskerum.  Það er ekki nóg að benda á lítinn styrk eiturefna, ef óvissa ríkir um hættumörkin fyrir viðkomandi lífríki, hvort sem það eru þorskaseiði, rækja, skeljar og flær í flæðarmálinu eða annað.

Þann 9. maí 2017 birtist fróðleg grein í Fréttablaðinu,

"Umræða um fiskeldi",

eftir Soffíu Karen Magnúsdóttur, fagsviðsstjóra hjá Matvælastofnun, MAST.  Nú verður vitnað í hana og lagt út af henni:

"Til að draga úr líkum á sleppingum er verið að innleiða auknar kröfur um búnað, og skal hann standast kröfur staðals, sem notazt er við í Noregi og hefur dregið þar úr fjölda fiska, sem sleppa úr kvíum."

Hér skortir sárlega tölulegar upplýsingar um strok laxfiska úr opnum eldiskvíum nýrrar gerðar í Noregi og á Íslandi.  Tölfræðileg stroklíkindi út frá rekstrarreynslu eru grundvallargögn, þegar meta skal, hversu marga fiska má ala samtímis í einum firði.  Stroklíkindi, sem blekbóndi gat lesið út úr upplýsingum frá Noregi eftir innleiðingu NS 9415, voru 20 ppm á ári, en í ljósi fárra göngulaxa í fjörðum, þar sem fiskeldi er leyft á Íslandi, eru þessi líkindi jafnvel of há til að koma í veg fyrir merkjanlega erfðablöndun norska eldislaxins og íslenzkra, villtra laxastofna.  Laxeldi hérlendis þyrfti að geta sýnt fram á, að aðeins um 1 ppm af eldislaxinum komist að líkindum upp í ár árlega að meðaltali, svo að hættan á erfðablöndun verði viðunandi lítil.   

"Þá skal sýna fram á, að búnaðurinn standist kröfur, og þarf rekstraraðili skírteini frá faggiltri skoðunarstofu, sem staðfestir, að búnaðurinn sé öruggur og standist m.a. strauma og ölduhæð á eldissvæðinu.  Eldri búnaður er á útleið, en í kvíum, sem ekki standast nýjar kröfur, er alinn regnbogasilungur.  Sleppingar síðustu mánaða má rekja til slíkra kvía, sem verður skipt um með vottuðum búnaði.  Slysasleppingar geta þó átt sér stað, en þær þarf að fyrirbyggja eftir beztu getu og bregðast við á viðeigandi hátt, ef slys verða."

Af þessu er ljóst, að traustustu eldiskvíar, sem nú eru í venjulegum rekstri í Noregi og víðar, eru notaðar hér, og það er villandi málflutningur hjá andstæðingum laxeldis í núverandi mynd við Íslandsstrendur, að opnu sjókvíarnar fyrir norska laxinn séu úreltur búnaður.  Þá er verið að rugla venjulegum rekstri saman við tilraunarekstur í lokuðum eldiskvíum úti fyrir strönd.  Síðan er laxeldi í þróm á landi allt önnur Ella, og það tíðkast hvergi í miklum mæli, hvað sem verður. 

Síðan fjallar Soffía Karen um "stöðu fisksjúkdóma":

"Sjúkdómastaða í fiskeldi á Íslandi er ein sú bezta í heiminum, og engin sýklalyf eru notuð í sjókvíaeldi hér, andstætt fullyrðingum um annað.  Þá er tíðræddur misskilningur um, að í fiskeldi á Íslandi ríki lúsafár, sem villtum laxastofnum stafi hætta af.  Staðreyndin er sú, að laxalús hefur aldrei valdið vandræðum í íslenzku sjókvíaeldi.  Ástæðan er lágur sjávarhiti yfir vetrartímann, en laxalús berst með villtum fiski í kvíar að vori, og þar nær hún að fjölga sér lítillega fram á haust.  Með vetri lækkar sjávarhiti, og lúsin hverfur úr kvíunum.  Þegar laxaseiði ganga til sjávar að vori, er því lítið eða ekkert um lús í eldiskvíum.  Í vetur var sjávarhiti þó heldur hærri en vanalega, sem er laxalús hagstætt.  Það sýnir mikilvægi þess að vaka yfir breyttum aðstæðum, en "lúsafár" hefur verið óþekkt í íslenzku eldi."

Það er vafalaust rétt hjá Soffíu Karen, að eldisfiskar við Íslandsstrendur hafi verið hraustastir eldisfiska og ekki þurft á sýklalyfjum að halda.  Það er ástæða til að láta kné fylgja kviði og banna alla sýklalyfjagjöf án þarfagreiningar læknis fiskisjúkdóma á MAST, sem ekki megi heimila slíkt, nema vissa sé fyrir, að lífríki viðkomandi fjarðar eða strandlengju stafi engin hætta af í bráð og lengd.  Slíkt bann mun vafalítið takmarka eldisþéttleikann, þ.e. meðaleldisfiskafjölda á flatareiningu á ári.

Svo virðist sem fullyrðing Soffíu Karenar um, að "laxalús hafi aldrei valdið vandræðum í íslenzku sjókvíaeldi" sé ekki lengur rétt, því að Arnarlax mun hafa sótt um leyfi til MAST veturinn 2017 og fengið leyfi til að beita lúsaeitri í Arnarfirði.  Stafar þetta af hærra sjávarhitastigi haustið 2016 og veturinn eftir um 2°C-3°C, sem er býsna mikið og skipti sköpum fyrir lúsina í kvíunum, svo að hún lifði af og náði að fjölga sér.  Hvort gönguseiðum í vor stafar einhver hætta af þessu, er allt önnur saga, en þetta dæmi sýnir, að hlýnandi veðurfar og sjór er að fjarlægja þá náttúrulegu vörn, sem hér hefur verið gegn laxalús. 

Færeyingar o.fl. nota hrognkelsaseiði til að kroppa lúsina af laxinum og hérlendis sjá menn nú fram á að þurfa að beita sömu ráðum til að forðast lúsaeitrið, sem ekki ætti að heimila hér fyrr en að loknum ítarlegum rannsóknum á lífríkinu.  Agnar Steinarsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, sagði í viðtali við Morgunblaðið 5. maí 2017:

"Það er lús í hafinu, og þar hefur alltaf verið lús; það er bara eðlilegur hluti af fánunni.  Lúsin er ekki orðin vandamál hér við land, en ég veit til þess, að menn í sjókvíaeldi fyrir vestan ætla að taka hrognkelsaseiði í haust.  Þeir vilja hafa vaðið fyrir neðan sig og hyggjast prófa sig áfram til að læra á þetta. 

Ef sjórinn heldur áfram að hlýna og vetur mildir, samhliða auknu laxeldi, þá eiga sumir von á því, að lúsin geti náð sér á strik hérna.  Þegar hitastig er komið niður í 2°C-3°C, vex lúsin hins vegar ekki og fjölgar sér ekki, og kuldinn er því náttúruleg vörn gegn lúsinni."

Andstæðingar laxeldis við Íslandsstrendur hafa þyrlað upp miklu moldviðri út af meintu lúsafári hér.  Þar fara fremstir í flokki veiðiréttareigendur villtra laxastofna í íslenzkum ám.  Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga, skrifaði þann 18. maí 2017 grein í þessum anda í Fréttablaðið undir fyrirsögninni:

"Leynir MAST upplýsingum um lúsasmit ?"

Þarna er strax dylgjað um, að hér kunni að geisa lúsafár og að MAST hylmi yfir glæpinn með eldisfélögunum.  Þessi málflutningur er ósæmilegur, og gerir þennan hagsmunahóp ótrúverðugan.  Greinin hófst þannig:

"Í desember síðast liðnum óskaði Landssamband veiðifélaga (LV) eftir því við Matvælastofnun (MAST) að fá afrit af öllum eftirlitsskýrslum frá sjókvíaeldi, sem stofnunin hefði undir höndum.  Beiðninni var hafnað á grundvelli þess, að hún væri of víðtæk. 

Auðvitað var ástæða beiðninnar, að LV hefur ekki fullt traust á þeim takmörkuðu upplýsingum, sem MAST veitir um umrædda starfsemi.  Hins vegar eru hagsmunir LV af því að fá afrit af upplýsingum miklir, þar sem fjallað er um áform fyrirtækja um að auka sjókvíaeldi á frjóum norskum laxi upp í 200 kt í öllum fjörðum, þar sem slíkt eldi er heimilt."

Eftirlitsskýrslur opinberra aðila eru yfirleitt ekki opinber gögn, heldur einkamál eftirlitsaðila og viðkomandi fyrirtækis.  Það er ekki fyrr en úrbótaóskum er hafnað eða þær hunzaðar, sem hagsmunir þriðja aðila kunna að vakna, t.d. neytenda eða samkeppnisaðila.  Höfnun MAST virðist þess vegna hafa verið réttmæt í þessu tilviki. 

Það er órökstutt í grein Jóns Helga, hvers vegna LV treystir ekki núverandi upplýsingagjöf frá MAST.  Að blanda eftirlitsskýrslum við áform og umsagnir um framtíðar uppbyggingu laxeldis í íslenzkum fjörðum virðist heldur ekki eiga við rök að styðjast, enda eru ár og dagur þar til eldið nær nefndum hæðum. 

Einar K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva, ritaði grein í Fréttablaðið á þjóðhátíðardegi Norðmanna, 17. maí 2017, og tætti þar í sundur rökleysur og innihaldslausar fullyrðingar Orra Vigfússonar, sem hann kynnir sem formann NASF og svarinn andstæðing laxeldis.  Greinin hefur fyrirsögnina,

"Fiskeldi á öruggri framabraut":

Hann hrekur fullyrðingu Orra um mengun frá laxeldisstöðvum með eftirfarandi upplýsingum frá norsku Fiskistofunni:

"Árleg umhverfisvöktun Fiskistofu Noregs undir og umhverfis eldiskvíar árið 2016 staðfestir góða þróun fyrri ára.  Ríflega 90 % staðsetninga er með gott eða mjög gott ástand bæði undir og umhverfis eldiskvíarnar."

Við þetta er að athuga, að fyrir íslenzkar aðstæður þurfum við vottun frá Umhverfisstofnun (UST) um 100 % staðssetninga með gott eða mjög gott ástand undir og umhverfis eldiskvíarnar á meðan eldið er lítið að umfangi.  Vonandi er UST í stakk búin til að upplýsa um þessa hlutfallstölu á Íslandi, svo og hlutfall norskra laxa, sem komast upp í íslenzkar ár á hverju ári.  Að halda áfram á braut laxeldis án þekkingar á þessum stærðum er eins og að feta einstigi með bundið fyrir bæði augu. 

Ein af töfralausnum fulltrúa veiðiréttarhafa villtra laxfiska á Íslandi er að gelda fiskinn, og jafnvel er látið í veðri vaka, að sú sé að verða meginreglan í laxeldi annars staðar.  Það er ósatt.  Soffía Karen skrifar:

"Fisk má gelda með breytingum á erfðamengi, eða með því að setja hrogn undir mikinn þrýsting.  Fiskur úr þeim hrognum verður ófrjór og getur ekki blandazt við villta laxastofna.  Gallinn við geldan lax er, að hann þarf sérhæft og dýrt fóður til að bein þroskist eðlilega, afföll aukast og vansköpunartíðni getur verið há.  Auk þess er hætt við, að viðbrögð markaða við vörunni verði neikvæð.  Ræktun á geldfiski gaf þó nýlega góða raun í köldum sjó í Noregi, sem gaf tilefni til tilraunar með geldfisk við strendur Íslands.  Verður hún framkvæmd af Stofnfiski, Háskólanum á Hólum, Landssambandi fiskeldisstöðva, Hafrannsóknarstofnun og Arctic Sea Farm.  Tíminn leiðir því í ljós, hvort þetta sé raunhæfur möguleiki í fiskeldi hér." 

Eins og sjá má á þessari frásögn, fer því víðs fjarri, að þessi eldisaðferð sé tæknilega tilbúin fyrir eldisfyrirtækin að taka upp í venjulegan rekstur sinn.  Aðferðin er dýr og óeðlileg, og erfðabreytt matvæli eiga ekki upp á pallborðið í Evrópu.  Þessi aðferð gæti kallað fram harðvítug mótmæli og jafnvel markaðshindranir að hálfu samtaka um heilnæm matvæli og dýravernd.  Þetta eru of mikil inngrip í náttúruna fyrir smekk margra neytenda nú á tímum.  Líklega er þessi aðferð dauðadæmd. 

Laxeldi við Ísland er lítið að umfangi saman borið við laxeldi nágrannalandanna og áætlað "burðarþol" þeirra fjarða, þar sem fiskeldi er leyfilegt samkvæmt núgildandi lögum.  Ætli hafi ekki verið slátrað um 10 kt af eldislaxi árið 2016, 80 kt í Færeyjum og 160 kt í Skotlandi ?  Blekbónda segir svo hugur um, að frekari rannsóknir og þekking á laxeldinu muni lækka burðarþolsáætlun umtalsvert niður fyrir 200 kt/ár, þannig að í mesta lagi verði slátrað hérlendis 100 kt/ár af eldislaxi í framtíðinni. Líklegt vaxtarskeið úr 10 kt/ár sláturmassa í 100 kt/ár eru 20 ár, og á þeim tíma gefst nægur tími til rannsókna, ef yfirvöld bregðast snöfurmannlega við. 

Það er önnur hlið á þessu máli, sem krefst skjótra aðgerða að hálfu yfirvalda, og það er gjaldtaka fyrir afnot náttúruauðlindar við ströndina.  Fyrst þarf að leggja mat á verðmæti náttúruauðlindarinnar sjálfrar, og síðan að leggja á auðlindagjaldið.  Blekbóndi hefur sýnt á þessu vefsetri, hvernig nálgast má þetta viðfangsefni fyrir allar náttúruauðlindir landsins.  Það er höfuðatriði, að allir þeir, sem aðstöðu hafa fengið til að skapa verðmæti úr náttúrunni á landi eða hafsvæði, sem þeir eiga ekki sjálfir, borgi samræmt auðlindagjald. 

Hluta af auðlindagjaldinu, sem innheimt verður af fiskeldisfyrirtækjunum, ætti að nota til að fjármagna þær rannsóknir og eftirlit, sem nauðsynlegar eru vegna fiskeldisins og gerðar hafa verið að umfjöllunarefni hér. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband