Bretland byrjar illa

Forsætisráðherra Breta, Theresa May, tók þarflitla ákvörðun í apríl um þingkosningar 8. júní 2017 , þótt kjörtímabilið þyrfti ekki að enda fyrr en 2020, þ.e. að afloknum skilnaði Bretlands við Evrópusambandið, ESB.  Virtist hún þá treysta því, að mælingar í skoðanakönnun héldust og skiluðu sér í kjörkassana 7 vikum síðar.  Það er af, sem áður var, að brezki forsætisráðherrann geti tekið andstæðinginn í bólinu og boðað til kosninga með þriggja vikna fyrirvara.  Þessi mismunur á lengd kosningabaráttu reyndist Theresu May afdrifaríkur, og fyrsti ráðherra Skotlands og flokkur hennar beið reyndar afhroð.  Þar með er búinn draumur Nicola Sturgeon um nýtt þjóðaratkvæði um aðskilnað Skotlands frá Englandi, Wales og Norður-Írlandi.

May hafði við valdatöku sína haustið 2016 að afloknu formannskjöri í brezka Íhaldsflokkinum í kjölfar BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðslunnar í júní sagt, að næstu þingkosningar yrðu 2020.  Íhaldsflokkurinn hafði 5 sæta meirihluta á þingi, og hún hefur væntanlega verið spurð að því í heimsókn sinni til Berlínar og víðar í vetur, hvort hún gæti tryggt samþykki þingsins á útgöngusamningi með svo tæpan meirihluta, enda voru það meginrök hennar fyrir ákvörðun um flýtingu kosninga, að "Westminster" væri regandi, en þjóðin ákveðin í að fara úr ESB.  Hún vildi "hard Brexit", sem þýðir alskilnað við stofnanir ESB og ekki aðild að Innri markaðinum um EFTA og EES, heldur skyldi Bretland gera tvíhliða viðskiptasamning við ESB og öll ríki, sem gæfu kost á slíku.  Bretland yrði ekki innan "Festung Europa" - varnarvirkis Evrópu, sem er þýzkt hugtak úr Heimsstyrjöldinni síðari.

Theresa May hafði sem ráðherra hjá Cameron stutt veru Bretlands í ESB.  Þegar úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um aðildina urðu ljós, sneri hún við blaðinu og tók upp harða afstöðu gegn ESB og fór fram undir þeim merkjum í formannskjörinu.  Kosningaklækir áttu líklega þar þátt, því að öllum var ljóst, að dagar brezka Sjálfstæðisflokksins, UKIP, voru taldir, um leið og Bretland tók stefnuna út úr ESB.  Hún ætlaði að hremma atkvæðin, en krókur kom á móti bragði frá "gamla kommanum" Corbyn.  Hann sneri við stefnu Verkamannaflokksins um, að Bretar skyldu halda áfram í ESB, og studdi úrsögnina á þinginu og í kosningabaráttunni.  Við þetta gátu stuðningsmenn UKIP, sem flestir komu reyndar frá Verkamannaflokkinum, snúið aftur til föðurhúsanna.  

Það var einmitt þetta, sem gerðist, því að flest kjördæmin, þar sem mjótt var á munum á milli stóru flokkanna tveggja, féllu Verkamannaflokkinum í skaut, Íhaldsmönnum til furðu og sárra vonbrigða.  Þannig varð Verkamannaflokkur Jeremy Corbyns sigurvegari kosninganna með um 40 % atkvæða, jók fylgi sitt um ein 10 % og þingmannafjölda um 33 eða rúmlega 14 %.  Kosningarnar reistu formann Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, úr öskustó, pólitískt séð, og það verður ómögulegt fyrir Theresu May að kveða hann í kútinn.  Hann er einfaldlega meiri baráttumaður en hún og naut sín vel í kosningabaráttunni, en hún gerði hver mistökin á fætur öðrum.  Theresa May særðist til stjórnmálalegs ólífis í þessari kosningabaráttu, ástæða er til að draga dómgreind hennar í efa, hún er lélegur leiðtogi í kosningabaráttu og hvorki sterk né stöðug, eins og hún hamraði þó stöðugt á.  

Íhaldsflokkurinn fékk þó meira fylgi kjósenda en hann hefur fengið í háa herrans tíð eða 42,4 %, sem er fylgisaukning um rúmlega 5 % frá síðustu þingkosningum.  Þrátt fyrir það mun Theresa May að líkindum verða sett af innan tíðar, því að hún lét kosningarnar snúast um sig að miklu leyti, tapaði 12 þingmönnum og glutraði niður 5 sæta þingmeirihluta.  Hún þykir ekki á vetur setjandi sem leiðtogi, og menn vilja alls ekki fara í nýjar þingkosningar undir forystu hennar.  Það þykja vera alvarlegar eyður í þekkingu hennar, t.d. um efnahagsmál, og hún hefur ekki haft lag á að fylla í eyður verðleikanna með réttu vali á ráðgjöfum, heldur setur hún í kringum sig fámennan hóp ráðgjafa, sem er með sömu annmarkana og hún sjálf.  Nú hefur hún fórnað tveimur aðalráðgjöfunum, en það mun hrökkva skammt.  Líklegt er, að minnihlutastjórn hennar verði skammlíf og að boðað verði til kosninga aftur síðar á þessu ári.  Þá verður einhver annar í brúnni hjá Íhaldsflokkinum, en það er óvíst, að það dugi.  Vindar blása nú með Verkamannaflokkinum, sem fer að láta sníða rauð gluggatjöld fyrir Downing stræti 10.  Yngstu kjósendurnir eru Corbyn hlynntir, eins og hinum hálfáttræða Sanders í BNA, og þeir hafa aftur fengið nægan áhuga á pólitík til að fara á kjörstað.  

"It is the economy, stupid", var einu sinni sagt sem svar við spurningunni um, hvað réði helzt gjörðum kjósenda í kjörklefanum.  Í því ljósi var ekki óeðlilegt, að Verkamannaflokkurinn ynni sigur, því að hagur Breta hefur versnað mikið frá fjármálakreppunni 2007-2008 og kaupmáttur hjá mörgum lækkað um 10 % að raunvirði síðan þá vegna lítilla nafnlaunahækkana, verðlagshækkana og mikils gengisfalls sterlingspundsins.  Að flýta kosningum að þarflitlu við slíkar aðstæður ber vott um lélegt jarðsamband.  

Núverandi staða á Bretlandi er hörmuleg m.t.t. þess, að brezka ríkisstjórnin þarf á næstu dögum að hefja mjög erfiðar viðræður við meginlandsríkin undir hjálmi ESB um útgöngu úr þeim félagsskapi. Samninganefnd ESB sezt þá niður með Bretum, sem vinna fyrir ríkisstjórn flokks, sem tapaði meirihluta sínum í nýafstöðnum kosningum.  Theresu May mistókst að styrkja stöðu sína og er nú augljóslega veikur leiðtogi, sem ekki getur tryggt samþykki þingsins á útgöngusamningi sínum.  Staða brezku samninganefndarinnar er veikari fyrir vikið, og af þessum ástæðum verður May að taka pokann sinn og hreint umboð að koma frá þjóðinni nýrri ríkisstjórn til handa. 

Liggur við, að þörf sé á þjóðstjórn nú í London til að styrkja stöðuna út á við.  Þessar viðræður verða stríð að nútímahætti, enda tekizt á um framtíðarskipan Evrópu, sem hæglega geta endað án nokkurs samnings.  Nú er ekki lengur sterkur foringi í stafni hjá Bretum, eins og 1939, þegar staðfastur dagdrykkjumaður (að mati púrítana) og stórreykingamaður var settur í stafn þjóðarskútunnar, sem á tímabili ein atti kappi við meginlandsríkin, sem þá lutu forræði grænmetisætunnar og bindindismannsins  alræmda í Berlín.  Bretar unnu sigur í þeim hildarleik.  Þessi lota getur orðið lengri en lota misheppnaða málarans frá Linz. Sennilega munu Bretar einnig hafa betur í þessari viðureign, þegar upp verður staðið, þó að það muni ekki koma strax í ljós.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Bráðskemmtilega skrifuð grein, Bjarni, þótt hitt beri náttúrlega hæst, hve krufning þín á málunum er skörp og hlífðarlaus.

En sástu nokkuð annan, margfalt styttri pistil um þessi mál, sem birtist hér á Moggabloggi og einnig getur kitlað hláturvöðvana? Hér er hann:

Flottur leiðtogi, Theresa May. = http://nautabaninn.blog.is/blog/nautabaninn/entry/2197500/

PS. Ein ásláttarvilla má ekki sleppa: "að taka pokann sig" í lok næstsíðustu klausu.

Með þakklæti,

Jón Valur Jensson, 12.6.2017 kl. 15:36

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jón Valur;

Þakka þér kærlega fyrir að líta á vefgreinina með argusaraugum og láta mig vita um villuna, sem fór framhjá mér við yfirlestur.  Ég get ekki að því gert, að ég horfi á afstöðu Breta í sögulegu ljósi.  Þeir eru á tímamótum núna, eins og tvisvar á síðustu öld gagnvart Evrópu.  1914 tóku þeir ákvörðun um að berjast með Frökkum gegn Þjóðverjum, sem var engan veginn sjálfgefin ákvörðun og kom flatt upp á Þjóðverja.  Í þýzkum hernaðaráætlunum var ekki reiknað með þátttöku Breta í bardögum í Frakklandi, enda höfðu Bretar látið innrás Prússa í Frakkland 1870 afskiptalausa.  Það, sem breytti afstöðu Breta, var sameining Þýzkalands 1871.  Landið var þegar orðin ógn við veldi Breta á sjó, og Bretar töldu það ekki mega verða öflugra.  Sama sagan endurtók sig 3. september 1939, þegar Bretland sagði Þýzkalandi stríð á hendur.  Nú vilja Bretar ekki vera lengur undir Ægishjálmi Þýzkalands í ESB, þar sem Þjóðverjar verða valdameiri með hverju árinu, og Bretar að sama skapi valdaminni.  Við munum fá tvær blokkir í Evrópu, og mun önnur lúta forystu Breta og hin Þjóðverja.  Íslendingar vilja eiga og geta átt góð viðskiptaleg, menningarleg og stjórnmálaleg tengsl við báðar. 

Ég hafði ekki séð téðan örpistil og kann ekki að meta hann.  

Með góðri kveðju / 

Bjarni Jónsson, 12.6.2017 kl. 18:58

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góð og fróðleg svör frá þér, sem þín var von og vísa. smile

Jón Valur Jensson, 12.6.2017 kl. 20:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband