Leiðindafénaður

Engum heilvita manni þarf að koma á óvart, að Umboðsmaður Alþingis skyldi komast að þeirri niðurstöðu í vikunni eftir stjórnarslit í geðshræringu á heimili Óttars Proppés, formanns flokksnefnunnar BF og svo kallaðs heilbrigðisráðherra, að embættisfærsla ráðherranna Sigríðar Andersen, dómsmálaráðherra, og Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, væri óaðfinnanleg í hinu alræmda máli um meðmælabréf föður forsætisráðherra sem vinnuveitanda dæmds afbrotamanns af verra taginu.

Þar með er kominn úrskurður óvilhalls og þar tilbærs aðila í þjóðfélaginu um, að upphlaup Óttars Proppés og félaga í stjórn BF á heimili hans eftir netkönnun aðfararnótt 15. september 2017, sem endaði með yfirlýsingu þessarar flokksnefnu um stjórnarslit, var algerlega úr lausu lofti gripið.  Nú verða þau sjálf að svara því í kosningabaráttunni, hvort málið var tylliástæða til að losna úr stjórnarsamstarfi, eða hvort um var að ræða hreina ímyndun um málsatvik.  Hvort tveggja vitnar um fullkomið dómgreindarleysi, og tvískinnungur téðs Óttars Proppés virðist ekki ríða  við einteyming, þegar haft er í huga, að skömmu fyrir fundinn töluðust þeir við í síma, forsætisráðherrann og heilbrigðisráðherrann, og þá minntist sá síðar nefndi ekki á það einu orði, að hann eða flokksmenn hans hefðu áhyggjur af "trúnaðarbresti".  Öll er framkoma téðs Proppés í þessu stjórnarslitamáli svo ómerkileg, að engu tali tekur.    

Þessi stjórnarslit eiga eftir að verða þjóðinni dýr.  Sighraði ISK jókst og föstudaginn 16. september 2017 hafði markaðsvirði fyrirtækja lækkað um a.m.k. miaISK 36, og höfðu lífeyrissjóðirnir tapað um þriðjunginum.  M.v. hlutdeild þeirra í atvinnulífinu má reikna með, að tap þeirra hafi orðið enn meira, enda héldu hlutabréf áfram að lækka alla vikuna eftir stjórnarslitin, og samkvæmt forstjóra Kauphallarinnar rýrnaði virði verðbréfa um miaISK 60 á einni viku.  Lífeyrissjóðirnir gætu þar hafa tapað miaISK 25-30 eða allt að 1 % af eignum sínum. 

Ræfildómur formanns BF ætlar að verða þjóðinni dýr.  Ef Seðlabankinn sér sig knúinn til að hækka vextina vegna óvissunnar í stjórnmálunum, mun tap lántakenda geta numið tugum miaISK á einu ári.  Að þurfa að reiða sig á smáflokka með böggum hildar félagslegs vanþroska getur orðið dýrkeypt.  Þetta þurfa kjósendur að hafa í huga, þegar þeir ganga að kjörborðinu 28. október 2017.   

Þá er ótalinn tímabundinn álitshnekkir erlendis af völdum rætinna rógsrotta, sem lugu erlenda fréttamenn fulla af óþverra um stöðu mála í íslenzka þjóðfélaginu.  Fyrir vikið birtust óþverralegar fréttir í erlendum fjölmiðlum um íslenzka þjóðfélagið, stjórnarfarið og dómskerfið.  Óhroðinn hefur verið rakinn til pírata og fréttastofu ríkisútvarpsins, FRÚ, þar sem vinstri slagsíða ber faglega fréttamennsku algerlega ofurliði hvað eftir annað.  Hvers vegna fara þessir slagsíðu-fréttamenn á RÚV ekki sjálfir í framboð í stað þess að misnota aðstöðu sína herfilega til pólitísks áróðurs undir ýmsu yfirskini ?  Þarna eru til góðir og faglegir fréttamenn, en undirmálsmennirnir eru fleiri.  Á báðum stöðum, hjá pírötum og FRÚ, virðist vera sálsýkisleg þörf hjá mönnum til að höggva til samlanda sinna úr launsátri.  Allt er það framferði fyrirlitlegt og raunalega heimskulegt.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Og nú saka þeir Sjálfstæðisflokkinn um að standa ekki við kosningaloforð þegar flokkurnum hefur varla gefist tækifæri til að koma málum sínum í frakvæmd vegna stöugra stjórnaslita og uppþota á þingi yfir móðursýkislegum smámálum.  Nú síðast gáfust átta mánuðir. Það vantar semsagt 40 mánuði uppá að klára kjörtímabilið. Mér er spurn hvort þessum vinstrflokkum varð eittvað annað úr verki en að sprengja ríkistjórnir með tilheyrand tapi fyrir þjóðarbúið.

Helsta stefna vinstriflokka virðist vera að koma í veg fyrir árangur Sjálftæðisflokks og Framsóknarflokks. Í þeirri baráttu skiptir afkoma og öryggi þjóðarinnar engu. Þar er ekkert heilagt. Þeir leggjast meira að segja svo lágt  að hjálpa vogunarsjóðum og erlendum kröfuhöfum til að ná fram stöðugri stjórnarkreppu, upplausn og skaða fyrir þjóðarbúið. Skaða sem í raun gerir það erfitt eða ómögulegt að reka réttlátt velferðarkerfi.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.10.2017 kl. 20:33

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég er hræddur um, að greining þín, Jón Steinar, á hegðun vinstri sinnaðra stjórnmálamanna sé rétt.  Flokkum þeirra má lýsa með einu orði: niðurrifsöfl (fyrir íslenzkt samfélag).  Ástæðan er sú, að hugmyndafræði þeirra er ein rjúkandi rúst.  Þar sem skoðanabræður þeirra komast til valda, fara jafnvel rík samfélög á hliðina á um einum áratugi, sbr Venezúela, sem var ríkasta þjóðfélag S-Ameríku um síðustu aldamót, en nú ríkir þar hungursneyð, og velferðarkerfið er hrunið.  Jafnaðarmenn komu Svíþjóð á kaldan klaka ríkisskulda, stöðnunar og atvinnuleysis á nokkrum áratugum, og um 1990 urðu Svíar undir forystu borgaraflokkanna að herða sultarólina og hafa rétt úr kútnum. Sannað er, að hugmyndafræði sósíalista leiðir alltaf til fátæktar og að lokum til örbirgðar heilla samfélaga, en þar sem hugmyndafræði borgaralegra afla fær að blómstra, vænkast hagur allra þjóðfélagsþegna.  Þess vegna sameinast vinstri menn hérlendis um hatramma andstöðu við sjálfstæðismenn og svífast einskis.  Verða íslenzkir kjósendur að þessu sinni unnvörpum fórnarlömb moldvarpanna ?

Bjarni Jónsson, 2.10.2017 kl. 09:34

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það felst í orðnna hljóðan að alræði öreiganna krefst þess að allir séu öreigar. ;)

Jón Steinar Ragnarsson, 2.10.2017 kl. 09:45

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Er ekki einkaeign glæpur samkvæmt "Das Kapital"-Auðmagni Karls Marx ?  Þar af leiðandi eru allir öreigar, en, eins og í "Animal Farm", eru óvart sumir jafnari en aðrir og skara eld að sinni sköku á kostnað hins vinnandi manns.  "Homo sovieticus" verður ekki til við kúgun ríkisvaldsins, heldur aðeins við erfðafræðilega stökkbreytingu, og hún hefur enn ekki orðið á "homo sapiens". 

Bjarni Jónsson, 2.10.2017 kl. 14:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband