Landsbyggðarskattur

Vinstri hreyfingin grænt framboð er uppruna sínum trú og kýs að vera í stríði við athafnalífið í landinu, ef hún á þess nokkurn kost.  Þess vegna hefur hún boðað hækkun skatta á fyrirtækin í landinu, almennra og sértækra, t.d. verulega hækkun veiðigjalda á sjávarútveginn, sem er sértækasta skattlagning á Íslandi, því að aðrir nýtendur náttúruauðlinda greiða ekki auðlindagjald.  Það er réttlætismál að jafna aðstöðu atvinnugreinana gagnvart skattlagningarvaldinu að þessu leyti. 

Við núverandi aðstæður eru auknar almennar álögur á atvinnulífið hagfræðilegt glapræði, sem leiða mun til efnahagslegrar kollsteypu.  Hækkun auðlindagjalds nú á grein, þar sem engin auðlindarenta er lengur fyrir hendi, jafngildir fólskulegri aðför að viðkomandi fyrirtækjum og setur fjölda starfa í uppnám.  Framlegð (EBITDA) sjávarútvegsins í ár samkvæmt nýrri áætlun Deloitte verður aðeins um 20 % af tekjum hans, en til samanburðar var hún 22,5 % í fyrra og 25,8 % á viðmiðunarári veiðigjalda núverandi fiskveiðiárs, 2015, sem var sjávarútveginum tiltölulega hagfellt. Með aðeins 20 % framlegð, er engin auðlindarenta lengur fyrir hendi, og við þær aðstæður er enginn siðferðilegur grundvöllur fyrir álagningu auðlindagjalds.

Staðan er stórvarasöm í ljósi þess, að líklegt má heita, að vinstri grænir verði stefnumótandi innan næstu ríkisstjórnar, og þeir ganga með böggum hildar, þar sem eru kolröng mynd af raunveruleikanum og bilaður stefnuviti að þjóðhagslega hagkvæmu marki.  Næsta ríkisstjórn gæti orðið undir leiðsögn strandkapteins með biluð siglingatæki. Hættan, sem vofir yfir, er ekki aðallega af völdum loðmullulegrar stefnuskráar, heldur af hinu, að vinstri grænir ætla sér út í alls konar þjóðfélagstilraunir, sem hvergi koma fram í hinni opinberu stefnuskrá og tilgreint verður dæmi um hér á eftir. 

Framundan eru kjarasamningar.  Eftir sögulega einstæða hækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna á 4 ára tímabili, 2014-2017, er nú svo komið á 4. ársfjórðungi 2017, að Sviss er eina Evrópulandið með meiri kaupmátt ráðstöfunartekna en Ísland að meðaltali.  Keppikefli landsmanna á að vera að verja þessa stöðu, og það heimskulegasta, sem menn gera við þessar aðstæður, er að boða skattahækkanir á fólk og fyrirtæki, og þá gera blindingjarnir í VG einmitt það.  Heimskinginn velur alltaf vitlausasta möguleikann, sagði kennari nokkur í MR fyrir hálfri öld við nemanda uppi við töflu. Sá var reyndar jafnan illa lesinn í tímum.  

Við þessar aðstæður boðar Sjálfstæðisflokkurinn skattalækkanir.  Hann vill t.d. lækka neðra þrep tekjuskatts einstaklinga niður í 35 %, og formaður flokksins hefur lýst því yfir, að hann telji eðlilegt að stefna að því, að jaðarskatturinn verði ekki hærri en 35 %, sem þýðir væntanlega eitt tekjuskattsþrep á endanum.  Þessi ráðstöfun auk lækkunar tryggingargjalds mundi að sjálfsögðu verða mjög jákvætt innlegg í kjaraviðræður og bæta horfur á sjálfbærum kjarasamningum, sem ekki mundu ógna atvinnuöryggi og ekki yrðu eldsneyti fyrir verðbólgubál.  Stefna vinstri flokkanna passar engan veginn við raunveruleikann; hún hentar einhverju allt öðru þjóðfélagi, þjóðfélagi villuráfandi og illa lesnum vinstri mönnum.  

Þann 12. október 2017 skrifaði Teitur Björn Einarsson, Alþingismaður, sem nú skipar 3. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi, ötulasti baráttumaður á þingi fyrir hagsmunum Vestfirðinga, sem nú berst tvísýnni baráttu fyrir þingsæti sínu, m.a. við erkiafturhald í atvinnumálum, grein í Morgunblaðið:

"Veiðigjöld eru óréttlátur landsbyggðarskattur":

"Það [ágreiningur stjórnmálaflokka] á t.d við um skatta og sérstaklega þó það, sem viðkemur álögum á atvinnulífið.  Vinstri flokkarnir stefna á að hækka skatta og draga þannig úr athafnasemi fólks [og myndun eigin fjár hjá fólki og fyrirtækjum - innsk. BJo] og þar með þrótt úr allri verðmætasköpun í landinu.  Sjálfstæðisflokkurinn ætlar aftur á móti að lækka skatta og stuðla þannig að sem mestri hagsæld fyrir alla, vegna þess að kröftugt atvinnulíf er forsenda öflugs velferðarsamfélags.  Fyrir okkur öll."

Því hefur verið haldið fram hér á þessu vefsetri, að vinstri grænir séu úlfar í sauðargæru.  Með því er átt við, að komist þeir í aðstöðu til, muni þeir framkvæma róttækari og skaðlegri uppskurð á atvinnulífinu og þar með hagkerfinu en brosmildur formaðurinn lætur í veðri vaka fyrir kosningar og fram kemur í opinberri stefnuskrá flokksins.  Þetta hefur nú einn þingmanna flokksins, Kolbeinn Óttarsson Proppé, staðfest á fundi Ufsa, félags ungs áhugafólks um sjávarútveg, þar sem hann lýsti þeim ásetningi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem hvergi kemur þó fram í stefnuskrá flokksins, að þjóðnýta útgerðirnar.  Þar með er gríma kommúnistanna fallin gagnvart sjávarútveginum.  Þetta mun í framkvæmd setja allt á annan endann í þjóðfélaginu, eyðileggja margra ára þróunar- og markaðsstarf og færa sjávarútveginn í hendur stjórnmálamanna, sem aldrei hafa ráðið við slík verkefni, enda eru þau ekki í þeirra verkahring.  Það eru ekki fullnægjandi viðbrögð vinstri grænna að setja upp smeðjusvip við þessum tíðindum.  Það er nákvæmlega ekkert að marka þá, þegar þeir bregða yfir sig sauðargærunni.  Um þessar aðfarir sagði í leiðara Morgunblaðsins, 16. október 2017:

"ANDLITIÐ SEGIR EKKI ALLT; þegar gríman fellur, blasa hætturnar við":

"Kolbeinn Óttarsson Proppé útskýrði nánar, hvernig markaðslögmálin yrðu aftengd í sjávarútvegi og ráðstjórnarkerfi innleitt: þriðjungur fiskveiðiheimilda skyldi fara á leigumarkað [leiguliðar eru uppáhalds skjólstæðingar VG-innsk. BJo] til ákveðins árafjölda.  Þá skyldi þriðjungur renna í byggðafestukvóta [fyrir stjórnmálamenn að ráðskast með-innsk. BJo], sem væri þó ekki sá byggðakvóti, sem nú væri við lýði [fyrir brothættar byggðir-innsk. BJo].  Loks skyldi þriðjungur fara til útgerða gegn hóflegu gjaldi, þar sem sjávarútvegurinn þyrfti að búa við ákveðinn fyrirsjáanleika.

Augljóst er, að þeir sem tala með þessum hætti hafa engan skilning á rekstri sjávarútvegsfyrirtækja eða fyrirtækja yfirleitt.  Það er vitaskuld enginn fyrirsjáanleiki í því fyrir sjávarútvegsfyrirtæki að halda þriðjungi fiskveiðiheimilda.

Það er ástæða fyrir því, að VG felur þessa stefnu sína, en birtir hana ekki í stefnuskránni á heimasíðunni.  Í sjávarútvegsmálum líkt og á öðrum sviðum er huggulega andlitið birt almenningi, en að baki leynist stefna, sem valda mundi uppnámi og efnahagslegu áfalli fyrir þjóðarbúið í heild og landsmenn alla, næði hún fram að ganga."

Nú er komið í ljós, að opinber stefnuskrá VG eru "pótemkíntjöld" til að dylja sýn á þjóðfélagið, sem minnir mest á þjóðfélagssýn Hugos Chavez, sem ásamt arftakanum, strætisvagnabílstjóranum Nicolas Maduro, keyrði auðugasta ríki Suður-Ameríku í fen fátæktar og eymdar "alræðis öreiganna". 

Kjósendur geta með engu móti treyst frambjóðendum VG til Alþingis.  Þeir eru Trójuhestar brenglaðrar þjóðfélagssýnar og heimskulegrar hugmyndafræði, sem þeir vilja beita til að vinna bug á ástandi, sem er ekki fyrir hendi.  Einhver mundi víst segja, að þetta sé kolruglað lið.  

Hin opinbera stefna VG til sjávarútvegsins er að stórhækka veiðigjöld á útgerðirnar.  Sú stefna mun reyndar rústa sjávarútveginum í sinni núverandi mynd, svo að kannski er meiningin að koma honum þannig í þrot, yfirtaka hann síðan með þjóðnýtingu og fara síðan leiðina, sem Kolbeinn Proppé lýsti og tíunduð er hér að ofan.    

Á yfirstandandi fiskveiðiári má búast við tvöföldun veiðigjalda m.v. síðasta fiskveiðiár vegna stórgallaðra reikningsaðferða við álagninguna og brottfalls fjárfestingarafsláttar.  Ef veiðigjöldin ná þannig miaISK 12, munu þau nema um 22 % af áætlaðri framlegð ársins 2017, sem verður allt að miaISK 20 lægri en á viðmiðunarárinu 2015.  Þessi skattheimta er himinhrópandi óréttlát vegna þess, að hlutfall skattgjaldsins af framlegð, EBITDA, jafnast á við hreinræktaða rányrkju, er a.m.k. fjórfalt m.v. fjárhagslega sjálfbær velsæmismörk í þokkalegu árferði, og þetta er í eðli sínu landsbyggðarskattur, sem dregur fjármagn úr sjávarbyggðum hringinn í kringum landið og í ríkissjóð, sem dreifir fénu aðallega til höfuðborgarsvæðisins.  

Ætlar landsbyggðin að draga Trójuhestinn VG, t.d. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur í NV-kjördæmi, sjálfviljug inn fyrir sína "borgarmúra" ?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband