Orkuflutningskerfi í bóndabeygju

Rafmagn úr sjálfbærum orkulindum, hitaveitur frá jarðvarmalindum og hagkvæm nýting sjávarauðlindanna umhverfis Ísland, mynda undirstöðu samkeppnishæfs nútíma samfélags á Íslandi.  Án einhvers þessa væru þjóðartekjur á mann ekki á meðal hinna hæstu í heimi, heldur jafnvel undir miðbiki í Evrópu, orkukostnaður landsmanna væri hundruðum milljarða ISK hærri á ári en nú er, og mengun væri svo miklu meiri, að sjóndeildarhringur væri ekki í meira en 100 km fjarlægð, heldur e.t.v. í 50 km fjarlægð.  Allar þessar 3 náttúruauðlindir skipta þess vegna sköpum fyrir landsmenn í bráð og lengd.

Það er hins vegar ekki nóg að virkja endurnýjanlegar orkulindir og setja þar upp rafala með viðeigandi búnaði, að bora holur eftir heitu vatni og að veiða fiskinn; það verður að koma vörunni til neytandans, svo að allir framleiðsluliðirnir græði, birgirinn, notandinn og hið opinbera.  Þetta er yfirleitt ekki vandamál, en það er þó orðið að meiri háttar þjóðarvandamáli, hversu miklir annmarkar eru af mannavöldum á því að flytja raforkuna frá afhendingarstað virkjunar og til dreifiveitu, sem flytur hana til kaupandans. Ríkisvaldið getur ekki liðið, að eitt ár líði á eftir öðru, án þess að mikilvæg atvinnusvæði fái nægt rafmagn, svo að ekki sé nú minnzt á ófullnægjandi afhendingaröryggi á Vestfjörðum.  Vekur furðu langlundargerð þingmanna í NA-kjördæmi, að þeir skuli ekki hafa lagt fram þingsályktunartillögu um þetta mikla hagsmunamál Eyfirðinga.  

Aðallega stafar þetta af andstöðu íbúa við loftlínulögn í sjónmáli úr hlaðvarpanum.  Stundum finnst þeim, að þeir njóti ekki ávinnings af línunni til samræmis við óþægindi og "sjónmengun", sem þeir telja sér trú um, að  stafa muni af nýrri loftlínu, jafnvel þótt sú gamla hverfi.  

Landsnet (LN) þarf í slíkum tilvikum að koma til móts við íbúana og sýna þeim fram á, að fyrirtækið hafi lágmarkað sjónræn áhrif mannvirkisins, eins og tæknilega er hægt.  Þetta þýðir, að minnst áberandi línustæði er valið, t.d. frá þjóðvegi séð, línuturnar valdir þeirrar gerðar, að þeir falli sem bezt að landslaginu og lína færð í jörðu á viðkvæmustu stöðunum (að dómi sveitarstjórnar) í þeim mæli, sem tæknilega er fært.  Hafi þetta allt verið skipulagt og kynnt, ætti viðkomandi sveitarstjórn að bera skylda til að samþykkja framkvæmdina án tafar og veita henni öll tilskilin leyfi, enda hlýtur andstæð afstaða að valda sveitarfélaginu stórtjóni, a.m.k. til lengdar.  

Sem dæmi um kreppuástand í einu héraði vegna ófullnægjandi flutningsgetu raforku þangað má taka Eyjafjörð og vitna í baksviðsgrein Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu, 13. október 2017,

"Kreppir að um orku á Eyjafjarðarsvæðinu":

""Staðan er vond og langt í úrbætur", segir Elva Gunnlaugsdóttir, verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar.  Hún segir, að orkuskortur hamli uppbyggingu.

"Við höfum verið að reyna að koma okkar svæði að, m.a. hjá Íslandsstofu, en þar hrista menn bara hausinn.  Við erum ekki að ræða um stóriðju, en til að atvinnulífið geti haldið áfram að blómstra, þarf orku, sem er til í kerfinu.  Það vantar bara leiðir til að koma henni til okkar", segir Elva."

Hömlur af þessu tagi eru verri en nokkur viðskiptahöft, þær eyðileggja alls konar tækifæri fyrirtækja og einstaklinga og lama samkeppnihæfni svæðisins.  Það varðar þjóðarhag, að stjórnvöld taki þessi mál föstum tökum strax.

"Árni V. Friðriksson, formaður samtaka atvinnurekenda á Akureyri og í nágrenni, segir, að vegna þess, hversu flutningsgetan er lítil til og frá Akureyri, séu fyrirtækin eins og á enda kerfisins.  Þegar önnur hvor leiðin lokast, sérstaklega austurlínan, sem er öflugri en vesturlínan, skapist vandamál hjá notendum.  Þeir, sem séu við endann, verði verr úti en aðrir, þegar flökt verði á rafmagninu.  Bilanir, sem verði langt í burtu, geti bitnað á þeim.  

Öflug fyrirtæki eru í matvælaframleiðslu á Akureyri, eins og mjólkursamlag og bjórgerð.  Einnig þjónustufyrirtæki og fyrirtæki í málmiðnaði."

Hér kemur fram, að gagnvart öðrum mesta þéttbýliskjarna landsins getur LN ekki uppfyllt grundvallarreglu sína um afhendingaröryggi raforku, s.k. (n-1) reglu, sem snýst um, að notendur eigi ekki að verða fyrir tjóni af einni stakri bilun í flutningskerfinu.  Jafnframt þekkist það hvergi í þróuðum löndum, að bilun hjá öðrum raforkunotanda í meira en 200 km fjarlægð valdi flökti á spennu og tíðni hjá öðrum notanda, langt út fyrir fjölþjóðleg viðmiðunarmörk, svo að tjón verði á búnaði og framleiðslu.  Þetta setur íslenzka flutningskerfið í hóp frumstæðra flutningskerfa og hamlar verðmætasköpun í landinu.  Þetta ástand er gjörsamlega óviðunandi, og nýkjörið Alþingi verður að fjalla af festu og alvöru um úrlausnir, væntanlega undir forystu þingmanna NA-kjördæmis.

Árlegur meðalkostnaður vegna ófyrirséðra bilana á stofnkerfi raforku 2005-2015 var miaISK 1,5 á verðlagi 2015.  Þá er ótalið tjón af völdum bilana í dreifiveitum og hjá notendum, en stundum verða bilanir hjá notendum af völdum spennusveiflna með upptök í stofnkerfi eða dreifiveitu.  Langflestar fyrirvaralausar bilanir urðu á Vestfjörðum, 150 hjá Orkubúi Vestfjarða (OV) árið 2016, og í flutningskerfi Landsnets verða árlega um 30 slíkar bilanir á 132 kV Vesturlínu og í 66 kV kerfinu á Vestfjörðum, alls um 180 raforkutruflanir á ári eða annan hvern dag að jafnaði.  Algerlega óviðunandi ástand raforkukerfis á stóru og sífellt mikilvægara landsvæði.   

Eftir því, sem álagið á Vestfjörðum eykst með miklum fjárfestingum í atvinnulífi þar, t.d. í laxeldi, þá verður hver straumleysismínúta dýrari.  Með sama áframhaldi verður þess ekki langt að bíða, að ófullnægjandi raforkugæði kosti Vestfirðinga 2,0 miaISK/ár, ef ekkert verður að gert. Með svo frumstætt raforkukerfi verður ekki unnt að efla atvinnulíf á Vestfjörðum sem vert væri og annars væri raunhæft.  Samkvæmt núverandi burðarþolsmati Hafrannsóknarstofnunar bera Vestfirðir u.þ.b. 50 kt/ár af laxi til slátrunar.  Varlega áætlað mun það standa undir 40 miaISK/ár í veltu, en árlegt tjón vegna rafmagnstruflana gæti numið 5 %/ár af þessari veltu.   Þetta er fyrir neðan allar skriður og sýnir, að OV og LN verða að einhenda sér þegar í stað í nauðsynlegar umbætur.  Þær hafa þegar beðið allt of lengi. 

Rafmagnsgæði á Vestfjörðum geta ekki orðið fullnægjandi með því einvörðungu að færa loftlínur í jörðu og mynda hringtengingu allra helztu aðveitustöðva.  Til viðbótar er Vestfirðingum nauðsyn að verða sjálfum sér nógir um raforku, en því fer fjarri, að svo sé nú og vantar rúmlega helming af aflþörfinni eða um 22 MW.

Orku- og aflþörf Vestfirðinga mun vaxa hratt á næstu árum, ef þróun atvinnulífsins þar gengur að óskum, og gæti aflþörfin numið 120 MW árið 2040 með 80 kt/ár fiskeldi (landker meðtalin), 10´000 manna byggð, rafbílavæðingu, rafvæðingu hafnanna og repjuvinnslu fyrir fiskeldið.

Að ráðast fljótlega í virkjun Hvalár á Ströndum, 55 MW, er alls engin goðgá, því að sú þróun atvinnulífs, sem að ofan er nefnd, felur í sér 80 MW viðbótar aflþörf árið 2040 m.v. 2016 og fullnýtingu virkjunarinnar strax eftir gangsetningu með sölu á orku út fyrir Vestfirði.  Á innan við einum áratugi munu Vestfirðir geta tekið til sín alla orku Hvalárvirkjunar og Vestfirðingar þurfa þá nýja vatnsaflsvirkjun.

Hér er um að ræða byltingu á högum Vestfirðinga, sem er framkölluð með öflugri uppbyggingu fiskeldis, sem flestir þingmanna NV-kjördæmis geta vafalítið stutt.  Slíkur stuðningur er nauðsynlegur, því að þessi atvinnuþróun er útilokuð án innviðauppbyggingar, sem m.a. felur í sér klæddan og burðarmikinn láglendisveg frá Bolungarvík og suður til Bíldudals og frá Patreksfirði til Bjarkarlundar.  

ipu_dec_5-2011 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Pétursson

Sæll Bjarni.   Athugull maður benti á það í sumar - að með því að leggja 132 kW háspennustrengi í jörðu frá Skagafirði til Eyjafjarðar - þá mætti leysa orkuvanda Eyfirðinga og koma orku frá Blöndu  Til Ak sem þarf - og svo áfram austur það sem gengur af - ef það er eitthvað.  Þannig myndi líka létta´á "þrýstingnum" á orkuflutningi hjá Landsnet frá Blöndu og suður - en hæuti orkunnar frá Blönbdu hefur aldrei komist á markað - ekki hægt að flytja orkuna frá stöðinni.   62 GWh á ári - sitja fastar í Blöndu - ekki hægt að selja þá orku vegna þess að ekki er hægt að flytja orkuna neitt... þetta er tjón fyrir Landsvirkjun upp á 62 x 4.millj pr.GWh = 248 milljónir á ári í rekstartap fyrir Landsvirkjun. Þetta eru upplýsingar úr opinberum gögnum. Ég tel að fjölga eigi í stjórn Landsnet, - úr 3 stjórnamönnum í t.d. 7 og Landshlutasamtök sveitarfélaga skipi 3 stjórnarmenn af 7 - eða 2 af 5 ef þeri yrðu 5.   Sveitarfélögin - eða Landshlutasamtök sveitarfélaga verða nú að "koma sterkar inn á völlinn"  varðandi raforkuflutning á Íslandi  og taka þátt í að leysa hin og þau ágreiningsmál sem eru að þvælast fyrir milli Landsnet  annars vegar og landeigenda/sveitarfélaga hins vegar.  Það eru staðlar erlendis um "tvöfalt flutningskerfi"  raforku.  Samkvæmt þeim samningur eru tvöfaldar flutningslínur í öll álver á Islandi og líka nú  frá Kröflu/Þeistareykjum - út á Bakka/Húsavík.  Þetta eru  einfaldlega alþjóðlegir staðlar um afhendingaröryggi raforku. (Tvöfalt flutningskerfi)  Tími kominn til að ræða svona gæðastaðla  um orkuöryggi - t.d. á vegum landshlutasamtaka sveitarfélaga. 

Kristinn Pétursson, 2.11.2017 kl. 20:39

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Kristinn;

Landsnet (LN) ætlar að auka flutningsgetu Byggðalínu með því að reisa nýja 220 kV línu og rífa gömlu 132 kV línuna.  Með því getur LN þrefaldað flutningsgetuna, sem er nóg, þar til jafnstraumsstrengur verður lagður í jörðu um Sprengisands á milli Þjórsársvæðis og Kröflusvæðis.  Sú gamla verður þá fjarlægð, og það er hægt að leggja þá nýju í jörðu á viðkvæmustu svæðum, en mikil tæknileg takmörkun á lengd slíks jarðstrengs.  132 kV jarðstrengur frá Skagafirði til Eyjafjarðar mundi ekki ná að tvöfalda flutningsgetuna frá Blöndu til Akureyrar sökum mikils rýmdarstraums í jarðstrengjum við svo háa spennu og fjárfestar ISK/MW yrðu mun fleiri en í tilviki 220 kV línu.  Líklega mundi þurfa spanspólu á leiðinni til að vegna á móti rýmdarálagi jarðstrengsins, sem enn eykur fjárfestingarupphæð og rekstrarkostnað.  

Þú skrifar um stjórn LN.  Ég tel eignarhaldsfyrirkomulag fyrirtækisins óheppilegt, og þar sem um lögbundið einokunarfyrirtæki er að ræða, er eðlilegt, að ríkið eignist það.  Ríkið getur þá boðið samtökum sveitarfélaga aðild að stjórn þess.  

Þjóðarhagur líður fyrir núverandi pattstöðu með "þjóðvegakerfi raforkunnar" og ríkisvaldið verður að grípa til úrræða, sem tæknin og lögin leyfa. 

Bjarni Jónsson, 2.11.2017 kl. 21:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband