Menntunarkröfur

Það hafa sézt stórkarlalegar yfirlýsingar um hina svo kölluðu "Fjórðu iðnbyltingu", sem gjörbreyta muni vinnumarkaðinum.  Ein slík er, að eftir 20 ár verði 65 % núverandi starfa ekki til.  

Þetta er loðin yfirlýsing. Er meiningin sú, að 65 % færra fólk starfi að núverandi störfum, eða er virkilega átt við, að 65 % núverandi verkefna verði annaðhvort horfin eða unnin af þjörkum ?

Fyrri merkingin er að mati blekbónda harla ólíkleg, en sú seinni nánast útilokuð.  Það er, að mati blekbónda", ekki mögulegt að framleiða róbóta með gervigreind, sem verði samkeppnishæf við "homo sapiens" við að leysa 65 % starfategundir af hólmi.

Hins vegar gefur þessi framtíðarsýn réttilega vísbendingu um gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar á næstu áratugum, sem tækniþróunin mun leysa úr læðingi.  Aðalbreytingin verður ekki fólgin í því, að margar tegundir starfa hverfi, eins og ýjað er að, heldur í því, að verkefni, ný af nálinni, verða til.  

Þessu þarf menntakerfið að bregðast við á hverjum tíma, því að það á ekki einvörðungu að búa fólk undir að takast á við viðfangsefni líðandi dags, heldur viðfangsefni morgundagsins.  Þetta er hægara sagt en gert, en það er hægt að nálgast viðfangsefnið með því að leggja breiðan grunn, þaðan sem vegir liggja til allra átta, og það verður að leggja meiri áherzlu á verknám og möguleikann á tækninámi í framhaldi þaðan. Þá er höfuðnauðsyn á góðri verklegri kennslu í tæknináminu, iðnfræði-, tæknifræði- og verkfræðinámi, og þar með að ýta undir eigin sköpunarkraft og sjálfstæði nemandans, þegar út í atvinnulífið kemur.  Þótt þetta sé dýrt, mun það borga sig, enda fengist viðunandi nýting á búnaðinn með samnýtingu iðnskóla (fjölbrauta), tækniskóla (HR) og verkfræðideilda.

Það er áreiðanlegt, að orkuskiptin munu hafa í för með sér róttækar breytingar á samfélaginu.  Sprengihreyfillinn mun að mestu heyra sögunni til um miðja 21. öldina.  Þetta hefur auðvitað áhrif á námsefni skólakerfisins og ákveðin störf, t.d. bifvélavirkja, en bíllinn, eða landfartækið í víðum skilningi, verður áfram við lýði og viðfangsefni bifvélavirkjans sem rafknúið farartæki. Námsefni bifvélavirkjans færist meira yfir í rafmagnsfræði, skynjaratækni, örtölvur og hugbúnað. 

Rafmagnið verður aðalorkuberinn á öllum sviðum þjóðlífsins, þegar orkuskiptin komast á skrið eftir áratug eða svo.  Það er tímabært að taka þessu sem staðreynd og haga námskrám, námsefni, ekki sízt hjá kennurum, samkvæmt því nú þegar.  Sama gildir um forritun.  Það er nauðsynlegt að hefja kynningu á þessum tveimur fræðigreinum, rafmagnsfræði og forritunarfræði, í grundvallaratriðum, við 10 ára aldur.  

Jafnframt er nauðsynlegt að auka tungumálalega víðsýni barna með því að kynna þeim fleiri tungumál en móðurmálið og ensku við 11 ára aldur.  Ekki ætti að binda sig við dönsku, heldur gefa kost á norsku, sænsku, færeysku, þýzku, frönsku, spænsku og jafnvel rússnesku, eftir getu hvers skóla til að veita tungumálatilsögn.  

Það er skylda grunnskólans að veita nemendum trausta grunnþekkingu á uppbyggingu móðurmálsins, sem óhjákvæmilega þýðir málfræðistagl, því að málfræði hvers tungumáls er beinagrind þess, og hvað getur líkami án beinagrindar ?  Hann getur skriðið, en alls ekki gengið, hvað þá með reisn.  Góður kennari getur gert málfræði aðgengilega og vel þolanlega fyrir meðalnemanda.  Til að að ráða við stafsetningu íslenzkunnar er grundvallaratriði að leita uppruna orðanna.  Þetta innrætir góður kennari nemendum, og þannig getur stafsetning jafnvel orðið spennandi fag.  Það er t.d. alger misskilningur, að reglur um z í málinu séu snúnar.  Þær eru einfaldar, þegar leitað er upprunans, og það voru mikil mistök að leggja þennan bókstaf niður á sínum tíma.  Afleiðingin er sú, að ritháttur sumra orða verður afkáralegur í sumum myndum.  

Niðurstöður PISA-kannananna gefa til kynna, að gæði íslenzka grunnskólakerfisins séu að versna í samanburði við gæði grunnskólakerfa annarra landa, þar sem 15 ára nemendur á Íslandi ná sífellt lakari árangri, t.d. í raungreinum.  Þessu verður að snúa við hið snarasta, því að annars fellur íslenzka grunnskólakerfið á því prófi, að búa ungu kynslóðina undir hina títt nefndu "Fjórðu iðnbyltingu", sem reyndar er þegar hafin.  Þessi ófullnægjandi frammistaða 15 ára nemenda er með ólíkindum, og hér er ekki um að kenna of litlu fjármagni til málaflokksins, því að fjárhæð per nemanda í grunnskóla hérlendis er á meðal þeirra hæstu, sem þekkjast.  Það er vitlaust gefið. Þetta er kerfislægur vandi, sem m.a. liggur í of mikilli einhæfni, skólinn er um of niður njörvaður og einstaklingurinn í hópi kennara og nemenda fær of lítið að njóta sín.  Það er sjálfsagt að ýta undir einkaskóla, og það er sjálfsagt að leyfa duglegum nemendum að njóta sín og læra meira.  Skólinn þarf að greina styrkleika hvers nemanda ekki síður en veikleika og virkja styrkleikana.  Allir eiga rétt á að fá tækifæri til að veita kröftum sínum viðnám innan veggja skólans, ekki bara í leikfimisalnum, þótt nauðsynlegur sé.  

Skólakerfið er allt of bóknámsmiðað.  Það þarf að margfalda núverandi fjölda, sem fer í iðnnám, og vekja sérstakan áhuga nemenda á framtíðargreinum tengdum rafmagni og sjálfvirkni.

Sigurbjörg Jónsdóttir, kennari, hefur skrifað lokaritgerð í meistaranámi í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík.  Þann 7. nóvember 2017 sagði Höskuldur Daði Magnússon stuttlega frá henni í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Mælivilla í niðurstöðum PISA":

""Þegar PISA er kynnt fyrir nemendum, er þeim sagt, að þeir séu að fara að taka próf, sem þeir fái ekki einkunn fyrir og skili þeim í raun engu.  Þetta eru 15-16 ára krakkar, og maður spyr sig, hversu mikið þeir leggja sig fram.  Ég veit, að sums staðar hefur þeim verið lofað pítsu að launum.  Ég hugsa, að anzi margir setji bara X einhvers staðar", segir Sigurbjörg Jónsdóttir, kennari, um lokaritgerð sína í meistaranámi í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík."

Eigi er kyn, þótt keraldið leki, þegar nemendum er gert að gangast undir próf án nánast nokkurs hvata til að standa sig vel.  Ætli þetta sé ekki öðru vísi í flestum samanburðarlöndunum ?  Það virðist ekki ósanngjarnt, að viðkomandi skóli mundi bjóða nemendum það að taka niðurstöðuna með í lokamatið á þeim, ef hún er til hækkunar á því, en sleppa því ella.  

"Þegar ég fór svo að kafa betur ofan í PISA-verkefnið, kemur í ljós, að það er mikil mælivilla í niðurstöðunum hér á landi.  Við erum einfaldlega svo fá hér.  Í öðrum löndum OECD eru tekin úrtök nemenda, 4-6 þúsund, en hér á landi taka allir prófið.  Þar að auki svara krakkarnir hér aðeins 60 spurningum af 120, og í fámennum skólum eru ekki allar spurningar lagðar fyrir.  Svo hefur þýðingunni verið ábótavant, eins og fram hefur komið."

Þetta er réttmæt gagnrýni á framkvæmd PISA-prófanna hérlendis, og andsvör Arnórs Guðmundssonar, forstjóra Menntamálastofnunar baksviðs í Morgunblaðinu, 9. nóvember 2017 í viðtali við Höskuld Daða Magnússon undir fyrirsögninni,:

"Meintar mælivillur byggðar á misskilningi", eru ósannfærandi.  

Að aðrir hafi um úrtak að velja, skekkir samanburðinn líklega íslenzkum nemendum í óhag, en það er lítið við því að gera, því að það er ekki til bóta, að hér taki færri þetta samanburðarpróf en annars staðar.  

 Það hefur engin viðunandi skýring fengizt á því, hvers vegna allar spurningar prófsins eru ekki lagðar fyrir alla íslenzku nemendurna, og þetta getur skekkt niðurstöðuna mikið.  Hvers vegna eru lagðar færri spurningar fyrir nemendur í minni skólum en stærri ?  Það er afar skrýtið, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið.  

Ef þýðing prófs á móðurmál viðkomandi nemanda er gölluð, veikir það augljóslega stöðu nemenda í viðkomandi landi.  Það er slæm röksemd  Menntamálastofnunar, að endurtekinn galli ár eftir ár eigi ekki að hafa áhrif á samanburð prófa í tíma.  Þýðingin á einfaldalega að vera gallalaus og orðalagið fullkomlega skýrt fyrir nemanda með góða málvitund.  Þýðingargallar ár eftir ár bera vitni um óviðunandi sleifarlag Menntamálastofnunar og virka til að draga Ísland stöðugt niður í samanburði á milli landa.  Nóg er nú samt.  Noregsferð apríl 2011 006

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Sett á blogg: Bjarni Jónsson Menntunarkröfur

http://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2206896/

 

Skaparinn, í þér, er að leita lausna.

Helst dettur mér í hug að við foreldrarnir, ættum að fá gátlista, um hvað skiptir máli fyrir nemandann.

Auglýsa fyrir foreldrana og nemandan, fjórum sinnum á ári, eða reyndar stanslaust, með tilbrigðum.

Að ná nægum svefni að jafnaði, fyrir nemandann.

Að nemandinn, hafa einhverja lágmarks hreyfingu, til að líkaminn virki rétt.

Að nemandinn er að læra fyrir sjálfan sig, til hagsbóta fyrir framtíðina.

Að taka það aldrei sem afsökun að kennarinn sé ekki góður, nemandi notar það strax sem afsökun, fyrir slökum árangri.

Að læra að læra, er nauðsinlegt, og þar þörfnumst við einstaklingarnir mismunandi aðferða.

Að finna hvað lokar fyrir, hjá einstökum nemendum, það getur verið líkamlegt, eða andlegt, til dæmis, meiri uppörvun, og að finna sína aðferð, til að læra.

Að þeim sem gengur best að læra á bókina, er nauðsinlegt að halda góðri heilsu, og að kunna skil á handbrögpum, og verkferlum, við að skapa þjóðfélagið.

Að finna, hvað lokar fyrir, hlýtur að hafa verið skoðað af mörgum aðilum, og þarf að finna út hvað af því hentar hverjum nemanda best.

Gangi þér allt í haginn.

Egilsstaðir, 28.11.2017 Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 28.11.2017 kl. 15:37

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir þetta innlegg, Jónas.  "Að læra að læra" er mikilvægast, þegar breytingarnar eru örastar.  Það er ekki hlaupið að því að tileinka sér þetta, og það tekur góðan nemanda allmörg ár að tileinka sér þetta.  Til þess þarf hann að vera í góðu jafnvægi og úthvíldur, eins og þú bendir á.  

Hlutverk skólans er að skapa jarðveg fyrir námslöngun, forvitni og þrá eftir að ná tökum á viðfangsefni.  Takist þetta, er björninn unninn, og greindum nemanda eru allir vegir færir.  

Ekki eru allir jafnvel af Guði gerðir, og skólanum ber "að koma öllum til manns", eftir föngum.  Það þarf að greina hindranir, t.d. lesblindu, sem hefur aftrað mörgum gegnum tíðina, og kenna slíkum nemendum að komast framhjá hindrununum.  Fyrir alla muni samt; ekki dópa nemendur upp eða niður.  Þegar farið er að gefa 2 ára börnum svefnlyf, eins og frétzt hefur af, er voðinn vís.

Bjarni Jónsson, 28.11.2017 kl. 18:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband