Enn af sæstrengshugmyndum

Hér voru fyrr á þessum áratugi vaktar væntingar um, að gróðavænlegt gæti reynzt fyrir landsmenn að flytja rafmagn út um sæstreng. Að baki þeim væntingum voru spádómar um þróun raforkuverðs á Bretlandi, sem reyndust vera alveg út í loftið. Hæst risu þessar væntingar e.t.v. árin 2012-2015, þegar sú stefna var við lýði á Bretlandi, að ríkissjóður þar greiddi orkuvinnslufyrirtækjum mismun orkuvinnslukostnaðar úr endurnýjanlegun orkulindum, aðallega sól og vindi, og markaðsverðs. 

Til að leysa kolaorkuver af hólmi og til að þróa brezka kjarnorkutækni gengu brezk stjórnvöld svo langt að tryggja kjarnorkuveri, sem nú er í byggingu, fast verð fyrir raforkuna, sem var mun hærra en þáverandi og núverandi heildsöluverð.  

Þessari stefnu brezkra stjórnvalda var vitanlega ætlað að efla þróun þarlendra framleiðenda á orkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkulindum, helzt vindmyllum og sólarhlöðum; alveg sér í lagi hugnaðist brezkum stjórnvöldum að efla vindorkuver með ströndum fram, því að þau vöktu minnsta óánægju á meðal íbúanna, þótt sæfarendur væru ekki par hressir.  Það er hins vegar miklum vafa undirorpið, að brezk stjórnvöld hafi nokkurn tíma verið ginnkeypt fyrir því að niðurgreiða stórlega raforku frá útlöndum, þótt hún væri úr endurnýjanlegum orkulindum, enda óvíst, að lagaheimild sé fyrir niðurgreiddum innflutningi á rafmagni þar á bæ.  

Nú hefur brezka ríkisstjórnin stórlega dregið úr niðurgreiðslum af þessu tagi.  Því ræður tvennt.  Hagur brezka ríkissjóðsins er bágborinn, og hann hefur verið rekinn með miklum halla undanfarin ár, og vinnslukostnaður raforku í vindmyllum og sólarhlöðum hefur á undanförnum árum lækkað svo mjög, að ekki er lengur þörf á þessum niðurgreiðslum, nema frá vindmyllum undan ströndum, og þær niðurgreiðslur halda áfram.  

Það eru engar líkur á því lengur, að brezk stjórnvöld muni verða fús að niðurgreiða raforku frá Íslandi eða Noregi.  Nú er til umfjöllunar hjá norsku orkustofnuninni, NVE, umsókn frá fyrirtækinu Northconnect um leyfi fyrir lagningu samnefnds aflsæstrengs og tengingu hans við norska stofnkerfið í Eidfjord í Hordaland (á Hörðalandi).  Hinn endann á að tengja við skozka stofnkerfið í Peterhead. Viðskipti með rafmagn um þennan streng munu einfaldlega fram á "Nord Pool", sem er orkukauphöll norðanverðrar Evrópu. Slík viðskipti eru í fullu samræmi við Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB og viðskiptareglur Innri markaðs EES.  

Fyrir nokkru var greint frá því á brezka vefmiðlinum "Telegraph", að fjármála- og efnahagsráðherra Íslands  hefði beint fyrirspurn til brezkra stjórnvalda um það, hvaða fastverð þau gætu og vildu tryggja Íslendingum fyrir raforku til Bretlands.  Hann hefur líklega gert sér grein fyrir því, að án slíks samnings er tómt mál að ræða um þessa sæstrengstengingu í venjulegu viðskiptaumhverfi.  Með öðrum orðum verður enginn rekstrargrundvöllur fyrir strengnum og nýjum virkjunum á Íslandi, ef rafmagnið þaðan á að fara í almenna samkeppni á "Nord Pool".  Það er hins vegar alveg útilokað, að brezk stjórnvöld og brezka þingið mundu fallast á að skuldbinda Breta til að kaupa raforku ofan af Íslandi í 10-20 ár á verði, sem er langt ofan við markaðsverð á Bretlandi og ofan við það, sem núverandi spár standa til.   

Þá má spyrja, hvernig norskt rafmagn geti verið á "Nord Pool" á Bretlandi ?  Því er til að svara, að vegalengdin Hörðaland-Peterhead er aðeins 60 % á við "Icelink" og um grunnsævi að fara.  Strengkostnaðurinn verður því innan við 50 % af kostnaði "Icelink", og Norðmenn þurfa ekkert að virkja fyrir þennan né eldri sæstrengi sína.  Ástæðan er sú, að uppsett vélarafl í norskum vatnsorkuverum er miðað við rafhitun nánast alls húsnæðis í Noregi á kaldasta tíma ársins, og uppsetta aflið er þess vegna miklu meira en meðalálag í landinu í MW.  Sæstrengir veita þess vegna Norðmönnum kost á að bæta nýtingu raforkukerfis síns.

  Þessu er á engan hátt til að dreifa á Íslandi, þar sem mjög jafnt og mikið álag er á raforkuverunum allan sólarhringinn árið um kring.  Hér verður þess vegna að virkja fyrir sæstreng, því að hvorki er hér umfamafl né umframorka fyrir sæstreng til útlanda, ef þjóna á innlendum afgangsorkumarkaði af kostgæfni.  

Hvaða verð á raforku mundu brezk stjórnvöld þurfa að tryggja við afhendingarstað inn á stofnkerfi við lendingarstað á Skotlandi ?  Það er summan af vinnslukostnaði á Íslandi og flutningskostnaði frá virkjunum þar og að afhendingarstað á Skotlandi.  Ef stofnkostnaður flutningsmannvirkja á landi og sjó er samtals mrðISK 800 og flutningsmannvirkin bera kostnað af orkutöpum, sem eru að lágmarki 10 %, þá nemur flutningskostnaðurinn m.v. 25 ára afskriftartíma,
 
KF=11,3 ISK/kWh.

Vinnslukostnaður raforku inn á sæstreng er að lágmarki,

KV=3,5 ISK/kWh,

og heildarkostnaðurinn,

KH=14,8 ISK/kWh.  Um þessar mundir er heildsöluverð á raforku í Englandi um

VH=8,5 ISK/kWh,

svo að mismunurinn, sem þá mundi falla á brezka ríkissjóðinn er

BR=6,3 ISK/kWh,

eða 43 % af kostnaðinum.

Af þessu sést, að það er enginn gróði í spilunum að óbreyttu.  Jókerinn í þessu spili er ESB, sem gæti tekið upp á því, ef Ísland gengur í Orkusamband ESB með því, að Alþingi samþykki Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, að veita sæstrengsfjárfestum fjárhagsstyrk til hönnunar og framleiðslu á lengsta sæstreng sögunnar hingað til.  Með því yrði öll Evrópa samtengd og hlutdeild endurnýjanlegrar orku í ESB ykist lítils háttar. Hér ber að hafa í huga, að þegar sæstrengseigandinn hefur fengið fjárfestingu sína endurgreidda með umsömdum ágóða, þá mun strengurinn með endamannvirkjum sínum falla í hendur Landsnets, nákvæmlega eins og gerðist með Hvalfjarðargöngin á dögunum.  Tæknileg rekstraráhætta strengsins vex með aldri strengsins, en virkjanaeigendur hérlendir verða að geta selt áfram inn á strenginn til að fá áfram tekjur inn á virkjanirnar.  

Það er þó ljóst, að rekstur þessa sæstrengs verður alltaf erfiður, bæði viðskiptalega og tæknilega.  Ef minni orka en 8,6 TWh/ár fer um strenginn, þá verður reikningslegt tap á honum m.v. flutningsgjaldið 11,3 ISK/kWh.  Ef strengurinn bilar "úti á rúmsjó", getur tekið 6-12 mánuði að gera við hann og koma honum í rekstur á ný.  Það tekur tíma að staðsetja bilunina af nákvæmni, fá hentugt viðgerðarskip og sérfræðinga, bíða eftir ládeyðu yfir bilunarstað, hífa strenginn upp, taka hann í sundur og gera við.  Úfar geta þá hæglega risið á milli eigenda strengsins og viðskiptaaðila þeirra, þ.e. orkukaupenda og -seljenda. Ef svo stendur á, að lág staða er í miðlunarlónum og enn nokkrir mánuðir í, að innrennsli aukist að ráði, þá getur orðið alvarlegur raforkuskortur á Íslandi, sem leiðir til tjónsupphæðar yfir mrðISK 100.  Líklegt er, að málaferli rísi vegna þessa tjóns og hugsanlegt, að strengeigandinn verði dæmdur til hárra skaðabóta. Sá strengeigandi getur þá verið Landsnet, eins og áður segir. 

Hætt er við, að "spennuóhreinindi" ("harmonics"-yfirsveiflur) berist frá endabúnaði strengsins, afriðlum og áriðlum, og rekstur hans muni skapa miklar spennusveiflur á stofnrafkerfi landsins. Þessar truflanir verða meira áberandi hér en t.d. í Noregi vegna miklu meiri aflflutningsgetu strengsins sem hlutfall af uppsettu afli í virkjunum hér en á við um nokkurn einstakan sæstreng, sem tengdur er norska stofnrafkerfinu. Slíkt getur valdið tjóni á viðkvæmum rafbúnaði, eins og kunnugt er.  

Rekstur sæstrengs á milli Íslands og útlanda verður þannig margvíslegum annmörkum háður, og verði ekki hugað gaumgæfilega að öllum atriðum og mótvægisaðgerðum gegn þeim, verður sæstrengsverkefnið gríðarlegt glappaskot.

Það er reginmisskilningur, sem búið er að koma inn hjá mörgum, að ákvæði Innri markaðarins um raforkugeirann virkjist ekki fyrr en með aflsæstrengstengingu við útlönd.  Viðskiptafrelsi Innri markaðar EES verða virk fyrir viðskipti með rafmagn og raforkufyrirtæki og eignir þeirra strax við samþykkt Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Þetta sýndi lagaprófessor Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, ljóslega fram á í rýniskýrslu sinni um greinargerð Birgir Tjörva Péturssonar, lögmanns, til iðnaðarráðherra.  Rýniskýrsluna á norsku er að finna í viðhengi með pistlinum Eignarhald á orkulindunum, sem hægt er að finna undir nýjustu færslum hér til hliðar.  Rýniskýrsla þessi er í þýðingu yfir á íslenzku sem stendur, og höfundurinn er væntanlegur til Íslands til fyrirlestrarhalds síðar í þessum mánuði.   

 

 

 

 


Stjórnarskráin og yfirvofandi hætta

Stjórnarskrá Íslands heimilar ekki valdframsal ríkisins til yfirþjóðlegra stofnana.  Er þetta einhver þvergirðingsháttur Stjórnarskrárgjafans gagnvart þátttöku landsins í alþjóðlegri samvinnu ?  Nei, svo sannarlega ekki.  Þetta er þannig vegna þeirrar sannfæringar, að hætta á óstjórn og á að hagsmunir landsmanna verði fyrir borð bornir, þar sem ólíkir hagsmunir rekast á, eins og t.d. í landhelgisdeilunum, aukist til mikilla muna með fjarlægð valdsins frá íbúum landsins. Óþarft er að minna á söguna í þessu sambandi.   

Þetta endurspeglast í umræðunni um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn, því að hún felur óumdeilanlega í sér framsal valds til yfirþjóðlegrar stofnunar, sem hvergi er heimilað í Stjórnarskrá Íslands.  Þetta er meira að segja bannað í Stjórnarskrá Noregs, eins og fram kemur í viðhengi með þessum pistli, og er þó sú rýmri en sú íslenzka að þessu leyti, af því að hún heimilar tiltekið framsal, ef aukinn meirihluti Stórþingsins samþykkir.

Í grein Elíasar B. Elíassonar, sérfræðings í orkumálum, í Morgunblaðinu 25.09.2018, undir fyrirsögninni:

"Auðlindastýring vatnsorku",

er sýnidæmi um þjóðhagslegt tjón, sem hlýzt af því fyrir okkur hér á eyju norður í Atlantshafi að fela Evrópusambandinu, ESB, þ.e. orkustofnun þess, ACER í Ljubljana í Slóveníu, og framkvæmdastjórn ESB í Brüssel, yfirstjórn mikilvægra þátta raforkumálanna á Íslandi, sem hlutgerist með handlangaranum, Landsreglaranum, sem verður reglusetningararmur ESB/ACER á Íslandi.  Embættið verður þar af leiðandi einstakt á Íslandi, líkist mest Trójuhesti ESB á Íslandi, og getur ekki samræmzt Stjórnarskránni, af því að það verður utan seilingar íslenzkra stjórnvalda.

Til þess að lágmarka hættuna á raforkuskorti við núverandi aðstæður á Íslandi af völdum vatnsskorts inn í vatnsaflsvirkjanirnar er nauðsynlegt að beita auðlindastýringu.  Henni beitir Landsvirkjun fyrir sitt leyti, og með 80 % markaðshlutdeild hennar dregur hún langt, en betra væri, að allar virkjanir landsins, sem tengdar eru stofnkerfinu, væru undir einni orkulindastjórn.  Réttlæting þess er hinn gríðarlegi samfélagslegi kostnaður, sem af raforkuskorti hlýzt, og sá kostnaður mun enn vaxa með orkuskiptunum. Samræmd orkulindastjórn dregur stórlega úr hættu á vatnsleysi í miðlunarlónum og þar með rándýrum raforkuskorti.  

Vegna þess að yfirvofandi er hér innleiðing á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB er nauðsynlegt að spyrja, hvort Evrópusambandið og orkustofnun þess bjóði fram lausn á þessu viðfangsefni auðlindastjórnunar. Svarið er, að ekkert í téðum lagabálki ESB né fyrirkomulag raforkumarkaða ESB í raun bendir til, að hugmyndafræðingar ESB hafi ýjað einni hugsun að því viðfangsefni, sem öllu máli skiptir að leysa sómasamlega á Íslandi, enda eru allt aðrar aðstæður uppi á meginlandinu og á Bretlandi en hérlendis.  

Þvert á móti magnar viðtekið markaðskerfi ESB hættuna á því, að hér verði alvarlegur orkuskortur vegna þess, að samkeppnisreglur ESB og bann þess við ríkisafskiptum af markaði kemur í veg fyrir mótvægisaðgerðir í tæka tíð.  Þetta rekur Elías B. Elíasson, verkfræðingur, skilmerkilega í ofangreindu prýðilegu grein, sem hér verður vitnað til, lesendum til glöggvunar á efninu:

"Á frjálsum markaði í einangruðu orkukerfi, eins og því íslenzka, fer vatnsorkufyrirtæki, þegar taka þarf vatn úr miðlunarlóni í upphafi vetrar, að fylgjast með áhættu sinni og meta hættu á því, að lónið tæmist áður en vorflóð koma.  

Sé búizt við hækkandi markaðsverði orku að áliðnum vetri, og slík hætta er mikil, þá geta þau hætt afhendingu orku til þeirra fyrirtækja, þar sem samningar leyfa slíkt, en þau geta líka hækkað orkuverð sitt í von um, að eftirspurn minnki.  

Eins og ástand mála er hér nú með Landsvirkjun sem ráðandi á orkumarkaði, hafa önnur fyrirtæki ekki svigrúm í sínum virkjunum til að yfirtaka hluta af markaði hennar, og orkuverð bara hækkar, svo að þeir notendur, sem eru veikastir efnahagslega, reyna að spara orku.  

Með lágu innrennsli í lón fram undir vetrarlok heldur þetta áfram allan veturinn, og orkuverðið hækkar sífellt sem og væntingar um hærra verð, þegar mest hætta er á orkuskorti.  Önnur fyrirtæki nýta sér auðvitað ástandið og hækka verðið líka.  

Þetta getur skapað miklar verðsveiflur á markaði og stundum meiri en þjóðfélagið þolir með góðu móti, og nokkur dæmi eru um slíkt víðs vegar um heiminn.  Virkni markaðslögmálanna er miskunnarlaus." 

Þetta er raunsæ lýsing á því, hvernig ástandið verður á íslenzkum raforkumarkaði, þegar t.d. miðlunarlónin fyllast ekki að hausti og stofnað hefur verið til  frjáls samkeppnismarkaðar með raforku að hætti ESB undir eftirliti Landsreglara, en það þarf enginn að fara í grafgötur með það, að stuttur tími mun líða frá innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn og í lög á Íslandi, þar til hér mun orkukauphöll hefja starfrækslu. 

Þar munu þá væntanlega fljótlega tíðkast afleiðuviðskipti með raforku, eins og í Noregi, þar sem veðjað verður á ákveðna raforkuverðþróun í framtíðinni. Við þessar aðstæður verður um ónauðsynlegar raforkuverðhækkanir að ræða til heimilanna og til atvinnulífsins fyrir utan fyrirtæki, sem hafa gert langtíma raforkusamninga. Slíkar hækkanir má lágmarka með auðlindastýringu, en hún er óleyfilegt inngrip í hinn frjálsa markað ESB. 

Orkuverðssveiflur og hækkun meðalverðs hefur neikvæð áhrif á lífskjör og atvinnuöryggi almennings, vegna þess að samkeppnishæfni fyrirtækjanna rýrnar, sem mun ríða þeim sumum á slig.  Allar millifærslur eða ríkisstuðningur eru bannaðar í þessu umhverfi að Evrópurétti, enda er hugmyndafræði ESB sú að aðskilja sauðina frá höfrunum að þessu leyti.  Þarna krystallast munurinn á þeim viðhorfum að líta annars vegar á rafmagnið sem náttúruafurð, sem nýta beri til atvinnusköpunar um allt land við sem lægstu verði, og hins vegar sem vöru, sem markaðslögmálin skuli beina til þeirra, sem hæsta verðið geta og vilja borga.  

Í góðum vatnsárum, þegar miðlunarlónin fyllast á sumrin, munu eigendur vatnsorkuvera nýta sér yfirburðastöðu sína gagnvart eigendum jarðgufuvera og auka markaðshlutdeild sína eftir fremsta megni með því að undirbjóða jarðgufuverin. Slík undirboð heita frjáls samkeppni, nema sýna megi fram á markaðsmisnotkun, og gagnast vel við réttar aðstæður, en geta haft hrikalegar afleiðingar (orkuskort) í för með sér í raforkukerfi, eins og okkar.

Þetta gengur að vísu, þangað til lækkar svo í miðlunarlónum, að eigendur vatnsorkuvera gefa eftir markaðshlutdeild, og fljótlega í kjölfarið er hætt við raforkuverðhækkunum á markaði. Ef vorflóðum seinkar, getur hæglega dunið yfir orkuskortur við þessar aðstæður.

Miklar verðsveiflur á raforkumarkaði koma mörgum notendum illa, og sumir þurfa þá að spara við sig orku. Þetta getur dregið úr atvinnu, hagvexti og lífsgæðum fólks.  Líklega verður ársmeðalverðið hærra við þessar aðstæður en yrði við góða auðlindastjórnun, og þetta óhagræði og kostnaðarauki fyrir notendur er, eins og í fyrra tilvikinu, algerlega þarflaust.  Mikill er ábyrgðarhluti þeirra stjórnmálamanna, sem leiða þessa óáran yfir þjóðina, líka algerlega að nauðsynjalausu.

Opinber afskipti af þessum markaði verða óleyfileg, og þar munu allar reglur Innri markaðar EES verða í gildi, þ.e. allt getur gengið kaupum og sölum, líka eignarréttur orkulindanna, eins og norski lagaprófessorinn Peter Örebech hefur sýnt fram á.  Yfirvöld landsins hvorki mega né geta gefið eftirlitsaðilanum, Landsreglaranum, tilmæli eða fyrirmæli, og nauðsynleg auðlindastjórnun á formi vinnslustýringar í virkjunum verður bönnuð.  Þegar íslenzkar aðstæður krefjast heildar auðlindastýringar, þá notar ESB/ACER/ESA/Landsreglari lögmál vörumarkaðar.  Gallinn er sá, að það leiðir til öngþveitis og ófara að skilgreina rafmagn sem vöru á Íslandi.  Þess vegna er stórhættulegt að innleiða Þriðja orkupakkann við íslenzkar aðstæður. 

Eftir að hafa bent á, að uppskipting Landsvirkjunar leiðir aðeins til fákeppni og splundrunar þeirrar auðlindastýringar, sem Landsvirkjun viðhefur nú í krafti stærðar sinnar, skrifar Elías:

"Í raun er ekki nóg, að auðlindastýring nái aðeins yfir orkukerfi Landsvirkjunar, orkukerfi alls landsins þarf að vera undir.  Sjái menn fyrir, að Landsvirkjun verði skipt upp, eins og flestallir markaðsfræðingar, sem tjá sig um málið, leggja til, þá verður að fela sérstökum aðila, auðlindastjóra, það verkefni, en engin ákvæði eru í þriðja orkupakka ESB um auðlindir eða auðlindastjórn, þannig að þetta fellur utan við starfssvið landsreglarans."

Stjórnun ESB/ACER/ESA/Landsreglara á raforkumarkaðinum hérlendis mun leiða til afar kostnaðarsamrar óreiðu á sviði, sem myndar eina af undirstöðum þjóðarbúskaparins, þ.e. í orkubúskapnum. Það, sem hentar vel á eldsneytismarkaði, veldur hins vegar vandræðum í kerfi, þar sem samhæfa þarf dyntótt náttúröfl, ef vel á að fara (tryggja afhendingaröryggi raforku með lágmarks tilkostnaði).

Kostnaðaraukinn við beitingu óviðeigandi aðferðarfræði mun leiða til minni hagvaxtar og minni atvinnusköpunar á Íslandi en ella.  Elías B. Elíasson áætlar, að tjón notenda vegna fyrirsjáanlegs raforkuskorts verði rúmlega ferfalt meðalorkuverð við stöðvarvegg.  Ef t.d. verður 10 % orkuskortur á einu ári af völdum vatnsþurrðar í miðlunarlónum, mun það leiða til kostnaðar, sem nemur um 50 mrðISK/ár.  Íslendingar hafa hreinlega ekki efni á tilraunastarfsemi af þessu tagi við stjórn orkumálanna.

Í lok greinar sinnar skrifar Elías:

"Lausn þessara mála þarf að tryggja orkuöryggi þjóðarinnar, hvort sem hún verður áfram einangruð frá öðrum orkukerfum eða tengd með sæstreng. Hér þarf töluverða þverfaglega vinnu áður en hægt verður að finna viðunandi lausn og ekki ólíklegt, að sú lausn, sem bezt tryggir þjóðarhag, muni rekast á ákvæði þriðja orkupakkans og önnur lög ESB.  

Til að tryggja orkuöryggi almennings þarf að framkvæma þessa vinnu og setja viðeigandi lög áður en þriðji orkupakkinn er afgreiddur.  Finnist ekki leið fram hjá ákvæðum orkupakkans eða öðrum lögum ESB til að tryggja framgang auðlindalaga, verður að fella orkupakkann og koma Íslandi út úr innri raforkumarkaði ESB."

Hér varar kunnáttumaður um raforkumarkaði við grafalvarlegum afleiðingum þess á afhendingaröryggi raforku í einangruðu vatnsorkukerfi, eins og hinu íslenzka, að innfæra hér stjórnkerfi á raforkumarkaði, sem alls ekki er sniðið við okkar aðstæður, heldur við gjörólíkt raforkukerfi, sem einkennist af samtengdu kerfi kjarnorkuvera, kolaorkuvera, gasorkuvera, vindorkuvera og sólarorkuvera.

Það væri blindingsháttur og algert ábyrgðarleysi að hundsa varnaðarorð, sem reist eru á beztu þekkingu um orkumarkaði.  Ef þetta örverpi ESB, sem Þriðji orkupakkinn vissulega er fyrir okkur, verður samt innleiddur hérlendis, og þegar íþyngjandi afleiðingar hans fara að sliga hér samkeppnishæfni landsins, þá verða þeir, sem ábyrgðina bera, að gera hreint fyrir sínum dyrum, og það getur reynzt þrautin þyngri.  

 

 

 

 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband