30.4.2013 | 21:55
"Þannig stjórna jafnaðarmenn"
Dómur kjósenda yfir fyrstu villtu vinstri stjórn sögunnar á Íslandi var kveðinn upp laugardaginn 27. apríl 2013. Kjósendur sýndu enga miskunn, heldur gripu til strangasta dóms í sögunni síðan árið 1931. Téður nýuppkveðinn dómur var fullkomlega verðskuldaður. Einkunnin var lægsta falleinkunn lýðveldissögunnar. Afturhaldsstefnan var jörðuð.
Ferill vinstri stjórnarinnar hefur verið varðaður röð mistaka. Óþarfi er að tíunda Icesave, Landsdóm, Stjórnlagaþing, -ráð, meðferð þingmeirihlutans á afurð ráðsins, sem kjósendur reyndust engan áhuga hafa á í Alþingiskosningunum, skattaáþján, aðför að atvinnuvegum, hálfvolg umsókn um aðildarferli undir felunafninu "að kíkja í pakkann", o. s. frv.
Meinlokur og mistök við framkvæmd náðu slíkum hæðum á ferli fráfarandi ríkisstjórnar, að segja má, að orðið axarskapt einkenni helzt fráfarandi ríkisstjórn. Þess vegna væri við hæfi að gefa henni heitið "Axarskaptið".
Nýr formaður jafnaðarmanna er lítið gæfulegri hinum fyrri og kosningabarátta hans bar merki hins algera dómgreindarleysis, sem hrjáir Árna, beizk. Hann skapaði ringulreið með því að leyfa þeirri gömlu að sitja áfram í embætti, en eitt af seinni mistökum hennar var að rjúfa ekki þing og boða til kosninga, en sitja fremur eins og lömuð fluga í aðgerðarleysi eftir að meirihlutinn hvarf af þingi með stofnun Bjartrar framtíðar.
Sá flokkur mun reynast Samfylkingunni skeinuhættur, og Vinstri hreyfingin grænt framboð mun líka sækja inn á lendur Samfylkingarinnar. Við Samfylkingunni blasir að veslast upp með Árna, beizk, með búrlyklana.
Árni, beizkur, gerði þau reginmistök að árétta veikleika Samfylkingarinnar gagnvart málinu eina, sem öll innanmein íslenzka þjóðfélagsins á að leysa að mati Árna, beizks. Hann hefur enn ekki gert sér grein fyrir því, að helzta kosningamál Samfylkingarinnar virkar á kjósendur eins og að vera boðið að fara inn í brennandi hús.
Árni, beizkur, tjáir sig með eindæma loðmullulegum hætti, svo að oft er ekki heiglum hent að átta sig á, hvert maðurinn er að fara, eða úr hvaða átt hann er að koma. Hvers vegna ættu kjósendur að treysta á holtaþokuvæl ? Eftir kosningar hældi hann sér af því að hafa alla kosningabaráttuna staðið dyggan vörð um almannahagsmuni og aldrei fallið í freistni fyrir sérhagsmunum. Hvernig ber að skilja þetta ? Setur maðurinn jafnaðarmerki á milli þess að berjast fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu, ESB, og fyrir almannahagsmunum ? Hvernig er hægt að vera svona barnalegur og vera á sama tíma formaður í stjórnarflokki ? Ei er kyn, þótt keraldið leki, sagði karlinn. Stórauðvald Evrópu stendur á bak við Berlaymont. Skriffinnarnir þar börðust gegn Íslendingum, Grikkjum o.fl. og fyrir fjármálaveldið. Einn markaður - eitt regluverk - ein mynt. Þetta er sköpunarverk stórauðvaldsins framar nokkru öðru. Árni, beizkur, sleikir skósóla þess, e.t.v. ómeðvitað. Vitið er nú ekki meira en Guð gaf. Stórauðvaldið er ekki alslæmt, en það er óþarfi að ganga á eftir því með lafandi tunguna.
Kata Jak, þessi búálfslegi formaður vinstri grænna, reisti kosningabaráttu sína á hreinum hugarórum. Hún notaði úrelta spá Seðlabankans um 2,0 % hagvöxt í ár til að búa til þá spilaborg, sem er algerlega út í loftið, að svigrúm mundi skapast til að auka ríkisútgjöld um 50 milljarða kr á ári, sem mætti þá setja í heilbrigðiskerfi, menntakerfi og annað. Búálfur þessi er arfaslakur í reikningi og tekur ekkert tillit til þess, að enn er í raun bullandi halli á ríkissjóði og hagkerfið er að líkindum núna komið í svæsinn samdrátt, ef marka má kortaveltuna í marz 2013. Enginn virtist telja það ómaksins vert að andmæla þessum rakalausa málflutningi búálfs vinstri grænna, sem varaði sterklega við öllum tilraunum við að snúa hjól hagkerfisins í gang, því að náttúran yrði að njóta vafans. Þessu höfnuðu kjósendur eftirminnilega. Vinstri stefnan hefur verið grafin, hálfdauð, og þau mistök að leiða hér til valda loddara og lýðskrumara verða vonandi ekki endurtekin á næstunni.
Kjósendur höfnuðu gjörsamlega afturhaldinu, sem hér hefur verið við völd undanfarin rúm 4 ár. Kjósendur hafa fengið sig fullsadda á blaðri um Stjórnarskrána, aðför að sjávarútveginum og að vera beðnir um að ganga inn í hið brennandi hús, ESB. Eyðileggingu áralangrar vinnu sérfræðinga við Rammaáætlun var heldur ekki fagnað. Illyrmislegustu skattpíningu sögunnar var kastað á öskuhauga sögunnar. Framgöngu, sem jaðrar við landráð að hálfu stjórnarflokkanna í s.k. Icesave-máli, var kvittað fyrir í þessum kosningum. Tilefni er til Landsdóms. Er einhver hissa á mestu vantraustsyfirlýsingu lýðveldissögunnar að hálfu kjósenda nú ?
Við þessar aðstæður detta af manni allar dauðar lýs við að frétta af því, að aðalsigurvegara kosninganna, manninum með hið loftkennda umboð, skyldi verða það fyrst fyrir að ræða myndun nýrrar ríkisstjórnar við aðaltaparann, Árna, beizk, af ESB. Það er alger umsnúningur á lýðræðinu, eiginlega er verið að gera lítið úr dómi kjósenda, að ræða við hyskið Árna, beizk, og Kötu Jak, um ríkisstjórnarmyndun, fólk, sem þegar er fullreynt, að ekkert kann og ekkert getur annað en bullað og blaðrað, enda hafa kjósendur hafnað þeim með öllu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.4.2013 | 23:43
Brýn þörf breytinga
Íslenzka hagkerfið hefur enn ekki náð sér á strik eftir bankahrunið haustið 2008. Hagkerfið er enn 5 % minna en það var árið 2007, er það náði hámarki. Þessi kreppa Íslendinga er þess vegna orðin ein langdregnasta efnahagskreppa síðari tíma á Vesturlöndum. Ástæðurnar eru tvíþættar:
Aðalástæðan er sú, að landsmenn hafa frá 1. febrúar 2009 búið við stjórnvöld, sem hafa framfylgt afar andframfarasinnaðri stefnu, ótrúlega þröngsýnni afturhaldsstefnu, sem lýsir sér í því, að þau hafa beitt skattkerfinu ótæpilega til að drepa niður framtak einstaklinga og fyrirtækja, smárra sem stórra, og þau hafa beinlínis fjandskapazt við atvinnulífið í landinu og unnið gegn nýfjárfestingum erlendra sem innlendra aðila. Nóg er að nefna beinan hernað gegn sjávarútveginum, sem er þess vegna, því miður, tekinn að drabbast niður, og fáránlega stefnumörkun ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar, sem hefur af ótrúlegri afdalamennsku verðlagt sig út af markaðinum. Þrátt fyrir lækkandi orkuverð í heiminum vegna aukins framboðs jarðgass og minnkandi eftirspurnar vegna bættrar nýtni og efnahagserfiðleika hvarvetna, hefur Landsvirkjun spennt bogann svo hátt, að hún hefur ætíð skotið yfir markið í viðræðum sínum við fjárfesta undanfarin ár, sem flestir hafa hrökklazt burt.
Hin ástæða erfiðleikanna á Íslandi er, að hagkerfi heimsins er að mestu staðnað, og sums staðar ríkir kreppa. Evrópa er á hrörnunarbraut vegna spennitreyju evrunnar, og ESB, Evrópusambandið, býr við vaxandi vantraust íbúanna í ESB-löndunum, þannig að hátt yfir helmingur íbúanna vantreystir nú Berlaymont , Bandaríkin eru í langvarandi stöðnun undir demókratanum Obama, og Kína er statt í minnkandi hagvexti vegna óhemju sóunar í ríkisstýrðu auðvaldskerfi. Þetta hefur leitt til lækkunar á afurðaverði Íslendinga. Ferðamennskan lofar þó enn góðu, og er það ánægjulegt, þó að kaupmáttur erlendra ferðamanna fari minnkandi.
Íslenzka hagkerfið er allt of lítið til að geta séð öllum landsins börnum fyrir atvinnu, sem kæra sig um að vera á vinnumarkaðinum. Vinnumarkaðurinn þarf að stækka um 10 % á tveimur árum til að fullnægja eftirspurninni. Gjaldeyrisöflunin er allt of lítil, og þarf að aukast um a.m.k. 20 % á 4 árum. Að öðrum kosti mun landflótti halda hér áfram og landið lenda í greiðsluvandræðum gagnvart lánadrottnum. Það er lífsnauðsynlegt að hverfa frá afturhaldsstefnu í landsmálum á Alþingi og til framfarastefnu á öllum sviðum. Hvernig ?
- Endurskoða Rammaáætlun um verndun og nýtingu orkulinda, þar sem hlutlægt mat sérfræðinga ráði. Til að kveða niður ýfingar út af þessu máli mætti leyfa þjóðinni að velja á milli gömlu og nýju Rammaáætlunarinnar. Íhlutunarsamir stjórnmálamenn vinstri vængsins eyðilögðu Rammaáætlun undir kjörorðinu: "vér einir vitum". Ef slagorðið um náttúruna, sem á að njóta vafans, á að leggja til grundvallar, þá er hægt að stöðva öll framfaramál. Skynsamlegra er, að almannahagsmunir njóti vafans.
- Endurnýja stjórn Landsvirkjunar og setja henni ný markmið um öflun nýrra viðskiptavina og aukningu á viðskiptum við þá gömlu. Landsvirkjun sem ríkisfyrirtæki ber að leggja rækt við þjónustu við allar framleiðslugreinar í landinu, landbúnað, sjávarútveg/vinnslu og iðnað, en hverfa frá þóttafullri framkomu við þessa aðila og daðri við gæluverkefni á borð við vindmyllur og sæstreng. Ný ríkisstjórn á að hafa frumkvæði að sjóðstofnun fyrir þrífösun sveitanna á 10 árum með jarðstrengjum og niðurrifi loftlína, sem margar eru afar hrörlegar. Þetta þýðir flýtingu á jarðstrengjaáætlun RARIK um 15 ár og framtíðarfjárfestingu hins opinbera í miklum tækifærum landbúnaðarins í eldsneytisframleiðslu (repja, nepja), fóður- og matvælaframleiðslu.
- Stjórnvöld verða að taka af skarið um uppbyggingu raforkuflutningskerfisins. 400 kV hálendislína er bezta lausnin. Með framförum í burðarþolsfræði eru að koma fram línustólpar, sem eru lítt áberandi eftir að hafa verið málaðir í felulitum. Með þessum hætti verður flutningsgetan tryggð á milli landshluta og stöðugleiki kerfisins í bilunartilvikum tryggður, en hann er ekki fyrir hendi með núverandi álagi og veikri Byggðalínu. Þessi lausn dregur úr þörf á stórum línum í byggð, sem t.d. Skagfirðingar hafa áhyggjur af.
- Vestfirðir eru framtíðar vaxtarsvæði vegna gjöfulla fiskimiða í grennd, gríðarlegra möguleika í fiskirækt og í ferðamennsku á sjó og landi. Innviðir þeirra hafa verið skammarlega vanræktir. Koma þarf á uppbyggðum hringvegi um Vestfirði, svo að komast megi eftir nútímalegum vegum um sunnanverða Vestfirði til Ísafjarðar og til baka um Djúpið og Steingrímsfjarðarheiði. Raforkukerfi og ljósleiðarakerfi Vestfjarða þarf líka að vera hringtengt til að ná viðunandi afhendingaröryggi.
- Illgirni í garð sjávarútvegs í bland við fjárhagslega og rekstrarlega fávísi hefur tröllriðið húsum, þegar stjórnvöld hafa sífellt aukið afskipti sín af sjávarútveginum að því er virðist til að brjóta hann á bak aftur. Vinstri flokkarnir hafa alið á úlfúð og öfund í garð útgerðarmanna, eins og kommúnistar gerðu alltaf til að "réttlæta" þjóðnýtingu. Látið er í veðri vaka, að útgerðarmenn njóti sérstöðu umfram þann atvinnurekstur, sem þarf að kaupa hráefni sitt af öðrum. Þetta er dauðans vitleysa, og stjórnvöld verða að taka þveröfuga stefnu og vinna með sjávarútveginum. Það er dýrt að sækja sjóinn, og útgerðarmenn þurfa að leggja í miklar fjárfestingar til að nýta miðin. Þar að auki ganga réttindin til að nýta miðin kaupum og sölum, og flestir útgerðarmenn hafa keypt þann kvóta, sem þeir ráða yfir núna. Þess vegna er tómt mál að tala um auðlindarentu í þessari grein, og slíkt er aðeins gert í áróðursskyni, en engin hagfræðileg rök búa að baki. Þó að í lögum standi, að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar, má ekki misbeita skattlagningarvaldinu með herfilegum hætti í nafni þjóðareignar. Hverjir hafa hætt fé sínu til að sækja sjóinn ? Téð lagagrein færir ríkinu rétt til að stjórna veiðunum, hversu mikið, hvar og hvenær úr hverjum stofni. Markmiðið er að hámarka afrakstur auðlindarinnar, og það er alþjóðlega viðurkennt, að íslenzka kerfið er þar í fremstu röð, og æ fleiri taka það nú upp. Flaustursleg tilraunastarfsemi með þessa grundvallaratvinnugrein landsins er óábyrg og óverjanleg í ljósi þess, að íslenzki sjávarútvegurinn á í höggi við meira eða minna niðurgreiddan sjávarútveg annarra landa, og engum dettur þar í hug að setja á auðlindagjald, hvað þá með þeim búrókratísku afglöpum, sem viðvaningar í íslenzku stjórnsýslunni hafa gert sig seka um.
- Menntakerfið íslenzka er óskilvirkt og beinir nemendum á rangar brautir, sem eru þjóðhagslega óhagkvæmar og henta þeim ekki. Það verður að fjárfesta meir í verkmenntun og tæknimenntun landsmanna til að sjá vaxandi framleiðslugreinum fyrir fagþekkingu og sérþekkingu í fremstu röð. Ísland á að verða framleiðsludrifið hagkerfi, og í þeim efnum eigum við að leita fyrirmynda hjá vinum okkar Þjóðverjum, hverra nákvæmni, skipulag og tækniþróun er undirstaða öflugusta framleiðsluhagkerfis í heimi, þegar framleiðni og gæði eru tekin með í reikninginn. Við getum átt gott samstarf við þá, þó að við göngum ekki ESB á hönd, sem sumir segja jafngilda því að játast undir agavald Berlínar.
- Öflugt, gjaldeyrisskapandi atvinnulíf, er undirstaða velferðarsamfélags á Íslandi. Til þess að knýja áfram athafnalífið þarf markaðshagkerfi og þar með frjálsa samkeppni, þar sem henni verður við komið. "Marktwirtschaft" kalla Þjóðverjar þetta, og eftir hrun Þriðja ríkisins varð þetta að "Wunderwirtschaft" eða efnahagsundri. Íslendingar geta eignast sitt efnahagsundur, ef þeir kjósa til Alþingis fordómalaust fólk gagnvart athafnalífinu ("no nonsense persons") og jafnframt fólk með þekkingu á lögmálum hagkerfisins.
Hlustum ekki á niðurrifsraddir nöldurseggja. Veitum Sjálfstæðisflokkinum og glæsilegri og þróttmikilli ungri forystu flokksins tækifæri til að sýna, hvað í henni býr.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2013 | 21:50
Gleðiríkt samband
Það væri synd að segja, að ráðherrar ríkisstjórnarinnar, sem tók við völdum 10. maí 2009, séu spámannlega vaxnir. Þeir spáðu hér efnahagslegu alkuli og Íslandi sem "Kúbu norðursins", nema landsmenn létu að vilja Breta og Hollendinga og fylgdu þáverandi stefnu búrókratanna í Berlaymont um ríkisábyrgð á tryggingasjóði innistæðueigenda, sem flestum Íslendingum þótti ærið ósanngjörn og framfylgt af ósvífni á tíðum.
Annað kom á daginn, 28. janúar 2013, um hinn lagalega rétt málsins, enda stóðu rökfastar álitsgerðir virtra lögspekinga til þess, að engar löglegar kvaðir stæðu á ríkissjóðum EES-landanna um slíkt. Ráðherrar og allt þinglið jafnaðarmanna og vinstri grænna opinberuðu þarna yfirþyrmandi dómgreindarskort sinn. Lýðræðisástin var þá ekki meiri en svo hjá vinstri flokkunum, að þeir vildu alls ekki leyfa þjóðinni að tjá vilja sinn í þessum efnum. Sjálfstæðisflokkurinn barðist hins vegar hart gegn Icesave-samningunum í sínum verstu myndum, og hann barðist fyrir því á þingi á öllum stigum málsins, að Icesave-málinu yrði vísað í þjóðaratkvæði. Forseti lýðveldisins reyndist sama sinnis, og þess vegna tókst afturhaldinu við stjórnvölinn ekki ætlunarverk sitt: að smeygja fátæktarfjötrum um háls komandi kynslóða landsins og gera Sjálfstæðisflokkinn að eilífum blóraböggli fyrir vikið.
Landsmenn hafa búið við þá ógæfu nú frá 1. febrúar 2009, þegar Framsóknarflokkurinn leiddi Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím Jóhann Sigfússon til valda, sem aldrei skyldi verið hafa, að eins máls flokkur hefur síðan farið fyrir stjórn landsins. Það er óþarfi að tíunda hér, hvert málið eina er hjá eitraða peðinu í íslenzkum stjórnmálum. Árni Páll Árnason, sem misheppnaðasta pólitíska par seinni tíma á Íslandi, rak úr ríkisstjórn sinni, er beizkur, af því að hann skynjar, að kjörtímabilið, sem nú er við endimark, er tími hinna glötuðu tækifæra. Árni, beizkur, hefur samt ekki pólitískt þrek til að viðurkenna, að málið eina, flokksins hans, er fallið á tíma. Hann getur huggað sig við það, að aðlögun Íslands að stjórnkerfi ESB hefur haft sinn gang, og spurning, hversu mikið þrek verður til að vinda ofan af því, þar sem fjölmörg afar brýn stórverkefni bíða nýrrar ríkisstjórnar eftir dáðleysi undanfarinna ára.
Aðlögunarferlið að Evrópusambandinu, ESB, er farið út um þúfur. Það, sem komið hefur út úr "samningaviðræðunum" hingað til, er, að Íslendingar fá varanlega heimild til að halda í Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, ÁTVR. Sumir mundu nú segja, að úr því að ekki var einu sinni hægt að fá ESB til að færa verzlun með áfengi í evrópskt horf hérlendis (Noregur og Svíþjóð eru undantekning), þá séu þessar viðræður vita gagnslausar.
Málið er hins vegar, að erfiðu málefnakaflarnir, t.d. um landbúnað og sjávarútveg, voru ekki einu sinni opnaðir, af því að ESB féllst ekki á samningsmarkmið Íslendinga þar. Alþingi nestaði utanríkisráðherra með samningsmarkmiðum um fiskveiðistjórnun, verndun dýrastofna og sjúkdómavarnir, sem Stefan Füle, stækkunarstjóri ESB, hefur ekki fellt sig við. Þetta er skýringin á því, að EES-landið Ísland hefur nú staðið í aðlögun að ESB í 4 ár á sviðum, þar sem landið hafði að mestu lagað sig að ESB vegna aðildarinnar að EES, evrópska efnahagssvæðinu, sem er yzta lag ESB. Þetta er fádæma hægagangur, sem sýnir í hnotskurn, hversu illa var vandað til málsins í upphafi. Ætíð sannast heilræði Hallgríms Péturssonar: "það varðar mest til allra hluta, að undirstaðan sé réttlig fundin".
Það var í upphafi óðs manns æði að sækja um aðild að ESB af ríkisstjórn með Vinstri hreyfinguna grænt framboð innanborðs. Á Alþingi, sem kosið var fyrir 4 árum, var ekki meirihluti fyrir því að aðlaga allt stjórnkerfi Íslands að kröfum ESB. Spurningin, sem Íslendingar verða að gera upp við sig, er sú, hvort þeir vilji fara í aðlögunarferli að ESB. Það er einfeldningsleg blekkingartilraun að láta, eins og um eitthvað sé að semja.
Aðlögunin er komin ótrúlega stutt miðað við allan þann tíma og fjármuni, sem veittur hefur verið til viðfangsefnisins, af því að ESB taldi Íslendinga ekki vera tilbúna fyrir erfiðu kaflana. Hér var allan tímann um að ræða "Mission Impossible", og nú er allt strandað. Árna, beizk, og utanríkisráðherrann skortir hins vegar djörfung og raunsæi til að játa sig sigraða. Þá yrðu þeir nefnilega að éta mjög mikið ofan í sig, og kjölfestan færi úr eitraða peðinu.
ESB-þráhyggja jafnaðarmanna, sem ekki er lengur reist á neinum rökum, gerir Samfylkinguna að eitraða peðinu í íslenzkum stjórnmálum um þessar mundir. Enginn getur unnið með jafnaðarmönnum að hugðarefnum þeirra án þess að bíða afhroð sjálfur. Þetta gerðist með Sjálfstæðisflokkinn 2007-2009, þegar eitraða peðið heimtaði sinnaskipti af samstarfsflokki sínum, en Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, sem fer með æðsta valdið um málefni flokksins, hafnaði því að söðla um, enda hefði flokkurinn þá hrokkið af undirstöðu sinni, sem lögð var árið 1929.
Íslenzkir jafnaðarmenn virðast vera fúsir til að fórna fullveldi Íslands varðandi auðlindir landsins, þ.e. að Ísland undirgangist CFP, Common Fisheries Policy, eða sameiginlega fiskveiðistefnu ESB, sem er ein af grunnstoðum ESB og þess vegna "aquis", það sem þegar hefur verið samið um og er þess vegna óumsemjanlegt. Á meðan svo er, verður flokkur Árna, beizks, eitraða peðið í íslenzkum stjórnmálum, sem enginn vill koma nálægt. Þarna liggur átakalínan um auðlindir Íslands. Verður síðasta orðið um nýtingu þeirra í Reykjavík eða í Brüssel ? Spyrjið Breta um, hver reynsla þeirra er af auðlindastjórnun búrókratanna í Brüssel.
Að þessu sögðu verður að taka fram, að fáránlegt væri hér að fullyrða, að afstaða Íslands til ESB gæti ekki breytzt, t.d. á þessum áratugi. Ástæðan er sú, að ESB er í gerjun. Berlaymont og Seðlabanki evrunnar í Frankfurt reka mikla aðhaldsstefnu í fjármálum, sem fellur ýmsum evruþjóðanna illa í geð, einkum rómönskum, keltneskum og grískumælandi þjóðum, en germönsku þjóðirnar ráða ferðinni enn sem komið er. Engilsaxar, sem Íslendingar hafa náin viðskiptaleg, menningarleg og stjórnmálaleg samskipti við, sitja á gerðinu og hugsa sitt ráð. Ríkisstjórn Engilsaxa er samsteypustjórn, aldrei þessu vant, þar sem annar flokkurinn, Íhaldsflokkurinn, er mjög gagnrýninn á samþjöppun valds í Berlaymont byggingunni í Brüssel, en hinn flokkurinn, Frjálslyndir, er ESB-sinnaður. Samt stefnir David Cameron, forsætisráðherra Breta, á að freista þess að semja við ESB um endurheimtur valda til brezka þingsins, og síðan eftir næstu þingkosningar að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Breta að ESB; auðvitað að því gefnu, að Íhaldsflokkurinn vinni þingkosningarnar.
Það er alveg áreiðanlegt, að vandamál ESB og evrunnar eru svo yfirþyrmandi, að ESB stenzt ekki í sinni núverandi mynd. Evru-löndin eru að verða argvítugri kreppu að bráð, sem bæði er af stjórnmálalegum og efnahagslegum toga, og ef stjórnmálamönnum tekst ekki að finna lausn, þá verður uppreisn í einhverju landanna, sem síðan mun breiðast út. Vegna þessa ástands munu allir, búrókratar í Berlaymont meðtaldir, að undanskildum Árna, beizk & Co., verða guðsfegnir, þegar nýtt Alþingi afturkallar heimild til ríkisstjórnarinnar um frekari aðlögun Íslands að ESB. Þetta sama Alþingi mun svo biðja um umboð þjóðarinnar eða höfnun á því að fara í fulla aðlögun að ESB, en ekki leggja spurningu fyrir þjóðina, sem stríðir gegn reglum ESB um aðildarferlið.
Þorsteinn Þorgeirsson, sérstakur ráðgjafi á skrifstofu bankastjóra Seðlabanka Íslands, ritar athygliverða grein í Morgunblaðið þann 17. apríl 2013, sem útskýrir harða stefnu Bundesbank, þýzka seðlabankans, og ECB, Seðlabanka evrunnar í Frankfurt:
"Það er vel þekkt í hagfræði, að miklar skuldir leiða til þess, að vextir hækka, en það dregur úr hagvexti og velferð. Rannsókn Carmen Reinhart, Vincent Reinhart og Kenneth Rogoff frá árinu 2012, sýnir, að fari skuldir ríkissjóðs yfir 90 % af landsframleiðslu um fimm ára skeið, hefur það áhrif til að lækka hagvöxt um 1 % á ári. Sama ár gerðu Pier Carlo Padoan, Urban Sila og Paul van den Noord ítarlega rannsókn á sambandi opinberra skulda og hagvaxtar á grundvelli gagna fyrir öll OECD-ríkin, þ.m.t. Ísland, yfir 50 ára tímabil, 1961-2011. Þar kom í ljós, að opinberar skuldir geta verið annaðhvort í góðu eða slæmu jafnvægi. Ef skuldir eru hóflegar og dregur úr þeim, lækka vextir, og hagvöxtur verður meiri, sem síðan leiðir til þess, að skuldirnar minnka meira. Það er hið góða jafnvægi. Rannsókn þeirra leiddi einnig í ljós, að verði skuldir of miklar, geta þær orðið óviðráðanlegar. Þá hækka vextir og hagvöxtur minnkar. Við það aukast skuldirnar, og ferlið getur orðið stjórnlaust. Það er hið slæma jafnvægi. Fórnirnar, sem þarf að færa til að ná tökum á fjármálum í slæmu jafnvægi verða margfalt meiri."
Hér sjáum við í hnotskurn, hvað býr að baki aðgerða þríeykisins, ESB, AGS og ECU, gagnvart jaðarríkjum evrusvæðisins í vanda. Hvort er betra að fá á sig spennitreyju, sem klæðskerasaumuð er af þríeykinu, eða í krafti fullveldis eigin lands að klæðskerasauma sjálf eigin flík ? Það eru öll teikn á lofti um, að Ísland sé, eftir fjögurra ára óstjórn efnahagsmála, í hinu "slæma jafnvægi", og okkur ríður á að snúa sem allra fyrst af þeirri ógæfubraut til að lenda ekki í klónum á lánadrottnum okkar og AGS aftur. Afturhaldið hafði enga burði til að fást við þetta risaverkefni á árunum 2009-2013, þó að ekki vantaði, að það barmaði sér vegna álags í ráðherraembættum. Þau kunnu ekki að vinna og eyddu orku, tíma og fjármunum hins opinbera í aukaatriði og í niðurrif samfélagsstoðanna.
Nú standa margir frammi fyrir því að gera upp við sig, hvernig þeir stuðla bezt að farsælli úrlausn á risavöxnum viðfangsefnum íslenzka samfélagsins með atkvæði sínu laugardaginn 27. apríl 2013. Það er hægt að gefa einfalda uppskrift. Það er líklegast til árangurs að leysa sem allra mestan kraft úr læðingi í athafnalífinu til að sem mest verði til skiptanna á milli landsins og barna og hins opinbera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2013 | 18:31
Fjárkúgun
Framsóknarflokkurinn skákar í því skjólinu, að enginn reki hljóðnemann upp í snjáldrið á "hrægamminum", sem er heiti framsóknarmanna á aðalandstæðingi þeirra fyrir kosningarnar 27. apríl 2013, til að leita eftir viðbögðum téðs "hrægamms" við stærstu kosningablekkingu Íslandssögunnar, sem er í boði Framsóknarflokksins á kostnað "hrægammsins" og valda mundi óðaverðbólgu hér, ef loforðið yrði efnt.
Fé "hrægammsins" hefur verið haldið í gíslingu með lögum um gjaldeyrishöft árum saman, og nú lofar Framsóknarflokkurinn því að sleppa þessu fé úr gíslingu gegn því, að "hrægammurinn" greiði lausnargjald upp á 300 milljarða kr eða svo. Undir samheitinu "hrægammur" hér eru m.a. norrænir lífeyrissjóðir, lánadrottnar gömlu bankanna og verktakar þeirra. Framsóknarflokkurinn ætlar þar með að höggva í sama knérunn, og þjóðarnauðsyn bar til með Neyðarlögunum haustið 2008, sem alltaf hefur þótt ógæfumerki.
Fram til þessa hafa "hrægammarnir" fengið sáralitlar greiðslur út úr búunum. Ef málum mun verða skipað með hagkvæmum hætti fyrir "hrægammana", á íslenzka þjóðin þá rétt á hlutdeild í hagnaði þeirra ? Sennilega á hún svipað tilkall til þeirrar hagnaðarhlutdeildar og kröfuhafarnir, sem seldu "hrægömmunum" þessar kröfur, eiga heimtingu á því, að íslenzka þjóðin deili með þeim tapinu af þessum viðskiptum. Lögfræðilega er þessi hugmynd framsóknarmanna hæpin, en það kann þó að myndast eitthvert löglegt svigrúm til samninga í tengslum við losun gjaldeyrishafta. Hér veldur þó, hver á heldur, en það er fullkomið ábyrgðarleysi að fara á flot með kosningaloforð um hlutdeild í fé, sem ríkið á enga heimtingu á.
Að beita þvingunum af ýmsu tagi við samningsgerð stríðir gegn íslenzkum lögum nr 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógildingu löggerninga. Atferlislýsingar framsóknarmanna minna ekki á neitt annað en fjárkúgun, sem þeir munu áreiðanlega verða gerðir afturreka með fyrir íslenzkum dómstólum, geri þeir alvöru úr fyrirætlunum sínum. Hörð framganga á þessum vígstöðvum veitti þess vegna aðeins Phyrrosarsigur, sem er ekki eftirsóknarverður fyrir íslenzka ríkið.
Að beita þvingunum við kröfuhafana er löglaus aðferð og mun þess vegna engu skila. Það er hins vegar ekki hægt að útiloka samning á milli ríkisins og fulltrúa kröfuhafa föllnu bankanna í tengslum við afnám gjaldeyrishaftanna, sem felur í sér einhverja eftirgjöf fjár, greiðslur til ríkisins eða skattlagningu. Þá er einboðið, að sú eftirtekja gangi til ríkissjóðs og fari til greiðslu skulda hans. Mikilvægast af öllu við stjórn ríkisfjármálanna á næsta kjörtímabili verður að draga úr vaxtabyrði ríkissjóðs, sem nú er um 90 mia kr á ári eða um 15 % af útgjöldum ríkissjóðs.
Ef samningar nást um, að ríkið yfirtaki innlendar eignir þrotabúanna gegn því, að þau fái að taka hluta eða allar erlendar eignir búanna úr landi, væri hægt að minnka peningamagn í umferð og þar með áhættuna við losun haftanna, þar sem þessar "kviku" krónueignir setja helzt þrýsting á krónuna niður á við við losun haftanna.
Verði þessu fé hins vegar varið til að þjóðnýta skuldir landsmanna, mun peningamagn í umferð aukast á ný, sem gera mun ókleift að afnema gjaldeyrishöftin. Þetta mundi hafa í för með sér mikla verðbólgu hérlendis, neikvæðan greiðslujöfnuð við útlönd og lækkun á gengi krónunnar, þar sem innflutningur mundi aukast við skyndilega skuldalækkun landsmanna. Eru skuldarar þá nokkru nær ?
Hagspekingur undir höfundarnafninu "Óðinn" skrifar eftirfarandi í Viðskiptablaðið, 11. apríl 2013:
"Hugmyndir Framsóknarflokksins grafa undan losun haftanna og þar með, að efnahagslífið komist af stað á ný og laun og fasteignaverð taki að hækka. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur haldið því fram, að með því að gefa skuldurum fjármuni þá muni neyzla þeirra snúa hjólum efnahagslífsins í gang. Þetta hefur nú þegar verið reynt með útgreiðslu séreignarlífeyrissparnaðar, sem hafði töluverð áhrif á einkaneyzlu án þess, að það ýtti undir sjálfbæran hagvöxt. Tiltölulega lítill hluti af neyzlu heimilanna er innlend framleiðsla, þannig að peningainnspýting af þessu tagi eykur miklu frekar innflutning á vöru og þjónustu en innlenda framleiðslu. Íslenzk heimili þurfa ekki á ölmusu frá ríkinu að halda, enda lendir reikningurinn af henni alltaf á heimilunum sjálfum. Heimilin þurfa á auknum sparnaði að halda og lagaumgjörð, sem stuðlar að aukinni fjárfestingu. Þannig geta heimilin borgað skuldir í stað þess að velta þeim á milli sín í kosningum á fjögurra ára fresti."
Hin alræmda afturhaldsríkisstjórn 2009-2013 á mikla sök á því, hvernig komið er. Ráðherrarnir gorta af því í tíma og ótíma að hafa lækkað árlegan halla á rekstri ríkissjóðs úr 216 mia kr í 3 mia kr. Þetta er blekking af ómerkilegasta tagi, sem sameignarsinnarnir éta hver upp eftir öðrum. Einskiptis kostnaður féll á ríkissjóð 2009 vegna Hrunsins, en ráðherrarnir gefa jafnan í skyn, að um kerfislægan halla hafi verið að ræða. Það er tóm vitleysa, af því að ríkisstjórnin á undan hafði stöðugt lækkað skuldirnar og vaxtabyrðin var orðin léttbær. Öll fjárlög afturhaldsins hafa reynzt vera út í loftið. Árið 2012 voru þau með 20 mia kr halla, en reyndin varð þreföldun hallans við árslok. Fjárlagahallinn síðustu 4 árin nemur samtals 460 mia kr, halli Íbúðalánasjóðs á sama tíma nemur 150 mia kr, og hallinn á lífeyrissjóði opinberra starfsmanna nemur á þessu tímabili yfir 500 mia kr. Þetta sukk sameignarsinna á kostnað afkomenda okkar er um 1100 mia kr skuldahali. Ráðherrar og þingmenn hennar gera ekkert annað en kenna öðrum um, hvernig komið er. Þeir áttu ekki annað erindi í valdastólana en að vinna skemmdarverk á hagkerfinu. Þeir komu tómhentir og fara trausti rúnir.
Allir sjá, að afturhaldinu er engan veginn treystandi, hvorki fyrir stjórnun ríkisfjármála né almennri hagstjórn. Þau náðu engum tökum á verkefnum sínum, voru úrræðalaus varðandi hagvaxtarhvetjandi aðgerðir og án nokkurrar uppbyggilegrar framtíðarsýnar fyrir þjóðfélagið. Verðbólgan, sem einnig er mælikvarði á frammistöðu stjórnvalda, hefur verið um þreföld á við verðbólgu í helztu viðskiptalöndum Íslands.
Verðbólgan er vágesturinn. Til að sporna við honum ber að hvetja til sparnaðar með lækkun fjármagnstekjuskatts í 10 %, hagstæðum sparnaðarleiðum í bönkum, með traustum verðbréfamarkaði, með því að endurlífga hlutabréfamarkaðinn og síðast en ekki sízt með því að hækka ráðstöfunartekjur fólks með lækkun á beinum og óbeinum sköttum.
Það þarf að örva fjárfestingar með arðsemihvötum, svo sem lækkun á tryggingagjaldi til að hvetja fyrirtæki til stækkunar, og lækkun á tekjuskatti fyrirtækja niður í 15 %. Einkum er brýnt að örva fjárfestingar í gjaldeyrissparandi og gjaldeyrisskapandi greinum til að ráðrúm fáist til að greiða niður erlend lán og til að krónan styrkist fremur en hitt. Staða þjóðarbúsins leyfir þó vart sterkari krónu en 115 kr/USD til lengdar á næstunni.
Afturhaldið hefur starfað með öfugum klónum; hagstjórn þess hefur verið í skötulíki og fylgt hefur verið löngu úreltum hagstjórnarkenningum um ofurskattlagningu fyrirtækja og borgarastéttarinnar, sem gamlir hagfræðingar lærðu austan járntjalds á sinni tíð. Þetta athæfi hefur spennt upp verðlagið í landinu með 200 skattahækkunum, sem felast í nýjum sköttum, nýjum skattþrepum og almennt mikilli hækkun skattheimtu. Með þessu háttarlagi hefur afturhaldið rænt fjölskyldur í landinu 20 % af kaupmætti sínum, án þess að lækna ríkisbúskapinn af þrálátum halla, og valdið slíkri stöðnun hagkerfisins, að enn vantar 5 % upp á að ná jafnhárri landsframleiðslu og 2007 að raunvirði þrátt fyrir gott árferði til lands og sjávar. Þetta er með eindæmum lélegur árangur, enda verðskuldar ríkisstjórnin falleinkunn. Eftirmæli einnar ríkisstjórnar geta vart orðið ömurlegri en afturhaldsins 2009-2013, enda stendur nú fyrir dyrum að kasta því á öskuhauga sögunnar með brauki og bramli.
Ofurskattheimtan hefur auðvitað skilað miklu minnu í ríkissjóð en vinstri menn voru búnir að reikna með. Þeir skilja ekki lögmál vestrænnar hagfræði. Skýringarnar eru sígildar. Hagkerfið hefur leitað í auknum mæli undir yfirborðið, og fólk breytir atferli sínu til að verjast ósanngjarnri skattheimtu. Þar sem núverandi skattheimtustig (á lárétta X-ásnum) er hægra megin við topp svo kallaðrar Laffler kúrfu, þá munu skattekjur (á lóðrétta Y-ásnum) aukast við það að draga úr skattheimtunni fyrst í stað samkvæmt svo kölluðu Laffler-lögmáli. Þetta mun verða enn meira áberandi, ef lögð verður fram í upphafi kjörtímabils trúverðug efnahagsstefna, er spanni allt kjörtímabilið.
Flest bendir til, að Framsóknarflokkurinn verði í lykilstöðu eftir komandi kosningar. Sá flokkur hefur ekki skattalækkanir á sinni stefnuskrá. Óðaverðbólga og veik króna verða óhjákvæmilegir fylgifiskar af framkvæmd stefnu hans og hafa löngum fylgt Framsóknarflokkinum.
Það eru miklar líkur á, að Framsóknarflokkurinn muni leita til vinstri um stjórnarsamstarf. Það sýnir saga flokksins. Eitraða peðið á vinstri vængnum, eins máls flokkurinn, sem VG hefur tapað um 15 % fylgi á að vera í einni sæng með, mun kosta öllu til að komast að kjötkötlunum, því að ella bíður ekkert annað en enn meiri sundrung, því að nýi formaðurinn, sem virðist við það að fara af hjörunum nú orðið, er enginn bógur til að halda saman flokki, sem glatað hefur trausti landsmanna. Hvor stjórnarflokkanna gengur nú til kosninga í þrennu lagi, og er þar með sundrung vinstri manna innsigluð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2013 | 20:59
Loftkastalar
Framsóknarflokkurinn hefur fyrir kosningarnar 27. apríl 2013 varpað fram stærsta kosningaloforði Íslandssögunnar, eitthvað um 300 milljörðum kr. Ef rétt er skilið, á að verja téðu fé til að veita öllum fjárhagsstyrk, sem svo stóð á í október 2008, að skulduðu fé í húsnæði, og lánið var vísitölutryggt. Frakkir eru framsóknarmenn.
Hér er um grófa mismunun landsins barna að ræða, og engin þarfagreining virðist vera undanfari fjárúthlutunar. Þannig er engin tilraun gerð til að beina fénu fremur þangað, sem brýn þörf er fyrir það. Styrkurinn mun einvörðungu taka mið af upphæð "stökkbreytingarinnar" óháð því, hvort lánþeginn er með 5 milljónir í árstekjur, 15 milljónir eða 50 milljónir. Stóreignamaður á ekki síðri rétt til "leiðréttingar á stökkbreytingu" en unga fjölskyldan, sem var að kaupa sér sína fyrstu íbúð af veikum efnum. Hvernig má það vera, að önnur eins kosningabrella og þetta skuli ná hljómgrunni á meðal almennings ? Er nóg að hrópa á torgum, að við "hrægammasjóði" sé að eiga ? Það er mjög glannaleg fullyrðing, þegar engar opinberar upplýsingar eru til um þessa kröfuhafa, en líklegt er hins vegar, að í þessum hópi séu íslenzkir lífeyrissjóðir, upphaflegu kröfuhafarnir, verktakar þeirra, skuldabréfasjóðir og einhverjir vogunarsjóðir, sem keypt hafa kröfur.
Þeir, sem Framsóknarflokkurinn ætlar að láta blæða, eru að miklu leyti þeir, sem þegar hafa tapað stórfé á viðskiptum sínum við íslenzku bankana. Það á sem sagt að höggva tvisvar í sama knérunn. Hið fyrra skiptið var algerlega óhjákvæmilegt, og allar útgáfur Icesave-ánauðarinnar voru ósamþykkjanlegar, en nú ber að horfa til framtíðar og taka tillit til lánstrausts landsins og hvata fjárfesta til að fjárfesta á Íslandi á næstu misserum. Erlendar fjárfestingar eru orðnar okkur lífsnauðsynlegar. Við erum að lokast inni í hrörnandi samfélagi sameignarsinna. Herkví haftanna þarf að brjótast út úr. Framsóknarflokkurinn getur unnið landinu óbætanlegt tjón í fjölda ára, ef hann verður látinn komast upp með offorsið.
Í þjóðfélagi, þar sem skuldir eru bókstaflega að sliga ríkissjóð og reyndar ýmis sveitarfélög, er ekki unnt að sætta sig við ráðstöfun opinbers fjár með þeim hætti að kemba öllum með einum kambi án tillits til efnahags. Það er mun eðlilegra og sanngjarnara að nota allt, sem rekur á fjörur ríkissjóðs, til að greiða niður skuldir hans.
Það er þó ekki nóg með, að ráðstöfun fjárins sé algerlega óviðunandi. Hvernig á að afla þess eða ná því er óljóst, hversu há upphæðin verður er algerlega í þoku, og hvenær þessar upphæðir munu streyma til Seðlabanka Íslands eða í ríkissjóð veit enginn.
Þetta kosningaloforð er þess vegna algerlega óboðlegt og má jafnvel kalla siðferðilega óverjandi. Framsóknarflokkurinn hefur tekið gríðarlega áhættu, og hann er að uppskera vel í skoðanakönnunum, en hann er á hrikalega hálum ísi, þegar kemur að efndunum, og það er ekki til bóta fyrir samningamenn Íslands að vera með stjórnmálaflokk í valdastöðu, sem sýnt hefur á spilin þeirra, eins og talsmenn Framsóknarflokksins hafa gert. Enginn stjórnmálaflokkur er fús til að taka undir með Framsóknarflokkinum. Vinni flokkurinn stórsigur í kosningunum, er réttast, að hann myndi minnihlutastjórn til að koma kosningaloforði sínu í framkvæmd. Hann mun fljótlega guggna.
Lögfræðingar eru teknir að vara alvarlega við aðalkosningaloforði Framsóknarflokksins, og er grein Eiríks Elísar Þorlákssonar, lögfræðings, í Morgunblaðinu 16. apríl 2013 dæmi um slíkt. Hann skrifar m.a.:
"En hvaða líkur eru nú á því, að samningar um efnið hafi yfir höfuð nokkurt gildi ? Framsóknarmenn segjast ætla að gera þetta allt saman með "samningum". "Hrægammarnir" eiga hér að vísu mikið fé, en það fé hafi verið tekið í gíslingu og verði ekki sleppt, nema með "samningum" um, að "hrægammarnir" taki að sér að borga kosningaloforð Framsóknarflokksins á útleiðinni. Ef "hrægammarnir" vilji ekki semja, þá verði féð bara fast hér áfram og höftin föst í sessi. En hvaða gildi hefði slíkur "samningur" ? Allir lögfræðingar þekkja svokallaða ógildingarreglu samningaréttarins, sem á fræðimáli heitir 36. grein laga 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þar segir, að samningi megi "víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig". Við mat á þessu skuli líta til "efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina, og atvika, sem síðar komu til". Það er augljóst, að samningur, sem menn skrifa undir með byssuhlaup við gagnaugað, hefur ekkert gildi fyrir dómi. Þegar annar samningsaðilinn, íslenzka ríkið, hefur öll ráð hins í hendi sér með löggjafarvaldinu og heldur eigum gagnaðilans föstum árum saman til þess að knýja hann til samningsgerðar, er augljóst ójafnræði með þeim. Hvaða gildi mun slíkur samningur hafa fyrir dómi ? Þar dugir ekki að kalla gagnaðilann bara "hrægamm", eins og gefst víst vel í kosningabaráttu. Hversu líklegt er, að þeir "samningar", sem Framsóknarflokkurinn segist ætla að gera við ónafngreinda "hrægamma", og borga þannig stærstu kosningaloforð Íslandssögunnar, muni hafa mikið gildi, þegar þeir koma fyrir dómstóla ? Varla heldur neinn, að gagnaðilarnir láti ekki reyna á gildi samninganna. Sjálfir hrægammarnir."
Lögin, sem Eiríkur Elís vitnar til, eru mörgum þekkt, enda hefur margoft verið dæmt eftir þeim, einnig í Hæstarétti. Það má þess vegna hverjum leikmanni vera ljóst, að í þetta sinn er leið framsóknarmanna lögfræðileg ófæra. Ólíkt grasrótarsamtökum á borð við Indefence samtökin í Icesave-málinu þá er ljóst, að Framsóknarflokkurinn hefur alls ekki lögin með sér í þessu "hrægammamáli". Framsóknarflokkurinn mun verða étinn af hrægömmum í réttarsölunum, láti hann til skarar skríða.
Þá er spurningin, hvort aðrar leiðir séu færar til að leggja hald á hluta af þessu fé, t.d. útgönguskattur. Það eru fordæmi fyrir slíku, og rannsaka þarf rétt ríkisins til síkrar skattlagningar og þá, hversu há slík skattheimta megi verða, svo að ekki verði talin hætta á, að hún brjóti reglur meðalhófs og kalli á málssókn, sem ríkið ætti erfitt með að verjast.
Til að losa um gjaldeyrishöftin, sem er aðalmálið fyrir þrifnað íslenzka hagkerfisins, þarf gott samstarf við erlendar lánastofnanir, og óbilgirni á ekki heima í komandi samningaviðræðum við kröfuhafana, sem við munum þurfa að eiga áfram í viðskiptum við, því að s.k. vogunarsjóðir koma hér alls ekki einir við sögu, heldur gömlu lánastofnanirnar og aðrar, sem við munum þurfa að eiga fagleg samskipti við. Gegn samninganefnd kröfuhafanna verður að tefla úrvalslögfæðingum og fjármálasérfræðingum í samninganefnd Íslands, og íslenzk stjórnvöld verða að sýna refshátt, klókindi og þrautseigju. Galgopaháttur og stórkarlaleg loforð eru slæmt veganesti fyrir stjórnvöld, sem þurfa að vera samninganefnd Íslands traustur bakhjarl. Til þess eru vítin að varast þau.
Myndin hér til hliðar sýnir árlega hækkun vísitölu neyzluverðs á Íslandi á 30 ára skeiði. Hún gefur ekki til kynna, að verðbólgan ein og sér hafi skapað "forsendubrest", sem ekki séu dæmi um á seinni tímum. Viðbótar skýringa á miklum greiðsluerfiðleikum margra er að leita í hagstjórn ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Hagkerfið er enn í djúpri kreppu eftir Hrunið haustið 2008, og þetta ástand verður alfarið að skrifa á reikning afturhaldsaflanna við stjórn landsins, sem hafa verið atvinnueyðandi og athafnalamandi.
Á árinu 2012, 4 árum eftir bankahrun, var verg landsframleiðsla enn 5 % lægri en hún var árið 2007. Afturhaldsstjórn hefur kostað hverja fjölskyldu landsins um eina milljón kr á ári í tekjumissi. Stöðnun og fátækt er gjaldið fyrir vinstri stjórn.
Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur þó dregizt mun meira saman en þessu nemur. Heimilin hafa verið látin taka á sig 20 % skerðingu ráðstöfunartekna samkvæmt gögnum Hagstofunnar. Þarna munar mest um stóraukna skattheimtu ríkis og sveitarfélaga og verðbólgu umfram launahækkanir. Þarna er vandamálið í hnotskurn. Ofan af hamslausri skattheimtu, sem er með þeirri hæstu í heiminum, þegar iðgjald til lífeyrissjóða er meðtalið, lausatökum á ríkisfjármálunum, svo að hallinn hefur verið um 6 % á ári (tvöfalt Maastricht-hámark) og fjárfestingafjandsamlegri hegðun stjórnvalda, verður að vinda strax. Það er lausnin á vanda heimilanna. Um þetta ritar prófessor Ragnar Árnason í Morgunblaðið þriðjudaginn 16. apríl 2013:
"Nú líður að kosningum. Miklu skiptir, að til forystu veljist ábyrgir einstaklingar og flokkar, sem bera skynbragð á efnahagsmál og hagsmuni þjóðarinnar til lengri tíma. Verði ekki gjörbreytt um efnahagsstefnu, er nánast öruggt, að kaupmáttur og lífskjör hér á landi munu halda áfram að dragast aftur úr nágrannalöndunum. Þá er ekki að sökum að spyrja. Mannauðurinn heldur áfram að streyma til útlanda og það sennilega í ríkari mæli en áður. Beztu fyrirtækin munu fylgja með. Fjárfestingar munu ekki ná sér á strik og fjármagnsstofninn smám saman dragast saman og úreldast. Íslendingar verða eftirbátar nágrannaþjóðanna til frambúðar."
Gegn fjárkúgun Framsóknarflokksins, sem auðvitað er ólögleg og mun þess vegna engu skila í vasa skuldugs fólks á Íslandi, og með Sjálfstæðisflokkinum í framfarasókn til eflingar atvinnulífsins til að skapa fleiri störf og til að hækka ráðstöfunartekjur heimilanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2013 | 09:31
Hvað er um að vera ?
Sjálfstæðismenn rekur í rogastans. Fylgiskannanir frá uppkvaðningu dóms EFTA-dómstólsins í máli ESA og ESB gegn Íslandi benda til flótta ótrúlega margra stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins til Framsóknarflokksins. Þetta er að mörgu leyti furðulegt, því að þetta flóttafólk hefur væntanlega stutt flokkinn af hugsjónaástæðum og vill enn vinna þeim hugsjónum brautargengi. Heldur þetta fólk, að hægt sé að kjósa Framsóknarflokkinn til að framfylgja stefnu Sjálfstæðisflokksins ? Því fer víðs fjarri, að það sé raunhæft. Téður flótti er ei til farsældar fallinn, og hætt er við, verði kosningaúrslit í líkingu við núverandi spár, að margt borgaralega sinnað fólk eigi eftir að verða fyrir megnum vonbrigðum. Enn er unnt að stemma á að ósi.
Framboðakraðakið fyrir Alþingiskosningarnar í apríl 2013 er afbökun á lýðræðinu, af því að nýju framboðin eru einfaldlega ekki nógu frumleg og uppbyggileg, hafa upp á lítið bitastætt að bjóða. Þetta eru mest megnis niðurrifsöfl og naflaskoðarar, en frá því eru þó undantekningar. Þau bera þess vegna í sér dauðann og valda því, að mikill fjöldi atkvæða mun falla dauður niður, og þau taka athygli og kynningartíma frá þeim stjórnmálasamtökum, sem einhvern raunhæfan möguleika eiga til áhrifa á komandi Alþingi. Þau eiga ekki erindi sem erfiði. Guði sé lof fyrir 5 % þröskuldinn.
Þrennt skýrir Spútnikferli Framsóknarflokksins, þó að óljóst sé um skotpall þessa Spútniks, sem reyndar er dæmdur til að verða skotinn niður, vonandi þó fyrir kosningarnar, enda er flugskeytum nú beint að þessum furðulega Spútniki. Hann er með nokkra frambærilega frambjóðendur, t.d. Vigdísi Hauksdóttur, en líka afleita frambjóðendur, eins og Eygló Harðardóttur, sem studdi alræmda, háðuglega sneypuför vinstri sinnaðra ofstækisþingmanna á síðasta þingi á hendur fyrrverandi forsætisráðherra, Geir Hilmari Haarde, sem vann það sér þó til ágætis að vera í forystusveit þeirra, sem björguðu landinu frá gjaldþroti með Neyðarlögunum.
Hér skal fullyrða, að hvert og eitt einasta atkvæði greitt Framsóknarflokkinum í kosningunum 27. apríl 2013 mun færa okkur nær nýrri vinstri stjórn í landinu, sbr hegðun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og kumpána hans veturinn 2009, er hann kom vinstri stjórn á koppinn og varði hana síðan falli. Ástæðan er þessi:
veiktum Sjálfstæðisflokki mun ekkert verða ágengt með stefnumál sín í stjórnarmyndunarviðræðum við styrktan og óbilgjarnan Framsóknarflokk, sem mun telja sig geta deilt og drottnað sem stærsti stjórnmálaflokkur landsins, þó að allt sé slíkt á röngum forsendum og náð með hreinum spuna glannafenginna áróðursmanna, sem tóku mikla áhættu í þessu tilviki, enda mun fall þeirra verða mikið. Eftir að upp úr þeim viðræðum slitnar, mun Framsóknarflokkurinn óðara, ef ekki áður, svo óheill, sem hann hefur löngum verið, snúa sér til vinstri, og lamaðir og laskaðir vinstri flokkar munu fórna öllum sínum stefnumálum fyrir það að fá að skríða undir pilsfald maddömunnar. Ef það er rétt, að aðalútrásargaurinn, Jón Ásgeir Jóhannesson, hafi nú ákveðið að veðja á Framsóknarflokkinn í stað Samfylkingar, kann að verða stutt í, að Framsóknarflokkurinn söðli aftur um í afstöðunni til ESB. Miðjumoðsflokka skortir alla kjölfestu.
Í Morgunblaðinu 13. apríl 2013 birtist viðtal Péturs Blöndals, blaðamanns, við formann Framsóknarflokksins, Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Við lestur viðtalsins rennur það upp fyrir lesanda, að meginkosningaloforð Framsóknarflokksins er reist á draumsýn og er í raun hreinræktað lýðskrum. Hugmyndin um endurgreiðslur úr ríkissjóði, því að ríkið á allt það fé, sem hugmyndin er að svíða út úr lánadrottnum gömlu bankanna, renni til allra þeirra, sem skulduðu í íbúðahúsnæði, þegar Hrunið varð, er jafnfráleit og hún er ósanngjörn. Ástæður þessa eru eftirfarandi:
- Eignastaða þeirra, sem lán tóku fyrir íbúðahúsnæði fyrir árið 2006, er að öðru jöfnu betri núna en áður en þeir fjárfestu í téðu húsnæði, þ.e. téð húsnæði er meira virði núna að raunvirði en fyrir 2006. Þetta fólk getur þess vegna losað sig úr kröggum, hafi það lent í greiðsluvanda, þó að laun séu að raunvirði lítið lægri en fyrir 2006, með því að selja og/eða skipta um húsnæði.
- Að sáldra hundruðum milljarða til allra, sem skulduðu í húsnæði í október 2008, er mjög ósanngjörn stjórnvaldsaðgerð gagnvart þeim, sem svo stóð ekki á, að þeir skulduðu, og mun óhjákvæmilega valda deilum um framkvæmdina, og ójafnræðið, sem slík framkvæmd hefur í för með sér, stríðir gegn lögum og Stjórnarskrá. Þetta stærsta kosningaloforð sögunnar á Íslandi er svo stórt í sniðum, að það mun kveikja hér verðbólgubál, verði það raungert, og er þá augljóslega ver farið en heima setið.
- Það er tóm vitleysa hjá Framsóknarmönnum, að íslenzka ríkið eigi varðandi gömlu bankana að mestu leyti í höggi við einhverja hrægammasjóði. Gömlu lánadrottnarnir eru þarna að mestu leyti enn þá, þó að þeir hafi að sumu leyti, e.t.v. að helmingi, fengið verktökum það verkefni að innheimta kröfur sínar. Með Neyðarlögunum haustið 2008, sem Geir H. Haarde hafði forgöngu um, var Íslandi bjargað frá gjaldþroti í óþökk fjármálaveldis heimsins, ekki sízt innan Evrópusambandsins, ESB. Þá urðu þessir lánadrottnar að taka á sig skellinn af því að hafa verið blekktir upp úr skónum af óprúttnum og glannafengnum stjórnendum gömlu bankanna. Hart var sótt að Íslandi út af þessu frá haustinu 2008 til 28. janúar 2013, þegar EFTA-dómstóllinn kvað upp sinn dóm. Nú ætlar Framsóknarflokkurinn að höggva í sama knérunn. Að höggva tvisvar í sama knérunn þótti ógæfumerki til forna, og í þessu tilviki er ekki hægt að bera fyrir sig þjóðhagslega neyð, upplausn heils samfélags. Framsóknarmenn eru þess vegna á mjög hálum ís, ef þeir ætla í eignaupptöku erlendra eigna á hæpnum forsendum. Framferði Framsóknarmanna er gáleysislegt, og þeir gætu með gösslarahætti eyðilagt möguleika Íslands á eðlilegri lánafyrirgreiðslu erlendis frá um mörg ókomin ár. Framsóknarmenn eru þess vegna á stórhættulegri braut, og þeir eru að ljúga sig inn á almenning með mjög illa ígrunduðum og ósvífnum yfirboðum.
- Málflutningur framsóknarmanna nú í aðdraganda kosninganna 27. apríl 2013 veikir samningsstöðu Íslendinga eftir kosningarnar, því að framsóknarmenn hafa sýnt viðsemjendunum, lánadrottnunum, á spil íslenzku samningamannanna og skuldbundið sig til að ná tilteknum árangri innan ákveðins tíma. Þetta er vandræðalega barnaleg hegðun hjá barninu með djúpu röddina. Með þessu valda framsóknarmenn landsmönnum ómældu tjóni. Með öðrum orðum er aðalkosningaloforð framsóknarmanna nokkuð, sem óábyrgt er að gera að kosningamáli.
Það fer hins vegar ekki á milli mála, að fjárhagsstaða flestra, sem festu kaup á sínu fyrsta húsnæði á árunum 2006, 2007 og 2008 er grafalvarleg, og þar er bæði um skuldavanda og greiðsluvanda að ræða. Ástæðurnar eru þær, að á þessum árum geisaði eignabóla í boði Framsóknarflokksins, sem hafði lengi verið ábyrgur fyrir húsnæðismálum í ríkisstjórn fram á árið 2006, og nægir að nefna 90 % lán Íbúðalánasjóðs í því sambandi, sem var peningalegt glapræði, eins og síðar kom á daginn, þannig að eignastaða þessara lántakenda er neikvæð, og vegna verðbólgu og ægilegra skattahækkana vinstri manna er þessu unga fólki gert ókleift að losna út úr vítahringnum. Það stendur uppi stórskuldugt, þó að það selji, og launin duga ekki fyrir afborgunum, vöxtum og verðbótum. Það er skylda þjóðfélagsins að hlaupa undir bagga með þessu unga fólki, og Sjálfstæðisflokkurinn er með raunhæft tilboð til þessa fólks með því að létta undir bagga með því með almennum skattalækkunum, sértækum skattaívilnunum og möguleika á að beina séreignarsparnaði í lífeyrissjóði til höfuðstólslækkunar. Jafnframt ber að stöðva þegar útburð þessa fólks úr íbúðum sínum og veita opinbera aðstoð til að koma þessu fólki á réttan fjárhagslegan kjöl. Margt af þessu fólki er reyndar flutt utan í neyð sinni, og það á að laða fólkið til heimflutnings með því að efla hér efnahagslífið með erlendum fjárfestingum, sem auka spurn eftir hvers konar vinnuafli og munu auka atvinnuþátttökuna, fjölga fólki á vinnumarkaði um u.þ.b. 13 þúsund, sem eðlilegt væri. Ef ríkissjóði skyldi áskotnast eitthvað í viðureigninni við téða lánadrottna, hvort sem er gjaldeyrir eða íslenzkar krónur, á hispurslaust að nota slíkt fé til að grynnka á skuldum ríkissjóðs, utanlands sem innanlands.
Halda menn, að þjösnaskapur framsóknarmanna gagnvart erlendum lánadrottnum muni auðvelda þann bráðnauðsynlega gjörning að laða hingað erlenda fjárfesta ? Loforðaglamur framsóknarmanna er ekki einvörðungu ótrúverðugt og undir hælinn lagt með efndirnar, heldur getur það stórskaðað traustið, sem reyndar er enn af skornum skammti erlendis vegna Hrunsins og vegna skattahegðunar og ummæla vinstri stjórnarinnar. Þetta traust er forsenda fjárfestinga. Amen.
Annar hópur fólks, sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur leikið grátt, eru eldri borgarar. Grein Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu, þriðjudaginn 9. apríl 2013, sýnir svart á hvítu, að hann er þess albúinn að leiðrétta óréttlætið, sem þessi þjóðfélagshópur hefur verið beittur. Sjálfstæðisflokkurinn mun, fái hann til þess afl, afnema kjaraskerðingu, sem aldraðir og öryrkjar voru beittir 1. júlí 2009. Hún átti að vera tímabundin, en ríkisstjórnin sveik loforð um afturköllun. Þá hafði verið lögfest, að lífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins skyldi hækka eins og lægstu laun. Þarna var þessi viðmiðun afnumin, og nemur sú kjaraskerðing um 20 % síðan.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur bent á, að ríkisstjórnin hefur dregið úr framlögum ríkissjóðs til málefna aldraðra um 13 milljarða kr á valdatíma sínum. Fyrir þennan gjörning verða aldraðir að refsa ríkisstjórnarflokkunum þann 27. apríl 2013, og greiða frambjóðendum atkvæði sitt, sem skilning hafa á málefnum þeirra. Aldraðir eru fastir í fátæktargildru ríkissjórnarinnar. Þeim er refsað fyrir að afla sér tekna, og þær nánast allar hirtar af þeim. Þeim er refsað fyrir að hafa greitt í lífeyrissjóð, svo að lífeyrissjóðirnir hafa algerlega misst marks. Þetta er reginhneyksli, og skal hér taka undir með Halldóri Blöndal, fyrrverandi ráðherra, en hann reit frábæra grein í Morgunblaðið, þann 13. apríl 2013, undir fyrirsögninni, "Köllum til baka kjaraskerðingu aldraðra", og vitnaði til Grímnismála:
Askur Yggdrasils
drýgir erfiði
meira en menn viti,
hjörtur bítur ofan,
en á hliðu fúnar,
skerðir Níðhöggur neðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
10.4.2013 | 21:51
Afstaðan til ESB
Tilvitnun í Olli Rehn, fyrrverandi stækkunarstjóra Evrópusambandsins, ESB:
First, it is important to underline that the term negotiationcan be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidates adoption, implementation and application of EU rules some 90,000 pages of them. And these rules (also known as acquis, French for that which has been agreed) are not negotiable. For candidates, it is essentially a matter of agreeing on how and when to adopt and implement EU rules and procedures. For the EU, it is important to obtain guarantees on the date and effectiveness of each candidates implementation of the rules.
Finnski framkvæmdastjórinn í ESB, sem nú um stundir mun hafa peningamál ESB á sinni könnu, muni höfundur réttilega, segir hér fullum fetum, að orðið "samningaviðræður" geti valdið misskilningi. Aðildarviðræður snúist um skilyrði og tímasetningu á upptöku, innleiðingu og notkun ESB-regluverks á u.þ.b. 90 000 blaðsíðum. Þessar reglur, sem nefndar eru á frönsku "acquis", það sem hefur verið samþykkt, eru ekki umsemjanlegar. Fyrir umsækjendur snýst málið um upptöku og innleiðingu ESB reglna og verklagsreglna. Fyrir ESB er mikilvægt að fá tryggingu fyrir tímasetningu og árangri hvers umsækjanda á innleiðingunni.
Svo mörg voru þau tilvitnuðu orð. Af þessu er ljóst, að Alþingi var haft að ginningarfífli 16. júlí 2009, er forkólfar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs kreistu út úr öfugsnúnu Alþingi heimild til ríkisstjórnarinnar um að hefja samningaviðræður um aðild að ESB. Það var aldrei minnzt á aðlögun. Síðan var stofnuð "samninganefnd" og látið var í veðri vaka, að hún væri að semja um aðildarskilmála, en ekkert hefur verið birt opinberlega af þessum samningum enn þá. Með málið er farið sem ríkisleyndarmál í anda Icesave-samnings I. Með nýjum utanríkisráðherra eftir komandi Alþingiskosningar fer þó ekki hjá því, að afraksturinn verður birtur fljótlega. Mun um hann mega segja, að fjallið tók jóðsótt, en fæddist lítil mús.
Af tilvitnuðum texta er alveg ljóst, að aðildarferlið snýst ekki um "að kíkja í pakkann", eins og haldið hefur verið að landsmönnum og ólíklegustu menn ginið við. Þeir, sem trúa þeirri skreytni, vilja margir leiða þessar viðræður til lykta og taka síðan afstöðu til samningsins, þegar hann liggur á borðinu. Þessir menn hafa verið blekktir, og er tími til kominn að gera sér grein fyrir því. Það verður ekki samið um neitt annað en skilmála aðlögunar að regluverkinu, samkvæmt Olli Rehn hér að ofan. Ef menn halda, að ESB hafi svo mikinn hug á að fá Ísland inn, að slegið verði varanlega af kröfunum, og þar með gefið fordæmi og vakin upp óánægja innan ESB, þá eru menn barnalegri í hugsun en þeir hafa leyfi til að vera. Það eru þvert á móti uppi háværar kröfur innan ESB um að taka ekki fleiri inn fyrr en leyst hefur verið úr vandamálum evrunnar, sem nú ógna sjálfri tilvist ESB. Þó að áhugi sé í vissum "kreðsum" innan ESB á að fá Ísland inn, verður hann útundan, þegar hvert stórvandamálið rekur annað.
Svo óhönduglega tókst til um úrlausn peningavandamála Kýpverja, að efnahagshrunið stefnir í 20 % af VLF, sem er hlutfallslega meira en tvöfalt stærra en íslenzka Hrunið, og atvinnuleysið stefnir á 25 %. Ekki nóg með þetta, heldur kippti Brüssel gólfhleranum undan auðvaldskerfinu, sem Íslendingar voru af ESB sakaðir um að gera og ESB reyndi að hengja þá upp í hæsta gálga fyrir, þ.e. að ganga á hlut innistæðueigenda. Þessi umpólun í Berlaymont átti sér stað eftir ströng skilaboð frá Berlín, þar sem stjórnmálamenn hafa skynjað hug þýzkrar alþýðu til tíðra björgunaraðgerða ("Bail-outs") á kostnað þýzkra skattborgara, og ótti valdamanna um úrslit þýzku Sambandsþingskosninganna fer vaxandi.
Nýjasta brýna úrlausnarmálið er Portúgal, þar sem forseti landsins talar um "neyðarástand". Þar er kominn upp stjórnlagavandi, þar sem niðurskurðaraðgerðir, sem Berlaymont heimtaði og voru skilyrði neyðarástands, hafa verið dæmdar ólöglegar. Það er dauðlegum mönnum hulin ráðgáta, hvernig einn stjórnmálaflokkur getur gert það að miðlægu atriði í boðskap sínum nú í apríl 2013, að lausnarorðið fyrir þjóð norður í "Ballarhafi" sé að fórna mynt sinni fyrir þessa mynt, sem svo mikilli ógæfu hefur valdið sem raun ber vitni um.
Á meðal aðlögunarmála er hin sameiginlega fiskveiðistefna ESB og reglur um frjálsan flutning lifandi dýra og dýraafurða með öllum þeim sýklalyfjum í íslenzkan búsmala, sem slíkt mundi leiða til ásamt hættu á dýrapestum, eins og dæmin sanna. Aðlögunarferli á þessum sviðum mundi leiða til mikilla breytinga til hins verra hérlendis. Stjórnvöld hafa reynt að knésetja íslenzkan sjávarútveg á kjörtímabilinu, sem er senn á enda runnið. Þau ætluðu að brjóta hann á bak aftur með ofurskattlagningu, sem í raun er eignaupptaka, og þau ætluðu að ræna hann undirstöðu sinni, eignarhaldinu á aflahlutdeildinni, og að gera útgerðarmenn að leiguliðum ríkisins, svo geðslegt sem það nú hljómar. Hið fyrra tókst, en verður vonandi lagfært í byrjun nýs kjörtímabils. Hið síðara mistókst, þótt kroppað hafi verið í kvótann með lýðskrumsaðferðum, sem dregið hafa úr arðsemi sjávarútvegsins sem heildar fyrir þjóðarbúið.
Varðandi afleiðingar hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu á sjávarútveginn ættu menn að leita frétta af afleiðingunum fyrir enskan, skozkan, írskan og danskan sjávarútveg. Orðið hrun lýsir afleiðingunum bezt. Íslenzki sjávarútvegurinn er með hæstu þekktu framleiðni í heimi og er rekinn sem hágæða matvælaframleiðsla eftir óskum markaða. Fiskveiðistefnan, sem er reist á vísindalegri ráðgjöf, er tekin að bera árangur fyrir lífríki hafsins, sérstaklega eftir að ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar um 20 % aflamark úr hrygningarstofnum var tekið upp árið 2007, svo að nú er hrygningarstofn þorsks í vexti, sem gæti gefið þjóðarbúinu um 10 milljarða kr aukalega á næsta fiskveiðiári, ef úrvinnsla og markaðssetning verður, eins og bezt verður á kosið.
Óheilindin, sem höfð eru í frammi að hálfu téðra stjórnarflokka í þessu óláns umsóknarferli, er meginskýringin á hertri afstöðu Sjálfstæðisflokksins til málsins, eins og hún var mótuð á Landsfundi hans í febrúar 2013, að mati höfundar. Það gefur t.d. auga leið, að eftir stöðvun aðlögunarferlisins missir upplýsingaskrifstofa ESB, svo kölluð Evrópustofa, algerlega marks. Henni verður þá sjálfhætt, og það er nánast öruggt, að Berlaymont mun átta sig á því að fyrra bragði. Ályktun Landsfundar um Evrópustofu fjallar í raun um, að framkvæmdastjórn ESB verði bent á þetta, ef nauðsyn krefur. Það er búið að þyrla upp ótrúlegu moldviðri vegna téðrar ályktunar Landsfundar, og sumir sjálfstæðismenn hafa jafnvel virzt fara hjá sér við að útskýra og styðja þessa ályktun. Það er óþarfi, því að ályktunin er fullkomlega rökrétt og markar engin sérstök þáttaskil í sjálfri sér í samskiptum Íslands við ESB. Hún er sjálfsögð árétting sjálfstæðs fólks gagnvart ríkjasambandi, enda hafa bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur markað þessa stefnu.
Hrottaleg meðferð leiðtoga ESB-ríkjanna og búrókratanna í Berlaymont á grískumælandi Kýpverjum er að vissu leyti svakalegri en meðferð ESB-manna á Aþenu-Grikkjum. Við urðum þarna vitni að því, hvernig smáríki verður fórnarlamb hinna stærri, og farið er mjúkum höndum um stórlaxana á meðan almúganum blæðir. Peðin verða alltaf fórnarlömb í valdatafli hinna voldugu. Sennilega hefur Vladimir Putin hringt í Angelu Merkel og bent henni á, að Kýpurbanki er með útibú í Moskvu og að Þjóðverjar fá megnið af sínu eldsneytisgasi frá Rússum, því að frú Merkel gaf umsvifalaust fyrirmæli um eða samþykkti opnun útibúsins í Moskvu, og þar tóku rússneskir stórinneignamenn út sínar inneignir eins og þá lysti, en almúginn á Kýpur fær að taka út 300 evrur á dag. Það er ekki sama Jón og séra Jón. Við Íslendingar þekkjum þessa harkalegu meðferð ESB á smáríkjum frá hrottafenginni meðferð í kjölfar Hrunsins og frá Icesave-hildarleiknum, en þar urðu kaflaskipti með dómi EFTA-dómstólsins. Hver veit, nema ESB eigi eftir að sýna brunnar vígtennurnar, þegar næsta ríkisstjórn fer að taka á kröfuhöfum þrotabúa gömlu bankanna. Mismunurinn á okkur og téðum fórnarlömbum gammanna í Berlaymont er fullveldið, sem reyndar er í stórhættu.
Á Kýpur eru ekki einvörðungu gjaldeyrishöft, þ.e. bann við gjaldeyrisviðskiptum, heldur peningaleg höft og takmarkanir á kortaviðskiptum. Jafnvel Íslendingar hafa ekki þurft að sæta slíku, enda bjuggu þeir við sjálfstæðan Seðlabanka, þegar mest á reið.
Nú er staðfest, að evran er ekki lengur jafngild hvar sem er. Kýpverskar evrur eru mun verðminni utan Kýpur en t.d. þýzkar. Það er nýtt af nálinni, að evra sé ekki ein og sú sama óháð því við hvaða evruland hún er kennd. Þetta er nýjasti naglinn í líkkistu evrunnar. Hún er dæmd til að klofna eða ríki munu hrökklast úr myntsamstarfinu. Samt rekur Samfylkingarforystan enn trúboðið um hjálpræði evrunnar á Íslandi, og má slíkt furðu gegna og mun verða talin saga til næsta bæjar, enda er Samfylkingin að breytast í sértrúarsöfnuð með um 10 % fylgi. Það er auðvitað hægt að taka upp fastgengisstefnu hérlendis, en þá verða menn að vera tilbúnir að taka upp efnahagslægðir með launalækkunum eða atvinnuleysi. Leiðin til stöðugleika liggur um Maastricht-skilyrðin og að afla meiri gjaldeyris en eytt er. Ef við getum ekki búið við krónu, þá getum hvorki búið við evru, bandaríkjadal né sterlingspund. Þá er ræfildómurinn kominn í slíkar hæðir, að ekki er annað eftir en að segja sig til sveitar.
Um árabil hafa vextir verið ólíkir í evrulöndunum háðir tiltrú fjárfesta á efnahagskerfi viðkomandi landa. Ef Ísland væri nú með evru, er þess vegna algerlega undir hælinn lagt, hvort raunvextir væru þá lægri eða hærri á Íslandi en raunin er á núna. Það er líka alveg óvíst, að við gætum notað okkar evrur erlendis. Við gætum hæglega staðið í sporum Kýpverja. Hjal einfeldninga hérlendis um bjargræði erlendra mynta sem lögeyrir á Íslandi er algerlega fótalaust.
Það er þess vegna með eindæmum að bera það á borð í þessari kosningabaráttu, sem lýkur 27. apríl 2013, að hag almennings verði bezt borgið innan vébanda ESB og með evru sem lögeyri. Leyfum rykinu að falla í Evrópu áður en við fullyrðum slíkt. Þar á mikið vatn eftir að renna til sjávar áður en jafnvægi hefur komizt á. Spennan á milli ríkja evrusvæðisins er gríðarleg og fer vaxandi og sannast sagna blasir ekki við, hvernig í ósköpunum öll núverandi evruríki geta verið til lengdar með sömu mynt. Hún virkar sums staðar sem skelfileg spennitreyja á hagkerfið, en annars staðar sem örvunarlyf. Að meðaltali er samt útkoman slæm með hagvöxt nálægt núlli og atvinnuleysi 12 % og vaxandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.4.2013 | 12:52
Stríð ríkisvalds gegn atvinnulífinu
Helzti lærdómurinn, sem draga má af ömurlegum stjórnarháttum Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, er, að kjarninn í stjórnmálastefnu þessara tveggja vinstri flokka felur í sér óhjákvæmilega þörf á stríðsrekstri gegn athafnalífinu og gegn miðstéttinni í landinu. Eftir kjörtímabilið, sem nú er að renna sitt skeið á enda, eru afleiðingarnar af þessari bókstafstrú vinstri flokkanna á málstað sameignarstefnu Karls Marx og Friedrich Engels, í útþynntri útgáfu kratisma og vinstri vellings, komnar í ljós.
Raunveruleikinn kemur algerlega heim og saman við sviðsmynd borgaralegra afla, sem fylgismenn einstaklingsfrelsins og einkaframtaks hafa verið óþreytandi að boða. Um þessa stöðu þarf ekki að hafa mörg orð. Eitt orð dugir: Stöðnun.
Þetta ástand er fullkomin falleinkunn fyrir stefnu stjórnarflokkanna. Þeir hafa hækkað neyzluskatta, tekjuskatt fyrirtækja og einstaklinga, fjármagnstekjuskatt og tryggingargjaldið, svo að eitthvað sé nefnt. Þetta hefur dregið úr neyzlunni án þess að auka tekjur ríkisins að sama skapi, og það er margyfirlýst stefna vinstri flokkanna að draga úr neyzlu, af því að hún sé löngu orðin ósjálfbær, og ofurskattlagning þessi, sem er alls ekki miðuð við hámörkun tekna hins opinbera, heldur "jöfnun tekjudreifingar", hefur drepið fjárfestingarvilja fyrirtækja og einstaklinga. Þessi "jöfnun tekjudreifingar" er hins vegar engum til gagns, sízt unga fólkinu, sem er að hefja búskap. Afkoma hinna verst settu fylgir nefnilega þróun hagkerfisins. Það hafa rannsóknir sýnt. Þess vegna er "stækkun kökunnar" öllum í hag.
Aðferðarfræðin við ríkisbúskapinn á þessu kjörtímabili hefur reynzt stórskaðleg, og það var varað við því. Útgjöld ríkisins voru 69 % hærri árið 2011 en árið 2006, en á sama tímabili hækkaði neyzluvísitalan um 52 %. Það hefur þess vegna sigið á ógæfuhliðina sem nemur mismuninum, 17 %. Nokkur flatur niðurskurður og gríðarlegar skattahækkanir er eitruð blanda. Afleiðingin er stöðnun hagkerfisins og skuldasöfnun ríkissjóðs, sem nú hefur leitt til árlegrar vaxtabyrði hans upp á 90 milljarða kr. Það verður forgangsmál að draga úr þessum vaxtagreiðslum með því að snúa rekstrartapi í afgang, skuldbreytingum og öflugum afborgunum. Fregnir af Landspítala sýna ábyrgðarleysi stjórnvalda, þar sem fjárveitingar eru skornar niður og spítalanum gert að vinna úr því. Það er engin stjórnun. Starfsemi Landspítalans er svo viðkvæm og mikilvæg, að sparnaði verður að ná fram með fjárfestingum í nýjum tækjabúnaði, eflingu heilsugæzlu og byggingu legudeilda til að minnka álagið á háskólasjúkrahúsinu, þar sem kostnaður við hvert rúm per sólarhring er í hámarki.
Skattahækkanir hafa engan veginn skilað sér í ríkissjóð, enda vinna margar skattahækkanir Jóhönnustjórnarinnar beinlínis gegn hagvexti og þar með hagsæld, t.d. stighækkandi tekjuskattur, hærri fjármagnstekjuskattur, auðlegðarskattur og hærra tryggingargjald. Breiðu bökin hafa flúið úr landi fyrir vikið. Erfðafjárskatturinn var tvöfaldaður, úr 5 % í 10 % frá ársbyrjun 2011. Fyrir árið 2010 skilaði erfðafjárskatturinn 2,6 milljörðum kr í ríkissjóð, en hafði árið áður skilað 1,6 milljörðum kr. Fyrir árið 2011 voru heimturnar hins vegar aðeins 1,3 milljarðar kr. Fólk gerir augljóslega gagnráðstafanir, þegar stjórnvöld auka skattheimtu fram úr hófi, og þessi skattlagning er einstaklega ósanngjörn. Afleiðingin verður minni skatttekjur.
Annað dæmi af óréttlátri skattlagningu er fjármagnstekjuskatturinn, sem lagður er á bæði vexti og verðbætur. Þessi skattheimta hefur tvöfaldazt frá 2008, en hann skilaði þó fyrir árið 2011 aðeins 75 % af skatttekjunum 2006, og auðvitað í mun verðminni krónum.
Efast einhver um neikvæð áhrif tekjuskatts á vinnufýsi og vinnuframlag fólks ? Tekjuskattshækkanir "norrænu velferðarstjórnarinnar" hafa engan veginn skilað sér í ríkiskassann fremur en aðrar skattahækkanir. Hagfræðin hefur sannazt, en vinstri flokkarnir fylgja engri viðurkenndri hagfræði, heldur afdankaðri hugmyndafræði útþanins ríkisrekstrar, úreltum kratisma, sem t.d. Svíar fóru flatt á og eru að hverfa frá. Samkvæmt sömu viðurkenndu hagfræði eiga skattalækkanir að örva hagkerfið. Aukin umsvif og aukin neyzla valda hagvexti, sem stækka skattgrunninn. Þetta gerist þó ekki samtímis, og þess vegna þarf að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Það er ekki hægt sem neinu nemur öðru vísi en að fækka ríkisstarfsmönnum. Til að unnt verði að greiða niður skuldir ríkissjóðs, svo að vaxtabyrðin minnki merkjanlega, verður bæði að selja ríkiseignir og nota auknar skatttekjur til afborgana og vaxtagreiðslna. Þetta mundi hleypa blóði inn í hagkerfið.
Hornótt framkoma við fjárfesta, hótanir um þjóðnýtingu og enn meiri skattlagningu, óvænt skattlagning, eins og rafskatturinn, og svik við fyrirtækin um afnám hans (hann var í staðinn hækkaður) auk algers getuleysis gagnvart gjaldeyrishöftunum, hefur valdið lægsta fjárfestingarstigi á Vesturlöndum og þó víðar væri leitað. Það hefur þó frétzt af minni fjárfestingum í Burkina Faso.
Afleiðingin af þessu stríði við fyrirtæki og fólk er sú, að landsmenn dragast æ meir aftur úr öðrum þjóðum í lífskjörum, enda er hagvöxtur grundvöllur lífskjarabata, en ekki stéttabarátta, eins og sumir halda enn. Hagvöxtur er samsettur úr raunverðmætaukningu þjóðarframleiðslunnar og framleiðniaukningu. Þannig er hagvöxtur tengdur framleiðslumagni, gæðum og afköstum, auk markaðssetningar og markaðsástandi. Framleiðslukostnaður á hverja framleiðslueiningu er mælikvarði á samkeppnihæfni, og í útflutningsdrifnu hagkerfi eins og því íslenzka verður þessi einingarkostnaður að vera lægri en hjá þeim, sem nær eru markaðinum en við til að vega upp á móti flutningskostnaðinum. Dæmi um greinar af þessu tagi eru sjávarútvegur fyrir rányrkju ríkissjóðs og áliðnaður, þó að rafskattur komi sér illa í slæmu árferði.
Langtíma hagvöxtur er þannig mjög háður vel heppnuðum, þ.e. arðbærum fjárfestingum. Þjóðfélagsstyrjöld er augljóslega afleitur jarðvegur fyrir hagvöxt, enda leiðir slík styrjöld alltaf til ófarnaðar og uppdráttarsýki hagkerfa. Til að framkalla hagvöxt þurfum við á að halda trúnaðarsambandi og samvinnu á milli ríkisvaldsins, fyrirtækjanna og almennings, ekki sízt miðstéttarinnar. Þetta er leiðarstef Sjálfstæðisflokksins, sbr slagorð hans, "Stétt með stétt", og hann ásamt Framsóknarflokkinum með sína samvinnuhugsjón, sem er lítið flíkað að vísu, á möguleika á að byggja þessa brú trausts, þessa Bifröst, svo að skírskotað sé til goðafræðinnar.
Óhjákvæmileg afleiðing stöðnunar er starfamissir, fækkun atvinnutækifæra og erfiðari staða launamanna á alla lund. Stöðnun hagkerfis er versti óvinur launamanna. Fækkun starfandi fólks á Íslandi á þessu stöðnunartímabili 2009-2013 nemur yfir tvö þúsund manns. Nettófjöldi þeirra, sem fallið hafa út af vinnumarkaði, er ríflega þrjú þúsund, og vinnuafl, þ.e. starfandi og atvinnulausir, hefur dregizt saman um u.þ.b. tvö þúsund.
Ef allt hefði verið með felldu og athafnalífinu hefði vaxið svo fiskur um hrygg, að það hefði getað boðið þeim störf, sem þess óskuðu, hefði sá fjöldi, þ.e. vinnuaflið, vaxið um 8000 manns, þ.e. um tæplega 2000 manna fjölgun í landinu og rúmlega 6000 brottflutta til útlanda. Stríðsrekstur ríkisstjórnarinnar gegn atvinnulífinu hefur þannig rænt 3000+2000+8000=13000 manns, sem er um 8 % af starfandi fólki. Þetta bitnar harðast á ungu fólki, sem er að koma út á vinnumarkaðinn. Enginn stjórnmálaflokkanna, nema Sjálfstæðisflokkurinn, gefur nægan gaum að atvinnulífinu með raunhæfum úrræðum til að efla það. Sjálfstæðisflokkurinn er öflugasta baráttutæki unga fólksins í landinu á aldrinum 18-30 ára. Sjálfstæðisflokkurinn vill leggja sig í líma til að létta unga fólkinu lífsbaráttuna.
Það eru mjög dökkar atvinnuhorfur framundan vegna þess, að nú er hagkerfið tekið að minnka. Það mun fljótlega leiða til uppsagna hjá fyrirtækjum og jafnvel til þess, að fyrirtæki leggi upp laupana. Sú öfugþróun er þegar hafin í sjávarútveginum, sem er sú atvinnugrein, sem ríkisstjórnin hefur ofsótt mest. Þessi öfugþróun leiðir til minnkandi skatttekna hins opinbera og vaxandi halla á rekstri þess. Hallinn er fjármagnaður með lántökum, og er þó alls ekki á skuldirnar bætandi. Stefna vinstri stjórnarinnar í efnahagsmálum er algerlega ósjálfbær og mun leiða til þjóðargjaldþrots um mitt næsta kjörtímabil, verði ekki söðlað um hið snarasta. Menn sjá nú loforðaflaum vinstri flokkanna. Hann er algerlega innistæðulaus og gaspur eitt vegna þess, að hann er allur á útgjaldahlið ríkissjóðs, ekkert horfir til tekjuaukningar hans. Loforðin verða þá fjármögnuð með lánum.
Á meðan Róm brennur með þessum hætti, leikur Neró, þ.e. vinstri vargurinn á Íslandi, á fiðlu. Vinstri vargurinn gamnar sér við áhugamál sín, sem almenningur hefur ekki nokkurn áhuga á, þ.e. nýja stjórnarskráarómynd, sbr algert fylgisleysi Lýðræðisvaktarinnar, sem oftar en ekki þykist þó tala í nafni þjóðarinnar, og inngönguferlið í Evrópusambandið, ESB, en um 3/4 hlutar þjóðarinnar tjá ímigust sinn á innlimun landsins í þetta misheppnaða ríkjasamband, sem ber með sér feigðina.
Alþingi samþykkti þann 16. júlí 2009 undir þvingunum formanna ríkisstjórnarflokkanna að heimila ríkisstjórninni að óska eftir aðildarviðræðum við Berlaymontforingjana. Það var aldrei við umræðurnar á Alþingi við þetta tækifæri minnzt á, að samhliða aðildarviðræðum yrði rekið skefjalaust breytingaferli á stjórnkerfi landsins til að uppfylla kröfur framkvæmdastjórnar ESB um stjórnkerfi aðildarlandanna. Allt er þetta ferli frá 16. júlí 2009 varðað undirferli og svikum beggja stjórnarflokkanna, enda skal fullyrða hér, að jafnvel hið auma Alþingi, sem kom saman eftir kosningarnar í apríl 2009, hefði ekki samþykkt, að samhliða umsókn um aðildarviðræður hæfist aðlögun og tilraun til heilaþvottar landsmanna með ógrynni fjár úr hirzlum ESB. Allt er þetta ólánsmál vinstri stjórnarinnar rekið á fölskum forsendum, og hér er ekki um neitt að ræða, sem hægt er að nefna venjulegar samningaviðræður.
Af þessum sökum var það algerlega rökrétt af Landsfundi Sjálfstæðisflokksins í febrúar 2013 að herða andstöðuna við þetta ólánsferli með því að ákveða að stöðva það og loka áróðursmiðstöð ESB, sem rekin er í verktöku og fellur ekki að neinu leyti að eðlilegum samskiptum þjóða. Það er ekki á nokkurn hátt verið að fjandskapast við ESB með þessari afstöðu til ólánsferlis vinstri flokkanna, hvað þá að agnúazt sé sé út í aðildarþjóðir ESB. Sjálfstæðismenn vilja áfram kappkosta að vera góðir þegnar á Innri markaði EES, og það er nákvæmlega ekkert, sem hindrar landsmenn í að taka upp þráðinn síðar við Berlaymont, ef þeir svo kjósa.
Það er aðeins eitt skilyrði, sem þarf að uppfylla fyrst. Meirihluti þátttakenda í þjóðaratkvæðagreiðslu þarf að samþykkja það að hefja alvöruviðræður við framkvæmdastjórnina með einörðum vilja til aðlögunar og inngöngu að fengnu samþykki þings og þjóðar. Það þarf auðvitað engin samningsmarkmið, því að það verður ekki um neitt að semja, nema aðlögun að regluverki ESB. Núverandi fíflagangur íslenzkra stjórnvalda er hvorki fugl né fiskur og hvorki Íslendingum né Evrópusambandinu boðlegur, þar sem ríkisstjórnin gengur klofin til leiks og annar flokkur hennar segist ætla að berjast gegn samþykkt eigin samnings. Umboð samninganefndarinnar með slíkt bakland, öfugsnúið Alþingi og andsnúna þjóð, er augljóslega ekkert, og þessar samningsumleitanir eru þess vegna til skammar, eins og bókstaflega allt, sem þessi ríkisstjórn ræfildómsins tekur sér fyrir hendur.
Þá er nú meiri mannsbragur að Sjálfstæðisflokkinum, en stefnuskrá hans má finna hér á síðunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)