Barátta Úkraínumanna mun móta framtíð heimsins

Rússland hefur brotið allar viðteknar alþjóðareglur um samskipti við fullvalda þjóð með skefjalausri innrás Rússahers í Úkraínu 24.02.2022, og hefur hagað hernaði sínum gegn Úkraínumönnum, jafnt rússnesku mælandi sem mælta á úkraínska tungu, með svo grimmdarlega villimannslegum hætti, að flokka má undir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni.

Fyrir vikið er Rússland orðið "persona non grata" í lýðræðislöndum, og hvers konar viðskiptum við Rússland ber að halda í algeru lágmarki, sérstaklega á sviðum, þar sem rússneska ríkið á mikilla hagsmuna að gæta, eins og í útflutningi og jarðefnaeldsneyti og innflutningi á tæknibúnaði.  Rússland er orðið útlagaríki og gæti fljótlega endað á ruslahaugum sögunnar, enda er því augljóslega stjórnað af siðblindingjum, lygalaupum og ígildi mafíósa. 

Við þessar aðstæður er forkastanlegt, að forkólfar öflugustu Evrópusambandsríkjanna, ESB, Olaf Scholz, kanzlari Sambandslýðveldisins Þýzkalands, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, skuli enn gera sig seka um einhvers konar baktjaldamakk við Vladimir Putin, Rússlandsforseta og einvald Rússlands, þótt öðrum sé ljóst, að samtöl við þann mann eru tímasóun ein; hann tekur ekkert mark á viðmælendum sínum, og hann sjálfan er ekkert að marka.  Froðusnakkið í nytsömum einfeldningum Vesturlanda gefur einvaldinum "blod på tanden", því að hann túlkar slíkt sem veikleikamerki af hálfu Vesturlanda á tímum, þegar þeim er brýnt að sýna Úkraínu fullan stuðning í orði og verki.

Stríðið í Úkraínu er einstakt og örlagavaldandi, því að eins og Bretland sumarið 1940 berst nú Úkraína alein fyrir málstað lýðræðis og einstaklingsfrelsis í heiminum gegn herskáu stóru ríki í landvinningahami undir stjórn grimms og siðblinds alvalds.  Til að tryggja frið og stöðugleika í Evrópu og jafnvel víðar  og til að tryggja öryggi lýðræðisríkja má Úkraína ekki tapa þessu stríði, heldur verða Vesturlönd nú að bíta í skjaldarrendur og senda Úkraínu öll þau hergögn, þjálfun á þau og fjárhagsaðstoð, sem þau megna og stjórnvöld Úkraínu óska eftir.  Fyrir tilverknað færni og bardagahæfni Úkraínumanna mun þá takast að reka siðlausan Rússaher, morkinn af spillingu, út úr Úkraínu. Spangól frá Moskvu um beitingu kjarnorkuvopna er að engu hafandi, enda færi Rússland verst út úr slíkum átökum við algeran ofjarl sinn, NATO.

Í heimssamhengi er líklegasta afleiðing þessa stríðs  tvípólun heimsstjórnmálanna. Annars vegar verður fylking lýðræðisríkja undir forystu Bandaríkjamanna með um 60 % heimsframleiðslunnar innan sinna vébanda og mikil viðskipti sín á milli, en hins vegar verða einræðisríkin undir forystu Kínverja.  Rússar verða í þeirri fylkingu, en munu einskis mega sín og verða að sitja og standa, eins og Kínverjum þóknast. 

Áðurnefnd ESB-ríki auk Ítalíu og Ungverjalands verða að fara að gera sér grein fyrir alvarleika málsins og leggjast á sveif með engilsaxnesku ríkjunum, norrænu ríkjunum, Eystrasaltsríkjunum og hinum Austur-Evrópuríkjunum í einlægum og öflugum stuðningi við baráttu Úkraínumanna fyrir óskoruðu fullveldi sínu og frelsi íbúanna til að búa við frið í landi sínu og til að haga lífi sínu að vild. 

Íslendingum og Þjóðverjum hefur alltaf komið vel saman og auðgazt af gagnkvæmum viðskiptum a.m.k. frá 15. öld, og Hansakaupmenn mynduðu mikilvægt mótvægi við danska kaupmenn hér fram að einokunartímanum.  Íslendingar neituðu að segja Þýzkalandi stríð á hendur í seinni heimsstyrjöldinni, þótt það ætti að verða skilyrði til stofnaðildar að Sameinuðu þjóðunum, Sþ. Nú rennur mörgum hérlendis og víðar til rifja hálfvelgja þýzku ríkisstjórninnar í Berlín undir forystu krata í stuðningi sínum við Úkraínu.  Þessu kann að valda ótti við, að Pútin láti loka fyrir gasflutninga til Þýzkalands, en honum er andvirðið nauðsyn til að halda hagkerfi Rússlands á floti.  Þýzka stjórnin ætti að hlíta ráðleggingum manna eins og Klaus Wittmann, fyrrverandi undirhershöfðingja í Bundeswehr, sem e.t.v. er skyldur þeim mikla kappa, skriðdrekaási Þjóðverja, SS-Hauptsturmführer Michael Wittmann. 

Fyrst verður vitnað í upphaf forystugreinar Morgunblaðsins, 13.06.2022:

"Laskað orðspor".

"Angela Merkel, fyrrverandi Þýzkalandskanzlari, steig fram í fyrsta sinn í síðustu viku, eftir að 16 ára valdatíð hennar lauk.  Þar var Merkel vitanlega spurð, hvort hún sæi eftir einhverju í kanzlaratíð sinni, en hún einkenndist af tilraunum Merkel til þess að beizla Vladimir Pútín, Rússlandsforseta, með því að auka viðskipti Þýzkalands og Rússlands. 

Merkel sagðist nú ekki sjá eftir neinu og sagði, að þó að "diplómatían" hefði klúðrazt, væri það ekki merki um, að það hefði verið röng stefna á þeim tíma að leita sátta.  Merkel fordæmdi innrásina í Úkraínu, en sagðist á sama tíma ekki hafa verið "naíf" [barnaleg] í samskiptum sínum við Pútín." 

Það er sorglegt, að þessi þaulsetni kanzlari Þýzkalands, prestsdóttirin Merkel, skuli ekki iðrast gerða sinna nú, þegar öllum er ljóst, að viðskipti Þýzkalands og annarra Vesturlanda við Rússland ólu óargadýrið, sem lengi hafði alið með sér landvinningadrauma til að mynda "Stór-Rússland" í Evrópu í anda landvinningazara, sem lögðu undir sig Finnland, Eystrasaltslöndin, Pólland o.fl. lönd.  Putin hefur látið í ljós mikla aðdáun á Pétri, mikla, með svipuðum hætti og Adolf Hitler á Friðriki, mikla, Prússakóngi.  Flestir eru sammála um, að stöðug eftirgjöf við Hitler á 4. áratuginum og friðmælgi við hann hafi sannfært hann um veikleika Vestursins og að enginn gæti staðið gegn landvinningastefnu hans í allar áttir.  Nákvæmlega hið sama á við einvald Rússlands.  Friðþæging gagnvart sturluðum einvöldum er dauðadómur.  

Í frétt Morgunblaðsins, 10.06.2022:

"Ein erfiðasta orrusta stríðsins",

er eftirfarandi haft eftir Serhí Haísaí, hérraðsstjóra Lúhansk-héraðs:

""Um leið og við fáum langdrægt stórskotalið [hábyssur og fjöleldflaugaskotpalla - innsk. BJo], sem getur háð einvígi við rússneska stórskotaliðið, geta sérsveitir okkar hreinsað borgina á 2-3 dögum", sagði Haídaí í viðtali, sem dreift var í samskiptaforritinu Telegram.

Sagði Haídaí, að varnarlið borgarinnar hefði mikla hvatningu til að halda uppi vörnum áfram, þrátt fyrir að stórskotalið Rússa léti nú rigna eldi og brennisteini yfir borgina.

Þannig skutu Rússar tvisvar á Asot-efnaverksmiðjuna, en talið er, að um 800 manns séu nú þar í felum.  Skemmdi eitt flugskeytið smiðju fyrir ammóníakframleiðslu, en búið var að fjarlægja efni þaðan, sem hefðu getað valdið frekari sprengingum." 

  Vesturlönd hafa því miður tekið hlutverk sitt í vörnum Úkraínu fyrir fullveldisrétt sinn, frelsishugsjón og lýðræðisfyrirkomulag, sem í raun er vörn fyrir öll lönd í heiminum, hverra þjóðir aðhyllast lýðræðislega stjórnarhætti með virkt þingræði í stað einræðis, misalvarlega.  Öll ættu þau að vera sneggri í snúningum við afhendingu þess vopnbúnaðar, sem Úkraínumenn hafa óskað eftir og sem þeir telja forsendu þess, að þeim takist að hrekja glæpsamlegt og villimannslegt innrásarlið útþenslusinnaðs einræðisríkis í austri með mikla landvinningadrauma af höndum sér. Árangur Úkraínuhers til þessa má mest þakka hugrekki og baráttugleði hermannanna og góðri herstjórn þeirra og pólitískri stjórn landsins, en allt kæmi það fyrir ekki, ef ekki hefði notið við dyggs hergagnastuðnings og þjálfunar Bandaríkjamanna og Breta. Stærstu Þjóðir Vestur-Evrópu, aðrir en Bretar, þ.e. Þjóðverjar, Frakkar og Ítalir, hafa hingað til valdið miklum vonbrigðum og sýnt, að þegar hæst á að hóa bregðast þær algerlega.  Forystumenn þeirra hafa sumir hverjir lofað öllu fögru, en efndirnar hingað til eru litlar sem engar.  Macron og Draghi hafa staðið í óskiljanlegu símasambandi við Vladimir Putin og skilja ekki enn, að við þann mann er ekki hægt að semja, honum er í engu treystandi. 

Í grein The Economist 4. júní 2022: "Baráttan um Severodonetsk" er haft eftir Oleksiy Arestovych, ráðgjafa forseta Úkraínu, að stórskotalið Úkraínu hafi orðið sérlega illa úti í baráttunni.  Suma dagana hafa um 200 hermenn fallið af þessum og öðrum orsökum, og þess vegna eru hendur þeirra vestrænu leiðtoga, sem geta sent öflug, langdræg vopn, en hafa tafið vopnasendingarnar, blóði drifnar.  

"Við höfum einfaldlega ekki haft yfir nægum vopnabúnaði að ráða til að geta svarað þessari skothríð", segir hann.  Yfirburðir í öflugum skotfærum virðast einnig hafa gert Rússum kleift að snúa við gagnsókn Úkraínuhers við Kharkiv, næststærstu borg Úkraínu. Könnunarsveit úkraínska hersins þar komst að því, að landgönguliðar Eystrasaltsflota Rússa og fleiri úrvalssveitir búi nú tryggilega um sig í steyptum varnarbyrgjum. 

"Þeir ætla að vera þarna lengi, og erfitt verður að stugga þeim á flótta", sagði ráðgjafinn. 

"Á Vesturlöndum hafa komið upp nokkur áköll um, að efnt verði til vopnahlés hið fyrsta og jafnvel þá gefið í skyn, að Úkraínumenn verði einfaldlega að sætta sig við orðinn hlut og gefa eftir landsvæði í skiptum fyrir frið.  

Slík áköll hafa ekki tekið mikið tillit til óska Úkraínumanna sjálfra, en Volodimir Zelenski, forseti Úkraínu, sagði fyrr í þessari viku [5.-11.06.2022], að of margir Úkraínumenn hefðu fallið til þess að hægt væri að réttlæta það að gefa eftir land til Rússa.

"Við verðum að ná fram frelsun alls landsvæðis okkar", sagði Zelenski, en hann ávarpaði þá viðburð á vegum Financial Times.  Zelenski var þar einnig spurður um nýleg ummæli Emmanuels Macrons, Frakklandsforseta, sem sagði í síðustu viku [um mánaðamótin maí-júní 2022], að það væri mikilvægt að "niðurlægja" ekki Rússa til að ná fram endalokum stríðsins.  "Við ætlum ekki að niðurlægja neinn, við ætlum að svara fyrir okkur", sagði Zelenski um ummæli Macrons."

Viðhorf Macrons eru dæmigerð fyrir uppgjafarsinna, sem glúpna óðara fyrir ofbeldisfullu framferði árásargjarnra einræðisseggja, eins og franska dæmið frá júní 1940 ber glöggt vitni um.  Þar var árásarliðið reyndar með færri hermenn og minni vopnabúnað en lið Frakka og Breta, sem til varnar var, en bæði tækni og herstjórnarlist var á hærra stigi hjá þýzka innrásarhernum.  Það er dómgreindarleysi að gera því skóna, að vitstola einræðisseggur í Moskvu 2022 muni láta af upphaflegum fyrirætlunum sínum um landvinninga, ef samþykkt verður, að hann megi halda þeim mikilvægu landsvæðum fyrir efnahag Úkraínu, sem Rússar hafa lagt undir sig með grimmdarlegum hernaði gegn innviðum og íbúum, sem lygararnir þykjast vera að frelsa.  Þorpararnir munu sleikja sárin og skipuleggja nýjar árásir til framkvæmda við fyrsta tækifæri. 

"Klaus Wittmann, fyrrverandi undirhershöfðingi í þýzka hernum [Bundeswehr] og lektor í samtímasögu við Potsdam háskóla [e.t.v. skyldur fremsta skriðdrekaási Wehrmacht, SS-Hauptsturmführer Michael Wittmann], ritaði grein í Die Welt í vikunni, þar sem hann sagði, að þeir, sem krefðust vopnahlés fyrir hönd Úkraínumanna, áttuðu sig líklega ekki á, hvernig umhorfs yrði á þeim svæðum, sem Vladimir Putin, Rússlandsforseti, hefði lagt undir sig.

Sagði Wittmann, að engar líkur væru á, að Rússar myndu skila þeim í friðarviðræðum og að það væri vel vitað, að hernámslið Rússa tæki nú þátt í óskiljanlegum voðaverkum á hernámssvæðunum.  Nefndi Wittmann þar m.a. morð, nauðganir og pyntingar, auk þess sem hundruðum þúsunda Úkraínumanna hefur verið rænt og þeir fluttir með valdi til Rússlands.  Þá væru Rússar að ræna menningarverðmætum frá söfnum, eyðileggja skóla og sjúkrahús, brenna hveiti og hefna sín á stríðsföngum.  

Það að gefa eftir landsvæði til Rússlands væri því að mati Wittmanns að ofurselja milljónir Úkraínumanna sömu örlögum, sem væru jafnvel verri en dauðinn.  Benti Wittmann jafnframt á, að engin trygging væri fyrir því, að Pútín myndi láta staðar numið, þegar hann hefði lagt undir sig Úkraínu að hluta eða í heild.  

Gagnrýndi Wittmann sérstaklega hægagang þýzkra stjórnvalda og tregðu við að veita Úkraínumönnum þungavopn, sem hefðu getað nýtzt þeim í orrustunni í [bardögum um] Donbass.  Sagði hann, að Þjóðverjar þyrftu að íhuga, hvaða hlutverk þeir vildu hafa spilað [leikið].  

"Ef Úkraína vinnur, viljum við vera meðal þeirra, sem lögðu mikið af mörkum ?  Eða, ef Úkraína tapar og er þurrkuð út og bútuð í sundur sem sjálfstætt evrópskt ríki, viljum við segja við okkur, að stuðningur okkar var ekki nægur, því [að] hann var ekki af heilum hug - að við gerðum ekki allt, sem við gátum ?".  Sagði Wittmann í niðurlagi greinar sinnar, að það þyrfti því ekki bara að hafa áhyggjur af örlögum Úkraínu og úkraínsku þjóðarinnar, heldur einnig [af] orðspori Þýzkalands." 

Allt er þetta satt og rétt, þótt með eindæmum sé í Evrópu á 21. öld.  Villimannleg og óréttlætanleg innrás rússneska hersins í Úkraínu 24.02.2022 var ekki einvörðungu gerð í landvinningaskyni, heldur til að eyðileggja menningu, nútímalega innviði og sjálfstæðisvitund úkraínsku þjóðarinnar, svo að Úkraínumenn og lýðræðisríki þeirra mundi aldrei blómstra og verða Rússum sjálfum fyrirmynd bættra stjórnarhátta.  Að baki þessum fyrirætlunum liggur fullkomlega glæpsamlegt eðli forstokkaðra einræðisafla í Rússland, sem eiga sér alls engar málsbætur og hinum vestræna heimi ber að útiloka algerlega frá öllum viðskiptum og meðhöndla sem útlagaríki, þar til skipt hefur verið um stjórnarfar í Rússlandi, því að  glæpahyski Kremlar og Dúmunnar er ekki í húsum hæft í Evrópu. 

"Andrzej Duda, forseti Póllands, gekk skrefinu lengra í gagnrýni sinni í gær [09.06.2022] og fordæmdi bæði Macron og Olaf Scholz, kanzlara Þýzkalands, fyrir að vera enn í samskiptum við Pútín.  Í viðtali við þýzka blaðið Bild spurði Duda, hvað þeir teldu sig geta fengið fram með símtölum sínum við Pútín.

"Talaði einhver svona við Adolf Hitler í síðari heimsstyrjöldinni", spurði Duda.  "Sagði einhver, að Adolf Hitler þyrfti að bjarga andlitinu.  Að við ættum að hegða okkur á þann veg, að það væri ekki niðurlægjandi fyrir Adolf Hitler ?  Ég hef ekki heyrt af því", sagði Duda. 

Hann bætti við, að samtöl vestrænna leiðtoga við Pútín færðu honum einungis réttmæti þrátt fyrir þá stríðsglæpi, sem rússneski herinn hefði framið í Úkraínu og þrátt fyrir, að ekkert benti til þess, að símtölin myndu bera nokkurn árangur. 

Duda gagnrýndi einnig þýzkt viðskiptalíf, sem virtist skeyta lítið um örlög Úkraínu eða Póllands og vildi helzt halda áfram viðskiptum sínum við Rússland, eins og ekkert hefði í skorizt.  "Kannski trúir þýzkt viðskiptalíf ekki, að rússneski herinn geti aftur fagnað stórum sigri í Berlín og hertekið hluta Þýzkalands.  Við í Póllandi vitum, að það er mögulegt.""

Sjónarmið og málflutningur forseta Póllands, Andrzej Duda, eru fullkomlega réttmæt, af því að þau eru reist á réttu stöðumati og hættumati. Viðhorf, hegðun og gerðir forystumanna stærstu ESB-ríkjanna, Þýzkalands og Frakklands, eru að sama skapi fullkomlega óréttmæt.  Þau eru reist á röngu hagsmunamati, vanmati á hættunni, sem af Rússum stafar, vanvirðu við Úkraínumenn og skilningsleysi á eðli þeirra átaka, sem nú fara fram í Úkraínu.  

Þar fer fram barátta um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, í þessu tilviki fullvalda þjóðar, og á milli kúgunarstjórnkerfis og frelsisstjórnkerfis, þar sem í fyrra tilvikinu ríkir miðstýring upplýsingaflæðis og í síðara tilvikinu ríkir frjálst flæði upplýsinga.  Hið síðast talda er undirstaða framfara á öllum sviðum, þ.á.m. í atvinnulífinu og í hagkerfinu, enda var árlegur hagvöxtur í Úkraínu 14 % á nokkrum árum fyrir innrásina, þegar hann var aðeins 2 % á ári í Rússlandi.  Hefði þessi munur á hagvexti fengið að halda áfram óáreittur, mundi hagkerfi Úkraínu hafa náð því rússneska að stærð innan 21 árs.  Það er þessi þróun mála, sem hefur valdið ótta í Kreml; miklu fremur en ótti við aðild Úkraínu að varnarbandalaginu NATO, enda er áróður rússnesku stjórnarinnar um það, að Rússland eigi rétt á áhrifasvæði (Finnlandiseringu) við landamæri sín hruninn með væntanlegri aðild Finnlands að NATO.  

Nú er stórvirkari vopnabúnaður en áður á leiðinni til Úkraínu frá Vesturlöndum.  Yfirmaður leyniþjónustu Úkraínu sagði fyrir um innrás Rússa með lengri fyrirvara en leyniþjónusta Bandaríkjamanna.  Hann hefur spáð því, að viðsnúningur muni eiga sér stað á vígvöllunum síðla ágústmánaðar 2022 og að Úkraínumenn verði búnir að reka rússneska herinn af höndum sér um áramótinn 2022-2023 og að mannaskipti hafi þá farið fram í æðstu stjórn Rússlands, enda eru afglöp forseta Rússlands þau mestu í Evrópu síðan 01.09.1939, þegar þýzki herinn réðist inn í Pólland.  Strax haustið 1940 laut Luftwaffe í lægra haldi fyrir Royal Airforce í baráttunni um Bretland, sem átti eftir að hafa forspárgildi um úrslit styrjaldarinnar þrátt fyrir hetjulega baráttu Þjóðverja við ofurefli liðs.  Nú er ekkert hetjulegt við lúalega baráttu Rússahers við mun minni her og herafla Úkraínu.   


Samþjöppun ?

Þegar talað er um samþjöppun í atvinnugrein, er vanalega átt við fækkun sjálfstæðra fyrirtækja/eigenda, sem leitt geti af sér skort á frjálsri samkeppni, staða, sem stundum er nefnd fákeppni. Nýlega dæmdi EFTA-dómstóllinn þá niðurstöðu ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, að hlutafjáraukning ríkisins í Farice, sem einokar þráðbundið fjarskiptasamband Íslands við umheiminn, stríddi ekki gegn reglum Innri markaðar EES (Evrópska efnahagssvæðisins) um ríkisafskipti og fákeppni, úr gildi.  Það hefur engin ábending komið frá ESA, hvað þá dómsúrskurður frá EFTA-dómstólinum, um viðsjárverða þróun innan íslenzka sjávarútvegsins í átt til fákeppni. Engu að síður staglast fyrrverandi misheppnaður sjávarútvegsráðherra og núverandi vonlaus formaður s.k. Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, á því í tíma og ótíma, að binda verði endi á "samþjöppun" í sjávarútvegi. 

Hugtakið samþjöppun í atvinnugrein kallar á viðmiðun, og viðmiðunin er yfirleitt fortíðin, en fortíð sjávarútvegsins er ekki fögur, svo að afturhvarf til fortíðar er ókræsileg tilhugsun og kemur einfaldlega ekki til greina, ef sjávarútvegurinn á áfram að verða hryggjarstykkið í hagkerfinu, eins og hann hefur verið, frá því að fyrirtækjum og skipum tók að fækka umtalsvert, svo að þau, sem störfuðu eftir "samþjöppun" tóku að skila hagnaði og þeim, sem hættu fé sínu í þessa starfsemi, arði, eins og er talið eðlilegt á meðal fyrirtækja hvarvetna á Evrópska efnahagssvæðinu, EES.  Rekstur með hagnaði er þó ekki raunin innan sjávarútvegs EES, nema á Íslandi, og má útskýra þá sérstöku stöðu alfarið með aflahlutdeildarkerfinu og frjálsu framsali aflahlutdeilda hérlendis.   

Það er líka hægt að útskýra, hvers vegna ESA hefur ekki sent íslenzkum yfirvöldum kvörtun yfir "samþjöppun" í íslenzkum sjávarútvegi.  Skýringin er sú, að hún er minnst á Íslandi innan EES, og t.d. er kvótaþakið u.þ.b. tvöfalt hærra í Noregi, sem einnig býr við gjöful fiskimið á landgrunni sínu.  Hér hafa heimóttarlegir íslenzkir stjórnmálamenn sem sagt búið til vandamál úr engu. Það er vel af sér vikið og þeim líkt. Það slagar upp í þónokkurt afrek óhæfninnar.  Líklega hefur varaformaður Viðreisnar enn ekki meðtekið "uppgötvun" formannsins, því að hún vantreysti honum, prófessor í auðlindanýtingu, til að taka sæti á vegum flokksins í umfangsmiklu nefndafargani, sem matvælaráðherra í vingulshætti sínum hefur slysazt til að setja á laggirnar til að skilgreina fyrir sig vandamálið ósýnilega, "samþjöppun í sjávarútvegi".  Fíflagangurinn og sóun ríkisins ríða ekki við einteyming.  

Morgunblaðið gerði þessu máli góð skil í forystugrein 1. júní 2022 undir fyrirsögninni:

"Meinsemd sjávarútvegsins".

Hún hófst þannig:

"Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hefur sjávarútvegsmál á sinni könnu, og í fyrradag [30.05.2022] lét hún þá skoðun í ljós í svari við fyrirspurn á Alþingi, að samþjöppun í sjávarútvegi væri "meinsemd" eða öllu heldur sú staðreynd, að hún vissi ekki, hve mikil samþjöppunin væri.  Þetta er sérkennileg yfirlýsing; ekki þó sízt, að ráðherrann gerði hana að ástæðu þess, að hún hygðist skipa fjölmenna samráðsnefnd og 4 sérfræðihópa til þess að grafast fyrir um þetta og önnur málefni sjávarútvegsins.  Binda verður vonir við, að þeim fjölda takist að uppræta meinsemdina í huga ráðherrans, en nefndirnar voru kynntar í gær."

Það er "futile" verkefni og verður unnið fyrir gýg að reyna að fækka meinlokunum í huga þessa ráðherra, sem er sameignarsinni og vill þess vegna færa öflugustu atvinnutæki landsins í hendur ríkisins í anda kenningasmiða misheppnuðustu hugmyndafræði seinni tíma í mannkynssögunni, sameignarstefnunnar, sem sósíalismi og jafnaðarstefna (kratismi) eru sprottin af.

  Reynslan sýnir, að ríkisvaldið ræður ekki við að reka nokkra atvinnustarfsemi skammlaust.  Ráðherrann fylgir hugmyndafræði, hverrar æðsta mark er gríðarleg samþjöppun atvinnulífs undir einum eiganda, ríkinu.  Þess vegna grætur ráðherrann krókódílstárum yfir samþjöppun yfirleitt í atvinnulífinu.  Það sætir furðu, að þessi endemis yfirmaður matvælamála landsins skuli ekki hafa neitt þarfara að gera, þegar ofboðslegar erlendar verðhækkanir á aðföngum íslenzks landbúnaðar eru u.þ.b. að ríða honum á skjön.  Hefur sjávarútvegurinn þurft að leita á náðir ríkisvaldsins við þessar aðstæður ?  Nei, en þá grípur afskiptasamur og illviljaður ráðherra gagnvart einkaframtaki til þess óyndisúrræðis að búa til vandamál.  Svona eiga ráðherrar ekki að beita sér. 

"Nú er það raunar svo, að samþjöppun í sjávarútvegi á Íslandi er alls ekki mikil.  Jú, það er auðvelt að benda á örfá stórfyrirtæki í þeim geira, en þau segja fremur sögu um það, hvernig kvótakerfið hefur komið á hagkvæmni í greininni, gert sjávarútveginn arðsaman og líkan öðrum greinum, þar sem rúm er fyrir stór og vel rekin fyrirtæki.  Stórfyrirtækin eru hins vegar undantekning, því [að] það er einmitt einkenni á sjávarútvegi, hvað þar þrífast mörg fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum umhverfis landið.  Það er erfitt að benda á aðrar atvinnugreinar, þar sem samþjöppun er minni, hvort sem litið er til smásölu, fjármálageira, iðnaðar eða einhvers annars."

Samþjöppunartal hælbíta sjávarútvegsins er fremur reist á draumórakenndri fortíðarþrá en umhyggju fyrir viðskiptavinum sjávarútvegsins.  Að 95 % í tonnum talið er markaðssetningin á erlendri grundu, og flestir þar kjósa að eiga viðskipti við trausta fiskbirgja með sveigjanlegt afhendingarmagn á viku eftir þörfum markaðarins. Það er alveg öruggt, að fyrir íslenzka þjóðarbúið er æskilegt, að íslenzkir birgjar á erlendum fiskmörkuðum séu stórir og öflugir á íslenzkan mælikvarða, því að þannig verða þeir aldrei á erlenda mælikvarða.

Hagkvæmni stærðarinnar gerir sjávarútvegsfyrirtækjum kleift að fjárfesta í afkastamiklum veiðitækjum og fiskvinnslum með mikilli sjálfvirkni og þar með samkeppnishæfri framleiðni.  Ef enn þrengri stærðarmörk yrðu sett af stjórnvöldum á íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki, mun verðmætasköpun þeirra einfaldlega dvína. Þannig væri hælbítum sjávarútvegsins á Alþingi hollt að fara í áhættugreiningu á því, hverjar afleiðingar eru af stöðugu nöldri þeirra og nagi í garð sjávarútvegsins, og hverjar þær yrðu af því að þrengja að hag fyrirtækjanna með strangari stærðarmörkum og/eða hærri skattheimtu. 

"En það er þessi kvörtun um, að sjávarútvegurinn fjárfesti í öðrum greinum, sem kemur upp um Þorgerði Katrínu og Viðreisn.  Það er einmitt lóðið í kapítalismanum [við auðhyggjuna - innsk. BJo], að þar er skapaður arður og auður, sem nota má í fleira en uppsprettu hans.  Að þar verði til afgangur, sem megi nota í eitthvað nýtt og betra, að menn geti stuðlað að nýsköpun í atvinnulífi án þess að skipta um starfsvettvang.  Að auðsköpun í einni grein nýtist í öðrum, landi og þjóð til heilla.  Flokkur, sem skilur það ekki, skilur ekki neitt og er ekki hægri flokkur í neinum skilningi.

Þess vegna er Viðreisn sjálfsagt hollast að fara að uppástungu í forystugrein flokksmálgagnsins í liðinni viku og sameinast systurflokknum Samfylkingu."

  Þetta er vel að orði komizt.  Hvers konar ráðsmennska er það eiginlega vítt og breitt í samfélaginu, að útgerðarmenn eða fiskvinnslumenn megi ekki græða eða þurfi að ganga fyrir Pontíus og Pílatus til að fá leyfi til að fjárfesta annars staðar en í sjávarútvegi ?  Þeir, sem hagnast, hafa fullt frelsi til að ráðstafa þeim hagnaði, sem í þeirra hlut fellur.  Ef hömlur yrðu settar á þetta, er eins víst, að þessi hagnaður mundi gufa upp.  Það er hið bezta mál, að arður sjávarútvegsins dreifist sem víðast í samfélaginu. 

Nú berast fregnir af því, að sjávarútvegsfyrirtæki fjárfesti í fiskeldi, mest í landeldi.  Það er ofur eðlilegt.  Fiskveiðum við Ísland eru skorður settar á grundvelli fiskveiðiráðgjafar Hafrannsóknarstofnunar, en í fiskeldinu eru engar slíkar skorður, ef úthafseldi er tekið með í reikninginn, en Norðmenn reka nú tröllvaxnar tilraunakvíar úti fyrir fjörðum Noregs.  Markaðurinn er mjög próteinþurfi, svo að eftirspurninni eru engin merkjanleg takmörk sett.  

Með framgöngu Viðreisnar í Reykjavík eftir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2022 má öllum vera ljóst, hvar hjarta hennar slær.  Það slær í brjóstholi kratakvikindisins í pólitíkinni.  Eftir þetta ráðslag í Reykjavíkeru dagar Viðreisnar taldir.  Atkvæði hennar komu frá hægri, en munurinn á stefnu flokksforystunnar og kratakraðaksins er bitamunur, en ekki fjár.  Ef kjósendur greina vart á milli flokka, er hætt við, að annar lognist út af, verði afvelta.  

   


Vatnsdalsvirkjun - góð hugmynd

Ekki er í fyrirsögn vísað til hinnar fögru sveitar Vatnsdals í Austur-Húnavatnssýslu, þar sem höfundur þessa pistils ól manninn í 7 sumur við störf og leik og kynntist þar hefðbundnum landbúnaði landsmanna, sem þá var í óða önn að vélvæðast, heldur er átt við hérað Hrafna-Flóka á sunnanverðum Vestfjörðum. 

Orkubú Vestfjarða hefur kynnt til sögunnar miðlungs stóra virkjun, þar sem virkjunartilhögunin fellur með eindæmum ljúflega að umhverfinu.  Kerfislega er staðsetningin alveg kjörin, og virkjunin (20 MW) er hagkvæm, því að þar má framleiða raforku inn á svelt Vestfjarðakerfið fyrir um 4,9 ISK/kWh m.v. upplýsingar í frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 3. júní 2022 undir fyrirsögninni:

"Knúið á um Vatnsdalsvirkjun".

Hún hófst þannig:

"Hugsanleg Vatnsdalsvirkjun í Vatnsfirði mun hafa mjög jákvæð áhrif á raforkuöryggi á Vestfjörðum.  Hún hefði tiltölulega lítil umhverfisáhrif að mati orkubússtjóra Orkubús Vestfjarða [OV].  Umsókn fyrirtækisins um rannsóknarleyfi er í vinnslu hjá Orkustofnun [OS].  Forsenda þess, að orkukosturinn verði tekinn til umfjöllunar hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar er þó, að friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðarfriðlands verði breytt."

Orkustofnun mun nú hafa haft téða umsókn OV til meðhöndlunar í tæpt ár.  Þessi langi meðgöngutími OS er óhæfilega og reyndar óbærilega langur í ljósi mikilvægis þess að skýra línur í orkuöflunarmálum Vestfirðinga.  Ekki verður séð, að skilvirkni stofnunarinnar hafi aukizt nokkurn skapaðan hlut, síðan stjórnmálafræðingurinn tók við starfi Orkumálastjóra, enda ekki við því að búast.  Menntun núverandi orkumálastjóra hjálpar henni ekkert við afgreiðslu þessa máls.  Hvað sem því líður er seinagangur OS við afgreiðslu tiltölulega einfaldra mála (s.s. þetta og virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun) óþolandi og ljóst er, að tilfinning stjórnenda þar á bæ fyrir brýnni úrlausn (e. sense of urgency) er ekki fyrir hendi. 

 "Elías Jónatansson, orkubússtjóri, segir, að tenging Vatnsdalsvirkjunar í Vatnsfirði við flutningskerfið sé aðeins um 20 km.  Með 20 MW grunnvirkjun þar og með því að framkvæma áform Landsnets um hringtengingar þaðan og um sunnan- og norðanverða Vestfirði væri hægt að draga úr straumleysistilvikum á þéttbýlisstöðum um 90 %.  Slík grunnvirkjun gæti kostað um mrdISK 10 og komizt í gagnið í lok árs 2028.  Elías bætir því við, að með því að auka afl virkjunarinnar í 30 MW án mikillar viðbótar framleiðslu [í GWh/ár - innsk. BJo] væri hægt að stýra kerfinu þannig, að ekki þyrfti að grípa til keyrslu olíuknúins varaafls, þótt tengingin við landskerfið rofnaði í einhverjar vikur.  Virkjun með auknu afli væri því hjálpleg í loftslagsbókhaldi landsins."

Hér eru álitlegar og efnilegar hugmyndir Vestfirðinga og Landsnets á ferðinni, og eins og áður sagði eru þær arðsamar, jafnvel með 10 MW viðbótar vél, þótt hún mundi nýtast aðallega í neyðarrekstri, þegar Vesturlína er straumlaus, og á meðan hin vél Vatnsdalsvirkjunar er frátengd kerfi vegna viðgerða eða viðhalds.  Keyrsla varavéla á olíu rímar ekki við stefnu yfirvalda í loftslagsmálum.  Vatnsdalsvirkjun getur orðið mikilvægur tengipunktur flutningskerfis raforku á Vestfjörðum, sem mæta mun sjálfsögðum kröfum íbúa og fyrirtækja þar um aukið afhendingaröryggi.  Þess vegna er brýnt að veita þessum góðu hugmyndum brautargengi.  Eins og fyrri daginn reynir nú á yfirvöld orkumála, sem verða að fara að hrista af sér slenið. 

"Orkubú Vestfjarða sótti um rannsóknarleyfi vegna Vatnsdalsvirkjunar um mitt síðasta ár.  Elías segir, að Orkustofnun sé að leita umsagna.  Bendir hann á, að Orkustofnun hafi áður veitt fyrirtækinu leyfi til rannsókna í friðlandinu.  Það var vegna Helluvirkjunar, en hún er miklu minni og reyndist ekki [vera] hagkvæm."

Það er kyndugt að leita umsagna í heilt ár vegna umsóknar um rannsóknarleyfi.  Hjá OS eiga að vera sérfræðingar, sem leitt geta slíka umsókn til lykta á 1-2 mánuðum.  Áhuginn hjá stofnuninni á að veita viðskiptavinum sínum góða þjónustu er greinilega ekki lengur fyrir hendi. 

"Spurður um áhrif á friðlandið segir Elías, að umhverfisáhrif yrðu lítil á láglendi.  Hins vegar yrði rask á landi ofan við 250 m yfir sjávarmáli við byggingu stíflu og stækkun lóna og styrkingu og lengingu vegslóða, en það sjái enginn neðan úr dalnum.  Hann bætir því við, að svæðið sé þegar raskað vegna raflína, sem þar liggi yfir.  Elías bendir á, að lagning nýs vegar um Dynjandisheiði hafi þegar valdið mun meira raski en búast megi við í Vatnsdal.  "Við teljum, að út frá náttúruverndarsjónarmiðum  yrði þetta rask talsvert minna en við sambærilegar framkvæmdir víða annars staðar."   

Tvö lítil stöðuvötn, Flókavatn og Hólmavatn, munu fara undir miðlunarlónið, svo að breytingin á ásýnd landsins yrði lítil.  Stöðvarhúsinu má koma snoturlega fyrir innst í dalnum og verður þá áreiðanlega aðdráttarafl fyrir ferðamanna.  Það er staðreynd, að virkjanir á Íslandi eru vinsælir áningarstaðir ferðamanna.  Vatnsdalsvirkjun mundi bæta aðgengi ferðamanna að náttúru landsins.  Slíka þætti ber að meta meira en forstokkuð fordæmingarviðhorf þeirra, sem dæma áður en virkjunartilhögun er fyrir hendi.

Að lokum stóð í þessari athyglisverðu frétt:

"Elías segir heimilt samkvæmt lögum að aflétta kvöðum í friðlýsingarskilmálum, ef ríkir almannahagsmunir krefjist.  Telur hann, að svo hátti til með Vatnsdalsvirkjun, þegar litið sé til orkuöryggis Vestfjarða og möguleika á orkuskiptum á næstu árum og áratugum.  Þótt friðlýsingarskilmálum yrði breytt, er það engin trygging fyrir því, að verkefnisstjórn rammaáætlunar gefi grænt ljós á virkjun í Vatnsdal.  Einnig á eftir að vinna umhverfismat og fá önnur nauðsynleg leyfi."

Eins og fram kemur í þessari frétt, hefur orkubússtjórinn mikið til síns máls.  Hagsmunir Vestfirðinga eru svo ríkir í orkumálum að duga til að rökstyðja endurskoðun friðlýsingarskilmála á þessu virkjunarsvæði.

 


Ætlar óstjórninni aldrei að linna ?

Reykvíkingar felldu furðudýrin, sem mynduðu meirihluta borgarstjórnar, í kosningum 14. maí 2022, frá völdum, og er það í annað skiptið í röð, sem lýst er frati á stjórnarhætti borgarstjórans og önnur furðudýr, sem með honum hafa myndað meirihluta borgarstjórnar.

Þá gerist það, að eini fulltrúi Viðreisnar, sem inn komst, spyrðir sig við bandalag vinstri flokkanna, sem myndað var um þá huggulegu fyrirætlun þeirra að hundsa kosningaúrslitin og gefa Reykvíkingum langt nef.  Þótt Viðreisn flaggi borgaralegum gildum og hugmyndum á tyllidögum og fyrir kosningar, er nú ljóst, að ekkert er að marka hana; hún er ómerk orða sinna og kom í veg fyrir, að Framsóknarflokkurinn gæti a.m.k. látið líta út fyrir, að hann vildi efna kosningafyrirheit sín í Reykjavík. Viðreisn neitaði að reyna að verða við ábendingum kjósenda um nauðsyn róttækrar stefnubreytingar í Reykjavík og situr nú brennimerkt í kratasúpunni. 

Þessi kratamoðsuða tók 4 nýja borgarfulltrúa Framsóknar í gíslingu til að endurlífga gamla meirihlutann án VG, og er það eins óbjörguleg byrjun á "samstarfi" um stjórnun borgarinnar og hugsazt getur.  Þetta er pólitískt eitrað fyrirkomulag fyrir bæði Viðreisn og Framsókn, eins og fljótlega mun koma á daginn.

Í Morgunblaðinu 31. maí 2022 voru viðraðar skoðanir ritstjórnarinnar í leiðara undir fyrirsögninni:

 "Engar breytingar, og reyndar verri en engar".

Í lok hennar stóð þetta:

"Splunkunýr leiðtogi kom í Framsókn [frá hægri - innsk. BJo] skömmu fyrir kosningar í Reykjavík nú.  Óljóst var, hverju hann lofaði, en þó ekki jafn óljóst og í dæmunum, sem nefnd voru [af loforðum Framsóknar fyrir þingkosningar - innsk. BJo].  Hann lofaði ítrekað [m.a. í flaumi dýrra auglýsinga - innsk. BJo] og alltaf, þegar hann kom því að, að Framsóknarflokkurinn nýi í borginni myndi tryggja breytingar. Þetta var risastóra loforðið, enda hið eina, sem menn muna, sem eykur stærðina enn.  Og efndin eina og ógnarsmá[a] er að tryggja, að Dagur Bje E, sem kjósendur gerðu allt, sem þeir gátu til að losna við, yrði áfram, og að hans meginverkefni yrði, eins og áður, að tryggja bensínsölum, sem leggja upp laupa, milljarða [ISK] á milljarða ofan í fullkomnu heimildarleysi og andstöðu við reglur og hefðbundið verklag borgarinnar til tuga ára."  

Þarna er sýnt fram á, að Framsóknarflokkurinn í borginni lætur furðudýrin í föllnum vinstri meirihlutanum ekki einvörðungu teyma sig á asnaeyrunum inn í pólitískt öngstræti, heldur út í kviksyndi spillingar, sem grafið hafur um sig undir verndarvæng Samfylkingarinnar í borginni. 

Hvernig getur Framsóknarflokkurinn í Reykjavík litið á það sem hlutverk sitt að endurnýja völd sérvitringa og furðudýra, sem misbeita skipulagsvaldi sínu í þágu minnihlutasjónarmiða sinna um, að Reykjavíkurflugvöllur skuli fara sem fyrst úr Vatnsmýrinni, og reyna að gera hann óstarfhæfan með íbúðabyggingum (á hæðina) í grennd auk fleiri óþurftarverka ? 

Önnur dæmi um misbeitingu skipulagsvalds eru af sviðum samgangna á landi, en furðudýrin tóku mislæg gatnamót út af aðalskipulagi borgarinnar, svo að Vegagerðin færi ekki að huga að fjárfestingum í alvöru og löngu tímabærum samgöngubótum.  Alræmt er síðan, þegar þetta stæka afturhald skipulagði íbúðabyggð (án skóla) í Vogahverfi í veg fyrir hagkvæmustu legu Sundabrautar að dómi Vegagerðar, en rök samtaka um bíllausan lífstíl og furðudýranna í gamla meirihlutanum gegn Sundabraut eru, að hún auki á umferðina og auki þar með mengun og losun koltvíildis.  Þegar veruleikafirrtir fá völd, er bara skáldað upp "nýjum sannleik", sem alltaf er eins og út úr kú.   

Aðför hins afdankaða meirihluta í borgarstjórn að fjölskyldubílnum er annálsverður í sögu Reykjavíkur, því að þar er fullkominn fíflagangur á ferðinni með þrengingum gatna, fuglahúsum og framkvæmdastoppi á umbætur.  Hugmyndafræði furðudýranna snýst um að gera ökumönnum sem erfiðast fyrir í umferðinni í von um, að þeir gefist upp og leggi bílum sínum eða flytji annað. 

Fleiri akreinar og örugg (mislæg) gatnamót eru sögð fjölga ökutækjum, en furðudýrin vilja leysa úr umferðarhnútum í Reykjavík með því að fækka bílum. Þessi "hugmyndafræði" er eintóm vitleysa frá upphafi til enda, og að setja borgarlínuverkefnið, sem er trompið til að fækka bílum, í forgang fjárveitinga er yfirþyrmandi áhættusækni fyrir hönd skattgreiðenda með mrdISK 100-200 áður en upp verður staðið, og árangurinn verður alls enginn, ef reynsla Björgvinjarbúa í Vestur-Noregi er höfð til hliðsjónar.

Í viðtali Ásgeirs Ingvarssonar við Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor emerítus, í Morgunblaðinu 16.05.2022 mátti lesa þetta í byrjun undir fyrirsögninni:

"Töpum 120 milljörðum á töfum":

"Auknar tafir hafa einkennt umferðina á höfuðborgarsvæðinu undanfarinn áratug og má áætla, að árið 2019 hafi tekið um 50 % lengri tíma að komast á milli staða en árið 2007.  Hægt er að reikna út kostnaðinn af þessum töfum, en samanlagt má áætla, að hjá höfuðborgarbúum fari á bilinu 11-18 Mklst/ár í súginn árlega vegna lengri ferðatíma.  Ef reynt er að verðleggja þennan glataða tíma, er tjón almennings um 60 mrdISK/ár, en þjóðhagslegt tjón í kringum 120 mrdISK/ár. 

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn, sem Hagrannsóknir sf. gerði að beiðni samtakanna Samgöngur fyrir alla (SFA) með stuðningi Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál (RSE)."

 

 Hér er hrikalegt sjálfskaparvíti á ferðinni, sem stafar af óhæfri pólitískri forystu í Reykjavík.  Hún er veruleikafirrt og þess vegna gjörsamlega utan gátta, þegar þarf að finna skynsamlegar lausnir á viðfangsefnum.  Það er ekki nóg með, að vegfarendur í Reykjavík verði fyrir óþörfum töfum, heldur veldur servizka furðudýranna í borgarstjórn aukinni slysahættu, þar sem þau hafa hundsað nauðsynlegar nútímalegar endurbætur á forneskjulegum gatnamótum, sem henta engan veginn fyrir þann ökutækjafjölda, sem daglega þarf að fara um þau. Furðudýrin skeyta engu um mannlega harmleiki, sem af þessu hljótast, og líklega um 50 mrdISK/ár aukakostnaði í tjónum, slysum og jafnvel dauðsföllum. Í staðinn hafa þau fengið þá flugu í höfuðið, að þeim beri með stjórnvaldsaðgerðum að fækka fjölskyldubílum í umferðinni, og til þess reyna þau að torvelda umferðina.  Þetta er sjúklegt ástand, og toppurinn á vitleysunni verður ofurstrætó, sem mun fækka akreinum fyrir önnur ökutæki og torvelda alla umferð, því að ofurstrætó verður á 2 akreinum fyrir miðju vegstæðis.  Þetta er ferlíkisframkvæmd, sem er dæmd til að mistakast og verða myllusteinn um háls sveitarfélaganna, sem að henni standa, og baggi á skuldsettum ríkissjóði, sem fyrir vikið verður að fresta bráðnauðsynlegum samgöngubótum. 

 "Spurður um ástæðurnar að baki auknum töfum í umferðinni segir Ragnar, að sennilegasta skýringin sé sú, að fólksfjölgun hafi orðið á höfuðborgarsvæðinu og ferðum þar með fjölgað, en samgönguinnviðir ekki verið bættir til að mæta þessari þróun. "Umferðarmannvirki á höfuðborgarsvæðinu hafa lítið verið bætt undanfarin 12-15 ár og jafnvel verið stigin ákveðin skref - sérstaklega af hálfu Reykjavíkurborgar - til að rýra umferðarmannvirki með ýmsum hætti á þessu tímabili." 

Augljósasta lausnin til að leysa umferðarvandann í dag er, að mati Ragnars, að ráðast í gerð viðeigandi umferðarmannvirkja, og segir hann, að þegar liggi fyrir hönnun á umferðarmannvirkjum, sem munu draga verulega úr umferðartöfum.  Sum þeirra séu mislæg gatnamót á viðeigandi stöðum, en aðrar felist í tiltölulega einföldum endurbótum á þeim umferðarmannvirkjum, sem fyrir hendi eru.  Víða geti einfaldar lagfæringar eða endurhönnun vega haft veruleg jákvæð áhrif. "Þetta eru framkvæmdir, sem útreikningar sýna, að eru mjög hagkvæmar, og skila samfélaginu ávöxtun, sem er langt umfram það, sem venjuleg fjárfestingartækifæri bjóða.""

  Að hætti vandaðra fræðimanna lætur Ragnar Árnason ekki þar við sitja að greina vandamálið og leggja tölulegt mat á umfang þess, heldur dregur hann upp úr pússi sínu lausnir, sem eru þekktar, þaulprófaðar að virka og kostnaðarmetnar.  Hængurinn á verkefninu er sá, að vandamálið er ekki sízt að finna í borgarstjórn Reykjavíkur sjálfri, þar sem við eldana sitja furðudýr úr gjörólíkum hugmyndaheimi, m.v. hugmyndaheim Ragnars, sem leynt og ljóst telja hluta lausnarinnar vera að auka vandræði vegfarenda með töfum og aukinni slysahættu, því að þannig muni bílum í umferðinni að lokum fækka.

Síðan er í undirbúningi rándýr ofurstrætó (liðvagnar), sem á að bjóða þeim, sem hrökklast út úr bílum sínum, upp á valkost, sem þau geti sætt sig við.  Þetta er kolruglaður hugsunargangur og ósvífinn í hæsta máta, sem hafa mun mikil og neikvæð áhrif á lífsgæði allra þeirra, sem þurfa að aka um höfuðborgarsvæðið, og mun draga úr getu viðkomandi sveitarfélaga og ríkissjóðs til að sinna mun vitrænni og nauðsynlegum fjárfestingum.

Verkefnið er glórulaust í alla staði, enda rökstutt með bábiljum, eins og minni mengun og losun koltvíildis.  Það stenzt ekki skoðun, því að tafirnar auka losun eiturefna og CO2 og ofurstrætisvagnar munu tæta upp malbikið vegna tíðra ferða og öxulþungans.  Vegslitið fylgir öxulþunganum í 3. veldi, sem þýðir t.d., að 2,0 t bíll veldur áttföldu sliti á við 1,0 t bíl.  

"Bætir Ragnar við, að áhugavert sé að setja tjónið af töfum í umferðinni í samhengi við tekjur sveitarfélaganna, en árið 2018 námu útsvarstekjur Reykjavíkurborgar um mrdISK 110.  "Líta má svo á, að með því að láta reka á reiðanum í þessum málaflokki sé verið að leggja á borgarbúa viðbótarskatt, sem slagar hátt upp í útsvarið, sem þeir eru að greiða.""

Þetta er lýsandi samanburður hjá Ragnari, en það er nauðsynlegt að taka líka slysakostnaðinn af völdum frumstæðra gatnamóta (m.v. umferðarþungann) með í reikninginn, og þá fæst sama upphæð og útsvarinu nemur, sem varpar ljósi á afleiðingar þess að hafa við völd í Reykjavík, kjörtímabil eftir kjörtímabil, staurblint afturhald.  

Miklabraut


Orkuaðsetur á Bakka við Skjálfanda

Þann 26. apríl 2022 barst loks frétt af raunhæfri viðskiptahugmynd um framleiðslu á rafeldsneyti til innanlandsnota og til útflutnings.  Í iðngörðum á Bakka við Húsavík er ætlunin að nýta raforku frá stækkun Þeistareykjavirkjunar og stækkun Kröfluvirkjunar eftir atvikum til að framleiða vetni og ammóníak. Með verð á olítunnunni í USD 120 og stígandi, er þetta sennilega orðin raunhæf viðskiptahugmynd nú þegar, þótt forstjóri Landsvirkjunar hafi í útvarpsviðtali að morgni 1. júní 2022 talið, að svo yrði ekki fyrr en að 5 árum liðnum. Téð frétt Morgunblaðsins um þetta efni var undir fyrirsögninni:

"Framleiða rafeldsneyti á Bakka".

Hún hófst þannig:

"Í ljósi markmiða ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlaust Ísland [og] óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040 verður að hraða undirbúningi að framleiðslu rafeldsneytis, eins og vetnis og ammoníaks, að mati Sigurðar Ólasonar, framkvæmdastjóra Green Fuel. Slíkt eldsneyti sé lykilatriði í orkuskiptunum.  Fyrirtækið stefnir að byggingu fyrstu stórskala rafeldsneytisverksmiðju landsins á Bakka við Húsavík."

Það er rétt, að orkuskiptin á Íslandi verða aldrei barn í brók án öflugrar rafeldsneytisverksmiðju í landinu, og þess vegna er frétt um þetta frumkvæði einkaframtaksins fagnaðarefni. Að hefjast handa er ekki einvörðungu nauðsyn vegna loftslagsmarkmiðanna, heldur ekki síður til að spara gjaldeyri, þegar líklegt er, að verð á hráolíu verði yfir 100 USD/tunna á næstu árum m.a. vegna viðskiptabanns Vesturlanda á útlagaríkið Rússland, sem unnið hefur til þess að verða einangrað vegna grimmdarlegs og blóðugs yfirgangs við lýðræðislegan og fullvalda nágranna sinn. 

Notendur afurðanna  verða m.a. fiskiskip, flutningaskip, flutningabílar vöru og fólks og flugvélar.  Stór markaður bíður þessarar verksmiðju, en hann mun opnast smátt og smátt vegna vélanna, sem í mörgum tilvikum þarfnast breytinga, enda ekki hannaðar fyrir þessar afurðir sem kjöreldsneyti fyrir hámarksnýtni og endingu. 

"Sigurður segist í samtali við Morgunblaðið finna fyrir miklum áhuga og meðbyr.  "Green Fuel mun framleiða vetni og ammoníak, sem bæði eru algerlega kolefnislaus í framleiðslu og notkun.  Þessar 2 tegundir rafeldsneytis eru því lausn á loftslagsvanda heimsins og munu stuðla að því, að Ísland uppfylli ákvæði Parísarsamkomulagsins varðandi minnkun kolefnisútblásturs.  T.d. væri það mikill kostur, ef kaupskipa- og fiskiskipaflotinn næði að skipta út dísilolíu [og flotaolíu - innsk. BJo] yfir í rafeldsneyti", segir Sigurður.

Ammóníakið, sem Green Fuel hyggst framleiða, myndi duga til að knýja þriðjung íslenzka fiskiskipaflotans að sögn Sigurðar.  Auk þess mun Green Fuel framleiða vetni í fljótandi formi, sem er álitlegur orkugjafi [orkuberi - innsk. BJo] fyrir þungaflutninga og innanlandsflug á Íslandi."

Það er ekki bara kostur, heldur nauðsyn, að flotinn losi sig úr viðjum eldsneytisinnflutnings og verði um leið kolefnishlutlaus.  Vetnið er grunnvaran fyrir allt rafeldsneyti.  Til að færa það á vökvaform er vetnið sett undir háan þrýsting og jafnvel kælt líka. Þetta er orkukræft ferli, og minni hagsmunum verður einfaldlega að fórna fyrir meiri til að útvega "græna" raforku í verkið. Þokulúðrar á þingi á borð við Þórunni Sveinbjarnardóttur, þingkonu Samfylkingar, sem í pistli á leiðarasíðu Morgunblaðsins, sem gera þarf nánari skil á þessu vefsetri, bar brigður á það, að virkja þyrfti meira til að vinna bug á raforkuskorti í landinu, reyna sitt til að leggja steina í götu eðlilegrar iðnþróunar í landinu. Forstjóri Landsvirkjunar játar, að raforkueftirspurn í landinu sé nú meiri en raforkuframboðið, í greinarstúfi í Fréttablaðinu 1. júní 2022, en samt situr Orkustofnun á leyfisumsókn fyrirtækis hans um Hvammsvirkjun síðan fyrir um ári, og hann kvartar ekki mikið undan silakeppshættinum opinberlega. Það hvílir ótrúlegur doði yfir stjórnsýslunni í landinu á ögurstund.   

"Stefnt er að því að hefja framleiðsluna á Bakka árið 2025, ef samningar ganga eftir.  Um er að ræða um 30 MW raforkuþörf [aflþörf - innsk. BJo] í fyrsta áfanga , en 70 MW til viðbótar í seinni áfanga."

Þetta eru alls 100 MW, sem ætti að vera unnt að útvega úr jarðgufugeymum Þingeyinga, en er Landsvirkjun tilbúin í stækkun Þeistareykja og Kröflu ? Lok fréttarinnar hljóðuðu þannig: 

"Spurður um helztu magntölur segir Sigurður, að þegar báðir áfangar verði komnir í gagnið [orkunotkun um 800 GWh/ár - innsk. BJo], verði framleiðslan um 105 kt/ár eða 300 t/d af ammóníaki.

Störfin segir Sigurður, að muni skipta tugum, þó [að] of snemmt sé að fullyrða um endanlega tölu.  "Verksmiðjan kemur með atvinnu inn á svæðið, bæði í verksmiðjunni sjálfri og hjá þjónustufyrirtæjum í nærumhverfinu", segir Sigurður að lokum." 

Hér er örugglega um þjóðhagslega arðsamt fyrirtæki að ræða og mjög líklega um rekstrarlega arðsamt fyrirtæki að ræða, þegar hráolíutunnan er komin vel yfir USD 100, eins og nú.  Þess vegna þarf að fara að hefjast handa, en orkuskortur hamlar.  Það er næg orka í gufuforðageymum Þeistareykja og Kröflu, og skýtur skökku við, að Landsvirkjun skuli ekki hafa brugðizt betur við og boðað stækkun þessara virkjana. Ekki er ráð, nema í tíma sé tekið, þegar málsmeðferðartími opinberra leyfisveitenda er annars vegar.  Það liggja víða dragbítar framfara á fleti fyrir.  

 

 

 

 


Mannvonzka og lygar í öndvegi Rússaveldis

Að ganga fram með grimmúðlegu og miskunnarlausu nýlendustríði á hendur fullvalda lýðræðisríki í Evrópu árið 2022 er geðveikislegt, enda er það réttlætt af árásaröflunum með fjarstæðum á borð við upprætingu nazisma, og að fórnarlambið eigi að vera nýlenda "mikilfenglegs Rússlands" af sögulegum ástæðum og með fáránlegum söguskýringum. Þessir atburðir eru svo alvarlegir, að þeir hafa sameinað drjúgan hluta heimsbyggðarinnar undir merkjum Vesturlanda og NATO.  Svíar, sem verið hafa hlutlausir í átökum Evrópu síðan á Napóleónstímanum, og Finnar, sem verið hafa á áhrifasvæði Rússa síðan í lok Síðari heimsstyrjaldarinnar, þegar þeir fengu að kenna á vopnuðum yfirgangi Rússa, hafa nú sótt um NATO-aðild.

Þar með gengur einn öflugasti og nútímalegasti her Evrópu til liðs við varnarbandalag vestrænna þjóða, NATO.  Þetta er högg í andlit Putins og kemur vel á vondan, því að alræðisherra Rússlands hefur framkallað þessa stöðu sjálfur. Nú liggur Kola skagi vel við höggi, og auðvelt er að eyðileggja einu veg- og járnbrautartenginguna á milli Kolaskaga og annarra hluta Rússlands.   

Úkraínumenn berjast nú upp á líf og dauða fyrir hinum góða málstað, þ.e. að fá að lifa í friði, sjálfstæðir í fullvalda ríki sínu, og fá að ráða stjórnarformi sínu sjálfir og þróun efnahagslífsins í þessu auðuga landi frá náttúrunnar hendi, og að fá að velja sjálfir sína bandamenn og nánu samstarfsþjóðir.  Hér er líka um að ræða baráttu lýðræðis og frelsis í heiminum við einræði og illyrmislega kúgun.  Málstaður Rússlands er svo slæmur, að þrátt fyrir stanzlausar áróðurslygar Kremlverja, sem dynja á rússnesku þjóðinni, og þótt  sannleikurinn sé bannaður, virðist baráttuandi rússnesku hermannanna ekki vera upp á marga fiska, sem ásamt innanmeinum og rotinni spillingu í rússneska hernum og þjóðfélaginu í heild, virðist munu gera úkraínska hernum kleift að reka fjandmanninn af höndum sér, vonandi fyrir fullt og allt. 

Olga Dibrova, sendiherra Úkraínu á Íslandi með aðsetri í Helsinki, skrifaði upplýsandi og áhrifamikla grein til Íslendinga, sem birtist í Morgunblaðinu 28. apríl 2022, þegar Rússar höfðu níðzt á úkraínsku þjóðinni með sprengjuregni í rúmlega 2 mánuði.  Þegar þetta er skrifað, er 3 mánuðir voru frá innrásinni, sem lygalaupunum þóknast að kalla "sérstaka hernaðaraðgerð", virðast hrakfarir rússneska hersins á vígvöllunum engan endi ætla að taka og að sama skapi heldur ekki lúalegar og illmannlegar árásir hans á almenna borgara. 

Grein sendiherrans hét:

"Stríðsglæpamönnum skal hvergi látið órefsað".

"Um tveggja mánaða skeið hefur heimsbyggðin mátt horfa upp á miskunnarlaust þjóðarmorð Rússa á úkraínskri jörð.  Mannfórnir rússnesku innrásarinnar eru skelfilegar, og sannarlega aðhafðist þjóð mín ekkert það, er ýta mætti undir þær hörmulegu stríðsaðgerðir.  Konur og börn hafa týnt lífinu, þúsundir óbreyttra borgara hafa mátt flýja heimili sín undan skefjalausu ofbeldi.

Engum dylst, að með aðgerðum sínum í Úkraínu stefna stjórnarherrar Rússlands að því markmiði að eyðileggja úkraínsku þjóðina að einhverju eða öllu leyti.  Að því markmiði er sótt með morðum og skefjalausu ofbeldi gagnvart Úkraínumönnum.  Er þar engu eirt og börn okkar jafnvel nauðungarflutt á rússneskt landsvæði, rúmlega 121 000 börn, eins og staðan er nú, höfum við eftir áreiðanlegum heimildum."

"Sérstök hernaðaraðgerð" Vladimirs Putins, einræðisherra Rússlands, var reist á alröngum forsendum um ímyndaða ógn við Rússland og rússneskumælandi Úkraínumenn og kolröngu herfræðilegu mati rússneska herráðsins. Leiftursókn að Kænugarði misheppnaðist hrapallega, og úkraínski herinn rak illa skipulagðan, og óagaðan Rússaherinn af höndum sér frá Kænugarðssvæðinu, svo að sá undir iljar hans norður til Hvíta-Rússlands og móðurlandsins.  Þaðan var þessi sigraði her fluttur til austurhéraðanna, Luhansk og Donetsk, þar sem hann veldur gríðarlegri  eyðileggingu og drápi á almennum borgurum, bæði rússneskumælandi og úkraínskumælandi. 

Þegar herstyrkur úkraínska hersins verður orðinn nægur til sóknar eftir vopnaflutninga Bandaríkjamanna og Breta að landamærum Úkraínu, bíður Spetsnaz og nýliðanna úr Rússaher ekkert annað en flótti heim til móður Rússlands.  Á 3 mánaða afmæli ofbeldisins bárust af því fréttir, að sérsveitirnar, Spetsnaz, hefðu óhlýðnast fyrirmælum yfirmanna um að sækja fram, því að loftvarnir væru ófullnægjandi.  Þetta er vísbending um væntanlega upplausn rússneska hersins, enda baráttuviljinn í lágmarki, og herstjórnin afleit.  Það, sem átti að sýna mátt og mikilleik Rússlands, hefur opinberað risa á brauðfótum og geltandi bolabít með landsframleiðslu á við Spán og undirmálsher, sem yrði auðveldlega undir í beinum átökum við NATO.  Vladimir Putin hefur með yfirgengilegu dómgreindarleysi og siðblindu orðið valdur að fullkominni niðurlægingu Rússlands, sem mun setja svip á þróun heimsmálanna næstu áratugina.  

Í suðri hefur Rússum tekizt að ná Maríupol eftir tæplega 3 mánaða umsátur, og borgin er í rúst eftir þá.  Þetta er villimannlegur hernaður af hálfu Rússa og eins frumstæður og hægt er að hugsa sér.  Vopnin eru miklu öflugri en hæfir þroskastigi þeirra.  Margfalt fleiri óbreyttir borgarar hafa farizt í sprengiregninu á og við Maríupol á þessum tæplega 3 mánuðum en í hertöku borgarinnar og 2 ára hernámi af hálfu Wehrmacht 1941-1943. Heimurinn hefur ekki séð jafnvillimannlegar aðfarir í hernaði og af hálfu þessa Rússahers.  Sárin eftir þetta stríð verða lengi að gróa, og áhrif Rússa í heiminum verða hverfandi. 

"Heilar borgir eru nú rústir einar, s.s. Volnovaka, Isíum, Maríupol, Oktíra, Tsjernihív, Skastía o.fl. Innrásarherinn hefur skaddað eða eyðilagt 14 000 íbúðarhús, 324 sjúkrahús, 1 141 menntastofnun og nær 300 leikskóla auk húsnæðis trúflokka, sveitabæja, landbúnaðarfyrirtækja og stjórnsýslu- og iðnaðarbygginga.  Alls hafa Rússar valdið mismiklu tjóni á um þriðjungi allra innviða landsins; má þar nefna 300 brýr, 8 000 km af vegum, sem gera hefur þurft við eða leggja upp á nýtt og tylft járnbrautarbrúa."

Kostnaðurinn við enduruppbyggingu landsins eftir vandalana, sem kappkosta að eyðileggja sem mest af þjóðarverðmætum Úkraínumanna, svo að enduruppbyggingin taki sem lengstan tíma, og mannslífin og menningarverðmætin verða aldrei bætt.  Kostnaður enduruppbyggingar mun vart nema undir trnUSD 1 í allri Úkraínu.  Frystar eignir Rússlands og ólígarkanna á Vesturlöndum verða vonandi nýttar í uppbygginguna.  Rússar eru sjálfir að eyðileggja sem mest í Úkraínu, sem minnir á nýlendukúgun Rússa, en ný heimili, skólar, sjúkrahús, samgönguinnviðir og veitur verða reist með vestrænni tækni.  Úkraína mun ganga í ESB og NATO og verða gríðarlega samkeppnishæft land með landsframleiðslu á mann, sem verður fljótt miklu meiri en í Rússlandi, þar sem hún var undir 13 kUSD/íb árið  2021.  Landsframleiðsla Rússlands var þá á svipuðu róli og Spánar, sem sýnir, að krafa Kremlar um að verða talin til stórvelda með áhrifasvæði í kringum sig á sér enga stoð.  Eftir ósigurinn í Úkraínu gæti landið liðazt í sundur og Kínverjar tekið ytri Mongólíu, sem var hluti Kínaveldis þar til eftir Ópíumstríðið á 19. öld. 

"Rússar hafa lagt undir sig eignir og valdið eyðileggingu á m.a. innviðum rafmagns, vatns og húshitunar auk þess að standa í vegi fyrir mannúðaraðstoð og brottflutningi borgara, sem fyrir vikið líða illilegan skort lífsnauðsynja um kalda vetrarmánuði, matar, vatns, hita og heilbrigðisaðstoðar.  Þetta ástand er aðeins til þess fallið að valda þjáningum og tæringu fjölda almennra borgara víða um Úkraínu, svo [að] ekki sé minnzt á nýlega flugskeytaárás á Kramatorsk-járnbrautarstöðina, sem kostaði 52 mannslíf, þar af 5 líf barna.  Þar fyrir utan særðust tugir og dvelja nú á sjúkrahúsum, þ.á.m. börn, sem misstu útlimi.  

Að svelta almenna borgara til ávinnings í hernaðarskyni er ekkert annað en glæpur gegn mannkyninu.  Hernám borga á borð við Maríupol og Tsjernív ber þeim ásetningi Rússa vitni að ætla sér að tortíma a.m.k. hluta úkraínsku þjóðarinnar."

Rússar virðast stela öllu steini léttara á hernámssvæðum sínum í Úkraínu. Þeir stunda þar grimma "Rússavæðingu", krefjast þess, að fólk tali rússnesku og börnum er sagt, að þau fái nú ekkert sumarfrí, því að í haust taki við rússnesk námsskrá og þau þurfi að búa sig undir hana. Hér er um illkynja nýlendustríð að ræða, þar sem "ómenningu" herraþjóðarinnar á að troða upp á undirsátana, og fólk hefur verið herleitt til Rússlands, þar sem enginn veit, hvað við tekur. Nái Rússar austurhéruðunum, þar sem m.a. eru ýmis verðmæti í jörðu, verða þessi héruð skítnýtt af herraþjóðinni, og undirsátarnir fá náðarsamlegast að þræla fyrir nýlendukúgarana.  Það er með eindæmum, að þessi forneskjulega atburðarás eigi sér stað framan við nefið á okkur árið 2022. 

"Rússar halda því fram, að þeir ætli sér að "afvæða nasisma" [sic !?] [afnema nazisma] í Úkraínu með aðgerðum sínum. Þau orð hafa þeir notfært sér til að tengja árás sína við tortímingu "nazista", sem að þeirra skoðun búa í Úkraínu.  Stjórnvöld í Rússlandi kalla þá Úkraínubúa "nazista", sem styðja hugmyndina um sjálfstæða Úkraínu og berjast fyrir framtíð landsins í samfélagi Evrópuþjóða." 

 Áróður Kremlverja um nazisma í Úkraínu er gjörsamlega úr lausu lofti gripinn m.v. úrslit þeirra frjálsu kosninga, sem þar hafa verið haldnar undanfarin ár, þar sem örfá % kjósenda léðu stuðning sinn við eitthvað, sem nálgast gæti þjóðernisjafnaðarstefnu.  Þessi firra áróðursmanna Kremlar er einvörðungu til heimabrúks á meðal illa upplýsts lýðs, sem býr við illvíga ritskoðun og ríkisvæddar fréttir.  Annars staðar grefur þessi fáránlegi málflutningur undan trúverðugleika rússneskra stjórnvalda, sem nú er enginn orðinn, þ.e.a.s. það er ekki orð að marka það, sem frá Putin og pótintátum hans kemur.

Hið þversagnakennda er, að þessi rússnesku stjórnvöld minna um margt á fasistastjórn, og hugmyndafræði Putins um Stór-Evrópurússland svipar á marga lund til hugmyndafræði foringja Þriðja ríkisins um Stór-Þýzkaland og "Drang nach Osten für Lebensraum" eða sókn til austurs fyrir lífsrými handa aríum Þriðja ríkisins, en í báðum tilvikum leikur Úkraína aðalhlutverkið, orkurík og gróðursæl (kornforðabúr Evrópu). Hernaður Rússa nú gegn almenningi í Úkraínu, sjúkrahúsum hans, skólum og menningararfleifð, ber þess vitni, að grimmlyndir Rússar með mongólablóð í æðum frá 14. öld vilja eyða þjóðareinkennum Úkraínumanna, og framkoma þeirra við Úkraínumenn ber vitni um hugarfar nýlendukúgara í landi, sem þeir vilja gera að nýlendu sinni með svipuðum hætti og Stormsveitir Himmlers komu fram við "Untermenschen" í Síðari heimsstyrjöldinni, oft í óþökk Wehrmacht. 

 "Heimsbyggðinni væri réttast að skella skollaeyrunum við fölskum málflutningi Rússa og hafa það hugfast að, Rússland er árásaraðili, og stjórnendur landsins eru stríðsglæpamenn. Úkraínumenn treysta á stuðning Íslendinga í sakaruppgjöri við alla þá, sem gerzt hafa sekir um hrottalega glæpi gegn mannkyni, þ.á.m. rússneska stjórnmála-, viðskipta- og hernaðarleiðtoga, er staðið hafa fyrir falsfréttum, hindurvitnum og áróðri til að fela þann hrylling, sem nú á sér stað, og hermenn og herstjórnendur, sem nauðgað hafa úkraínskum konum og jafnvel börnum og bera ábyrgð á dauða og þjáningu þúsunda. Þar skal réttlætinu fullnægt."

Kremlverjar eru algerir ómerkingar, og málflutningur þeirra er heilaspuni og lygaþvættingur, sem því miður endurómar sums staðar, jafnvel hérlendis. Þeir, sem ímynda sér, að raunhæft verði að ganga til einhvers konar "friðarsamninga" við þá um, að þeir komist upp með að ræna austurhéruðunum (Donbass) og suðurhéruðunum við Svartahafið af Úkraínu og að þeir muni láta þar við sitja varanlega, vaða í villu og svíma eða ganga beinlínis erinda ofbeldismannanna rússnesku á Vesturlöndum; eru eins konar kvislingar.  Kremlverjar eru ekki einvörðungu sekir um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni, sem er nógu slæmt, heldur eru þeir sekir við alþjóðalög um gróft og alvarlegt brot gegn sjálfstæðu og fullvalda ríki í Evrópu.  Evrópa á ekki að una sér hvíldar fyrr en þetta hefur verið leiðrétt, og hún á að nýta sér og ýta undir vilja Bandaríkjamanna til að veita mikla og dýrmæta aðstoð í þessum efnum.  Enginn veit, hvenær vindátt snýst á þeim bænum og stórhættuleg uppgjafar- og einangrunarstefna í anda fyrrverandi forseta, sem smjaðraði fyrir mafíuforingjanum í Kreml, verður tekin þar upp. 

"Alþjóðasamfélaginu er í lófa lagið að hindra glæpina með því að banna þegar í stað öll viðskipti með olíu og gas frá Rússlandi.  Orkuútflutningur Rússa er þeirra helzta hagnaðarvon og þörf annarra þjóða fyrir hann helzta trygging stjórnenda landsins fyrir því, að ríki þeirra sé ósnertanlegt.  Þar með vona þeir, að heimsbyggðin sé tilbúin að líta framhjá stríðsglæpum herja þeirra.  Allir rússneskir bankar eru hluti af stríðsvél landsins og styðja hana með einum eða öðrum hætti.  Afnema þarf tengingu þessara banka við alþjóðahagkerfið. Það er fullkomlega óviðunandi, að þeir, sem standa á bak við helztu ógn öryggis í heiminum græði á tá og fingri."  

Vingulsháttur hefur einkennt afstöðu og aðgerðaleysi stærstu Evrópusambandslandanna, Þýzkalands og Frakklands, til svívirðilegrar tilraunar fasistastjórnarinnar í Moskvu til að hernema Úkraínu og koma þar á leppstjórn.  Fyrir 2 mánuðum lofuðu stjórnvöld Þýzkalands að senda Úkraínumönnum skriðdrekabanann Gephardt, en þessi tæki eru enn ekki komin á vígvöllinn, og sama er að segja um loftvarnarkerfi, sem Úkraínumenn áttu að fá frá Þýzkalandi.  Vingullinn við Elysée í París hefur lítið látið af hendi rakna, og hann virðist enn halda, að hann geti gegnt einhverju hlutverki við friðarsamninga. 

Ursula von der Leyen reynir mikið til að fá leiðtogaráð ESB til að fallast á olíukaupabann á Rússa, en Orban í Búdapest setur löppina fyrir, svo að ekki er hægt að loka dyrunum.  Hann gengur erinda stríðsglæpamannsins í Kreml, sem virðist ætla að leggja borgir og bæi Úkraínu í rúst í sjúklegri heift  yfir harðri andstöðu Úkraínumanna, úkraínskumælandi og rússneskumælandi, við valdatöku Rússa í Úkraínu, sem allir vita, að jafngilda mundi nýlendustöðu landsins gagnvart glæpsamlegum nýlendukúgara. 

 

 ukrainian-cloth-flags-flag-15727


Orkan er undirstaða hagkerfanna

Vegna stríðs í Evrópu herjar orkuskortur víðast hvar í álfunni vestan Rússlands með Ísland og Noreg sem undantekningu. Á fyrsta degi svívirðilegrar innrásar Rússa í Úkraínu voru allar raforkutengingar Úkraínu við Rússland rofnar og landið fasað saman við stofnkerfi Evrópu.  Í framtíðinni er líklegt, að Úkraína muni selja "kolefnisfría" raforku til Evrópusambandsins.  Rússar hafa rofið raforkuflutninga sína til Finnlands í refsingarskyni fyrir, að Finnar hafa gefið hlutleysisstefnu sína upp á bátinn og óskað eftir inngöngu í varnarbandalagið NATO. Svíar hafa hlaupið í skarðið með að sögn 10 % af finnsku raforkuþörfinni, en eru varla aflögufærir að vetrarlagi vegna lokunar nokkurra kjarnorkuvera sinna. Evrópusambandslöndin hafa lokað á innflutning kola frá Rússlandi og ræða að binda endi á olíuinnflutning þaðan. Að draga úr eldsneytisgasinnflutningi frá Rússlandi er kappsmál margra, en Rússar hafa nú þegar lokað á gasflutning til Póllands og Búlgaríu, af því að ríkisstjórnir þessara landa bönnuðu greiðslur með rúblum. Evrópusambandslöndin stefna á að stöðva öll orkukaup frá Rússum.  Í Úkraínu er eldsneytisgas í jörðu, og líklega verður borað þar og öflugar lagnir lagðar til vesturs og tengdar inn á gasstofnlagnir í ESB.

Vegna orkuskorts og mjög mikillar hækkunar orkuverðs í Evrópusambandinu, ESB, siglir sambandið inn í efnahagskreppu vegna minnkandi framleiðslu, enda falla hlutabréf nú ískyggilega.  Ef lokað verður senn fyrir rússneska olíu til ESB, spáir "die Bundesbank"-þýzki seðlabankinn yfir 5 % samdrætti hagkerfis Þýzkalands 2022, og hann gæti tvöfaldazt við lokun fyrir rússneskt gas.  Bundesbank spáir mrdEUR 180 nettó tapi fyrir þýzka hagkerfið 2022, ef bráðlega verður hætt að kaupa gas af Rússum, sem hefur numið um 45 % af gasþörf Þýzkalands.  Eystrasaltslöndin hafa hætt öllum orkukaupum af Rússum, og nú standa spjótin á Þjóðverjum fyrir slælegan hernaðarstuðning við Úkraínumenn og fyrir það að fjármagna tortímingarstríð Putins, alvald Rússlands, með gaskaupum á gríðarháu verði.      

Stuðningur Vesturveldanna við Úkraínu frá 24.02.2022 nemur í fjármunum aðeins broti af þessari þýzku tapsfjárhæð. Hún sýnir í hvílíkt óefni Þjóðverjar hafa stefnt efnahag sínum með því að flytja allt að 45 % af gasþörf sinni frá Rússlandi eða tæplega 43 mrdm3/ár. Þeir hafa vanrækt aðrar leiðir, af því að þær eru dýrari, en verða nú að bregðast við skelfilegri stöðu með því að setja upp móttökustöðvar fyrir LNG (jarðgas á vökvaformi) í höfnum sínum og flytja það inn frá Persaflóaríkjunum og Bandaríkjunum (BNA) með tankskipum.  Nú stóreykst gasvinnsla með leirsteinsbroti í BNA, og Norðmenn framleiða sem mest þeir mega úr sínum neðansjávarlindum úti fyrir norðanverðum Noregi, en Norðursjávarlindir þeirra, Dana, Hollendinga og Breta, gefa nú orðið lítið. 

Þessi efnahagskreppa í ESB og á Bretlandi af völdum orkuskorts er þegar farin að valda verri lífskjörum í Evrópu (Noregur meðtalinn vegna innflutnings á evrópsku raforkuverði til Noregs sunnan Dovre).  Á Íslandi hefur eldsneytisverð hækkað gríðarlega og matvælaverð og áburðarverð líka, svo að ekki sé talað um hörmungarástandið á fasteignamarkaðinum af innlendum ástæðum (kreddum). Nautakjötsframleiðendur á Íslandi sjá sína sæng út breidda við þessar aðstæður.  Í nafni matvælaöryggis verður ríkisvaldið að grípa inn með neyðarráðstöfunum á innflutningshlið (minnkun innflutnings, tollar), svo að bændur geti forðazt taprekstur og flosni þá ekki upp af búum sínum.

Verðbólgan rýrir lífskjör almennings, en að auka launakostnað fyrirtækja á hverja unna klukkustund umfram framleiðniaukningu til að vega upp á móti rýrnandi kaupmætti virkar einfaldlega sem olía á eld verðbólgunnar.

Á Íslandi er þó allt annað uppi á teninginum í orkulegum og efnahagslegum efnum en erlendis.  Það er að vísu raforkuskortur í boði afturhalds, sem ber fyrir sig umhverfisvernd, sem er reist á geðþótta hins sama afturhalds, en ekki á staðlaðri kostnaðar- og ábatagreiningu virkjunarkosta. Það verður bæði að virkja og vernda, svo að þetta er val og lempni er þörf. Í ljósi aðstæðna í heiminum er það siðferðislega og fjárhagslega óverjandi að standa gegn nánast öllum framfaramálum á orkusviðinu hérlendis, sem auðvitað kyrkir möguleika landsmanna til orkuskipta á þeim hraða, sem stjórnvöld dreymir um. 

Þann 27. apríl 2022 birtist í Morgunblaðinu baksviðsfrétt, sem varpar ljósi á eina hlið þessa stórmáls.  Fyrirsögnin var dæmigerð um ástandið: 

"Ekki næg raforka til að knýja orkuskiptin".

   Hún hófst þannig:

"Um ein milljón lítra af olíu er flutt til landsins á hverju ári [þetta er 3 stærðargráðum minna en í raun - innsk. BJo]. Það er ígildi allrar orkuvinnslu Landsvirkjunar í dag.  [Orkuinnihald þessarar olíu er um 11,1 TWh/ár, en nýtanlegt orkuinnihald er aðeins um 4 TWh/ár.  Raforkuvinnsla Landsvirkjunar (nýtanleg) er um 14 TWh/ár, svo að í raun nemur olíuinnflutningurinn aðeins tæplega 30 % af orkuvinnslu Landsvirkjunar - innsk. BJo.]  Í umsögn um drög að stefnu stjórnvalda um orkuskipti í flugi bendir fyrirtækið [Landsvirkjun] á, að ekki sé næg raforka til í landinu til að knýja orkuskipti í samgöngum, og það krefjist margra ára undirbúnings og framkvæmdatíma.

Innviðaráðuneytið kynnti á dögunum í samráðsgátt stjórnvalda drög að stefnu og aðgerðaáætlun um orkuskipti í flugi á Íslandi.  Grundvallast hún á tillögum nefndar, sem falið var þetta verkefni.  Á [m]eðal þess, sem lagt er til, er, að kannaður verði möguleiki á samstarfi við framleiðendur nýrra flugvéla með það að markmiði, að Ísland verði vettvangur prófana á nýrri tækni í flugi.  Lagt er til, að unnið verði að því, að allt innanlandsflug verði knúið með endurnýjanlegu eldsneyti fyrir árið 2040.  Einnig, að stuðlað verði að uppbyggingu innviða fyrir slíkt eldsneyti á flugvöllum, svo [að] nokkuð sé nefnt." 

Miklu skiptir að velja fjárhagslega öflugan samstarfsaðila á sviði tækniþróunar, til að þetta gangi eftir.  Það liggur ennfremur beint við, að græna flugvélaeldsneytið, hvert sem það verður, verði framleitt á Íslandi.  Það er líklegt, að hið nýja eldsneyti muni innihalda vetni, og þess vegna þarf að koma hérlendis á laggirnar vetnisverksmiðju.  Samkeppnishæfnin er háð stærð verksmiðjunnar, og þess vegna er ekki úr vegi að fá vetni í flugvélaeldsneyti og flutningabíla- og vinnuvélaeldsneyti frá verksmiðjunni, sem framleiða á vetni fyrir nýja hérlenda áburðarverksmiðju, en Úkraínustríðið hefur valdið miklum verðhækkunum á áburði, sem enginn veit, hvort eða hvenær gangi til baka vegna viðskiptabanns á útlagaríkið Rússland. 

"Í þessu samhengi má minna á, að í uppfærðri orkuspá frá síðasta ári [2021] er sem fyrr ekki gert ráð fyrir raforkuþörf vegna framleiðslu á rafeldsneyti fyrir orkuskipti í flugi.  Það er rökstutt með óvissu um það, hvaða tegund rafeldsneytis verði ríkjandi, hvort það verði innflutt eða framleitt innanlands, og hver raforkuþörfin til framleiðslu rafeldsneytis verður, verði það framleitt innanlands.  Starfshópur um stöðu og áskoranir í orkumálum benti á það í skýrslu, sem út kom í síðasta mánuði [marz 2022], að til þess að ná fullum orkuskiptum m.a. í flugi og áframhaldandi hagvexti, þyrfti að tvöfalda núverandi orkuframleiðslu í landinu og rúmlega það." 

Það er villandi á þessu umbreytingaskeiði á orkusviði, að Orkuspárnefnd sé með vífilengjur, dragi lappirnar og láti líta út fyrir, að orkuvinnsluþörfin sé minni en hún er m.v. áform stjórnvalda í orkuskiptum.  Nú verður hún einfaldlega að styðjast við útreikninga starfshóps um stöðu og áskoranir í orkumálum um raforkuþörf innanlandsflugsins og láta hana hefjast árið 2025 og stíga síðan línulega í 15 ár, þar til fullri þörf er náð. Þessi orkuskipti munu tryggja stöðu innanlandsflugsins til langrar framtíðar, og miðstöð þess í Vatnsmýrinni í Reykjavík á ríkisvaldið að tryggja.  Útúrboruleg sérvizka einstakra pólitíkusa í Reykjavík verður að víkja fyrir meiri hagsmunum í þessum efnum.

"Þess vegna sé mikilvægt að horfa til annarra áætlana stjórnvalda, sem hafa áhrif á orkuöflun, s.s. heildarendurskoðunar á rammaáætlun og leyfisferlis virkjana og stækkunarverkefna þeirra.  Sérstaklega verði horft til leyfisferla vindorkukosta. 

Einnig sé mikilvægt að huga að því, að aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum nái í dag ekki yfir það, sem gera þarf til að ná fram þjóðfélagi án jarðefnaeldsneytis árið 2040 - og þar með orkusjálfstæði landsins." 

Á þetta hefur verið bent á þessu vefsetri.  Téð aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar stendur ekki undir nafni.  Nú hefur loftslags-, orku- og umhverfisráðherra lagt fyrir þingið frumvarp um að létta virkjanafyrirtækjum róðurinn við stækkun virkjana í rekstri.  Komið hafa fram mótbárur við þetta frumvarp, sem reistar eru á ágizkunum og vænisýki, algerlega í anda tilfinningaþrungins afturhalds í landinu, sem gerir allt til að kynda undir ranghugmyndum um óafturkræft náttúrutjón af mannavöldum og leggja stein í götu orkuframkvæmda í landinu.  Fái þau ráðið, verða orkuskiptin hérlendis í skötulíki og hagvöxtur ófullnægjandi fyrir vaxandi þjóð. Það yrði hörmuleg niðurstaða m.v. möguleikana, sem landið býður íbúum sínum upp á, ef skynsemi og bezta tækni fá að ráða för.  

Morgunblaðið gerði í baksviðsfrétt 17. maí 2022 grein fyrir þessu undir fyrirsögninni:

"Telja, að horft sé til Kjalölduveitu".

Fréttin hófst þannig:

"Náttúruverndarsamtökin Náttúrugrið telja ekki unnt að rökstyðja aflaukningu þriggja virkjana Landsvirkjunar á Þjórsár-Tungnaár svæðinu, sem gert er ráð fyrir í stjórnarfrumvarpi, að verði heimiluð án þess að fara í gegn um rammaáætlun.  Telja félagasamtökin, að sú viðbót við orkuframleiðslu, sem fengist, sé allt of lítil til að standa undir fjárfestingunni.  Þess vegna telja þau, að það hangi á spýtunni hjá Landsvirkjun, að samhliða yrði farið í Kjalölduveitu úr Þjórsá."

Þessi málflutningur er reistur á sandi. Þessi áform Landsvirkjunar má skýra í ljósi skortstöðu afls og orku, sem blasir við á næstu 5 árum, þar til meðalstór virkjun (Hvammsvirkjun) tekur til starfa 2027, og er afleiðing athafnaleysis virkjanafyrirtækja og sofandaháttar yfirvalda. Viðbót afl- og orkugetu af þessu tagi við þessar aðstæður er miklu verðmætari en nemur verðinu, sem Landsvirkjun fær núna fyrir afl og orku, því að hún getur komið í veg fyrir afl- og orkuskerðingu, sem kostar viðskiptavinina 10-1000 sinnum meira en núverandi verð á þessari þjónustu. Þar að auki má benda á, að Landsvirkjun væntir aukins vatnsrennslis næstu áratugina vegna hlýinda og meiri úrkomu.  Aukið vatnsrennsli hefur þó ekki verið áberandi enn þá. 

Landsvirkjun óskar eftir að fá að stækka 3 virkjanir án umhverfismats, Hrauneyjar, Sigöldu og Vatnsfell, um 210 MW (47 % aukning) og býst við að fá út úr því aðeins um 34 GWh/ár (1,3 % aukning).  Þessi litla aukning orkuvinnslugetu sýnir, hversu fáránleg þau rök fyrir raforkuútflutningi um sæstreng héðan voru, að þessi útflutningur gerði kleift að nýta allt vatn, sem að virkjununum (Þórisvatni) bærist.  Á það var bent á þessu vefsetri, að þessi aukning væri allt of lítil til að geta staðið undir viðskiptum um sæstreng.  Þá var reyndar hugmynd Landsvirkjunar að nota aflaukninguna til að selja afl til útlanda á háálagstímanum og flytja inn orku á lágálagstíma.  Þetta afl er svo lítið á erlendan mælikvarða, að hæpið er, að nokkur áhugi sé á slíkum viðskiptum og áfram hæpið, að langur og dýr sæstrengur geti reynzt arðbær með svo lítilli notkun.       

 

    


Stríðið veldur hungursneyð

Árásarstríð Kremlarstjórnar á hendur Úkraínu hefur snúizt upp í niðurlægingu hennar og Rússahers.  Þar með er ljóst, að zarinn er ekki í neinu, þegar hann gortar af sögulegum "mikilleik Rússlands".  Hernaður Rússa í Úkraínu er ömurlegur og frammistaða þeirra hræðileg, bæði á vígvöllunum sjálfum og gagnvart almennum borgurum, sem þeir níðast á.  Engu er líkara en villimannlegum hernaði forseta Rússlands á hendur fullvalda, lýðræðislegu menningarríki vestan Rússlands sé ætlað að valda sem mestu tjóni á nútímalegum innviðum Úkraínu og menningarverðmætum og drepa fjölda almennra borgara.  Allar hliðar þessa hernaðar Rússlands eru viðbjóðslegar og óverjandi og sýna, að engin friðsamleg samskipti eru hugsanleg við hrokafull og grimm yfirvöld þessa ríkis. Herstjórn Rússa er í skötulíki, eins og hún hefur oftast verið í sögulegu ljósi, sbr Fyrri heimsstyrjöld, þegar Austurríksmenn og Þjóðverjar unnu hvern sigurinn á fætur öðrum, en alltaf sendi keisarinn nýtt herútboð, og nýliðunum var skipað á vígvöllinn og leiddir þar til slátrunar.  Þetta endaði reyndar með stjórnarbyltingu.  

  Það er liður í hernaði Rússlands að loka fyrir aðgengi Úkraínu að Svartahafi fyrir útflutningsvörur sínar, aðallega landbúnaðrvörur. Rússar hafa goldið þetta dýru verði, því að Úkraínumönnum hefur tekizt að sökkva nokkrum rússneskum herskipum á Svartahafi, þótt þeir eigi engan flota sjálfir, þ.á.m. forystuskipi Svartahafsflotans, Moskvu, með tveimur eldflaugum. Rússar beita þessu lúalega bragði í því skyni að koma höggi á Úkraínu, sem verður af útflutningstekjum, og á Vesturlönd, bandamenn Úkraínumanna, sem verða fyrir barðinu á miklum verðhækkunum. Nú er Royal Navy hennar hátignar, Bretadrottningar, á leiðinni inn á Svarthahafið til að rjúfa þetta svívirðilega, rússneska hafnbann. Verður ruddinn að gjalti, þegar stór strákur kemur til að skakka leikinn ?

Upplýst hefur verið, að í heiminum séu nú aðeins til hveitibirgðir, sem endast til júlíloka 2022, og verð birgðanna mun væntanlega stöðugt hækka, þar til framboð eykst að nýju. Nokkrar þjóðir munu ekki hafa ráð á lífsnauðsynlegum lanbúnaðarvörum á núverandi verði, hvað þá sumarverðinu 2022, og verðinu 2023, og þar mun fjölga í hópi þeirra, sem verða hungursneyð að bráð, um tugi milljóna á ári vegna þessa viðurstyggilega stríðs. Rússnesku stríðsglæpamennirnir í Kreml hafa framkallað þennan vanda og neita að létta á honum með því að hleypa kornflutningum frá Úkraínu um Svartahaf.  Þetta ábyrgðarlausa framferði Rússa sýnir, að núverandi yfirráð Rússa við Svartahafið eru óviðunandi.  Hrekja verður rússneska herinn austur fyrir landamæri Úkraínu, eins og þau voru staðfest með Búdapest samkomulagi Rússa, Úkraínumanna, Bandaríkjamanna og Breta 1994.    

Hveiti hækkaði um 53 % frá ársbyrjun 2022 til 15.05.2022, og 16.05.2022 hækkaði það um 6 %, þegar Indverjar tilkynntu um stöðvun útflutnings á því vegna hitabylgju, sem er líkleg til að skemma uppskeru ársins 2022.  Rússland og Úkraínu hafa samtals selt um 28 % af hveitinu á heimsmarkaðinum og 29 % af byggi, 15 % af maís og 75 % af sólblómaolíunni.  Þessir atburðir ættu að vekja framleiðendur og yfirvöld hérlendis upp til meðvitundar um þörfina á stóraukinni akuryrkju hérlendis vegna fæðuöryggis þjóðarinnar, en einnig er innlend framleiðsla ýmissa korntegunda nú orðin fyllilega samkeppnishæf í verði.  Yfirvöld ættu að steinhætta að hvetja til og greiða fyrir moldarmokstur ofan í skurði, þar sem land hefur verið þurrkað upp, sem ýmist má nýta undir akuryrkju, skógrækt eða aðra ræktun, sem einnig bindur koltvíildi. 

Starfsmenn Landbúnaðarháskólans eru vel meðvitaðir um stöðuna og hafa gert matvælaráðuneytinu viðvart.  Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, ritaði umhugsunarverðan pistil á leiðarasíðu Morgunblaðsins 20.05.2022 undir fyrirsögninni:

"Eflum fæðuöryggi".

Hún endaði þannig:

"Í greinargerð með tillögunum [Landbúnaðarháskóla Íslands] er bent á, að innlend akuryrkja leggi aðeins til um 1 % af því korni, sem nýtt er á Íslandi.  Það er óásættanlegur árangur, þegar það liggur fyrir, að hér er hægt að rækta korn, hvort sem er til manneldis eða til fóðurgerðar. Raunar var stunduð kornrækt á Íslandi um aldir, en vegna breytinga í atvinnuháttum varð hagkvæmara að flytja það eingöngu inn.  Fyrir liggja skýrslur og stefnur um, að auka skuli akuryrkju.  Til staðar eru rannsóknarinnviðir, þekking og reynsla bænda af því, hvernig eigi að rækta korn við norðlægar aðstæður. Það, sem þarf, er aðgerðaáætlun, sem virkjar þann kraft, sem ég tel, að búi í möguleikum akuryrkju.  Greina þarf þá markaðsbresti, sem komið hafa í veg fyrir, að kornrækt eflist af sjálfu sér, þannig að á næstu árum fari af stað metnaðarfull uppbygging í akuryrkju á Íslandi.  Að þessu verður unnið á komandi misserum.  Þannig verði bleikir akrar stærri hluti af landslagi íslenzkra sveita." 

Nú þarf aðgerðir, en ekki meiri skriffinnsku á þessu sviði, þ.e.a.s. bændur þurfa að brjóta nýtt land undir akuryrkju.  Það er of seint núna að sá, en næsta vor þarf að gera það.  Innflutningsverð hefur væntanlega í venjulegu árferði verið lægra en kostnaður hérlendis við akuryrkju og þreskingu o.fl, og þess vegna hefur innlend markaðshlutdeild verið jafnsáralítil og raun ber vitni um, en nú er það væntanlega breytt, ef fræin eru til reiðu. 

Hins vegar kunna bændur að vera hikandi við að taka áhættuna, því að kornrækt getur vissulega brugðizt  vegna tíðarfars, og þar þurfa stjórnvöld að stökkva inn á sviðið núna í nafni fæðuöryggis og veita tryggingar gegn mögulegu tjóni bænda og annarra aðila í þessu framleiðsluferli. Hvers vegna eru engar lausnir kynntar til sögunnar af hálfu ríkisins í þessu greinarkorni matvælaráðherrans ? 

 


Sleggjudómar stjórnarandstöðu hafa orðið henni til skammar

Lögmannsstofa hefur hrakið tilhæfulausar aðdróttanir nokkurra stjórnarandstöðuþingmanna og fjölmiðlunga um brot Bankasýslu ríkisins á jafnræðisreglu laga um sölu ríkiseigna.  Þar með er botninn hruninn úr innantómu glamrinu, sem tröllreið Alþingi og fjölmiðlum, ekki sízt RÚV "okkar allra", þar sem reglur um óhlutdræga umfjöllun fréttaefnis voru þverbrotnar og glott við tönn um leið.  Ósvífnin og faglegt metnaðarleysi fréttamanna reið ekki við einteyming.  Skyldu þeir hafa gengið þannig fram, ef hvarflað hefði að þeim, að þessi ósvífni áróður þeirra mundi helzt verða vatn á myllu Framsóknarflokksins ?  Enn einn afleikur vinstri slagsíðunnar ?

Þann 18. maí 2022 birtist í ViðskiptaMogganum frétt um skýrslu lögmannsþjónustu um málsmeðferð Bankasýslunnar undir fyrirsögninni:

"Salan í samræmi við jafnræðisreglu".

Fréttin hófst þannig:

"Ákvörðun Bankasýslu ríkisins um að takmarka þátttöku í útboði á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka við hæfa fjárfesta án viðbótar skilyrðis um lágmarkstilboð fól ekki í sér brot gegn jafnræðisreglu [í skilningi laga um sölu ríkiseigna - innsk. BJo]. Auk þess voru fullnægjandi ráðstafanir gerðar af hálfu Bankasýslunnar til að tryggja jafnt aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu.

Þetta er niðurstaða í lögfræðiáliti, sem Logos lögmannsþjónusta vann fyrir Bankasýsluna.  ViðskiptaMoggi hefur álitið undir höndum."

Það er mikilsvert að fá þetta lögfræðiálit nú, því að það staðfestir, að lætin og moldviðrið fyrir kosningarnar út af þessari sölu voru farsi af ómerkilegustu gerð, þar sem þátttakendurnir hafa nú orðið að gjalti. Það verður fróðlegt að bera þetta lögfræðiálit saman við skýrslu Ríkisendurskoðunar.  Niðurstaða Seðlabanka á líka eftir að birtast.  Stjórnarandstaðan mun ekki ríða feitu hrossi frá þessari viðureign. 

"Því hefur verið haldið fram í þjóðfélagsumræðu, m.a. af þingmönnum, að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu í útboðinu.  Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði m.a. í grein í Morgunblaðinu í byrjun maí [2022], að framkvæmd sölunnar hafi verið brot á jafnræðisreglu laga um sölumeðferð ríkis í fjármálafyrirtækjum.  Aðrir þingmenn hafa talað á sambærilegum nótum, og vart þarf að rifja upp þá gagnrýni, sem varpað hefur verið fram í kjölfar sölunnar, en hún beinist annars vegar að Bankasýslunni og starfsaðferðum hennar við útboðið, en ekki síður að stjórnmálamönnum og þá sérstaklega Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsmálaráðherra."

Téður þingmaður, Helga Vala, mun vera lögfræðingur að mennt og svo er um fleiri, sem tjáð hafa sig digurbarkalega um þetta mál og fellt sleggjudóma.  Þau hafa nú sýnt, að það er ekkert meira að marka þau um lögfræðileg álitaefna í pólitíkinni en hvern annan skussa á þingi eða á fjölmiðlunum.  Fjöldi manns hefur gjaldfellt sig með sleggjudómum, en ráðherrann stendur keikur eftir með hreinan skjöld. Hann mismunaði engum, sem þýðir, að hann dró heldur ekki taum neins, eins og lágkúrulegir gagnrýnendur fullyrtu þó. 

"Í beiðni Bankasýslunnar var Logos falið að svara þremur spurningum:

1) Hvort skilyrði um að takmarka þátttöku í útboðinu við hæfa fjárfesta án skilyrðis um lágmarkstilboð hafi falið í sér brot gegn jafnræðisreglu;

2) Hvort fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu Bankasýslu ríkisins til að tryggja aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu og

3) Hvort ákvörðun um að skerða að fullu tilboð tveggja fjárfesta hafi verið andstæð jafnræðisreglu.

Sem fyrr segir kemst Logos að þeirri niðurstöðu, að ákvörðun um að takmarka þátttöku í útboðinu við hæfa fjárfesta án viðbótar skilyrðis um lágmarkstilboð hafi ekki falið í sér brot gegn jafnræðisreglu.  Þá telur Logos, að fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu Bankasýslunnar til að tryggja jafnt aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu í lagalegu tilliti og að ákvörðun Bankasýslunnar um að skerða að fullu tilboð tveggja fjárfesta hafi stuðzt við málefnaleg sjónarmið og verið í samræmi við jafnræðisreglu."

Upphrópanir og dylgjur ýmissa þingmanna og fjölmiðlunga af ódýrari endanum falla þar með dauð og ómerk, því að líklegt má telja, að Ríkisendurskoðun verði sama sinnis.  Eins og sést af niðurlagi fréttarinnar, sem birt er hér að neðan, falla svigurmæli sömu aðila í garð fjármála- og efnahagsráðherra sömuleiðis niður dauð og ómerk, og kemur það höfundi þessa vefpistils ekki á óvart, enda hefur verið borðleggjandi frá upphafi, að hér væri á ferðinni stormur í vatnsglasi að undirlagi manna lítilla sæva og lítilla sanda, sem ættu að skammast sín, ef þeir kynnu það:

"Þá er einnig farið yfir aðkomu fjármálaráðherra að málinu og ákvörðun um söluna að loknu útboði, og er það niðurstaða Logos, að það [hún] hafi verið í samræmi við stjórnsýslulög og góðar venjur."

Don Kíkóti Alþingis er ekki ánægður með þessa niðurstöðu, heldur sezt niður í fýlukasti og skrifar samhengislausan pistil í Moggann 19.05.2022 með fyrirsögn, sem sýnir, að hann heyrir bara í sjálfum sér:

"Að gelta og gjamma".

Björn Leví Gunnarsson skrifar m.a.:

"Já, það er áhugavert að vera kallaður hælbítur fyrir að finnast það ámælisvert, að enginn axli ábyrgð á þessum málum [sölu á 22,5 % hlut í Íslandsbanka - innsk. BJo]. Að vera sakaður um að dreifa áróðri fyrir að benda á spillinguna."

Þarna krystallast hundalógikk Píratans.  Hann gefur sér fyrirfram, að um saknæmt athæfi sé að ræða, og rótar síðan og bölsótast eins og naut í flagi og heimtar, að þeir sem hann af fullkomnu dómgreindarleysi sínu er búinn að klína sök á, axli ábyrgð.  Svona málflutningur eru ær og kýr þessa Pírata og fleiri á Alþingi og á fjölmiðlum, sem virðast aldrei hafa þroskazt upp fyrir sandkassastigið, með fullri virðingu fyrir því þroskaskeiði, sem er bæði skemmtilegt og gefandi, en verður ámáttlegt fyrir þá einstaklinga, sem festast í því.  

 

 

 

 

 

 

 


Orkan er orðin enn verðmætari

Eftir árás útþenslusinnaðra og fullkomlega glæpsamlegra yfirvalda Rússlands á Úkraínu 24. febrúar 2022 er Evrópa í stríðsástandi. Stríð Rússa við Úkraínumenn er nýlendustríð heimsvaldasinna gegn fullvalda lýðræðislegri menningarþjóð, sem er svo óheppin að búa við drottnunargjarna kúgara í austri. Viðurstyggilegar og níðangurslegar baráttuaðferðir rússneska hersins gagnvart almennum borgurum, íbúðabyggingum, skólum, sjúkrahúsum og fólki á ferðinni á götum úti hafa vakið slíkan viðbjóð, hneykslun og hatur á Rússum, að langur tími mun líða, þar til vestræn ríki munu geta hugsað sér að létta viðskiptaþvingunum af Rússum og að hefja við þá einhver vinsamleg samskipti að nýju.  Það mun ekki gerast, á meðan mafíuforinginn og lygalaupurinn, Vladimir Putin, er við völd í Kreml. 

Á meðan svo er, verður stöðugt dregið úr viðskiptum Vesturlanda við Rússa með gas og olíu, en kolakaupum mun að mestu vera þegar hætt.  Þetta mun leiða til orkuskorts um sinn í Evrópusambandinu (ESB) og á Bretlandi, og í staðinn koma dýrari vörur, fluttar lengra að og jafnvel á öðru formi og miklu dýrara, eins og LNG, sem er kælt gas undir þrýstingi á vökvaformi. Þetta hleypir auðvitað raforkuverðinu enn upp og kyndir undir verðbólgu í viðskiptalöndum Íslands, og íslenzkar orkulindir og rafmagn verða af þessum sökum mjög verðmæt á næstu árum.  Er eitthvað að gerast til að mæta aukinni spurn eftir orku á Íslandi ?  Það er satt að segja ótrúlega lítið, enda hvílir ríkishrammurinn yfir þessum geira, og hann er lítt næmur á raunveruleg verðmæti, en veltir sér ótæpilega upp úr sýndarverðmætum (og sýndarmennsku). 

Einangrun hins skammarlega og ósvífna Rússlands mun hafa áhrif á ýmsum öðrum sviðum viðskiptalífsins.  Rússar hafa selt talsvert af fiski inn á evrópska markaði, og fiskverð er þegar tekið að hækka vegna minna framboðs.  Svipaða sögu er að segja af málmframleiðslunni, enda er málmverð, þ.m.t. álverð og einnig járnblendi og kísilverð, nú í sögulegum hæðum.  Allt styrkir þetta viðskiptajöfnuð Íslands og vegur upp á móti hækkun korns, matarolíu, fóðurs og flestra matvæla.  Gengi EUR/ISK < 140, þ.e. styrkur ISK er nú svipaður og í ársbyrjun 2020, fyrir Kóf. Gengið mun enn styrkjast, eftir því sem orkuskiptunum vindur fram, en til þess að framfarir verði á þessu sviði og í atvinnulífinu almennt, sem um munar, þarf virkjanaleyfi fyrir allt að 20 TWh/ár næstu 3 áratugina.  

Ýmsar þjóðir hafa nú ákveðið að slá 2 flugur í einu höggi, þ.e. að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og draga úr raforkuáhættu og raforkukostnaði sínum, með stórtækum áætlunum um að reisa kjarnorkuver.  Bretar eru gott dæmi um þetta, en þar er nú ekkert rafmagn framleitt með kolaorku í fyrsta sinn í um 140 ár. 

Auðvitað eru góðar hugmyndir uppi á Íslandi um aukna raforkuvinnslu, enda er engum blöðum að fletta um þörfina og fjárhagslega ávinninginn af því, en ríkisvaldið hefur lagt sinn lamandi hramm á framkvæmdaviljann. Það er hægt að finna öllum framkvæmdum, einkum utan þéttbýlis, eitthvað til foráttu, og ekki hefur skort úrtöluraddirnar á Íslandi, sem fyllast heilagri vandlætingu beturvitans, þegar að nýjum framkvæmdum á orkusviðinu kemur. Það er hins vegar beint samhengi á milli nútímalegs velferðarsamfélags og raforkunotkunar, og nægir þar að vísa til arðgreiðslna Landsvirkjunar til eiganda síns, ríkissjóðs, 15 mrdISK/ár, sem nægja til að standa straum af árlegri fjárfestingu ríkisins í nýjum Landsspítala við Hringbraut um þessar mundir. 

Öfugt við það, sem skýjaglópar predika, er Íslendingum nauðsyn að nýta orkulindir sínar til að knýja atvinnulíf sitt, sívaxandi fjölda heimila og samgöngutæki sín.  Þröngsýnispúkar í röðum núllvaxtarsinna setja samt á sig spekingssvip og kasta hnútum og innantómum frösum á borð við tugguna um, að náttúran verði að njóta vafans.  Svar tæknigeirans er að kynna vandaðar lausnir, þar sem lágmörkunar inngrips í náttúruna m.v. afköst mannvirkjanna er gætt í hvívetna.  Framkvæmdirnar má telja umhverfisvænar og afturhverfar að mestu eða öllu leyti. 

Á meðal fórnarlamba ráðleysis hérlendra orkuyfirvalda eru Vestfirðingar.  Þeir búa ekki við hringtengingu við landskerfið, og raforkuvinnslugeta þeirra er ófullnægjandi fyrir landshlutann.  Þetta kemur sér sérlega illa núna á tímum grózkumikilla fjárfestinga í fiskeldi, sem hefur hleypt nýju blóði í Vestfirðinga í orðsins fyllstu merkingu. Það er algerlega óviðunandi, að ríkisvaldið með doða og sinnuleysi sínu komi í veg fyrir, að fjárfestar virki þar vatn og vind, ef heimamenn sjálfir telja virkjanatilhögun ásættanlega.  Þar þarf að láta hendur standa fram úr ermum að settum skynsamlegum og sanngjörnum skilyrðum ríkisvaldsins.

Í Morgunblaðinu 11. apríl 2022 var frétt undir fyrirsögninni:

    "Kallað eftir stórri virkjun vestra".

Hún hófst þannig:   

"Starfshópur um orkumál á Vestfjörðum telur heppilegt að stefna að því, að raforkukerfi fjórðungsins verði byggt upp að lágmarki með einni öflugri virkjun á vestfirzkan mælikvarða, 20-50 MW að afl[getu].  Einnig verði byggðar fleiri minni virkjanir.  Telur hópurinn, að setja mætti það markmið, að búið yrði að byggja virkjanir með a.m.k. 40 MW  afl[getu] fyrir árið 2030.

Vestfirðir hafa setið eftir varðandi afhendingaröryggi raforku, og vitnar starfshópurinn til orkustefnu [ríkisins-innsk. BJo] með, að hann eigi að njóta forgangs um úrbætur.  Að mati hópsins verður markmiðið að vera það að ná hið minnsta sambærilegu [orku]afhendingaröryggi og stjórnvöld hafa sett sem viðmið fyrir landið í heild."

Undir þetta allt skal taka.  Nú er afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum allsendis ófullnægjandi.  Það stafar af því, að tenging landshlutans er á einum geisla (132 kV) frá stofnrafkerfi landsins og að innan Vestfjarða skortir 60 kV hringtengingu flutningskerfisins í jörðu.  

Að öllu virtu, þ.e. gæðum rafmagns (spennu- og tíðnistöðugleiki, árlegur roftími hjá notendum), umhverfisinngripum og kostnaði (að meðreiknuðum kostnaði óafhentrar orku til notenda)), hefur starfshópurinn mjög sennilega rétt fyrir sér um, að bezta lausnin á orkuvanda Vestfjarða sé, að um 2030 hafi bætzt a.m.k. 40 MW aflgeta við virkjanir svæðisins og á tímabilinu 2022-2030 fari allt raforkuflutnings- og dreifikerfi landshlutans í jörðu, nema 132 kV Vestfjarðalínan frá Glerárskógum.  Hún verði áfram eina flutningskerfistengingin við landskerfið.  Jafnframt verði hafizt handa við hringtengingu flutningskerfisins innan Vestfjarða.  Með þessu móti verður landshlutinn sjálfum sér nógur með rafmagn, nema í bilunartilvikum og e.t.v. í þurrkaárum, en getur selt raforku inn á landskerfið, þegar vel árar í vatnsbúskapnum þar. 

Útflutningsverðmæti Vestfjarða frá fiskeldi, fiskveiðum og -vinnslu, ferðaþjónustu o.fl., munu aukast mikið á næstu 15 árum og gætu numið 200 mrdISK/ár eftir 10-20 ár, ef innviðir, sem eru á höndum ríkisins, eins og flutningskerfi rafmagns og vöru og þjónustu (Landsnet, Vegagerðin ásamt leyfisveitingaferli ríkisins fyrir framkvæmdir) hamlar ekki þróun byggðarlagsins, sem þegar er hafin. Ætlar ríkisvaldið að verða dragbítur mikilvægrar byggðaþróunar ?  Nú reynir á ráðherra. 

Lok fréttarinnar voru þannig:

"Tvær stórar virkjanir á vestfirzkan mælikvarða eru í undirbúningi í landshlutanum, Hvalárvirkjun á Ströndum og Austurgilsvirkjun í Ísafjarðardjúpi. Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki í núgildandi rammaáætlun og Austurgilsvirkjun er í tillögum 3. áfanga rammaáætlunar, sem er til umfjöllunar á Alþingi.  Þá er EM orka langt komin með undirbúningsvinnu við vindorkuver í Garpsdal í Gilsfirði. Það er í nýtingarflokki í drögum verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar. 

 

Í tillögum starfshópsins er þó lögð áherzla á Vatnsfjarðarvirkjun, sem Orkubú Vestfjarða hefur verið að skoða.  Til þess að hægt sé að ýta hugmyndinni inn í umfjöllun í rammaáætlun þarf að lyfta friðlýsingarskilmálum Friðlandsins í Vatnsfirði, og leggur starfshópurinn til, að umhverfisráðherra skoði það.  Einnig leggur hópurinn til, að virkjað verði í Steingrímsfirði, eins og Orkubúið hefur verið með til athugunar." 

Hér stendur upp á ríkisvaldið, Alþingi og yfirvöld orkumála.  Nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum.  Sérstaklega þarf að huga að þessum virkjunarkosti í Vatnsfirði og athuga, hvort væntanleg virkjunartilhögun þar fellur nægilega vel að umhverfinu og hefur nægilega lítið rask í för með sér á framkvæmdaskeiðinu, til að laga megi friðunarskilmála svæðisins að nýrri virkjun þar.  Íbúar Vestfjarða ættu að eiga síðasta orðið um slíkar breytingar. 

Það er ekki sami hugurinn í Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Orkubúi Vestfjarða (OV) til orkuöflunar, en hjá OR er sú skoðun við lýði, að engin þörf sé á nýrri orkuöflun. Þetta kom fram í frétt í Morgunblaðinu 7. apríl 2022 undir fyrirsögninni:

"Engar nýjar virkjanir í farvatninu".

Hún hófst þannig:

""Það eru engar stórar virkjanir á borðinu hjá okkur", segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, sem var staddur í stórhríð á Fjarðarheiði á leið til Seyðisfjarðar.  Á borgarstjórnarfundi á þriðjudag var samþykkt að vísa tillögu Eyþórs Arnalds, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um, að Orkuveitunni verði falið að skoða virkjunarmöguleika á starfssvæði OR til stjórnar OR.  Eyþór Arnalds er í stjórn OR og benti á í tillögunni, að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar hafi markmiði um jarðefnaeldsneytislaust Ísland verið flýtt til 2040."

 

Það er til vitnis um doðann innan OR, að þar á bæ skuli ekki einu sinni vera fyrir hendi vitneskja um "virkjunarmöguleika á starfssvæði OR".  Fyrirtækið er greinilega ekki að spila með ríkinu við að auðvelda landsmönnum að losa sig undan klafa jarðefnaeldsneytisins. Síðan lætur forstjórinn í veðri vaka, að bætt nýting aflaðrar orku geti komið í stað öflun nýrrar orku, sem er rangt.  Bætt nýting er góð og gild, en vegur lítið í heildina:

 ""Það er ekki stefna Orkuveitunnar að virkja mikið, en við fylgjum fullnýtingarstefnu og viljum nýta betur þá orku, sem kemur frá gufu og heitu vatni.  Við eigum möguleika á að nýta betur, það sem við tökum upp, t.d. í Hverahlíð, þar sem er mikið og öflugt háhitasvæði, sem við nýtum í Hellisheiðarvirkjun.  Við leiðum gufuna þaðan rúmlega 5 km, og það mætti hugsanlega byggja þar 15 MW virkjun til að fullnýta þá gufu og aðra sams konar á Nesjavöllum", segir Bjarni og bætir við, að það væri þá verið að auka rafmagnsvinnslu, en ekki að virkja."

Þessi flutningur á gufu úr Hverahlíð til Hellisheiðarvirkjunar var björgunarráðstöfun gagnvart niðurdrætti í gufuforðabúri Hellisheiðarvirkjunar vegna ofnýtingar gufuforðans (meira tekið en inn streymdi).  Þessi tregða forstjórans við að virkja ný gufuforðabúr er áhættusöm, því að hún getur leitt til vandræða (afl- og orkuskorts), ef aðstæður breytast í virkjuðu gufuforðabúri, svo að það verði ofnýtt, eins og reyndin var með Hellisheiðarvirkjun.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband