Menntunarkröfur

Það hafa sézt stórkarlalegar yfirlýsingar um hina svo kölluðu "Fjórðu iðnbyltingu", sem gjörbreyta muni vinnumarkaðinum.  Ein slík er, að eftir 20 ár verði 65 % núverandi starfa ekki til.  

Þetta er loðin yfirlýsing. Er meiningin sú, að 65 % færra fólk starfi að núverandi störfum, eða er virkilega átt við, að 65 % núverandi verkefna verði annaðhvort horfin eða unnin af þjörkum ?

Fyrri merkingin er að mati blekbónda harla ólíkleg, en sú seinni nánast útilokuð.  Það er, að mati blekbónda", ekki mögulegt að framleiða róbóta með gervigreind, sem verði samkeppnishæf við "homo sapiens" við að leysa 65 % starfategundir af hólmi.

Hins vegar gefur þessi framtíðarsýn réttilega vísbendingu um gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar á næstu áratugum, sem tækniþróunin mun leysa úr læðingi.  Aðalbreytingin verður ekki fólgin í því, að margar tegundir starfa hverfi, eins og ýjað er að, heldur í því, að verkefni, ný af nálinni, verða til.  

Þessu þarf menntakerfið að bregðast við á hverjum tíma, því að það á ekki einvörðungu að búa fólk undir að takast á við viðfangsefni líðandi dags, heldur viðfangsefni morgundagsins.  Þetta er hægara sagt en gert, en það er hægt að nálgast viðfangsefnið með því að leggja breiðan grunn, þaðan sem vegir liggja til allra átta, og það verður að leggja meiri áherzlu á verknám og möguleikann á tækninámi í framhaldi þaðan. Þá er höfuðnauðsyn á góðri verklegri kennslu í tæknináminu, iðnfræði-, tæknifræði- og verkfræðinámi, og þar með að ýta undir eigin sköpunarkraft og sjálfstæði nemandans, þegar út í atvinnulífið kemur.  Þótt þetta sé dýrt, mun það borga sig, enda fengist viðunandi nýting á búnaðinn með samnýtingu iðnskóla (fjölbrauta), tækniskóla (HR) og verkfræðideilda.

Það er áreiðanlegt, að orkuskiptin munu hafa í för með sér róttækar breytingar á samfélaginu.  Sprengihreyfillinn mun að mestu heyra sögunni til um miðja 21. öldina.  Þetta hefur auðvitað áhrif á námsefni skólakerfisins og ákveðin störf, t.d. bifvélavirkja, en bíllinn, eða landfartækið í víðum skilningi, verður áfram við lýði og viðfangsefni bifvélavirkjans sem rafknúið farartæki. Námsefni bifvélavirkjans færist meira yfir í rafmagnsfræði, skynjaratækni, örtölvur og hugbúnað. 

Rafmagnið verður aðalorkuberinn á öllum sviðum þjóðlífsins, þegar orkuskiptin komast á skrið eftir áratug eða svo.  Það er tímabært að taka þessu sem staðreynd og haga námskrám, námsefni, ekki sízt hjá kennurum, samkvæmt því nú þegar.  Sama gildir um forritun.  Það er nauðsynlegt að hefja kynningu á þessum tveimur fræðigreinum, rafmagnsfræði og forritunarfræði, í grundvallaratriðum, við 10 ára aldur.  

Jafnframt er nauðsynlegt að auka tungumálalega víðsýni barna með því að kynna þeim fleiri tungumál en móðurmálið og ensku við 11 ára aldur.  Ekki ætti að binda sig við dönsku, heldur gefa kost á norsku, sænsku, færeysku, þýzku, frönsku, spænsku og jafnvel rússnesku, eftir getu hvers skóla til að veita tungumálatilsögn.  

Það er skylda grunnskólans að veita nemendum trausta grunnþekkingu á uppbyggingu móðurmálsins, sem óhjákvæmilega þýðir málfræðistagl, því að málfræði hvers tungumáls er beinagrind þess, og hvað getur líkami án beinagrindar ?  Hann getur skriðið, en alls ekki gengið, hvað þá með reisn.  Góður kennari getur gert málfræði aðgengilega og vel þolanlega fyrir meðalnemanda.  Til að að ráða við stafsetningu íslenzkunnar er grundvallaratriði að leita uppruna orðanna.  Þetta innrætir góður kennari nemendum, og þannig getur stafsetning jafnvel orðið spennandi fag.  Það er t.d. alger misskilningur, að reglur um z í málinu séu snúnar.  Þær eru einfaldar, þegar leitað er upprunans, og það voru mikil mistök að leggja þennan bókstaf niður á sínum tíma.  Afleiðingin er sú, að ritháttur sumra orða verður afkáralegur í sumum myndum.  

Niðurstöður PISA-kannananna gefa til kynna, að gæði íslenzka grunnskólakerfisins séu að versna í samanburði við gæði grunnskólakerfa annarra landa, þar sem 15 ára nemendur á Íslandi ná sífellt lakari árangri, t.d. í raungreinum.  Þessu verður að snúa við hið snarasta, því að annars fellur íslenzka grunnskólakerfið á því prófi, að búa ungu kynslóðina undir hina títt nefndu "Fjórðu iðnbyltingu", sem reyndar er þegar hafin.  Þessi ófullnægjandi frammistaða 15 ára nemenda er með ólíkindum, og hér er ekki um að kenna of litlu fjármagni til málaflokksins, því að fjárhæð per nemanda í grunnskóla hérlendis er á meðal þeirra hæstu, sem þekkjast.  Það er vitlaust gefið. Þetta er kerfislægur vandi, sem m.a. liggur í of mikilli einhæfni, skólinn er um of niður njörvaður og einstaklingurinn í hópi kennara og nemenda fær of lítið að njóta sín.  Það er sjálfsagt að ýta undir einkaskóla, og það er sjálfsagt að leyfa duglegum nemendum að njóta sín og læra meira.  Skólinn þarf að greina styrkleika hvers nemanda ekki síður en veikleika og virkja styrkleikana.  Allir eiga rétt á að fá tækifæri til að veita kröftum sínum viðnám innan veggja skólans, ekki bara í leikfimisalnum, þótt nauðsynlegur sé.  

Skólakerfið er allt of bóknámsmiðað.  Það þarf að margfalda núverandi fjölda, sem fer í iðnnám, og vekja sérstakan áhuga nemenda á framtíðargreinum tengdum rafmagni og sjálfvirkni.

Sigurbjörg Jónsdóttir, kennari, hefur skrifað lokaritgerð í meistaranámi í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík.  Þann 7. nóvember 2017 sagði Höskuldur Daði Magnússon stuttlega frá henni í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Mælivilla í niðurstöðum PISA":

""Þegar PISA er kynnt fyrir nemendum, er þeim sagt, að þeir séu að fara að taka próf, sem þeir fái ekki einkunn fyrir og skili þeim í raun engu.  Þetta eru 15-16 ára krakkar, og maður spyr sig, hversu mikið þeir leggja sig fram.  Ég veit, að sums staðar hefur þeim verið lofað pítsu að launum.  Ég hugsa, að anzi margir setji bara X einhvers staðar", segir Sigurbjörg Jónsdóttir, kennari, um lokaritgerð sína í meistaranámi í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík."

Eigi er kyn, þótt keraldið leki, þegar nemendum er gert að gangast undir próf án nánast nokkurs hvata til að standa sig vel.  Ætli þetta sé ekki öðru vísi í flestum samanburðarlöndunum ?  Það virðist ekki ósanngjarnt, að viðkomandi skóli mundi bjóða nemendum það að taka niðurstöðuna með í lokamatið á þeim, ef hún er til hækkunar á því, en sleppa því ella.  

"Þegar ég fór svo að kafa betur ofan í PISA-verkefnið, kemur í ljós, að það er mikil mælivilla í niðurstöðunum hér á landi.  Við erum einfaldlega svo fá hér.  Í öðrum löndum OECD eru tekin úrtök nemenda, 4-6 þúsund, en hér á landi taka allir prófið.  Þar að auki svara krakkarnir hér aðeins 60 spurningum af 120, og í fámennum skólum eru ekki allar spurningar lagðar fyrir.  Svo hefur þýðingunni verið ábótavant, eins og fram hefur komið."

Þetta er réttmæt gagnrýni á framkvæmd PISA-prófanna hérlendis, og andsvör Arnórs Guðmundssonar, forstjóra Menntamálastofnunar baksviðs í Morgunblaðinu, 9. nóvember 2017 í viðtali við Höskuld Daða Magnússon undir fyrirsögninni,:

"Meintar mælivillur byggðar á misskilningi", eru ósannfærandi.  

Að aðrir hafi um úrtak að velja, skekkir samanburðinn líklega íslenzkum nemendum í óhag, en það er lítið við því að gera, því að það er ekki til bóta, að hér taki færri þetta samanburðarpróf en annars staðar.  

 Það hefur engin viðunandi skýring fengizt á því, hvers vegna allar spurningar prófsins eru ekki lagðar fyrir alla íslenzku nemendurna, og þetta getur skekkt niðurstöðuna mikið.  Hvers vegna eru lagðar færri spurningar fyrir nemendur í minni skólum en stærri ?  Það er afar skrýtið, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið.  

Ef þýðing prófs á móðurmál viðkomandi nemanda er gölluð, veikir það augljóslega stöðu nemenda í viðkomandi landi.  Það er slæm röksemd  Menntamálastofnunar, að endurtekinn galli ár eftir ár eigi ekki að hafa áhrif á samanburð prófa í tíma.  Þýðingin á einfaldalega að vera gallalaus og orðalagið fullkomlega skýrt fyrir nemanda með góða málvitund.  Þýðingargallar ár eftir ár bera vitni um óviðunandi sleifarlag Menntamálastofnunar og virka til að draga Ísland stöðugt niður í samanburði á milli landa.  Nóg er nú samt.  Noregsferð apríl 2011 006

 

 

 


Laxeldi í lokuðum kvíum

Til að festa núverandi góðu lífskjör í sessi hérlendis verður að auka útflutningsverðmætin um að jafnaði 50 miaISK/ár að núvirði næstu 2 áratugina, ef tekið er mið af mannfjöldaspá og breytingu á lýðfræðilegri samsetningu þjóðarinnar (vaxandi hlutfallslegur fjöldi aldraðra af heild eykur samfélagslegan kostnað).  

Ísland hefur að ýmsu leyti sterka stöðu til að verða vaxandi matvælaframleiðsluland.  Hlýnandi loft og sjór gefur meiri vaxtarhraða bæði jurta og dýra.  Fyrir matvæli er vaxandi, vel borgandi markaður, og Íslendingar geta við markaðssetningu sína teflt fram miklum hreinleika lofts og vatns og nægu af hreinu vatni og umfangi samkvæmt vísindalegri ráðgjöf, m.ö.o. sjálfbærri matvælaframleiðslu.    

Laxeldi hefur á þessum áratugi gengið í endurnýjun lífdaganna við Ísland með tilstyrk Norðmanna, sem ásamt Kínverjum eru umsvifamestir á þessu sviði í heiminum.  Þeir eru líka í fremstu röð, hvað öryggi og tækni við sjókvíaeldi á laxi varðar.  

Nú býðst hérlandsmönnum að kynnast nýrri tækni á sviði laxeldis í lokuðum sjókvíum, sem Norðmenn hafa verið með í þróun síðan 2007.  Á vegum fyrirtækisins AkvaFuture AS hófst árið 2014 eldi á laxi í lokuðum sjókvíum á viðskiptalegum grunni.  Stefnir fyrirtækið á slátrun 2,0 kt á árinu 2017 og 6,0 kt árið 2019.  Þetta er nýmæli, því að áður voru uppi efasemdir um, að hægt væri að ala lax upp í sláturþyngd í lokuðum sjókvíum.

Norðmenn sjá þann meginkost við lokaðar sjókvíar, að í þeim veldur laxalús ekki teljanlegu tjóni, en hún er mikill skaðvaldur í opnum kvíum úti fyrir Noregsströnd, og geta orðið 20 % afföll þar í kvíum af hennar völdum, þegar verst gegnir, samkvæmt Rögnvaldi Guðmundssyni, framkvæmdastjóra AkvaFuture AS í viðtali við Fiskifréttir, 9. nóvember 2017, undir fyrirsögninni:

"Vilja ala lax í stórum stíl í Eyjafirði".

Í umræðunni hérlendis hefur laxeldi í opnum sjókvíum verið gagnrýnt harkalega, einkum af veiðiréttarhöfum villtra laxastofna, og þeir hafa m.a. bent á þessa úrbótaleið, sem Rögnvaldur Guðmundsson hefur nú þróað, enda kveðst hann ekki vita til, að nokkur lax hafi sloppið úr lokuðum sjókvíum á 10 ára tilraunaskeiði.  

"Miklir möguleikar eru á að nýta eldistæknina víðar en í Noregi, að sögn Rögnvaldar. Innanverður Eyjafjörður sé í því ljósi talin ákjósanleg staðsetning fyrir lokaðar eldiskvíar, því að þar er bæði skjólgott og hafstraumar miklir og stöðugir."

Það er gleðiefni, að frumkvöðull laxeldis í lokuðum sjókvíum í Noregi skuli nú hafa sótt um starfsleyfi fyrir slíkum rekstri í Eyjafirði, sem er einmitt einn þeirra fjarða, sem íslenzk lög leyfa sjókvíaeldi í.  Áætlun Rögnvaldar kveður á um að hefja sjókvíaeldi þar vorið 2019, og fyrsta framleiðslan þaðan berist á markað á fyrsta ársfjórðingi 2021. 

Þar sem úrgangur frá kvíunum, sem til botns fellur, verður aðeins um 30 % af því, sem gildir um opnar sjókvíar, má telja fullvíst, að burðarþolsmat fyrir lokaðar kvíar hljóði upp á meira en 20 kt í Eyjafirði áður en lýkur, en það er lífmassinn, sem sótt er um leyfi fyrir.  Þar sem bein störf eru um 7 á kt, verður þarna um 140 bein störf að ræða við framleiðslu, slátrun og pökkun.  Óbein störf í Eyjafirði gætu orðið 160 vegna þessarar starfsemi og annars staðar 140, samkvæmt norskri reynslu, svo að alls gæti þessi starfsemi skapað 440 ný störf.  Þetta myndi styrkja Eyjafjörð mikið sem atvinnusvæði.  

Verðmætasköpun hvers beins starfs í laxeldi er í Noregi talin jafngilda MISK 37, svo að verðmætasköpun téðra 20 kt í Eyjafirði mun nema 5,2 miaISK/ár, eða um 0,2 % af VLF.  Útflutningsverðmætin gætu numið 16 miaISK/ár.  Þetta er aðeins tæplega þriðjungur af nauðsynlegri árlegri aukningu útflutningsverðmæta, sem sýnir í hnotskurn, að landsmenn munu eiga fullt í fangi með að ná fram nauðsynlegri aukningu útflutningsverðmæta á næstu áratugum til að viðhalda hér óskertum lífskjörum og efnahagsstöðugleika.

Staðsetning þessa brautryðjandi laxeldis í Eyjafirði er ágæt.  Hann er tiltölulega fjölmennt atvinnusvæði, og þar vantar ný atvinnutækifæri í náinni framtíð.  Þá mun geta tekizt áhugavert samstarf laxeldis og fræðasamfélagsins á Akureyri, sem er umtalsvert.  Um þennan þátt sagði Rögnvaldur í téðu viðtali:

"Það er mat fyrirtækisins [AkvaFuture AS], að laxeldi í lokuðum eldiskvíum falli vel að áætlunum sveitarfélaganna á Eyjafjarðarsvæðinu.  Staðsetningin sé [er] því ákjósanleg, þar sem fyrir er öflugt háskólasamfélag og þjónustustig iðnfyrirtækja er hátt.  Ljóst er, að AkvaFuture mun nýta sér sjávartengt háskólasamfélag á Akureyri í sínu þróunarstarfi og nýsköpun."

Það er ekki ólíklegt, að laxeldi geti vaxið um a.m.k. 85 kt/ár frá því, sem nú er.  Það jafngildir aukningu  útflutningstekna um a.m.k. 70 miaISK/ár, sem dreift á 10 ár gefur 7 miaISK/ár eða 14 % af þeirri meðaltals árlegu aukningu, sem nauðsynleg er.  Fleira verður þess vegna að koma til skjalanna. Laxeldið verður samt mikilvægur þáttur í vextinum framundan.    

 

 

 

 


Efling vöruútflutnings er nauðsyn

Útflutningstekjur af sjávarafurðum verða u.þ.b. miaISK 34 lægri á árinu 2017 en 2016, en tekjuaukning af völdum verðhækkana á áli og framleiðsluaukningar á eldisfiski, aðallega eldislaxi, munu nokkurn veginn vega upp tekjutap þjóðarbúsins vegna sjávarútvegsins.  

Álverðið var lágt árin 2015-2016 vegna mikillar álframleiðslu Kínverja.  Þeir neyðast nú til að draga úr henni, m.a. vegna mikillar mengunar í Kína, t.d. frá kolakyntum raforkuverum, sem sjá álverum fyrir mikilli raforku.  Á sama tíma var afkoma íslenzka sjávarútvegsins góð.  Þetta sýnir í hnotskurn mikilvægi fjölbreytts vöruútflutnings.  

Allur útflutningur vöru og þjónustu hefur orðið fyrir ruðningsáhrifum frá ferðaþjónustunni, sem haldið hefur uppi svo miklum viðskiptaafgangi, að nægt hefur til að halda uppi sterku gengi íslenzku krónunnar, ISK. Gengisvísitalan var 18.11.2107 undir 160 og lækkandi og verður líklega að jafnaði undir þessu gildi árið 2017.  Líklega er jafnvægisgengi þjóðarbúsins 170-190, og undir gengisvísitölu 170 berjast mörg útflutningsfyrirtæki í bökkum. 

Við þessu kann framleiðniaukning að vera eina raunhæfa svarið, en grundvöllur hennar er oftast fjárfesting og aukin tæknivæðing, eins og vissulega hefur átt sér stað innan sjávarútvegsins á undanförnum árum, bæði hjá útgerðum og vinnslufyrirtækjum. 

Á meðal þeirra, sem verst standa, eru hin minni sjávarútvegsfyrirtæki.  Ríkisvaldið hefur nú aukið vanda þeirra um allan helming með því að þrjózkast við að endurskoða meingallaðar reiknireglur veiðileyfagjalda, sem mið taka af 2-3 ára gömlum afkomutölum sjávarútvegsins og láta samtímis afnám afsláttar á veiðileyfagjöld vegna skulda taka gildi. Hér heggur sá, er hlífa skyldi. 

Um glórulausa hækkun veiðigjalda á fiskveiðiárinu 2017/2018, á sama tíma og afkoma útgerðanna fer hratt versnandi, hefur Ásta Björk Sigurðardóttir, hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, eftirfarandi orð í viðtali við Ásgeir Ingvarsson í Sjávarútvegi Morgunblaðsins, 9. nóvember 2017, undir fyrirsögninni:

Tekjur sjávarútvegsins hafa ekki verið lægri síðan 2008:

"Á þessu ári féllu niður afslættir, sem höfðu verið á veiðigjaldi og nú, þegar 2 mánuðir eru liðnir af nýju fiskveiðiári, má finna fjölda fyrirtækja, sem lenda í þreföldun og jafnvel fjórföldun á veiðigjaldi frá fyrra fiskveiðiári.   ... Sem dæmi um, hvað breytingin er mikil, þá var gjaldið fyrir hvert kg af óslægðum þorski tæpar 12 ISK á síðasta fiskveiðiári, en er komið upp í tæplega 23 ISK nú."

Ekki verður betur séð en fráfarandi sjávarútvegsráðherra reki meðvitaða eða ómeðvitaða skemmdarverkastarfsemi gagnvart atvinnugreininni með aðgerðarleysi sínu.  Um afleiðingar þessarar óstjórnar ríkisvaldsins sagði Ásta Björk m.a.:

"Eykur það [þetta] líkur á enn frekari samþjöppun í greininni og hefur líka veruleg áhrif á fjárfestingaráform.  Hætt er við, að endurnýjun skipa og tækja muni sitja á hakanum, og gæti það haft neikvæð áhrif á samkeppnishæfni íslenzks sjávarútvegs til lengri tíma litið."

Það er áhugavert í þessu sambandi að velta fyrir sér, hvernig "gott" veiðigjaldakerfi er úr garði gert.  Í lok viðtalsins drepur hagfræðingur SÍF á þetta og má spinna út frá því:

"Ólíkt fyrirtækjum í samkeppni innanlands geta sjávarútvegsfyrirtæki ekki skellt þessari aukaálagningu yfir á afurðaverð, enda tekur alþjóðleg samkeppni ekki mið af íslenzkum aðstæðum.  Þá er gjaldtaka hvergi jafnumfangsmikil og hér á landi.  

Það er eðlilegt að greiða sanngjarnt gjald fyrir nýtingu auðlindarinnar.  Óhófleg gjaldtaka mun hins vegar skekkja samkeppnisstöðu íslenzks sjávarútvegs.  Það bitnar síðan á afkomu greinarinnar og þar með fjárfestingum, svo að til lengri tíma litið verða þær tekjur, sem hún skapar þjóðarbúinu, minni en þær hefðu getað orðið.  Það væri sízt góð niðurstaða."

Hvaða skilyrði þarf "gott" veiðigjaldakerfi að uppfylla ?  Hér verður gerð tilraun til að svara því og síðan sett upp eitt dæmi af fjölmörgum möguleikum í þeim efnum og þá höfð hliðsjón af veiðigjaldakerfi, sem Grænlendingar áforma nú að setja upp hjá sér:

  1. Veiðigjaldakerfið þarf að vera sanngjarnt gagnvart atvinnugreininni.  Það felur í sér, að það má ekki mismuna henni gagnvart öðrum greinum, sem hún kann að eiga í samkeppni við innanlands um fólk og fjármagn.  Þetta þýðir, að stjórnvöld verða að manna sig upp í að skapa heildstætt kerfi fyrir greiðslu auðlindarentu til ríkis og sveitarfélaga fyrir afnotarétt allra náttúruauðlinda innan íslenzkrar efnahagslögsögu.  Nýting afnotaréttar íslenzkra lögaðila utan efnahagslögsögunnar ætti þess vegna að falla utan þessarar gjaldtöku.
  2. Kerfið þarf að vera einfalt í notkun og auðskiljanlegt. 
  3. Kerfið þarf að taka tillit til fiskverðs á markaði í ISK og jafnframt að taka mið af afkomu hvers útgerðarfyrirtækis.
  4. Veiðigjaldakerfið má ekki vera íþyngjandi fyrir þorra útgerðanna, eins og það greinilega er við ríkjandi aðstæður núna með gjaldtöku á síðasta fiskveiðiári 12 ISK/kg af óslægðum þorski, hvað þá 23 ISK/kg á núverandi fiskveiðiári, en þessi 2 fiskveiðiár verða með enn lakari framlegð útgerðanna en á síðustu árum, ef að líkum lætur. 

Hugmynd að gjaldtöku afnotaréttar innan lögsögunnar:

 

a) Grunngjald, GG, skal taka óháð öðru en viðkomandi meðalverði á löndunardegi, MV:  GG=0,5 % x MV.       Ef MV_<150 ISK/kg, þá er bara tekið grunngjald. Við 150 ISK/kg mundi það nema 0,75 ISK/kg.  Á Grænlandi er ætlunin að miða við 131 ISK/kg og fast gjald 0,82 ISK/kg.  Þessar greiðslur verða frádráttarbærar frá skatti á Grænlandi, en ekki er gerð tillaga hér um slíkt varðandi GG.   

b) Ef MV > 150 ISK/kg, þá verður veiðileyfagjaldið: VG=GG + MV x 5,0 % x MV/500.  Undanfarin 2 ár hefur verð fyrir óslægðan þorsk verið tæplega 250 ISK/kg.  Þetta meðalverð hefði þá gefið: VG=250x(0,5 %+2,5 %) = 250 x 3,0 % = 7,5 ISK/kg.  Á Grænlandi er ætlunin að miða við fast hlutfall, 5 % x MV, sem gæfi 12,5 ISK/kg, en þar verður allt veiðileyfagjaldið frádráttarbært frá hagnaði útgerðanna við skattlagningu þeirra. Þetta hlutfall, 5 %, mundi samkvæmt ofangreindri formúlu nást við MV=450 ISK/kg

c) Meint auðlindarenta við nýtingu náttúruauðlinda er grundvöllurinn að réttlætingu veiðileyfagjalda.  Hins vegar skiptast á skin og skúrir í þessum atvinnurekstri, eins og hjá fyrirtækjum í öðrum greinum.  Það er til mælikvarði á rekstrarlega velgengni, og er sá nefndur framlegð (e. contribution to fixed costs), þ.e. framlegð rekstrar til fasts kostnaðar fyrirtækis.  Í fjármagnsfrekri starfsemi, eins og útgerð, þarf þessi framlegð, FL, að vera yfir 20 % af sölutekjum (veltu), svo að réttmætt sé að ræða um auðlindarentu í starfseminni.  Þess vegna er sanngjörn mótvægisaðgerð, að ríkisvaldið leyfi útgerðarfélögunum að draga greidd veiðileyfagjöld, að undanskildu GG, frá hagnaði sínum á skattframtali, t.d. helminginn, ef 15 % < FL < 20 %, og andvirði allra veiðileyfagjaldanna, nema GG, ef FL_< 15 %. Grænlendingar ætla að hafa öll veiðileyfagjöldin frádráttarbær, óháð afkomu fyrirtækjanna.   

 Þetta fyrirkomulag, sem hér er sett fram í stað slæms, gildandi veiðigjaldakerfis hérlendis, uppfyllir skilyrði "góðs" veiðileyfagjaldkerfis mun betur en núverandi fyrirkomulag.  Það er almennt og kallar ekki á undanþágur eða sérmeðhöndlun ákveðinna greina.  Því mætti jafnvel beita óbreyttu á fiskeldi úti fyrir ströndum Íslands í opnum kvíum, en það er sanngjarnt, að gjaldið yrði lægra fyrir fiskeldi í lokuðum kvíum og ekkert gagnvart fiskeldi í landkerum.  Einkenni þessa kerfis er, að það deilir byrðum og ávinningi á milli opinberra sjóða og fyrirtækjanna, þ.e. það er lágt, þegar illa árar, og hátt, þegar vel gengur. Að þessu leyti svipar því til reiknireglu raforkuverðs til álvera í þeim tilvikum, sem það er tengt álverði. 

Sjávarútvegurinn gæti þurft að búa við gengisvísitölu u.þ.þ. 170 um hríð.  Hann getur ekki aukið frumframleiðslu sína hratt af náttúrulegum orsökum, og hann býr við sveiflukenndan uppsjávarafla.  Hann getur hins vegar aukið verðmæti framleiðslu sinnar áfram í takti við það, sem hann hefur gert á undanförnum árum, og hann getur aukið framleiðnina enn meir. Hann mun reyna þetta hvort tveggja til að komast af við ríkjandi efnahagsaðstæður.  

Til þess að hann geti þetta, þarf hann að hafa bolmagn til fjárfestinga og til að stunda rannsóknir og þróun.  Með háum veiðileyfagjöldum á tímum tiltölulega lágs fiskverðs og minnkandi framlegðar, veiðileyfagjöldum, sem nema 5 % - 10 % af verði óslægðs fiskjar úr sjó, fer ríkisvaldið fram með ómálefnalegri og óbilgjarnri skattheimtu, sem veikir sjávarbyggðirnar og veikir undirstöður grundvallaratvinnugreinar landsins til framtíðar.  Landsmönnum er enginn greiði gerður með slíkri framgöngu ríkisvaldsins, enda er hún óviturleg í hæsta máta. Gjaldtöku vegna auðlindarentu verður að endurskoða frá grunni til að tryggja hámarks verðmætasköpun og gjaldeyrisöflun. 

Ný tegund í lögsögu Íslands, makríll

 

 

 


Lýðheilsa og heilsufar búfjárstofna í húfi

Slæmar fréttir bárust hingað til lands frá EFTA-dómstólinum 14. nóvember 2017.  Hann úrskurðaði, að bann íslenzkra stjórnvalda við innflutningi á hráu, ófrystu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og eggjum og vörum úr þessum afurðum, svo og leyfiskvöð á innflutningi þessara vara, bæri að flokka með ólögmætum viðskiptahindrunum samkvæmt matvælalöggjöf ESB og ákvæðum EES-samningsins, sem Ísland er aðili að.

Við þennan dóm er margt að athuga, bæði lögfræðilega og heilsufarslega.  Margir kunnáttumenn hérlendis á sviðum lýðheilsu, meinafræði og sýklafræði manna og dýra gjalda svo mjög varhug við þessum dómi, að þeir fullyrða blákalt, að fullnusta dómsins mundi stefna heilsufari manna og dýra í hættu hérlendis. Við svo búið má ekki standa, og afgreiðsla þessa máls verður ákveðinn prófsteinn á nýja ríkisstjórn landsins. Það er algert ábyrgðarleysi af núverandi bráðabirgða stjórnvöldum að skella skollaeyrum við aðvörunarorðum fjölmargra sérfræðinga m.v. geigvænlegar afleiðingar þess, að allt fari hér á versta veg í þessum efnum.

Fráfarandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra er sem fyrr úti á þekju og skautar léttilega yfir slíkar hindranir og sannar með því, hversu sneydd hæfileikum hún er til að fara með þetta veigamikla embætti í Stjórnarráði Íslands.  Það er guðsþakkarvert, að hún skuli vera þaðan á förum, enda átti hún þangað aldrei erindi.  Helgi Bjarnason hefur t.d. eftirfarandi eftir téðri Þorgerði í frétt sinni í Morgunblaðinu, 15. nóvember 2017:

"Breyta þarf reglum um innflutning":

"Þorgerður Katrín segir, að íslenzk stjórnvöld þurfi að breyta þessum lögum, svo að Íslendingar standi við sínar alþjóðlegu skuldbindingar."

Þorgerður þessi leyfir sér að boða það að gösslast áfram gegn ráðleggingum okkar færustu vísindamanna, þótt afleiðingarnar geti orðið geigvænlegar fyrir bændastéttina, dýrastofnana, heilsufar og hag þjóðarinnar og ríkissjóðs.  Blekbóndi er gjörsamlega gáttaður á fljótfærni og hugsunarleysi þessa ráðherra, sem dæmir sjálfa sig úr leik í pólitíkinni með þessari einstæðu afstöðu.  Enn bætti Þorgerður þó um betur:

"Þorgerður Katrín lýsir þeirri skoðun sinni, að hræðsluáróður hafi verið notaður gegn innflutningi á fersku kjöti og telur, að meiri hætta stafi af ferðamönnum og innflutningi á fersku grænmeti."

Mann rekur í rogastanz við lestur texta, sem vitnar um jafnhelbert dómgreindarleysi og blinda trú á regluverk og eftirlitskerfi ESB og hér er á ferð.  Ráðherrann, fráfarandi, hraunar hér yfir faglega og rökstudda skoðun fjölda innlendra sérfræðinga og kallar "hræðsluáróður".  Slíkur stjórnmálamaður og stjórnmálaflokkur, sem að slíkum ráðherra stendur, er einskis trausts verður og hlýtur að lenda á ruslahaugum sögunnar eigi síðar en í næstu Alþingiskosningum, enda hvert ver eiginlega erindi Viðreisnar í stjórnmálin ?  Kerfisuppstokkun ?  Heyr á endemi !  

Ný ríkisstjórn í landinu verður að taka téðan dóm föstum tökum og semja vísindalega trausta greinargerð til ESA og ESB, þar sem rökstutt er, að íslenzk stjórnvöld sjái sér engan veginn fært að fullnusta þennan dóm EFTA-dómstólsins vegna mikillar áhættu fyrir hag landsins, sem slíkt hefði í för með sér.  Leita þarf lögfræðilegra leiða til að renna stoðum undir slíka afstöðu, ella verða Íslendingar að leita eftir breytingum á skuldbindingum sínum við EES í krafti fullveldisréttar síns.  Undanþágur í þessa veru verða líka að koma fram í væntanlegum fríverzlunarsamningi Íslands og Bretlands, sem taka þarf gildi í kjölfar harðsóttrar útgöngu Bretlands úr ESB.  Bretar hafa lýst því yfir, að í stað þess að dvelja í skjóli "Festung Europa", vilji þeir hafa forgöngu um víðtæka fríverzlun, og þeir eru líklegir til að skapa EFTA-þjóðunum aðgang að víðtæku fríverzlunarneti um heiminn.

Aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands sagði í ofangreindri frétt:

""Þessi orrusta er töpuð, en kanna verður, hvort stríðið er tapað", segir Erna. Hún nefnir, að EFTA-dómstóllinn hafi ekki talið reglur Íslands falla undir þá grein EES-samningsins, sem heimilar ríkjunum að grípa til sérstakra ráðstafana til að vernda líf og heilsu manna og dýra.  Það verði athugað, hvort einhverjar leiðir séu til að virkja þetta ákvæði."

Spyrja má, hvort öryggishagsmunum Íslands hafi verið teflt nægilega skilmerkilega og ítarlega fram að Íslands hálfu gagnvart dómstólinum.  Málið er ekki viðskiptalegs eðlis, heldur varðar það þjóðaröryggi, ef með stjórnvaldsaðgerðum er verið að opna nýjum fjölónæmum sýklum og veirum greiða leið inn í landið og þar með tefla lýðheilsu hérlendis á tæpasta vað og setja heilsufar búfjár í uppnám.

Það er líklega ekkert sambærilegt tilvik í Evrópu við sjúkdómastöðuna á Íslandi, og þess vegna ekkert fordæmi í Evrópu til að líta til við dómsuppkvaðninguna, en ef þessari hlið málsins hefði verið teflt fram af fullri festu, hefði mátt benda dómstólnum á fordæmi annars staðar í heiminum, t.d. frá Nýja-Sjálandi.  Nú þarf að tefla fram ítarlegri röksemdafærslu okkar færustu vísindamanna á þessu sviði gegn þeim rökum, sem EFTA-dómstóllinn hefur lagt til grundvallar, og verður þá ekki öðru trúað en minni hagsmunir verði látnir víkja fyrir meiri.  Að öðrum kosti verður Ísland að grípa til einhliða ráðstafana að beztu manna yfirsýn til að varðveita þá heilsufarslegu stöðu, sem 1100 hundruð ára einangrun hefur fært íslenzkum búfjárstofnum.  

Hvað segir Margrét Guðnadóttir, prófessor emeritus í sýklafræði við Háskóla Íslands af þessu tilefni ?:

"Það er alvarlegt mál, ef hér koma upp nýir dýrasjúkdómar eða ólæknandi mannasjúkdómar.  Ég treysti ekki þeim mönnum, sem vilja flytja inn hrátt, ófrosið kjöt, til að verja okkur fyrir þeim.  Kannski af því, að ég er orðin svo gömul, að ég hef séð of margt."

Í Morgunblaðinu 16. nóvember 2017,

"Segja, að veikindaálagið muni aukast",

mátti greina miklar áhyggjur Vilhjálms Svanssonar, dýralæknis og veirufræðings á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum, og Karls G. Kristinssonar, prófessors og yfirlæknis á sýkla- og veirufræðideild Landsspítalans:

""Þessi niðurstaða hefur þýðingu fyrir lýðheilsu og mögulega einnig dýraheilsu.  Það er alveg óumdeilt í fræðaheiminum, að smitsjúkdómastaða íslenzku búfjárkynjanna er einstök á heimsvísu.  Þess nýtur íslenzkur landbúnaður og almenningur hérlendis", segir Vilhjálmur."

Á að fórna "einstakri stöðu á heimsvísu" vegna þrýstings frá Samtökum verslunar og þjónustu og Félagi atvinnurekenda, sem kært hafa íslenzk yfirvöld fyrir ESA og krefjast þess að fá að flytja hömlulaust inn frá ESB og selja hér ferskt kjöt, ógerilsneydd egg og vörur úr þessum afurðum ? Það kemur ekki til mála. Það mun auðvitað sjást undir iljar þessara aðila, þegar fólk og fénaður tekur að veikjast hér af fjölónæmum sýklum, sem engar varnir eru gegn, og búfé að hrynja niður, eins og fordæmi eru um, af riðuveiki og mæðiveiki.  Þessir innflytjendur og seljendur verða þá fljótir að benda á eftirlitsaðilana sem sökudólga, en pottþétt heilbrigðiseftirlit með þessum innflutningi er óframkvæmanlegt. Sá beinharði kostnaður, sem af slíku mundi leiða fyrir skattborgarana, er margfaldur sá sparnaður, sem neytendur kynnu að njóta um hríð vegna lækkaðs matvöruverðs.  

""Sýklalyfjaónæmi er ein af helztu ógnunum við lýðheilsu í heiminum í dag.  Það skiptir því miklu máli fyrir okkur að reyna að viðhalda okkar góðu stöðu, eins lengi og hægt er", segir Karl."

Í þessu máli eru ekki öll kurl komin til grafar, og það hlýtur að verða eitt fyrsta meginverkefni nýs utanríkisráðherra, heilbrigðisráðherra og landbúnaðarráðherra að stilla upp varnarlínu fyrir Ísland gagnvart ESB í þessu máli og síðan að sækja þaðan fram til að hnekkja þessum dómi, hugsanlega með sérsamningi Íslands eða EFTA við ESB, því að með hann á bakinu er Íslandi ekki vært innan EES.  Það er utanríkispólitískt stórmál með miklum afleiðingum fyrir Ísland, eins og úrsögn Bretlands úr ESB er stórmál fyrir Breta, en reyndar líka fyrir mörg fyrirtæki í ESB-ríkjunum.   

 Berlaymont sekkur

 

 

 

 


Marteinn Lúther, 1483-1546

Upprifjun á ævi þýzka guðfræðiprófessorsins Marteins Lúthers í sjónvarpi undanfarið í þýzkum og íslenzkum fræðsluþáttum hefur kastað ljósi á, hvílíkur eldhugi og byltingarmaður Marteinn Lúther var.  Ævistarf hans bylti samtíð hans á trúmálasviðinu og lagði grunninn að þróun Evrópu og Vesturlanda allra í átt til upplýsts sjálfsákvörðunarréttar einstaklingsins og andlegs frelsis hans, einstaklingshyggju með samfélagslegri ábyrgð í anda kristilegs kærleika. Án starfa Lúthers og samverkamanna hans væru Vesturlönd líklega að mörgu leyti lakar sett en reyndin er á okkar dögum.

Lúther var Saxi og fæddist og dó í Eisleben í Saxlandi, en starfaði aðallega í Wittenberg í Saxlandi, sem þá var sennilega miðstöð frjálslyndis og fróðleiksleitar þar um slóðir. Lúther gerðist ungur að árum munkur af reglu Ágústínusar og einhvern tímann á árabilinu 1513-1517 varð hinn rúmlega þrítugi munkur fyrir vitrun Guðs og fannst hann vera "endurborinn og hafa gengið gegnum opnar dyr inn í paradís". Þessi upplifun hans breytti vafalaust sjálfsmynd hans og sjálfstrausti og varð honum sennilega eldsneyti til mikilla afreka sem baráttumaður gegn valdakerfi kaþólsku kirkjunnar og fyrir andlegu frelsi og þekkingu lýðnum til handa. Hann var hins vegar ekki slíkur hefðbundinn byltingarforingi, sem berst fyrir auknum hlut alþýðunnar af auði aðalsins og annarra stóreignamanna. 

 Lúther einbeitti sér alla tíð að trúmálum, og honum ofbauð spilling rómversk-kaþólsku kirkjunnar, sem hann kynntist sem munkur, og fann sig knúinn til þess 31. október 1517 að tjá opinskátt hneykslun sína á framferði kirkjunnar manna.  Dropinn, sem fyllti mælinn, var sala sendimanna páfans á aflátsbréfum, sem voru eins konar skuldabréf, sem endurgreidd voru með ríkulegum vöxtum hinum megin með því að létta og stytta veru breyskra manna og kvenna í hreinsunareldinum, jafnvel löngu framliðinna. Í krafti fræða sinna sem Biblíufræðingur sá Lúther í gegnum þennan viðurstyggilega blekkingarvef og fjárplógsstarfsemi, því að hvergi var í Biblíunni minnzt á neinn hreinsunareld, svo að ekki sé nú minnzt á aflátsbréf eða eitthvað keimlíkt.  Páfastóllinn hafði innleitt hreinsunareldinn í kenningakerfi sitt til að ná tangarhaldi á lýðnum og beitti ógnarstjórn með því að skapa skelfingu syndugs lýðsins gagnvart dauðanum.  Var þetta hinn lúalegasti gjörningur Rómverjanna gagnvart fávísum og fátækum almúga.

Mótmæli Marteins Lúthers, sem hann negldi upp á aðalhurð hallarkirkjunnar í Wittenberg í Saxlandi, vafalaust með samþykki kjörfurstans, voru í 95 liðum, sem voru einn samfelldur reiðilestur út af andlegri kúgun og spillingu kirkjunnar manna.  Æðsti veraldlegi valdhafinn í Saxlandi var á þeim tíma tiltölulega frjálslyndur og hafði stofnað tiltölulega frjálslyndan háskóla í Wittenberg.  Þar stundaði Lúther fræðistörf á sérsviði sínu, Biblíunni. Kirkjunnar mönnum líkaði ekki alls kostar við þau fræðistörf, sem í þessum háskóla voru stunduð, m.a. útleggingar Lúthers á Nýja Testamentinu og rök hans fyrir því, að "hið heilaga orð" yrði að ná beint til fólksins, með því að boðskapurinn væri á móðurmáli þess, og hann þýddi sjálfur Biblíuna á alþýðumál Saxa, sem síðan varð grundvöllurinn að ritmáli allra þýzkumælandi manna, sem tala fjölbreytilegar mállýzkur.  Nokkru seinna vann Oddur Gottskálksson andlegt þrekvirki við grútartíru í fjósinu í Skálholti í óþökk þáverandi Skálholtsbiskups, Ögmundar Pálssonar, og myndaði að sama skapi grundvöll íslenzks ritmáls með verki sínu.  

Það er óvíst, að Lúther hefði opinberað andúð sína á gjörðum kirkjunnar þjóna og útleggingum þeirra á fagnaðarerindinu með jafnögrandi hætti og raunin varð, ef hann hefði ekki verið hvattur áfram af veraldlegum höfðingjum í Saxlandi, þ.á.m. téðum kjörfursta.  Þar, eins og á Íslandi, hafði lengi verið togstreita á milli kirkjuvaldsins og veraldlegra höfðingja um veraldlegar eignir, t.d. jarðnæði.  Veraldlegir höfðingjar Saxlands sáu sér nú leik á borði, er sterkrar gagnrýni á kirkjuna gætti innan hennar, að grafa undan áhrifamætti hennar með beinum og óbeinum stuðningi við harðvítuga og fræðilega gagnrýni á störf kirkjunnar þjóna frá munkum og prelátum og upp í páfastól sjálfan. Sennilega voru Siðaskipti samt ekki ætlun höfðingjanna, en fljótlega varð ekki aftur snúið, og úr varð alger viðskilnaður við rómversk kaþólsku kirkjuna, og höfðingjarnir tóku við hlutverki páfastóls sem verndarar kirkjunnar. Þar með sópuðu þeir gríðarlegum verðmætum kirkna og klaustra í gullkistur sínar, og höfðu þá hvorir um sig í hópi mótmælenda, trúmennirnir og auðmennirnir, nokkuð fyrir sinn snúð, og alþýðan uppskar sem sáð var með tíð og tíma.  

Höfðingjar Saxlands horfðu auðvitað blóðugum augum eftir háum fjárhæðum, sem runnu frá þeim og almúganum til Rómarborgar í formi skattheimtu, og steininn tók úr, þegar páfinn tók að fjármagna byggingu stórhýsis í Róm, Péturskirkjuna, með sölu fyrrnefndra aflátsbréfa.  Leiða má getum að því, að megnið af fjármögnun þessa stórhýsis hafi komið frá Þýzkalandi, enda stöðvaðist bygging kirkjunnar um tíma, þegar áhrifa andmælanna 95 á kirkjuhurðinni í Wittenberg tók að gæta um allan hinn þýzkumælandi heim fyrir tilstyrk mestu tækninýjungar þess tíma.  

Fullyrða má, að áhrifa róttækrar fræðilegrar gagnrýni og réttlátrar reiði Marteins Lúthers á andlega kúgun kirkjunnar, vafasamar útleggingar preláta og biskupa á Biblíunni, m.a. í krafti þess, að fáir utan prelátastéttar voru í færum að kynna sér Biblíuna af eigin raun á latínu, hefðu orðið miklu staðbundnari, minni og hægvirkari, ef Lúther og baráttufélagar hans í hópi guðfræðinga og höfðingja hefðu ekki tekið í gagnið byltingarkenndustu hönnun og nýsmíði þess tíma, prentsmiðju Jóhannesar Gútenbergs, 1400-1468, frá 1439, sem þá var búið að setja upp og þróa enn frekar í 70 ár á nokkrum stöðum í Þýzkalandi og víðar í Evrópu.  Auðvitað var prentun rándýr í árdaga prenttækninnar, en bandamenn Lúthers hafa vafalaust fjármagnað fyrirtækið með glöðu geði, því að áhrifamáttur boðskapar á móðurmálinu hefur verið orðinn vel þekktur.  

Andmælin 95 og rit Lúthers, þ.á.m. Biblíuþýðing hans á þýzku, sem varð grundvöllur háþýzku, þýzka ritmálsins, dreifðust eins og eldur í sinu um Þýzkaland og tendruðu þar frelsisbál.  Bændur landsins sáu nú kjör sín og aðstöðu í nýju ljósi; þeir þyrftu ekki um aldur og ævi að búa við þrældóm, harðýðgi, kúgun og gripdeildir að hálfu landeigenda og kirkju og gerðu uppreisn gegn yfirvöldunum og kröfðust frelsis fyrir sig og fjölskyldur sínar auk eigin landnæðis. 

Sundrung hefur frá upphafi einkennt lútherska söfnuði, enda vantaði söfnuðina miðstjórnarvald í líkingu við páfadóminn til að úrskurða um deilumál og halda hjörðinni saman. Einn fyrsti klofningurinn í röðum fylgismanna Lúthers var vegna afstöðunnar til vopnaðrar uppreisnar bænda í Þýzkalandi 1524-1525, sem var innblásin af andlegri byltingu Lúthers.  Sumir baráttufélaga Lúthers tóku einarða afstöðu með almúga sveitanna og blönduðu sér beinlínis í baráttuna, en Marteinn Lúther var hins vegar eindregið á móti því að reyna að rétta hlut almúgans snögglega gagnvart aðlinum með ofbeldi og blóðsúthellingum, enda ætti slíkt að verða friðsamlegt þróunarferli.  Hér verður fernt nefnt, sem kann að hafa ráðið afstöðu Lúthers til bændauppreisnarinnar:

  1. Biblíufræðingurinn, Lúther, fann því hvergi stað í boðskap biblíunnar, að Guði væri það þóknanlegt, að almúginn gripi til vopna gegn valdhöfum og raskaði þar með gildandi þjóðfélagsskipan.
  2. Lúther vildi að sönnu rétta kjör almúgans, en taldi skyndilausn á borð við vopnaða uppreisn ekki vænlega leið til þess, heldur þyrftu réttarbætur og bættur hagur að fylgja auknum þroska og menntun alþýðu, sem hann vissulega hafði hrundið af stað og vann alla tíð að.
  3. Lúther gerði sér grein fyrir því, að við ofurefli var að etja á vígvellinum, þar sem voru brynjaðir riddarar aðalsins og vel vopnum búnir og þjálfaðir fótgönguliðar gegn óþjálfuðum og illa búnum bændunum.  Uppreisn myndi aðeins leiða til blóðbaðs og auka enn við sára neyð og eymd bænda, hvað og á daginn kom.  
  4. Lúther var í bandalagi við saxneska höfðingja, sem vernduðu hann gegn hefndaraðgerðum kaþólsku kirkjunnar, enda vildu þeir losna undan andlegri og skattalegri kúgun kaþólsku kirkjunnar. Annars hefði Lúther líklega ekki kembt hærurnar. Hagsmunir höfðingjanna og Marteins Lúthers sköruðust, og hann taldi réttilega óráðlegt að rjúfa bandalagið við þá, því að þá stæði hann á berangri. Lúther leit jafnan svo á, að hagsmunir mótmælendasafnaðanna og veraldlegu höfðingjanna færu saman.  Þeir urðu síðan verndarar hinnar lúthersku kirkju, og þaðan höfum við í raun núverandi tengingu ríkis og kirkju á Norðurlöndunum, þar sem ríkisvaldið er bakhjarl lúthersku kirkjunnar, þótt fullt trúfrelsi ríki.   

Lúther var agndofa yfir þeim frelsisöflum, sem hann hafði leyst úr læðingi, og sama hefur vafalaust átt við um höfðingjana, sem studdu hann með ráðum og dáð í skefjalausri valdabaráttu sinni við kirkjuvaldið í Róm.  Þeir stóðu að mörgu leyti í pólitískri þjóðfrelsisbaráttu fyrir sjálfstæði lands síns og hagsmunum þjóðar sinnar gagnvart fornu drottinvaldi hins gíruga Rómarvaldis. 

Þessir umbrotatímar minna á okkar eigin tíma, þegar megn óánægja er víða að brjótast út með Brüssel-valdið, sem reisir valdheimildir sínar gagnvart aðildarþjóðunum einmitt á Rómarsáttmálanum og síðari sáttmálum Evrópusambandsríkjanna. Brüssselvaldið grípur nú þegar inn í daglegt líf almennings án þess að hafa hlotið til þess lýðræðislegt umboð eða bera lýðræðislega ábyrgð gagnvart almúganum. Þessi óánægja almennings brauzt síðast út í þjóðaratkvæðagreiðslu á Bretlandi í júní 2016, þegar meirihluti kjósenda fól þingi og ríkisstjórn að draga Bretland undan stofnanavaldi og skattheimtu ESB. Nú sýnir Brüsselvaldið samningamönnum Bretlands um útgönguna klærnar, og enginn veit enn, hvernig samskiptum útgönguríkisins við ESB-ríkin verður háttað. 

Lúther skrifaði bók til að reyna að stöðva ofbeldið, en það var þá um seinan.  Bókin hét: "Gegn gripdeildum og drápum bændamúgs".  Lúther var augsýnilega enginn lýðskrumari, og hann var ekki lýðræðissinni í okkar skilningi hugtaksins. Lýðurinn lét ekki segjast við þetta andóf Lúthers. Hann hafði verið leystur úr andlegum viðjum aldalangrar kúgunar Rómarkirkjunnar.  Úr því að Guð hafði talað beint til hans með hinu ritaða orði Biblíunnar, hvað var þá að óttast frá hendi kónga og biskupa ?

Það er óyggjandi, að andleg bylting Marteins Lúthers lagði grunninn að einstaklingsfrelsi, einkaframtaki, mannréttindum og upplýsingastefnunni, sem þróaðist í Evrópu, einkum í löndum mótmælenda.  Upplýsingastefnan lagði grunninn að grunnmenntun almennings í lestri, skrift og reikningi, sem var stærsta einstaka skrefið í átt að auknum lýðréttindum, jafnræði og lýðræði.  "Kirkjur [mótmælenda] voru skólar lýðræðis", hefur The Economist eftir brezkum trúar þjóðfélagsfræðingi í ítarlegri umfjöllun um Martein Lúther 4. nóvember 2017, sem blekbóndi hefur stuðzt við í þessari umfjöllun um þann mann, sem mestum vatnaskilum olli á miðöldum um þróun vestrænnar menningar, svo að ekki sé nú skafið utan af því.

Blekbóndi hafði frá grunnskólaárum sínum frekar horn í síðu Marteins Lúthers, því að stráksi kenndi honum hálft í hvoru um meinleg örlög Jóns, biskups, Arasonar í Skálholti í nóvember 1550 ásamt tortímingu menningarverðmæta klaustranna og ránsferðum Dana þangað.  Í kjölfarið fór hagur landsmanna versnandi og við tóku hindurvitni og lögleysa með galdraofsóknum.  Ómögulegt er hins vegar að segja um, hvernig þróunin hefði orðið hér á landi, ef kaþólikkar hefðu náð að koma í veg fyrir Siðaskiptin hér á landi.  Eitt er víst, að eftir mikla óáran hérlendis vegna "Litlu ísaldar", eldgosa og landlægs afturhalds í atvinnulegum efnum, náðu Íslendingar að hrista af sér andlega og stjórnarfarslega hlekki og beinlínis að rísa úr öskustó í krafti "upplýsingarinnar", einkaframtaks og einarðrar stjórnmálaforystu í anda Jóns Sigurðssonar, forseta, og var ekki linnt látunum fyrr en fullveldi var endurheimt og fullt frelsi með stofnun lýðveldis á Þingvöllum 1944.  

Í krafti dugnaðar og þekkingaröflunar í útlöndum með innleiðingu nýjustu tækni á hverju sviði tókst landsmönnum að bæta hag sinn á um 150 árum frá því að vera ein bágstaddasta þjóð Evrópu í efnalegu tilliti í það er vera ein sú bezt stæða um þessar mundir.  Ekki er þó sopið kálið, þótt í ausuna sé komið, því að veldur hver á heldur, og varðveizla gæðanna er líka vandasöm.   

 

 

 


Þjóðernisjafnaðarstefnan

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að vinstri flokkarnir íslenzku háðu misheppnaða kosningabaráttu sína fyrir Alþingiskosningarnar 28.10.2017 undir formerkjum meiri jafnaðar.  Þessi áróður stóð á brauðfótum andspænis þeim alþjóðlega viðurkenndu staðreyndum, að um þessar mundir er hvergi meiri tekjujöfnuður en á Íslandi og eignajöfnuðurinn á Íslandi er sá mesti á Norðurlöndum, og jafnframt sá mesti á meðal auðugra þjóða. 

Þegar félagshyggjumaður er spurður, hversu langt hann vilji ganga við að jafna lífskjör þegnanna, vefst honum skiljanlega tunga um tönn, því að það er jafnframt vel þekkt, að of mikil jöfnun dregur áberandi mikið úr hvata fólks til að bæta lífskjör sín, og þar með gerir hið opinbera þá skyssu að verða valdur að stöðnun hagkerfisins vegna minna vinnuframlags og minni nýsköpunar og frumkvæðis í atvinnulífinu.

Félagshyggjumaðurinn svarar þess vegna spurningunni gjarna á loðinn hátt, t.d. að hann vilji enn auka jöfnuð.  Þetta er mergurinn málsins, og sannazt hefur á vinstri stjórnum um allan heim, að þær streða stöðugt við að auka jöfnuð, en verðmætaskapandi hvatar verða algerlega útundan.  Þær hafa stöðugt aukið við skattheimtuna, þar til hún varð hreinræktuð eignaupptaka og að lokum þjóðnýting atvinnutækjanna, eins og umheimurinn hefur undanfarin ár haft fyrir augunum í Venezúela. Á kaldastríðsárunum fram að valdatíma Margrétar Thatcher var það segin saga, þegar Verkamannaflokkurinn brezki komst til valda, þá þjóðnýtti hann nokkur stór fyrirtæki.  

Þegar þessar ríkisreknu gripdeildir eru komnar upp á visst stig, þ.e.a.s. ekki hefur tekizt að velta vinstri stjórnum úr sessi í tæka tíð, verður ríkisvaldið að verjast óánægju almúgans með jöfnun lífskjara, sem alltaf er niður á við, með harðýðgi og harðstjórn.  Jafnaðarstefnan hefur þá breytzt í einræðis sósíalisma, kommúnisma, sem Karl Marx nefnir "alræði öreiganna".  

Lýsingu á þessu ferli mótmæla félagshyggjumenn stundum á ódýran hátt með vísun í bábilju, sem ættuð er frá grimmdarsegginum frá Georgíu, Jósef Stalín, arftaka Vladimirs Lenín sem einræðisherra Sovétríkjanna til 1953, og hann setti fram eftir upphaf "Rauðskeggsaðgerðar" Þriðja ríkisins, 22. júní 1941, sem var dulnefni þýzka herráðsins á innrásinni í Sovétríkin, sem endaði með ósköpum fyrir Þjóðverja, m.a. vegna þess, að Japansstjórn efndi ekki samkomulag við valdhafana í Berlín um að ráðast á Rússa úr austri.  "Rauðskeggsaðgerðin" átti að tryggja Þriðja ríkinu aðgang að miklum náttúruauðlindum og útrýma kommúnismanum, sem vissulega keppti þá víða við nazismann um hylli almúgans.

Lífseig villukenning Stalíns var á þá lund, að lokastig lýðræðislegs auðvaldskerfis, kapítalismans, væri valdataka einræðissinnaðra og þjóðernissinnaðra hægri afla í samfélaginu á borð við "Þjóðernissósíalistíska þýzka verkamannaflokkinn" - NSDAP - "Nationalsozialistische Deutsche Arbeiterpartei", að undirlagi auðvaldsins.

Hindenburg, þáverandi forseti Weimarlýðveldisins, skipaði Adolf Hitler, formann þessa þýzka nazistaflokks, kanzlara Þýzkalands í janúarlok 1933 eftir nokkra velgengni flokksins í kosningum til Reichstag skömmu áður, þar sem flokkurinn hlaut um þriðjung atkvæða. Sami Hindenburg, frægur hershöfðingi úr Fyrri heimsstyrjöldinni 1914-1918, hafði áður sagt, að téður Hitler væri svo litlum hæfileikum búinn, að hann myndi ekki einu sinni gera hann að póstmálaráðherra Weimarlýðveldisins. Hann varð að éta þetta ofan í sig og lézt árið eftir.  Þá sölsaði Adolf Hitler öll völd til sín í kjölfar brunans í Reichstag, sem sennilega var sviðsettur af honum sjálfum.     

Villan í téðri kenningasmíði Stalíns, sem heimur í styrjaldarástandi gleypti við og vinstri menn hafa haldið dauðahaldi í æ síðan til að hylja skyldleika þessara tveggja "sósíalisma", er sú, að téður þýzki nazistaflokkur var alla tíð sósíalistaflokkur, eins og nafngiftin tjáir raunar greinilega.  Það var þó blæbrigðamunur á þýzkum og rússneskum sósíalisma, eins og pistlahöfundurinn Óðinn útskýrði með sögulegum tilvísunum í Viðskiptablaðinu, 9. nóvember 2017, en alræði ríkisins yfir framleiðslutækjunum undir þjóðernissósíalisma var þó sambærilegt við alræði rússneska kommúnistaflokksins, þegar hann hafði náð völdunum í sínar hendur í Ráðstjórnarríkjunum. Það er þetta efnahagslega og atvinnulega alræði ríkisins, sem greinir vinstri flokka frá hægri flokkum.  Hinir síðar nefndu leggja áherzlu á valddreifingu, einkaframtak, jöfn tækifæri og frjálsa samkeppni.   

Verður nú vitnað ótæpilega í Óðin, mönnum til glöggvunar um félagshyggjueðli þjóðernisjafnaðarmanna:

"Ein slík lygi, þrautseig og útsmogin, er enn á harðahlaupum.  Hún gengur í einfaldri mynd út á það, að þýzkir nazistar hafi verið kapítalistar og hægri menn og séu því um margt líkari íhalds- og frjálslyndisflokkum nútímans en jafnaðarmönnum og sósíalistum.  Þetta er ekki eingöngu sagnfræðileg "kúríósa" [sérvizka], heldur er nazista- og fasistakylfan reglulega látin dynja á hægrimönnum dagsins í dag. Hitler var andsnúinn sovétkommúnismanum, og því hlýtur sá, sem agnúst út í sósíalisma nútímans að eiga eitthvað sameiginlegt með Hitler."

Þessi einfalda röksemdafærsla hefur gengið eins og rauður þráður gegnum málflutning félagshyggjufólks öll kaldastríðsárin og einnig eftir fall Ráðstjórnarríkjanna 1991, þótt hún sé afar yfirborðsleg og standist ekki skoðun.  Austurríski hagfræðingurinn, Ludwig von Mises, skrifaði t.d. um sósíalistískt eðli nazismans í ritgerðinni,

"Skipulögð óreiða", sem út kom árið 1951.  

"Þegar sósíalisminn var að ná vinsældum í Evrópu á 19. öldinni, var ekki gerður neinn greinarmunur á sósíalisma og kommúnisma.  Vissulega voru til mismunandi útgáfur af sósíalisma, en sama kenniheitið var notað yfir þær allar.  

Í Þýzkalandi voru menn farnir að skilgreina og skrifa um ríkissósíalisma áður en Marx og Engels rituðu sínar frægu bækur.  Johann Karl Rodbertus hafnaði til að mynda mörgum kenningum sósíalisma þess tíma og sagði þær óraunhæfar.  Eina leiðin til að ná fram raunverulegum sósíalisma væri með því, að ríkið tæki yfir bæði framleiðslu og dreifingu á vörum og þjónustu."

Þar með hafnaði Rodbertus í raun leið sósíaldemókrata-jafnaðarmanna sem sósíalisma, en jafnaðarstefnan er þó vissulega leið til sósíalisma, ef menn fylgja trúaratriðinu um æ meiri jöfnuð. Margir halda, að Karl Marx hafi verið fyrstur til að setja fram kenningar um kommúnisma, en þarna kemur fram, að Rodbertus var á undan þeim kumpánum með boðun sæluríkis sósíalismans, þar sem hver fær eftir þörfum og lætur af höndum eftir getu. Í mannlegu samfélagi gengur þessi draumsýn letingjans ekki upp.

Austurríski hagfræðingurinn Mises gerði þá grundvallargreiningu í sambandi við kommúnisma í anda Marx, Leníns og Stalíns annars vegar og hins vegar þjóðernisjafnaðarstefnuna, að til væri sósíalismi þýzkrar gerðar og sósíalismi rússneskrar gerðar:

"Samkvæmt þýzkri gerð sósíalismans var einkaeignarrétturinn ekki afnuminn að nafninu til.  Verksmiðjur áttu í þessu samfélagi enn að vera í eigu einstaklinga, en öllu skipulagi hagkerfisins var stýrt af ríkinu.  Í rússnesku gerðinni var aðeins gengið einu skrefi lengra, og ríkið tók verksmiðjurnar eignarnámi."

Dæmi um þennan mun er, að í Þriðja ríkinu héldu bændur áfram jörðum sínum, en lutu agavaldi ríkisins um framleiðslu og verð.  Markaðsbúskapur var afnuminn, en einkaeignarrétturinn hélzt. Í Rússlandi (og Kína Maós) var hins vegar tekinn upp samyrkjubúskapur með skelfilegum afleiðingum fyrir bændur og verkamenn vegna grimmdarlegrar innleiðingar og framleiðsluhraps í kjölfarið, sem leiddi til hungursneyðar.

Þýzki þjóðernissósíalisminn minnir óneitanlega um atvinnulífsstefnuna nokkuð á hina kínversku útfærslu kommúnismans eftir daga Maos.  Deng Hsiao Ping og arftakar skiluðu jarðnæðinu til bænda, og þá fóru Kínverjar að brauðfæða sig að nýju eftir árvissa hungursneyð. Kínverska ríkið leggur línuna um fjárfestingar og framleiðslu undir handleiðslu alls ráðandi kommúnistaflokks, en einkaframtakið fær að spreyta sig í samkeppni við ríkisfyrirtæki.  Þetta kerfi hefur alið af sér mikinn, en skuldsettan hagvöxt, lyft hálfum milljarði manna úr örbirgð til bjargálna, skapað mikinn ójöfnuð og valdið ofboðslegri mengun lands, lofts og lagar.

Áfram með Óðin:  

"Nazistaflokkurinn var gegnsósa af þessum þýzka sósíalisma. Í Þýzkalandi Hitlers voru eigendur kallaðir verksmiðjustjórar.  Ríkið gaf skipanir um það, hvað þeir ættu að framleiða, hverjir birgjar þeirra ættu að vera, til hverra þeir ættu að selja og á hvaða verði.  Laun verkafólks voru ákveðin af ríkinu, og það var ríkisins að ákveða, hvernig "kapítalistarnir" ættu að ávaxta arð sinn."

Af þessari lýsingu á framkvæmd þjóðernisjafnaðarstefnunnar er eins ljóst og verða má, að markaðsöflin voru algerlega aftengd og hugsanlegur gróði af starfseminni svo gott sem þjóðnýttur.  Að halda því fram, að auðvaldið hafi afnumið lýðræðið í Weimarlýðveldinu, tekið völdin og leikið lausum hala í Þriðja ríkinu, er hrein fásinna.  Þjóðernisjafnaðarstefnan var hreinræktaður sósíalismi, sem stóð á gömlum merg þýzkrar hugmyndafræði um ríkissósíalisma.  Þjóðernisjafnaðarstefnan er þess vegna ekki lengst til hægri í hinu pólitíska litrófi, eins og haldið hefur verið lengi fram og er helber sögufölsun, heldur yzt til vinstri á svipuðum slóðum og kommúnistaflokkar heimsins eru.  Nazistaflokkurinn átti ekkert sameiginlegt með borgaralegum hægri flokkum fortíðar og markaðssinnuðum hægri flokkum nútímans, heldur var hann náskyldur öðrum sósíalistískum flokkum.  

Útlistanir Ludwigs von Mises á hagkerfi nazismans voru t.d. eftirfarandi:

"Viðskipti á markaði eru óraunveruleg við þessar aðstæður.  Þar sem öll verðlagning, laun og vaxtastig eru ákveðin af hinu opinbera, eru þau aðeins að nafninu til verð, laun og vextir.  ... Þetta er sósíalismi í gervi kapítalisma.  Sum hugtök auðhyggju- markaðshagkerfis eru notuð áfram, en merking þeirra hefur breytzt í grundvallaratriðum."

Með þessu benti Mises á, að með stjórnun í anda þjóðernisjafnaðarstefnunnar, eins og að ofan var lýst, ákvarðar ríkið tekjur, neyzlu og lífskjör hvers einasta þegns.  Ríkið, ekki neytendur, stjórnar framleiðslunni, eins og í öðrum sósíalistískum samfélögum.

Óðinn skrifaði áfram um nazismann:

"Nazistaflokkurinn leit enn þá [eftir valdatökuna] á sig sem sósíalistískan flokk og stjórnaði þýzka hagkerfinu sem slíkur.  Hatur Hitlers á sovétkommúnismanum var afsprengi kynþáttahaturs hans.  Hann var haldinn sjúklegu Gyðingahatri og leit á slava sem kynþátt, sem ætti að hneppa í þrældóm og útrýma með tíð og tíma.  Rússneskur kommúnismi var, í hans huga, hugmyndafræði slavneskra Gyðinga og hættulegur sem slíkur.  Hatrið var með öðrum orðum ekki hugmyndafræðilegt [,heldur reist á kynþáttafordómum-innsk. BJo]."

"Þegar þýzki herinn réðist inn í Sovétríkin árið 1941 [Operation Barbarossa-innsk. BJo], lenti margur sósíalistinn í samvizkukrísu.  Þarna voru í raun tvö sósíalistísk ríki að takast á.  Þeir tóku því fagnandi söguskýringu Jósefs Stalín um, að þjóðernissósíalismi Hitlers, sem vissulega átti ekki rætur sínar í kenningum Marx, væri í raun ekki sósíalismi, heldur kapítalismi [auðhyggja] á lokastigi."

Að lokum kemur tilvitnun í Óðin, sem skírskotar til öfugsnúinnar umfjöllunar vinstri sinnaðra fréttamanna og annarra blaðamanna, sem túlka atburði líðandi stundar sífellt með hagsmuni pólitískra samherja sinna í stjórnmálabaráttunni í huga.  Blaðamenn í öllum löndum kalla þess vegna pólitísk fyrirbrigði ekki sínum réttu nöfnum, heldur reyna að klína óæskilegum stimpli á sína helztu stjórnmálaandstæðinga í leiðinni.  

"Það er stórmerkilegt í raun, að þessi sögufölsun hafi tekizt svo vel sem raun ber vitni.  Nýnazistar eru reglulega kallaðir "öfgahægrimenn" í vestrænum fjölmiðlum og í hvert sinn, sem upp sprettur þjóðernissinnaður flokkur, sem ber út boðskap um hatur á öðru fólki, þá er sá hinn sami stimplaður hægri flokkur, hversu vinstri sinnuð, sem stefna hans að öðru leyti kann að vera."

Þegar staða nýrra flokka í hinu pólitíska litrófi er greind, er sem sagt ófullnægjandi að fullyrða, að þjóðernissinnaður stjórnmálaflokkur sé hægra megin á ásnum.  Hann er þar einvörðungu réttilega staðsettur, ef hann jafnframt aðhyllist borgaraleg gildi, þ.e. lýðræði, mannréttindi, einstaklingshyggju og markaðshyggju með mismiklu félagslegu ívafi.

Þjóðernissinnaðir stjórnmálaflokkar, sem aðhyllast mikil og vaxandi ríkisafskipti, eru vissulega vinstra megin á stjórnmálaásnum.  Vladimir Putin hefur t.d. slegið mjög á þjóðernisstrengi Rússa, og hann hefur eflt ríkisvaldið gríðarlega, og forsetaembættið rússneska hefur mjög víðtæk völd.  Það má jafnvel halda því fram, að ríkisvaldið segi einkaframtakinu rússneska að einhverju leyti fyrir verkum.  

Ef stefnuskrá Þjóðfylkingarinnar frönsku er grannt skoðuð, kemur í ljós, að hún sé býsna sósíalistísk, og það er ekki einleikið, hversu miklir kærleikar eru á milli Pútín-stjórnarinnar í Rússlandi og hinna ýmsu þjóðernishreyfinga í Evrópu.  Sækjast sér um líkir.

Það er misskilningur, reistur á fáfræði um söguna og vanþekkingu á eðli stjórnmálanna, að skilgreina þjóðernissinnaða stjórnmálaflokka sjálfvirkt sem hægri flokka og þá oftar en ekki "öfgahægriflokka".  Oftast er stefna þessara flokka í atvinnumálum og efnahagsmálum langt til vinstri, og væri þá nær að kalla þá "öfga vinstri flokka".  Sannleikurinn er sá, að höfuðeinkenni hægri flokka er varðstaða um borgaralegar dyggðir, umburðarlyndi, lýðræði, jafnræði, frjálsa samkeppni, frjálsa verzlun og einstaklingsframtak.  

Marine Le Pen 2014Eva og Adolf 1941 

 

 

 

 

 

 


Kostir og tímabundnir gallar rafmagnsbíla

Rafmagnsbílar komu fram á sjónarsviðið strax í upphafi bílaaldar, enda einfaldari í hönnun og smíði en bílar knúnir sprengihreyfli, en rafbílar stóðust hinum ekki snúning, hvað drægni og "áfyllitíma" varðaði.  Þá entust blýrafgeymarnir illa, svo að rafbílar hurfu fljótlega af sjónarsviðinu.  

Árið 1973 varð olíukreppa í heiminum, og OPEC-samtök olíuframleiðsluríkja, beittu samtakamætti sínum í fyrsta sinn til að þvinga fram margföldun olíuverðs.  Á sama tíma kom fram á sjónarsviðið kraftrafeindatækni ("power electronics") með þróun týristorsins, sem gerði aflstýringu bæði jafnstraums- og riðstraumsbúnaðar (DC og AC) mun einfaldari og fyrirferðarminni en áður hafði verið. Við þessar viðskiptalegu og tæknilegu aðstæður gengu rafbílar í  fyrsta sinn í endurnýjun lífdaganna, en þeir náðu þó enn ekki hylli vegna rafgeymanna, sem enn voru gömlu blýrafgeymarnir með brennisteinssýru.  

Vegna týristortækninnar og þróunar tölvutækninnar varð á lokaáratugi 20. aldarinnar tæknilegur grundvöllur fyrir því að nýta hinn margreynda, trausta og endingargóða AC-hreyfil, sem er notendavænni en DC-hreyfillinn, því að hann slitnar hægar, þarfnast minna viðhalds og hefur meira vægi (torque) við háan snúningshraða.  Gallarnir við hann eru fólgnir í áriðlinum, sem er viðbótar kraftrafeindabúnaður, með rafmagnstöpum, til að breyta jafnstraumi í riðstraum. 

Á þessari öld hefur svo orðið gegnumbrot fyrir rafbílinn inn á bílamarkaðinn með nýrri gerð rafgeyma, s.k. liþíum-jón rafgeymar, og vegna örvæntingarfullrar leitar að möguleikum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.  Liþíum-jón rafgeymar hafa marga kosti umfram hina hefðbundnu blýrafgeyma, s.s. a.m.k. þrefaldan orkuþéttleika (yfir 100 Wh/kg), meiri endingu (a.m.k. 1200 hleðslur), og flestir Li-jón bílrafgeymar þola hraðhleðslu á margföldu venjulegu hleðsluafli upp í 80 % málorku rafgeymanna.

Þrennt er nú helzt haft uppi gegn rafbílum: 

  1. Verð rafbíla er hærra en eldsneytisknúinna bíla vegna þess, að hinir fyrr nefndu hafa enn á sér áhvílandi þróunarkostnað og eru framleiddir í litlu upplagi, innan við 3 % af hinum (tengiltvinnbílar þá taldir með rafbílum).  Það eru þó færri íhlutir í rafbílum, og þeir eru í raun einfaldari að gerð.  Þegar fram í sækir geta þeir þess vegna orðið ódýrari en eldsneytisknúnir bílar, vegna þess að verð Li-jón rafgeymanna fer enn lækkandi, og kostnaður þeirra  er lítt háður verði á liþíum. Viðhaldskostnaður rafbíla er lægri, þótt endurnýjunarkostnaður rafgeyma sé tekinn með í reikninginn. Orkukostnaður rafbíla á Íslandi er innan við 40 % af orkukostnaði benzínbíla m.v. núverandi raforkuverð og benzínverð, að meðtöldum töpum við hleðsluna og þrátt fyrir lágt meðalhitastig hérlendis.  Árið 2018 má búast við, að 4 ára eignarhaldskostnaður rafbíla og tengiltvinnbíla á Íslandi verði lægri en eldsneytisbíla vegna lækkandi framleiðslukostnaðar. Samt er ekki búizt við, að sala rafbíla hinna hefðbundnu bílaframleiðenda fari að skila hagnaði fyrr en um og eftir miðjan næsta áratug. 
  2. Akstursdrægni á hverri rafgeymahleðslu þykir of stutt.  Meðalakstur fjölskyldubíla hérlendis er um 35 km/dag.  Að sumarlagi endist hleðsla tengiltvinnbíla fyrir þennan akstur (orkunýtnin versnar við kólnandi veður um allt að 3 %/°C frá meðalnýtni ársins), og minni rafgeymana í rafbílum þarf þá að hlaða á 2-4 daga fresti.  Nú eru hins vegar að koma á markaðinn rafbílar (Chevrolet Bolt, Tesla Model 3) með 75 kWh rafgeyma, og enn stærri rafgeymar eru í stærri Teslu-gerðum.  Á 75 kWh komast menn þó 300 km á hleðslu að sumarlagi, sem dugar flestum, a.m.k. á milli hraðhleðslustaða. 
  3. Langan endurhleðslutíma setja margir fyrir sig.  Full endurhleðsla á 75 kWh rafgeymum með 15 kW (3x32 A tengill) getur nú farið fram á 5 klst, sem dugir fyrir ódýrasta orkukaupatímabilið erlendis, á milli kl. 0100-0600, en þá fæst orkan sums staðar á hálfvirði, og þannig þarf það að verða hér til að nýta raforkukerfið með bezta móti og lágmarka fjárfestingarþörf. Innleiðing slíkrar gjaldskrár er tímabær og jákvæður, þjóðhagslega hagkvæmur hvati fyrir rafbílainnleiðingu hérlendis.   

Nú er að renna upp fyrir bílaframleiðendum, sem ákveðið hafa að venda sínu kvæði í kross og auka framboð á rafbílum til mikilla muna á fyrri hluta næsta áratugar, að framleiðslugeta rafgeymaverksmiðjanna í heiminum er of lítil.  Nú eru framleiddar um 2,0 M/ár bifreiða, sem knúnar eru að einhverju leyti með liþíum-jón rafgeymum.  Ef meðalstærð rafgeyma í þessar 2 M bifreiða er 25 kWh, þá þarf árleg framleiðslugeta rafgeymaverksmiðjanna að vera 50 GWh/ár, og hún er líklega nálægt þessu gildi núna.  Ef framleiða á 10 M rafbíla árið 2025, eins og hugur bílaframleiðenda stendur til (13 % nýrra fjölskyldubíla), t.d. 6 M með drægni 300 km og 4 M með drægni 100 km eða minni (tengiltvinn), þá þá þarf að 11-falda þessa framleiðslugetu á 7 árum. Það er gríðarlegt fjárfestingarátak og gott dæmi um þau útlát, sem orkubyltingin útheimtir.  

Þá vaknar spurningin um það, hversu lengi þekktar birgðir liþíums í náttúrunni munu endast ?   

Það þarf um 160 g Li/kWh.  Fyrir ársframleiðsluna 550 GWh af rafgeymum (áætluð þörf 2025) þarf 88 kt af Li.  Þekktur forði af hreinu Li í heiminum er 14 Mt, svo að hann mundi endast í 160 ár, ef hann færi bara í bílarafgeyma.  

Um miðja 21. öldina gæti framleiðsla rafbíla hafa aukizt í 70 M bíla með að meðaltali 75 kWh rafgeyma hver.  Þá þarf framleiðslugetan að hafa tífaldazt á við 2025 og nema 5250 GWh/ár.  Það þýðir árlega þörf fyrir Li í bílarafgeyma 0,84 Mt.  Ef 14 Mt verða til ráðstöfunar í bílarafgeyma, verður hægt að halda uppi þessum afköstum í 17 ár.  Fyrir miðja öldina verður þess vegna að finna meira af liþíum, og svo vill til, að í höfunum er talið vera gríðarlegt magn eða 230 mia t af Li.  Áreiðanlega mun liþíum verða í samkeppni við önnur efni og rafgeymar í samkeppni við annars konar orkuform (geymsluaðferðir orku), er hér verður komið sögu.  

Það er reyndar ekki líklegt, að á miklu liþíum úr hafinu verði þörf.  Líklegra er, að þegar á næsta áratugi komi fram nýir orkugjafar, t.d. lítil þóríum kjarnorkuver, sem endast muni allan notkunartíma bílsins, og mengunarfríir eldsneytisrafalar, sbr vetnsisknúnir rafalar, eiga mikla þróunarmöguleika fyrir höndum.  

D2409TQ37

 

 

 


Kolefnissektir, kolefnisbinding og rafbílavæðing

Það er mikið fjasað um loftslagsmál, og Katrín Jakobsdóttir talaði um þau sem eitt aðalmála væntanlegrar ríkisstjórnar hennar, Framsóknar, Samfylkingar og pírata, sem aldrei kom þó undir í byrjun nóvember 2017, þótt eggjahljóð heyrðist vissulega úr ýmsum hornum. Það er þó alls ekki sama, hvernig á þessum loftslagsmálum er haldið fyrir hönd Íslendinga, og landsmönnum hefur nú þegar verið komið í alveg afleita stöðu í þessum efnum með óraunsærri áætlanagerð um losun CO2 og lítilli eftirfylgni með sparnaðar- og mótvægisaðgerðum. Vonandi breytir komandi ríkisstjórn um takt í þessum efnum, þannig að fé verði beint til mótvægisaðgerða innanlands í stað sektargreiðslna til útlanda.  

Afleiðing óstjórnarinnar á þessum vettvanfi er sú, að búið er að skuldbinda landsmenn til stórfelldra sektargreiðslna til útlanda vegna framúrkeyrslu á koltvíildiskvótanum, sem yfirvöldin hafa undirgengizt.  Þessi kvóti spannar 8 ár, 2013-2020. 

Íslenzk yfirvöld hafa samþykkt, að Íslendingar mundu losa að hámarki 15,327 Mt (M=milljón) af koltvíildi, CO2, á þessu tímabili með þeim hætti, sem skilgreind er í Kyoto-bókuninni.  Þetta var frá upphafi gjörsamlega óraunhæft, enda nam losunin á 3 fyrstu árunum, 2013-2015, 8,093 Mt, þ.e. 53 % kvótans á 38 % tímabilsins.

  Vegna mikils hagvaxtar á tímabilinu 2016-2020 og hægrar framvindu mótvægisaðgerða má búast við árlegri aukningu á þessu tímabili þrátt fyrir 3,5 %/ár sparneytnari bílvélar og jafnvel 5 %/ár nýtniaukningu eldsneytis á fiskiskipaflotanum, svo að losunin verði þá 14,2 Mt árin 2016-2020.  Heildarlosunin 2013-2020 gæti þá numið 22,3 Mt, en yfirvöldin eru við sama heygarðshornið og áætla aðeins 21,6 Mt.  Hvar eru samsvarandi mótvægisaðgerðir stjórnvalda ?  Skrifborðsæfingar búrókrata af þessu tagi eru landsmönnum of dýrkeyptar.

Það er jafnframt útlit fyrir, að skipuleg binding koltvíildis með skógrækt og landgræðslu á þessu seinna Kyoto-tímabili verði minni en stjórnvöld settu fram í aðgerðaáætlun árið 2010. Það er einkennilegur doði, sem gefur til kynna, að of mikið er af fögrum fyrirheitum og blaðri í kringum þessa loftslagsvá og of lítið af beinum aðgerðum, t.d. til að stemma stigu við afleiðingum óhjákvæmilegrar hlýnunar, s.s. hækkandi sjávarborðs. Það er ekki ráð, nema í tíma sé tekið, þegar kemur að varúðarráðstöfunum.  Það þarf strax að ráðstafa fé í sjóð til þessara verkefna.

Ein talsvert mikið rædd aðgerð til að draga úr losun CO2 er að moka ofan í skurði til að stöðva rotnunarferli í þornandi mýrum, sem losar í meiri mæli um gróðurhúsalofttegundir en mýrarnar.  Áður var talið, að þurrkun ylli losun, sem næmi 27,6 t/ha á ári, og þar sem framræst land næmi 0,42 Mha (=4200 km2), væri árleg losun framræsts lands 11,6 Mt/ár CO2.

Nú hafa nýjar mælingar starfsmanna Landbúnaðarháskóla Íslands sýnt, að þessi einingarlosun er tæplega 30 % minni um þessar mundir en áður var áætlað eða 19,5 t/ha koltvíildisjafngilda, eins og fram kemur í Bændablaðinu, bls. 2, 2. nóvember 2017. 

Losun Íslendinga á koltvíldi vegna orkunotkunar, úrgangs, mýrarþurrkunar og annars árið 2016, var þá þannig:

Losun Íslendinga á koltvíildi, CO2, árið 2017:

  • Millilandaflug:        7,1 Mt   35 %
  • Iðnaður:               2,3 Mt   11 %
  • Samgöngur innanlands:  0,9 Mt    4 %
  • Landbúnaður:           0,7 Mt    3 %
  • Millilandaskip:        0,6 Mt    3 %
  • Fiskiskip:             0,4 Mt    2 %
  • Úrgangur:              0,3 Mt    1 %
  • Orkuvinnsla:           0,2 Mt    1 %
  • Ýmislegt:              0,1 Mt    0 %
  • Framræst land:         8,2 Mt   40 %
  • Heildarlosun:         20,8 Mt  100 %

 

 Til að nýta fjármuni sem bezt við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi Íslendinga er skilvirkast að beina fé í stærstu losunarþættina. 

Framræst land vegur þyngst, 40 %.  Moka þarf ofan í skurði óræktaðs lands, sem ekki er ætlunin að rækta í fyrirsjáanlegri framtíð, og samtímis að planta þar skógarhríslum til mótvægis við losun, sem ekki er tæknilega unnt að minnka að svo stöddu.  Þar vegur millilandaflugið og iðnaðurinn þyngst.  Þessir aðilar eru örugglega fúsir til að fjárfesta í slíkri bindingu á Íslandi fremur en að greiða stórfé fyrir losun umfram kvóta til útlanda, enda er slík ráðstöfun fjár hagstæð fyrir þá, eins og sýnt verður fram á hér að neðan.  

Mismunur á áætlaðri heildarlosun Íslendinga tímabilið 2013-2020 og úthlutuðum losunarheimildum til þeirra er:

ML= 22,3 Mt-15,3 Mt = 7,0 Mt

Meðaleiningarverð yfir þetta "seinna Kyoto-tímabil" verður e.t.v. 5 EUR/t CO2, en það ríkir þó enn mikil óvissa um þetta verð.  Hitt eru menn sammála um, að það verður hærra á tímabilinu 2021-2030, e.t.v. 30 EUR/t. 

Líkleg kaupskylda á kvóta árið 2021 fyrir tímabilið 2013-2020 er þannig:

K=7 Mt x 5 EUR/t = MEUR 35  = miaISK 4,4.

Nú er áhugavert að finna út, hversu miklu framræstu landi er hægt að bleyta í (með því að moka ofan í skurði) og síðan að planta hríslum í sama landið fyrir þessa upphæð (og verður þá engin mýri til aftur), og síðan hver einingarkostnaðurinn er á koltvíildinu í þessum tvenns konar mótvægisaðgerðum, þ.e. samdrætti losunar og með bindingu. Svarið verður ákvarðandi um hagkvæmni þess fyrir ríkissjóð og einkafyrirtæki að fjárfesta fremur innanlands en erlendis í koltvíildiskvótum.

Samkvæmt Umhverfisráðgjög Íslands, 2.11.2017, eru afköst og einingarkostnaður við þrenns konar ræktunarlegar mótvægisaðgerðir eftirfarandi:

  • Landgræðsla:  2,1 t/ha/ár og 167 kkr/ha
  • Skógrækt:     6,2 t/ha/ár og 355 kkr/ha
  • Bleyting:    19,5 t/ha/ár og  25 kkr/ha

Þá er hægt að reikna út, hversu mörgum hekturum þurrkaðs lands, A, er hægt að bleyta í og planta í  hríslum fyrir miaISK 4,4:

A x (355+25) = 4,4;  A = 11,6 kha = 116 km2

Skógræktin bindur CO2: mBI=6,2 x 11,6k=72  kt/ár.

Bleyting minnkar losun:mBL=19,5x 11,6k=226 kt/ár.

Alls nema þessar mótvægisaðgerðir: 298 kt/ár.

Eftir 25 ár hefur þessi bleyting minnkað losun um 5650 kt CO2 og skógrækt bundið (í 20 ár) um 1440 kt CO2.

Alls hefur þá miaISK 4,4 fjárfesting skapað 7090 kt kvóta á einingarkostnaði 621 ISK/t = 5,0 EUR/t.  

Sé reiknað með, að skógurinn standi sjálfur undir rekstrarkostnaði með grisjunarviði, þá virðast mótvægisaðgerðir innanlands nú þegar vera samkeppnishæfar á viðskiptalegum forsendum, svo að ekki sé nú minnzt á þjóðhagslegu hagkvæmnina, þar sem um verðmætasköpun innanlands, ný störf og aukningu landsframleiðslu er að ræða.  Það er engum vafa undirorpið, að stjórnvöld og fyrirtæki á borð við millilandaflugfélögin, skipafélögin og stóriðjufyrirtækin eiga að semja við bændur og Skógrækt ríkisins um þessa leið.  

Er nóg landrými ?  

Framræst land er um 4200 km2 að flatarmáli og óræktað land er 85 % af því, þ.e. 3570 km2.  Sé helmingur af því tiltækur til þessara nota, þarf téð miaISK 4,4 fjárfesting þá aðeins 6,5 % af tiltæku, óræktuðu og framræstu landi, og það verður vafalaust til reiðu, ef samningar takast.  

 

 

 


Rafbílavæðing og heildarlosun CO2

Rafgeymarnir eru Akkilesarhæll rafbílavæðingarinnar, enn sem komið er.  Nú er að koma fram á sjónarsviðið tækni til að hlaða þá þráðlaust, jafnvel á ferð, og er notuð til þess hefðbundin 20. aldar rafsegulsviðstækni, reist á kenningum Michaels Faradays frá 1831 og eðlisfræðilíkingum Mawells, og verður gerð grein fyrir þessari tækniþróun í þessari vefgrein, en fyrst verður umhverfislegur ávinningur rafbílavæðingarinnar á Íslandi settur í samhengi við aðra losun.

Özur Lárusson ávarpar hinn dæmigerða frambjóðanda til Alþingis í Morgunblaðsgrein, 26. október 2017,

"Kynntu þér gögnin, ágæti frambjóðandi".

Hann deilir þar réttilega á marga stjórnmálamenn, sem eru með loftslagsmál á vörunum í tíma og ótíma, og leggja þá höfuðáherzlu á rafbílavæðinguna, án þess að athuga, hvað landumferðin vegur hlutfallslega lítið í heildarlosuninni og án þess að gera um leið grein fyrir trúverðugri og skynsamlegri áætlun um að koma þeim innviðum á laggirnar, sem eru forsenda rafbíla í tugþúsunda tali hérlendis.

Özur bendir á í téðri grein, að eldsneytisnýtni farartækja hafi batnað um 35 % undanfarin 10 ár eða um 3,5 %/ár að jafnaði, sem er gríðarlega góður árangur hjá hönnuðum bílvéla, grindar, yfirbyggingar og innmats.  Hér leggst á eitt beztun bílvéla með hermun í tölvum, þróun efnistækni og val á eðlisléttari efnum en áður, og lágmörkun loftmótstöðu.  

Árið 2016 notuðu landfartæki 274 kt af jarðefnaeldsneyti.  Bætt nýtni um 35 % jafngildir tæplega 150 kt/ár elsdsneytissparnaði árið 2016 m.v. eldsneytisnýtnina árið 2006 og minni losun gróðurhúsalofttegunda um rúmlega 470 kt/ár, sem er 4,0 % af heildarlosun Íslendinga vegna orkunotkunar árið 2016. Landfartæki losuðu þá 864 kt af CO2 eða 7,4 % af heildarlosun Íslendinga vegna orkunotkunar, sem nam 11,7 Mt. 

"Þá komum við að umræðunni um heildarlosun, en þar er rétt að benda þér á umræður, sem voru á Alþingi á haustmánuðum 2015.  Í svari við fyrirspurn, er þáverandi umhverfisráðherra fékk, kemur fram, að aðeins 4 % af heildargróðurhúsalofttegundum komi frá fólksbílum hér á landi, 96 % af þeim eru af öðrum völdum !"

Skoðum þessar staðhæfingar nánar:

Landfartæki eru talin nota 93 % eldsneytis samgöngutækja innanlands, og ætla má, að fólksbílar noti 65 % af því.  Eldsneytisnotkun þeirra er þá:

MF=0,93x0,65x295 kt/ár=178 kt árið 2016, sem veldur koltvíildislosun 561 kt/ár.  Sem hlutfall af heildarlosun vegna orkunotkunar er þetta: 0,561/11,67=4,8 %.  Viðkomandi ráðherra hefur á sinni tíð vafalítið bætt við losun frá landbúnaði og úr uppþurrkuðum mýrum.  Frá landbúnaði má ætla, að komið hafi 0,7 Mt af CO2eq.  Losun frá framræstu landi var þá (2015) talin nema 11,61 Mt/ár CO2eq, en er núna talin vera 29,5 % minni samkvæmt Umhverfisráðgjöf Íslands í Bændablaðinu, 2. nóvember 2017.  Þar er getið um einingarlosun úr þurrkuðum mýrum 19,5 t/ha koltvíildisjafngilda á ári, en hún var áður talin vera 27,64 t/ha per ár CO2eq.  Þetta þýðir, að þurrkaðar mýrar senda nú frá sér:

MÞM=19,5x420´000=8,2 Mt/ár CO2eq.  

Þá verður hlutfall fólksbíla í heildarlosun:

0,561/20,6=2,7 %.

Skekkja ráðherrans er sennilega fólgin í vanmati á gríðarlegum gróðurhúsaáhrifum millilandaflugsins.  Íslenzk millilandaflugfélög notuðu árið 2016 32 PJ (Petajoule) af orku, sem samsvarar 66 % af raforkuvinnslu allra vatnsaflsvirkjana landsins, og viðurkennt er, að gróðurhúsaáhrif við losun gastegunda og fastra agna úr þotuhreyflum í háloftunum eru tæplega þreföld á við sams konar losun á jörðu niðri.  Þannig námu þessi jafngildisáhrif 7,11 Mt CO2 (M=milljón) árið 2016 eða 59 % af allri losun Íslendinga vegna orkunotkunar eða 34 % af heild að losun framræsts lands meðtalinni.  Með því að bæta henni við losun vegna orkunotkunar, 11,67 Mt, fæst heildarlosun af mannavöldum á Íslandi 2016:

MH=20,6 Mt CO2, og losun vegna orkunotkunar er 57 % af heild.

Özur notar of lág losunargildi fyrir millilandaflug og úreltu töluna fyrir losun framræsts lands, og þess vegna eru hlutfallstölur hans ekki alveg réttar, en ábending hans er rétt: það er gríðarlegu púðri eytt í að minnka mjög litla tölu, 2,7 %. Síðan ávarpar hann frambjóðandann aftur:

"Þá komum við að því, sem þú, ágæti frambjóðandi, telur oftar en ekki [vera] lausnina, sem við eigum að drífa í, og það helzt á morgun.  Rafbílavæða þjóðina !  Það markmið er mjög gott og myndi henta okkur sérstaklega vel, svo að, ef það er framkvæmanlegt á þeim hraða, sem þú leggur til, væri það hreint út sagt frábært.  Það er bara ekki svo, því miður."

Blekbóndi er þó ósammála Özuri í því, að "frábært" væri að "rafbílavæða þjóðina" á þeim hraða, sem sumir stjórnmálamenn hafa tjáð sig um, ef það væri hægt, sem spannar líklega tímabilið 2030-2040 fyrir verklok.  Ástæðan fyrir því, að þessi mikli hraði er óheppilegur, er sú, að mótuð tækni er enn ekki komin fram á sjónarsviðið, heldur er gríðarlega hröð þróun á þessu sviði þessi árin í vetnisrafölum og rafgeymum, svo og í endurhleðslu rafgeymanna.

Í "The Economist", 28. október 2017, er gerð grein fyrir þróun þráðlausrar endurhleðslu rafgeymanna í greininni, "Proof by induction",  sem reyndar er stærðfræðilegt hugtak og heitir "þrepasönnun" á íslenzku, svo að þetta er orðaleikur hjá Englendingunum.

Þessi þráðlausa hleðslutækni er reist á rafsegulsviði frá segulspólu með járnkjarna í miðju, einni eða fleiri í palli, sem komið er fyrir við yfirborð jarðar og spanar upp straum í spólum, sem komið er fyrir í undirvagni rafbíla, sem lagt er yfir pallinum. Þennan straum þarf að afriða áður en hann er sendur til rafgeymasetts bílsins.  Töpin í þessu hleðsluferli eru sögð vera 11 %, sem er svipað og búast má við frá hústöflu gegnum hleðslutæki og hleðslustreng og að rafgeymasetti bíls.  Þessum töpum er yfirleitt alltaf sleppt, þegar fjallað er um orkunýtni rafbíla, sem augljóslega gefur villandi niðurstöðu.  Þessi þróun er frumkvöðlastarfsemi, aðallega í Bandaríkjunum, og kostar pallur og móttökubúnaður kominn í bíl og tengdur kUSD 2,5-4,0.

Frumkvöðlafyrirtæki í New York vill fá að koma mörgum hleðslupöllum fyrir í borginni og leigja aðgang að þeim.  Bílstjórar geta þá pantað tíma gegnum snjallsímann sinn til pallafnota.  

Bílaframleiðendur eru nú að taka við sér með þetta.  Athygli vekur, að Toyota hefur tryggt sér afnotarétt af einkaleyfi WiTricity, fyrirtækis í Massachusetts, á spanmóttökubúnaði í bíla, þótt Toyota veðji á vetnisknúna rafala í rafbílum, en önnur fyrirtæki eru að þróa eigin búnað, t.d. Audi, BMW, Daimler, Ford, Jaguar og Volvo.

Fyrirtækið Wave í Utah áformar að setja upp aflmikinn pall við höfnina í Los Angeles, sem risagámalyftari á að nota þar.  

Af öðrum líklegum notendum má nefna leigubíla og strætisvagna.  Þar sem leigubílar bíða í röð og færa sig smám saman framar, er upplagt að koma fyrir spanpalli, og þurfa leigubílstjórar þá ekki að fara út úr bíl til að hlaða, en nota samt biðtímann til þess.

Sama má segja um strætisvagnana.  Þeir geta notað biðtímann til að hlaða, og geta þeir þá ekið í 16 klst og fullhlaðið síðan í 8 klst.  Þetta er þegar tíðkað í Milton Keynes, borg norðvestur af London.  Þar er spanpallur við sitt hvora endastöð Leiðar 7, þar sem hvor spannpallur hýsir 4 spólur, og er heildarafl palls 120 kW.  Hvor spanpallur kostar kUSD 130.  Hjá rekstraraðilanum, eFIS, hefur samt verið reiknað út, að kostnaður við hvern slíkan strætisvagn er 0,5 USD/km (54 ISK/km) lægri en fyrir dísilknúinn vagn vegna lægri orku- og viðhaldskostnaðar.  Átta vagnar á Leið 7 aka alls 700´000 km/ár, svo að sparnaður á Leið 7 er 350 kUSD/ár.  Þetta þýðir, að spanpallar og móttökubúnaður í vögnum borga sig upp á rúmlega 2 árum.  Á Íslandi ætti þessi fjárfesting að verða enn arðsamari vegna lægra raforkuverðs en í Milton Keynes. 

Hvers vegna heyrist ekkert frá almenningsfyrirtækinu "Strætó" hér og borgaryfirvöldum annað en skrautlegar draumsýnir um "Borgarlínu", sem er svo dýr og óhagkvæm, að sliga mundi fjárhag sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins um ókomin ár ?  Er ekki kominn tími til að velta um borðum forræðishyggju og flautaþyrla, og hefja þess í stað samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu, sem kosta miklu minna og gagnast öllum þorra fólks ?

 

Miklabraut 

 

 

 

 

 

 

 

 


Stöðnun jafngildir hnignun

Innviðauppbygging í landinu hefur verið í umræðunni, einnig í nýafstaðinni kosningabaráttu, en ekki verið varpað nægilega skýru ljósi á það, hvers vegna hún er nauðsynleg.  Bent hefur verið á bágborið ástand samgöngumála, t.d. þjóðveganna og einnig "þjóðvega raforkunnar", flutningskerfis raforku á milli landshluta, en það eru miklu dýpri og afdrifaríkari skýringar á nauðsyninni en þægindatilfinning notendanna.

Sannleikurinn er sá, að margir umræddra innviða eru nauðsynlegir fyrir útflutningsatvinnuvegi landsins, og þeir standa undir verðmætasköpuninni.  Áframhaldandi velmegun landsmanna hvílir á aukinni útflutningsstarfsemi.  Af núverandi vaxtarbroddum þar má nefna laxeldi og ferðaþjónustu, og innviðir, sem þessi starfsemi þarf á að halda, að sé í góðu lagi, eru vegir, flugvellir, hafnir, raforkukerfi, vatnsveitur, hitaveitur, fráveitur og sorpeyðing.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, rak "endahnútinn" á Viðskiptablaðið 2. nóvember 2017, og var sá endahnútur vandaður og áhugaverður, eins og allt, sem frá henni kemur:

"Á síðasta ári var hér einn mesti vöxtur kaupmáttar í heiminum, fjórtánfaldur á við kaupmáttarvöxt ESB-ríkja.  Íslenzkar hagtölur tala sínu máli.  Árangurinn er ótrúlegur í ljósi þess, að fyrir aðeins nokkrum árum blasti hér við alvarlegur skuldavandi eftir framúrkeyrslu síðustu uppsveiflu.

Útflutningsgreinar standa nú undir verðmætasköpun hagkerfisins, og hvílir áframhaldandi velgengni okkar á því, að vöxtur þeirra sé tryggður.  Eigi íslenzka hagkerfið að vaxa áfram á sama hraða og að meðaltali síðustu áratugi, og útflutningsgreinar að halda sínu vægi, þá þurfa útflutningsverðmæti að vaxa um 1´000 mia [ISK] á næstu 20 árum, um 50 mia [ISK)/ár eða 1 mia [ISK]/vika.  Hin Norðurlöndin þekkja þetta samband, og er óumdeilt, að efnahagsleg velsæld byggir á vexti útflutningsgreina.  Þar er það staða útflutningsgreina, sem ákvarðar svigrúm til launahækkana.  Á Íslandi er það hið opinbera." 

Undirstrikun er frá BJo.  

Samtök iðnaðarins, SI, birtu 5. október 2017 skýrslu sína "um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi".  Þar kemur fram, að heildarfjárfestingarþörf innviða sé nú um mia ISK 370, um 11 % af endurstofnvirði þeirra og 15 % af VLF.  Þetta er ekkert til að fallast hendur út af, enda getur ríkissjóður fjármagnað þetta með því að selja hluti í Keflavíkurflugvelli, Flugstöð Leifs Eiríkssonar og í bönkunum.  Vilji er allt, sem þarf.

Fjárfestingarþörf í ofangreindum innviðum fyrir útflutningsatvinnugreinarnar, sem njóta ættu forgangs við uppröðun í tíma, er sem hér segir í miaISK og % af heildarinnviðaþörf samkvæmt SI:

  • Þjóð- og sveitarfélagavegir  120; 32 %  Ath. 1
  • Orkuflutningur og -dreifing  70;  19 %  Ath. 2
  • Vatnsveitur                  15;   4 %  Ath. 3
  • Sorpeyðing                   13;   4 %  Ath. 4
  • Hafnir                        6;   2 %  Ath. 5
  • Flugvellir                    3;   1 %  Ath. 6
  • Hitaveitur                    2;   1 %  Ath. 7

Ath. 1: Greiðar samgöngur á landi eru undirstaða öflugs athafnalífs um landið allt og eðlilegrar byggðaþróunar í landinu.  Vegirnir þurfa að vera nægilega breiðir og burðarmiklir fyrir þá stærð ökutækja, sem hagkvæmur flutningarekstur krefst samkvæmt Evrópustaðli að teknu tilliti til væntanlegs ökutækjafjölda að aldarfjórðungi liðnum.  Aðgreina þarf umferðarstefnur, þar sem meðalumferð fer yfir 8 þús. ökutæki á sólarhring og afnema allar einbreiðar brýr á þjóðvegum.  Aðgreiningin kallar á a.m.k. 2+1 veg.

Fjármögnun með sölu eigna ríkisins, auknum fjárveitingum úr ríkissjóði til Vegagerðarinnar og einkaframkvæmd, t.d. á Sundabraut og annars staðar, þar sem ökumenn eiga val um aðra leið.

Ath. 2: Brýnast er að afnema raforkuskort, tímabundinn og stöðugan og að auka afhendingaröryggið, svo að óskipulagt straumleysi sé hvergi lengur en 6 mínútur á ári.  Helztu verkþættir eru uppfærsla Byggðalínu úr 132 kV í 220 kV, samtenging Norður- og Suðurlands með jafnstraumsjarðstreng um Sprengisand, hringtenging Vestfjarða og tenging nýrrar 55 MW virkjunar þar við þessa hringtengingu, jarðsetning allra loftlína á 66 kV spennu og lægri og þrífösun sveitanna um leið.

Fjármögnun með sölu eigna ríkisins og með fjárfestingafé Landsnets, RARIK, OV o.fl. án gjaldskrárhækkunar. Nefnd er of lág fjárfestingarupphæð, og virðist fjárfestingarþörf fyrir orkuskiptin hafa verið vanmetin.  Þannig nemur fjárfestingarþörf í Byggðalínu og öflugri samtengingu landshluta miaISK 64, sé miðað við áætlaða þörf Landsnets fyrir 555 km af loftlínum og jarðstrengjum. Þá er eftir að koma raforkukerfi Vestfjarða í skaplegt horf og setja dreifikerfi í jörðu samhliða þrífösun sveitanna.  Nær lagi gætu verið miaISK 250 í þennan þátt að meðtalinni rafvæðingu hafnanna fyrir orkuskipti fiskveiðiflotans.   

Ath. 3: Vatnslindir Íslands eru gríðarleg auðlind nú á tímum, þegar alvarlegs vatnsskorts er tekið að gæta í heiminum, jafnvel í Evrópu, s.s. á Ítalíu.  Vatnsvernd er ein mikilvægasta umhverfisverndin og er grundvallaratriði fyrir heilsu þjóðarinnar.  Þótt nóg sé af vatninu hér, ber okkur að fara vel með það, og vatnsveitur eru teknar að nýta nýja mælitækni til að staðsetja vatnsleka úr lögnum. Slíkar viðgerðir eru kostnaðarsamar, en ber að leggja í til að koma í veg fyrir sóun. Að hafa einvörðungu yfirborðsvatn er neyðarbrauð fyrir vatnsveitur, og allt þéttbýli ætti að hafa aðgang að vatni síuðu í gegnum jarðveginn.  Ný tækni auðveldar leit að vatnslindum.

Fjármögnun úr sveitarsjóðum og sjóðum ríkisins til sérverkefna.

Ath. 4: Urðun sorps ætti að heyra sögunni til, og flytja ætti allt sorp í sorpeyðingarstöðvar, þar sem það er flokkað og því breytt í orku í fjarvarmaveitum eða í rafmagn og moltu.  

Fjármögnun úr sveitarsjóðum og sjóðum ríkisins til sérverkefna. 

Ath. 5: Í upphæðinni, miaISK 6, sem nefnd er í skýrslu SI til hafnarbóta, er rafvæðing hafnanna fyrir orkuskiptin ekki nefnd, en hún mun krefjast enn hærri upphæðar.  Þar er um að ræða háspennta orkudreifingu um hafnirnar og samtímis landtengingu fyrir öll skip, sem legið geta samtímis í viðkomandi höfn.

Fjármögnun rafvæðingarinnar úr Orkusjóði, sem njóta ætti auðlindagjalds af orkufyrirtækjunum og hafnarbætur úr hafnarsjóðum, sem ætti að eyrnamerkja hluta af veiðigjöldunum.

Ath.6:  Til að létta á vegaumferð þarf að efla flugsamgöngur innanlands.  Nýlega var Húsavíkurflugvöllur enduropnaður, og má þakka það auknum umsvifum á Húsavík í tengslum við ferðaþjónustu og kísilver PCC, sem ræsa á í desember 2017 og mun vafalaust reynast kjölfestufyrirtæki fyrir byggðina við Skjálfanda, enda kunna menn þar til verka.  Innanlandsflugið getur hjálpað til við að dreifa álagi ferðamanna um landið.  Miðstöð innanlandsflugsins er og verður að vera á Reykjavíkurflugvelli.  Hún verður aldrei í Hvassahrauni.  

Fjármögnun til eflingar innanlandsflugi með fjárfestingum í núverandi flugvöllum og búnaði á þeim er sjálfsögð úr ríkissjóði.  

Ath.7:  Á nokkrum stöðum er tekið að draga niður í hitaveituholum og bora þarf nýjar.  Bætta tækni við leit að heitu vatni þarf að nýta á nýjum svæðum, sem talin hafa verið "köld" hingað til, því að hitaveita er hagstæðari til hitunar húsnæðis en rafmagn, ef hitastig vatns úr jörðu er a.m.k. 70°C, og jafnvel lægra, ef það er í miklu magni.  Hitaveitufyrirtæki ættu að leggja meiri áherzlu á jafnræði viðskiptavina með því að selja þeim orku í stað massa af vatni, því að nú sitja ekki allir við sama borð í þessum efnum hjá sömu hitaveitu.  Þetta er eðlilegt, því að lagnir til notenda er mjög mislangar og jafnvel misvel einangraðar.

Fjármögnun úr sjóðum hitaveitufyrirtækjanna sjálfra og eigenda þeirra og úr Orkusjóði.

Katrín Jakobsdóttir vinnur nú að því að mynda ríkisstjórn með framsóknarmönnum, Samfylkingu og pírötum.  Þetta er furðusamsetning að mörgu leyti og alls ekki samstæðasta samsetning, sem hægt er að hugsa sér.  Hvernig geta t.d. framsóknarmenn, sem lofuðu því fyrir kosningar að hækka enga skatta, ljáð máls á ríkisstjórnarsamstarfi með flokkum, sem eru yfirlýstir skattahækkunarflokkar ?

Téð Katrín hefur nefnt, að "stóru málin" fyrir þennan "Hrunadans" verði loftslagsmál og innviðauppbygging.  Þá verða nú mörg kosningamálanna útundan, og það eru eiginlega svik við kjósendur að bjóða þeim upp á þetta, því að það er rangtúlkun á kosningaúrslitum, að kjósendur hafi aðallega verið að biðja um vinstri stjórn.

Einn af mörgum göllum vinstri manna er, að þeir geta aðeins hugsað sér að fjárfesta í innviðum með því að þenja út ríkissjóð, annaðhvort með aukinni skattheimtu eða lántökum ríkissjóðs.  Þeir hafa aldrei viljað minnka eignasafn ríkisins, jafnvel þótt þar lægi mikið fé aðgerðalítið, þ.e. með sáralítilli ávöxtun.  Þetta mun girða fyrir verulegt uppbyggingarátak innviða að hálfu vinstri stjórnar, nema með slæmum þensluvaldandi afleiðingum.  Það er brennt fyrir það, að vinstri menn geti fundið beztu lausnirnar fyrir hag almennings.  

    

 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband