Norðurslóðir, öryggis- og þróunarmál

Það er mikið blaður í undirköflum stjórnarsáttmálans í kaflanum "Alþjóðamál", sem bera heitið "Norðurslóðir og loftslagsmál" og "Öryggis- og þróunarmál".

Í fyrri undirkaflanum er t.d. þessi málsgrein: "Viðkvæmt vistkerfi norðurslóða á að fá að njóta vafans".

Hvað skyldi þetta nú merkja ?  Er stefna ríkisstjórnarinnar sú, að öll vinnsla náttúruauðæfa verði bönnuð þar, þ.m.t. olíu- og gasvinnsla ?  Ætlar ríkisstjórnin þá að draga til baka rannsóknar- og vinnsluleyfi á Drekasvæðinu, sem íslenzk stjórnvöld hafa þegar gefið út ?  Það mun reyndar vera búið að skila til baka mestum hluta leyfanna, og jafnvel Kínverjar meta framtíðina á þessu sviði þannig, að ekki muni borga sig að bora þarna eftir olíu, þótt hún fyndist. Markaðsöflin hafa tekið ómakið af ríkisstjórninni, og þetta síðasta grobbefni "olíumálaráðherrans" fyrrverandi, Össurar Skarphéðinssonar, er nú fyrir borð borið.  

Ríkisstjórnin verður þó að taka efnislega afstöðu.  Umhverfisráðherrann er á móti olíuvinnslu þarna m.a. á þeim hæpnu forsendum, að bann við að dæla upp olíu undan hafsbotni Drekasvæðis minnki framboð á olíu.  Það eru engin rök.  Olíueftirspurnin í heiminum hefur nú þegar náð toppi.  Bandaríkjamenn toppuðu 2005, og orkuskiptin eru nú þegar farin að hafa áhrif á eftirspurnina, svo að verðinu er spáð viðvarandi undir núverandi skammtímatoppi 70 USD/tunnu. Það eru e.t.v. um 10 milljarðar tonna undir botni Drekasvæðis, og slíkt magn má finna annars staðar og dæla því upp með minni tilkostnaði en þarna norður frá.  Í Arabalöndunum er kostnaðurinn aðeins 10 USD/tunnu, en efnahagur þeirra er háður olíuvinnslunni, svo að þau verða að fá á bilinu 40-70 USD fyrir olíutunnuna til að forðast hrun efnahagslífsins.  Þeirra bíður flestra ömurlegt hlutskipti eftir orkuskiptin í heiminum.  

Það eru miklu veigameiri rök gegn olíuvinnslu þarna, að áhætta er tekin með lífríki hafsins.  Mengunarslys gæti jafnvel haft áhrif á lífríkið í íslenzku lögsögunni og hugsanlega skaðað orðspor Íslendinga sem matvælaframleiðenda.  Það eru engin efni hér til að meta þessa áhættu.  Til þess þarf vandaða, tæknilega áhættugreiningu til að komast að líkindunum á mengunarslysi m.v. umfang og reikna þannig hámarkstjón út.  Að slíku loknu er hægt að taka upplýsta ákvörðun, en stjórnvöldum leyfist hvorki að láta skeika að sköpuðu né að koma með sverar yfirlýsingar á valdi tilfinninganna.  Gleymum ekki, að frændur okkar, Norðmenn, hafa lagt fyrir í digran olíusjóð, og við gætum þurft á digrum sjóði að halda vegna loftslagsbreytinga eða náttúruhamfara í framtíðinni.

Það er ekki um neinar smáfjárhæðir til handa íslenzka ríkinu að ræða, ef bjartsýnar spár fyrir hönd fyrrverandi leyfishafa hefðu rætzt, heldur gæti fjárstraumurinn úr olíulindum Drekasvæðis í ríkissjóð numið 40 faldri landsframleiðslu Íslands.  Þess vegna getur enginn ýtt olíuvinnslu út af borðinu í einu vetfangi, heldur verður að bera saman ávinning og áhættu.

Í Noregi er nú talsverð umræða um "Orkusamband Evrópu", sem Evrópusambandið-ESB er að koma á laggirnar og hefur lagt fyrir EFTA-ríkin í EES að innleiða hjá sér.  Í þessu augnamiði hefur verið stofnað til "Orkusamstarfsstofnunar ESB"-"ACER-Agency for the Cooperation of Energy Regulators".  Verið er að stofna útibú frá ACER í hverju landi, sem er óháð stjórndeild innan Orkustofnunar hvers lands, og framkvæmir ákvarðanir, teknar innan ACER, sem hefur endanlegt vald yfir orkuflutningsgeiranum í hverju landi og yfir orkuflutningum á milli ESB-landanna.  Þetta á við rafmagn og gas nú þegar, og mun vafalaust spanna olíu líka. ESB mun ekkert muna um að styrkja sæstrengslögn frá Íslandi til Bretlands/ESB til þess að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku í raforkunotkun sinni.  Hvaða áhrif halda menn, að slíkt muni hafa á raforkuverðið hérlendis og þar með afkomu heimila og fyrirtækja ?

ESB nær með þessu ekki eignarhaldi á orkulindum Noregs og Íslands, hvorki fossum, jarðgufugeymum né gas- og olíulindum, en aftur á móti fær ESB með þessu fullt ráðstöfunarvald yfir allri orku, sem tilbúin er til að fara á markað.  Samkvæmt EES-samninginum verður Ísland að innleiða "Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB" í sitt lagasafn, af því að Sameiginlega EES-nefndin hefur samþykkt, að þessi innleiðing skuli eiga sér stað á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein.  Í því felst þó  skýlaust fullveldisafsal íslenzka ríkisins yfir ráðstöfunarrétti "erfðasilfursins", sem nú er rafmagn úr endurnýjanlegum orkulindum að mestu leyti, en gæti í framtíðinni hugsanlega einnig spannað jarðgas og/eða olíu af norðurslóðum.  

Nú ættu Alþingismenn að rísa upp á afturfæturnar og segja: "hingað og ekki lengra". Við munum hvorki samþykkja þingsályktunartillögu eða lagafrumvarp þessa efnis. Komi þá það, sem koma skal.  Þetta mun kalla á kvörtunarbréf frá ESA og kæru á landið til EFTA-dómstólsins.  "So what ?"  Það eru nýir tímar í Evrópu núna með útgöngu Breta úr ESB.  Þeir munu gera fríverzlunarsamning við ESB, og við ættum að geta fengið svipaðan samning bæði við ESB og Breta.  Þá munum við ekki lengur þurfa að taka hér upp um 460 gjörðir á ári frá ESB, sem við höfum engin áhrif haft á á undirbúnings- og ákvarðanastigum máls, og íslenzka ríkið mun þá ekki lengur þurfa að greiða fúlgur fjár til ESB/EES, svo að ekki sé nú minnzt á frjálst flæði fólks. Uppsögn EES-samningsins mun reynast þjóðhagslega hagstæðari kostur en að viðhalda honum.  Hvaða þingmenn munu þekkja sinn vitjunartíma ?


EES-samningurinn verður sífellt stórtækari

Þann 23. janúar 2018 voru mótmæli fyrir framan Stórþingsbygginguna í Ósló vegna fyrirætlunar norsku ríkisstjórnarinnar um að fá Stórþingið til að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB inn í EES-samninginn með einföldum meirihluta atkvæða.  Þessi mótmæli sýna, að það getur hitnað í kolunum í Noregi, og þá einnig á Íslandi, ef mörgum finnst, að verið sé að afhenda ESB "erfðasilfrið".  

Norska stjórnarskráin áskilur, að 75 % atkvæða í Stórþinginu þurfi til að samþykkja fullveldisframsal norska ríkisins til yfirþjóðlegrar stofnunar, sé ekki um hefðbundinn þjóðréttarlegan samning að ræða. Ríkisstjórnin skákar í því skjólinu, að fyrirmælin um að framkvæma ákvarðanir ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators-orkustjórnvaldsstofnun ESB) komi frá ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, en ESA verður aðeins ljósritandi milliliður í blekkingarskyni fyrir EFTA-ríkin, sem þannig þurfa ekki að taka við fyrirmælum beint frá ESB, er varða bæði hagsmuni ríkisins, lögaðila og einstaklinga í Noregi, á Íslandi og í Liechtenstein, sem væri skýlaust stjórnarskrárbrot.  

Það er norska verkalýðshreyfingin, sem hélt þennan útifund við þinghúsið, og það var ekki að ófyrirsynju.  Raforka var gerð að markaðsvöru í Noregi með orkulögum árið 1991.  Þeim svipar til íslenzku orkulaganna frá 2003, sem sett voru eftir upptöku Annars orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn að hálfu Alþingis.  Með þessum lögum er raforkan gerð að markaðsvöru í stað þess að vera "þjóðareign", eins og náttúruauðlindirnar, sem nýtt sé landsmönnum um allt land til hagsbóta, ekki sízt til að tryggja byggð um landið allt.  

Þegar Noregur varð hluti af "Nord Pool"-norræna orkumarkaðinum 1993, sem nú spannar einnig Eystrasaltslöndin, myndaðist uppboðsmarkaður fyrir raforku í Noregi. Hann hefur þó ekki haft mjög mikil áhrif, af því að verið hefur offramboð raforku á "Nord Pool" svæðinu.  Seinna var lagður öflugur sæstrengur til Hollands, og í kjölfarið hafa stór iðnfyrirtæki með langtíma samninga um raforku séð sér hag í að draga úr starfsemi sinni og selja orkukaupaheimildir sínar á markaði með umtalsverðum hagnaði.   

Þetta leiddi til uppsagnar starfsfólks og sums staðar til lokunar verksmiðjanna.  Ef ACER nær tangarhaldi á raforkuflutningsmálum Noregs, mun útibú hennar í Noregi, "Reguleringsmyndighet for energi", skammstafað RME, taka við stjórn hluta Orkustofnunar Noregs, NVE, Statnetts, norska Landsnets og raforkumarkaðarins, og fella "Nord Pool" inn í raforkumarkað ESB, enda eru öll aðildarlönd "Nord Pool" innan EES. Þá mun stálbræðsla við Stuttgart geta keypt "græna" orku frá Noregi á meginlandsverði.  Er ekki að efa, að þá mun verða þröngt fyrir dyrum hjá mörgum kotbóndanum í Noregi, er raforkureikningur hans tvö-þrefaldast.

Samkeppnisskilyrði norskra fyrirtækja munu hríðversna, sem auðvitað kemur illa niður á atvinnuástandinu í Noregi, ekki sízt, þar sem undan fæti hallar hjá olíuiðnaðinum.  Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju, að norsk verkalýðsfélög skyldu boða til mótmælafundar framan við Stórþingsbygginguna í Ósló 23.01.2018.  

 Í meginatriðum mun hið sama eiga við á Íslandi og í Noregi, ef ACER ákveður, að aflsæstreng skuli leggja á milli Íslands og meginlandsins, hugsanlega með viðkomu á Bretlandi.  Lýðræðislega kjörin stjórnvöld á Íslandi verða ekki virt viðlits varðandi slíkt sæstrengsverkefni, ef í ACER verður tekin sú ákvörðun að auka hlutdeild "grænnar" raforku í ESB með útflutningi raforku frá Íslandi til ESB. Það er einmitt hlutverk ACER að auka raforkuflutninga á milli landa vafningalaust og án tafa að hálfu yfirvalda í hverju landi, sem kynnu að hafa aðra skoðun en meirihlutinn í ACER. 

Völd ACER og útibús hennar á Íslandi verða næg til að skipa Landsneti fyrir verkum um að tengja sæstrenginn og að gera kleift að flytja næga raforku að honum, e.t.v. að afli um 1200 MW, sem er tæplega helmingur aflgetu núverandi virkjana á Íslandi.  

Geta má nærri, að þrýstingur virkjanafyrirtækja um rannsóknar-, byggingar- og starfsleyfi fyrir nýjar virkjanir mun vaxa mjög eftir innleiðingu þessa fyrirkomulags í von um skjótfenginn gróða, sem þó er ekki víst, að vari lengi.  Orkulindirnar hafa að vísu ekki verið teknar eignarnámi eða keyptar með þessu fyrirkomulagi ESB, en ráðstöfunarréttur þeirra hefur verið fluttur úr landi til ACER í Ljubljana, ef Alþingi samþykkir Þriðja orkumarkaðslagabálkinn inn í EES-samninginn.  Hugnast meirihluta Alþingismanna þessi framtíðarsýn ?  Er ekki ráð að staldra við og sjá, hvernig málin þróast í Noregi ?

 

 

 


"Nýsköpun og rannsóknir" í Stjórnarsáttmála

Það er mikill fagurgali í Stjórnarsáttmálanum um "nýsköpun og rannsóknir".  Þar stendur t.d.: "Lögð verður áherzla á að hvetja til nýsköpunar á sviði opinberrar þjónustu og stjórnsýslu, velferðarþjónustu og verkefna í þágu loftslagsmarkmiða".

Það hefur nú ríkt bann að hálfu ráðuneyta í bráðum 1,5 ár við nýjum samningum Sjúkratrygginga Íslands við sérfræðilækna, sem hefur leitt til þess, að íslenzkir sérfræðingar á sviði læknavísinda hafa ekki fengið starfsaðstöðu við hæfi hérlendis, enda lítið sem ekkert á lausu á Landsspítalanum.  

Samt er staða heilbrigðismála hérlendis sú í hnotskurn, að Landsspítalinn verður ekki í stakk búinn til að annast "sjúklingaflóðið" fyrr en nýr "meðferðarkjarni" Landsspítalans hefur verið tekinn í gagnið að 5 árum liðnum. Um þessar mundir er hann yfirfullur, þ.e. sjúklingar, jafnvel á bráðadeild sjúkrahússins, híma í rúmum sínum á göngunum, jafnvel dögum saman.  Það er reyndar alveg undir hælinn lagt, hvort Landsspítalinn mun anna "aðflæðinu" eftir opnun nýja meðferðarkjarnans, því að heilsufari þjóðarinnar fer hrakandi, m.a. vegna hraðfara öldrunar (mikillar fjölgunar eldri borgara).

Hvers vegna í ósköpunum leggjast þá yfirvöld heilbrigðismála í landinu algerlega þversum gegn því að fitjað sé upp á nýjungum í einkageiranum til að létta farginu af Landsspítalanum í þeirri von, að lífsgæði sjúklinga á biðlistum batni fyrr ?  Samt má túlka fagurgalann í stjórnarsáttmálanum á þann veg, að höfundum hans gæti hugnazt vel, að fitjað væri upp á nýbreytni í þjónustunni við sjúklinga, þótt gaddfreðnir hugmyndafræðingar láti sjúklinga fremur húka á göngum opinberrar stofnunar en hljóta viðunandi þjónustu á einkarekinni læknastofu eða umönnunarfyrirtæki.  

Í Morgunblaðinu, 9. janúar 2018, birti Ingveldur Geirsdóttir athyglisverðar upplýsingar í frétt sinni:

"Fleiri leita sér lækninga erlendis".

Fréttin hófst þannig:

"Rúmlega 300 Íslendingar leituðu sér læknismeðferðar erlendis árið 2017 og fengu kostnaðinn niðurgreiddan af Sjúkratryggingum Íslands (SÍ)."

Forysta heilbrigðismála á Íslandi lætur hugmyndafræði sína um það, hverjir mega framkvæma aðgerðir á sjúklingum, ráða för, þótt slíkur fíflagangur komi hart niður á skjólstæðingunum og feli í sér sóun á almannafé.  Heilbrigðisstefnan einkennist þar með af ábyrgðarleysi gagnvart skjólstæðingum kerfisins, enda eru innstu koppar í búri á þeim bænum illa haldnir af  fordómum í garð fjölbreytni rekstrarforma.  Þá er náttúrulega ekki von á góðu. Létta verður helsi úreltrar hugmyndafræði af heilbrigðisgeiranum og "hvetja til nýsköpunar á sviði opinberrar þjónustu og stjórnsýslu", eins og segir í Stjórnarsáttmálanum.  Þangað til munu sjúklingar fremur verða fórnarlömb kerfisins en þiggjendur þjónustu, aðstandendur líða önn fyrir ömurlega stöðu nákominna og fréttamenn sýna hneykslanlegar myndir af kerfi, sem ræður ekki við viðfangsefni sín, þótt starfsfólkið leggi sig allt fram og komi kúguppgefið heim af vinnustaðnum.    

Undir lok fréttarinnar sagði:

"Ef mál er samþykkt, þá er greiddur ferðakostnaður, dagpeningar, meðferðarkostnaður og mögulegur fylgdarmannskostnaður.  .... Ljóst er, að þeim fjölgaði mikið, sem leituðu sér læknisþjónustu erlendis, bæði á grundvelli landamæratilskipunarinnar [EES] og biðtímaákvæðisins árið 2017 [biðtími yfir 90 dagar].  Búizt er við áframhaldandi fjölgun á þessu ári, samkvæmt upplýsingum frá SÍ."

Þetta er hneyksli í opinberri stjórnsýslu.  Með því að koma fram af sanngirni við einkageirann undir formerkjum aukinnar fjölbreytni og bættrar þjónustu, og hætta að hreyta í hann fúkyrðum um gróða af bágstöddum, væri hægt að þjónusta hérlendis lungann af hópnum, sem leitar í neyð sinni utan til lækninga á einkastofum, og um leið mætti spara ríkissjóði talsverð útgjöld.  Hvað skyldi Ríkisendurskoðun segja um þessa slæmu meðferð opinbers fjár, eða Umboðsmaður Alþingis um hornrekuhætti heilbrigðisstjórnvalda gagnvart sjúklingum og heilbrigðisstarfsfólki, sem gjarna vilja veita þjónustu sína utan Landsspítala, af því að hann rúmar ekki fleiri ?

Heimsósómi Skáld-Sveins 1614


Loftslagsmál og ríkisstjórnin

Loftslagsmálin fá tiltölulega veglegan sess í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar, og ráðherrum verður tíðrætt um loftslagsmál á hátíðarstundum.  Athyglivert er, að megináherzla ríkisstjórnarinnar í þessum efnum er á hafið.

Þetta er nýstárlegt, en skiljanlegt í ljósi hagsmuna Íslands.  Landið á mjög mikið undir því, að lífríki hafsins umhverfis það taki ekki kollsteypur, heldur fái að þróast á sjálfbæran hátt, eins og verið hefur alla þessa öld.  Þannig segir í sáttmálanum:

"Meginforsenda loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar er að koma í veg fyrir neikvæð áhrif loftslagsbreytinga á lífríki hafsins.  Hvergi í heiminum hefur hitastigshækkun orðið jafnmikil og á norðurslóðum.  Þannig á Ísland að efla rannsóknir á súrnun sjávar í samráði við vísindasamfélagið og sjávarútveginn.  Ísland á enn fremur að ná 40 % samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda m.v. árið 1990 fyrir árið 2030."

 

 

Þetta er nokkuð einkennilega orðuð grein.  Það er algerlega útilokað fyrir ríkisstjórnina að hafa nokkur mælanleg áhrif á áhrif loftslagsbreytinga á lífríki hafsins.  Að stilla þessum "ómöguleika" upp sem meginforsendu loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar gefur til kynna einhvers konar blindingsleik. Loftslagsstefna á ekki að vera barátta við vindmyllur, heldur verður fólk flest að sjá í hendi sér betra líf að afloknum orkuskiptum. Almenningur verður að geta tengt loftslagsstefnu ríkisins við eigin hagsmuni. 

Þar sem skrifað er um rannsóknir á súrnun hafsins er auðvitað átt við rannsóknir, sem auðvelda landsmönnum að aðlagast afleiðingum loftslagsbreytinga.  Betra hefði verið að gera skýran greinarmun á því, sem ríkisstjórnin hyggst gera annars vegar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hins vegar til að fást við afleiðingar þessarar losunar.  Hér er þessu slengt saman í eina bendu, endastöðin kölluð meginforsenda o.s.frv.  Viðvaningur í textasmíði virðist hafa farið hamförum við lyklaborðið og ekkert kunna um markmiðasetningu.

Íslendingar geta engin áhrif haft á súrnun hafsins, en þeir geta hins vegar töluverð áhrif haft á hreinleika þess í kringum landið, og það er brýnt að bæta stöðu skolphreinsunarmála verulega, ná megninu af örplastinu í síur og hreinsa sorann frá útrásarvökvanum í stað þess að láta nægja að dæla öllu saman út fyrir stórstraumsfjöru. Slíkt er ekki umhverfisvernd, heldur bráðabirgða þrifaaðgerð í heilsuverndarskyni.  Þetta er viðurkennt annars staðar í stjórnarsáttmálanum.  

Það þykir léleg markmiðasetning að setja sér markmið um einhverja breytu, sem viðkomandi hefur alls engin áhrif á.  Varðandi útblásturinn eru þrenns konar hvatar til að draga úr losun, sem höfðað geta til almennings:

Í fyrsta lagi batnar nærloft bæjarbúa við það að minnka jarðefnaeldsneytið, sem brennt er.  Árlega deyr a.m.k. einn tugur manna hérlendis ótímabærum dauðdaga vegna lélegra loftgæða af völdum útblásturs eldsneytisknúinna véla og um fimm tugir af völdum ófullnægjandi loftgæða, sem stafa af ýmsum orsökum.  

Í öðru lagi má spara jafngildi u.þ.b. 50 miaISK/ár í gjaldeyri með því að leysa af hólmi vélar í ökutækjum og fiskiskipum, sem knúnar eru jarðefnaeldsneyti.  Eigendur ökutækjanna geta sparað sér um 70 % af orkukostnaði benzínbíla með því að fá sér rafbíl í stað benzínbíls.

Í þriðja lagi eru millilandaflug, millilandasiglingar og orkusækinn iðnaður ekki háð markmiðasetningu íslenzku ríkisstjórnarinnar, heldur koltvíildisskattheimtu ESB, sem getur skipt nokkrum milljörðum ISK á ári, er fram í sækir.  Þessir losunarvaldar standa undir um 80 % heildarlosunar landsmanna, ef losun frá uppþurrkuðu landi er sleppt.  Að draga úr losun sparar fé og verður að vera hagkvæmt til skemmri og lengri tíma, ef markmiðin eiga að nást.    

Það er eftir miklu að slægjast að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda, en þótt losun Íslendinga á hvern íbúa landsins sé á meðal hins mesta, sem gerist í heiminum, einnig án losunar frá þurrkuðu landi, eða um 34 t CO2eq/íb, að teknu tilliti til margfeldisáhrifa losunar í háloftunum, þá er þessi losun sem dropi í hafi heimslosunarinnar eða 300 ppm (hlutar úr milljón) af henni.  Í þessu ljósi verður að vara við að leggja í miklar ótímabærar fjárfestingar í tækni, sem er nú í hraðri þróun, til þess eins að fullnægja hégómlegum metnaði stjórnmálamanna á kostnað almennings. 

Markmiði ríkisstjórnarinnar um 40 % minni losun koltvíildisjafngilda fyrir árið 2030 en árið 1990 verður erfitt að ná, og markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland fyrir árið 2040 er óraunhæft, ef átt er við alla losun, en næst með miklum fjárfestingum, ef eingöngu er átt við innlenda notkun, þ.e. 20 % af heildarlosuninni. Eru Íslendingar tilbúnir til að herða tímabundið sultarólina og fresta brýnni innviðauppbyggingu til að ná markmiði, sem engu máli skiptir í hinu stóra samhengi, hvort næst 5-10 árum seinna ?  Það þarf bráðum að svara því.    

Virðingarvert er, að í lok loftslagskaflans er minnnzt á að ganga til samstarfs við sauðfjárbændur um kolefnisjöfnun greinarinnar.  Til að markmið ríkisstjórnarinnar um loftslagsmál náist, verður hún að virkja bændur til skógræktar og kosta verulegu til við plönturæktun og útplöntun og leggja í því sambandi ríkisjarðir, a.m.k. eyðibýli, undir skógrækt.  

Spurning er, hvort bleyting í þurrkuðu landi fæst viðurkennd sem samdráttur í losun.  Önnur spurning er, hvort bændur eru ginnkeyptir fyrir slíku með land, sem þeir nota nú sem beitarland. Gagnsemin er umdeilanleg. Það er þess vegna óvarlegt að reikna með miklu frá íbleytingunni, en sums staðar gæti átt vel við að moka ofan í skurði og planta nokkru áður í sama land.  Þar mun þá ekki myndast mýri, heldur skógur á þurrlendi.   Losun CO2 á Íslandi 2010  

    

 


Skattar og stjórnarsáttmálinn

Ísland er háskattaland.  Við því er að búast vegna norrænnar (samstöðu) menningar þjóðarinnar, sem þar býr, stærðar landsins og fámennis.  Það er viðtekin hugmyndafræði í landinu um, að æskilegt sé að nýta landið allt og hafið í kring og að til þess þurfi megnið af láglendinu að vera í byggð.  Þessu fylgja dýrir innviðir af öllu tagi, og þeir verða ekki til né þeim við haldið án atbeina hins opinbera.  Þar með er komin uppskrift að mikilli "samneyzlu", en um leið möguleikar á að nýta gæði landsins alls og sjávarins.  Byggð í landinu öllu veitir jafnframt tilkalli þjóðarinnar til landsins alls siðferðilegt réttmæti, sem getur orðið þýðingarmikið nú og á næstu árum, þegar við sjáum holskeflu hælisleitenda skella á ströndum Evrópu, sumpart vegna ófriðar, sumpart vegna stjórnleysis/rotinna þjóðfélaga og sumpart vegna afleiðinga loftslagsbreytinga.  Marga þeirra má sem sagt kalla "umhverfisflóttamenn", því að ein ástæðan fyrir því, að þeir hafa flosnað upp úr heimkynnum sínum, eru skaðlegar breytingar á lífríkinu í kjölfar loftslagsbreytinga. Það verður enginn friður um það í Evrópu að taka við ógrynni framandi fólks úr frumstæðum heimkynnum, jafnvel í miðaldalegum trúarfjötrum.   

Íslenzku þjóðinni, sem verður æ blandaðri (meiri genafjölbreytni ?), hefur fjölgað vel frá aldamótum.  Nemur fjöldi ríkisborgara hérlendis nú um 350 k (=þúsund) og enn fleiri búa hér, vinna hörðum höndum (þótt einstaka séu afætur) og greiða skatta og skyldur til samfélagsins.  Það eru því fleiri til að standa undir samneyzlunni en áður, en á móti kemur, að ríkisreksturinn og annar opinber rekstur hefur þanizt út til góðs og ills.  Ráðstöfunartekjur almennings hefðu því aðeins aukizt jafnmikið og raun ber vitni um, að hagvöxtur hefur verið mikill, um 7,2 % 2016 og 4,5 % 2017.  

Samhliða útþenslu ríkisbáknsins hefur skattbyrðin aukizt gríðarlega.  Heildarskatttekjur ríkisins sem hlutfall af VLF (vergri landsframleiðslu), að teknu tilliti til greiðslna til almannatrygginga, nema nú 33 %.  Aðeins Danmörk og Svíþjóð búa við hærra hlutfall innan OECD eða 46 % og 34 %.  Meðaltal OECD er aðeins 25 %.  Athygli vekur, að Noregur og Bretland, þar sem samneyzla hefur verið talin töluverð, eru aðeins með 27 %.  

Það, sem er uggvekjandi í þessu sambandi, er, að íslenzka þjóðin er enn tiltölulega ung með um 13 % fólksfjöldans yfir 66 ára aldri, en t.d. Þjóðverjar með um tvöfalt fleiri eldri borgara að tiltölu en Íslendingar, ná að halda téðu skatthlutfalli niðri í 23 %.  Það er alveg ljóst, að það verður meiri háttar verkefni á næstu árum og áratugum að viðhalda hér kaupmætti ráðstöfunartekna, en heildarlaunatekjur landsmanna að meðaltali eru nú hvergi hærri í Evrópu en á Íslandi, nema í Alparíkinu Sviss. Jöfnuður tekna og eigna er jafnframt hvergi meiri í Evrópu.

Til að varðveita eftirsóknarverðan efnahagsstöðugleika og félagslegan stöðugleika (með lóðréttum hreyfanleika á milli stétta) er nauðsynlegt að leggja nú höfuðáherzlu á viðhald kaupmáttar í stað hárra prósentuhækkana á laun, sem aðeins grafa undan velferðinni við núverandi aðstæður, að lækka árleg vaxtagjöld ríkisins um a.m.k. miaISK 40 á kjörtímabilinu, og að auka útflutningstekjur landsmanna um u.þ.b. 50 miaISK/ár.  

Tekjur ríkisins af innheimtu tryggingagjalds árið 2017 námu um miaISK 87.  Þessar ríkistekjur eru meiri en af tekjuskattsinnheimtu af fyrirtækjum og meira en helmingur af tekjuskatti einstaklinga.  Þær eru miklu meiri en þörf er á til að standa straum af þeim útgjöldum ríkisins, sem samsettu tryggingargjaldi er ætlað að fjármagna.  Vegna bágborinnar samkeppnisstöðu margra fyrirtækja, einkum hinna minni með tiltölulega há launaútgjöld af heildarútgjöldum sínum, hefði verið eðlilegt útspil við frágang fjárlaganna í desember 2017 að lækka almenna tryggingargjaldið um 0,5 % og bíða síðan með 0,5 % - 1,0 % frekari lækkun uppi í erminni til að geta greitt fyrir gerð kjarasamninga.

Í merkri baksviðsgrein Morgunblaðsins 26. október 2017, "Skattabylgjan bitnar á fyrirtækjum",

birti Baldur Arnarson viðtal við Ásdísi Kristjánsdóttur, forstöðumann Efnahagssdviðs Samtaka atvinnulífsins-SA, þar sem hún kvað mikið verk óunnið við að vinda ofan af skattahækkunum, sem dembt var yfir þjóð í sárum á árunum eftir Hrun.  Skattkerfið hafi þá "verið gert flóknara og óhagkvæmara fyrir fyrirtækin".  Ásdís kveður "einkenna gott skattkerfi, að það sé einfalt, fyrirsjáanlegt, skilvirkt og gagnsætt".  Þrepskipt skattkerfi og flókið samspil skattheimtu og bótakerfis fullnægir ekki þessum skilyrðum Ásdísar.  Greiðslur almannatrygginga ættu að njóta skattfrelsis, enda eru þær lágmarksgreiðslur. 

"Því [að] háar skattaálögur á fyrirtæki og heimili hafa um leið áhrif á samkeppnishæfni þjóðarbúsins.  Þótt stigin hafi verið mikilvæg skref í rétta átt hér á landi, er þörf á frekari umbótum í skattkerfinu.  Um 240 skattabreytingar frá árinu 2007 endurspegla ekki mikinn fyrirsjáanleika í skattkerfinu.  

Stöðugleiki skiptir miklu máli fyrir íslenzk fyrirtæki sem og heimilin í landinu. Þar er lykilatriði, að hægt sé að ganga að því vísu, að ekki sé ráðizt í miklar breytingar milli kjörtímabila."

"Stjórnvöld geta ekki lengur treyst því, að áfram verði verulegur vöxtur á tekjuhliðinni samfara miklum hagvexti.  Með skattstofna í botni og umsvif ríkisins með því mesta, sem þekkist, er eðlilegt að spyrja, hvaða leiðir á að fara, þegar til bakslags kemur í hagkerfinu."

Með skattheimtu í botni, illu heilli líka á sparnað, sbr illa ígrundaða hækkun fjármagnstekjuskatts, og útgjöld hins opinbera jafnframt í methæðum, munu stjórnvöld standa frammi fyrir tveimur valkostum, þegar slær í baksegl hagkerfisins: annaðhvort að gera sársaukafullan uppskurð á opinberum rekstri, sem þýðir að minnka umsvif hans, eða að hækka álögur enn meir á fyrirtæki og einstaklinga, sem þá þegar eru að draga saman seglin.  Slíkt mun auka atvinnuleysið, dýpka efnahagslægðina og getur skapað langvinna kreppu.  Þetta er hættan við núverandi stefnu í ríkisfjármálum, þegar ríkisútgjöld eru aukin mikið á toppi efnahagssveiflunnar án þess að verja auknum skatttekjum til að lækka ríkisskuldirnar enn hraðar.  Þess vegna er ráðdeild í ríkisrekstri lífsnauðsynleg fyrir lífskjör almennings, og þess vegna voru tillögur stjórnarandstöðunnar um enn meiri aukningu ríkisútgjalda án sparnaðar annars staðar við afgreiðslu fjárlagafrumvarps 2018 í senn óskynsamlegar og óábyrgar og hefðu komið sem bjúgverpill í andlit þeirra, sem sízt skyldi, ef þær hefðu hlotið brautargengi.  Ríkissjóður er ekki góðgerðarstofnun.   

 

   


Lýðræði, gegnsæi og Stjórnarskráin

Í stjórnarsáttmálanum er kafli, sem ber heitið "Lýðræði og gagnsæi".  Önnur grein hans byrjar þannig:

"Ríkisstjórnin vill halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar, og nýta m.a. til þess aðferðir almenningssamráðs."

Þessi aðferðarfræði hefur verið þrautreynd og er enn sem áður ólíkleg til árangurs.  Mun vænlegra er, að Alþingi feli valinkunnum stjórnlagafræðingum að endurskoða tiltekna kafla eða tilteknar greinar Stjórnarskrárinnar.  Afrakstur þessarar vinnu færi í umsagnarferli, þar sem þjóðinni allri gæfist kostur á að koma að athugasemdum á vefnum, og síðan mundi Alþingi vinna úr gögnunum og gera tilraun til að smíða nothæfan stjórnlagatexta, sem fer þá í ferli samkvæmt núgildandi Stjórnarskrá.    

Það er vissulega þörf á að bæta íslenzku Stjórnarskrána á nokkrum sviðum, og skyldi engan undra.  Blekbónda þykir einna mest þörf á að reisa skorður við framsali ríkisvalds til yfirþjóðlegra stofnana.  Það hefur síðan árið 1994 tíðkazt í mjög miklum mæli, að Alþingi sé breytt í stimpilstofnun fyrir lagabálka frá ESB með vísun til EES-samningsins, sem samþykktur var á Alþingi 13. janúar 1993.  Frá gildistöku hans til ársloka 2017, eða á 24 árum, hafa um 11´000 tilskipanabálkar og reglugerðir hlotið afgreiðslu íslenzku ráðuneytanna og stór hluti "þeirrar hrúgu" komizt inn í íslenzka lagasafnið, þótt íslenzk sjónarmið eða íslenzkir hagsmunir hafi ekki komizt að við útgáfuna, svo að heitið geti.  Ójafnræði á milli laga-og reglugerðaveitanda og -þiggjanda er himinhrópandi, svo að þetta fyrirkomulag nær í rauninni engri átt. Bretar eru í allt annarri stöðu, verandi "stórt" ríki innan ESB með talsvert vægi við mótun og ákvarðanatöku, en þeir eru samt búnir að fá sig fullsadda af tilskipana- og reglugerðaflóðinu frá Berlaymont og hafa nú ákveðið að losa sig undan því fargi öllu, þótt ekki gangi það þrautalaust.    

Ef samstarfsnefnd ESB og EFTA-ríkjanna þriggja í EES kemst að þeirri niðurstöðu, að taka eigi nýjan lagabálk frá ESB upp í EES-samninginn, og ESB hefur alltaf haft vilja sinn fram í slíkum efnum, að því bezt er vitað, þá fær ríkisstjórn EFTA-lands bálkinn sendan með tímafresti, sem ESA- Eftirlitsnefnd EFTA með framfylgd EES-samningsins, fylgist með, að sé haldinn, og kærir síðan ríkið vegna of langs dráttar fyrir EFTA-dómstólinum.  Sá fylgir alltaf dómafordæmi ESB-dómstólsins (kallaður Evrópudómstóll). Sjálfsákvörðunarréttur landsins er í orði, en ekki á borði.  Langlundargeð Norðmanna með þetta ólýðræðislega fyrirkomulag er mjög þanið um þessar mundir, en hérlendis virðast flestir kæra sig kollótta enn sem komið er.  Þeir kunna þó margir að vakna upp með andfælum, því að "sambandsríkistilhneiging" ESB vex stöðugt.  Er ekki raunhæfur kostur að draga dám af Bretum og hreinlega að segja upp þeirri óværu, sem EES-samningurinn er ?   

Að halda því fram, eins og sumir gera, að núverandi EES-samningur sé ekki fullveldisframsal, heldur sé það "viðtekin skoðun í þjóðarétti að líta svo á, að rétturinn til að taka á sig alþjóðlegar skuldbindingar sé einn af eiginleikum fullveldis, og að undirgangast slíkar skuldbindingar sé ekki afsal á fullveldi" , er lagaleg rangtúlkun eða hártogun á eðli þjóðréttarsamninga, eins og fram kemur við lestur neðangreindra greina úr norsku Stjórnarskránni. Þjóðréttarsamningur er samningur fullvalda ríkja um að fylgja tilteknum, skráðum reglum í samskiptum sínum á jafnræðisgrundvelli. Þetta á ekki við um síbreytilegan EES-samninginn, sem á hverju ári veldur meira framsali ríkisvalds til yfirþjóðlegra stofnana.    

Tilvitnunin er úr grein Bjarna Más Magnússonar, dósents í lögfræði við lagadeild HR, í Morgunblaðinu, 13. janúar 2018, "Enn meira um fullveldi".

Af greininni má ráða, að stjórnsýslulega leggi höfundurinn að jöfnu aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum-SÞ, Atlantshafsbandalaginu-NATO og Evrópska efnahagssvæðinu-EES.  Hvern er höfundurinn að reyna að blekkja með þvílíkum skrifum ?  Aðild Íslands að SÞ og NATO er dæmigerð um þjóðréttarlegar skuldbindingar ríkisins í alþjóðlegu samstarfi, þar sem Ísland er aðili á jafnræðisgrundvelli í því augnamiði að friðvænlegra verði í heiminum og til að tryggja eigið öryggi.  Annað mál er, hvernig til hefur tekizt, en þessar tvær stofnanir hafa enga heimild til né hafa þær reynt að yfirtaka hlutverk ríkisins, nema NATO hefur yfirtekið hervarnarhlutverk ríkisins, sem íslenzka ríkið ekki er fært um með fullnægjandi hætti.   

Allt öðru máli gegnir um aðildina að EES.  Hún er alls ekki á jafnræðisgrundvelli, því að Ísland hefur engan atkvæðisrétt á borð við aðildarríki ESB, og í reynd hefur ESB ráðið því, hvaða gerðir þess eru teknar upp í EES-samninginn.  Þar með eru hér lögleiddar gjörðir án efnislegrar aðkomu Alþingismanna að viðlögðum sektum eða brottvikningu úr EES.  Sama má segja um reglugerðir og íslenzka embættismenn.  Hlutverk þeirra er að þýða og innleiða þær.  Lagasetningin og reglugerðirnar hafa bein áhrif á hagsmuni og jafnvel frelsi lögaðila og einstaklinga hérlendis, þannig að augljóst framsal til útlanda hefur átt sér stað á valdi, sem ríkið eitt á að hafa yfir þegnum sínum, íbúum lands í fullvalda ríki.  

Nú skal vitna í téða Morgunblaðsgrein til að sýna á hvers konar refilstigu umræðan um fullveldi landsins hefur ratað í heimi lögfræðinnar:

"Hugtakið fullveldisframsal er oft á tíðum notað í umræðunni um alþjóðamál hérlendis um það, þegar ríki tekur á sig þjóðréttarlegar samningsskuldbindingar um ákveðnar athafnir eða athafnaleysi, sem í felst binding.  Þetta er einkum áberandi, þegar rætt er um EES-samninginn og hugsanlega aðild Íslands að ESB"

Það er forkastanlegt að reyna að telja fólki trú um, að EES-samningurinn eða hugsanleg aðild að Evrópusambandinu-ESB hafi ósköp sakleysislegt þjóðréttarlegt gildi.  Hér er um miklu djúptækari félagsskap að ræða, eins og ráða má af því, að ESB er á siglingu í átt frá ríkjasambandi að sambandsríki, þar sem æ fleiri stjórnunarsvið aðildarríkjanna eru felld undir einn og sameiginlegan hatt ESB.  

"Heppilegra er að ræða um framsal ríkisvalds en fullveldisframsal.  Það er hreinlega hluti af ytra fullveldi ríkja að geta framselt ríkisvald til alþjóðastofnunar.  Það er svo alltaf spurning, hvort slík notkun á fullveldinu sé í samræmi við stjórnlög ríkis eða teljist þjóna hagsmunum þess."  

Þessi málflutningur sýnir berlega, að nauðsynlegt er að setja í Stjórnarskrá Íslands varnagla við framsali ríkisvalds, þótt ekki verði það bannað.  Norðmenn hafa í sinni stjórnarskrá ákvæði um, að minnst helming allra Stórþingsmanna þurfi til að ljá fullveldisframsali með víðtækum afleiðingum fyrir ríkið og íbúana lögmæti, þ.e. 75 % af viðstöddum Stórþingsmönnum, sem séu þó að lágmarki 2/3 af heild.

Í lauslegri þýðingu segir um þetta í norsku Stjórnarskránni:

Gr. 26.2: "Fullveldi á s.k. afmörkuðu sviði má láta af hendi, ef a.m.k. 50 % af þingmönnum í Stórþingssalnum samþykkja það, með vísun til venja varðandi mál, er varða Stjórnarskrá."

Það eru vissulega fordæmi í Noregi og á Íslandi fyrir framsali ríkisvalds, og í Noregi er það meirihluti í Stórþingssalnum, sem ákveður, hvort krefjast ber aukins meirihluta.  Þetta má telja veikleika.  Grein Stjórnarskrárinnar um aukinn meirihluta er þannig í lauslegri þýðingu:

Gr. 115: "Í þágu alþjóðlegs friðar og öryggis eða til að bæta alþjóðlegt réttarfyrirkomulag og samvinnu getur Stórþingið samþykkt með 75 % atkvæða viðstaddra Stórþingsmanna, sem að lágmarki séu 2/3 Stórþingsmanna, að alþjóðleg samtök, þar sem Noregur á aðild að eða Noregur styður, skuli hafa rétt til aðgerða á málefnalega afmörkuðu sviði, sem samkvæmt þessari Stjórnarskrá annars er í verkahring yfirvalda ríkisins.  Þó fylgja þessu ákvæði ekki heimildir til að breyta þessari Stjórnarskrá.

Ákvæði þessarar greinar eiga ekki við þátttöku í alþjóðasamtökum, ef ákvarðanirnar hafa einvörðungu þjóðréttarleg áhrif fyrir Noreg."

Það virðist t.d. einsýnt af þessum texta, að Stórþinginu ber að beita gr. 115 við atkvæðagreiðslu um upptöku Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.

Alþingi samþykkti þáverandi EES-samning naumlega í janúar 1993, en engin þjóðaratkvæðagreiðsla var þá haldin um þetta stórmál, þótt miklum vafa þætti undirorpið, að fullveldisframsalið stæðist ákvæði íslenzku Stjórnarskrárinnar um óskoraðan rétt Alþingis til löggjafarvalds á Íslandi, svo að eitthvað sé nefnt.

Setja þarf inn í íslenzku Stjórnarskrána ákvæði á þessa lund: 

Þegar fyrir hendi er frumvarp á Alþingi um aðild Íslands að samtökum, sem eiga að einhverju leyti að taka við hlutverki Alþingis, dómstóla eða framkvæmdavalds, þá skal halda um málið bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.  Meirihluta atkvæðisbærra manna skal þurfa til að samþykkja slíka tillögu.  Að öðrum kosti er hún felld, og Alþingi verður þá að fella frumvarpið, annars að samþykkja það.  Fimmtungur þingmanna getur vísað því til Hæstaréttar, hvort um fullveldisframsal sé að ræða, sem útheimti slíka  þjóðaratkvæðagreiðslu.  Meirihluti 5 dómara ræður niðurstöðu.  

Þegar mál koma til kasta Alþingis, sem 20 % þingmanna telja varða óheimilt framsal ríkisvalds, eins og t.d. Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB ótvírætt er, þá skal krefjast aukins meirihluta til samþykktar, eins og á norska Stórþinginu.    

 

 

 

 

 

 

 


Efnahagsstefnan og vinnumarkaðurinn

Efnahagskafli stjórnarsáttmálans er furðulega stuttur.  Á eftir honum kemur enn styttri kafli um vinnumarkaðinn.  Þetta sætir undrun í ljósi mikilvægis málaflokksins fyrir öll landsins börn.  Kaflinn hefst þannig:

"Efnahagslegur styrkur er undirstaða þess, að treysta megi til framtíðar samfélagslegan stöðugleika, velsæld og lífsgæði.  Ríkisstjórnin mun leggja áherzlu á traustar undirstöður í ríkisfjármálum, sem gefa tækifæri til að byggja upp og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir.  Nefnd um endurskoðun peningastefnunnar mun ljúka störfum, og í kjölfarið verða gerðar nauðsynlegar breytingar á ramma stefnunnar."

Hverjar eru forsendur "efnahagslegs styrks" ?  Þær eru arðsöm nýting náttúruauðlinda landsins, sem eru meginundirstaða útflutningsgreinanna.  Öflugar útflutningsgreinar, sem tryggja landsmönnum jákvæðan viðskiptajöfnuð, eru sem sagt undirstaða "efnahagslegs styrks".  Þessar útflutningsgreinar eru hérlendis sjávarútvegur, iðnaður og ferðaþjónusta.  Ekki má gleyma, að landbúnaðurinn sparar landsmönnum háar upphæðir, sem annars færu í enn meiri matvælainnflutning en raunin þó er.  Heilnæmi íslenzks landbúnaðar er vanmetinn af sumum, en heilnæmið er í raun ómetanlegt fyrir heilsufar landsmanna.

Velgengni íslenzks sjávarútvegs á sér margar skýringar, en meginástæðan er auðvitað hagstæðar aðstæður fyrir lífríki hafsins við Ísland, og það hefur verið vitað frá landnámi.  Afkastageta fiskveiðiflota, erlendra og innlends, ofgerði veiðistofnunum á síðustu öld.  Íslendingar leystu þann vanda með útfærslu fiskveiðilögsögunnar í nokkrum áföngum í 200 sjómílur og ruddu brautina í alþjóðlegri hafréttarlöggjöf.  

Þetta dugði þó ekki til, og var þá tekið upp kerfi, sem bæði fækkaði innlendum útgerðum og veiðiskipum, s.k. kvótakerfi.  Þetta kerfi, aflahlutdeildarkerfi á skip, þar sem aflamark er ákvarðað með aflareglu, nú 20 %, af vísindalega ákvörðuðum veiðistofni, hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu (ICES) sem umhverfislega sjálfbært fiskveiðistjórnunarkerfi, og allt bendir til, að það sé efnahagslega sjálfbært líka.

Sjávarútvegurinn er máttarstólpi dreifðrar byggðar með ströndum fram, og með kvótakerfinu fóru þær sumar halloka, eins og við mátti búast.  Nú eru sumum þessara byggða að opnast ný tækifæri með fiskeldi, og það er skylda stjórnvalda að sýna þessari grein jákvætt viðmót, því að hún mætir óverðskuldaðri óvild.  Hún mun þá senn öðlast þjóðhagslegt mikilvægi og verða ein af öflugustu stoðunum undir gjaldeyrisöfluninni og stoð og stytta byggðanna, þar sem henni er leyft að starfa.  

Grundvöllur öflugs útflutningsiðnaðar á Íslandi er hagkvæm raforka, unnin með sjálfbærum hætti úr fallorku vatns og úr mismunandi sjálfbærum forðageymum jarðgufu. Rafvæðing landsins gekk hægt, þar til Viðreisnarstjórnin dembdi sér í djúpu laugina, fékk samþykki Alþingis fyrir stofnun Landsvirkjunar 1965, og árið eftir kom naumlegt og sögulegt samþykki Alþingis fyrir stofnun ISAL-Íslenzka Álfélagsins, sem lagði grunninn að fyrstu stórvirkjun landsins og 220 kV flutningslínum þaðan og til höfuðborgarsvæðisins.

Samningurinn var harðlega gagnrýndur á sinni tíð, en hann reyndist gerður af meiri framsýni en andstæðingarnir áttuðu sig á.  Þessi orkuviðskipti, sem voru til 45 ára, og hafa verið framlengd að breyttu breytanda í 25 ár, lögðu grunn að nútímalegu og öflugu raforkustofnkerfi á SV-landi, en aðrir landshlutar hafa setið eftir, og það er ekki vanzalaust að hálfu yfirvaldanna. Doðinn yfir raforkuflutningsmálum landsins gengur ekki lengur, enda verða orkuskiptin aldrei barn í brók, nema yfirvöld orkumála girði sig í brók og taki til hendinni í þágu íbúanna, sem vantar rafmagn af góðum gæðum.    

Nú hefur frétzt af nýlegri tilskipun frá ESB um orkumál, sem ætlunin er að innleiða í Noregi og á Íslandi árið 2018.  Orkumálayfirvöld á Íslandi hafa enn ekki áttað sig á, hversu hættuleg þessi tilskipun er, en með innleiðingu hennar fær ACER-Orkusamstarfsstofnun ESB - úrslitavald um þau orkumálefni hvers lands, sem hún skilgreinir sjálf sem "sameiginleg verkefni"

Þetta mál minnir á söguna af því, er Noregskonungur falaðist eftir Grímsey af Íslendingum.  Guðmundur, ríki, taldi enga meinbugi á því vera að láta kóngi eftir Grímsey, en Þórarinn Nefjólfsson benti á hættuna, sem var fólgin í því, að kóngsmenn færu á langskipum þaðan og hertækju Ísland.  Þá ætla ég, sagði Þórarinn, efnislega, að þröngt muni verða fyrir dyrum hjá mörgum kotbóndanum.  

Nákvæmlega sama er uppi á teninginum, ef Íslendingar innleiða þessa orkutilskipun í lagasafn sitt.  Þá getur ESB með beinum fjárhagslegum hætti átt frumkvæði að lagningu sæstrengs frá Íslandi til útlanda, stofnað hér orkukauphöll og leyft hverjum sem er innan EES að bjóða í alla raforku, sem ekki er bundin með langtímasamningum, og ACER getur bannað nýja slíka samninga og framlengingu gamalla.  Gangi þetta eftir, má ætla, að þröngt verði fyrir dyrum margra fyrirtækja og heimila hérlendis, því að ekki mun framboð raforku vaxa við þetta, og verðið mun rjúka upp í evrópskar hæðir, sem hæglega getur merkt tvöföldun.    

Það er ekkert minnzt á þetta stórmál í stjórnarsáttmálanum. Það á líklega að læða því, illu heilli, í gegnum þingið, en er meirihluti þar fyrir slíku stórfelldu fullveldisframsali ?

Aftur á móti er skrifað í Stjórnarsáttmálann, að "Þjóðarsjóður [fyrrverandi þingmaður í Kraganum nefndi hann Þjóðbrókarsjóð í blaðagrein] verður stofnaður utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni.  Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum."

Þetta er fallegt og göfugt stefnumið, en hvers virði er öflugur "Þjóðbrókarsjóður", ef atvinnulífið sjálft verður ein rjúkandi rúst ?

Í Noregi er hafin mikil barátta gegn samþykki Stórþingsins á þessum orkumarkaðslagabálki ESB.  Samkvæmt skoðanakönnunum er meirihluti Norðmanna andsnúinn henni.  Með aukinni umræðu og upplýsingagjöf munu línur skýrast.  Það er mikið í húfi.  Höfnun eða frestun á samþykki mun að öllum líkindum þýða útskúfun úr EES. Þess vegna er þessi undirlægjuháttur í málinu, en farið hefur fé betra.  

 

 

 

 


Orkumál í uppnámi vegna ESB

Valdahlutföllin innan Evrópusambandsins (ESB) hafa þegar breytzt vegna ákvörðunar Breta um að yfirgefa sambandið.  Hlutur efasemdarmanna um æ nánari samruna ríkjanna á leið til sambandsríkis Evrópu í stað ríkjasambands hefur rýrnað við að missa rödd Bretlands úr hópnum, og sameiningarsinnar færa sig að sama skapi upp á skaptið. Nú á að láta kné fylgja kviði á sviði orkuflutninga á milli ríkja.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að flaggskip ESB er Innri markaður þess með frelsunum fjórum.  Árið 2009 var gefinn út bálkur tilskipana á orkusviði, t.d. 2009/72/ESB á sviði raforkuflutninga, sem miðaði að "fimmta frelsinu" á Innri markaðinum.  Flutningar á raforku og eldsneytisgasi skyldu verða frjálsir og hindrunarlausir á milli ríkjanna, og raforkuflutningana skyldi tvöfalda upp í 20 % af orkunotkun ESB-ríkjanna árið 2030. 

Ætlunin með þessu var að nýta tiltæka orku með hagkvæmasta hætti innan EES.  Til þess verður stofnaður orkumarkaður í hverju landi undir eftirliti útibús frá "Orkusamstarfsstofnun" ESB í hverju landi. Öll tiltæk orka á að fara á þennan markað, og nýir langtímasamningar um orkuviðskipti verða óheimilir innan ESB.  Hugmyndin var sú, að hægt verði að bjóða í orku, hvar sem er, hvaðan sem er, og flytja hana hindrunarlaust til bjóðandans með útjöfnuðum flutningskostnaði. 

Augljóslega mun þessi markaðsvæðing jafna út verðmun á raforku innan EES.  Þá hlýtur raforkuverðið óhjákvæmilega að hækka í Noregi og á Íslandi, þar sem íbúarnir hafa búið við u.þ.b. helmingi ódýrara rafmagn en íbúar ESB-ríkjunum. Þá mun hlutur endurnýjanlegrar orku af heildarorkunotkun í ESB vaxa við aukna raforkuflutninga á milli landa, og að sama skapi minnka í Noregi og á Íslandi, ef sæstrengir verða lagðir frá Íslandi til útlanda.   Til þess eru refirnir skornir í Berlaymont. 

Árið 2011 var stofnuð áðurgreind "Orkusamstarfsstofnun" ESB, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators) með aðsetri í Slóveníu.  ACER er samstarfsvettvangur orkustofnana ríkjanna með einum fulltrúa frá hverju EES-ríki, en aðeins ESB-ríkin eiga þar atkvæðisrétt.  Ákvarðanir eru bindandi og endanlegar, teknar með atkvæðagreiðslu, þar sem hreinn meirihluti atkvæða ræður.  ACER felur ESA-Eftirlitsstofnun EFTA með framkvæmd EES-samningsins-að framfylgja ákvörðunum sínum í EFTA-löndunum þremur innan EES, Noregi, Íslandi og Liechtenstein.  

Orkustofnun (OS) fer með stjórnsýslu orkumála á Íslandi undir yfirstjórn Auðlinda- og nýsköpunarráðuneytisins, A&N.  Eftir innleiðingu tilskipunar 2009/72/ESB á Íslandi verður OS þó aðeins svipur hjá sjón, því að útibú frá ACER verður stofnað á Íslandi, "Orkustjórnsýslustofnun"-OSS, sem felld verður undir hatt OS sem sjálfstæð stjórnsýslueining, og mun OSS taka við orkustjórnsýsluhlutverki OS að miklu leyti og á að verða óháð ráðuneyti orkumála, öðrum innlendum stofnunum og fyrirtækjum, en samt fara inn á íslenzku fjárlögin.  OSS mun hafa eftirlit með raforkumörkuðum á Íslandi og eiga samstarf við systurstofnanir sínar í EES.  OSS lýtur ekki boðvaldi neinna íslenzkra yfirvalda, heldur verður eins og ríki í ríkinu með eigin framkvæmdastjóra, skipuðum til 6 ára í senn, sem tekur við skipunum frá ESA.     

Ákvarðanir á vegum ACER munu ganga til ESA, sem sendir þær til OSS til framkvæmdar.  OSS útbýr tæknilega og viðskiptalega tengiskilmála fyrir flutningsmannvirki orku, en OS verður áfram leyfisveitandi. Önnur starfsemi OS en starfsemi OSS verður áfram undir yfirstjórn ráðuneytisins, A&N. Þetta er anzi ruglingslegt fyrirkomulag, sem býður upp á harkalega árekstra innanlands. 

Þetta er óviðunandi fyrirkomulag raforkumála fyrir Íslendinga.  Þeir missa með því lýðræðisleg stjórnunartök á ráðstöfun raforkunnar í hendur fjölþjóðlegrar stofnunar, ACER, þar sem þeir eru án atkvæðisréttar.  Það er hættulegur misskilningur, að áhættulítið sé fyrir Alþingi að samþykkja tillögu samstarfsnefndar ESB og EFTA frá 5. maí 2017 um að fella Þriðja orkulagabálk ESB inn í EES-samninginn.  Innan vébanda ACER er hvenær sem er hægt að ákveða að bjóða út sæstreng frá Íslandi ásamt lögn hans til meginlandsins með viðkomu á Bretlandi.  Það yrði í verkahring OSS að semja tæknilega og viðskiptalega tengiskilmála fyrir tengingar sæstrengja við stofnrafkerfi Íslands.  Hlutverk OS yrði eftir sem áður að gefa út starfræksluleyfi, en það er formsatriði, því að ekki verður séð, hvernig OS gæti hafnað starfræksluleyfi sæstrengs, sem uppfyllir alla setta skilmála.  Gildir þá einu, þótt innan OS og ráðuneytisins væri vilji til að vernda íslenzkar fjölskyldur og fyrirtæki gegn beinni samkeppni erlendis frá um raforkuna.  

Eins og í pottinn er búið, verður að draga stórlega í efa, að innan ACER sé hægt að taka ákvörðun, sem sé lagalega bindandi fyrir Ísland.  Ríkisstjórn Íslands hyggst þó leggja frumvarp fyrir Alþingi, jafnvel vorið 2018, um að fara að tillögu samstarfsnefndar ESB og EFTA og samþykkja Þriðja orkulagabálk ESB sem hluta af EES-samninginum.  Ef Alþingi samþykkir þetta, er í leikmannsaugum augljóslega verið að fórna fullveldi landsins á mikilvægu sviði án nokkurs ávinnings fyrir landið.  Þvert á móti gæti þessi innleiðing valdið hér stórtjóni, hækkað raforkuverð gríðarlega til allra notenda án langtímasamnings og stórskaðað samkeppnishæfni nánast allra fyrirtækja í landinu.  Afleiðing af slíku er stórfelld lífskjararýrnun landsmanna.  Er meirihluti fyrir slíku á Alþingi ?  Fróðlegt væri að sjá almenna skoðanakönnun hérlendis um fylgi við þessa ráðstöfun, sem að mestu hefur legið í þagnargildi hingað til.  Í Noregi eru 18 % aðspurðra fylgjandi þessu ráðslagi, 38 % óákveðnir og 44 % andvígir.  Umræða mun á næstunni fækka hinum óákveðnu, því að Stórþingið mun taka málið til afgreiðslu í marz 2018.  Verður spennandi að sjá, hvort Stórþingsmenn munu ganga á hólm við kjósendur sína og lúta vilja ríkisstjórnar og stórs hluta embættismannaveldisins. 

 

 


Byggðamál

Í sáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur frá nóvember 2017 er kafli um byggðamál.  Hann hefst þannig:
"Mikil verðmæti felast í því, að landið allt sé í blómlegri byggð.  Landsmenn eiga að hafa jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum um allt land."

Ekki verður ráðið af framhaldinu, að höfundarnir geri sér grein fyrir, hvers konar stefnu þarf að viðhafa til að halda landinu "öllu" í byggð.  Í grundvallaratriðum þarf tvennt til, þ.e. í fyrsta lagi greiðfæra vegi, nægt þrífasa rafmagn og hraðvirkt samskiptakerfi og í öðru lagi að nýta náttúruauðlindir landsins til eflingar velferðarþjóðfélags um allt land. 

Þannig þarf nýtingarstefnu fyrir náttúruauðlindir landsins, sem styður við búsetu um landið allt.  Nýting náttúruauðlindanna verður þannig grundvöllur velmegunar og velferðarsamfélags um landið allt.  

Sjávarútvegurinn er klárlega landsbyggðar atvinnugrein, sem fullnægir þessum skilyrðum, af því að hann er í heildina rekinn með hagkvæmum hætti, og 78 % skatttekna af sjávarútveginum koma utan af landi.  Sömuleiðis hafa strandveiðar að sumarlagi þýðingu í þessu samhengi svo og byggðakvótinn, sem Byggðastofnun úthlutar, aðallega til s.k. brothættra byggða.  

Mestu máli skiptir þó fyrir hagvöxtinn, að sjávarútvegsfyrirtækjum vítt og breytt um landið hefur vaxið fiskur um hrygg með fiskveiðistjórnunarkerfi, sem fækkaði útgerðum og fiskiskipum og glæddi aflabrögð í kjölfar þess, að tekið var að fylgja vísindalegri veiðiráðgjöf.  

Ekki má hverfa frá þessu efni án þess að nefna fiskeldið, en það mun hafa byltingarkennd áhrif til hins betra á byggðir Vestfjarða og góð áhrif á Austfjörðum og vonandi í Eyjafirði með eldi þar í lokuðum kvíum, sem hafa verið þróaðar í Noregi.  Á Austfjörðum er hins vegar önnur öflug stoð undir atvinnulífi en sjávarútvegur og landbúnaður, sem ekki er að finna annars staðar utan Straumsvíkur og Grundartanga og senn á Bakka við Húsavík, en það er orkusækinn málmiðnaður.  

Það hefur frá upphafi umræðu um orkuvirkjanir og stóriðju í tengslum við þær sú ætlun stjórnvalda verið ljós, að þessi starfsemi mundi stuðla að innviðauppbyggingu, aukinni tækniþekkingu og byggðafestu í landinu.  Á undirbúningsárum ISAL, 1967-1970, ríkti hér atvinnuleysi í kjölfar síldarbrests, og framkvæmdirnar í Straumsvík og við Búrfell drógu úr bæði atvinnuleysi og landflótta.  Stækkun ISAL og upphaf Norðuráls, 1995-1998, komu einnig á heppilegum tíma m.v. atvinnuástand í landinu, og í kjölfarið kom uppgangsskeið. Fjarðaál og Fljótsdalsvirkjun voru klárlega traustar byggðafestuframkvæmdir, sem sneru neikvæðri byggðaþróun á Austfjörðum til hins betra. Gríðarleg gjaldeyrisöflun á sér nú stað í Austfirðingafjórðungi úr auðlindum lands og sjávar.  

Svo virðist sem núverandi stjórn og forstjóri Landsvirkjunar hafi gleymt þessu eðli iðnvæðingar Íslands eða fórnað því á altari misskilinnar gróðahyggju ríkisfyrirtækisins.  Landsvirkjun var aldrei hugsuð þannig, að selja ætti raforku frá virkjunum hennar á verði, sem sambærilegt væri við verð á Bretlandi, á meginlandi Evrópu eða í Bandaríkjunum, heldur á verði, sem gerði Ísland samkeppnishæft á sviði málmframleiðslu, myndi borga virkjanir og flutningslínur upp löngu áður en bókhaldslegum, hvað þá tæknilegum, afskriftatíma lyki og yrði þannig grundvöllur að lágu raforkuverði til almennings í samanburði við útlönd.  Langtíma raforkusamningar Landsvirkjunar hafa vissulega reynzt þjóðhagslega hagkvæmir og staðið undir einu lægsta raforkuverði til almennings á byggðu bóli.  

Landsvirkjun hefur síðan 2010 farið fram með nokkurri óbilgirni í samningaviðræðum um endurskoðun langtímasamninga um afhendingu raforku til orkusækinna málmframleiðslufyrirtækja og t.d. þvingað fram raforkuverð til ISAL í Straumsvík, sem sett hefur afkomu fyrirtækisins í uppnám, dregið úr fjárfestingaráhuga eiganda, og nú er svo komið, að hann reynir að selja fyrirtækið.  Á Grundartanga gekk töluvert á við endurnýjun raforkusamninga Norðuráls, og nú hafa ágreiningsmál járnblendiverksmiðjunnar og Landsvirkjunar verið lögð í gerðardóm. Hér er um geðþóttalega stefnubreytingu fyrirtækisins að ræða, sem var ekki mótuð af stjórnvöldum eða neitt rædd á Alþingi og hæpið, að njóti meirihlutastuðnings þar.  

Nú stefnir ESB á innleiðingu 5. frelsisins, sem er frjálst flæði orku á milli aðildarlanda EES.  Búizt er við hatrömmum deilum í Noregi um þetta, því að vegna loftlína til Svíþjóðar og sæstrengja til Danmerkur og Hollands og nýrra sæstrengja til Bretlands og Þýzkalands mun þetta fyrirkomulag rústa iðnaði Noregs, sem frá upphafi hefur verið staðsettur vítt og breitt  um byggðir Noregs og notið hagstæðra kjara við raforkukaup, m.a. í nafni byggðastefnu og almennrar atvinnuþróunar.  Hann mun eftir innleiðingu "orkusambands ESB" þurfa að keppa um raforkuna við þýzk stáliðjuver í hjarta Evrópu, svo að dæmi sé tekið. Horfa margir Norðmenn með örvæntingu á þá óheillaþróun, að stjórn orkumálanna færist í raun úr höndum lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar til embættismanna á nýrri "Orkusamvinnustofnun ESB", sem staðsett er í Slóveníu, og Norðmenn verða algerlega áhrifalausir í (án atkvæðisréttar).  

Á Íslandi hefur Landsvirkjun barizt fyrir því, að sæstrengur yrði lagður á milli Íslands og Skotlands.  Er nú augljóst, til hvers refirnir voru skornir.  Nú verður hægt að færa enn gildari rök gegn slíkum aflsæstreng en gert hefur verið.  Hann mun ekki aðeins hækka almennt raforkuverð í landinu, heldur mundi hann rústa atvinnulífi í landinu, ef Ísland jafnframt innleiðir 3. tilskipanabálk ESB í orkumálum frá 13. júli 2009-EU/2009/72.  Gegn því ber að berjast með kjafti og klóm svo á Íslandi sem í Noregi.

Á Íslandi hafa uppkaup útlendinga á landi færzt í vöxt. Fræg varð tilraun Kínverja fyrir okkrum árum til að ná tangarhaldi á stærstu jörð á Íslandi, Grímsstöðum á Fjöllum.  Sem betur fór var þetta hindrað, því að lagaumgjörð fyrir slíka gerninga er ófullnægjandi fyrir hagsmuni landsins.  Á þetta benti Hlynur Jónsson Arndal, rekstrarhagfræðingur, í Morgunblaðsgrein 26. júli 2017,

"Eignarhald útlendinga á íslenskum jörðum":

"Enn bjóða óupplýstir fréttamenn upp á umræðu, þar sem sneitt er hjá þessum staðreyndum og útlendingum stillt upp sem venjulegu fólki, sem vill gjarnan eignast fallega jörð á Íslandi til að njóta sveitarsælunnar.  Nú síðast með viðtali Ríkisútvarpsins við Jim Ratcliffe, sem keypt hefur fjölda jarða hér á landi að sögn fjölmiðla, en þeir sleppa að geta þess, að það er gert í gegnum hlutafélag."

Það er grundvallarmunur á því, hvort viðskipti eru gerð á nafni persónu eða lögaðila, t.d. hlutafélags, og vegna frelsis innan EES til landakaupa, er nauðsynlegt að Alþingi verji sameiginlega hagsmuni landsmanna með því að takmarka landakaup við persónur.

"En skiptir þetta máli ?  Um leið og jörð er seld háu verði til erlends eða íslenzks hlutafélags, þá er væntanlega söluhagnaðurinn skattlagður á Íslandi ?  En það verður í hinzta sinn, vegna þess að öll framtíðarviðskipti með slíka jörð geta farið fram í lágskattalandi, t.d. Lúxemborg, heimalandi Junckers nokkurs, þar sem hlutafélagið, nú skráður eigandi jarðarinnar, mun geta gengið kaupum og sölum, annaðhvort beint eða höndlað er með félag, sem á annað félag, sem á félagið, sem á jörðina.  Ef skattur yrði greiddur af hækkun jarðarverðs í formi hærra hlutabréfaverðs slíks félags, færi skatturinn í ríkissjóð Lúxemborgar.  Náðuð þið þessu ?" 

Hvers vegna er ekki minnzt einu orði á þetta þarfa viðfangsefni löggjafans í stjórnarsáttmála um byggðamál ?  Er þegjandi samkomulag um að breiða yfir galla EES-samningsins ?

 

 


Að þvælast fyrir atvinnulífinu

Suma stjórnmálamenn skortir algerlega skilning á mikilvægi öflugra fyrirtækja fyrir hag verkafólks og allra annarra launamanna, raunar líka fyrir hag sveitarfélaga, ríkissjóðs og þjóðfélagsins alls.  

Þeir einblína á skattheimtu ríkissjóðs af fyrirtækjunum og skilja ekki, að tekjustreymið til ríkissjóðs frá þeim á sér marga farvegi, enda fer þar öll verðmætasköpun hagkerfisins fram, og hörð skattheimta er fallin til að minnka skattstofninn og þar með heildartekjur ríkissjóðs.  

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er dæmi um svona stjórnmálamann.  Hún var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lungann úr árinu 2017, en vann þessum greinum aðallega ógagn, enda slær hjarta hennar í Berlaymont í Brüsselborg, eins og kunnugt er, þar sem rekin er sjávarútvegs- og landbúnaðarstefna, sem fæstir Íslendingar vilja nokkuð með hafa.  

Dæmi um þetta er, þegar hún í janúar 2017 neitaði að liðka fjárhagslega til fyrir Hafró um einar MISK 10, svo að stofnunin gæti sent rannsóknarskip á miðin í leit að loðnu.  Útgerðarmenn hlupu þá undir bagga með Hafró, loðna fannst, og þúsundfaldra verðmæta var aflað á við leitarkostnaðinn.  

Síðsumars sama ár neitaði þessi ráðherra að framlengja afslætti á veiðigjöld, sem runnu út 31. ágúst 2017, með þeim afleiðingum, að veiðigjöld útgerðanna tvöfölduðust yfirleitt og þrefölduðust hjá sumum.  Auðvitað hefði ráðherrann átt að nota árið 2017 til að endurskoða reikniregluna.  Það er ekki flókið mál að leiða fram tiltölulega einfalda tvískipta reiknireglu, sem tekur mið af verði óslægðs fiskjar upp úr sjó, þar sem annar hlutinn tekur ekki mið af afkomu, heldur er aðgangsgjald að miðunum, en hinn hlutinn er afkomutengdur, tekur tillit til auðlindarrentunnar, eins og sýnt hefur verið á þessu vefsetri:

https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2206667 

Núna nema veiðigjöldin 12 % - 14 % af aflaverðmæti, og í augum uppi liggur, að við allar aðstæður er þetta allt of há gjaldtaka af útgerðunum, um þrefalt það, sem eðlilegt getur talizt í núverandi árferði.

  Forsætisráðherra hefur sagt, að sú endurskoðun, sem nú er hafin, sé miðuð við að taka gildi á næsta fiskveiðiári, sem hefst 1. september 2018.  Þetta er algerlega óviðunandi hægagangur, því að á meðan blæðir útgerðunum út.  Er það þjóðhagslega hagkvæmt ?  Á að drepa útgerðirnar, svo að stjórnmálamenn geti komið sem bjargvættir í byggðirnar með ríkisstuðning upp á vasann ?  Silaháttur stjórnvalda getur verið óþolandi og er í sumum tilvikum stórhættulegur fyrir jafnvægi í atvinnugreinum og byggðafestu í þessu tilviki, þar sem sjávarútvegur er undirstaða byggðar meðfram ströndinni.

Þeim fáránlega boðskap hefur verið haldið á lofti, að einvörðungu verði lækkuð veiðigjöld á litlum og meðalstórum útgerðum. Þetta er í raun boðskapur um, að nú skuli innleiða pólitíska spillingu í íslenzka sjávarútveginn, þar sem vissir stjórnmálamenn ætla að innleiða mismunun útgerðanna eftir stærð þeirra.  Í kjölfarið hæfist örugglega fíflagangur á borð við skiptingu útgerða til að lenda í hagstæðari gjaldflokki eftir stærð.  Þessi mismunun er afspyrnu heimskuleg og óréttlát, og hún stenzt ekki stjórnarskrárvarinn atvinnufrelsisrétt allra.  Stjórnsýslulög yrðu einnig brotin með þessu athæfi, því að með ómálefnalegum hætti væri skattheimtuvaldi beitt til að mismuna lögaðilum í landinu.  

Að umræða af þessu tagi skuli gjósa upp á meðal stjórnmálamanna, sýnir svart á hvítu, að þeir hafa sumir hverjir ekkert vit á atvinnurekstri og ættu að halda afskiptum sínum af honum í algjöru lágmarki.  Í þessu tilviki má spyrja, hvar þeir hafa eiginlega verið, því að megnið af afurðum íslenzks sjávarútvegs fer á markað erlendis, og íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin eru yfirleitt mun minni en þau, sem þau keppa við á erlendum mörkuðum.  Ef ræða á um stærð, þá skiptir þetta stærðarhlutfall meginmáli í þessu samhengi, en ekki innlendur stærðarsamanburður.

Til að varpa ljósi á, að stjórnmálamenn blóðmjólka nú íslenzkar útgerðir með fáránlega háum veiðigjöldum, skal vitna í Morgunblaðið, 3. janúar 2018, bls. 40, þar sem viðtal birtist við Skjöld Pálmason, framkvæmdastjóra Odda hf á Patreksfirði:

"Við stöndum hreinlega ekki undir þessari skattbyrði, sem þarna er sett á okkur.  Eins og þetta er í dag, þá fara um 12 til 14 % af aflaverðmætinu í veiðigjöld.  Það er gríðarlega mikið, þegar hagnaður þessara fyrirtækja fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, er nánast enginn.  Þessi peningur er bara ekki til, því miður."

Hér er verið að lýsa grimmdarlegri rányrkju hins opinbera, sem grefur ekki einvörðungu undan hag eigenda fyrirtækjanna, heldur atvinnuöryggi starfsfólksins og afkomu  viðkomandi sveitarfélaga.  Stjórnvöld verða hið snarasta að snúa af stórhættulegri braut vanhugsaðs gjaldkerfis.  

 "Jafnvel þótt árið 2015 hafi verið sæmilegt rekstrarár, þá var ekki mikill gróði í fyrirtækjunum.  Fjárfestingarþörf fyrirtækja í bolfiskvinnslu var mikil á þessum tíma og er það enn í dag, þar sem menn hafa ekki getað ráðizt í nauðsynlega endurnýjun."

"Þó að verið sé að endurnýja að miklu leyti skipaflota stóru útgerðanna, sem flestar hverjar eru í uppsjávarveiðum, þá hafa venjuleg bolfiskfyrirtæki alls ekki getað fjárfest í nauðsynlegum tækjum og tólum, sem þó er búið að hanna og þróa til að koma okkur framar í samkeppni við aðrar þjóðir.  Ef litið er yfir vertíðarflotann, þá eru þetta meira eða minna fjörutíu ára gömul skip."

Stóru útgerðirnar hafa góðu heilli fjárfest, enda er samkeppnishæfni þeirra í gæðum, framleiðni og kostnaði algerlega háð beitingu nýjustu tækni.  Nú þurfa þær að hafa upp í fjárfestingarnar, og enn þurfa þær að fjárfesta fyrir tugi milljarða ISK á næstu árum í stórum skipum og sjálfvirkum vinnslulínum með vatnsskurðarvélum, ofurkælingu og annarri nýrri tækni.  Minni útgerðir hafa samkvæmt lýsingunni hér að ofan ekki treyst sér til að fjárfesta, af því að framlegð þeirra hefur verið allt of lítil. 

Það er hvorki rekstrargrundvöllur né sanngirnisgrundvöllur fyrir því, að fyrirtæki með litla eða enga framlegð borgi auðlindargjald, því að hjá þeim er augljóslega engin auðlindarenta.  Af þeim ætti einvörðungu að taka hófstillt aðgangsgjald að miðunum, þar til þau hafa rétt úr kútnum, en það geta þau aðeins með fjárfestingum.  Í þessu felst auðvitað engin mismunun í gjaldheimtu eftir stærðarflokkum, því að stórar útgerðir geta líka lent í lágri framlegð, ef illa árar.   

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband