Ísland í Orkusambandi ESB með aflsæstreng

Alþingismenn hljóta að vita, að þeir, sem segja A verða að vera tilbúnir að segja B.  Það flækist þó fyrir sumum þeirra í sambandi við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, því að þeir eru til á meðal Alþingismanna, sem hyggjast kokgleypa hann án þess að vilja taka skilyrðislaust við aflsæstreng frá útlöndum.  Þetta gengur alls ekki upp. 

Þeir, sem ekki vilja selja rafmagn um sæstreng til útlanda, verða að hafna Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, þegar hann kemur til atkvæða á Alþingi, því að með samþykktinni munu  þingmenn framselja ákvörðunarvald um millilandatengingu til ESB/ACER.  Þetta kemur fram í greiningu prófessors Peters Örebech á greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, og einnig á fundi með Peter Örebech sem frummælanda í Háskóla Íslands, 22.10.2018. Þar kvaddi sér m.a. hljóðs prófessor emeritus Stefán Már Stefánsson, og samsinnti hann rökleiðslu prófessors Örebech í hvívetna. 

Það er kominn tími til, að Alþingismenn, allir, geri sér grein fyrir því, að innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB felur í sér framsal ákvörðunarvalds til yfirþjóðlegrar stofnunar, þar sem Ísland er ekki fullgildur aðili, og er þess vegna klárt stjórnarskrárbrot.  Þar er átt við ákvörðunarvald um það, hvort hingað verður lagður aflsæstrengur eður ei.  Það verður ekki lengur í höndum íslenzkra stjórnvalda eftir téða innleiðingu, og má þá einu gilda, hvort Alþingi bannar slíkt eða ekki.

Eftir að Alþingi hefur játazt undir vald ESB á raforkusviðinu, en raforkan stendur í engu öðru ríki EES undir jafnstórum hluta landsframleiðslunnar og á Íslandi, þá hafa þingmenn í raun skuldbundið sig til að innleiða gerðir og tilskipanir ESB á raforkusviðinu, sem síðan eru komnar og fléttast inn í Þriðja orkumarkaðslagabálkinn. Síðar mun Fjórði orkumarkaðslagabálkur verða borinn upp í þinginu, s.k. Vetrarbálkur, ef sá fyrri verður samþykktur. Á meðal skyldra Evrópugerða Þriðja bálkinum má nefna Innviðagerðina, gerð nr 347/2013, þar sem matsferli millilandainnviða í ESB/EES er samræmt á milli aðildarlandanna. 

Orkustofnun og Landsreglari munu taka umsóknir um leyfi til sæstrengslagnar til mats samkvæmt þessari gerð.  Ef Orkustofnun hafnar, en Landsreglari samþykkir, fer ágreiningurinn til ACER, sem úrskurðar í deilunni.  Þetta fyrirkomulag er eins fjarri tveggja stoða kerfinu, sem upphaflega var um samið 1992, og hægt er að hugsa sér, og að sjálfsögðu um leið stjórnarskrárbrot.  

Ef Alþingi tekur þessa sæstrengsumsókn til umfjöllunar á einhverju stigi máls, verður það klárt brot á þeim skuldbindingum um verkaskiptingu, sem þingið hefur tekizt á herðar með innleiðingu "Þriðja orkupakkans", en þar er einmitt kyrfilega sneitt framhjá landsstjórninni og stofnunum hennar í öllum skilgreindum ákvörðunarferlum, nema Orkustofnun er veitt forskrift að mati ásamt Landsreglara. 

Það væri þess vegna merki um hringlandahátt löggjafans að samþykkja fyrst "pakkann" og síðan að hafna því, sem þar er aðallega fjallað um, þ.e. styrkingu millilandatenginga.  Slíkt yrði Íslendingum til minnkunar á alþjóðavettvangi, og framkvæmdastjórn ESB tæki ekki á slíkum tvískinnungi með silkihönzkum.  Er ekki ólíklegt, að hún myndi leita ráðgefandi álits hjá ESB-dómstólinum og síðan kæra málið til EFTA-dómstólsins.  Íslendingum yrði varla vært í EES-samstarfinu, eftir að EFTA-dómstóllinn væri búinn að knésetja Alþingi (Evrópuréttur gengur framar landsrétti) og þvinga þar með Landsnet til mikilla fjárfestinga í línulögnum frá virkjunum og niður að lendingarstað sæstrengs í óþökk þjóðarinnar.  Sjá ekki allir, að heillavænlegra er fyrir Ísland og áframhaldandi samstarf við EES-löndin, að þingmenn grípi í neyðarhemilinn áður en alvarlegur árekstur verður og gangi þar með hreint til verks í fullum rétti fullveldis lands síns ?

Norski lagaprófessorinn Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, tók af allan lögfræðilegan vafa um þetta framsal ákvörðunarvalds til einnar stoðar kerfis ESB með eftirfarandi lýsingu í greiningu sinni á greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, til iðnaðarráðherra í september 2018:

"Við sjáum sem sagt, að gripið verður til reglnanna  í "Þriðja orkupakkanum" við aðstæður, eins og þær, að t.d. finnski rafmagnsrisinn Fortun hafi í hyggju, í samstarfi við HS Orku, að leggja rör eða strengi frá Íslandi til Skotlands.  Setjum svo, að af hálfu íslenzka ríkisins verði lagzt gegn þessu.  Ef Landsreglarinn - framlengdur armur ESB á Íslandi - sem á að sjá til þess, að reglum ESB-réttarins verði framfylgt á Íslandi og sem íslenzk yfirvöld geta ekki gefið fyrirmæli - getur ekki leyst úr deilunni, verður um hana úrskurðað innan ACER, eða jafnvel í framkvæmdastjórn ESB samkvæmt ESB gerð nr 713/2009, sjá grein 4 d), sbr grein 8.1 a) og innganginn, málsgrein 10."

Það fer ekki á milli mála, að þessi niðurstaða greiningar lagaprófessorsins er hárrétt, enda lýsti einn fremsti Evrópuréttarfræðingur Íslands, prófessor emeritus Stefán Már Stefánsson, yfir stuðningi við prófessor Örebech á opnum fundi í HÍ 22. október 2018.

Á fundi Óðins og fulltrúaráða Sjálfstæðisflokksins í Kraganum og í Reykjavík virtist formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, sem var ræðumaður fundarins og hélt afar fróðlega og góða ræðu, hafa gert sér grein fyrir því, að umrætt bann Alþingis við sæstrengslögn myndi jafngilda mjög alvarlegum árekstri við ESB, en hann var á þeim fundi ekki tilbúinn að segja, að til að koma í veg fyrir þennan alvarlega árekstur væri affarasælast, að þingið hafnaði Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Vonandi rennur upp sá dagur, að formaðurinn komist að þeirri niðurstöðu.  

Nú berast þær fréttir frá Noregi, að norska orkustofnunin, NVE, hafi tvöfaldað áætlun sína um hækkun raforkuverðs í Noregi eftir lúkningu núverandi tveggja sæstrengsverkefna Statnetts, sem eru um 1400 MW sæstrengir  til Þýzkalands og Englands.  Stafar þetta af hærri raforkuverðsspám fyrir þessi lönd en áður og hratt minnkandi umframorku í Noregi vegna tíðari þurrkasumra, meiri útflutnings og hækkandi álags í Noregi með orkuskiptunum.  

Á Íslandi er að jafnaði sáralítil umframorka í kerfinu, og hún verður öll upp urin með sæstreng, þótt að sjálfsögðu verði virkjað fyrir sæstreng.  Það þarf að virkja svo mikið, að núverandi nýtingarflokkur Rammaáætlunar dugar ekki fyrir innanlandsþörfina með orkuskiptum til 2050.  Ákvæði Innri markaðarins um bann við magntakmörkunum útflutnings þýðir, að innlend stjórnvöld munu ekki geta komið böndum á raforkuútflutninginn, sem af öryggisástæðum er gersamlega ótækt fyrir landsmenn.  Takmarkanir vegna mikilla verðhækkana innanlands eru óleyfileg ríkisafskipti af frjálsum markaði samkvæmt Evrópurétti.  

Þetta mun rústa samkeppnisstöðu íslenzkra framleiðslugreina á öllum sviðum, en þær standa undir velferðarkerfinu og lífskjörum almennings.  Sæstrengurinn verður rekinn með hagsmuni ESB fyrir augum, en landsmenn munu lepja dauðann úr skel.  


Ísland í Orkusambandi ESB án sæstrengs

Ef/þegar Alþingi samþykkir að innleiða Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB í EES-samninginn, þá öðlast Ísland aðild að Orkusambandi ESB.  Það verður þó hjálenduaðild, því að fulltrúi Íslands, Landsreglarinn, mun ekki hafa atkvæðisrétt í þessari samkundu ACER-Orkustofnunar ESB frekar en önnur ríki utan ESB.  

Umræðan hérlendis um afleiðingar þessarar inngöngu hefur mest snúizt um lögfræðileg atriði, þar sem talsmenn inngöngu hafa með hæpnum lagatúlkunum sínum reynt að gera sem allra minnst úr áhrifum hennar hérlendis og reyndar haldið því fram, að þau verði hverfandi, þangað til aflsæstrengur verði tengdur við rafkerfi landsins.  Þeir hafa í þokkabót haldið því fram fullum fetum, að slíkur sæstrengur verði ekki lagður hingað án samþykkis íslenzkra yfirvalda þrátt fyrir yfirlýst hlutverk ACER að ryðja burt hindrunum í einstökum löndum í vegi bættra og aukinna millilandatenginga fyrir raforku.  Prófessor Peter Örebech, norskur sérfræðingur í Evrópurétti, hefur með vísunum til dóma ESB-dómstólsins sýnt fram á, að þessar megintúlkanir iðnaðarráðuneytisins og lögmanna á þess vegum standast ekki. Landslög víkja fyrir Evrópurétti.  Ef Alþingi hafnar þegar veittu leyfi fyrir aflsæstreng til Íslands, mun allt fara í bál og brand á milli Íslands og ESB, enda væri löggjafinn þar að fara inn á verksvið framkvæmdavaldsins og í þokkabót að ganga gegn Evrópurétti.  Slíkt verður ekki látið átölulaust að hálfu ACER/ESB, og málið mun vafalítið fara til ESA og EFTA-dómstólsins.  Samkvæmt EES-samninginum lætur sá dómstóll landslög víkja fyrir Evrópurétti, svo að það virðist litlum vafa undirorpið, að Alþingi Íslendinga verði einfaldlega beygt í duftið í slíku máli. Fullveldið er þar með farið fyrir lítið.

Þá mun koma fram hávær krafa hérlendis um að endurskoða eða segja upp EES-samninginum og gera fríverzlunarsamning við ESB.  Þeir þingmenn, sem ríghalda vilja í EES-samninginn, ættu því að gera tilraun til að verja hann með því að synja Þriðja orkumarkaðslagabálkinum staðfestingar.  Það eru engin rök, að innleiðingu á Evrópugerð hafi aldrei áður verið hafnað af Alþingi.  Hér er einfaldlega um stærsta og afdrifaríkasta mál sinnar tegundar að ræða frá upphafi EES-samningsins, og einhvern tímann verður að láta brjóta.  Norska Stórþingið hefur áður hafnað öðru máli og líklegt, að það muni sjá sig knúið til þess í málum, sem nú eru í deiglunni hjá ESB.  Ef allt fer í hund og kött við höfnun Alþingis á máli, sem líkja má við opnun landhelginnar fyrir fiskveiðiskipum ESB-landanna, þá erum við einfaldlega í svo vondum félagsskap, að skynsamlegt er að losna úr þeim viðjum.

Við samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálksins á Alþingi mun "fjórfrelsi" Innri markaðar ESB strax spanna raforkugeirann, þ.e.a.s. virkjanafyrirtækin og raforkusölufyrirtækin.  Það er ennfremur rangt, sem haldið er fram, að eignarhald á virkjanafyrirtækjum og nýtingarréttur á orkulindunum séu undanþegin reglum "fjórfrelsisins" í EES-samninginum. "Fjórfrelsið" mun strax taka gildi um viðskipti með fyrirtæki í orkuvinnslu og -sölu í raforkugeiranum og afurðir þeirra.

 Fyrsta verkefni EES eftir innleiðingu "Þriðja orkupakkans" verður að koma á laggirnar embætti Landsreglara, reglusetningararmi ACER (Orkustofnunar ESB) á Íslandi. Slíkt embætti, RME, hefur þegar verið sett á laggirnar í Noregi. Hans fyrsta verkefni á Íslandi verður væntanlega að skrifa reglugerð fyrir Landsnet með forskrift um það, hvernig stofna á til orkukauphallar á Íslandi að hætti ESB.  Þar með verða sérkenni íslenzka orkukerfisins og íslenzka orkumarkaðarins algerlega fyrir borð borin og innleitt verður hér markaðskerfi, sem er sniðið við allt aðrar aðstæður en hérlendis eru.  Þetta mun þá strax leiða til seljendamarkaðar á Íslandi í stað kaupendamarkaðar, eins og er á meginlandi Evrópu og á Bretlandi, og mun meiri hættu á tímabundnum raforkuskorti vegna tæmingar miðlunarlóna en nú er. Engin áhættugreining verður gerð fyrir markaðsvæðingu rafmagnsins, þótt gríðarlegir hagsmunir séu á ferðinni.  Stefnumarkandi rétttrúnaður ESB um, að eitt snið verði að hæfa öllum í hinu tilvonandi stórríki Evrópu, mun ráða ferðinni og hagsmunum eins smáríkis fórnað á altari "heildarhagsmuna".  Alþingismenn, sem láta spenna sig fyrir þennan vagn, eru réttrækir.  

Þeir, sem græða á þessu fyrirkomulagi, eru orkuseljendur og spákaupmenn með orku, en orkunotendur og þjóðarhagur munu líða stórlega fyrir þetta, því að hættan á orkuskorti stóreykst og kostnaður af orkuskorti á hverja orkueiningu, sem vantar,  er margfaldur á við orkuverðið.

ESB hefur sjálft sett upp 5 skilyrði þess, að frjáls orkumarkaður verði neytendum til hagsbóta.  Þau verða öll að vera uppfyllt, en á Íslandi verður ekkert þeirra uppfyllt.  Hér stefnir þess vegna í algert óefni:

  1. Markaðurinn skal mynda hæfilegan hvata til að stýra fjárfestingum í nýjum orkuverum á hagkvæman hátt.    Hér er aðdragandinn að nýjum virkjunum, leyfaferli og framkvæmdatími, mjög langur, og þess vegna er hætt við, að á tímanum, sem líður frá ákvörðun fyrirtækis um að hefja undirbúning, og þar til ný virkjun þess verður gangsett, verði miklar orkuverðshækkanir og jafnvel orkuskortur.  Vinnslukostnaður næstu virkjunar á Íslandi er að jafnaði hærri en vinnslukostnaður síðustu virkjunar, öfugt við stöðuna í ESB, og þetta dregur úr hvata hérlendis til nýrra virkjana. Þannig getur samkeppnisstaða fyrirtækja versnað við að virkja.   
  2. Markaðurinn skal tryggja, að skammtíma jaðarkostnaður ráði vali notenda á milli tegunda hráorku og á milli framleiðenda.    Þessi markaðsvirkni á engan veginn við á Íslandi, af því að í þessu samhengi kostar hráorkan, fallorka vatns og jarðgufa, ekkert.
  3.  Aðföng hráorku skulu vera trygg.    Á meginlandi Evrópu og á Bretlandi eru það eldsneytismarkaðirnir, sem sjá um að uppfylla þetta skilyrði, en sem betur fer erum við ekki háð þeim hérlendis við raforkuvinnslu. Hráorka til raforkuvinnslu hérlendis er sótt í greipar náttúru landsins, sem er dyntótt.  Sólfar, hitafar, snjóalög og regn ráða aðrennsli miðlunarlóna og getur munað svo miklu frá ári til árs, að í afar slæmum vatnsárum nái þau aðeins 80 % fyllingu, en í mjög góðum vatnsárum nemi innrennslið 120 % af nýtilegu rúmtaki plús vatnsnotkun að sumri, og þá verður nokkurra vikna yfirfall á stíflu miðlunarlóns, eins og fossinn Hverfandi úr Hálslóni er dæmi um.   Erfiðlega hefur gengið að meta getu gufuforðabúra jarðgufuvirkjana, og gefa þau mismikið eftir við notkun, svo að bora verður nýjar holur. Jarðhræringar geta haft mikil áhrif á gufustreymið upp um borholur.  Af þessum sökum og öðrum er nauðsynlegt að viðhafa samhæfða auðlindastýringu fyrir allar helztu virkjanir landsins til að nýta vatnið sem bezt og til að lágmarka hættuna á vatnsskorti í miðlun og til að ofbjóða ekki afkastagetu gufuforðabúrs.  Þessi samhæfða orkulindastjórnun er óleyfilegt markaðsinngrip á Innri markaði EES.  Þess vegna hentar hann ekki raforkuviðskiptum á Íslandi.  
  4. Trygging skal vera innbyggð í markaðskerfið fyrir virkni, sem tryggi notendum lægsta mögulega raforkuverð á hverjum tíma.  Til að tryggja afhendingaröryggi raforku skulu markaðshvatar stuðla að offramboði afls við venjulegar aðstæður.  Á Íslandi er ekki hægt að fella slíka tryggingu raforkunotendum í vil inn í markaðskerfi.  Það stafar af því, að hér verður ævinlega fákeppni raforkubirgjanna, og heildarmarkaðurinn, utan langtímasamninga, verður mjög lítill og næmur fyrir markaðsmisnotkun.  Hönnun íslenzkra vatnsorkuvera er miðuð við lágmarks orkuvinnslugetu a.m.k. 9 af hverjum 10 árum og uppsett afl er lágmarkað miðað við það og miðað við álagssveiflur, sem hér tíðkast, en álagstoppar eru tiltölulega mjög litlir hér vegna stöðugs stóriðjuálags. Hætt er við, að afkastageta gufuforðabúra sé víða ofmetin, er frá líður gangsetningu. Þessi forsenda markaðskerfis er þess vegna alls ekki fyrir hendi.
  5. Samkeppni raforkufyrirtækja skal vera á jafnstöðugrunni.                  Hérlendis er því engan veginn að heilsa, að orkuvinnslufyrirtækin standi jafnt að vígi.  Landsvirkjun ber höfuð og herðar yfir öll önnur orkuvinnslufyrirtæki í landinu og stendur langsterkast að vígi vegna mikilla og arðsamra langtímasamninga.  Tekjur af orkusölu til stóriðju er hægt að misnota til að lemja á samkeppnisaðilum um orkusölu til almennings.  HS Orka og ON, orkuvinnsluhluti OR-Orkuveitu Reykjavíkur, vinna og selja bæði heitt vatn og jarðgufu úr jörðu og nota hluta af gufuorkunni til að framleiða rafmagn.  Rafmagn er selt á samkeppnismarkaði, en heitt vatn er á einokunarmarkaði.  Því fer þannig víðs fjarri, að þetta skilyrði fyrir frjálsum raforkumarkaði til hagsbóta fyrir raforkunotendur sé uppfyllt.  

Ekkert skilyrðanna 5 fyrir frjálsum raforkumarkaði, sem Evrópusambandið sjálft setur, er uppfyllt, en hvert um sig þarf að gilda, svo að tryggt sé, að innleiðing kauphallar með raforku verði uppfyllt á Íslandi. 

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, furðaði sig á því á fundi Óðins og fulltrúaráða Sjálfstæðisflokksins í Kraganum og í Reykjavík í Valhöll, 26.10.2018, að samkeppnin í raforkugeiranum væri ekki lengra komin en raun ber vitni um.  Skýringanna er ekki að leita í döngunarleysi Landsnets, sem á að sjá um verkið, heldur í því, sem fram kemur hér að ofan, að forsendur fyrir því, að slíkur frjáls markaður verði notendum til hagsbóta, eru ekki fyrir hendi.  Til hvers að koma á slíkum markaði, ef allt bendir til, að raforkunotendur muni bera skarðan hlut frá borði slíkrar tilraunar á brauðfótum ? 

 

 


Fundur í HÍ með Peter Örebech 22.10.2018

Prófessor í lögum við Háskólann í Tromsö í Noregi, UIT, hélt ítarlegt erindi í einum af fyrirlestrarsölum Háskóla Íslands, mánudaginn 22. október 2018.  Þar hafa sennilega verið mætt tæplega 80 manns til að hlýða á hinn gagnmerka prófessor, sem einnig kom við sögu "Icesave-umræðunnar" á Íslandi og hefur einnig lagt okkur lið í hafréttarmálum og í sambandi við fiskveiðistjórnun, því að hann er jafnframt sérfræðingur í lögum, er varða fiskveiðar.  Peter veitti nokkrum fjölmiðlum viðtöl á meðan á stuttri dvöl hans á Íslandi stóð að þessu sinni, en hann hefur oft komið til Íslands áður og bregður fyrir sig "gammelnorsk", sem Norðmenn kalla tunguna, sem fornrit okkar eru rituð á.

Á fundinum tók m.a. til máls prófessor emeritus Stefán Már Stefánsson.  Hann lýsti yfir stuðningi við lögfræðilega röksemdafærslu prófessors Örebechs á fundinum, og ekki var annað á honum að heyra en hann væri kominn að þeirri niðurstöðu, að innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB fæli í sér Stjórnarskrárbrot á Íslandi.   

Á fundinum héldu líka erindi Vigdís Hauksdóttir, sem er eindreginn og skeleggur andstæðingur innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, og höfundur þessa pistils og má sjá erindi hans með enskum úrdrætti í viðhengi neðst á síðunni.

Að því bezt er vitað, er allur þingflokkur Miðflokksins sama sinnis og Vigdís í þessu máli.  Það er alveg áreiðanlegt, að langlundargeð sumra núverandi stuðningsmanna stjórnarflokkanna er tekið að dvína yfir því, hversu mjög þingflokkarnir draga lappirnar í þessu máli, og þingmenn eru ófúsir að gefa upp afstöðu í málinu.  Þetta mál getur orðið slíkur ásteytingarsteinn margra flokksmanna stjórnarflokkanna um allt land við flokka sína, ef allt fer á versta veg, að þeir söðli um í næstu kosningum og bregði sér á bak fáki þeim, er skreytir flokksmerki Vigdísar Hauksdóttur.

Það eru 4 grundvallaratriði í erindi prófessors Peters Örebech, sem skipta sköpum í umræðum og mati manna á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum:

  1. Tveggja stoða kerfinu er varpað fyrir róða:  Við málsmeðferð um val á verkefnum inn á PCI-verkefnaskrá ACER um millilandatengingar og síðan við mat á umsóknum um millilandatengingar og við úrskurð í deilumálum um millilandatengingar, t.d. um það, hvort samþykkja eða hafna eigi umsókn, er hreinræktuð einnar stoðar málsmeðferð við lýði, þ.e. EFTA-stoðin kemur hvergi við sögu.  
  2.  Gildistakan: hún hefur af talsmönnum "orkupakkans" verið sögð bundin tengingu millilandasæstrengs við raforkukerfi Íslands.  Peter Örebech hefur sýnt fram á, að það er rangt.  Við staðfestingu Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins taka öll ákvæði EES-samningsins um "fjórfrelsið" gildi fyrir íslenzka raforkugeirann.  Þar með verður stofnað hér embætti Landsreglara, sem verður reglusetningararmur ACER fyrir raforkugeirann á Íslandi.  Hann mun hafa eftirlit með stofnsetningu og starfrækslu orkukauphallar á Íslandi samkvæmt forskrift ESB og líklegt, að Nord Pool verði fengið til að setja hér upp útibú, en þar eru m.a. hin Norðurlöndin, Eystrasaltslöndin, Bretland og Þýzkaland.  Það er ljóst, að Landsvirkjun er hlutfallslega of stór til að samræmast samkeppnisreglum ESB á frjálsum markaði, en þótt Landsvirkjun verði skipt upp og íslenzka ríkið látið selja hana að hluta, þá mun hér alltaf ríkja fákeppni.  Samræmd orkulindastjórnun verður óleyfileg, og það ásamt ófullnægjandi hvötum til nýrra virkjana (án sæstrengs) getur hæglega leitt til ótímabærrar tæmingar lóns með orkuskorti og orkuskömmtun sem afleiðingu.  Áður mun þó raforkuverð í landinu rjúka upp úr öllu valdi.  Hérlendis er ekki hægt að setja á legg frjálsan raforkumarkað til hagsbóta fyrir almenning án samræmdrar orkulindastjórnunar.  
  3. Eignarhald orkulinda:  Því er haldið fram af talsmönnum orkupakkans, að eignarhald á orkulindum Íslands verði áfram á forræði íslenzkra yfirvalda.  Um þetta segir prófessor Örebech, að til að svo megi verða, verði ríkisstjórn og Alþingi að þjóðnýta allan vinnsluhluta raforkugeirans.  Það er engin fjárhagsleg skynsemi í því að binda mörg hundruð milljarða af fé ríkissjóðs í þessum geira aðeins til að geta samþykkt orkupakkann.  Í Noregi voru fyrir löngu sett lög um, að vatnsorkuver og vatnsréttindi þeirra í eigu einkafyrirtækja féllu til ríkisins að 80 árum liðnum án þess, að greiðsla kæmi fyrir.  Þessi eignarhaldstími var síðar styttur niður í 60 ár.  ESB-dómstóllinn dæmdi þetta löglegt samkvæmt Evrópurétti.  Eins og málum er nú háttað á Íslandi, verða þar engar hindranir í vegi erlendra orkufyrirtækja á EES-svæðinu að kaupa sig inn í virkjanafyrirtæki hérlendis, sem verða á markaðinum, og þannig öðlast nýtingarrétt á orkulindunum.  Það mun heldur ekki mega mismuna fyrirtækjum innan EES varðandi úthlutun á rannsóknarleyfum og virkjunarleyfum.  Inngrip stjórnvalda í orkumarkaðinn mun stríða gegn "fjórfrelsinu" eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.  
  4. Ákvörðunarvald um sæstreng: ESB þróar stöðugt kerfi til að lágmarka tímann, sem það tekur yfirvöld að samþykkja leyfisumsóknir fyrirtækja um millilandatengingar.  Fyrst forvelur ACER verkefni inn á s.k. PCI-skrá.  Þaðan fara þau í umsóknarferli hjá viðkomandi Landsreglara og yfirvaldi, sem gefur út leyfi eða hafnar umsókn, hér Orkustofnun.  Evrópugerð nr 347/2013 veitir forskrift um mat á umsóknum.  Ef Orkustofnun hafnar, en Landsreglari samþykkir, þá fer ágreiningurinn til úrskurðar ACER.  Inngrip Alþingis í þetta ferli gæti framkvæmdastjórn ESB kært fyrir EFTA-dómstólinum, og hann verður að dæma samkvæmt Evrópurétti, sem landslög víkja fyrir.  Prófessor Örebech tekur sláandi dæmi: "Við sjáum sem sagt, að gripið verður til reglnanna í "Þriðja orkupakkanum" við aðstæður, eins og þær, að t.d. finnski rafmagnsrisinn Fortun hafi í hyggju, í samstarfi við HS Orku, að leggja rör eða strengi frá Íslandi til t.d. Skotlands.  Setjum svo, að af hálfu íslenzka ríkisins verði lagzt gegn þessu.  Ef Landsreglarinn - framlengdur armur ESB á Íslandi - sem á að sjá til þess, að reglum ESB-réttarins verði framfylgt á Íslandi og sem íslenzk yfirvöld geta ekki gefið fyrirmæli - getur ekki leyst úr deilunni, verður um hana úrskurðað innan ACER, eða jafnvel í framkvæmdastjórn ESB samkvæmt ESB gerð nr 713/2009, sjá grein 4 d), sbr grein 8.1 a) og innganginn, málsgrein 10."  Það er þannig nú þegar kýrskýrt, að með því að staðfesta "Þriðja orkupakkann", þá afsalar Alþingi íslenzkum stjórnvöldum öllum heimildum til að koma í veg fyrir lagningu aflsæstrengs til Íslands, sem fullnægir skilmálum ESB/ACER.  Til hvers héldu menn eiginlega, að refirnir væru skornir ?  Barnaskapurinn og einfeldningshátturinn ríða ekki við einteyming, ef menn halda, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn og Orkustofnun ESB, ACER, séu bara upp á punt.  Það eru stórfelldir hagsmunir í húfi fyrir orkuhungrað Evrópusamband.  Því miður fara hagsmunir Íslands og ESB ekki saman í þessu máli, og það er tiltölulega auðútskýranlegt fyrir búrókrötum framkvæmdastjórnarinnar og stjórnmálamönnum leiðtogaráðs og ESB-þings. 

  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Átta skilyrði Norðmanna

Það er himinn og haf á milli viðhorfa þeirra, sem telja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn verða Íslendingum meinlausa eða jafnvel gagnlega og hinna, sem telja þessa innleiðingu vera brot gegn Stjórnarskrá lýðveldisins og/eða þjóðhagslega hættulega aðgerð.  

Fylgjendur innleiðingarinnar tína sumir það til, að Sameiginlega EES-nefndin hafi samþykkt "pakkann" og Alþingi beri að staðfesta gjörninginn, annars megi búast við refsiaðgerðum að hálfu ESB í garð Íslendinga og jafnvel Norðmanna líka, jafnvel brottrekstri úr EES.  Þessi málflutningur ber vott um þrælslund og þrælsótta, en er hvorki reistur á lögfræðilegum ályktunum né vandaðri áhættugreiningu. Það kom fram hjá prófessor Peter Örebech, sérfræðingi, í Evrópurétti, á fundi Heimssýnar o.fl. á Háskólatorgi 22.10.2018, að lögfræðilega er réttur Alþingis til að synja Þriðja orkupakkanum staðfestingar innbyggður í EES-samninginn og að þessi réttur er jafnskýr og rétturinn til staðfestingar.  Brottrekstur úr EES fyrir synjun er þess vegna útilokaður, enda óframkvæmanlegur innan stjórnkerfis ESB. 

Svo eru aðrir fylgjendur pakkans, sem aðallega hampa skaðleysi hans og telja hann litlu sem engu breyta hér innanlands fyrr en hingað verður lagður sæstrengur.  Norski lagaprófessorinn, Peter Örebech, hefur hrakið þetta viðhorf með lagalegum rökum og vísunum til dóma ESB-dómstólsins.  Niðurstöður hans ganga þvert á lagatúlkanir tveggja íslenzkra lögmanna, sem ritað hafa greinargerðir til iðnaðarráðherra um afleiðingar innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB.  Með fullri virðingu fyrir lagatúlkunum lögmannanna, þá ræður lagatúlkun ESB-dómstólsins öllu um framvinduna, og dómarnir hafa sitt fordæmisgildi.  Vekur óneitanlega furðu, að þrátt fyrir lagatúlkanir lögmannanna í löngu máli, þá studdust þeir ekkert við dómsuppkvaðningar ESB-dómstólsins.  

Það er til marks um miklar efasemdir í Noregi í garð Þriðja orkumarkaðslagabálksins, að Stórþingið samþykkti bálkinn í marz 2018 með 8 skilyrðum, sem voru þó ekki lögfest, heldur eins konar bókun eða þingsályktun, sem send var framkvæmdastjórn ESB með bréfi um staðfestingu Stórþingsins á pakkanum.  Það er því miður ólíklegt, að þessi aðferðarfræði Norðmanna hafi nokkur áhrif í Brüssel, sem á þessu stigi máls er ekki ginnkeypt fyrir undanþágum við Evrópugerðir og tilskipanir, sem gilda eiga með sama hætti um allt EES-svæðið, enda mundi mismunandi framkvæmd gerðanna skapa rugling, óvissu og óánægju.  Þar gildir "take it or leave it", allt eða ekkert, og er það skiljanlegt fyrirkomulag á þeim bæ. 

Þegar skilyrði Norðmanna eru skoðuð, kemur í ljós, að óttinn við "pakkann" í Noregi hefur að flestu leyti verið af sama toga og á Íslandi, en því miður valdi Stórþingið að taka gríðarlega áhættu með samþykkt "pakkans", væntanlega í krafti sterkrar stöðu Norðmanna sem olíu-, gas- og rafmagnsbirgjar fyrir orkuhungraða Evrópu.  

Skoðum skilyrði Stórþingsins.  Samþykkt þessara skilyrða réði úrslitum þar um þá niðurstöðu, sem varð:

  1. Vatnsaflsauðlindirnar skulu lúta norskum lögum og nýting þeirra taka mið af þjóðarhag.  -----   Þetta er líka baráttumál andstæðinga innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi.  Norski lagaprófessorinn, Peter Örebech, hefur sýnt fram á, að með samþykkt téðs bálks ESB munu öll löggjöf og reglur Innri markaðar EES taka gildi um orkugeirann.  Það þýðir, að ekki má mismuna fyrirtækjum innan EES í viðskiptum með orkufyrirtæki og þar með nýtingarrétt eða rannsóknarrétt á orkulindunum.  Ef eigandinn er í öðru landi, er ekki lengur sjálfgefið, að nýtingin taki mið af þjóðarhag, verðmætasköpun og atvinnusköpun í landinu, heldur verði megináherzlan á beinan útflutning raforku. Þessi fyrirvari Norðmanna er í uppnámi á Innri markaði EES, því að þjóðarréttur víkur fyrir Evrópurétti við réttarframkvæmd. 
  2. Núverandi opinbert eignarhald norskra vatnsorkulinda skal vera áfram í gildi, og a.m.k. 2/3 þeirra skulu vera í opinberri eigu.  ----  Það, sem brýtur í bága við Evrópurétt í þessu sambandi, er, að einn aðili, t.d. ríkið, eigi svo mikla markaðshlutdeild, að samkeppnisstaðan skekkist samkvæmt samkeppnislögum ESB.  Í Noregi er varla hætta á slíku, því að stærsta fyrirtækið, Statkraft, þeirra Landsvirkjun, hefur "aðeins" 34 % markaðshlutdeild þar í landi.  Þó er mögulegt, að ríkiseign í öðrum virkjunarfyrirtækjum kunni að verða flokkuð sem ríkisstuðningur á samkeppnismarkaði, sem brýtur í bága við Evrópurétt.  Sveitarfélög og fylki eru hins vegar stórir eignaraðilar að virkjunum í Noregi, og varla verða gerðar athugasemdir við það.  Á Íslandi gegnir allt öðru máli.  Landsvirkjun er með 80 % markaðshlutdeild, og verður henni vafalítið skipt upp og að verulegu leyti seld á EES-markaði að kröfu ESA af samkeppnisástæðum á frjálsum orkumarkaði.  Af því hlytist gríðarlegt þjóðhagslegt tjón hérlendis.  Eina lagalega ráðið til að koma í veg fyrir það er að þjóðnýta allan orkugeirann, og það er ófær leið af eignarréttarlegum ástæðum. 
  3. Raforkuvinnsla úr endurnýjanlegum orkulindum Noregs skal leiða til aukinnar verðmætasköpunar og atvinnusköpunar í Noregi og til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með endurnýjanlegri orku.                    -----------------------Þetta er greinilega sett fram til að stemma stigu við auknum útflutningi raforku um sæstrengi, og umræðan er svipuð á Íslandi.  Munurinn er þó sá, að Norðmenn hafa átt umframorku til að flytja utan, en á Íslandi er hún jafnaðarlega sáralítil, og það verður hægt að nýta hana betur innanlands með því að útrýma flöskuhálsum í flutnings- og dreifingarkerfi raforku.  Viðbótar orkuþörf hérlendis til 2050 má meta 7 TWh/ár [terawattstundir á ári í virkjunum eða um 37 % af núverandi orkuvinnslugetu] og samkvæmt bjartsýnni Rammaáætlun um orkuvinnslugetu jarðgufu má búast við viðbótar orkuvinnslugetu tæplega 10 TWh/ár, en hún gæti líka orðið talsvert minni, ef mið er tekið af rýrnun jarðgufuforða við virkjun á Hellisheiði.  Flutningsgeta sæstrengs frá Íslandi er á bilinu 5-10 TWh/ár.  Þetta þýðir, að haldi núverandi stóriðja áfram starfsemi sinni hér, þá verður engin orka til skiptanna fyrir sæstreng í framtíðinni, nema aukinn þrýstingur um fleiri virkjanir í nýtingarflokk vegna orkusölu um sæstreng beri ávöxt.  Að selja raforku frá Íslandi um sæstreng áður en orkuskiptum er lokið, er þjóðhagslegt glapræði. Ef sá sæstrengur ætti að skila eigendum sínum hagnaði m.v. núverandi orkuverð í Evrópu, yrði að selja orkuna inn á hann með tapi, eða hann yrði að njóta verulegra styrkveitinga, t.d. að hálfu ESB. 
  4. Norsk yfirvöld skulu sjálfstætt hafa stjórn á öllum ákvörðunum, sem þýðingu hafa fyrir afhendingaröryggi orku í Noregi, þ.m.t. ákvarðanir tengdar iðnaðinum og rofi á afhendingu rafmagns.- Hér hafa Norðmenn greinilega áhyggjur af því, að samkvæmt ákvæðum EES-samningsins um Innri markaðinn eru magntakmarkanir á viðskiptum, t.d. inn- og útflutnings, óheimilar.  Þarna er gerð tilraun til að halda í núverandi vald norskra stjórnvalda til að draga úr útflutningi raforku í tæka tíð, er lækkar í miðlunarlónum, í stað þess að þurfa að rjúfa eða takmarka afhendingu raforku til iðnfyrirtækja áður en kemur til almennrar skömmtunar á rafmagni í landinu.  Hér á Íslandi er þessi hætta miklu meiri en í Noregi, þ.e. að grípa þurfi til stórfelldra skerðinga til stóriðju með aðeins eina utanlandstengingu, sem kann að bila, þegar miðlunarlón eru í lágmarki.  Löngu áður hefur rafmagnsverð á frjálsum markaði hérlendis þá rokið upp úr öllu valdi.  Samkvæmt samningum á skerðing forgangsorku í neyð að verða hlutfallslega jafnmikil hjá stóriðju og almenningsveitum.  Ef þessi staða kemur upp, verður gríðarlegt tjón um allt þjóðfélagið.  Af þeim sökum og fleirum má löggjöf landsins ekki verða með þeim annmörkum, að hún beinlínis bjóði þessari hættu heim. Ef hér verður innleitt stjórnfyrirkomulag á raforkumarkaði, sem sniðið er við gjörólíkar aðstæður þeim, sem hér ríkja, þá er hættunni vísvitandi boðið heim.  Hver ætlar að axla þá ábyrgð ? 
  5. Ákvarðanir um hugsanlega nýja utanlandsrafstrengi skulu áfram vera alfarið á valdi norskra yfirvalda, og reynsluna af strengjunum tveimur, sem nú eru á verkefnastigi, skal yfirfara áður en hægt verður að huga að fleiri mililandatengingum.- Þetta skilyrði Norðmanna sýnir tvennt: í fyrsta lagi hafa þeir, eins og margir hérlandsmenn, áttað sig á því, að Evrópurétturinn er búinn að svipta aðildarþjóðir ESB og þar með EFTA-þjóðirnar, sem játast Orkusambandi ESB, réttinum til að ákveða sínar millilandatengingar sjálfar.  Í öðru lagi er það nú runnið upp fyrir Norðmönnum, að eftir tengingu nýrra sæstrengja til Þýzkalands og Englands, sem á döfinni er, verður orka af skornum skammti eftir fyrir sæstrenginn Northconnect, sem áformaður er frá Hörðalandi til Peterhead á Skotlandi. Norðmenn eru að því leyti að komast í svipaða aðstöðu og Íslendingar að þurfa að virkja fyrir orkusölu um sæstreng til að komast hjá orkuskorti, og þá koma auðvitað strax á þá vöflur.  Af þess sést, að vísun hérlendra sæstrengssinna til Noregs sem góðs fordæmis fyrir Íslendinga að þessu leyti er út í hött. 
  6. Hugsanlegir nýir strengir skulu vera þjóðhagslega hagkvæmir.    -------------------------------   Þetta þýðir, að þeir skulu nýta umframorku í landinu.  Ef hún hrekkur ekki til fyrir eftirspurn um strenginn og flutningsgetu hans, þá mun sá strengur valda mikilli raforkuverðshækkun í Noregi, af því að raforkuverð á Skotlandi hefur oft verið tvöfalt raforkuverðið í Noregi.  Slíkar raforkuverðhækkanir í Noregi verða mikil þjóðhagsleg byrði, sem fellir viðbótar streng á 6. skilyrðinu. Þetta er staða, sem verkalýðshreyfing Noregs óttaðist alveg sérstaklega, þegar umræður um téðan orkubálk geisuðu í Noregi haustið 2017 og veturinn 2018, m.a., að þessar orkuverðshækkanir myndu verða orkukræfum fyrirtækjum um megn, en hluti raforkukaupa þeirra fer fram í orkukauphöllinni í Ósló.   
  7. Statnett skal eiga og reka allar framtíðar millilandatengingar.  Þetta skal fella inn í orkulöggjöfina.   --------------------------    Þarna birtist norskt viðhorf til millilandatenginga, sem ríkt hefur þar í landi frá upphafi slíkra tenginga, en er í algerri mótsögn við fjórfrelsið á Innri markaði EES.  Þessu gera Norðmenn sér grein fyrir, og þess vegna var hnykkt á með því að krefjast lagasetningar um þetta skilyrði.  Þótt það verði lögfest, eru litlar líkur á, að Norðmenn komist upp með þetta í blóra við Evrópurétt, sem líður það ekki, að yfirvöld beiti sér fyrir forréttindastöðu ríkisfyrirtækja á markaði.  Ágreiningur mun þá fara fyrir ESA og líklega lenda hjá EFTA-dómstólinum, sem dæmir að Evrópurétti.  Það mun verða pólitískur óróleiki í Noregi, þegar reyna mun á þetta atriði.  Það gæti gerzt varðandi Skotlandstenginguna, Northconnectstrenginn, en leyfisumsókn frá Northconnect-félaginu er nú til umfjöllunar hjá NVE-Orkustofnun Noregs og RME-Reguleringsmyndighet for energi, sem er Landsreglari Noregs. Ef þessir aðilar samþykkja umsókn um þennan u.þ.b. 10 TWh/ár sæstreng, þá verður ljóst, að 7. skilyrði Norðmanna, sem ættað er frá stærsta stjórnmálaflokki Noregs, Verkamannaflokkinum, sem úrslitum réði um samþykkt Stórþingsins á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, hefur verið virt að vettugi. Þess má geta, að Statnett hefur sem umsagnaraðili sæstrengsins lagt til höfnun á þeim grundvelli, að orku muni skorta fyrir hann í Noregi.  Ef NVE hafnar umsókn, en Landsreglari samþykkir hana, þá fer ágreiningurinn til úrskurðar ACER, ef þá verður búið að innleiða Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB í EES-samninginn með samþykkt Alþingis.  Annars getur umsækjandi kært úrskurðinn til ESA.  
  8.  Hagnað af aflsæstrengjunum skal áfram verða unnt að nota til að lækka gjaldskrár flutningskerfisins ásamt til viðhalds og stækkunar norska stofnkerfisins.    ---------------------------  Þetta skilyrði er til komið vegna nýrrar tilskipunar ESB, sem þrengir mjög ráðstöfunarrétt eigenda sæstrengja til að verja hagnaði af strengjunum í annað en að bæta eða auka millilandatengingarnar.  Þetta þykir Norðmönnum ósanngjarnt, því að þeir (Statnett) hafa varið háum fjárhæðum til styrkinga stofnkerfis síns, svo að það yrði í stakk búið til orkuflutninga að og frá sæstrengjunum.  Sá kostnaður hefur allur lent á innlendum raforkunotendum á formi gjaldskrárhækkana.  Endurspeglar þessi nýja tilskipun ESB hugsunarháttinn á þeim bæ, þ.e. að fórna hagsmunum einstakra landa fyrir hagsmuni heildarinnar innan EES.  Það, sem er þjóðhagslega óhagkvæmt í Noregi, getur verið samfélagslega hagkvæmt í ESB/EES.  

 


Raforkumarkaðurinn og Þriðji orkupakkinn

Á fundi SES (Samband eldri sjálfstæðismanna) í Valhöll í hádeginu 10. október 2018 komu fram hjá gesti SES að þessu sinni, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ÞKRG, fáein atriði varðandi Þriðja orkupakkann, sem þarfnast leiðréttingar:

  1. ÞKRG kvað engar grundvallar breytingar verða á landshögum frá Öðrum orkupakka til Þriðja orkupakka.
  2. ÞKRG kvað engar breytingar verða á raforkumarkaðnum án sæstrengs.
  3. ÞKRG mun ekki samþykkja framsal auðlinda.
  4. KKRG telur tveggja stoða lausn EES-samnings grundvallar atriði.
(1)
Samkvæmt prófessor Peter Örebech, sem er norskur sérfræðingur í Evrópurétti, felur innleiðing Þriðja orkupakkans í sér, að allur íslenzki orkugeirinn lúti reglum Innri markaðar EES undir eftirliti Landsreglara. Þar með fer raforkumarkaðurinn skilyrðislaust í kauphöll og öll virkjanafyrirtækin og sölufyrirtækin verða á EES-markaði, þar sem ekki má mismuna eftir þjóðernum. Landsvirkjun verður óhjákvæmilega skipt um vegna hlutfallslegra yfirburða á innlenda markaðinum. Ekki má mismuna erlendum aðilum í EES við úthlutun rannsóknarleyfa og virkjanaleyfa.
Þetta mun allt gerast undir eftirliti Landsreglarans.
(2) 
Prófessor Peter Örebech (PÖ) hefur hrakið með sinni lögfræðilegu greiningu, sem finna má í viðhengi með þessari færslu, þá staðhæfingu, að nánast engar breytingar verði á raforkugeiranum íslenzka fyrr en sæstrengur hefur tengt íslenzka raforkukerfið við útlönd. PÖ kveður það fráleitt og færir fyrir því rök, sjá II. kafla, grein 1, að það, sem leysir öll ákvæði EES-samningsins um "frelsin 4" úr læðingi fyrir orkugeirann, verði innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn.  "Frelsin 4" eru sem sagt óvirk undir Öðrum orkubálkinum, en hvort sæstrengstenging er fyrir hendi við innleiðingu þess þriðja, breytir nákvæmlega engu um lagalega virkni hans á Íslandi. Þetta þurfa t.d. Alþingismenn að gaumgæfa rækilega.
 
Raforkuviðskipti verða markaðsvædd undir eftirliti Landsreglara.  Á Íslandi eru engar forsendur fyrir hendi til að stofna til markaðsdrifins raforkumarkaðar, sem gagnast gæti fjölskyldunum í landinu og fyrirtækjunum, enda verður hér óhjákvæmilega alltaf fákeppnismarkaður.  Samkvæmt ESB eru forsendur fyrir vel virkandi raforkumarkaði í þágu álmennings þessar, og þær verða allar að vera fyrir hendi:
A) Markaðurinn myndar hæfilegan hvata til að stýra fjárfestingum á hagkvæman hátt.   Á Íslandi myndast þessi hvati ekki fyrr en orkuverð er tekið að hækka vegna orkuskorts.  Þetta stafar af því, að orka frá nýjum virkjunum er dýrari í vinnslu en frá þeim eldri. Þessu er öfugt farið í raforkukerfum, sem að mestu eru knúin jarðefnaeldsneyti.  
 
B) Markaðurinn tryggi, að skammtíma jaðarkostnaður ráði vali á milli tegunda hráorku og framleiðenda.
Á Íslandi eru tegundir hráorku í megindráttum tvær, fallvatnsorka og jarðgufa. Þær eru eðlisólíkar, og virkjanir þeirra eru ólíkar að gerð.  Samkeppnishæfni vatnsorkuvera er miklu meiri, því að afl frá þeim er auðreglanlegt, en frá gufuverum torreglanlegt.  Skammtíma jaðarkostnaður vatnsorkuvera er mun lægri en gufuvera, nema þegar vatnsskortur blasir við í miðlunarlónum.  Valið í B er þess vegna bundið á Íslandi, og þetta getur á frjálsum markaði hæglega leitt til hraðrar tæmingar miðlunarlóna, á meðan jarðgufuverin eru vannýtt.
 
C) Aðföng hráorku verða að vera trygg.  Á Íslandi er þetta algerlega undir hælinn lagt.  Hráorka vatnsorkuveranna er háð duttlungum náttúrunnar, og stöðugleiki jarðgufuforðans á virkjunarstöðunum er óvissu undirorpinn.  Enginn veit með vissu, hver er sjálfbær aflgeta virkjaðs jarðgufusvæðis.
 
(D) Trygging skal vera fyrir virkni til hagsbóta fyrir notendur.   Raforkukerfi ESB eru hönnuð til að hafa nægt afl tiltækt á hverjum tíma.  Þar er þess vegna við venjulegar aðstæður ofgnótt afls.  Á Íslandi er þessu öfugt farið.  Hér eru virkjanir sniðnar við ákveðna orkuvinnslugetu í venjulegu árferði, en umframafl við fulla orkuvinnslu er sáralítið.  Tiltölulega jafnt álag á raforkukerfið allt árið um kring hefur þann kost, að hægt er að lágmarka fjárfestingu í uppsettu afli í hverri virkjun og mjög há nýting verður á véla- og spennaafli virkjananna.  Þetta veldur umtalsvert lægri orkuvinnslukostnaði en ella, en það má hins vegar lítið út af bera.  
 
(E)  Trygging skal vera fyrir eðlilegri samkeppni.  Þetta þýðir, að mörg fyrirtæki eru innan hverrar orkugreinar, t.d. kolaorkuver, gasorkuver o.s.frv.  Þessu er alls ekki til að dreifa á Íslandi, þar sem raforkunotendur verða alltaf að búa við fákeppni.
 
Þrátt fyrir, að engin þessara 5 forsendna fyrir vel virkandi markaðskerfi til hagsbóta fyrir raforkunotendur sé uppfyllt, þá lagði ESB samt ríka áherzlu á það í Sameiginlegu EES-nefndinni, að öll EFTA-ríkin í EES innleiddu hjá sér Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB.  Það sýnir svart á hvítu, að gjörningurinn er ekki ætlaður til að bæta hag Íslendinga, heldur miklu líklegar til að setja orkulindir Íslands á sameiginlegan raforkumarkað EES. Hagsmunir orkunotenda í ESB verða þá hafðir í fyrirrúmi, en hagsmunum orkunotenda á Íslandi verður þannig óhjákvæmilega fórnað.  Það mun t.d. koma fram í sveiflukenndu og yfirleitt hærra raforkuverði.  Vandamálið, þ.m.t. verðhækkanir, fyrir innlenda notendur mun svo magnazt, ef sæstrengur verður lagður til landsins.  Magntakmarkanir á útflutningi raforku eru óleyfilegar á Innri markaði EES.  Til þeirra verður ekki gripið fyrr en hér verður allt komið í óefni, raforkuverð komið upp úr öllu valdi og orkuskortur blasir við (lón nálægt því að tæmast).  Þegar svo er komið, er mjög óvarlegt að reiða sig á "einn hund að sunnan".  
 
(3)
Annað þeirra meginatriða, sem lögfræðileg greining Peters Örebechs (í viðhenginu) leiddi til, var, að íslenzk stjórnvöld glata öllu forræði á orkulindunum og virkjununum í hendur hins frjálsa markaðar, Innri markaðar EES.  Samkvæmt greiningu PÖ tók Birgir Tjörvi Pétursson algerlega rangan pól í hæðina, þegar hann skrifaði í greinargerð sína:
"Þá varða reglur þriðja orkupakkans eða samþykkt sameiginlegu EES-nefndarinnar um aðlögun hans að samningnum ekki á nokkurn hátt eignarrétt á orkuauðlindunum á Íslandi."
 
PÖ sýnir fram á með vísun til dóma ESB-dómstólsins, sem er hinn endanlegi úrskurðaraðili um túlkun Evrópuréttarins, að þessu er þveröfugt farið.  Við samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálksins virkjast allar reglur Innri markaðarins, t.d. um frjálst flæði fjármagns, fyrir orkugeirann í heild sinni, og mismunun eftir þjóðernum verður óleyfileg á öllum sviðum viðskipta innan EES, þ.m.t. á sviði fjárfestinga.   
Hér er um grafalvarlegan misskilning a.m.k. tveggja íslenzkra lögfræðinga, sem tjáð hafa sig um þetta mál, að ræða, og sá misskilningur getur orðið landsmönnum dýrkeyptur.  Iðnaðarráðherra hefur lagt trúnað á þessa íslenzku lagatúlkun, en hún ætti að gefa gaum að því, sem Evrópuréttarfræðingurinn, Peter Örebech, hefur fram að færa, og þingmönnum ber að láta fullveldi Íslands á orkusviðinu njóta vafans, þegar þeir gera upp hug sinn.
 
(4)
Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins hafa sagt, að þau telji vera grundvallaratriði við framkvæmd EES-samningsins, að s.k. tveggja stoða kerfi hans sé virt af ESB, þ.e. að jafnræði sé með EFTA og ESB við innleiðingu og framkvæmd Evrópugerða og tilskipana.  Að túlka hlutverk ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, sem sjálfstæða spegilmynd af framkvæmdastjórn ESB er mjög langt seilzt í vafasamri túlkun varðandi framkvæmd Þriðja orkumarkaðslagabálksins, því að um það var samið, að ESA tæki enga sjálfstæða afstöðu til þeirra boða, sem frá ESB/ACER munu berast til viðkomandi Landsreglara, heldur mun ESA einfaldlega virka sem ljósritunarstofa fyrir boð í báðar áttir, og er þá ljóst, að fyrirkomulagið er sett upp, til að stjórnarskrárbrotin verði ekki jafnaugljós, bæði í Noregi og á Íslandi.
PÖ bendir á í greiningu sinni, að mjög sígi á ógæfuhliðina í þessum efnum með styrkingu ACER í "Orkuáætlun 2019-2021,Project of Common Interest", (PCI) og vitnar í eftirfarandi ESB-texta þessu til sönnunar:
 
"Árið 2013 kynnti TEN-E [Trans-European Energy Network-Electricity] stofnunin nýjan grunn fyrir þróun mjög mikilvægra orkuinnviða - PCI - , þar sem ACER var fengið það hlutverk að finna PCI-verkefni og að aðstoða Landsreglarana við að fást við fjárfestingarbeiðnir [t.d. sæstrengjaumsóknir-innsk. BJo] frá aðstandendum PCI-verkefna, þ.m.t. kostnaðarskiptingu fyrir millilandaverkefni."
 
PÖ bendir á, að gagnvart EFTA-ríkjunum sé tveggja stoða kerfið hundsað með þessu fyrirkomulagi og einnar stoðar kerfi ESB innleitt.  Þetta er brot á EES-samninginum, sem forysta Sjálfstæðisflokksins og annarra stjórnmálaflokka ættu að hugleiða vandlega.  
 
Eins og fram kom hér að ofan, mun innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálksins hafa í för með sér stórhættu á orkuskorti hérlendis að öllu óbreyttu. Þetta er grafalvarlegt fyrir afkomu fjölskyldna, fyrirtækja og fyrir hagkerfi landsins.  Samkeppnisstaða landsins um nýfjárfestingar í iðnaði, gagnaverum og annarri starfsemi, sem þarf að reiða sig á áreiðanlega raforkuafhendingu, fellur þá niður úr öllu valdi, sem þýðir, að fjárfestingar á þessu sviði munu þurrkast upp, og fyrirtæki munu jafnvel flýja af hólmi með sína starfsemi.  
Til mótvægis við þessa áhættu þarf að koma á laggirnar embætti Auðlindareglara, sem hefur vald til að stjórna miðlun úr lónum.  Slík inngrip í markaðinn eru algerlega bönnuð á Innri markaði EES, og þetta er ein ástæðan fyrir því, að hafna á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum hérlendis.
 
Prófessor Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, mun halda fyrirlestur um sitt sjónarhorn á Þriðja orkumarkaðslagabálkinn og greiningar sínar á helztu afleiðingum innleiðingar hans á Íslandi og í Noregi í Háskóla Íslands, Háskólatorgi, mánudaginn 22.10.2018 kl. 1715. Þar mun gestum gefast kostur á að spyrja prófessor Örebech um efni tengt þessum orkubálki ESB og skyldum Evrópugerðum ásamt túlkunum ESB-dómstólsins á þeim, sem enginn gaumur virðist hafa verið gefinn að hérlendis til þessa.    
 
 
 
 
 

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Af hræðsluáróðri og Evrópugerð um innviði

 Það kennir ýmissa grasa hjá þeim, sem vinna að eða styðja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  Þau grös eru þó bæði visin og rytjuleg, sem kenna má við gagnsemi fyrir Ísland af innleiðingunni.  Satt að segja alger eyðimörk.  Hitt er fjölbreytilegra, sem snýr að illspám og getsökum, einkum um viðbrögð ESB.  Skuggalegasta dæmið hafa jafnvel þingmenn gert sig seka um að nota, en það snýst um, að hafni Alþingi téðum orkupakka, þá verði Íslandi sparkað út af Innri markaði EES.  

Það væri fróðlegt að vita, hvaðan þessi dauðans della er upprunnin, og síðan étur hana hver upp eftir öðrum án þess að kanna ferlið, sem slík refsitillaga þarf að fara í innan ESB til að öðlast gildi, og gerir hún það þó fyrst að ári liðnu frá samþykkt.  

Gefum okkur eitt andartak í dæmaskyni, að Lúxemborgarinn Juncker, forseti Framkvæmdastjórnarinnar, sannfærist um, að bezt sé fyrir ESB og EES-samstarfið að segja upp EES-samninginum við Ísland.  Til að slík ákvörðun öðlist gildi hjá ESB, þurfa allir þrír meginarmar ESB, Framkvæmdastjórn Junkers, Leiðtogaráð Pólverjans Donalds Tusk og Evrópuþingið að samþykkja slíka tillögu samhljóða.  Öll 28 aðildarríki ESB verða að samþykkja slíka tillögu, til að hún öðlist gildi.

Efnahagslegur ávinningur ESB af slíkri ákvörðun yrði enginn, það hlypi óhjákvæmilega snurða á þráð EES-samstarfsins vegna óánægju Norðmanna með slíkan yfirgang sambandsins, og málið yrði pólitískur hnekkir fyrir ESB ofan í BREXIT-uppákomuna.  Þess vegna eru alveg hverfandi líkur á slíkum viðbrögðum ESB.  Hugmyndin hér uppi á Íslandi er algerlega vanhugsuð og reist á vanþekkingu á kerfi ESB og hagsmunagæzlu þeirra, sem þar ráða för.  Þeir hérlendir menn, sem slíkum hræðsluáróðri dreifa, berskjalda sig og geta hæglega orðið að aðhlátursefni fyrir vikið. Ekki meira um það að sinni.

Ef Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB verður samþykktur á Alþingi, bíður flóð Evrópugerða á orkusviði innleiðingar Alþingis að kröfu ESB.  Hér verður  Innviðagerðin frá 2013, Evrópugerð nr 347/2013, gerð að umfjöllunarefni.  Þegar hún hefur verið innleidd í kjölfar "pakkans", þá myndast brimbrjótur fyrir áhugasöm fyrirtæki innan EES um lagningu sæstrengs fyrir samþykki leyfisumsókna sinna. 

 Umræddar gerðir hafa verið settar í bið hjá Sameiginlegu EES-nefndinni, þar til af inngöngu EFTA-landanna verður í ACER (með áheyrnaraðild), en enginn þarf að velkjast í vafa um vilja utanríkisráðuneytisins til að samþykkja þær þar og Alþingis að staðfesta, ef Þriðji orkupakkinn verður staðfestur á annað borð.  Þess vegna er beinlínis villandi að líta á "pakkann" sem einangrað fyrirbæri.  Það verður að skoða áhrif hans í samhengi við allar reglur Innri markaðarins og í samhengi við allar nýjar gerðir á orkusviði frá útgáfu "pakkans" 2009.  

Samkvæmt 347/2013 gildir:

  1. PCI-verkefni (Projects of Common Interest, þ.á.m. Ice-Link, sæstrengur til Íslands), samþykkt af ENTSO-E, samtökum rafmagnsflutningsfyrirtækja í Evrópu, þar sem m.a. eru Landsnet og norska Statnett, skulu samkvæmt kafla 7 í Innviðagerðinni njóta algers forgangs við áætlanagerð, einnig í Kerfisáætlunum hvers lands, hér Landsnets,og við afgreiðslu leyfisumsókna, sem verður formlega á hendi Orkustofnunar hér.
  2. Fyrir PCI-verkefni skulu, samkvæmt kafla 10, ekki líða meira en 18 mánuðir frá afhendingu leyfisumsóknar til afgreiðslu hennar. Afgreiðslutímann má framlengja um 9 mánuði, en til þess þarf góðan rökstuðning.
  3. Grundvöllur samþykktar eða höfnunar er samfélagslegur ágóði.  Samfélag í þessu sambandi eru ESB- og EFTA-ríkin. Samkvæmt kafla 11 skulu þessi samtök raforkuflutningsfyrirtækja, ENTSO-E, útbúa matsreglur umsóknar, og þær skulu hljóta samþykki ACER og staðfestingu Framkvæmdastjórnar ESB.  ENTSO-E er þannig verkfæri ESB og eins konar flutningsfyrirtæki þess.  
  4. Ef PCI-verkefni rekst á hindrun í einhverju landi, skal, samkvæmt kafla 6, útnefna evrópska samræmingaraðila, sem reyna að ná sáttum, en óleyst deilumál verða útkljáð innan vébanda ACER.
  5. Útnefna skal faglega hæfan aðila í hverju landi, [hér er átt við Landsreglarann, sem starfa mun eftir samræmdum ESB-reglum í öllum ESB/EFA löndunum, utan Sviss], sem skal bera faglega ábyrgð á og greiða götu umsóknar ásamt því að samræma málsmeðferð umsóknarinnar við matsreglurnar.   

Af þessu má draga þá ályktun, að Orkustofnun verður ekki leyft að draga lappirnar við mat á umsókn um millilandasæstreng, og hún mun verða að meta leyfisumsókn um sæstreng í nánu samstarfi við ábyrgan fagaðila, líkast til embætti Landsreglara, eftir samræmdum reglum ESB. Þannig er ljóst, að vilji íslenzkra stjórnvalda  mun alls ekki verða ráðandi við ákvarðanatöku um sæstreng til útlanda, heldur mat á samfélagslegum ágóða, sem reist er á samræmdum reglum ESB, og þar sem samfélagið er ekki Ísland, heldur EES. Að óreyndu má ætla, að öll PCI-verkefni verði samþykkt, því að verkefni komast á þá skrá aðeins að athuguðu máli að hálfu ACER. 

Ef Alþingi ákveður fyrir sitt leyti að banna samþykkt PCI-verkefni, er risið upp mikið deilumál á milli Íslands og ESB.  Landsreglari mun að athuguðu máli tilkynna slíkt bann til ACER, og ACER gefur skýrslu til framkvæmdastjórnar ESB, sem sendir kvörtun um, að þingið leggi stein í götu framkvæmdar samþykkts PCI-verkefnis.  Framkvæmdastjórnin sendir þá kvörtunarbréf til ríkisstjórnar Íslands.  Ef hún þverskallast við að leggja fram frumvarp um afturköllun bannsins, þá mun deilumálið fara til EFTA-dómstólsins, sem dæma mun þetta mál samkvæmt Evrópurétti, og þá er ekki að sökum að spyrja.

Ef Orkustofnun hafnar umsókn og Landsreglarinn er á öndverðum meiði, þá fer ágreiningurinn til ACER, sem úrskurðar um málið.  Hvernig sem allt veltist, verður niðurstaða fullveldisafsalsins, sem í samþykkt Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum felst, sú, að íslenzk stjórnvöld verða að beygja sig fyrir ákvörðunarvaldi ESB um lagningu sæstrengs til landsins.  Við hverju bjuggust menn eiginlega ?  Að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn og allir hans fylgifiskar væru út í loftið og hefðu engin áhrif á Íslandi ?  O, sancta simplicitas !   

 

 


Gróft vanmat á afleiðingum innleiðingar

Manni rennur til rifja kæruleysislegt tal sumra þingmanna um alvarlegar afleiðingar þess fyrir orkulindastjórnun á Íslandi og þar með á samkeppnishæfni landsins og hag landsmanna að innleiða Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB í 4. viðauka EES-samningsins um orkumál.

Þeir þingmenn eru til, sem telja sér og öðrum trú um, að innleiðing 3. orkupakkans muni nánast engu breyta hér á landi, nema raforkukerfi landsins verði tengt við raforkukerfi lands í Orkusambandi ESB.  Þetta er  málflutningur, sem norski lagaprófessorinn, Peter Örebech, hefur hrakið rækilega í rýniskýrslu, sem hann samdi um greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, og er sem viðhengi á íslenzku með þessum pistli.

Prófessorinn bendir á, að allar reglur Innri markaðar EES taki gildi um allan íslenzka orkugeirann strax eftir samþykkt pakkans, sem þýðir, að allt í raforkugeiranum íslenzka, nema einokunarstarfsemin, verður falt gegn "réttu" gjaldi.  Þetta á við um rafmagnið sjálft og um fyrirtækin á þessum markaði, sem eiga nýtingarrétt, t.d. vatnsréttindi, í  orkulindunum. Uppskipting Landsvirkjunar með sína 80 % markaðshlutdeild verður óhjákvæmileg, sem og sala hluta úr henni á Innri markaði EES, þar sem mismunun á grundvelli þjóðernis er harðbönnuð.  Hér er um grundvallarmál fyrir Íslendinga að ræða, alveg eins og um sjávarauðlindina. Að bregða sér í líki tröllskessa, sem kasta á milli sín fjöreggi þjóðarinnar, hlæjandi og flissandi, er ekki þingmönnum sæmandi.

Prófessor Peter Örebech sýnir líka með skýru dæmi að aflokinni lagalegri útleiðslu á hrollvekjandi niðurstöðu, að íslenzk stjórnvöld munu ekki eiga síðasta orðið um það, hvort umsókn sæstrengsfjárfestis um tengingu við íslenzka raforkukerfið verður samþykkt eða hafnað.  Eftir fullveldisframsalið, sem í samþykkt Þriðja orkulagabálks ESB, hefur hugsanlegt bann Alþingis við sæstreng lítil áhrif og engin lagalega bindandi áhrif á niðurstöðuna, því að ákvörðunin mun verða í höndum Landsreglarans, ACER (Orkustofnunar ESB) og framkvæmdastjórnar ESB.  

Þessar eru meginniðurstöður sérfræðingsins í Evrópurétti, prófessors Peters Örebech.  Þær eru reistar á beztu lagalegu röksemdafærslu, sem færð hefur verið fram um afleiðingar téðrar innleiðingar til þessa.  Prófessorinn rekur dómafordæmi Evrópudómstólsins máli sínu til stuðnings.  Lagatúlkun Evrópudómstólsins er á öndverðum meiði við lagatúlkun þeirra tveggja lögfræðinga, sem iðnaðarráðherra hefur fengið til að skrifa greinargerðir um málið.  Meginboðskapur þeirra greinargerða um meinleysi innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, sem Ísland er aðili að, fellur dauður niður, að því er bezt verður séð.  Þegar Alþingismenn gera upp við samvizku sína, hvaða afstöðu þeir taka til þessa máls, verða þeir að velja á milli álitsgerða hins norska sérfræðings í Evrópurétti og lögrfæðinganna, sem iðnaðarráðuneytið hefur teflt fram.

 

Þann 5. október 2018 rituðu Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði, og Tómas Guðbjartsson, læknir og náttúruverndarsinni, grein í Fréttablaðið undir heitinu:

Hvalárvirkjun og HS-Orka.

Pistilhöfundur er ósammála þessum höfundum um afstöðuna til Hvalárvirkjunar og HS-Orku, en hann deilir þeirri skoðun með þeim, að íslenzk yfirvöld og Alþingi eiga að hafa óskoraða lögsögu um nýtingu orkulindanna.  Það þýðir, að alls ekki má fella orkugeirann undir Evrópurétt, eins og ótvírætt verður gert með samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálksins.  Það þýðir, að ESA mun gera athugasemdir við öll frávik frá "fjórfrelsinu" í orkugeiranum hér og ágreiningur verður útkljáður af EFTA-dómstólinum.  Umræddri grein lauk þannig:

"HS-Orka er í meirihlutaeigu (51 %) kanadískra auðjöfra, en fyrirtækið greiddi á árinu 2017 sem næst MISK 35 í auðlindagjald fyrir afnot af jarðhitasvæðinu á Reykjanesi.  Við Íslendingar verðum að spyrja okkur, hvort eðlilegt geti talizt, að erlendir fjárfestar geti keypt land eða hlut í íslenzkum orkufyrirtækjum og þannig komizt í að virkja íslenzk fallvötn og jarðhitakerfi.  Lagabókstafurinn gagnvart slíku eignarhaldi er því miður óljós á Íslandi, ólíkt því, sem gildir víða erlendis.  Lögin eru hins vegar afar skýr, þegar kemur að fiskveiðum í íslenzkri lögsögu.  Hér verður heilbrigð skynsemi að ráða för.  Þótt Ísland sé smáríki, eru helztu auðlindir þess samt sem áður sameign allra Íslendinga, þ.m.t. árnar og þeir stórkostlegu fossar, sem er að finna upp af Ófeigsfirði."

 Um þetta er það að segja, að kanadískir fjárfestar eru ekki verri en aðrir erlendir fjárfestar og flestar þjóðir sækjast eftir beinum erlendum fjárfestingum.  Eignarhald virkjana er mjög einsleitt hérlendis, og þær eru að langmestu leyti í opinberri eigu.  Það veitir ekkert af erlendum viðhorfum og þekkingu í þennan geira til að fá vott af samkeppni á milli fyrirtækjanna.

Hér þarf hins vegar að gera einn alvarlegan fyrirvara.  Þegar um grundvallarhagsmuni landsins er að ræða, eins og eignarhald á landi og helztu náttúruauðlindir landsins og lífríki hafsins umhverfis landið, er forræði og lögsaga íslenzkra yfirvalda algert skilyrði fyrir því, að nýtingin verði í samræmi við stefnumótun rétt kjörinna fulltrúa þjóðarinnar og sem hagfelldust fyrir almenning.  Af þeim sviðum, sem nefnd eru að ofan, á þetta einvörðungu við um lífríki hafsins, af því að það var undanskilið í EES-samninginum 1992.  Það má alls ekki virkja "fjórfrelsi" EES innan íslenzka orkugeirans.

Það er rangt hjá höfundum tilvitnunarinnar, að lagabókstafurinn um eignarhald orkulindanna sé óljós á Íslandi.  Nýtingarréttur frumorkunnar fellur í hlut fyrirtækisins, sem fær virkjunarleyfið og hefur keypt vatnsréttindi eða keypt/leigt land til jarðborana og gufunýtingar.  Allt þetta mun lenda á Innri markaði EES með samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB og lúta þar reglum hans um frelsin fjögur. Innlendir aðilar hafa ekki bolmagn til að keppa við erlend orkufyrirtæki um eignarhald á virkjunum hér. Þess vegna má Alþingi alls ekki samþykkja þennan ólánsbálk, en er hins vegar komið á fremsta hlunn með það.

Ekki er síður mikilvægt fyrir fulltrúana á löggjafarþinginu og aðra að átta sig á breytingunni, sem verða mun á markaðnum fyrir afurð orkulindanna en að átta sig á, hvert eignarhald á virkjunum og fasttengdum orkulindum þeirra getur farið.  Mest og skýrast hefur Elías B. Elíasson, verkfræðingur, tjáð sig opinberlega um raforkumarkaðinn, og það er skylda þeirra, sem taka eiga ákvarðanir um þessi mál, og hollt fyrir alla aðra, að kynna sér rækilega skrif Elíasar um þessi mál.  Þann 2. október 2018 birtist grein eftir hann í Morgunblaðinu:

"Hetja er sá sem skilur þá ábyrgð sem fylgir frelsi hans".

Verður nú vitnað í þessa grein til að átta sig á, hvað bíður íslenzka raforkumarkaðarins eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans:

"Önnur lagaskylda landsreglarans er sú að stuðla að uppsetningu á frjálsum markaði með raforku til hagsbóta fyrir notendur.  Það er sannað, að slíkum vel virkum markaði verður ekki komið á hér án þess, að byggt sé á sameiginlegri auðlindastýringu vatnsafls og jarðvarma, sem engin fordæmi eru fyrir í Evrópu, heldur ekki í Noregi. 

Landsreglarinn hefur engar lagaheimildir til að setja reglugerðir eða yfir höfuð skipta sér af þeim málum.  Það yrði væntanlega ekki vel séð af því fólki, sem andmælir orkupakkanum, að aðili með slík lögformleg tengsl við ACER, sem landsreglarinn hefur, taki að sér stjórn á orkuvinnslu úr auðlindum Íslands.  Það hygg ég myndi ofbjóða fólki og af almenningi [verða] talið stjórnarskrárbrot, þó svo að landsreglarinn sé íslenzkur aðili og geri þetta í nafni orkuöryggis, sem hann eigi að bera ábyrgð á."

Síðan segir Elías frá því, að árið 1993 hafi Norðmenn sett á laggirnar frjálsan raforkumarkað og hafi áður verið tengdir við Svía og Dani.:

"Nokkrum árum síðar hækkaði orkuverð í Norður-Noregi vegna vatnsskorts, svo að aldrað fólk hafði ekki efni á rafmagnsreikningnum, og þess [voru] dæmi, að það frysi í hel í rúminu. Þeir urðu að gera ráðstafanir til að samhæfa stýringu sína á miðlunarlónum, til að þetta endurtæki sig ekki.  Tilvik sama eðlis komu upp víða um heiminn í kjölfar markaðsvæðingar."

Hérlendir ráðamenn verða í tæka tíð að gera sér grein fyrir hrikalegum afleiðingum þess að setja raforkugeirann á Innri markað EES, því að vegna smæðar og gerðar íslenzka raforkukerfisins og vegna þess, að rafmagnið er enn mikilvægara fyrir íslenzka hagkerfið en hið norska, verða afleiðingar þess að fjarlægja núverandi samhæfðu orkulindastýringu Landsvirkjunar á sama tíma og markaðsvæðing rafmagns fer fram, geigvænlegar.  Það þýðir ekkert fyrir þá að stinga hausnum í sandinn, hvorki nú né þegar tjónið er orðið.  

Á rafkerfum og orkulindanýtingu í þágu raforkuvinnslu verður að vera miðstýring, af því að ein bilun getur haft keðjuverkandi áhrif og fellt heildarkerfið.  Þetta hafa bæði ESB-ríkin og Bandaríkin rekið sig illilega á.  Hjá okkur stundar Landsnet nauðsynlega miðstýringu flutningskerfisins og getur fjarstýrt virkjunum, en Landsnet má hins vegar ekki skipta sér af vatnsbúskapnum né samhæfingu á milli vatnsorkuvera og gufuvera. Auðlindastýringin blessast hérlendis vegna stærðar Landsvirkjunar, en örlög Landsvirkjunar verða algerlega óræð undir samkeppnisreglum Innri markaðarins.

"ESB markaðsvæddi hjá sér laust fyrir aldamót og skildi þá á milli fyrirtækja, eins og gert var hér eftir 2003, en um leið slitu þeir samhengið í áhættustjórnun flutningskerfanna.  Afleiðingin varð víðtækt kerfishrun, sem kom upp í nokkrum löndum Evrópu 2003, og hlauzt af mikill kostnaður."

Þannig er ljóst, að þessi þróun ESB er rekin meira af kappi en forsjá, og við ákveðin tímamót hefur ekki verið tekið nægilegt tillit til ráðlegginga kunnáttumanna, heldur vaðið áfram í krafti lagasmíðar og hugmyndafræði markaðsvæðingar, sem illa fellur að viðfangsefninu.

Grein sinni lýkur Elías með ádrepu í garð ráðamanna og alvarlegum varnaðarorðum til þeirra.  Fyrri hlutinn er þannig:

"Ráðamenn virðast ekki skynja þær hættur, sem tengjast orkupakkanum.  Þeir virðast heldur ekki reikna með, að gegnum orkupakkann tengjast raforkumál og auðlindamál Íslands öðrum EES-samningum á þann veg, að hætturnar vaxa.  Sé á það bent, svara þeir gjarnan: "það tengist ekki orkupakkanum".  Frá þeim kemur lítið annað en lögfræðihjal um allt annað en þau áhrif pakkans, sem skipta máli."

Það er sorglegt til þess að hugsa, að ofangreint er rétt lýsing á því, sem sézt hefur frá þeim tveimur ráðherrum, sem mest hafa tjáð sig opinberlega og í ranni síns flokks um þetta mál.  Lýsingin á líka við um þá ráðuneytisstarfsmenn utanríkis- og iðnaðarráðuneytis ásamt ráðgjöfum hins síðar nefnda, sem tjáð hafa sig opinberlega og í einkasamtölum um innleiðingu téðs orkubálks ESB.  Hér er um fullkomna strútshegðun að ræða, og þjóðarskútan mun verða hætt komin, ef þeir, sem það geta, grípa ekki í taumana í tæka tíð.  Þeir hafa það sér þá ekki til málsbóta, að þekkingu hafi skort hérlendis og að þeir hafi ekki verið varaðir við.  

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Orkan á Innri markað EES

Það, sem raunverulega gerist við innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, er, að virkjanir Íslands, Noregs og Liechtenstein (EFTA-landanna í EES) fara á Innri markað EES.  Á þeim markaði er allt falt, ef "næg" greiðsla er í boði. Orkulindirnar eru fasttengdar orkuverunum á Íslandi og í Noregi, og þess vegna munu þær fylgja með í kaupunum. 

Reglur Innri markaðarins um, að ekki megi mismuna eftir þjóðernum innan EES, þegar viðskipti eða fjárfestingar fara fram, munu gilda um raforkufyrirtækin á Íslandi, nema einokunarfyrirtækið Landsnet og sérleyfisháða starfsemi dreifiveitnanna, en Landsreglarinn, handlangari ESB innan orkugeirans, mun hins vegar annast eftirlit og reglugerðaútgáfu með þessum fyrirtækjum og annast eftirlit með raforkumarkaðinum.    

Þetta ásamt því að láta viðskipti með raforkuna sjálfa, nema með raforku, sem bundin er með langtímasamningum, fara fram samkvæmt reglum Innri markaðarins, er höfuðatriði þessa máls, en í málflutningi ráðuneyta iðnaðar- og utanríkismála, svo og í minnisblöðum og greinargerðum, sem þau panta, er hreinlega ekki minnzt á þessi kjarnatriði málsins, hvað þá hinn nýja eftirlitsaðila, Landsreglarann.    

Þess vegna var það hvalreki fyrir þá, sem hafna vilja þessum Þriðja orkupakka, að fá sérfræðing í Evrópurétti, prófessor við háskólann í Tromsö, Peter Örebech, til að tjá sig um greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, BTP, lögmanns, sem hann vann fyrir iðnaðarráðherra um áhrifin af innleiðingu Þriðja orkupakkans á íslenzka hagsmuni.  Í ritgerð prófessorsins kom auðvitað í ljós, að áhrifin verða mjög mikil og öll neikvæð fyrir fullveldi landsins, þvert á niðurstöðu BTP. Gagnrýni prófessorsins verður senn birt opinberlega, en Heimssýn hefur látið þýða hana.  

Hér kemur lokagrein ritgerðar prófessors Örebechs í lauslegri þýðingu pistilhöfundar:

"Í öðru lagi fullyrðir BTP, lögmaður, að ekki komi til beitingar reglna í EES-samninginum, undirköflum 11, 12 og 13, af því að EES-samningurinn - samkvæmt lögmanninum - spanni ekki viðskipti með rafmagn, þótt Ísland samþykki "þriðja orkupakkann", sbr orðalagið, að á meðan Ísland er ótengt við Innri markaðinn með sæstreng, séu nokkrar mikilvægar reglur í EES-samninginum ekki í gildi fyrir viðskipti með rafmagn.

Þetta er röng niðurstaða.  Það er ekkert haldbært til um það, að viðskipti með orku séu undanþegin ákvæðum EES-samningsins, heldur alveg þveröfugt. EES-samningurinn hefur frá samþykkt hans 2. maí 1992 innihaldið gerðir og tilskipanir um orku, sem EES-ríkin eru bundin af, sbr Viðauka IV Orku.  Efnið í viðaukanum hefur tekið breytingum í tímans rás, þar sem ESB hefur aflagt nokkrar reglur og samþykkt nýjar.  "Þriðji orkupakkinn" á að fara inn í þennan viðauka, ef Ísland samþykkir "pakkann".  Þetta er einfalt og augljóst.

Hér verður að bæta við, að vissulega eru í gildi strangar reglur um skylduna til að fara eftir ESB-gerðum og -tilskipunum: þótt EES-samningurinn sæti túlkunum við dómsuppkvaðningu íslenzkra dómstóla, þá er önnur staða uppi gagnvart framkvæmdavaldinu, þ.e.a.s. ríkisstjórn Íslands, ráðuneytum, ráðum og nefndum:

"Lagaígildi, sem er fjallað um í eða tekin inn í viðauka við þennan samning eða samþykktir EES-nefndarinnar, skulu vera bindandi fyrir samningsaðilana." (EES kafli 7.) 

Ákvarðandi verður þá, hvaða gerðir og tilskipanir EES-löndin óska eftir að fella inn í EES-samninginn, eða öðruvísi fram sett: ef Ísland óskar ekki eftir, að kaflar 11, 12 og 13 gildi skilyrðislaust um orkugeirann, verður Alþingi að synja "þriðja orkupakkanum" staðfestingar."

Hér sýnir prófessor Peter Örebech fram á, að með samþykkt "þriðja orkupakkans" virkjast öll ákvæði Innri markaðar EES um allan raforkugeirann frá orkulind til afurðarinnar, rafmagns.  Allt mun þetta geta gengið frjálst og hindrunarlaust kaupum og sölum og með öllu verður óheimilt að mismuna aðilum á markaði eftir þjóðernum innan EES.

Rafmagnið fer á uppboðsmarkað í orkukauphöll og virkjunarfyrirtæki og raforkusölufyrirtæki ásamt virkjunarleyfum og rannsóknarleyfum geta gengið kaupum og sölum.  Kærir ríkisstjórn Íslands sig um þetta ?  Ætlar Alþingi virkilega að leggja blessun sína yfir þetta ?  Mikill meirihluti kjósenda þessara sömu Alþingismanna er þessu algerlega andvígur. Áður en stórslys verður á fullveldis- og orkusviðinu hérlendis verða Alþingismenn að hafna Þriðja orkupakkanum og taka þar með ákvæði IV. viðauka EES-samningsins um orku úr sambandi fyrir Ísland.  Þau eru þar núna eins og tifandi tímasprengja fyrir sjálfstæði og efnahag landsins, eins og ráða má af gagnrýni prófessors Örebechs á "Greinargerð" Birgis Tjörva Péturssonar til iðnaðarráðherra.     

 

 

 


Gagnrýni prófessors Peters Örebech

Sérfræðingur í Evrópurétti við háskólann í Tromsö í Noregi, UIT, Peter Örebech, prófessor, sýndi fram á í gagnrýni á greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, BTP, sem pöntuð var af iðnaðarráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð,  til að sýna fram á meinleysi Þriðja orkumarkaðslagabálksins, að þar er flagð undir fögru skinni, þ.e.a.s., þegar Þriðji orkupakkinn er skoðaður í ljósi lagatúlkunar ESB-dómstólsins, þá er hann stórhættulegur umráðarétti okkar yfir orkulindum landsins.

Hér er einnig við hæfi að minna á minnisblað, sem téður ráðherra fékk annan lögmann, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá ESA (Eftirlitsstofnun EFTA), Ólaf Jóhannes Einarsson, ÓJE, til að skrifa.  Þetta minnisblað ÓJE á það sammerkt með greinargerð BTP, að þar er engin viðleitni höfð í frammi til að túlka virkni Þriðja orkupakkans í samhengi við aðra löggjöf ESB, eða með hliðsjón af dómum ESB-dómstólsins.  Hér er átt við öll lög og reglugerðir, sem eiga við Innri markað EES, því að þau verða virk fyrir allan orkugeirann við samþykkt Þriðja orkupakkans.  Þetta setur t.d. framtíð Landsvirkjunar í algera tvísýnu, því að ESA mun varla samþykkja, að 80 % markaðshlutdeild á raforkumarkaði sé samræmanleg samkeppnisreglum á Innri markaðinum.  Hvort landið er tengt umheiminum um aflsæstreng skiptir engu máli í þessu samhengi samkvæmt prófessor Örebech.

Hér verða nú tilgreind orð Elíasar B. Elíassonar, verkfræðings, er hann viðhafði eftir lestur pistilsins, Eignarhald á orkulindunum, og skýrslu prófessors Örebech, sem er á norsku undir hlekk hér á síðunni, en þýðing á íslenzku stendur nú yfir:

"Þessi minnisblöð [BTP, ÓJE] forðast þannig alla umfjöllun um þau atriði í öðrum reglum en orkupakkanum, sem auka á hættuna, sé hann innleiddur.  Það er heldur ekki minnzt á landsreglarann, sem virkar sem eins konar trójuhestur og skal gæta þess, að við notum ekki auðlindina okkur sjálfum til hagsbóta, heldur öllum notendum innan ESB [EES] jafnt.  Landsreglarinn setur reglugerðir um markað og flutningskerfið, sem eiga að vera samhljóma þeim reglugerðum, sem gilda innan ESB.  Ef ekki er farið að þeim reglugerðum, getur framkvæmdastjórnin kært til ESA, eftir að ACER hefur sent henni upplýsingar um málið.  Valdheimildir landsreglarans taka gildi strax. Mér virðast þessar innlendu greinargerðir ráðuneytanna vera þess eðlis, að verið sé að tala niður til fólks á lagamáli og halda því að þjóðinni, að þetta stórmál, orkupakkinn, sé smámál, af því að við séum nú þegar komin langleiðina með að afsala okkur auðlindinni."

Undir hvert orð skal hér taka og ítreka, að með samþykkt Þriðja orkupakkans munu allar varnir landsins bresta á þessu sviði.  Það er jafnframt ljóst, að málflutningi á ráðstefnu HR, síðsumars 2018, þar sem m.a. töluðu hr. Pototschnig, forstjóri ACER, og Kristín Haraldsdóttir, lektor við Lagadeild HR, um meinleysi ACER, verður að taka með þeim fyrirvara, að þar var aðeins hálf sagan sögð.

Í II. kafla skýrslu sinnar um 11., 12. og 13. undirkafla EES-samningsins skrifaði Peter Örebech m.a. í lauslegri þýðingu:

"Höfundurinn [BTP] fullyrðir í fyrsta lagi, að úr því að Ísland er ótengt erlendum rafkerfum í raun, þá séu orkumál Ísland heldur ekki háð neinum mikilvægustu EES-reglunum.  Samkvæmt þessari framsetningu ættu reglur um orkuviðskipti að vera háðar raunverulegum aðstæðum, s.s. hvort "de facto" liggi aflstrengir frá Íslandi. Þessu er ekki hægt að halda fram.  Reglur EES-samningsins eru ekki aðeins í gildi fyrir núverandi aðstæður, heldur einnig framtíðar aðstæður.

Það, sem leysir reglurnar úr læðingi, er aðild Íslands að "þriðja orkupakkanum", ekki hvort frá Íslandi liggi aflstrengir til útlanda eða ekki. Reglurnar spanna þá stöðu, að Ísland neiti t.d. einkafyrirtæki á sviði aflsæstrengja um að leggja slíka.  Ef hagsmunir ólíkra landa rekast á, þá tekur ACER ákvörðun um, hvort millilandastreng skuli leggja, ESB-gerð nr 713/2009, grein 8.1:

"Í sambandi við innviði, sem þvera landamæri, tekur ACER aðeins ákvörðun um þau stýringarlegu viðfangsefni, sem heyra undir valdsvið landsreglaranna, þ.m.t. kjör og skilyrði fyrir aðgangi og rekstraröryggi, a) þegar landsreglararnir hafa ekki getað náð samkomulagi innan 6 mánaða frá því því málið var lagt fyrir seinni landsreglarann."

Fyrirkomulagið með ACER verður fest í sessi, þegar "orkuáætlun 2019-2021", "Projects of Common Interest" (PCI), verður samþykkt.  

"Árið 2013 myndaði TEN-E [Trans-European Energy Network] reglugerðin nýjan ramma fyrir þróun orkuinnviða-PCI-, þar sem ACER var falið það hlutverk að velja PCI [Projects of Common Interest-sameiginleg hagsmunaverkefni ESB] og að aðstoða landsreglarana við að afgreiða fjárfestingarumsóknir frá frumkvöðlum PCI-verkefna- að meðtalinni kostnaðarþátttöku."

Hér er í raun og veru talað um að gefa hefðbundið "tveggja stoða kerfi" EES upp á bátinn og taka upp "einnar stoðar kerfi", sem er megineinkenni ESB-aðildar.  

Við sjáum sem sagt, að reglunum í "Þriðja orkupakkanum" verður beitt á það tilvik, að t.d. finnski rafrisinn Fortun áformi í samstarfi við HS Orku að leggja rörlagnir eða strengi frá Íslandi til t.d. Skotlands.  Þessu yrði síðan hafnað af íslenzka ríkinu.  Ef þessi ágreiningur yrði ekki leystur af Landsreglaranum - handlangara ESB á Íslandi, sem á að framfylgja ESB-réttarreglum á Íslandi og sem er utan seilingar (óháður) íslenzkra yfirvalda, mun koma til kasta ACER eða jafnvel framkvæmdastjórnar ESB að úrskurða samkvæmt ESB-gerð nr 713/2009, sjá grein 4 d), sbr undirgrein 8.1 a) og formálann, hluta 10."

Hér verður forsendu EES-samstarfsins, "tveggja stoða kerfinu", sem gerir ráð fyrir gagnkvæmu kerfi EFTA-megin, algerlega kastað fyrir róða og stofnun, sem starfar einvörðungu á ábyrgð Framkvæmdastjórnarinnar, þ.e. ACER, falið úrkurðarvald um ráðstöfun íslenzkra orkulinda.  Þetta er auðvitað gjörsamlega ótækt fyrir sjálfstætt ríki, þar sem almennur vilji er til að halda sig utan ESB, enda stríðir þetta valdframsal gegn Stjórnarskrá landsins.  Hin aumkvunarverða staða væri þá uppi, að Ísland væri þá undir ofurvald ESB selt án þess að vera þar formlegur aðili. Lagasetning Alþingis um, að þingið skuli hafa síðasta orðið varðandi sæstrengslögn, breytir engu um þessa niðurstöðu, því að með samþykkt Þriðja orkupakkans er verið að færa allan raforkugeira landsins undir Evrópurétt, sem er æðri landsrétti samkvæmt EES-samninginum.   

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Íslenzkur hræðsluáróður frá Noregi

Í http://montelnews.com/no/story/islandsk-acer-veto-kan-skape-trbbel-for-norge/939008  eru birtar vangaveltur m.a. Ingva Más Pálssonar í iðnaðarráðuneytinu og Kristínar Haraldsdóttur, lektors við HR.  Þessar vangaveltur eru skrýtnar í ljósi staðreyndar um fullan rétt Alþingis til höfnunar og í ljósi þess, að beinlínis er fyrirskrifað í EES-samninginum til hvaða aðgerða ESB má grípa til við slíka höfnun.  Í þessu tilviki mætti ESB aðeins fella úr gildi 1. og 2. orkupakkann gagnvart EFTA, og það getur engan skaðað.  ESB græðir ekkert á því, svo að líklegast er, að ESB muni ekki grípa til neinna aðgerða. Nú er tekið að dreifa þeim ósvífna og fráleita hræðsluáróðri, að ESB muni hreinlega segja upp EES-samninginum við Ísland í refsingarskyni.  Þeir sem veita slíku fætur, hafa líklega ekki hugmynd um, hvaða ferli þeir eru þar að gera skóna, og er slíkt efni í annan pistil.  

Ef Alþingi synjar Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB staðfestingar, mun taka við sáttaferli EFTA og ESB.  Í því sáttaferli er hægt að ímynda sér ýmsar lausnir, t.d., að Íslendingar fái undanþágu frá öllum ákvæðum Þriðja orkumarkaðslagabálksins, þangað til íslenzk stjórnvöld kjósa að tengja raforkukerfi landsins við erlent raforkukerfi, gegn því að samþykkja innleiðingu hans í EES-samninginn. 

Að öðrum kosti er líklegt, að Norðmenn og Liechtensteinar semji við ESB um regluramma utan um orkuviðskipti sín við ESB-löndin. Því fer þess vegna víðs fjarri, að eitthvert uppnám verði í samskiptum okkar við hin EES-löndin, og enn síður er hætta á vandræðum í orkuviðskiptum Norðmanna og ESB-landanna, enda telja allir aðilar sig hafa hag af þeim viðskiptum.  Viðskiptalífið og embættismannakerfið mun einfaldlega laga sig snurðulaust að nýjum aðstæðum.  Annað eins hefur nú gerzt.  Heimsendaspámenn og "die-hards" verjendur EES-samningsins gera lítið úr sjálfum sér með því að mála skrattann á vegginn.

Í ofannefndu Montelnews, norsku vefriti, var vitnað til tveggja Íslendinga.  Eftir Kristínu Haraldsdóttur, lektor við Lagadeild HR, var m.a. eftirfarandi haft:

"Það er ótti [á Íslandi] við afskipti af orkumálefnum okkar og við, að völd flytjist frá Íslandi. Búizt er við, að ACER safni völdum til miðlægrar stjórnunar orkumála í EES-löndunum, bætir hún við, og dregur fram áhyggjur efasemdarmanna yfir því, að samevrópskur orkureglari muni fá meiri völd yfir íslenzka Landsreglaranum en yfirvöldin á Íslandi."

Landsreglarinn verður nýtt embætti á Íslandi eftir samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálksins.  Það verður einstakt í sinni röð, því að það verður algerlega óháð íslenzkum yfirvöldum og íslenzkum hagsmunaaðilum, þótt embættið verði á íslenzkum fjárlögum.  Landsreglarinn verður ekki undir Orkumálastjóra, en mun taka við eftirlitshlutverki Orkumálastofnunar, OS, og iðnaðarráðuneytisins með raforkumálum, og mun fá netmála (tæknilega tengiskilmála) og gjaldskrár Landsnets og dreifiveitnanna til rýni og staðfestingar/höfnunar.  Ennfremur verður það hlutverk Landsreglarans að hafa eftirlit með raforkumarkaðinum og fylgja eftir innleiðingu á raforkukauphöll á Íslandi að forskrift ESB.  

Landsreglarinn verður ekki íslenzkt embætti í skilningi Stjórnarskrárinnar, enda hafa rétt kjörin yfirvöld landsins enga möguleika á að hafa áhrif á gjörðir hans, og EFTA-dómstóllinn verður úrskurðaraðili um þrætuepli, sem upp kunna að koma um störf hans og gerðir.  Landsreglarinn verður settur undir ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, en um það er samkomulag á milli EFTA og ESB, að ESA taki enga sjálfstæða ákvörðun gagnvart Landsreglaranum, heldur framsendi ákvarðanir ESB/ACER til hans og sendi gögn til baka frá Landsreglaranum til ACER.  Úr því að ESA er hreinn milliliður í þessu sambandi, er ESB-stofnunin ACER hinn raunverulegi stjórnandi hans.  

Það eru þess vegna réttmætar áhyggjur af því, að völd yfir raforkumálum Íslands flytjist úr landi og til ESB-stofnunarinnar ACER, þar sem Ísland verður ekki fullgildur aðili, heldur aðeins með áheyrnarfulltrúa. Þetta samrýmist ekki Stjórnarskrá Íslands, og hefur t.d. prófessor emeritus, Stefán Már Stefánsson, látið í ljós opinberlega áhyggjur út af þessu, t.d. á Valhallarfundinum 30.08.2018.

Við þetta má bæta, að orkubálkur ESB er stöðugum breytingum undirorpinn, og nýjar útgáfur hans munu fela í sér aukin völd ACER og miðstýringu.  Við kaupum þess vegna köttinn í sekknum með því að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálkinn án þess að vita gjörla, hvað felst og fjórða og fimmta.

"Ingvar Már Pálsson segir, að hafni Alþingi Þriðja orkupakkanum, þá geti það haft afleiðingar mun víðar en á Íslandi. Til að Þriðji orkupakkinn verði innleiddur í EES-samninginn, verða þing allra EES-landanna að gefa grænt ljós.  Fyrir Ísland verða afleiðingarnar í algeru lágmarki á orkusviðinu, en við höfum meiri áhyggjur af því, hvaða áhrif höfnun hefur á samband okkar við nágrannana og við ESB, segir Ingvar Már Pálsson.  

Það getur líka verið, að við setjum Noreg í erfiða stöðu.  Það verður áreiðanlega ekkert valdframsal til ACER, og við munum ekki glata valdi yfir neinum grundvallar þætti raforkumála okkar eða yfir orkulindum okkar, samsinnir Kristín Haraldsdóttir."

Íslenzkir embættismenn og fræðimenn ættu að gæta þess að gera ekki minna úr sér á erlendri grundu en efni standa til.  Embættismönnum ber að einbeita sér að því að gæta hagsmuna Íslands.  Norðmenn eru einfærir um að gæta eigin hagsmuna, og það vegur ekki minna en vilji norsku ríkisstjórnarinnar og Stórþingsins, að mikill meirihluti norsku þjóðarinnar og norsku verkalýðshreyfingarinnar er alfarið á móti innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í norskan rétt. 

Fullyrðingar Kristínar Haraldsdóttur eru úr lausu lofti gripnar.  Spyrja má til hvers ACER hafi verið stofnað, ef ekkert valdframsal á sér stað frá aðildarlöndunum til ACER. ACER mun stjórna Landsreglaranum, og hann mun fylgja því eftir, að Landsnet aðlagi Kerfisáætlun sína að Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER.  Ef ACER heldur áfram með "Icelink"-sæstrenginn á forgangsverkefnaskrá sinni, þá verður Landsnet að skipuleggja orkuflutninga frá íslenzka stofnkerfinu og niður að lendingarstað sæstrengsins.  Komi gild umsókn um leyfi fyrir aflsæstreng, sem Landsreglarinn mælir með samþykkt á, þá mun höfnun íslenzkra yfirvalda, OS, á umsókninni tvímælalaust leiða til kvörtunar umsækjandans og/eða Landsreglarans til ESA, sem senda mun aðfinnslubréf til ríkisstjórnarinnar um, að íslenzk stjórnvöld hafi rofið skuldbindingar sínar um að framfylgja Kerfisþróunaráætlun ESB.  Ef ríkisstjórnin þráast við, þá kærir ESA hana fyrir EFTA-dómstólinum.  Samt heldur Kristín Haraldsdóttir því fram, að "við munum ekki glata valdi yfir neinum grundvallar þætti raforkumála okkar".  Pistilhöfundur er þessu gjörsamlega ósammála.  Fullyrðingar Kristínar Haraldsdóttur standast ekki rýni. 

Innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálksins mun hafa í för með sér, að allar viðskiptareglur Innri markaðar EES munu taka gildi fyrir raforkugeirann og þar með orkulindirnar, þar sem raforkuvinnsla fer fram og mun fara fram.  Allt verður falt á markaði, og inngrip ríkisins verða óheimil.  Þetta er sú grundvallarbreyting, sem verður í orkugeira Íslands við innleiðingu á téðum orkubálki. Með öðrum orðum: íslenzk stjórnvöld glata valdi yfir grundvallarþáttum íslenzkra orkumála.  Hér eru gríðarlegir hagsmunir í húfi. 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband