Liggur fiskur undir steini ?

Það er ljóst, að talsverður áhugi er bæði innan orkugeirans íslenzka og fjármálageirans á því að tengja aflsæstreng frá útlöndum við raforkukerfi landsins. Þetta kom síðast fram í viðtali í kvöldfréttum RÚV-Sjónvarps 24.11.2018 við forstjóra Landsnets, Guðmund Inga Ásmundsson.  Forstjóri Landsvirkjunar hefur kyrjað þennan söng, síðan hann settist í forstjórastólinn þar árið 2010, og árið 2017 gaf fjármálafyrirtækið Kvika út skýrslu, sem fegraði hlut sæstrengs meira en góðu hófi gegndi og sleppti ýmsum mikilvægum áhættuþáttum við strenginn, t.d. rekstrarlegs eðlis.

Þess er og skemmst að minnast, að fyrirtæki téðra forstjóra eru tilfærðir ásamt raforkuflutningsfyrirtæki Breta, National Grid, sem "sponsors" eða bakhjarlar "Ice Link", sem er 1200 MW sæstrengur á forgangsverkefnaskrá ACER-Orkustofnunar ESB á milli Suð-Austur Íslands og Skotlands, a.m.k. 1000 km vegalengd, sem þverar um 1,0 km hámarksdýpi. Fyrirtækið er kallað "National Grid Interconnector Holdings Ltd", og þessi sæstrengur yrði lengsti samfelldi sæstrengur sögunnar og sá, sem lagður er á mest dýpi. Forstjóri Landsvirkjunar hefur fullyrt, að tæknin ráði við verkefnið, en óvíst, hvað hann á við með því.  Það, sem strengfyrirtækin vinna að nú, er þróun á plasteinangrun, sem þolir svo háa jafnspennu (DC), að orkutöpin verði kostnaðarlega viðráðanleg fyrir þennan orkuflutning. Hefur Landsnet lagaheimild til að taka þátt í slíku fyrirtæki ?

Þá hefur enska fyrirtækið "Atlantic Superconnector" lýst fjálglega áformum um tvo einpóla 700 MW sæstrengi frá Íslandi til Norð-Austur Englands (Jórvíkurskíri) um 1500 km leið, og sennilega með flutningsmöguleika aðeins aðra leið, suður, enda rekur fyrirtækið áróður í Englandi fyrir þessu verkefni á grundvelli aukinnar endurnýjanlegrar orku, sem skapa muni ný störf á Englandi.  Kynning fyrirtækisins á viðskiptatækifærum þess á Íslandi líkist helzt óráðshjali á krá í Newcastle:

"Through a unique renewable energy partnership with Iceland, we can bring a near-limitless source of clean hydroelectric and geothermal power to the UK - all while delivering jobs, growth and investment opportunities to Britain´s world beating industrial heartland."

Gefur ekki auga leið, að hagkvæmara er fyrir hérlandsmenn að skapa störf, vöxt og laða hingað að fjárfesta með því að bjóða upp á endurnýjanlega orku hérlendis á hagstæðum kjörum í stað þess að flytja hana í rafstrengjum 1500 km leið með ærnum tilkostnaði og miklum orkutöpum ?

Fjármála- og efnahagsráðherra Íslands mun hafa kallað eftir handföstum gögnum frá brezkum stjórnvöldum um raforkuverð og samningstíma, sem þau vilji tryggja orkuseljendum á Íslandi, svo að hægt verði að gera áætlanir af einhverju viti hérlendis um sölu rafmagns inn á sæstreng.  Fullnægjandi tryggingar í þessa veru geta eða vilja brezk stjórnvöld varla gefa fyrir innflutning á rafmagni, þótt "grænt" sé.  Íslenzkt rafmagn mun að líkindum fara á Nord Pool orkukauphöllina, eins og rafmagn frá Noregi eða öðrum löndum til Bretlands. Nord Pool er viðtekin orkukauphöll fyrir Norðvestanverða Evrópu að hálfu ESB, og útibúi frá Nord Pool verður væntanlega komið upp hérlendis eigi síðar en 2020, þótt engar forsendur séu fyrir því, að slík orkukauphöll gagnist orkukaupendum hérlendis, heldur þvert á móti.  Orkukauphöll í anda ESB hérlendis er líkleg til að valda hér sveiflukenndu raforkuverði og umtalsverðri hækkun meðalverðs, því að hún tekur ekki tillit til sérstakrar samsetningar  orkukerfis (frumorkulinda) landsins og fákeppni og lítils fákeppnismarkaðar. 

Það hafa komið fram kenningar um það hérlendis, að á bak við áróðurinn fyrir inngöngu Íslands í Orkustofnun ESB-ACER með innleiðingu  Orkupakka #3 liggi annarlegar hvatir, þ.e.a.s. að fjárplógsmenn muni sjá sér leik á borði að leggjast á árarnar með Framkvæmdastjórninni um að samtengja alla Evrópu,  einkanlega til að nýta alla þá endurnýjanlegu orku, sem fáanleg er til raforkuvinnslu, og maka á því krókinn, ótæpilega. 

Eins og málum er háttað nú á frjálsum orkumarkaði, er ljóst, að slík tenging Íslands getur ekki orðið þjóðhagslega hagkvæm fyrir Íslendinga, þótt hún geti verið þjóðhagslega hagkvæm fyrir EES samkvæmt forskrift Evrópugerðar 347/2013, sem mælir fyrir um slíkt hagkvæmnimat.  Til þess liggja tvær ástæður.  Það verður líklega alltaf þjóðhagslega hagkvæmara að nýta orkuna innanlands til atvinnu- og verðmætasköpunar en að selja hana utan með ærnum flutningskostnaði, sem að lágmarki  nemur 80 USD/MWh að teknu tilliti til 10 % orkutapa í endabúnaði og streng.  Þótt orkuverð erlendis muni hækka á næsta áratugi, þá munu orkukræfar vörur eðli máls samkvæmt hækka líka, enda er 4 % árleg eftirspurnaraukning á áli og meiri á kísli.  Hin ástæðan er sú, að um miðja öldina munum við þurfa á öllum orkulindum landsins að halda, sem nú eru í nýtingarflokki Rammaáætlunar #3, vegna orkuskiptanna og fjölgunar íbúa landsins.  Tal um, að hér sé næg orka fyrir rafmagnsútflutning er þvaður eitt, nema ætlunin sé að kasta Rammaáætlun fyrir róða eða loka stórum verksmiðjum, sem nú standa undir a.m.k. fjórðungi af útflutningstekjum landsins.

Rafmagnsútflutningur kallar á mun fleiri virkjanir en nú eru í nýtingarflokki, og hann mun valda hér miklum hækkunum á rafmagnsreikningum fyrirtækja og heimila, jafnvel meira en tvöföldun, þegar þar að kemur.  Slíkt mun skerða lífskjör íslenzkrar alþýðu og svipta hana lifibrauðinu í hrönnum, því að samkeppnisgrundvellinum verður kippt undan margri starfseminni með slíkum kostnaðarhækkunum og rafmagnsútflutningur skapar hér sáralitla vinnu.  Útflutningur á rafmagni er þess vegna mjög óeðlileg ráðstöfun auðlinda þjóðarinnar.  Málflutningur um, að þolendum atvinnumissis megi bæta tjónið með greiðslum úr ríkissjóði af skatttekjum orkusölunnar er óboðlegt píp.  

Margir nestorar íslenzkra stjórnmála hafa gengið til liðs við það sjónarmið, að alls ekki eigi að rétta skrattanum litla fingurinn á sviði orkumála, því að þá muni hann óðar taka alla höndina, fara að ráðskast með orkunýtinguna (Landsreglarinn) og seilast til áhrifa við leyfisveitingar til áhugasamra sæstrengsfjárfesta. Þetta er allt saman borðleggjandi fyrir þá, sem á eigin spýtur kynna sér stefnumörkun ESB í gerðum þeirra og tilskipunum og virða fyrir sér framkvæmdina í raun, t.d. sæstrengslögn frá Ísrael um Kýpur og til Grikklands, en Ísraelsmenn fundu fyrir nokkrum árum gaslindir í lögsögu sinni, sem eru meiri en þeir telja sig hafa not fyrir, og breyta hluta þeirra í rafmagn.

Einn nestor íslenzkra stjórnmála, Guðni Ágústsson, reit 10. nóvember 2018 grein í Morgunblaðið, þar sem hann varpaði fram í fyrirsögn hinni tímabæru spurningu:

"Hverjir eru hagsmunir Íslands af þriðja Orkupakka ESB ?":

"Hvað sögðu Jón Baldvin og Peter T. Örebech ?  Jón Baldvin sagði á Útvarpi Sögu: "Við höfum ekkert með orkupakka ESB að gera, basta.  Þetta varðar ekki Ísland, og tæknilega kemur þetta Íslandi ekki við.  Við seljum enga orku til Evrópu og ætlum ekki að leggja sæstreng."  Svo bætti hann við: "Íslenzkir hagsmunir eru þeir að gerast aldrei aðilar að orkupakka ESB."  Og ennfremur, að sæstrengur sé draumur þröngsýnnar klíku, sem ein ætlar að græða á uppátækinu ásamt erlendum auðjöfrum.  Kom þetta og margt fleira skýrt fram í máli Jóns Baldvins."

Ef tvípóla sæstrengur til Bretlands með um 1200 MW flutningsgetu á að skila eigendum sínum þokkalegum arði, verður flutningsgjaldið að nema a.m.k. 80 USD/MWh, eigi hann jafnframt að standa undir kostnaði við endabúnað sinn og orkutöpin á leiðinni.  Þetta er svipað og heildsöluverð á raforku á Bretlandi nú um stundir.  Ekkert álag á verð raforku úr endurnýjanlegum orkulindum utan Bretlands er í boði þar núna og engar horfur á slíku.  Miðað við núverandi aðstæður fengist sáralítið fyrir rafmagn inn á streng og verð langt undir kostnaði frá nýjum virkjunum hér fyrir rafmagn til útflutnings. 

Raforkuverð á Bretlandi þarf að hækka yfir 50 % til að eitthvert viðskiptalegt vit (frá þröngu sjónarmiði séð) verði í útflutningi rafmagns héðan.  Ætla má, að það gerist, ef olíutunnan fer í USD 90, og slíkt getur vel orðið á næsta áratugi, ef ekki verður "gegnumbrot" í nýrri tækni til raforkuvinnslu, t.d. í þóríum-kjarnorkuverum. 

Þessi útflutningur verður samt ekki þjóðhagslega hagkvæmur fyrir Ísland, því að virðisaukinn af að nýta innlenda orku innanlands svarar til verðs fyrir raforku frá virkjun u.þ.b. 100 USD/MWh m.v. núverandi verðlag, og þá þurfa að fást a.m.k. 180 USD/MWh fyrir rafmagnið við strengendann Bretlandsmegin.  Slík 2,3 földun heildsöluverðs á rafmagni á Englandi er engan veginn í sjónmáli. 

Ef heildsöluverðið erlendis, reiknað í Bandaríkjamynt, verður hins vegar á bilinu 120-180 USD/MWh er hætt við, að þrýstingur aukist mjög hérlendis á tengingu sæstrengs við erlend raforkukerfi, en það mundi án nokkurs vafa valda hækkun á rafmagni innanlands, sem vissulega yrði mörgum atvinnugreinum þung í skauti og jafngildir lífskjaraskerðingu íbúa landsins.

Statnett (norska Landsnet) á allar millilanda raforkutengingar við Noreg.  Þær eru þannig í eigu ríkisins.  Norðmenn hafa svo miklar áhyggjur af, að ACER/ESB leyfi ekki þessa ríkiseinokun eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans, að Stórþingið gerði það að einu af 8 skilyrðum sínum fyrir samþykki "pakkans", að Statnett héldi eignarhaldi á öllum eldri millilandatengingum og fengi að eiga nýjar tengingar, t.d. NorthConnect frá Hardanger til Peterhead á Skotlandi, en einkafyrirtæki hefur nú sótt um leyfi fyrir þessum sæstreng.  Framkvæmdastjórn ESB hefur engu svarað, enda er hún óbundin af þessum skilyrðum Norðmanna.  NorthConnect verður prófmál á milli Norðmanna og ACER í mörgu tilliti, sérstaklega ef Landsreglari Noregs, RME, verður ósammála mati NVE, norsku orkustofnunarinnar, á leyfisumsókn NorthConnect.  

Guðni Ágústsson hélt áfram í téðri grein:

"Ennfremur ber að nefna hér erindi norska lagaprófessorsins Peter T. Örebech á fundi í Heimssýn, en samkvæmt orðum Örebechs er verið að stefna íslenzkum hagsmunum í orkumálum og þar með sjálfsákvörðunar- og fullveldisrétti þjóðarinnar í stórhættu, ef Alþingi samþykkir að innleiða regluverk ESB á bak við orkupakkann.  Geta má þess, að Örebech var einn þeirra, sem börðust með okkur gegn Icesave og er virtur sérfræðingur í Evrópurétti."

Fyrirlestur prófessors Peters Örebech, sem Guðni nefnir, var gagnmerkur, og það sem þar stóð upp úr var lögfræðileg sönnunarfærsla prófessorsins á þeirri meginbreytingu með Orkupakka #3 frá Orkupakka #2, að með hinum fyrrnefnda er innleidd einnar stoðar ákvarðanataka ESB fyrir millilandatengingar, þar sem EFTA (ESA) kemur hvergi nærri öðruvísi en að framsenda ákvarðanir til landsreglaranna á Íslandi, í Liechtenstein og í Noregi.  Ríkisstjórnir landanna hafa engan möguleika á að skipta sér af þessum boðum, sem eru bindandi fyrirmæli frá ESB-stofnunum eða framkvæmdastjórn ESB til landsreglaranna, og þeir fara með æðstu völd yfir lykilþáttum raforkumálanna í hverju landi.  Þetta er stjórnarskrárbrot á Íslandi og í Noregi.

Þegar við þetta bætist, að Orkupakki #3 virkjar greinar 11 og 12 í EES-samninginum fyrir millilandatengingar, en þær banna takmarkanir á inn- og útflutningi vöru, þjónustu, fjármagni og fólki, þá þarf ekki frekari vitnana við um það, að íslenzk stjórnvöld munu ekki lengur hafa síðasta orðið um það, hvort samþykkja á eða hafna tengingu íslenzka raforkukerfisins við önnur raforkukerfi innan EES. Það mun engu breyta um niðurstöðuna, þótt Alþingi samþykki bann við lagningu sæstrengs; ekki frekar en bann Alþingis 2009 við innflutningi á ófrosnu, hráu kjöti, ógerilsneyddri mjölk og eggjum tekið gilt hjá EFTA-dómstólinum 2017.  Evrópurétturinn ríkir nú yfir landinu á fjölmörgum sviðum, og ætlun ríkisstjórnarinnar hefur fram að þessu verið að gera hann allsráðandi á orkusviðinu líka.  Vonandi tekst að koma í veg fyrir slíkt stórslys, þótt glöggt standi.

 

 


Í fílabeinsturni ráðuneytis

Engu er líkara en iðnaðarráðherra sé haldinn heilkenninu, "Vér einir vitum" í orkupakkamálinu alræmda, ef marka má heimasíðu ráðuneytisins, "spurningar og svör", þar sem orðhengilsháttur og fávísi um orkumál og það, hvað Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB felur í sér, tröllríða hvort öðru. Einstrengingsháttur og þrákelkni ráðherrans hefur nú þegar rýrt pólitískt traust til hennar svo mjög, að ríkisstjórnin hefur heykzt á að leggja fram þingsályktunartillögu um upptöku þessa tröllheimskulega lagabálks fyrir Ísland í EES-samninginn og sömuleiðis á að leggja fram í kjölfarið frumvarp til breytinga á orkulögum til samræmis. Fer að styttast í einangrun ráðherrans í eigin kjördæmi með sama áframhaldi. Að venda ekki sínu kvæði í kross nú strax fyrir jólin er merki um ótrúlega pólitíska lömun, sem er ófélegur mælikvarði á leiðtogahæfni varaformanns Sjálfstæðisflokksins.

Ritstjórn Morgunblaðsins hefur ekki misskilið neitt í þessu máli, þótt vinsælasta viðkvæði ráðherrans og fylgifénaðar hennar, sem aldrei virðist hafa komizt innfyrir ESB-umbúðir "pakkans", sé, að þau, sem ekki meðtaka fagnaðarerindið frá Sameiginlegu EES-nefndinni í Brüssel, þar sem getnaðurinn fór fram 5. maí 2017, séu haldin slíkri lesbrenglun á boðskapinn eða óburðugri úrvinnslu í toppstykkinu, að allt, sem frá þeim komi um innihald og afleiðingar "pakkans" hérlendis, sé "misskilningur".  Þeir, sem haldnir eru meintum "misskilningi", hafa þó brotið til mergjar flóknari viðfangsefni en hér um ræðir, og skal þó engan veginn gera lítið úr flækjustigi Þriðja orkumarkaðslagabálksins.

Í forystugrein Morgunblaðsins, 23. nóvember 2018, 

"Ekki misskilið neitt",

sagði m.a.:

"Eftir að menn úr hópi þeirra, sem bezt þekktu til, tóku að benda á, að ekki væri allt sem sýndist, voru höfð endaskipti á öllum röksemdum. Nú var málið orðið flókið, og þess vegna hefði efasemdarmönnum tekizt að skapa óróa í kringum það.  

Fari svo, að hlaupalið utanaðkomandi hagsmuna, sem kemur kunnuglega fyrir sjónir, láti sig hafa að ganga þessara erinda til enda, má augljóst vera, að málið endar í þjóðaratkvæði."

Jón Baldvin Hannibalsson, JBH, skóf ekki utan af því í Silfrinu sunnudaginn 25. nóvember 2018 í viðtali við Egil Helgason, heldur viðraði þar kenningu sína um, hverjir væru þessir "utanaðkomandi hagsmunir".  Eftir að hafa lýst því fjálglega, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins væri á mála hjá fjármálalegri yfirstétt Evrópu og hefði fórnað hagsmunum alþýðu í hinum veikari ríkjum ESB í kjölfar fjármálakreppunnar 2007-2008, þar sem Grikklandi væri haldið í skuldafjötrum og mætti ekki örva hagkerfið með ríkisútgjöldum, þá kvað JBH upp úr með það, að á bak við kröfuna um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn stæðu gróðapungar og spákaupmenn, sem ætluðu sér að stórgræða á því að selja raforku úr landi um sæstreng.

Það hefur vakið furðu, að 2 ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa hangið eins og hundar á roði á því, að Þriðja orkupakkann yrði að samþykkja hér, hvað sem það kostaði, vegna EES-samningsins.  Þetta sýndi JBH fram á, að eru falsrök í málinu.  Hann má um það gerzt vita, því að hann stjórnaði viðræðum Íslendinga við EFTA/ESB um EES-samninginn árin 1989-1993.Að mati höfundar þessa pistils yrði það nagli í líkkistu EES-samningsins að innleiða Þriðja orkupakkann í hann. Þriðji orkupakkinn kemur okkur ekkert við, svo að Alþingi á að hafna honum og hefur til þess fullar heimildir og fulla ástæðu.  

Hér hefur helzti hvatamaður og eins konar guðfaðir EES-samningsins á Íslandi talað.  Eftir standa ráðherrar iðnaðar og utanríkismála, eins og illa gerðir hlutir, berir að tómu fleipri og undir grun um að ganga erinda skuggalegra útrásarafla, auðvalds, sem er hluti af stærsta hagkerfi heims, svarta hagkerfinu, reynandi að koma auðlindum íslenzkrar alþýðu í klær slóttugs og ófyrirleitins stórauðvalds Evrópu, sem beitir framkvæmdastjórn ESB fyrir gullvagn sinn.  Þetta er þá stöðugreiningin, sem upp úr stendur, eftir að fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Alþýðuflokksins hefur tjáð sig sunnudaginn 25.11.2018.

Það er hárrétt hjá JBH, að Íslendingum kemur sameiginlegur orkumarkaður ESB/EES ekkert við.  Það var að sjálfsögðu vegna gríðarlegra orkulinda Noregs, sem ESB krafðist þess í upphafi, að orkan væri í EES-samninginum og þar með, að reglur Innri markaðarins myndu spanna orkugeirann með tíð og tíma, eftir því sem útgáfu orkulaga og orkutilskipana yndi fram. Með Þriðja orkupakkanum er "fjórfrelsið" látið spanna milliríkjaviðskipti með rafmagn (og gas), og þar með er endahnúturinn rekinn á verkið.  Með Fjórða orkupakkanum og viðbótar gerðum og tilskipunum verður svo búið enn betur um hnútana, svo að ákvörðunarréttur hverrar þjóðar verður undirlagður hinu yfirþjóðlega valdi á öllum sviðum orkugeirans. Orkugeirinn er íslenzkum þjóðarbúskap mikilvægari en svo, að við getum spilað þá rússnesku rúllettu að afhenda Evrópusambandinu lyklavöldin að gullmyllum okkar.

Um hættuna, sem vofir yfir Íslendingum, sagði JBH í Silfrinu á RÚV 25.11.2018:

"Takist þeim þetta [að ná tökum á íslenzkum orkulindum-innsk. BJo], verður Ísland endanlega orðið að bananalýðveldi í Suður-Amerískum stíl - verstöð í eigu nokkurra auðklíka og undir þeirra stjórn.  Það er of mikil áhætta að rétta þeim litla fingurinn með því að innleiða pakkann nú og sjá svo til með sæstrenginn seinna. Sá, sem réttir skrattanum litla fingurinn, missir venjulega höndina. Ríkisstjórnin er vafalaust undir ofurþrýstingi frá Norðmönnum [norskri ESB-sinnaðri ríkisstjórn, mikill meirihluti Norðmanna er eindregið á móti þessum orkupakka-innsk. BJo] um að spilla ekki norskum þjóðarhagsmunum í þessu máli.  Þeir fara ekki saman við íslenzka þjóðarhagsmuni."

Það lögfræðistagl, sem iðnaðarráðherra, skósveinar hennar og aðrir talsmenn innleiðingar Þriðja orkupakkans hafa viðhaft um þetta mál, á ekki við, því að hér er um lífshagsmunamál íslenzku þjóðarinnar að tefla, eins og Jón Baldvin Hannibalsson hefur með sínum skorinyrta hætti dregið fram í dagsljósið.    


Landsreglarinn og sæstrengurinn

Í frétt Morgunblaðsins 13.11.2018, "Segir ráðuneytið ekki hafa tekið afstöðu", kemur fram furðulegt afstöðuleysi ráðherra til þess, hvort selja skuli rafmagn úr landi um sæstreng.  Það er þó stórmál, því að framtíðar nýting orkulinda landsins, og þar með þróun hagkerfisins, veltur á því, hvort orkukerfi landsins verður tengt við slíkan sæstreng eða ekki.  Slík þögn um stórmál vekur grunsemdir um undirmál.  Þegar einörð, en rakalega og þekkingarlega veikburða afstaða sama ráðuneytis iðnaðar til innleiðingar Orkupakka #3 er lögð við, þá er niðurstaðan sú, að yfirvöld orkumála á Íslandi séu af hreinni glópsku og glámskyggni að framselja ákvörðunarvald um ráðstöfun endurnýjanlegra orkulinda Íslands til Evrópusambandsins, ESB.

Þokkaleg innsýn fæst í hugarheim iðnaðarráðuneytisins með því að virða fyrir sér "spurningar og svör" ráðuneytisins um "orkupakkann" á vefsetri þess.  Þau ósköp eru til skammar, því að þar fara saman fáfræði um innihald og afleiðingar Orkupakka #3 og útúrborulegir tilburðir til útúrsnúninga og orðhengislsháttar.  Slíkt er með öllu óboðlegt að hálfu stjórnvalds, sem á að hafa trausta og faglega yfirsýn um orkumál landsins og meira eða minna fyrirsjáanleg áhrif innleiðingar erlendrar löggjafar hérlendis á þessu örlagaríka málefnasviði.

Það verður að berjast með kjafti og klóm gegn því, að þetta ráðuneyti fái þeim vilja sínum framgengt að leiða Orkustofnun ESB-ACER til öndvegis í Orkustofnun Íslands, OS, með því að fella hana alfarið undir embætti Landsreglara, eins og skilja má af "spurningum og svörum" ráðuneytisins.  Þar með verður OS verkfæri ESB, algerlega háð stefnumótun og úrskurðum ACER og óháð íslenzkum stjórnvöldum.  Þetta er verri forræðissvipting yfir orkumálunum en nokkurn hafði órað fyrir.  

Fyrrnefnd frétt um ráðleysi ráðuneytisins varðandi viðskipti við útlönd með rafmagn hófst þannig:

""Ráðuneytið hefur ekki átt frumkvæði að neinum fundum með fyrirtækinu og hefur hvorki lýst afstöðu sinni til sæstrengs né til tiltekinna verkefna eða hugmynda", segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, við Morgunblaðið og vísar þar til fyrirtækisins Atlantic SuperConnection, sem hefur verið að skoða möguleika á lagningu sæstrengs, Ice-Link, á milli Bretlands og Íslands."

 

Það er engu líkara af þessum orðum en ráðherrann sé þegar orðinn "stikk-frí" frá því að taka afstöðu til orkusölu úr landi um sæstreng, eins og ráðuneytið verður eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  Þetta enska fyrirtæki er með hástemmdar fyrirætlanir um að flytja orku eftir tveimur einpóla sæstrengum, sem að samanlagðri lestunargetu nema rúmlega helmingi alls uppsetts afls á Íslandi.  Í Noregi nemur útflutningur raforku innan við 10 % af vinnslugetu virkjana þar, og eru þeir þó fjölmargir og umframorka fyrir hendi flest ár í norska vatnsorkukerfinu. Hérlendis er umframorkan aðeins brot af flutningsgetu eins sæstrengs af minni gerðinni og mjög háð árferðinu; getur orðið engin og þar með skortur á ótryggðri orku, eins og hér varð síðast á árunum fyrir gangsetningu Búðarhálsvirkjunar, þegar til framleiðsluskerðinga kom víða um land vegna skorts á ótryggðri orku.

Í stað skæklatogs er iðnaðarráðuneytinu sæmst að kynna sér málefnið af kostgæfni og gefa t.d. gaum að eftirfarandi grein Elíasar Elíassonar, verkfræðings, í Morgunblaðinu 23. nóvember 2018,

"Þórdís Kolbrún, mundu landsreglarann" , en þar stendur m.a.:

"Það er einnig ljóst, að með viðbótar reglugerð ESB nr 347/2013 verður allt vald um það, hvort hér kemur sæstrengur eða ekki, tekið úr höndum íslenzkra stjórnvalda og fært í hendur fræmkvæmdastjórnarinnar[ESB].  Í samningaviðræðum um skiptingu kostnaðar á milli landa verður landsreglarinn síðan fulltrúi Íslands, en má þó ekki taka við fyrirmælum íslenzkra stjórnvalda, heldur verður að fylgja reiknireglum og viðmiðum, sem ESB setur einhliða.  Eftir sæstreng stýrir ACER útflutningi orku frá Íslandi."

Allt er þetta hárrétt hjá Elíasi, enda einfalt að sannreyna þetta fyrirhugaða ferli með því að kynna sér gögn ESB, s.s. téða Innviðagerð, sem verður óhjákvæmilegur fylgifiskur Orkupakka #3 við innleiðingu í lagasafnið.  Sú spurning hlýtur að vakna, hvaða kostnaður það er, sem ACER ákveður skiptingu á á milli landanna tveggja, sem verið er að tengja saman.  Vitað er, að orkuflutningsfyrirtæki landanna, hér Landsnet, verða sjálf að standa undir kostnaði við flutningsmannvirkin frá stofnkerfinu og að endabúnaði, en gildir hið sama e.t.v. um endabúnaðinn sjálfan og flutningstöpin á milli stofnkerfa landanna.  Þá fer nú að kárna gamanið fyrir litla Landsnet í þessum hráskinnaleik.

Það er fyrir neðan allar hellur og reyndar orðið til háborinnar skammar fyrir ríkisstjórnina, að á sama tíma fullyrðir ráðherra iðnaðarmála og lætur skrifa á vefsetur ráðuneytisins, að íslenzk stjórnvöld muni ráða því eftir innleiðingu Orkupakka #3 sem áður, hvort sæstrengur verður tengdur við raforkukerfi landsins eða ekki.  Hér er alveg furðuleg forstokkun á ferðinni og fáránleg ósvífni, sem hlýtur að hafa pólitískar afleiðingar.  Ráðherra, sem kann ekki fótum sínum forráð, þegar fjöregg þjóðarinnar er annars vegar, er ekki traustsins verður.  Ráðuneytið verður að snúa við blaðinu hið skjótasta, lýsa því yfir, að það treysti sér ekki til að mæla með innleiðingu Orkupakka #3, heldur styðji stefnu Framsóknarflokksins um, að leitað verði eftir undanþágu við ESB um innleiðingu "pakkans", og fáist hún ekki, muni ráðuneytið einfaldlega framfylgja vilja Alþingis í þessu máli.

Iðnaðarráðuneytið vill ekki kannast við Landsreglarann, sem fara mun með framkvæmdavald ESB á Íslandi, þótt ráðuneytið reyni á óburðugan hátt að telja almenningi trú um annað með því að benda á skipuritið, þar sem búið er í blekkingarskyni að troða Eftirlitsstofnun EFTA-ESA inn á milli Landsreglara og ACER.  Samt var um það samið, og það kemur fram í gögnum norsku ríkisstjórnarinnar til Stórþingsins, að ESA skyldi framvísa öllum gögnum óbrengluðum frá ACER til Landsreglara og til baka. 

Landsreglarinn verður valdamesta embætti á landinu á orkusviði, en samt algerlega óháður innlendum yfirvöldum.  Embættið hefur áhrif á hagsmuni lögaðila og einstaklinga og hefur sektarheimildir.  Er þá ekki augljóst, að um gauksunga í hreiðri íslenzkrar stjórnsýslu er að ræða, en tilvera þessa gauksunga er brot á Stjórnarskrá Íslands.  Iðnaðarráðuneytið þykist ekkert skilja.

Embætti Landsreglara er lýst í ESB-gerð nr 72/2009, og rekur Elías Elíasson hlutverkið m.a. þannig:

""a) að efla, í nánu samstarfi við stofnunina [ACER], eftirlitsyfirvöld annarra aðildarríkja [aðra landsreglara - innsk. BJo] og framkvæmdastjórnina, samkeppnishæfan, öruggan og umhverfislega sjálfbæran innri markað fyrir raforku í Sambandinu og skilvirkan markaðsaðgang fyrir alla viðskiptavini og birgja í Sambandinu og tryggja viðeigandi skilyrði fyrir skilvirka og áreiðanlega starfrækslu rafmagnsstofnkerfa að teknu tilliti til langtímamarkmiða." 

Það fer ekki á milli mála, að hér er verið að tala um að tengja landið við markaðssvæði ESB með sæstreng.  Það sama kemur oftar fram í ákvæðum um markmið landsreglara og einnig það, að landsreglaranum er ætlað að fylgja stefnu ESB í hvívetna."

 Það vitnar um purkunarlaus óheilindi í málflutningi iðnaðarráðuneytisins undir forystu Þórdísar Kolbrúnar, að ráðuneytið skuli hvorki vilja kannast við tilkomu Landsreglara eftir innleiðingu Orkupakka #3 né ofangreint ætlunarverk ESB um öfluga samtengingu allra aðildarlanda Orkusambands ESB, þ.e. aðildarlanda ACER. Það verður aðeins ein ályktun dregin af því, hversu ráðuneytið er utanveltu í málflutningi sínum.  Það er gjörsamlega marklaust.

Samanburður ráðuneytisins á stöðu Landsreglarans annars vegar og forstjóra Fjármálaeftirlitsins, Persónuverndar eða Samkeppniseftirlitsins hins vegar sýnir, svo að ekki verður um villzt, að ráðuneytið hefur enn ekki komizt til botns í því, hvert valdssvið Landsreglarans verður, hvað þá að ráðuneytisstarfsmenn átti sig á, hvaða afleiðingar það hefur, að æðsti valdsmaður orkumála á Íslandi verður í raun undir stjórn framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.  Blindur leiðir haltan í þessu dæmalausa ráðuneyti.  

Elías B. Elíasson fer ekki í neinar grafgötur með það, hvaða afleiðingar yfirstjórn Landsreglara á orkumálum landsmanna mun hafa, þótt ráðuneytið láti enn, eins og engar breytingar muni verða:

"Hvernig sem það er formlega séð, þá er hér um greiða, ótruflaða leið að ræða fyrir framkvæmdarvald ESB inn í orkuvinnslu úr auðlindum okkar, og eftir samþykkt 3. orkupakkans verða ekki settar neinar reglur um vinnslu úr orkuauðlindinni, sem hafa áhrif á framboð og flutning rafmagns, nema þær séu í samræmi við reglur landsreglarans, ákvæði orkupakkans eða stefnu ESB.  

Það merkir t.d., að sjálfstæðri auðlindastýringu verður ekki komið á eftir samþykkt þriðja orkupakkans.  Þarna er um að ræða verulegt framsal á valdi yfir auðlindinni, sem gerist strax við samþykkt orkupakkans, og telja margir landsmenn, að það sé brot á stjórnarskrá Íslands, hvað sem sumir lögfræðingar segja um hina formlegu hlið."

Það liggur í augum uppi, að geti stjórnvöld og Alþingi ekki hagað nýtingu auðlindarinnar að eigin vild, heldur verði að leggja allar tillögur í þeim efnum undir Landsreglarann, þá er búið að færa framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvörðunarvald yfir orkulindunum á silfurfati.  Hver einasti íbúi landsins finnur strax, að þetta getur fullvalda ríki, sem á mikið undir orkulindum sínum komið, ekki samþykkt.  Á þessu sviði sem öðrum tengdum þessum orkupakka er hegðun iðnaðarráðherra hegðun strútsins, þegar hann fær verkefni til úrlausnar: ráðherrann stingur hausnum í sandinn og afneitar viðfangsefninu, sem nú knýr dyra.  Þess vegna nýtur hún að líkindum núna ekki stuðnings meirihluta Alþingis í því orkupakkamáli, sem rekið hefur á fjörur hennar.

 


Sendiherra ræskir sig

Það er sjaldgæft, að sendiherrar kveðji sér hljóðs hérlendis í deilum um eldfim efni.  Þó skrifaði sendiherra Noregs blaðagrein í vor um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, og nú hefur sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, Bretinn Michael Mann, kvatt sér hljóðs um sama málefni.  Höfundur þessa pistils hefur ekkert á móti slíkri tjáningu fulltrúa erlendra ríkja og ríkjasambanda um málefni, sem á mörgum landsmönnum brenna, enda er gagnlegt að kynnast viðhorfum útlendinga, hvort sem um vinveittar eða andstæðar skoðanir er að ræða hverju sinni. Það er hins vegar mál margra, að ekki verði þessi blaðagrein sendiherrans málstað Evrópusambandsins, ESB, eða áhangendum þess hérlendis til framdráttar.  Þess vegna viljum við endilega sjá sendiherrann skjóta sig aftur í fótinn.

Sendiherra ESB var mikið niðri fyrir í grein sinni, sem hann reit í Morgunblaðið 15. nóvember 2018 og nefndi:

"Jákvæðari orku".

 Hann hélt því fram, að "sæstrengur yrði eingöngu lagður samkvæmt ákvörðun Íslendinga".  Þannig er það núna samkvæmt Orkupakka #2, en norski lagaprófessorinn og Evrópuréttarfræðingurinn, Peter Örebech, hefur einmitt í fyrirlestri í Háskóla Íslands, 22.10.2018, og í umsögnum sínum um 2 lögfræðilegar álitsgerðir til iðnaðarráðherra Íslands, sýnt fram á með skýrri röksemdafærslu, að sú verður einmitt stóra breytingin með Orkupakka #3, að með honum falla millilandaviðskipti með rafmagn (og gas) undir "fjórfrelsi" EES-samningsins.  Þegar þar við bætist Innviðagerð ESB # 347/2013, sem vafalaust verður innleidd hér í kjölfar Orkupakka #3, og sú staðreynd, að ACER (Orkustofnun ESB) metur aflsæstreng til Íslands vera á meðal forgangsverkefna orkumillitenginga í Evrópu og þar með styrkhæft verkefni, þá er engum blöðum um það að fletta, að íslenzk yfirvöld munu verða að láta í minni pokann gagnvart vilja sæstrengsfjárfesta og ACER/ESB, eftir að Alþingi hefur framselt ríkisvald í þessum efnum til ACER. 

Auðvitað gæti ríkisstjórnin þverskallazt og reynt að sprikla, en slíkt verður einfaldlega dæmt sem brot á EES-samninginum, t.d. 12. grein hans, sem bannar útflutningstakmarkanir á vöru.  Ríkisstjórnin verður þá að bíta í það súra epli eða að segja upp EES-samninginum. Að hafna Orkupakka #3 er bezta varnarviðbragð fyrir EES-samninginn í núverandi stöðu. Líklegt er, að innleiðing Orkupakka #3 setji EES-samninginn í uppnám.  Ráðherrarnir 2, sem aðallega hafa beitt sér í þessu orkupakkamáli, ásamt fylgifénaði þeirra, hafa tekið algerlega skakkan pól í hæðina í þessu máli. 

Nú hefur miðstjórn Framsóknarflokksins gefið ráðherrum flokksins fyrirmæli um að standa gegn innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn og ber að fagna því mjög.  Leiðtogi vinstri grænna í Skagafirði og 2 fyrrverandi ráðherrar flokksins hafa opinberlega lagzt gegn innleiðingunni.  Nokkur flokksfélög sjálfstæðismanna hafa líka gert það, en fyrir dæmalaust óhönduglega málsmeðferð ráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem með þetta mál fara, stefnir nú í, að Sjálfstæðisflokkurinn sitji uppi með Svarta-Pétur í þessu máli.  Enginn getur forðað því, nema formaður flokksins, sem verður að stíga fram og taka af skarið með þetta ólánsmál áður en það veldur flokknum meira tjóni.

Sendiherrann fer með fleipur í málsgreininni:

"Þar sem Ísland er ekki aðili að ESB, mun ACER ekki hafa neitt vald hér á landi."

I EFTA-stoð EES-samstarfsins er ESA spegilmynd framkvæmdastjórnar ESB.  Það er enginn vettvangur innan EFTA, sem ætlaður er fyrir fundi landsreglara EFTA-landanna, enda kemur fram í gögnum norsku ríkisstjórnarinnar til Stórþingsins, að í sambandi við Orkupakka #3 er ESA ekki ætlað neitt nýtt og sjálfstætt hlutverk, heldur einvörðungu að afrita ákvarðanir ACER og hugsanlega að þýða þær yfir á íslenzku og norsku áður en þær verða sendar til landsreglara Íslands, Noregs og Liechtensteins. Upplýsingagjöf frá landsreglurum landanna mun að sama skapi fara rakleiðis frá ESA til ACER án úrvinnslu. Innskot ESA eru lélegar umbúðir án innihalds.

  Landsreglararnir eru í ESB-löndunum undir beinni stjórn ACER, og þannig verður það í raun í EFTA-löndunum líka, að kröfu ESB.  Landsreglararnir eru valdamestu embætti okugeira ESB-landanna, og þannig verður það líka í EFTA-löndunum utan Svisslands, sem ekki er með í EES.  Sendiherra ESB er með blekkingartilburði í þessu máli gagnvart íslenzkum almenningi.

Eftirfarandi eru líka blekkingartilburðir að hálfu sendiherrans:

"því [Íslandi] er ekki skylt að opna raforkumarkaðinn sinn né að veita þriðja aðila aðgang eða fjárfestingartækifæri."

Það er alrangt, að undanþága hafa fengizt í viðræðum við ESB í Sameiginlegu EES-nefndinni gagnvart opnun íslenzka raforkumarkaðarins, sem fylgir Orkupakka #3.  Íslenzki raforkumarkaðurinn mun verða markaðsvæddur að hætti ESB eftir innleiðingu Orkupakka #3, og fer sú markaðsvæðing, þ.e. stofnun orkukauphallar, fram undir eftirliti Landsreglarans.  Viðskipti með rafmagn við útlönd færast við innleiðinguna undir ákvæði EES-samningsins um frjálst flæði vöru og þjónustu, og þar af leiðandi verður íslenzki orkumarkaðurinn galopinn gagnvart fjárfestum, sem hér vilja eiga viðskipti með rafmagn, leggja hingað sæstreng og verzla með rafmagn hér í orkukauphöll. 

Það, sem sendiherrann sennilega á við, er, að það var samið um neyðarhemil, sem íslenzk og norsk stjórnvöld mega grípa til áður en í löndunum skellur á beinn orkuskortur, þ.e. skömmtunarástand.  Hækkun orkuverðs, sem óhjákvæmilega verður á orkumarkaði í aðdraganda orkuskorts, er þó ekki talin vera næg ástæða til að grípa í taumana með útflutningstakmörkunum, enda væri þá verið að mismuna orkukaupendum eftir þjóðernum og að takmarka útflutning á vöru, sem er brot á EES-samninginum, gr. #12. 

Það eru hins vegar engar takmarknir settar á fjárfestingar erlendra fyrirtækja í íslenzka orkugeiranum samkvæmt þeim orkupakka, sem iðnaðarráðherra vill nú innleiða í lög á Íslandi, enda væri það saga til næsta bæjar, ef Sameiginlega EES-nefndin hefði skert "fjórfrelsið" svo freklega 5. maí 2017, þegar hún samþykkti innleiðingu Orkupakka #3 í IV. viðauka EES-samningsins. Sendiherrann er að reyna að fegra "pakkann" í augum landsmanna með því, að girðingar hafi verið settar upp gegn auðvaldi Evrópu að hreppa hér eignir í orkugeiranum, sem kunna að verða til sölu.  Það er skreytni hjá sendiherranum. 

Næsta gullkorn sendiherrans, sem vert er að athuga, er þetta:

"Aðalhlutverk eftirlitsaðilans verður í raun að tryggja betra verð fyrir neytendur."

Landsreglarinn hefur það hlutverk að sjá til þess, að hér verði orkukauphöll komið á laggirnar að hætti ESB, og síðan hefur hann eftirlit með þessari starfsemi.  Í ESB-löndunum hefur slík frjáls samkeppni gagnazt orkukaupendunum, en hérlendis eru hins vegar engar forsendur fyrir því, að slíkur markaður geti gagnazt orkukaupendum.  Hér verður alltaf fákeppni, hvort sem Landsvirkjun verður klofin eða ekki.  Ef hún verður klofin, þá verður engri nauðsynlegri orkulindastýringu komið við, enda mun Landsreglarinn banna samræmda orkulindastýringu með vísun í reglur Evrópuréttar um óleyfileg markaðsinngrip.  M.a. af þessum ástæðum mun raforkuverð hækka hér undir umsjón Landsreglarans.  Það verður markaðurinn, sem ræður, og Landsreglarinn mun engin tök hafa á því "að tryggja betra verð fyrir neytendur", þótt hann verði allur af vilja gerður. Sendiherranum er vorkunn, þótt hann haldi þessu fram, því að hann hefur ókunnugleika sem afsökun, en ráðuneyti iðnaðar, sem heldur því sama fram, skákar bara í skjóli fávísi. 

Að lokum verður hér minnzt á Grýluna í málinu, sem er sú, að synjun staðfestingar Orkupakka #3 á Alþingi muni hafa slæm áhrif á EES-samstarfið.  Það vill svo vel til, að sendiherrann gerir lítið úr Grýlu og skrifar:

"Í versta falli gæti þetta valdið því, að hluti af EES-samningnum félli úr gildi, a.m.k. til bráðabirgða."

Ef sendiherrann á hér við Viðauka IV í EES-samninginum, sem fjallar um orkumál, þá hefur hann rétt fyrir sér.  Líklegast er, verði um einhverjar mótaðgerðir að ræða, að aðeins orkumarkaðslagabálkur #2 verði felldur úr gildi.  Það skaðar Ísland ekki á nokkurn hátt.  

Þegar norska Stórþingið hafnaði póstpakka #3 frá ESB árið 2011, komu engar gagnráðstafanir frá ESB í kjölfarið.  Líklegast verður hið sama uppi á tenginum, ef Alþingi hafnar Orkupakka #3 árið 2019 eða ef Stórþingið gerir það haustið 2020 eftir sigur "Nei til EU" í dómsmáli gegn ríkisstjórn Noregs um þann  málatilbúnað að krefjast ekki aukins meirihluta, þegar Orkupakki #3 var lagður fyrir Stórþingið og atkvæði greidd um hann veturinn 2018, eins og stjórnarskráin kveður þó á um, þegar fullveldisframsal af þessu tagi er annars vegar.

 

    

 


Útflutningshömlur á rafmagn yrðu óheimilar

Það leiðir af EES-samninginum, gr. 12, að leggi íslenzk yfirvöld stein í götu aflsæstrengsfjárfesta, sem tengjast vilja íslenzka raforkukerfinu, eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins, og Landsreglarinn á Íslandi er meðmæltur leyfisumsókn um slíkan streng, þá mun sá sami Landsreglari umsvifalaust tilkynna slíkan þvergirðing til yfirboðara sinna hjá ACER (gegnum ESA) og getur tilfært slíkt sem skýlaust brot á "fjórfrelsisreglu" nr 12  í EES-samninginum um bann við hvers kyns hömlum á útflutningi, svo að ekki sé nú minnzt á áætlanagerðir ACER um millilandatengingar, sem ætlazt er til, að ACER-aðildarlönd styðji, þótt þau hafi þar ekki atkvæðisrétt, eins og við mun eiga um EFTA-ríkin.  

Samkvæmt núgildandi orkupakka 2 á Íslandi er almennt talið, að íslenzk yfirvöld og löggjafi hafa það í hendi sér, hvort gengið verður til samninga við sæstrengsfjárfesta eða ekki.  Þetta er hinn mikli munur, sem felst í orkupakka 2 og 3.  Segja má, að fjórfrelsið hljóti nýja vídd með Þriðja orkupakkanum og spanni með honum utanríkisviðskipti með rafmagn.

Þess vegna er alveg dæmalaust að sjá útlistun iðnaðarráðuneytisins nr 7 á minnisblaði Ólafs Jóhannesar Einarssonar til ráðherrans í apríl 2018:

"Þriðji orkupakkinn haggar því ekki, að það er á forræði Íslands að ákveða, hvaða stjórnvald myndi veita leyfi fyrir lagningu sæstrengs og eins, hvort íslenzka ríkið ætti að vera eigandi að honum."

 Þetta orkar mjög tvímælis, því að segja má, að áherzlan í orkupakka 3 felist í útvíkkun fjórfrelsins til að spanna utanlandsviðskipti með raforku (og gas). Það þýðir, að innlend stjórnvöld verða ekki látin komast upp með að leggja stein í götu utanlandsviðskipta með orku, eftir að Alþingi hefur afsalað ákvörðunarvaldi um þetta til yfirþjóðlegrar stofnunar, ACER (gegnum í þessu tilviki ljósritarann og þýðandann, ESA).     

Landsreglarinn verður Orkustofnun til ráðuneytis um afgreiðslu leyfisumsókna frá sæstrengsfjárfestum.  Komi upp ágreiningur á milli Landsreglara og Orkustofnunar um afgreiðslu umsóknar, ber Landsreglara að tilkynna ACER (gegnum ESA) um þann ágreining, og hlutverk ACER er að kveða upp bindandi úrskurði í deilumálum um millilandatengingar. Verður þá að sjálfsögðu tekið tillit til þess, hvort viðkomandi millilandatenging er á forgangsverkefnaskrá ACER eða ekki. Um slík verkefni gildir t.d. samkvæmt Innviðagerð #347/2013, að Orkustofnun verður að afgreiða sæstrengsumsóknir á innan við 18 mánuðum.  Með texta ráðuneytisins er hins vegar gefið í skyn, að innlend stjórnvöld muni ráða þessu, en það er alls ekki svo samkvæmt orkupakka 3, þótt það sé rétt samkvæmt orkupakka 2. Þetta hefur prófessor Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, sýnt fram á í rýniritgerðum sínum um minnisblað Ólafs Jóhannesar Einarssonar til iðnaðarráðherra í apríl 2018 og um greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar til sama ráðherra í september 2018.

Það er heldur ekki rétt, að íslenzk stjórnvöld ráði því alfarið, hvort íslenzka ríkið kaupi sig inn í félag um sæstreng.  Það yrði alfarið samningsatriði á milli aðila á frjálsum markaði, og ríkisvaldinu verður óheimilt að troða einkafyrirtækjum um tær.  Norski Verkamannaflokkurinn setti í vetur 8 skilyrði fyrir stuðningi sínum við innleiðingu Orkupakka 3, og eitt af því var einmitt, að raforkuflutningsfyrirtækið Statnett, sem er alfarið í eigu norska ríkisins, yrði eigandi allra framtíðarsæstrengja frá Noregi.  Hefðu Norðmenn sett þennan fyrirvara, ef augljóst væri við lestur orkupakkans, að norsk yfirvöld hefðu eignarhaldið í hendi sér ?  Auðvitað ekki.  Hér er um heimatilbúna túlkun lögmannsins og ráðuneytisins að ræða. 

Hins vegar ber Landsneti að standa straum af kostnaði við tengingar frá stofnrafkerfi landsins og niður að sæstrengnum samkvæmt forskrift Orkupakka 3.  Sá kostnaður gæti numið um mrðISK 100 og mun hærri upphæð, ef endabúnaður sæstrengs (spennar, afriðlar, áriðlar o.fl) verður innifalinn.  Öllum þessum kostnaði ber Landsneti að standa straum af með hækkun gjaldskráa sinna, svo að innlendir raforkunotendur munu standa af þessu straum með verulegri hækkun útgjalda fyrir rafmagnsnotkun.  Þetta þýðir, að a.m.k. tveir þættir rafmagnsreiknings almennings munu hækka með tilkomu sæstrengs, raforkuverð frá orkuseljanda og flutningsgjald Landsnets.  Það er ekki ólíklegt, að fyrri þátturinn tvöfaldist og seinni þátturinn hækki um 60 %, sem mundi þýða yfir 50 % hækkun raforkureiknings, ef dreifingarkostnaður breytist ekki.

Um meint forræði Íslands yfir þessum málum skrifar pófessor Peter Örebech m.a.:

"Ekki myndi ég reiða mig á þetta [þ.e. mat ÓJE-innsk. BJo].  Ísland nýtur fullveldisréttar síns m.t.t. áframhaldandi eignarréttar ríkisins á orkunni [þar sem hann á við-innsk. BJo], EES#125, en stýring orkuvinnslunnar, þ.e. samþykkt, sem ekki er gerð á grundvelli eignarréttarins, heldur á grundvelli stjórnunarréttar - þ.e.a.s. stýring atvinnugreinarinnar - verður að vera í samræmi við EES.  Einkaaðilar eru ekki útilokaðir frá því að setja á laggirnar og reka  raforkusölu [og vinnslu-innsk. BJo], heldur þvert á móti. Það myndi þýða tvísýna baráttu fyrir Ísland að veita því mótspyrnu, að E´ON, Vattenfall, Statkraft eða einkafyrirtæki - með vísun til áætlana samþykktra í ACER um streng frá Íslandi og til Noregs tengdum mörgum strengjum við ESB-markaðinn - legði og tengdi slíkan sæstreng.  Sjá gerð nr 714/2009, Viðauka I (Leiðbeiningar um stjórnun og úthlutun flutningsgetu til ráðstöfunar á flutningslínum á milli landskerfa), þar sem stendur í lið 1.1: "Flutningskerfisstjórar (TSO-hérlendis Landsnet) skulu leggja sig fram um að samþykkja öll fjárhagslega tengd viðskipti, þ.m.t. þau, sem fela í sér viðskipti á milli landa.".

Ennfremur stendur í lið 2.1: "Aðferðirnar við framkvæmd flutningstakmarkana skulu vera markaðstengdar til að létta undir skilvirkum viðskiptum á milli landa.".

Það er alveg óviðunandi, að einhverjir embættismenn og stjórnmálamenn hérlendir fullyrði, að engin hætta sé á ferðum, þótt sérfræðingur í Evrópurétti rökstyðji hið gagnstæða með sínum lögfræðilegu rökum og tilvísunum í Evrópugerðirnar, sem um málið gilda, ásamt því að rekja úrskurði Evrópudómstólsins, eins og PÖ gerði í athugasemdum sínum við greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar til iðnaðarráðherra frá september 2018. Það er allt of mikið í húfi til að taka þessa áhættu.  

 

 


Peter Örebech tekur dæmi af streng á milli Íslands og Noregs

Á grundvelli þekkingar sinnar á Evrópurétti hefur norski lagaprófessorinn Peter Örebech varað Íslendinga eindregið við afleiðingum þess að innleiða Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB í EES-samninginn. Hið sama gerði hann í Noregi, þegar umræðan um þennan "orkupakka" stóð yfir þar í aðdraganda þinglegrar meðferðar málsins.  Það breytir engu um afstöðu þessa lögfróða manns til málsins, að EES-samningurinn hefur spannað orkumál frá upphafi. Þótt Íslendingar hafi ásamt Norðmönnum og Liechtensteinum innleitt 1. og 2. orkupakkann í Viðauka IV EES-samningsins, þá ber Íslendingum og hafa fulla heimild til að taka sjálfstæða afstöðu til Þriðja orkumarkaðslagabálksins.

Með pakkanum er nefnilega innleidd ný vídd í fjórfrelsi orkugeirans, sem er alveg ný af nálinni hérlendis, þ.e.a.s. frjáls markaðsviðskipti með rafmagn við útlönd.  Það er meginskýringin á því, að þessi nýjasti orkupakki ESB hefur fengið marga hérlandsmenn til að staldra við og spyrja, hvort e.t.v. sé nú þegar nóg komið af svo góðu.  Hingað og ekki lengra er niðurstaða margra, því að með gildistöku greinar EES#12, sem bannar hömlur á vöruútflutningi (rafmagn er vara að Evrópurétti), mun það verða talið brot á EES-samninginum að þvælast fyrir fjárfestum aflsæstrengs til Írlands, svo að ESB-ríki sé nefnt, eða að takmarka slíkan útflutning fyrr en orkuskortur er hér orðinn að veruleika.  Mikil verðhækkun rafmagns hér er alls ekki talin næg ástæða til að stöðva þennan útflutning.

Það, sem máli skiptir fyrir hagsmuni Íslands í þessu sambandi er, að Þriðji orkupakkinn leysir úr læðingi "fjórfrelsið" í orkugeiranum á þeim sviðum, þar sem það gildir ekki alfarið nú þegar.  Það þýðir skilyrðislausa markaðsvæðingu hérlendis með orkukauphöll, sem ekki er valkvæð samkvæmt orkupakka 2, og að samkeppnishindranir, t.d. vegna stórrar markaðshlutdeildar, verða þá vart liðnar lengur. Útflutningshindranir á raforku að hálfu íslenzka löggjafans og íslenzkra yfirvalda (framkvæmdavalds, dómsvalds) verða ólögmætar. Með öðrum orðum mun Evrópuréttur ríkja á sviði milliríkjaviðskipta með rafmagn. Rökrétt afleiðing af því er, að innlend yfirvöld hafa þá framselt ákvörðunarvald um millilandatengingar til markaðarins, Landsreglarans og ACER.  ESA hefur ekkert sjálfstætt úrskurðarvald í þessum efnum.  Það verður hjá ACER og framkvæmdastjórn ESB.  Með því að framselja vald til yfirþjóðlegrar stofnunar er tekin sú áhætta, að ákvarðanir, er Ísland varða, verði ekki í þágu íslenzkra hagsmuna.  Þess vegna bannar Stjórnarskráin þennan gjörning.  

Á minnisblaði Ólafs Jóhannesar Einarssonar, 12. apríl 2018, er skautað léttilega framhjá þessum atriðum.   Það er sláandi að bera saman 6. lið samantektar iðnaðarráðuneytisins á téðu minnisblaði og athugasemdir prófessors Peters Örebech við þennan lið.  Samanburðurinn kastar ljósi á þann bullandi túlkunarmun, sem einkennir umræðuna og er á milli þeirra, sem í raun rökræða fátt í þessu sambandi, en virðast helzt halda, að allt sé búið og gert, þótt þrjár nefndir Alþingis hafi á árunum 2014-2016 verið upplýstar um gang mála í Sameiginlegu EES-nefndinni og um viðhorf nokkurra sérfræðinga, aðallega embættismanna ráðuneyta.  Slíkt fyrirkomulag bindur á engan hátt hendur Alþingis, þegar það fær samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar til lokaafgreiðslu.   

Svipað fyrirkomulag er viðhaft í norska Stórþinginu, og það hefur hafnað Evrópugerð um póstdreifingu, og enginn efaðist þar í landi um fulla heimild Stórþingsins til þess.  ESB tók þetta gott og gilt, hafði ekki uppi nokkrar mótaðgerðir, og viðskipti Norðmanna við ESB-ríkin gengu snurðulaus.  Ákafir aðdáendur fjarstjórnar helztu þjóðmála frá Brüssel fá hins vegar hland fyrir hjartað, ef einhverjum dettur í hug að reisa burst við valdaráni Brüssel-búrókratanna um hábjartan dag:

Iðnaðarráðuneytið (6): "Heimildir ACER til að taka bindandi ákvarðanir eru að meginstefnu bundnar við ákvæði, sem gilda um orkumannvirki, sem ná yfir landamæri (t.d. sæstrengi); eðli málsins samkvæmt eiga slíkar valdheimildir ekki við á Íslandi, svo lengi sem hér eru engin slík orkumannvirki."

Þetta er rökleysa hjá ráðuneytinu, enda væri ACER í sömu sporum bæði fyrir og eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans varðandi það að koma hér á sæstrengstengingu við útlönd, ef þetta væri rétt.

Hvað skrifaði prófessor Peter Örebech um þessa útlistun ráðuneytisins ?:

"Af því að mikilvægasta réttarheimildin, orðanna hljóðan í sáttmálanum, hér grein 12, er skýr og þess vegna ákvarðandi, leiðir það, að sú léttvægasta, "eðli máls", er þýðingarlaus.  EES-samningurinn, grein 12, túlkaður samkvæmt almennri málnotkun, er hér skýr og þess vegna ákvarðandi.  

Ef einhver í Noregi vill leggja rafstreng á milli Noregs og Íslands, og Ísland hafnar slíkum sæstreng, verður um að ræða "magntakmörkun á útflutningi", sem stríðir gegn grein 12.  Ágreiningur á milli t.d. Landsreglarans (RME) í Noregi fyrir hönd einkafyrirtækis, t.d. Elkem, og Landsreglarans á Íslandi um lagningu sæstrengja frá Íslandi og til vesturstrandar Noregs (u.þ.b. 1500 km) verður útkljáður hjá ACER samkvæmt gerð nr 713/2009, grein 8 (1) a." 

Þetta þýðir með öðrum orðum, að strax eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans verður það úr höndum íslenzkra yfirvalda og í höndum ACER að ákveða, hvort fjárfestir fær leyfi til að leggja aflsæstreng frá Íslandi til útlanda.  


Orkupakki ESB nr 3 og ESA

Í samantekt sinni á minnisblaði Ólafs Jóhannesar Einarssonar til iðnaðarráðherra frá miðjum apríl 2018 skrifar Iðnaðarráðuneytið svofellt í 5. lið samantektarinnar:

"Við upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn var um það samið, að valdheimildir gagnvart eftirlitsstjórnvöldum í EFTA-ríkjunum yrðu ekki hjá ACER, heldur hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA)."

Hér lætur ráðuneytið í það skína, að ESA sé að formi og innihaldi sjálfstæður málsmeðferðaraðili í orkumálum, sem semji sjálfstæð fyrirmæli, tilmæli og leiðbeiningar til hefðbundinna íslenzkra eftirlitsaðila í raforkugeiranum, sem lúti innlendum stjórnvöldum.

Þetta er hrein fjarstæða, því að ekkert af þessu stenzt rýni.  ESA hefur ekkert hlutverk EFTA-megin sem Orkustofnun EFTA í líkingu við hlutverk ACER ESB-megin.  Það er mjög einkennileg ráðstöfun að setja ESA sem lið á milli ACER og Landsreglarans án eiginlegra valdheimilda á orkumálasviði EFTA-ríkjanna.  Ef það var gert til að draga dul á, að Landsreglarinn, æðsta valdstofnun orkumála á Íslandi eftir innleiðingu Orkupakka 3 í EES-samninginn, verður alfarið undir stjórn ACER, var það alveg út í hött, því að svo er búið um hnútana í gerð ESB um Landsreglarann, að hann skuli verða algerlega óháður yfirvöldum hvers lands og hagsmunaaðilum þar.  Hann verður ríki í ríkinu undir stjórn ACER.  Að æðsta stofnun orkumála á Íslandi verði óháð lýðræðislega kjörnum fulltrúum og yfirvöldum landsins er óhæfa og hlýtur að verða farið með tiltektir Landsreglarans fyrir íslenzka dómsstóla, ef Alþingi leiðir þennan óskapnað í lög hér.  

Hvað skrifaði Peter Örebech í athugasemdum sínum, sem nú eru birtar í íslenzkri þýðingu sem viðhengi með pistli þessum ?:

"Já, það er rétt, að ACER á að taka sínar ákvarðanir og að ESA á að taka sams konar ákvarðanir (við þýðingu á ACER-ákvörðun á íslenzku, norsku o.sfrv.).  Þeim er síðan beint að Landsreglaranum, sem framkvæmir ACER-ákvarðanirnar á Íslandi og í Noregi, en þar sem þetta eru afritaðar ákvarðanir, og þar eð Ísland eða Noregur geta ekki sagt Landsreglaranum fyrir verkum - samtímis sem Landsreglaranum ber skylda til að fylgja reglum EES-réttarins, sbr grein 7 í EES-samninginum, þá er hið valda fyrirkomulag hrein sýndarmennska til að komast hjá stjórnarskrárhindrunum, sem varða breytinguna frá tveggja stoða kerfi til hins stjórnarskrárbrotlega einnar stoðar kerfis."

Á fundi í Háskóla Íslands 22. október 2018, þar sem prófessor Peter Örebech var aðalfrummælandinn, tók prófessor emeritus og sérfræðingur í Evrópurétti, Stefán Már Stefánsson, til máls og lýsti sig sammála lögfræðilegum útlistunum Örebechs.  Á fundi í Valhöll, 30. ágúst 2018, þar sem Stefán Már var einn fjögurra framsögumanna, lýsti hann því yfir, að ef hlutverk ESA í sambandi við Þriðja orkupakkann væri sýndargjörningur, en ekki raunverulega sjálfstætt hlutverk, eins og ACER hefur EFTA-megin, þá gæti ESA ekki talizt vera næg trygging fyrir tveggja stoða kerfið í þessu tilviki.  Sé nú þetta hvort tveggja lagt saman, þá kemur í ljós, að framkvæmd Þriðja orkumarkaðslagabálksins mun óhjákvæmilega leiða af sér stjórnarskrárbrot á Íslandi.  Þess vegna geta Alþingismenn ekki með góðri samvizku aflétt hinum stjórnskipulega fyrirvara af þessum gerningi hinnar sameiginlegu EES-nefndar embættismanna í Brüssel, heldur verða þeir að synja honum staðfestingar.  

Geri þeir, mót vonum, hið gagnstæða, gera þeir EES-samninginn sjálfan að miklu bitbeini á Íslandi, og sú eðlilega krafa fær líklega byr undir báða vængi í kjölfarið, að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að EES.  Slíkar deilur um EES eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans með hækkandi raforkuverði í landinu og sæstreng í sjónmáli gætu orðið stjórnmálaflokkum, sem ekki standa í ístaðinu núna, æði skeinuhættar.  "Kalt mat" er, að minni vandræði muni hljótast af höfnun Þriðja orkupakkans en af samþykki hans.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Valdheimildir ACER (Orkustofnunar ESB)

Greinarkorn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, í Morgunblaðinu 8. nóvember 2018, hefur valdið fjaðrafoki á meðal þeirra stjórnarliða, sem trúa áróðri ESB um, að Orkupakki 3 feli í sér sáralitlar breytingar frá Orkupakka 2.  Geta má sér þess til, að áhyggjur í röðum stjórnarflokkanna stafi þó ekki af greinarkorninu, "Suma pakka er betra að afþakka", heldur af hinu, að nýlega haldinn flokksráðsflokkur Miðflokksins gagnrýndi harðlega það framsal á stórfelldum hagsmunum til ESB, sem sýnt hefur verið fram á með lögfræðilegum rökum (Peter Örebech), að óhjákvæmilega mun leiða af innleiðingu Orkupakka 3. Skiptir þá engu í þessu sambandi, þótt utanríkismálanefnd Alþingis hafi fyrir 3-4 árum ályktað á grundvelli tiltækra upplýsinga þá að heimila EES-nefndinni að komast að samkomulagi um Þriðja orkupakkann.  Rýni sýnir, að lausnin, sem ofan á varð með Landsreglara, ESA og ACER, er algerlega ótæk fyrir íslenzku Stjórnarskrána.  

Þeim lúalega andróðri gegn Sigmundi Davíð og Gunnari Braga er nú beitt af áköfustu talsmönnum orkupakkans, að í ráðherratíð sinni 2013-2016 hefðu þeir átt að sjá í gegnum áróður ESB og láta hart mæta hörðu í Sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem málið vissulega var til umræðu.  Sá er hængurinn á, að þá höfðu engar upplýsingar komið fram um, hvað þessi orkupakki í raun fæli í sér. Allar upplýsingar um þennan nú alræmda orkupakka voru matreiddar af Evrópusambandinu, ESB, og vafðar inn í bómull, sem enn sér stað í málflutningi utanríkisráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins.

Það er þess vegna ósvífni og ómálefnalegt að álasa nú þessum tveimur Miðflokksmönnum fyrir að hafa ekki veitt andspyrnu þá.  Höfuðið er þó bitið af skömminni með því að deila á þá fyrir að hafa skipt um skoðun, þegar þeim hafði veitzt ráðrúm til að kynna sér málið betur.  Aðeins forstokkaðir pólitískir steingervingar ríghalda í sína gömlu skoðun, þótt nýjar upplýsingar leiði í ljós, að gamla skoðunin og afstaðan er  þjóðhættuleg.  Skömm slíkra  mun lengi uppi verða.

Téða grein sína endaði Sigmundur Davíð þannig:

"Það að koma í veg fyrir, að erlendar stofnanir öðlist yfirþjóðlegt vald á Íslandi, og aðrir hagsmunir samfélagsins verði veiktir, ætti ekki að vera pólitískt þrætuepli innanlands. Ekki frekar en önnur mál, sem snúa að því að verja hagsmuni landsins út á við eða sjálft fullveldið.

Það er grátlegt, að stjórnvöld telji það ekkert tiltökumál að framselja sneið af sjálfstæði landsins á sama tíma og haldið er upp á, að 100 ár séu liðin frá því, að Ísland endurheimti fullveldi sitt.  Um leið fara svo fram umræður um, hvort eigi að afnema svokallað fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar til að auðvelda slíkt framsal í framtíðinni.

Ég skora á ríkisstjórnina að fara nú þegar fram á, að Ísland fái undanþágu frá orkupakkanum og skila honum svo til sendanda.  Í því efni getur ríkisstjórnin reitt sig á stuðning Miðflokksins."

Hvað hefur íslenzka iðnaðarráðuneytið að segja um þá ESB-stofnun, sem valdframsalið frá íslenzkum stjórnvöldum um málefni orkuvinnslu og orkuflutninga mun fara fram til, ef Alþingi samþykkir orkupakkann ?:

"ACER hefur engar valdheimildir gagnvart einkaaðilum, heldur eingöngu opinberum eftirlitsaðilum."

Þessi fjórði liður samantektar ráðuneytisins á minnisblaði Ólafs Jóhannesar Einarssonar til iðnaðarráðherra er gott dæmi um þann orðhengilshátt, sem ráðuneytið telur sér sæma að viðhafa í þessu alvarlega máli í stað þess að nefna hlutina sínum réttu nöfnum og sleppa þar með blekkingarhjali.  

"Opinberir eftirlitsaðilar", sem ACER hefur valdheimildir gagnvart, er Landsreglarinn.  Hann verður ekki hluti af eftirlitskerfi íslenzkra yfirvalda með orkugeiranum, því að hann heyrir alls ekkert undir þau, heldur undir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) að nafninu til, en í raun alfarið undir ACER.  Embætti Landsreglarans verður þó á íslenzku fjárlögunum.  Hann mun létta af iðnaðarráðuneytinu og Orkustofnun öllum eftirlitsskyldum þeirra með raforkugeiranum, og Landsreglarinn verður í raun valdamesta embætti íslenzka orkugeirans, fjarstýrt frá Framkvæmdastjórninni í Brüssel.      

  Í tilraun til að hylja stjórnarskrárbrotið, sem í þessu felst, var ESA sett upp sem milliliður Landsreglara og ACER án nokkurs sjálfstæðs hlutverks.  Þjónkunarlöngunin við ESB varð stjórnarskrárhollustunni yfirsterkari í vissum kreðsum íslenzka stjórnkerfisins, og er svo enn, þótt skrýtið sé.  Skinhelgin svífur svo yfir vötnunum, þegar sömu aðilar taka þátt í hátíðarhöldum Lýðveldisins í tilefni aldarafmælis fullveldisendurheimtu.  Lágkúran ríður ekki við einteyming.

Hvað hefur Peter Örebech að segja um þessa gagnslausu og beinlínis villandi túlkun á valdheimildum ACER.  Eftir að hafa rakið í hvaða gögnum ESB þessum valdheimildum er lýst, bendir hann á þá staðreynd, að þessar valdheimildir eru enn í mótun hjá ESB, og við höfum auðvitað engin áhrif á þá mótun, en yrðum að gleypa við öllum nýjum gerðum og tilskipunum um aukna miðstýringu orkumálanna og aukin völd ACER, sem Framkvæmdastjórninni tekst að troða ofan í kokið á aðildarlöndum ESB með spægipylsuaðferðinni.  Prófessor Örebech skrifar:

 "Völd ACER eru skráð í framangreindum gerðum og tilskipunum, en þessi skjöl gefa mynd af völdunum m.v. ákveðinn tíma.  ESB hefur lagasetningarvaldið og getur fyrirvaralítið breytt hinum mörgu verkefnum/heimildum ACER.  ACER hefur ákvörðunarvald í einstökum málum.  Þau geta t.d. varðað millilandastrengi, sjá gerð nr 713/2009, grein 8 (1)."

Landsreglarinn mun sjá til þess, að reglum Evrópuréttar verði stranglega fylgt hérlendis eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.  Það felur t.d. í sér stofnsetningu raforkukauphallar á Íslandi að hætti ESB með þeim skaðlegu áhrifum á hagsmuni atvinnulífsins og alls almennings, sem slíkt kann að hafa í landi, þar sem orkukerfið er með allt öðrum hætti en orkukerfið, sem markaðskerfi ESB er sniðið við.  Fyrir hagsmunagæzlu almennings, sem kerfið á að þjóna, getur þetta markaðskerfi hæglega snúizt upp í andhverfu sína við íslenzkar aðstæður, sem er hagsmunagæzla fyrir raforkuseljendur.  Hér er því, auk alls annars, um stórfellda ógnun við neytendavernd að ræða í landinu.  

 

 


Valdmörk ACER

Enginn veit, hver valdmörk Orkustofnunar ESB - ACER verða á næstu árum, en hitt er flestum ljóst, að þau munu verða víðari.  Það hefur gerzt með margvíslegum Evrópugerðum og tilskipunum ESB, frá því að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn sá fyrst dagsins ljós og var gefinn út með samþykki ESB-þingsins árið 2009.  Hugsanlega þegar á næsta ári mun Fjórði orkumarkaðslagabálkurinn líta dagsins ljós, og þá verður enn meiri miðstýring og minna vald einstakra landa yfir orkumálum sínum innsiglað. Dettur einhverjum í hug, að "Orkupakka 4" frá ESB verði hafnað af Alþingi, ef "Orkupakki 3" verður samþykktur.  Trúboðar "Orkupakka 3" halda því blákalt fram, að svo lítill munur sé á pökkum 2 og 3, að ástæðulaust sé að hafna "Orkupakka 3".  Það er hins vegar fjarstæða og annaðhvort haldið fram í fáfræði eða í hreinræktuðu blekkingarskyni.   

ESB gerir "Orkupakka 3" ekki að gamni sínu, því að dýrt er umstangið, heldur til að búa í haginn fyrir orkuskiptin ("die Energiewende") og til að reyna að draga úr hættunni, sem vofir yfir Evrópu vegna orkuskorts.  Eins og fram hefur komið hjá guðföður inngöngu Íslands í Evrópska efnahagssvæðið - EES, Jóni Baldvin Hannibalssyni, fyrrverandi formanni Alþýðuflokksins, eiga Íslendingar þó alls ekkert erindi í þetta samstarf, enda hafa þeir hingað til ekki verið á þessum sameiginlega orkumarkaði og geta engan hag haft af honum.  

Að þvæla landsmönnum inn í ACER, þó án atkvæðisréttar þar, getur aðeins orðið til tjóns og meira að segja til ófyrirsjáanlegs tjóns, því að landsmenn munu missa töggl og hagldir á orkumálunum til hins yfirþjóðlega valds, sem býr einhliða til allar samskiptareglurnar, t.d. í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, og hann væri ekki pappírsins virði, nema hann flytti völd frá aðildarlöndunum til ACER og Framkvæmdastjórnarinnar.

Í þriðja lið samantektar iðnaðarráðuneytisins á minnisblaði Ólafs Jóhannesar Einarssonar frá apríl 2018 kemur fram stórvarasöm glámskyggni ráðuneytisins á eðli og valdmörk ACER hér á landi.  Verður þá fyrst að nefna það, að valdamesta embætti hérlendis á orkumálasviði eftir innleiðingu "pakkans", verður embætti Landsreglara, og þetta embætti verður óháð íslenzkum yfirvöldum og framlengdur armur ACER á Íslandi, sem er undir stjórn framkvæmdastjórnar ESB.

Bæði utanríkisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið hafa töluvert hamrað á þessum þriðja lið við fjölmiðla, og þess vegna rétt að hafa hann orðrétt eftir sem víti til varnaðar og dæmi um ESB-málstað í bómull:

"Samstarfsstofnun evrópskra orkueftirlitsaðila, ACER, myndi, þrátt fyrir aðild Íslands að stofnuninni, ekki hafa neitt að segja um atriði á borð við fyrirkomulag leyfisveitinga og stjórnsýslu hér á landi, og upptaka þriðja orkupakkans hefði í för með sér óverulegar breytingar í því sambandi."

Þessu er sérfræðingur í Evrópurétti, prófessor Peter Örebech, gjörsamlega ósammála, enda láist ráðuneytinu að gefa gaum að samspili orkupakkans við núverandi EES-samning.  Gengur sú yfirsjón eins og rauður þráður gegnum allan málflutning ráðuneytisins í þessu máli, og skal ósagt láta, hvort hún stafar af þekkingarskorti eða einhverju þaðan af verra. Prófessorinn skrifaði um þetta:

"Leyfisveitingakerfi virka hamlandi á frjálst flæði og á aðgang til stofnunar og rekstrar fyrirtækja.  EES-grein 12 [um frjálst flæði vöru-innsk. BJo] spannar líka áhrif þessara stjórnvaldsaðgerða. Þar að auki gildir, að Ísland getur ekki skipulagt leyfisveitingakerfið þannig, að það stríði gegn grein 124 [í EES-samninginum-innsk.BJo]."

Síðan vitnar prófessorinn í grein, sem bannar alla mismunun eftir þjóðernum.  Á grundvelli athugasemda Peters Örebech um þriðja atriði ráðuneytisins virðist fullyrðing ráðuneytisins í þessum lið vera tilhæfulaus með öllu.  

Fyrirkomulag leyfisveitinga á orkumálasviði gjörbreytist við innleiðingu orkubálks 3 og mun þaðan í frá lúta Evrópurétti.  Við úthlutun rannsóknarleyfa, framkvæmdaleyfa og virkjanaleyfa standa þannig Statkraft, Vattenfall, Fortun og E´ON, svo að fáeinir evrópskir orkuveraeigendur séu nefndir, jafnfætis Landsvirkjun og ON, svo að aðeins tvö stærstu íslenzku virkjanafyrirtækin séu nefnd.    

Leyfisveiting til sæstrengsfjárfesta er sérkapítuli, því að þar um gildir nú gerð 347/2013, Innviðagerðin, og Landsreglarinn kemur þar mjög við sögu.  Formlegt leyfisveitingavald verður í höndum Orkustofnunar, en mat hennar verður að vera reist á téðri gerð.  Telji Landsreglari brotið á leyfisumsækjendum, tilkynnir hann óðar um það til ACER, sem úrskurðar í slíkum deilumálum um millilandatengingar.  

Af þessu má ráða, að valdi landsmanna yfir þróun orkumálanna hérlendis yrði gloprað niður á einu bretti  með samþykki Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Það er útilokað, að meirihluti Alþingismanna átti sig ekki á afleiðingunum af þessu.  Þá er bara spurningin, hvort eitthvað annað togar þá til að gera annað en hið eina rétta í þessu máli.  Þau rök, sem heyrzt hafa í þá veru, standa á brauðfótum og jafnast engan veginn á við hin þyngstu rök í þessu dæmalausa máli.  

 

 

 

 


Peter Örebech gerir það ekki endasleppt

Þann 10. apríl 2018 fór iðnaðarráðherra fram á að fá minnisblað um nokkur álitaefni varðandi Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB frá Ólafi Jóhannesi Einarssyni, lögmanni. Ráðherra fékk minnisblaðið tveimur dögum síðar, og nokkrum dögum síðar var minnisblaðið birt ásamt útdrætti ráðuneytisins í 7 liðum.  Prófessor Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, hefur gert alvarlegar athugasemdir við lagatúlkunina, sem fram kemur í samantekt ráðuneytisins í 7 liðum á þessu minnisblaði.  Er nú verið að rýna þýðingu athugasemdanna á íslenzku, en athugasemdir lagaprófessorsins á norsku eru birtar sem viðhengi með pistli þessum, og verður skjalið birt á íslenzku innan tíðar.

Ráðuneytið hefur í raun reist málarekstur sinn fyrir Þriðja orkupakkann á téðu minnisblaði lögmannsins, og hefur þessi málarekstur verið á þeim lögfræðilegu nótum, sem lagt var upp með á minnisblaðinu, en engir tilburðir hafa t.d. verið hafðir uppi  að hálfu ráðuneytisins til áhættugreiningar á þróun raforkumarkaðarins eftir innleiðingu "pakkans", þótt gríðarlegir hagsmunir alls atvinnulífs og heimilanna í landinu séu í húfi.  Er undarlegt, að hagsmunaaðilar á borð við Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins skuli ekki kvarta undan flausturslegum vinnubrögðum iðnaðarráðuneytisins í þessu máli.

Þessi vinnubrögð ráðuneytisins eru forkastanleg og í raun hreinræktað fúsk.  Nú bætist það við, að samkvæmt gagnrýni prófessors Peters Örebech í viðhengi þessa pistils er lögfræði ráðuneytisins í þessu máli reist á sandi.  Verða nú tveir fyrstu liðirnir gerðir að sérstöku umræðuefni og síðar haldið áfram.  

1) PÖ er sammála ráðuneytinu um, að Ísland muni eftir innleiðinguna geta viðhaldið ríkiseignarhaldi á orkulindum, en þó með því skilyrði, að það verði altækt - með óskoraðri ríkiseign, þ.e.a.s. þingið verður að samþykkja, að orkulindir í eigu ríkisins verði ekki einkavæddar.  Slíkt bann er ekki fyrir hendi og ekki víst, að meirihluti sé fyrir slíku á Alþingi.  PÖ vísar í dóm EFTA-dómstólsins frá 2007 í máli, þar sem þjóðnýtingarlöggjöf Norðmanna á virkjunum eftir 60 ár í rekstri og án nokkurra fjárhagsbóta til fyrri eigenda var kærð.  Dómstóllinn úrskurðaði, að þessi harkalega meðferð á frumkvöðlunum eða þáverandi eigendum væri leyfileg að Evrópurétti. 

2) Í öðrum lið útdráttar minnisblaðsins tilfærir ráðuneytið fullyrðingu, sem lagaprófessorinn er ósammála.  Þessi margtuggna fullyrðing ráðuneytanna beggja, utanríkis- og iðnaðar, er á þá leið, að "Þriðji orkupakkinn [haggi] í engu rétti Íslands til að ákveða með hvaða skilyrðum orkuauðlindir landsins eru nýttar, og hvaða orkugjafar eru nýttir hér á landi".  Þetta kveður Peter Örebech rangt, og samkvæmt því verður sjálfræði Íslendinga yfir orkulindunum ekki lengur fyrir hendi eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans.  Ætla þingmenn að taka þessa risaáhættu og fljóta sofandi að feigðarósi, eða ætla þeir einfaldlega að segja: "hingað og ekki lengra" ?

Sérfræðingurinn í Evrópurétti, PÖ, skrifar í athugasemd við þennan lið ráðuneytisins, að verði Þriðji orkupakkinn samþykktur, þá verði orkuvinnsla og samkeyrsla, þ.e. orkuflutningar á milli landa, hluti af EES-samninginum, sem þýðir, að þessi starfsemi mun lúta reglum Evrópuréttar.  Það þýðir einfaldlega, að lögmál hins óhefta markaðar EES munu ráða ríkjum um orkuvinnsluna á Íslandi og ráðstöfun orkunnar.  Ríkisstjórn landsins og þjóðþingið verða sem getulausir áhorfendur að nýtingu íslenzkra orkulinda. Við svo búið má ekki standa.  Alþingi verður að rísa upp gegn þessum ósóma.  

Noregur: Baráttunni gegn þessu valdaafsali er ekki lokið í Noregi.  Færð hafa verið lagaleg rök fyrir því þar í landi, að málsmeðferðin á Stórþinginu hafi verið andstæð stjórnarskrá.  Þar háttar svo til, að krefjast ber 3/4 stuðnings mættra þingmanna (og minnst 2/3 skulu mæta), til að framsal fullveldis sé talið gilt.  Ríkisstjórnin beitti sér fyrir því, að þetta ákvæði var hundsað.  Viðbáran var, að framsalið væri lítið og afmarkað og að málið væri þjóðréttarlegs eðlis, þ.e. varðaði ekki starfsemi og réttindi norskra borgara beint.  Allt er þetta rangt, ef hlutlægt er skoðað, en viðhorfið helgast af blindri trú ríkisstjórnarflokkanna, sérstaklega Höyre, á Evrópusambandinu og sannfæringunni um, að hag Noregs verði bezt borgið innan ESB.  Fyrir þessar sakir hafa samtökin "Nei til EU" nú safnað MNOK 1,0 í sjóð og saksótt forsætisráðherra Noregs, Ernu Solberg. 

 Stuðningur við inngöngu Noregs í Evrópusambandið nýtur lítils og síminnkandi stuðnings á meðal norsku þjóðarinnar, eins og skiljanlegt er, þegar litið er til ástandsins innan ESB.  

DettifossÞýzkt ESB

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband