Loftslagsátakið og orkupakki 3

Ríkisstjórn Íslands hefur með virðingarverðum hætti blásið til atlögu gegn þeirri loftslagsvá, sem nú steðjar að heiminum og varpað var nýlega ljósi á með frétt um, að hafið tæki upp mun meira koltvíildi, sem losað er út í andrúmsloftið, en vísindamenn hefðu áður gert sér grein fyrir og jafnframt, að hlýnun hafanna  væri meiri en búizt var við.  Þetta eru slæm tíðindi fyrir jarðarbúa og ekki sízt eyjarskeggja.

Áætlanir ríkisstjórnarinnar útheimta að sjálfsögðu nýjar virkjanir, því að kjarninn í baráttu ríkisins við losun gróðurhúsalofttegunda er rafvæðing bílaflotans.  Hvort sem orkugeymslan verður vetni, metanól eða rafgeymar, þá þarf aukna raforkuvinnslu í landinu til að standa undir orkuskiptunum. Alltaf verður að vera fyrir hendi í kerfinu ákveðin umframorka til öryggis, og er þar ekki af neinu að taka nú.  

Markmið ríkisstjórnarinnar er helmingun útblásturs frá farartækjum á landi árið 2030 m.v. núverandi stöðu, þ.e. um 500 kt niður í 500 kt/ár.  Þetta þýðir fjölgun rafknúinna farartækja um 140´000 eða að jafnaði 11´700 farartæki á ári.  Í ljósi þess, að slíkur innflutningur er undir 1000 tækjum á ári núna, virðist þetta vera óraunhæft markmið og algerlega vonlaust, nema að auka hvatann til slíkra kaupa.  Það gæti þýtt niðurfellingu virðisaukaskatts í 10 ár auk vörugjalds og tolla, sem ekki hafa verið lögð á "umhverfisvæn" farartæki um nokkurra ára skeið.  Jafnframt þarf að halda áfram afslætti á bifreiðagjöldum, og væntanleg akstursgjöld eða vegagjöld þyrftu að verða með afslætti á ökutæki með litla losun. Það kostar klof að ríða röftum, eins og þar stendur.

Til að takast megi að ná ofangreindu markmiði ríkisins þarf að auka vinnslugetu virkjana um tæplega 700 GWh/ár árið 2030 einvörðungu til að standa straum af rafbílavæðingunni.  Þetta er tæplega 4 % aukning m.v. núverandi.  Aflþörfin (MW) er þó tiltölulega miklu meiri, því að hleðslutíminn er fjarri því að dreifast jafnt yfir sólarhringinn.  Þannig mun myndast vaxandi framboð afgangsorku á markaðinum, sem hægt er að bjóða með afslætti m.v. forgangsorku, gegn rofheimild á meðan toppálag varir. Gæti slíkt gagnast ýmissi starfsemi á Íslandi, en er þó ekki vænlegt til útflutnings um sæstreng (of lítið magn).

Orkustofnun hefur gefið út raforkuspá fyrir árið 2050.  Í spánni er ekki gert ráð fyrir neinni aukningu samkvæmt langtímasamningum til iðnaðar, gagnavera e.þ.h. og aðeins 2800 GWh/ár og 464 MW aukningu til almenningsnota, þ.m.t. til orkuskiptanna.  Pistilhöfundur telur á hinn bóginn, að aukning raforkuvinnsluþarfar verði um 7010 GWh/ár á árabilinu 2017-2050, muni þá nema um 25´560 GWh/ár, sem er aukning um 37 % á 34 árum, og skiptist aukningin þannig:

  • Stórnotendur:    300 MW, 2580 GWh/ár
  • Alm.notendur:   1155 MW, 4230 GWh/ár
  • Kerfistöp:        23 MW,  200 GWh/ár
  • Raforkuvinnsla: 1478 MW, 7010 GWh/ár 

 Aukningin í almennri notkun er 108 %, en sú aukning er skiljanleg í ljósi þess, að árið 2050 mun rafmagnið hafa leyst nánast allt innflutt jarðefnaeldsneyti af hólmi.  Reikna má með, að eldsneytissparnaður einvörðungu til ökutækja muni þá nema rúmlega 400 kt/ár og að hreinn gjaldeyrissparnaður (innkaupsverð eldsneytis að frádregnum erlendum kostnaði virkjana, flutnings- og dreifikerfa) muni þá nema um 490 MUSD/ár eða um 60 mrðISK/ár. Slíkt er búbót fyrir viðskiptajöfnuðinn.   

Duga orkulindirnar í þetta ?  Í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3 eru virkjanir að uppsettu afli 1421 MW og orkugetu 10´714 GWh/ár.  Það virðist vanta örlítið afl, en umframorkan virðist nema um 3700 GWh/ár.  Skýringarinnar er að leita í stuttum nýtingartíma hámarks aflþarfar almenna álagsins, t.d. hleðslutækja rafmagnsfartækjanna.  Þetta er of lítil orka til að tryggja arðbærni sæstrengs til Bretlands, en gæti hentað sæstreng til Færeyja og rafnotendum innanlands, sem geta sætt sig við straumrof eða álagslækkun á toppálagstíma, sennilega 1-2 klst á sólarhring.

Inn í Rammaáætlun 3 hafa ekki ratað öll þau vindorkuver, sem tengd verða stofnkerfinu fram til 2050.  Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu 1. nóvember 2018 eru þau nú þegar orðin samkeppnishæf hérlendis:

"EM Orka áætlar að reisa 35 vindmyllur á Garpsdalsfjalli í Reykhólasveit, og framleiðslugeta þeirra verði 126 MW.  Áætlað er að taka þær í notkun árið 2022 og líftími verkefnisins verði 25 ár.  Á byggingatíma er reiknað með alls um 200 störfum við verkefnið auk óbeinna starfa, en þegar uppsetningu verður lokið, verða 25 störf við stjórnun, rekstur og viðhald, þar af 20 störf í nærumhverfi.  Áætlað er, að fjárfesting við vindorkugarðinn kosti um mrðISK 16,2.

Fjallað er um verkefnið á heimasíðum EM Orku og Reykhólasveitar, en verkefnið var kynnt á fundi í Króksfjarðarnesi í síðustu viku [viku 43/2018].  Virkjunin er fyrsta verkefni EM Orku á Íslandi, en það er í jafnri eigu danska fyrirtækisins Vestas og írska fyrirtækisins EMPower.  Bæði hafa fyrirtækin mikla reynslu á þessu sviði."

Þetta gæti orðið brautryðjandi vindorkuverkefni hérlendis, því að þarna virðast menn kunna til verka.  Valinn hefur verið vindasamur staður, fjarri byggð og tiltölulega nálægt 132 kV Byggðalínu.  Pistilhöfundur hefur reiknað úr orkukostnaðinn frá þessum vindorkugarði á grundvelli ofangreindra upplýsinga og fengið út:

K=3,9 ISK/kWh eða K=32 USD/MWh.

Þetta er samkeppnishæft heildsöluverð frá virkjun nú um stundir á Íslandi.  Þótt raforkuvinnslan sé ójöfn og hafi þar með verðgildi afgangsorku á markaði, vinnur þessi orkuvinnsla ágætlega með vatnsorkuverum og getur sparað vatn í miðlunarlónum.  Þannig hækkar verðgildi vindorkunnar upp í verð forgangsorku, af því að á ársgrundvelli má reikna með svipaðri orkuvinnslu vindorkugarða ár frá ári.  Kemur þessi viðbót sér vel, ef svo fer, sem ýmsir óttast, að orkuvinnslugeta jarðhitasvæða sé ofmetin.

Það, sem upp úr stendur í þessum vangaveltum er, að m.v. Rammaáætlun 3 verður að virkja allt í nýtingarflokki fyrir innanlandsmarkað, og þess vegna getur Ísland hreinlega ekki borið millilandatengingu um sæstreng.  

Peter Örebech, lagaprófessor, hefur sýnt fram á, að eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn getur engin fyrirstaða orðið í íslenzkum yfirvöldum við tengingu aflsæstrengs við íslenzka raforkukerfið.  Þeir, sem halda því enn fram, að eitthvert hald verði í banni Alþingis við slíkum streng, eftir að það verður búið að afsala fullveldi landsins yfir orkumálum til yfirþjóðlegrar stofnunar, berja enn hausnum við steininn og gera sig seka um óafsakanlega léttúð í meðförum fjöreggs þjóðarinnar.  Hélt þetta fólk, að ACER væri bara stofnað handa nokkrum blýantsnögurum ?  Nei, með ACER og öllum Evrópugerðunum og tilskipunum ESB á sviði orkumála hefur orðið til virkisbrjótur, sem brýtur á bak aftur sjálfsákvörðunarrétt þjóða um millilandatengingar.  Þeir, sem lepja upp áróður sendiherra Evrópusambandsins, þar sem ákvæðum Þriðja orkupakkans er pakkað svo kyrfilega inn í bómull, að hvergi skín í hnífseggina, eru ekki margra fiska virði.  

Þá liggur á borðinu, að verði téður orkupakki ofan á í þinginu, þegar hann kemur þar til atkvæða, geta áhugasamir fjárfestar umsvifalaust setzt niður og farið að skrifa umsókn, reista á leiðbeiningum þar um í Evrópugerð 347/2013.  Ef verkefnið reynist "samfélagslega" hagkvæmt, þar sem "samfélag" hér er allt EES, þá mun Landsreglarinn mæla með samþykkt þess við Orkumálastjóra, og eftir það verður ekki aftur  snúið.

Þessi sæstrengur mun óhjákvæmilega gera orkuskiptin á Íslandi miklu dýrari en nauðsyn ber til, því að innlendi raforkumarkaðurinn lendir í fyrsta skipti í sögunni í beinni samkeppni við erlendan raforkumarkað.  Fyrirsjáanlega mun þetta valda orkuskorti í landinu, tefja verulega fyrir orkuskiptunum og senda raforkuverðið upp í hæstu hæðir.  

Sér ekki forystufólk í Samtökum iðnaðarins og í Samtökum atvinnurekenda skriftina á veggnum ?  Er það fúst til að leggja upp í slíka óvissuferð með stjórnmálamönnum, sem enga áhættugreiningu hafa gert og hafa engin úrræði, þegar allt verður hér komið í óefni vegna þeirra eigin fljótfærni og takmarkalitlu trúgirni á "sölulýsingar" ESB á "orkupakkanum" ? Það er orðið tímabært, að þessi ágætu samtök gefi út yfirlýsingu um afstöðu sína til Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB.  

 

 

 

 

 

 


Hagsmunir atvinnulífsins og Þriðji orkupakkinn

Það kemur á óvart, hversu afslappað forystufólk í Samtökum iðnaðarins, SI, og í Samtökum atvinnulífsins, SA, er gagnvart þeirri ógn, sem fyrirtækjum innan þessara samtaka stafar af innleiðingu Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Greini forystufólk í félögum þessara samtaka ekki þær ógnanir, sem í Þriðja orkupakkanum felast fyrir atvinnurekstur hér í landinu, þá er illa komið, og næsta víst, að samtök þeirra muni fljóta sofandi að feigðarósi við undirspil ráðuneytanna tveggja, sem mest koma við sögu í þessu máli og neita að koma auga á hætturnar úr sínum búrókratíska fílabeinsturni.  

Þessi áhætta er uppi, hvort sem hingað verður lagður aflsæstrengur frá útlöndum eður ei, þótt hún sé sýnu meiri með aflsæstreng en án. Það er kominn tími til, að þetta forystufólk átti sig á því, að ætlunin er að innleiða hér markaðskerfi raforku að hætti ESB án þess, að nokkur þeirra 5 forsendna, sem ESB sjálft gefur upp sem skilyrði þess, að slík markaðsvæðing verði notendum í hag, verði nokkru sinni uppfyllt á Íslandi. 

Afleiðingin af þessum blindingsleik í boði ESB verður hærra meðalverð og sveiflukennt raforkuverð auk verulega aukinnar hættu á raforkuskorti.  Allt mun þetta draga mjög úr eða breyta í andhverfu sína því  samkeppnisforskoti, sem sjálfbærar orkulindir Íslands hafa veitt íslenzku atvinnulífi.

Það er ennfremur engum vafa undirorpið eftir greiningu prófessors Peters Örebech, sérfræðings í Evrópurétti, á greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, að Alþingi mun framselja ákvörðunarvald um sæstrengsumsókn til Landsreglarans og ACER-Orkustofnunar ESB með því að samþykkja innleiðingu Þriðja orkupakkans í EES-samninginn.

  Bann Alþingis á sæstreng í kjölfar slíks valdaafsals til ESB væri asnaspark, algerlega út í loftið, sem í höfuðborgum okkar helztu viðskiptalanda og í Brüssel yrði túlkað sem hringlandaháttur í stjórnsýslu Íslands, sem eitra mundi samskipti landsins við ESB.  Þegar hér væri komið sögu hefði ESB lögformlegt afl til að brjóta vilja Alþingis á bak aftur, af því að slíkt bann brýtur gegn Evrópurétti, og sá er æðri landslögum samkvæmt EES-samninginum.

  Kæra framkvæmdastjórnar ESB til EES á hendur Íslandi í kjölfarið gengi vafalaust til EFTA-dómstólsins, og þar yrði dæmt að Evrópurétti í þessu máli. Dómsvaldið í slíkum málum hefur verið flutt úr landi. Það heitir í skrúðmælgi búrókratanna að deila fullveldinu með öðrum.  Eftir stæði sært þjóðarstolt hérlandsmanna, sem ómögulegt er að segja fyrir um til hvers myndi leiða.  Það er of seint að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í. 

ESB hefur mestalla þessa öld viðhaft frjálst markaðskerfi með raforku og gas.  Hið opinbera hefur vissulega truflað markaðinn mikið með niðurgreiðslum á sólar- og vindorku, en hann hefur samt gagnazt notendum þokkalega þrátt fyrir miklar sveiflur á orkumarkaði.  Raforkuverð er hátt vegna dýrs eldsneytis og koltvíildisskatts, sem nú fer hækkandi til að örva framboð orkuvera, sem ekki brenna jarðefnaeldsneyti, þótt kjarnorkan sé á bannlista, nema í Austur-Evrópu, þar sem rússnesk kjarnorkuver eru í byggingu sums staðar.    

ESB hefur gefið út 5 skilyrði, sem hvert um sig er nauðsynlegt að uppfylla, til að frjáls markaður með raforku virki notendum í hag.  ESB-markaðurinn uppfyllir þau öll, en íslenzki markaðurinn uppfyllir ekkert þeirra og mun aldrei uppfylla þau öll.  Af því leiðir, að frjáls markaður með raforku á Íslandi verður brokkgengur, og fyrir það munu atvinnulífið og heimilin líða.  Fyrirtæki, sem eru algerlega háð tryggri raforkuafhendingu, munu geta orðið fyrir alvarlegu tjóni vegna skorts á samræmdri orkulindastýringu. 

Hækkað meðalverð raforku og aukin óvissa um orkuafhendinguna mun óhjákvæmilega draga úr fjárfestingum í orkukræfri og viðkvæmri starfsemi.  Samkeppnishæfni landsins, sem að miklu leyti hvílir á stöðugu og hagkvæmu raforkuverði fyrir notendur, mun þá rýrna að sama skapi.  Þessa sviðsmynd ættu atvinnurekendur ekki að leiða hjá sér. 

Frjáls markaður í orkukauphöll hérlendis mundi virka til að hámarka tekjur orkuseljenda, en notendur hafa ekki annað val en að greiða uppsett verð fyrir rafmagnið og e.t.v. að spara við sig, en flytja ella þangað, sem lífsskilyrði eru hagstæðari.  Vegna fákeppni skortir hér nauðsynlegt aðhald fyrir Innri markað ESB með rafmagn.  Það verður eitt af fyrstu verkum Landsreglarans að reka á eftir Landsneti með að stofna til slíks markaðar.  

Á margfalt stærri mörkuðum ESB nær hins vegar frjáls samkeppni að takmarka tekjur við kostnað og eðlilega arðsemi eigin fjár í orkufyrirtækjunum og jafnframt að tryggja afhendingaröryggi til notenda vegna nægs framboðs frumorku.  Verði ekkert af stofnun embættis Landsreglara, ætti Landsnet að leggja áform sín um orkukauphöll á hilluna. Sú mun ekki geta orðið þjóðarhag til eflingar.  Að öðrum kosti verður Landsnet rekið til þess óheillagjörnings.

Þegar síðan kemur að tengingu sæstrengs frá útlöndum við stofnkerfi Landsnets, þá mun verulega syrta í álinn hjá fyrirtækjum landsins og fjölskyldum.  Almenn efnahagsleg rök fyrir sæstreng væru, að umframorka sé næg í landinu til að standa undir arðsemi sæstrengs með raforkuflutningi um hann og að tekjuauki orkuseljendanna standi vel undir kostnaði þeirra við þessa umframsölu.  Þannig hefur það verið í Noregi, en því fer fjarri, að því verði að heilsa hérlendis.

  Sæstrengur til útlanda krefst nýrra virkjana, og rekstur hans mun valda því, að hér verður aldrei nein umframorka.  Allt mun þetta valda gríðarlegum raforkuverðshækkunum í landinu, sem éta mun upp allt það samkeppnisforskot fyrirtækja í landinu, sem þau hafa notið um árabil í krafti hagstæðra orkusölusamninga við iðnfyrirtæki í landinu.

Nú hafa þau ánægjulegu tíðindi orðið, að einn úr hópi sjálfstæðra atvinnurekenda, formaður Sambands garðyrkjumanna, hefur tjáð sig með eftirminnilegum hætti við Bændablaðið, fimmtudaginn 1. nóvember 2018.  Morgunblaðið greindi frá þessu daginn eftir undir fyrirsögninni:

"Íslenzk garðyrkja gæti lagzt af":

"Formaður Sambands garðyrkjumanna, Gunnar Þorgeirsson, telur ástæðu til að óttast um íslenzka matvælaframleiðslu, þegar þriðji orkupakki ESB verður innleiddur. Segir hann í viðtali við Bændablaðið það borðleggjandi, að íslenzk garðyrkja leggist af í núverandi mynd.  Afleiðingarnar verði ekki síður alvarlegar fyrir annan landbúnað, fiskiðnað og ferðaþjónustu.

"Ef Íslendingar ætla ekki að standa vörð um eigið sjálfstæði, þá veit ég ekki á hvaða vegferð menn eru í þessum málum.  Þetta er skelfileg staða og verst að hugsa til þess, að íslenzkir stjórnmálamenn virðast ekki skilja um hvað málið snýst, og ég efast um, að þeir hafi lesið sér til um það.""

Þetta er hárrétt athugað hjá Gunnari Þorgeirssyni.  Í ljósi þess, að 30 % rekstrarkostnaðar garðyrkjustöðva er rafmagnskostnaður, gefur auga leið, að þær mega ekki við neinni hækkun á raforkunni.  Þess má geta, að þetta er hærra hlutfall en hjá málmframleiðendum í landinu.  Það er tóm vitleysa hjá ráðuneytinu (ANR), að það geti beitt sér fyrir auknum niðurgreiðslum á flutningi og dreifingu raforku til garðyrkjubænda.  Öll slík ríkisaðstoð við fyrirtæki í samkeppnisrekstri er kæranleg til ESA, og eftir innleiðingu Innri markaðar EES í íslenzka raforkugeirann verða slíkar deilur útkljáðar að Evrópurétti.  

 Það er full ástæða til að spyrja, hverra hagsmunum sé verið að þjóna með því að berjast fyrir innleiðingu Innri markaðar EES í raforkugeirann og þar með að fjarlægja allar landshindranir úr vegi aflsæstrengs til útlanda.  Jón Baldvin Hannibalsson svarar því skilmerkilega fyrir sitt leyti í nýlegu viðtali á Útvarpi Sögu.  Á bak við áróðurinn standa gróðapungar, sem ætla sér að græða ótæpilega á viðskiptum með endurnýjanlega orku á Íslandi og með orkusölu frá Íslandi, hugsanlega einnig með eignarhaldi á sæstreng.  Þessu lýsti ábyrgðarmaður EES-samningsins 1992 sig algerlega mótfallinn og kvað sameiginlegan orkumarkað ekkert koma þessum EES-samningi við.  

Tíminn er núna fyrir SI og SA að taka skelegga afstöðu fyrir skjólstæðinga sína gegn þeirri vá, sem við atvinnurekstri í landinu blasir.  Það er lögfræðileg bábilja, að Orkustofnun eða Alþingi, ef allt um þrýtur, geti komið í veg fyrir áform strengfjárfesta, sem Landsreglarinn mælir með að samþykkja.  Þar mun fullveldisframsalið, sem fólgið er samþykkt Þriðja orkupakkans, birtast í verki.  

Stjórnun útflutnings rafmagns um sæstreng eftir samþykkt Þriðja orkupakka mun nánast ekkert tillit taka til íslenzkra hagsmuna, heldur lúta forskrift ACER í smáatriðum og ákvæðum EES-samningsins um útflutning, þar sem m.a. magntakmarkanir eru óheimilar. 

Afgangsorkan er sveiflukennd frá ári til árs og er af þessum sökum ekki markaðsvara um þennan streng, úr því að magntakmarkanir eru óheimilar. Takmörkun á sölu afgangsorku er einmitt það, sem einkennir viðbrögð Landsvirkjunar nú við vaxandi hættu á vatnsskorti miðlunarlóna.  Innlendum yfirvöldum verður ókleift að tryggja, að vatnsskortur í miðlunarlónum komi jafnt niður á útflutningi um sæstreng og viðskiptavinum orkufyrirtækjanna innanlands.  Á Innri markaðinum ræður greiðsluvilji orkukaupenda því alfarið, hvernig þessum takmörkuðu gæðum verður skipt.  Þar sem greiðsluviljinn er háður samkeppnisstöðunni, er hætt við, að fyrirtæki á Íslandi verði undir í þessum ljóta leik.  Ætla SI og SA að láta hjá líða að andæfa þessari hrikalegu, en þó raunhæfu, sviðsmynd í tæka tíð ?  


Öfugmæli um innleiðingu "Þriðja orkupakkans"

Í ljósi þess, sem nú er vitað um fullveldisafsal og gildistöku "fjórfrelsisins" í orkugeiranum strax eftir innleiðingu "Þriðja orkupakkans" í EES-samninginn, er skuggalegt að lesa fyrstu frétt Morgunblaðsins um greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, til iðnaðarráðherra, sem birtist í blaðinu 18. september 2018.  Fréttin hófst þannig:

"Innleiðing á þriðja orkupakka Evrópusambandsins í lög hér á landi fæli ekki í sér slík frávik frá þverpólitískri stefnumörkun og réttarþróun á Íslandi, að það kalli sérstaklega á endurskoðun samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.  

Með innleiðingu hans væri ekki brotið blað í EES-samstarfinu.  Þetta er niðurstaða greinargerðar Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, um þriðja orkupakkann, en hún var unnin að beiðni iðnaðarráðherra."

Hér er einfaldlega allt rangt, og það hefði fengið að standa þannig, þingmönnum og öðrum til halds og trausts við stefnumörkun, ef ekki hefðu verið fáeinir andófsmenn í landinu, sem láta slíka stjórnvaldsspeki ekki yfir sig ganga, mótþróalaust. Nú er umræðan í landinu með allt öðrum hætti og á upplýstari nótum en áður um Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB, eins og glögglega má ráða af seinni leiðara Morgunblaðsins í dag, 01.11.2018. 

Það liggur í augum uppi, og þarf ekki lögfræðing til að átta sig á því, að innleiðing "fjórfrelsis" ESB í íslenzka orkugeirann, sem er stærsta auðsuppspretta landsmanna, felur í sér kúvendingu á þeirri stefnu íslenzkra stjórnvalda fram að þessu, að Íslendingar skuli halda óskoraðri lögsögu yfir raforkufyrirtækjunum í landinu og yfir raforkumarkaðinum með sama hætti og yfir landhelginni og því, hvað við gerum við fiskinn.  Að láta togarana sigla með óunninn fisk á erlenda markaði er neyðarbrauð.  Verðmætasköpun innanlands úr auðlindum lands og sjávar er undirstaða velferðar- og þekkingarþjóðfélags á Íslandi. 

"Fjórfrelsið" felur í sér markaðsvæðingu rafmagnsins með þeim miklu annmörkum, sem á slíku eru á Íslandi, eins og rækilega hefur verið gerð grein fyrir, og jafnstöðu allra fjárfesta og fyrirtækja innan EES, þegar kemur að fjárfestingum í íslenzka orkugeiranum.  Ennfremur gilda á Innri markaði EES strangar samkeppnisreglur ESB, sem útiloka rekstur Landsvirkjunar í sinni núverandi mynd á innlendum samkeppnismarkaði vegna hlutfallslegrar stærðar. 

Hluti af Landsvirkjun mun næsta örugglega fara úr höndum íslenzka ríkisins og í hendur fjársterkra erlendra aðila á EES-svæðinu skömmu eftir gildistöku Þriðja orkupakkans hérlendis.  Þar með tvístrast mikil þekking og reynsla, sem nú er hjá einu fyrirtæki, sem m.a. sér um þá einu orkulindastjórnun, sem fram fer á Íslandi og er bráðnauðsynleg.  Slík stjórnun, þvert á fyrirtæki, er óleyfileg á Innri markaði ESB/EES. Að gefa auðlindastjórnun upp á bátinn í orkugeiranum mun ekki síður hafa slæmar afleiðingar í för með sér fyrir hag fjölskyldnanna í landinu en að gefa stjórnun sjávarauðlindarinnar upp á bátinn.  Slíkt dettur varla nokkrum heilvita manni í hug á árinu 2018.  

Að halda því fram, að allt þetta brjóti ekki blað í EES-samstarfið, hvað Ísland varðar, er að bíta höfuðið af skömminni.  Miðað við greiningu prófessors Peters Örebech ber þessi niðurstaða íslenzka lögfræðingsins vott um algert skilningsleysi á afleiðingum innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn fyrir Ísland.  Það bendir margt til, að þekkingu starfsfólks iðnaðarráðuneytisins og glöggskyggni sé ekkert öðruvísi háttað, svo að ekki sé nú minnzt á utanríkisráðuneytið, en þaðan hefur hin furðulegasta loðmulla komið um málið, sem hér er til umfjöllunar.

Iðnaðarráðherra boðaði í haust framlagningu frumvarps til laga um, að mat Orkustofnunar á leyfisumsókn sæstrengsfjárfesta skyldi fara fyrir Alþingi.  Þetta er ákaflega illa ígrunduð hugmynd, sem gefur ESB þau skilaboð, að við íslenzka stjórnvölinn ríki hringlandaháttur.  Annars vegar boðar iðnaðarráðherra, að hún vilji samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB, en hins vegar vill hún ekki hlíta aðalatriðinu í þessum orkubálki, sem er að framselja úrskurðarvald um bættar millilandatengingar fyrir orkuflutninga til ACER-Orkustofnunar ESB.  Hér er um tvískinnung að ræða, sem er okkur til skammar í alþjóðlegu samstarfi. Ef ráðherrar standa ekki í ístaðinu á þeim vettvangi, þá detta þeir af baki.

Við verðum að koma hreint fram við samstarfsþjóðir okkar.  Það gengur alls ekki í samstarfi við ESB að ætla að plokka rúsínurnar úr kökunni.  Það hafa forystumenn ESB margsagt og er fullkomlega skiljanlegt. Það er aldrei hægt að éta kökuna og geyma hana.  Reyndar veit höfundur þessa pistils alls ekki, hverjar þessar rúsínur ættu að vera fyrir hérlandsmenn, þegar hinn alræmdi "Þeiðji orkupakki" er annars vegar.  Þar hafa hreint og beint engar girnilegar rúsínur fundizt í munn eyjarskeggja norður við Dumbshaf með gnótt endurnýjanlegrar orku, þótt þær séu vissulega fyrir hendi fyrir ESB-löndin sem heild, sem eru orkuþurfi og strita við að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda, afnema flöskuhálsa í flutningum til að jafna orkuverðið innan ESB og draga úr orkutöpum.  Allt er það skiljanlegt, en hvers vegna íslenzki iðnaðarráðherrann gerir ekki hreint fyrir sínum dyrum og hafnar þriðja orkupakkanum með ágætum rökum og skeleggum hætti, eins og hún á til, er óskiljanlegt.  Skilja kjósendur í NV-kjördæmi það ?

Bann Alþingis við lagningu aflsæstrengs, sem Landsreglarinn er búinn að mæla með samþykkt á og Orkustofnun jafnvel búin að samþykkja, mun koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum yfir embættismenn og framkvæmdastjórn ESB í Berlaymont í Brüssel.  Þar á bæ munu menn furða sig á hringlandahætti þjóðþings eyjarskeggjanna lengst norður við Dumbshaf, sem lætur eins og það hafi lögsögu í máli, sem það er nýbúið að afsala sér völdum yfir.  Það verður litið á þetta sem hvert annað "píp" með sama hætti og varúðaraðgerðir Alþingis 2009 gegn búfjársjúkdómum voru gerðar afturreka með dómi EFTA-dómstólsins 2017.  

Framkvæmdastjórn ESB mun bregðast ókvæða við banni Alþingis og að lokum kæra það fyrir EFTA-dómstólinum. Ef ríkisstjórn Íslands ætlar að stíga skref inn í þessa óheillavænlegu sviðsmynd með því að berjast fyrir því, að Alþingi samþykki innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins, þá eru henni allar bjargir bannaðar.  Slíkt verður jafnframt nagli í líkkistu EES-aðildar Íslands.  Höfnun "pakkans" aftur á móti er eðlilegur gjörningur samkvæmt EES-samninginum sjálfum, þótt fordæmalaus sé hérlendis.  Hagsmunirnir, sem undir eru, eru líka fordæmalausir, og "einnar stoðar" framkvæmdin svæsnari en í fyrri innleiddum Evrópugerðum.

Nú hefur stærsti stjórnmálaflokkur Noregs, Verkamannaflokkurinn, sem hefur viljað hingað til, að Noregur gengi í ESB, snúizt öndverður gegn innleiðingu Fjórða járnbrautarpakkans í EES-samninginn, sem tekinn verður til umfjöllunar í Stórþinginu í vetur.  Það er líka líklegt, að hann muni snúast öndverður gegn væntanlegrum "Vinnumálapakka" ESB.  Það er samt engin umræða í Noregi um voveiflegar afleiðingar þess fyrir EES-samstarfið eða vandræðin, sem af myndu hljótast fyrir Liechtenstein, ef Stórþingið synjar þessum "ESB-pökkum" staðfestingar.  Það sýnir, hversu heimóttarlegur málflutningur íslenzku ráðuneytanna er, sem komið hafa af stað þeirri umræðu.      


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband