Orkustofnun ESB - ACER

Umdeildasti hluti Þriðja orkumarkaðslagabálksins, sem Alþingi og norska Stórþingið eiga að fjalla um á útmánuðum 2018, er Reglugerð EU 713/2009 um Orkustofnun ESB, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators).  Ísland og Noregur munu aðeins mega hafa þarna áheyrnarfulltrúa, en fulltrúar allra ESB-ríkjanna verða með atkvæðisrétt.  Ekkert jafnræði er á milli EFTA og ESB í þessari samkundu. Engu að síður varð niðurstaða "samningaviðræðna" ESB og EFTA, að líta bæri á EFTA-ríkin sem aðildarríki í Orkusambandinu.  Þetta er algerlega ótækt fyrirkomulag, því að mikið ójafnræði er með aðilum og ESB-stofnun fær yfirgripsmikil völd yfir orkumálum EFTA-landanna, ef meirihluti er á þjóðþingunum fyrir því. Það er kominn tími til, að íslenzkir stjórnlagafræðingar tjái sig opinberlega um þetta atriði og um "frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr 65/2003 með síðari breytingum (innleiðing tilskipunar 2009/72/EB og viðurlagsákvæði)".  Það hafa fjölmargir kollegar þeirra í Noregi þegar gert m.t.t. norsku stjórnarskráarinnar og flestir á þá lund, að aðild Noregs að Orkusambandi ESB sé skýlaust stjórnarskrárbrot.  Með leikmannsaugum séð er hið sama uppi á teninginum hérlendis.  

Hlutverk ACER er að gera tillögur um og fylgja eftir aðgerðum, sem tryggja, að Innri orkumarkaður ESB virki, eins og til er ætlazt. Í hnotskurn felur þetta í sér, að flutningskerfi allra aðildarlandanna séu byggð upp, tengd saman og stýrt þannig, að rafmagn flæði frjálst um allt sambandið.  

Í ACER skulu aðildarríki EES taka þátt í þróun sameiginlegs orkumarkaðar.  Stofnunin skal líka fylgjast með, að fjárfestingaráætlanir ríkjanna stuðli að eftirsóttri þróun markaðarins.  F.o.m. 2021 á framkvæmdastjórn ESB að rýna þær og samþykkja eða krefjast breytinga á þeim. Þetta þýðir t.d., að eftirlitshlutverk Orkustofnunar með Landsneti verður yfirtekið af ACER, þar með rýni á og samþykki/höfnun Kerfisáætlunar Landsnets, og ACER mun hafa síðasta orðið um ákvörðun flutningsgjalds raforku til almennings og stóriðju á Íslandi.  Það munu lögfræðingar væntanlega flokka til verulegs fullveldisframsals, þar sem um gjaldtöku af almenningi er að ræða.  

ACER á reglubundið að gera tillögu til Framkvæmdastjórnarinnar, ráðherraráðsins og ESB-þingsins um aðgerðir til að bæta virkni markaðarins.  Þær geta bæði verið tillögur um að auka við millilandatengingarnar og um reglur varðandi rekstur flutningskerfisins.  Þessar reglur eru nefndar netskilmálar, og geta spannað allt frá skilyrðum um aðgang að flutningskerfinu, skiptingu flutningsgetu á milli notenda, reglur um verðlagningu og til krafna um gæði og viðhald netsins.

Mælikvarðinn á það, hvernig til tekst, er verðmunur orkuhlutans (án flutnings- og dreifingarkostnaðar) á milli einstakra svæða eða landa.  Sæstrengur á milli Íslands og Bretlands er þegar kominn á framkvæmdaáætlun ACER, og þessi mælikvarði sýnir, að ACER stefnir að svipuðu orkuverði á Íslandi og annars staðar í EES, sem þýðir aðeins eitt: stórhækkun almenns raforkuverðs á Íslandi.

Norska Landsnet, Statnett, á og rekur stærstan hluta millilandasæstrengja Noregs.  ACER getur úrskurðað, hvernig kostnaðarskipting og rekstrarfyrirkomulag sæstrengja á milli Íslands og EES-landa verður, samkvæmt grein 8 í Reglugerð EU 713/2009, ef til ágreinings kemur.  Fjárfesting í slíkum sæstreng ásamt endabúnaði getur numið miaISK 500-1000, svo að fjárhagsbyrði Landsnets út af sæstreng getur orðið tilfinnanleg og hugsanlega hækkað flutningsgjald til almennings umfram hækkanir vegna styrkingar flutningskerfis á landi að sæstreng.

Dæmi um ágreining landa á milli vegna rekstrar sæstrengs:  gefum okkur, að mótaðili Landsnets sé flutningsfyrirtækið í Hollandi, sem krefjist þess, að 40 % af flutningsgetu sæstrengsins sé helgað jöfnunarafli.  Þetta er afl, sem Landsnet er skuldbundið til að afhenda dag hvern, þegar vantar afl frá hollenzkum sólar- og vindrafstöðvum.  Verðið fyrir slíka afhendingu er ákveðið fyrir löng tímabil í einu.  Slíkur samningur takmarkar á hinn bóginn flutningsgetu fyrir afl frá íslenzkum virkjunareigendum, sem vilja flytja út rafmagn á svo kallaðan skyndimarkað, þar sem verðið er ákvarðað á klukkustundar fresti.  Ef íslenzk orkuvinnslufyrirtæki telja sig græða meira á skyndimarkaðinum en á jöfnunarmarkaðinum, höfum við dæmigerðan hagsmunaárekstur á milli landanna tveggja.  Í slíkum tilvikum úrskurðar ACER um, hvernig aflflutningi skuli hátta. 

Ef upp kemur deila á milli flutningsfyrirtækja tveggja landa um, hvernig verja skuli hagnaði af rekstri sæstrengs á milli landanna, þá úrskurðar ACER.  Á þessum grundvelli fer ekki á milli mála, að ákvarðanir ACER munu hafa áhrif á raforkuverð í hverju landi.  Í fyrsta lagi ákveður ACER, hversu margir sæstrengir verða lagðir frá Íslandi til útlanda, og í öðru lagi ákveður ACER, hvernig hugsanlegum hagnaði verður varið.  

Það er deginum ljósara, að stærsti einstaki áhrifavaldurinn á raforkuverð til neytenda á Íslandi eftir samþykkt frumvarps um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, verður yfirþjóðleg stofnun, þar sem Ísland er ekki fullgildur aðili (er án atkvæðisréttar).  Þetta er augljóst og ósamþykkjanlegt fullveldisframsal, enda klárlega Stjórnarskrárbrot.  

 

 


Völd ACER á Íslandi - hækkun raforkuverðs

Það hafa ýmsir gert lítið úr þeim breytingum, sem samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Alþingi mun hafa í för með sér. Skáka hinir sömu þá í því skjólinu, að engin utanlandstenging sé við íslenzka raforkukerfið. Þetta er skammgóður vermir. Ekki er örgrannt um, að slíkar viðbárur hafi sézt frá íslenzkum embættismönnum.  Samt hefur að sjálfsögðu engin undanþága fengizt hjá ESB Íslandi til handa varðandi þá stefnumörkun ACER að tengja öll svæði og lönd svo tryggilega saman í eitt stofnkerfi, að verðmunur raforku jafnist út.  

Þeir hinir sömu ofurbjartsýnismenn virðast ekki hafa skilið inntak Orkusambands ESB.  Orkustofnun þess, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), er ekki einvörðungu ráðgefandi um orkumál, heldur eru þar teknar ákvarðanir um framkvæmdir í krafti atkvæðagreiðslu, þar sem hreinn meirihluti atkvæða ræður. EFTA ríkin munu ekki öðlast þar atkvæðisrétt, þótt þau leiði ACER til valda í orkugeirum sínum. Ójafnræði EFTA og ESB í ACER verður algert. Slíkt stríðir algerlega gegn ákvæðum EES-samningsins um, að ESB og EFTA skuli leysa sameiginleg viðfangsefni á jafnréttisgrundvelli (s.k. tveggja stoða lausn).

Markmið ACER er, að raforkuflutningsgeta tenginga frá hverju aðildarlandi EES nemi a.m.k. 15 % af vinnslugetu landsins árið 2030 og hún aukist í 30 % á ótilgreindum tíma.  EES-ríki munu ekki komast upp með neitt múður, þar til þessu er náð. Það er lágmark, að menn átti sig á, hvað undirskrift þeirra merkir, þegar þeir skuldbinda heila þjóð, eins og gerzt hefur í hinni sameiginlegu EES-nefnd EFTA og ESB.      

Á forgangslista ACER um orkutengiverkefni á milli landa, sem eru yfir 170 talsins, er sæstrengurinn "Ice Link", sem ACER vill leggja á milli Íslands og Bretlands og taka í rekstur árið 2027.  Ef honum verður valin flutningsgetan 1200 MW, eins og nefnt hefur verið í öðrum skýrslum, mun raforkuflutningsgeta samtengingar Íslands við útlönd að líkindum einmitt nema rúmlega 30 % upp úr 2030, ef af þessum óheillagjörningi verður.

Á téðri verkefnaskrá ACER eru Landsvirkjun og Landsnet tilfærð sem aðstandendur verkefnisins ásamt því, sem gæti verið dótturfélag brezka Landsnets, National Grid.  Hver hefur heimilað þessum íslenzku fyrirtækjum, þar sem annað er að fullu í eigu ríkissjóðs (og á ekkert að skipta sér af orkuflutningsmálum) og hitt að mestu í eigu þess fyrrnefnda, að láta skrá þennan sæstreng á forgangslista ACER og sig sem aðstandendur ?  Þetta er ábyrgðarlaust pukur með óvinsælt mál á Íslandi og hátimbruð ósvífni í ljósi þess, að hér hefur engin umræða farið fram um, að hugsanlegan sæstreng ætti að nota til að tengja Ísland við markaðskerfi ESB fyrir raforku, þar sem hvaða orkukaupi sem er á EES-svæðinu getur boðið í alla tiltæka raforku hér á markaðinum. Allt annað hefur verið gefið í skyn, þ.e. langtímasamningur um tiltekna orku með fjárhagslegum stuðningi úr brezka ríkissjóðinum við kaup á sjálfbærri raforku inn á brezka stofnkerfið.  Hér er sviksamlegt atferli á ferðinni, því að glepjist Alþingi á að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálkinn inn í EES-samninginn, geta íslenzk stjórnvöld ekki lengur átt síðasta orðið um lagningu aflsæstrengs á milli Íslands og útlanda.  Valdið verður alfarið í höndum ACER og útibús þess á Íslandi.    

Sérfræðingahópur ACER vinnur að því stefnumiði ACER að jafna raforkuverð í ESB/EES.  Hann hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að ef meiri raforkuverðsmismunur en 2,0 EUR/MWh (=0,25 ISK/kWh) sé fyrir hendi á milli tveggja aðlægra svæða eða landa, þá sé klárlega þörf á að efla raforkuflutningsgetuna á milli þeirra til að njóta ávaxta sameiginlegs orkumarkaðar.  Á milli Íslands og Bretlands er um 16 faldur þessi munur um þessar mundur og m.v. meginlandið 10-30 faldur (það er mjög sveiflukennt verð á meginlandinu vegna mikilla óstöðugra endurnýjanlegra orkulinda á borð við sól og vind).  Tæknileg og markaðsleg skilyrði eru þess vegna fyrir hendi, til að ACER ákveði, að sæstrengur verði lagður til Íslands. Orkustofnun ESB vantar enn heimild til að ákveða þetta, en á meðan frumvarp um það er til í iðnaðarráðuneytinu og Alþingi hefur ekki hafnað því, vofir þessi hætta yfir. 

Stjórnvöld hér verða þá ekki spurð, því að það er hlutverk ACER að ryðja úr vegi öllum staðbundnum hindrunum gegn svo greiðum orkuflutningum, að mismunur orkuverðs (flutningskostnaður, dreifingarkostnaður og skattar ekki meðtaldir) verði að hámarki 2,0 EUR/MWh (=0,25 ISK/kWh).

Nú eru í undirbúningi 2 sæstrengir frá Noregi til viðbótar við eina 5 í rekstri; annar til Þýzkalands og hinn til Bretlands.  Flutningsgeta hvors um sig verður svipuð og Ice Link.  Í leyfisumsókn Statnetts til NVE (norku Orkustofnunarinnar) um sæstrengi til Bretlands og Þýzkalands er tekið fram, að kostnaður Statnetts við flutningsmannvirki á landi að landtökustöðum sæstrengjanna sé áætlaður miaNOK 4,0 eða miaISK 52.  Út frá þessu má ætla, að kostnaður Landsnets vegna eins svipaðs sæstrengs með landttöku einhvers staðar á Suður-eða Austurlandi næmi miaISK 26.  Samkvæmt reglum ACER leggst þessi kostnaður á Landsnet, og notendur innanlands verða að standa undir kostnaðinum.  Hvaða áhrif mundi þetta hafa á flutningsgjaldið, sem innheimt er af raforkunotendum á Íslandi ?

Flutningsgjaldið til almennings nemur um þessar mundir (án skatta) 1,84 ISK/kWh.  Ef kostnaður af kerfisstyrkingu vegna sæstrengs dreifist jafnt á allan núverandi flutning, mun hækkunin geta numið 0,11 ISK/kWh, sem er 6,0 % hækkun til almennings.  Ef styrkingin leggst einvörðungu á flutning til almennings, mun hækkunin nema 0,53 ISK/kWh eða 29 %.  Í ljósi þess, að almenningur á óbeint megnið af Landsneti, er ekki ólíklegt, að almenningur verði látinn bera megnið af þessum kostnaði, t.d. 60 %, sem þýðir 0,32 ISK/kWh eða 17 % hækkun flutningsgjalds til almennings.  

ACER fyrirskipar, að ágóða af orkuflutningum um sæstreng megi ekki nota til að lækka flutningsgjald til almennings, heldur skuli leggja hann í sjóð til að standa undir enn frekari fjárfestingum og viðhaldi, þar til orkuverðsmismunur á milli viðkomandi svæða er orðinn minni en jafngildi 0,25 ISK/kWh.  ACER verður einráð stofnun um þessi mál hérlendis, ef ríkisstjórnin leggur fram ACER-frumvarpið og Alþingi samþykkir það.

Með þessum hætti mundi Alþingi hafa falið yfirþjóðlegri stofnun ígildi skattheimtuvalds á Íslandi.  Slíkt stríðir gegn lýðræðislegum stjórnarháttum, gegn réttlætistilfinningu langflestra skattborgara landsins, og væntanlega fer það ekki framhjá meirihluta Alþingismanna, að slíkt er ótvírætt Stjórnarskrárbrot.  

Þetta er ótrúlegt, en satt.  

Varðandi ráðstöfun hagnaðar af sæstreng stendur í reglu ESB nr 714/2009 um raforkuflutninga yfir landamæri, grein 16.6:

"Tekjur af afmarkaðri flutningsgetu skal nota til:

a) að tryggja, að þessari afmörkuðu flutningsgetu sé við haldið, og/eða

b) að hindra rýrnun flutningsgetunnar og auka hana með fjárfestingum í stofnkerfinu og þá aðallega í nýjum flutningsmannvirkjum." 

Til viðbótar styrkingu stofnkerfis í landi vegna Ice Link kann Landsnet að verða þvingað til umtalsverðrar kostnaðarþátttöku í honum, e.t.v. sem nemur miaISK 150.  Það mundi jafngilda u.þ.b. þreföldun langtímaskulda Landsnets, og það er engum vafa undirorpið, að slík skuldabyrði mundi veikja getu fyrirtækisins til uppbyggingar innviða innanlands og jafnvel leiða til enn meiri hækkunar flutningsgjalds raforku innanlands.  Óvissa og ófriður út af starfsemi Landsnets mundi ekki dvína við að færa fyrirtækið undir stjórn ACER.    

 

 

 

 


Hvað er Orkusamband ESB ?

Myndun Innri markaðar ESB snýst að miklu leyti um að semja sameiginlegar, yfirþjóðlegar reglur fyrir mismunandi svið á markaðinum.  Nýjasta sviðið þar er orka, fyrst um sinn raforka og eldsneytisgas. Ætlun ESB er að skapa fimmta frelsið, frjálst flæði orku þvert á landamæri.  Grunnforsenda framkvæmdastjórnarinnar er, að sameiginlegar reglur séu í allra hag, en það er ofeinföldun á veruleikanum. EFTA-ríkin tvö, Noregur og Ísland, geta farið flatt á því að ganga í Orkusamband ESB vegna gjörólíkra aðstæðna og hagsmuna á þessum Norðurlöndum m.v. ESB-löndin.

Forgangsmál stjórnvalda í einstökum ríkjum um ráðstöfun orkunnar og stjórnvaldsákvarðanir í einstökum löndum um orkumál lítur framkvæmdastjórn ESB á sem hindranir fyrir frjálst flæði, sem séu samkeppnishamlandi og beri þess vegna að afnema. Með Orkustofnun ESB, ACER (Agency for the Coordination og Energy Regulators), eru "búrókrötum" fengin tól í hendurnar til að koma böndum á sjálfstæða stefnumörkun hvers aðildarlands í orkumálum.  Að sjálfsögðu þýðir það jafnframt valdaafsal stjórnvalda hvers lands á sviði orkumála, í fyrstu umferð varðandi ráðstöfun raforku og eldsneytisgass.

Þetta fyrirkomulag stingur illilega í stúf við hefðbundin sjónarmið á Íslandi og í Noregi, þar sem jafnan hefur verið litið á afurðir vatnsfallanna og jarðgufunnar sem tæki til að bæta og jafna lífsskilyrði landsmanna í dreifðum byggðum landanna. Þetta sjónarmið verður algerlega undir, ef Alþingismenn samþykkja í vor innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi.   

Höfundar Orkustefnu ESB horfa reyndar framhjá því, að á orkumörkuðum EES ríkja miklir hagsmunaárekstrar.  Stór og lítil lönd hafa ólíkra hagsmuna að gæta og sömuleiðis litlir og stórir þátttakendur á markaðinum; það eru andstæður á milli innflutnings- og útflutningslanda á orku, og hagur einstakra þátttakenda (fyrirtækja) er ekki endilega í samræmi við hag samfélagsins o.s.frv. 

Í ESB-kerfinu er reynt að breiða yfir og jafna þessar andstæður með tilskipunum og lögum, sem öll aðildarlöndin eru skuldbundin að fylgja.  Hér á landi, í Noregi og Liechtenstein, ríkja varnaglar frá upphaflegri gerð EES-samningsins, því að annars væru þessi ríki væntanlega gengin í ESB. Það er hlutverk Alþingis og stjórnmálaflokkanna að meta, hvort gjörningar ESB, sem sameiginlega EES-nefndin hefur úrskurðað, að spanna skuli EFTA-löndin í EES, þjóni hagsmunum íslenzku þjóðarinnar.  Ef gjörningarnir þjóna ekki hagsmunum Íslendinga að mati þingmanna, hefur Alþingi rétt á að hafna gjörningunum samkvæmt upphaflega EES-samninginum.  Hér má geta þess, að þrefað hefur verið um Orkustefnu ESB í sameiginlegu EES-nefndinni a.m.k. síðan 2011, en nú hefur ESB aftekið með öllu að veita EFTA-ríkjunum undanþágu eða sérmeðferð og einnig hafnað aðild þeirra með atkvæðisrétti að ACER-Orkustofnun ESB.  Er þetta til vitnis um einstrengingslegra viðhorf til EFTA-ríkjanna, eftir að Bretar urðu valdalitlir í ESB, og eftir því sem samrunaferli ESB vindur fram á grundvelli "stjórnarskráarinnar", Lissabon-sáttmálans.     

Framkvæmdastjórn ESB er mjög umhugað, að reglurnar fyrir sameiginlegan orkumarkað séu kallaðar Orkusamband ESB.  Ætlunin er, að orkusambandið sjái "borgurum og fyrirtækjum Evrópu fyrir öruggri, samkeppnishæfri og sjálfbærri orku".  Í Berlaymont (höfuðstöðvum ESB) er líka rætt um Orkusambandið sem brautryðjanda að markmiðum um hreina orku, um aukna hlutdeild endurnýjanlegrar orku, minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda og um bætta orkunýtni.  Undir þessum merkjum er farið fram með Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, og sem slíkan sakleysingja hafa íslenzkir og norskir embættismenn og stjórnmálamenn í Noregi reynt að kynna hann.  Þar er þó flagð undir fögru skinni, sem ásælist "græna orku" Norðurlandanna tveggja, án þess að notkun norræns rafmagns á meginlandi Evrópu breyti nokkru um heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Miklu frekar felst orkusóun í að senda rafmagn langar leiðir með miklum orkutöpum í stað þess að nýta það sem næst orkulindinni.     

Markmið ESB á orkusviðinu eru, að fyrir 2020 á endurnýjanleg orka að nema 20 % af heildarorkunotkun ESB, losun gróðurhúsalofttegunda á að minnka um 20 % m.v. 1990, og orkunýtnina á að bæta um 20 % m.v. 1990.  Árið 2030 er markmiðið, að losunin verði 40 % minni en á viðmiðunarárinu, og hlutdeild endurnýjanlegrar orku verði 27 % og nýtnin hafa batnað um 27 %. Árið 2050 á losun gróðurhúsalofttegunda að verða 80 % - 95 % minni en 1990. Forkólfar ESB eru að fyllast örvæntingu yfir, hversu erfiðlega ætlar að ganga að ná þessum markmiðum og munu ekkert gefa eftir í samningum við EFTA um haldreipi sitt, ACER.  Íslendingar og Norðmenn verða þess vegna einfaldlega að láta steyta á þessu máli í samskiptum EFTA og ESB.  

Á þessari stundu er erfitt að gera sér grein fyrir, hvað verður úr Orkusambandinu, og þess vegna ber að gjalda enn meiri varhug við því.  Það er sem sagt ekki fyrir hendi neitt afmarkað og skilgreint Orkusamband, sem hægt er að taka afstöðu til.  Um jafnræðisaðild fyrir EFTA-land er ekki að ræða, heldur er ætlazt til að hálfu ESB, að EFTA-ríkin í EES færi ESB á silfurdiski völd yfir flutningskerfum sínum fyrir jarðgas og rafmagn og ráðstöfunarrétt á orkunni inn á sameiginlegan EES-markað.  Þetta er sambærileg kröfuharka og í aðildarviðræðum Íslands við ESB, þar sem krafizt var opnunar landhelginnar, og þó verri, því að hér vill ESB eftirlitið líka, þ.e. Landhelgisgæzluna. Þegar svona er komið, er vart annað fyrir lítið land að gera en að slíta sambandinu.  "Far vel, Franz." 

Tilskipanir og lög um Orkusambandið munu streyma frá ESB, eftir að þjóðþing EFTA-ríkjanna hafa samþykkt innleiðinguna, eða hafnað henni, og þetta fyrirkomulag er auðvitað óboðlegt fullvalda þjóð.  Ef þingmenn á Alþingi og á norska Stórþinginu ætla að halda stjórnarskrár landa sinna í heiðri, og þeim ber skylda til þess, þá hafna þeir lögleiðingu á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Til þess hafa þeir líka rétt samkvæmt ákvæðum um neitunarvald í upphaflega EES-samninginum.

Téður orkubálkur var samþykktur af ráðherraráði og þingi ESB árið 2009, og hann hefur gilt í öllum ESB-ríkjunum frá 2011, þegar Orkustofnun ESB, ACER, tók til starfa.  Hún vinnur að styrkingu flutningskerfa landanna fyrir raforku og jarðgas.  Aðallega er þar um að ræða að hvetja til, að reistar verði loftlínur, lagðir jarðstrengir, sæstrengir eða gasrör með fylgibúnaði til að efla orkuflutninga á milli landa og útrýma flöskuhálsum í þeim efnum. Ætlunin er, að EES-ríkin verði nægilega vel samtengd til að orkuverðið geti orðið mjög svipað í öllum löndunum. Þetta stefnumið er mjög óhagfellt Íslendingum og Norðmönnum.  

ACER heldur skrá um fjöldamörg verkefni, sem eru í gangi, í undirbúningi eða í athugun (under consideration).  Í síðasta hópinum er sæstrengur, sem hefur hlotið verkheitið Ice Link og á að liggja á milli Íslands og Bretlands.  Samkvæmt skránni er kostnaðar- og arðsemisathugun lokið, gangsetning fyrirhuguð 2027, og aðstandendur verkefnisins eru þar nefndir Landsnet, Landsvirkjun og National Grid Interconnector Holdings Ltd.  Af þessum gögnum ACER má ráða, að stofnunin muni ekki hika við að beita sér fyrir því, að þessu verkefni verði hrint af stokkunum, komist hún í aðstöðu til þess. Hér skal fullyrða, að það er enginn meirihluti fyrir því í landinu, að ACER komist í þessa aðstöðu.  Það er hollt fyrir Alþingismenn að hugleiða þessa stöðu.  

 Þá munu þeir gera sér grein fyrir því, að með því að leiða ACER til valda yfir orkumálum á Íslandi, eru þeir um leið að greiða leið fyrir tengingu raforkukerfis Íslands við raforkukerfi ESB um Bretland.  

 

 


EFTA-ríkin og miðstýring orkumála ESB

Í Noregi hafa miklar umræður og rannsóknir farið fram um afleiðingar þess fyrir Noreg að gangast undir vald stjórnsýslustofnunar Evrópusambandsins, ESB, á sviði orkumála, í fyrstu atrennu á grundvelli 1000 bls. laga- og reglugerðabálks ESB, 2009/72/EU. Mörgum þykir stjórnarskrárbrot blasa við og haldnar eru blysfarir til að mótmæla valdaafsali þjóðríkisins til yfirþjóðlegrar stofnunar á sviði orkumála.

Hérlendis er allt á rólegu nótunum enn þá, en íslenzkum almenningi kann þó að ofbjóða einnig.      Nú þegar eru í smíðum hjá ESB nokkur þúsund bls. viðbætur við téðan orkulagabálk, sem færa enn meiri völd til orkustjórnsýslustofnunarinnar, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), sem staðsett er í Ljubljana í Slóveníu.  Rannsóknarskýrsla norska De-facto félagsins, "EUs energiunion og norsk tilknytning til ACER ?", er afar fróðleg, og þar sem hagsmunum Íslands og Noregs gagnvart ACER svipar mjög saman, verður birt hér að neðan samantekt á skýrslunni, sem er þýðing á 2. kafla hennar. 

Með innleiðingu Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB í EES-samninginn öðlast ACER völd til að láta leggja til Íslands aflsæstreng þaðan, sem hentugast þykir, og tengja hann við stofnkerfi í báða enda án þess að spyrja kóng eða prest hérlendis.  Eftir það verður staða Norðurlandanna tveggja gagnvart ACER og sameiginlegum raforkumarkaði ESB alveg sambærileg:

Í skýrslunni eru færð eftirfarandi rök fyrir því, að  Noregur á að nota neitunarmöguleika sinn gagnvart innlimun í Orkusamband ESB og tengingu við ACER:

  • Noregur verður með í orkusambandi, sem tekur stöðugum breytingum, og þar sem teknar eru ákvarðanir um stöðugt víðara svið orkumálanna hjá yfirþjóðlegri stofnun ESB, ACER.  Noregur missir innlenda stjórn á þessu mikilvæga stjórnunarsviði.
  • Takmark ESB er, að orka streymi frjálst yfir landamæri og að flutningsgetan verði næg, svo að verðmunur milli ólíkra svæða og landa verði minni en 2,0 EUR/MWh (=0,25 ISK/kWh), í fyrstu atrennu innan skilgreindra svæða.
  • Aukin flutningsgeta og viðskipti með rafmagn mun hækka rafmagnsverð í Noregi.  Það kemur niður á bæði almennum notendum, iðnaði og starfsemi í einka- og opinbera geiranum.
  • Skilmálarnir um viðskipti með rafmagn um sæstrengina verða ákvarðaðir af ESB. Það getur hæglega þýtt sveiflukenndari vatnshæð í miðlunarlónum en hingað til hefur þekkzt. Stórþingið á í marz 2018 að ákveða, hvort tvær ESB-tilskipanir skuli verða teknar í norsk lög og reglugerðir - orð fyrir orð, þ.e. tilskipanirnar um viðskipti með rafmagn þvert á landamæri og um að færa völd frá Noregi til stjórnvaldsstofnunarinnar ACER.
  • Á Noreg kann að verða lögð kvöð af ESB/ACER um að leggja fleiri sæstrengi, ef raforkuverð í Noregi verður áfram meira en 0,25 ISK/kWh lægra en annars staðar á ESB-raforkumarkaðinum.  Ef flutningsgeta sæstrengja í rekstri og í undirbúningi er ekki næg til að jafna út verðmun á milli Noregs og annarra, er mögulegt að þvinga Noreg til að nota tekjurnar frá sæstrengjum í rekstri til að fjármagna nýja sæstrengi.  
  • Núverandi umframorka í norska raforkukerfinu mun hverfa, og þar með verður grundvöllur hagstæðs raforkuverðs fyrir orkusækinn iðnað rýrður verulega. Fleiri langtímasamningar um raforkuafhendingu verða varla gerðir.  Þetta getur sett þúsundir starfa á landsbyggðinni í Noregi í uppnám.  
  • Til að gjörnýta tekjumöguleika sæstrengjanna (t.d. með því að selja að deginum og kaupa að nóttunni) munu eigendur vatnsaflsvirkjana hafa hvata til að auka aflsveiflur virkjananna.  Það þýðir tíðar breytingar á rennsli ánna og hæð miðlunarlónanna, og slíkt hefur miklar neikvæðar afleiðingar fyrir umhverfið, náttúru- og útivistarhagsmunina.
  • Við yfirlestur þessarar skýrslu kom í ljós, að það er mikil andstaða í Noregi við frekari samþættingu í Orkusamband ESB og við tengingu Noregs við ACER í stórum hluta verkalýðshreyfingarinnar.  Náttúru- og útivistarsamtök óttast afleiðingar aukinna aflsveiflna fyrir vatnskerfin.  Það kann þannig að vera meirihluti á norska Stórþinginu gegn því að færa völd yfir orkumálunum til yfirþjóðlegrar stofnunar, ACER.
  • Það sem sameinar andstæðinga valdaframsals úr landinu til ACER, er óskin um, að völdin yfir orkumálum landsins skuli áfram vera í höndum norskra yfirvalda.  Fólk óskar ekki eftir stjórnarfyrirkomulagi, sem flytur völd frá norskum orkumálayfirvöldum til yfirþjóðlegra ESB-stofnana.
  • Varðandi ákvarðanir Stórþingsins veturinn 2018 er spurningin um innlenda stjórnun orkumálanna sett á oddinn í sambandi við hugsanlega samþykkt á tengingu Noregs við ACER.  Andófsfólk slíkrar samþykktar krefst þess, að við nýtum undanþáguákvæði EES-samningsins til að neita norskri ACER-tengingu.  
  • Andófsmenn eru þeirrar skoðunar, að hugsanleg ACER-tenging útheimti 3/4 meirihluta í Stórþinginu samkvæmt grein nr 115 í Stjórnarskránni um fullveldisframsal.  

Norska verkalýðshreyfingin er með þessum hætti á 32  blaðsíðum búin að kryfja viðfangsefnið Orkusamband ESB og tenging Noregs við ACER.  Niðurstaðan er einhlít.  Norska Stórþingið á að hafna þessum gjörningi frá ESB. Ef norski Verkamannaflokkurinn leggst gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar, er úti um það. 

Þá vaknar spurningin hér á Íslandi, hvers vegna íslenzka verkalýðshreyfingin sofi Þyrnirósarsvefni, þegar tenging Íslands við ACER er annars vegar.  Útilokað er, að um sofandahátt eða þekkingarleysi sé að ræða.  Öllu líklegra er, að valdamikil öfl innan verkalýðshreyfingarinnar líti ACER-tengingu Íslands með velþóknun, enda sé hún aðeins enn einn áfanginn í aðlögun Íslands að ESB og muni flýta fyrir væntanlegri aðild. Í raun má halda því fram, að verið sé að innlima EFTA-ríkin bakdyramegin inn í ESB með því að færa ESB-stofnun sömu völd þar og hún hefur í ESB-ríkjunum.  Sjá má nú skriftina á veggnum.   

 


Borgarlína er fráleit lausn á umferðarvandanum

Blekbóndi missti neðri kjálkann niður á bringu um daginn, er hann sá eftir borgarstjóranum haft, að losun einnar umferðarteppu með hjálp mislægra  gatnamóta flytji aðeins umferðarvandann að næstu gatnamótum.  Það þætti ekki gott, að læknir segði þetta um kransæðastíflu sjúklings síns, heldur mundi almennilegur læknir snúa sér að því að fjarlægja allar kransæðastíflurnar eða tengja framhjá þeim. Hugmyndafræði borgarstjóra er ógeðfelld blanda af neikvæðni í garð fjölskyldubílsins, hunzun almannahagsmuna (umferðaröryggis og ferðatíma) og ábyrgðarleysis gagnvart ráðstöfun opinbers fjár.

Borgarstjóri Reykjavíkur situr sem steinrunninn með hendur í skauti og þykist hafa fundið snjallari lausn á reglubundnu umferðaröngþveiti á höfuðborgarsvæðinu með Borgarlínu en að greiða leið fjölskyldubílsins.  Þar tekur hann algerlega rangan pól í hæðina og staðfestir þar með, að hann er draumóramaður, en enginn raunsæismaður.  Draumóramaðurinn leitar þó  fulltingis reykvískra kjósenda í vor til að fá að halda áfram með steingeld gæluverkefni sín, en stjórnarhættir draumóramannsins hafa hingað til haft hræðileg áhrif á fjárhagsstöðu borgarinnar, og áframhaldandi hnignun hennar mun leiða til niðurlægingar höfuðborgarinnar á næsta kjörtímabili. Það mun tröllríða fjárhagnum á slig, ef fíflagangur á borð við Borgarlínu verður að raunveruleika á höfuðborgarsvæðinu.  Það verður að gjörbreyta um stefnu í skipulagsmálum borgarinnar og breyta stjórnskipulagi hennar, og þá fyrst mun hagur hennar vænkast.

Skipulagsyfirvöld höfuðborgarsvæðisins eru í klónum á danskri ráðgjafarstofu, Cowi, hverrar umferðarspár og ráðgjöf eru mjög ótrúverðugar.  Væri nær að leita til innlendra umferðarsérfræðinga, sem menntaðir eru erlendis og kunna þess vegna skil á umferðarmænum á borð við Borgarlínu.  Cowi-menn hafa látið frá sér fara endemi á borð við að þvinga fólk úr bílum og í strætó á sérakreinum með vegtollum, hækkun bílastæðagjalda og fækkun bílastæða og mögnun almenns umferðaröngþveitis.  Með slíku og umferðarspám, sem eru algerlega á skjön við staðreyndir frá löndum, þar sem borgarlína hefur verið innleidd, dæmir þessi ráðgjafarstofa sig úr leik, nema í sandkassa draumóranna.

Þórarinn Hjaltason, umferðarverkfræðingur, MBA, sýndi með dæmum erlendis frá, að Borgarlína mun næstum ekkert draga úr bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu hérlendis.  Allt fé, sem fjárfest verður í Borgarlínu, verður þess vegna á glæ kastað og mun valda stórtjóni í þokkabót, því að það fé hefði annars verið nýtt í brýnar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu og vítt og breitt um landið.  Allir raunsæir menn sjá í hendi sér, sbr hér að neðan, að hugmyndir um Borgarlínu eru skýjaborgir draumóramanna, sem rándýrir ráðgjafar styðja við og viðhalda, á meðan þeir geta makað krókinn með fé úr opinberum sjóðum, þar sem í vissum tilvikum er fé án hirðis.

Grein Þórarins Hjaltasonar,

"Áhrif borgarlínu á umferð einkabíla ofmetin",

í Morgunblaðinu 1. febrúar 2018, hófst þannig:

"Samkvæmt skýrslu verkfræðistofunnar Cowi um borgarlínuna (janúar 2017) er skipting á ferðamáta í dag þannig, að hlutur ferða með strætó er 4 %, gangandi og hjólandi 20 % og ferðir með einkabíl 76 %.  Í sömu skýrslu er áætlað, að árið 2040 verði hlutur ferða með strætó 12 %, gangandi og hjólandi 30 % og ferðir með einkabíl 58 %.  Ferðir með einkabíl eiga samkvæmt þessu að minnka um 18 % eða nákvæmlega jafnmikið og áætluð aukning á ferðum gangandi, hjólandi og með strætó."

Þessi áætlanagerð um minnkandi bílaumferð og vaxandi hjólreiðar og gönguferðir samfara vaxandi strætóferðum er alveg út í hött, enda órökstudd og stangast á við reynslu annarra.  Það er stórfurðulegt, að nokkur skuli taka mark á þvílíkri framsetningu.  Aðeins draumóramenn geta talið það koma til greina að hætta einni krónu af opinberu fé í fjárfestingu, sem reist er á kviksyndi á borð við þessa skýrslu.  Áfram með Þórarin:

"Það stenzt engan veginn, að fjölgun ferða með strætó um 8 % leiði til þess, að ferðum með einkabíl fækki um 8 %.  Reynslan sýnir, að þegar farþegum fjölgar með strætó vegna bættrar þjónustu, þá hefur hluti nýrra farþega hjólað eða gengið áður eða þá, að nýir farþegar hefðu hreinlega ekki ferðazt neitt, ef ekki hefði komið til bætt þjónusta strætó.  Með öðrum orðum: nýir farþegar eru ekki eingöngu fyrrverandi bílstjórar eða farþegar í einkabíl."

Cowi-ráðgjafarþjónustunni virðist sem sagt ekki vera treystandi.  Þórarinn Hjaltason bendir síðan á, að þótt farþegi í einkabíl fari að nota strætó, minnkar bílaumferðin ekkert fyrr en bílstjórinn leggur bílnum.  Hann vitnar til reynslu borganna Adelaide, Sydney og Brisbane í Ástralíu af innleiðingu borgarlínu:

"Farþegum með strætó fjölgaði að meðaltali um u.þ.b. 45 % með tilkomu "borgarlínanna".  Fyrrverandi bílstjórar í einkabíl reyndust vera að meðaltali aðeins 25 % af nýjum farþegum með strætó."

Sé áætlun um fjölgun í strætó við tilkomu Borgarlínu samhliða minnkun bílaumferðar, reist á þessum reynslutölum frá Ástralíu, í stað ágizkana frá Cowi til að þóknast draumóramönnum, sem stjórna skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins á Íslandi, þá mun ferðum með strætó fjölga úr 4,0 % í 5,8 %, og bílum í umferðinni mun fækka um tæplega 0,5 %, úr 76,0 % í 75,5 %, en ekki niður í 58 %, eins og ráðgjafar Cowi slá fram út í loftið. Gangandi og hjólandi fækkar úr 20,0 % í 18,7 %.   

Þessi minnkun bílaumferðar verður ekki merkjanleg á götunum, sem sannar fullyrðinguna hér að framan, að Borgarlínan mun nánast ekkert draga úr bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu, og ferðahlutdeild strætó mun ekki þrefaldast með tilkomu hennar, heldur vaxa um 45 %, og hún verður rekin með dúndrandi tapi, margföldu núverandi tapi, því að nýting vagnanna mun enn versna.  Borgarlína eru drómórar einir og mun reynast verða fjárhagslegt kviksyndi.  Það var frumhlaup hjá núverandi ríkisstjórnarflokkum að lýsa yfir stuðningi við þetta verkefni.  Alþingi ber að styðja betur fjárhagslega við bakið á Vegagerðinni og láta óvandaðan undirbúning skipulagsyfirvalda höfuðborgarsvæðisins lönd og leið.    

 

 

   


Sjálfstæð hugsun og EES

Ánægjuleg tíðindi bárust af Alþingi þriðjudaginn 6. febrúar 2018.  Þar var fjármála- og efnahagsráðherra í andsvörum um lög og/eða reglur um fjármálagerninga, en sem kunnugt er hafa bæði Alþingi og Stórþingið norska samþykkt að fella tilskipana- og lagabálka ESB (Evrópusambandsins) um sameiginlegt eftirlitskerfi með fjármálastofnunum inn í EES-samninginn. Sagði ráðherrann frá því, að langan tíma hefði tekið að mjaka ESB að viðunandi lausn þessara mála fyrir EFTA-ríkin, en það verður æ erfiðara og hefur t.d. ekki gengið varðandi orkumálin. Formaður Sjálfstæðisflokksins ræddi á almennari nótum um vaxandi ásælni ESB inn á svið, sem hingað til hafa verið alfarið á forræði lýðræðislega kjörinna fulltrúa hvers lands eða opinberra stofnana í hverju landi. 

Það var engu líkara en ráðherrann væri við þetta tækifæri með hugann við mál, sem er á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir vorþingið 2018 og fjallar einmitt um að fela nýlegri stofnun ESB, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), sem hlotið hefur víðtækar valdheimildir frá æðstu stjórnstofnunum ESB á sviði orkumála, óskorað vald í hverju EES-landi á sviði orkuflutningsmála. Ekki nóg með það, heldur skal setja í hverju landi á laggirnar stofnun, óháða stjórnvöldum, en samt á fjárlögum hvers ríkis, sem stjórnar orkuflutningsmálum hvers lands og lýtur einvörðungu boðvaldi ACER.  Þeir lögfræðingar eru líklega vandfundnir, sem ekki sjá í þessu fyrirkomulagi felast meiri háttar og þar af leiðandi óviðunandi stjórnarskrárbrot. 

Við samþykki Alþingis á því að fella "Þriðja orkumarkaðslagabálk" ESB inn í EES-samninginn, verður sem sagt stofnað útibú frá ACER á Íslandi, sem verður algerlega utan seilingar rétt kjörinna yfirvalda á Íslandi, en mun engu að síður í krafti þessarar samþykktar Alþingis öðlast æðsta vald í málefnum raforkuflutninga á Íslandi.  Þar munu verða teknar ákvarðanir, sem áður voru á verksviði Orkustofnunar og á sviði Landsnets.  

Hér væri með þessu móti komin upp stjórnskipunarstaða á Íslandi (og í Noregi), sem er fordæmalaus, þ.e. yfirþjóðleg stofnun, ACER, skipar hér málum, sem varðar ekki aðeins stöðu ríkisins og málefni þess, heldur einnig beina hagsmuni fyrirtækja og einstaklinga og fyrirmæli frá yfirþjóðlegri stofnun, sem Ísland er ekki aðili að, til fyrirbrigðis, sem ekki lýtur innlendu stjórnvaldi.   Það sagði Bjarni Benediktsson í áður nefndum umræðum á Alþingi, að væri algerlega óásættanlegt fyrir Íslendinga.  

Þar með má ætla, að komin sé upp sú staða í ríkisstjórn, að stjórnarfrumvarp um valdatöku ACER á Íslandi á sviði raforkuflutninga innanlands og til og frá Íslandi um nýja sæstrengi, verði ekki lagt fram. Það er útilokað, að ráðherra orkumála leggi það fram í eigin nafni, enda skal efast um, að málið njóti meirihlutastuðnings á Alþingi, þótt ESB-sinnar séu vafalaust boðnir og búnir að greiða leið þessa víðtæka fullveldisframsals, sem mundi hafa djúptæk áhrif á hagsmuni allra landsmanna og til hins verra fyrir langflesta, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri.

Alþingi hefur í hendi sér að fresta afgreiðslu þessa frumvarps, komi það engu síður fram, og reyna ásamt Norðmönnum og Liechtensteinum að ná fram s.k. tveggja stoða lausn, sem tryggir hagsmuni EFTA-ríkjanna.  Þetta má þó kalla vonlausa leið, því að hún hefur verið reynd í a.m.k. 6 ár af mismunandi ríkisstjórnum í löndunum án árangurs. 

Það er einnig möguleiki hreinlega að fresta málinu um óákveðinn tíma.  Það mun þá koma til kasta ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, sem væntanlega kærir frestunina til EFTA-dómstólsins, sem líklega mun dæma, að frestunin sé brot á EES-samninginum. Þar við mun sitja.  Þessir aðilar geta ekki vísað EFTA-löndunum úr EES.  Hins vegar getur ESB sagt EES-samninginum upp, og það getur hvert EFTA-landanna þriggja, sem aðild á að EES, einnig.  Það væri svo sannarlega engin goðgá. Það er afar ólíklegt, að ráðherraráð ESB samþykki að segja EES-samninginum upp á þessum forsendum á meðan Bretar eru á leið út úr ESB og ótti steðjar að forystu ESB um, að flótti bresti í liðið.  

Í 200-mílum Morgunblaðsins birtist föstudaginn 9. febrúar 2018 fræðandi og vönduð grein eftir Hjört J. Guðmundsson undir fyrirsögninni:

Fullt tollfrelsi með sjávarafurðir.

Hún hófst þannig:

"Meðal þess, sem fríverzlunarsamningur Evrópusambandsins við Kanada, sem tók gildi í lok september á síðasta ári [2017], tekur til, eru viðskipti með sjávarafurðir.  Við gildistöku hans féllu niður tollar Evrópusambandsins af um 96 % allra tollskrárnúmera Evrópusambandsins á kanadískar sjávarafurðir, og á næstu 3-7 árum verður það, sem eftir stendur, einnig afnumið.  

Þannig er stefnt að því, að útflutningur á kanadískum sjávarafurðum til Evrópusambandsins verði 100 % tollfrjáls, þegar upp verður staðið samkvæmt því, sem fram kemur á vefsíðu ríkisstjórnar Kanada, þar sem fjallað er um tækifæri kanadískra útflutningsfyrirtækja, þegar kemur að útflutningi sjávarafurða til sambandsins."

Á sínum tíma, þegar færð voru rök fyrir nauðsyn inngöngu Íslands í EES, var tollfrjálst aðgengi íslenzka sjávarútvegsins að markaði ESB, höfuðröksemdin.  Hafi þetta einhvern tímann verið gild röksemd, er hún það ábyggilega ekki lengur, því að Íslandi mun vafalaust standa til boða fríverzlunarsamningur við Bretland og ESB af sama toga og Kanadasamningurinn, kjósi Íslendingar að segja skilið við EES.  

Hin frelsin 4 á Innri markaði EES eru Íslandi lítils virði, og sum þeirra hafa reynzt landsmönnum stórskaðleg eða munu reynast það í framtíðinni.  Hér er um að ræða frjálst flæði fjármagns, sem var undirrót bankahruns hér 2008, frjálst flæði þjónustu, sem valdið hefur árekstrum hér, t.d. í ferðageiranum, frjálst flæði fólks, sem með Schengen hefur opnað landamærin upp á gátt og valdið hættu, og frjálst flæði orku, t.d. raforku, sem ESB nú reynir með afarkostum að troða upp á EFTA-þjóðirnar.  

Ef Norðmenn og Íslendingar neita að bergja á þessum kaleik, þurfa þeir ekki að óttast afleiðingar, því að í versta tilviki endar málið með uppsögn EES-samningsins.  Þá munu taka við fríverzlunarsamningar, og staða þjóðanna verður ekki lakari eftir en áður.  Það er hægt að sýna fram á, að efnahagslega verður hún mun betri, a.m.k. ef í kjölfarið verður gengið rösklega til verks við grisjun laga- og reglugerðaskógarins frá ESB, sem er sniðinn við annars konar atvinnulíf og minna í sniðum en einkennandi er í ESB-ríkjunum.  

Undir lok greinar sinnar skrifaði Hjörtur:

"Þannig er ljóst, að þegar kemur að beinum tollum, hefur stjórnvöldum í Kanada tekizt að semja um betri aðgang að Innri markaði Evrópusambandsins fyrir kanadískar sjávarafurðir en Íslendingar og Norðmenn njóta í gegnum EES-samninginn, en aðgangurinn að markaði sambandsins fyrir sjávarfang hefur lengi verið talinn einn helzti kosturinn við aðild Íslands að samningnum.  Þannig er fríverzlunarsamningur Evrópusambandsins og Kanada líklegur til þess að leiða til aukinnar samkeppni við kanadísk útflutningsfyrirtæki. Jafnvel þó að íslenzkum stjórnvöldum tækist að tryggja sambærileg kjör fyrir íslenzk fyrirtæki."

 

 

 


Goðsögnin um gagnsemi EES

Blekbóndi þessa vefseturs samdi grein í lok janúar 2018, sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 3. febrúar 2018 undir fyrirsögninni, "Eru dagar EES taldir ?".  Hún hefur nú birzt á heimasíðu norsku andófssamtakanna, "Nei við ESB", 

https://neitileu.no/aktuelt/er-eos-avtalens-dager-talte    á norsku.

Nýlega sýndi Hjörtur Guðmundsson, alþjóða stjórnmálafræðingur, fram á, sbr https://www.mbl.is/200milur/frettir/2018/02/12/fullt_tollfrelsi_med_sjavarafurdir/,

að með nýjum fríverzlunarsamningi við ESB hafa Kanadamenn fengið hagstæðari viðskiptaskilmála með sjávarafurðir en Íslendingar njóta á Innri markaði EES.  Er það með ólíkindum og gefur til kynna, að í vöruviðskiptum væru Íslendingar ekki verr settir með fríverzlunarsamning við ESB og Bretland en með núverandi veru á Innri markaðinum.  Það eru gjörbreyttir tímar í Evrópu með ákvörðun Breta um að yfirgefa ESB.  "Festung Europa" er fallin, þó með öðrum hætti en árið 1944.

Í téðri blaðagrein var látin í ljós ósk um, að til þess fær aðili mundi athuga efnahagsleg heildaráhrif aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu-EES.  Þetta var orðað þannig í greininni:

"Vel væri við hæfi í tilefni aldarfjórðungsafmælis EES-samningsins, að t.d. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands-HHÍ mundi leggja mat sitt á árlegan heildarkostnað hagkerfisins af aðildinni og árlegan heildarávinning miðað við, að Ísland nyti að fullu sömu fríverzlunarréttinda við ESB og Kanadamenn sömdu nýlega um.  Tilgáta höfundar er sú, að þjóðhagslegur ávinningur af uppsögn EES-samningsins sé ótvíræður og vaxandi."

Nú vill svo til, að HHÍ lauk við skýrslu um þetta efni fyrir utanríkisráðuneytið í janúar 2018.  Um er að ræða skýrslu nr C18:01

"Áhrif samningsins um EES á íslenzkt efnahagslíf".

Í stuttu máli sagt stendur þessi skýrsla engan veginn undir nafni, því að því fer fjarri, að höfundarnir geri grein fyrir heildaráhrifum þess fyrir Ísland að standa utan við EES, þ.e. að segja upp EES-samninginum, en gera þess í stað fríverzlunarsamning við ESB og Bretland.  Samkvæmt reglum WTO (World Trade Organisation) á slíkur samningur ekki að vera meira hamlandi á viðskipti en nýjasti samningur aðila þar á undan, sem nú er téður fríverzlunarsamningur  ESB og Kanada, og þá verður nánast um frjálst aðgengi að ræða fyrir allar iðnaðarvörur, sjávarafurðir o.fl. 

Í téðri skýrslu er verið að bera ávinning aðildar saman við fortíðina fyrir aðild og fundið út, að ávinningur sjávarútvegs af EES nemi 4,5 miaISK/ár.  Litlu verður vöggur feginn.  Það er erfitt að sjá, hverjum skýrsla af þessu tagi má verða að gagni.  Það verður að skrifa það að mestu leyti á verkstjórn verkkaupans. Það er gamla sagan: ráðgjöfum verður að stjórna nákvæmlega, ef þeir eiga ekki að hlaupa út undan sér og út um víðan völl og skila af sér gagnslitlu og jafnvel villandi verki.

Aðildin að EES kostar í beinum útgjöldum um 23 miaISK/ár á verðlagi 2018 samkvæmt athugun Viðskiptaráðs Íslands árið 2015, en til baka kemur eitthvert fé á formi styrkja o.fl., svo að mismunurinn má heita bitamunur en ekki fjár í þessu sambandi, og verða ekki eltar ólar við hann hér. 

Það, sem skiptir öllu máli í þessu sambandi, en var ekki snert við í téðri skýrslu HHÍ, er óbeinn kostnaður atvinnulífsins af EES.  Aftur á móti hefur Viðskiptaráð Íslands ráðizt í þetta mikilvæga rannsóknarverkefni og fundið út, að heildarkostnaður af opinberum reglum fyrir athafnalífið nemi 175 miaISK/ár, uppfært til verðlags 2018.  Þetta jafngildir 7,0 % af VLF.  Meginhluti þeirrar upphæðar er reyndar fenginn frá HHÍ fyrir nokkrum árum og nemur 143 miaISK/ár og stafar af minni framleiðniaukningu en ella sökum regluverksbyrði.  Það er grafalvarlegt, að sá kostnaður er talinn vaxa um 1,0 %/ár.  Þetta er hagvaxtarlamandi og hamlandi fyrir samkeppnishæfni landsins, því að fyrirtækin hérlendis eru langflest mun minni en algengast er í löndum ESB.

Óumdeilt er, að lög og reglugerðir ásamt eftirlitsstofnunum verða að vera fyrir hendi í nútíma þjóðfélagi í viðleitni til að treysta frjálsa samkeppni og hagsmuni neytenda og til að tryggja sjálfbæra nýtingu ásamt fleiri ástæðum.  Erlend ríki, sem við eigum í viðskiptum við, krefjast líka, að fylgt sé ákveðnum gæðastöðlum.  Það er hins vegar svo, að lítil fyrirtæki, með 1-9 starfsmenn,bera að jafnaði hlutfallslega tvöfalt hærri kostnað af opinberu regluverki en meðalstór fyrirtæki með 10-49 starfsmenn, ferfaldan á við 50-249 manna fyrirtæki og tífaldan á við fyrirtæki með 250 eða fleiri starfsmenn.  

Ein birtingarmynd þessa er, að reiknað á hvern íbúa lands eru starfsmenn opinberra eftirlitsstofnana 25 sinnum fleiri hér en í Þýzkalandi og 15 sinnum fleiri en á hinum Norðurlöndunum.  

Það eru fyrirtækin, sem líða fyrir þessa skertu samkeppnishæfni, og hún kemur hart niður á afkomu þeirra og þar af leiðandi getu til að standa undir launum, annarri skattheimtu og eðlilegum arðgreiðslum til eigenda.  Það er þess vegna fyllsta ástæða til að spyrna við fótum.  

Fyrir nokkrum árum fann hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands það út, að beinn kostnaður fyrirtækja vegna eftirlits- og reglugerðabákns næmi 22 miaISK/ár, en óbeini kostnaðurinn, sem væri vegna hamlandi áhrifa reglugerðafrumskógarins á framleiðni, næmi 143 miaISK/ár og færi hækkandi um 1,0 %/ár.  Samtals eru þetta 165 miaISK/ár, sem uppfært til verðlags 2018 nemur um 175 miaISK/ár.   

Í ljósi þess, að Ísland mun hafa innleitt a.m.k. 11´000 "gjörðir" ESB, eftir að EES-samningurinn tók hér gildi í ársbyrjun 1994, eða um 460 á ári, þá er varla goðgá að ætla, að 80 % allra laga og stjórnvaldsfyrirmæla á Íslandi, sem áhrif hafa á rekstrarafkomu fyrirtækja, séu upprunnin hjá ESB.  Ekki er þar með sagt, að þeir séu allir óþarfir, en í ljósi sérstaklega íþyngjandi áhrifa þeirra á íslenzkt atvinnulíf er ekki úr vegi að álykta, að létta megi 60 % af umfangi ESB-reglnanna af atvinnulífinu án þess, að slíkt komi niður á markaðsaðgengi þeirra eða gæðastjórnun.  

Niðurstaðan er þá, að árlegur kostnaður ESB-aðildarinnar fyrir Ísland nemi:

KEES=miaISK 175 x 0,8 x 0,6 = miaISK 84,

sem jafngildir 3,4 % af VLF.

Það er ekki nóg með þetta, heldur er nú í undirbúningi í ráðuneytunum frumvarp til Alþingis um, að orkustjórnvaldsstofnun ESB, ACER, verði fengið hér æðsta vald um ráðstöfun raforkunnar, og að Landsnet muni þá alfarið lúta stjórn útibús ACER á Íslandi og að eftirlitshlutverki Orkustofnunar með Landsneti verði einnig fyrir komið í útibúi ACER á Íslandi.  Þar sem útibú ACER á Íslandi mun ekki lúta neinu innlendu stjórnvaldi, getur ESB/ACER ákveðið, að Landsnet skuli taka þátt í að leggja aflsæstreng til Íslands, og síðan verði Ísland innlimað í orkumarkað EES, jafnvel þótt ríkisstjórn og Alþingi leggist gegn því.  ACER hefur nú þegar sett aflsæstreng á milli Íslands og Bretlands á verkefnaskrá sína, og er ætlunin að taka hann í notkun árið 2027.  Þetta er stórmál, en hefur samt ekki hlotið neina viðeigandi umfjöllun hérlendis.  Er þetta það, sem koma skal ?

  Fullveldisframsal til yfirþjóðlegrar stofnunar verður vart skýrara en þetta. Ætlar meirihluti Alþingismanna að láta þetta yfir sig ganga á fullveldisári ?  "Það sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann."  Ef þetta er lagatæknilega hægt í þingsal, er ljóst, að ekkert hald er í Stjórnarskránni, þegar ásælni erlends valds til ráðstöfunar íslenzkra orkulinda er annars vegar. 

Útibú ACER á Íslandi, algerlega óháð íslenzkum stjórnvöldum, mun rýna nýja raforkusamninga og hafna þeim, ef umsamið raforkuverð er dæmt vera undir "markaðsverði" raforku.  Hætt er við, að virkjanafyrirtæki muni ekki lengur hafa hug á slíkum samningum, en kjósa fremur að flytja raforkuna utan.  Óhjákvæmileg afleiðing slíks orkubrotthvarfs úr hagkerfinu er minni verðmætasköpun í landinu, atvinnuleysi og snarhækkun raforkuverðs til almennings og fyrirtækja án langtímasamninga.  Af hverju heyrist ekkert frá verkalýðsfélögum, ASÍ, SA, SI eða Neytendasamtökunum ?  Halló, er nokkur heima ? 

Búast má við tvöföldun orkuverðs frá virkjun og helmingshækkun flutningsgjalds, alls 6 ISK/kWh.  Þetta þýðir hækkun raforkukostnaðar almennings um:

24 miaISK/ár án VSK.

Sé þetta nú lagt við fyrri kostnað af reglugerðabákninu (almenningur borgar allt á endanum), þá fæst: 

Heildarkostnaður EES = 108 miaISK/ár eða 4,3 % af VLF.

 

 

  

 

 

 


Sérstaða Íslands og Noregs

Um næstu mánaðamót er væntanleg til landsins Kathrine Kleveland, formaður norsku andófssamtakanna "Nei við ESB".  Mun hún kynna hérlendis skelegga baráttu samtaka sinna gegn stöðugt vaxandi framsali fullveldis Noregs til yfirþjóðlegra stofnana ESB vegna EES-samningsins.  Nákvæmlega hið sama á við Ísland í þessum efnum, en hér virðast menn dofnari og líta á það, sem gerist, sem einhvers konar óhjákvæmilega þróun.  Ef téð Katrín megnar að vekja Íslendinga af Þyrnirósarsvefni á 100 ára afmælisári fullveldis Íslands, má ætla, að tíma hennar hér verði vel varið.

Sérstaða Íslands og Noregs er mikil innan Evrópu.  Báðar þjóðirnar búa í stóru landi m.v. fólksfjölda og ráða yfir enn stærra hafsvæði, margföldu á við landsflatarmálið. Þessi hafsvæði eru matarkista og undir hafsbotni eru eldsneytislindir, sem Norðmenn hafa nýtt sér í miklum mæli.  Hafa þeir safnað skatttekjum af olífélögum og arðgreiðslum ríkisolíufélagsins Statoil í sjóð síðan 1996, sem að stærð er um 2,5 x VLF Noregs eða um miaISK 100´000.  Frá 2016 hefur Stórþingið samþykkt að styðja við rekstur ríkissjóðs með fé úr sjóðnum, sem nemur um 3 % af eignum sjóðsins á ári.  Þetta er nálægt langtíma ávöxtun sjóðsins, en undanfarin ár hefur hún verið mun meiri, og hefur vöxtur sjóðsins verið ævintýralega hraður á núverandi áratugi.  Ríkissjóður Noregs væri líklega rekinn með bullandi tapi, ef olíusjóðurinn væri ónotaður, því að hann stendur undir um 18 % af útgjöldum norska ríkisins. Samt gengur norska ríkið ekki á höfuðstól sjóðsins, heldur hefur skotið öflugri stoð undir tekjugrunn hans.    

Á raforkusviðinu sker staða Noregs og Íslands sig algerlega úr í Evrópu. 

Í fyrsta lagi er raforkan unnin með sjálfbærum hætti úr vatnsafli að næstum 100 % í Noregi og 70 % á Íslandi og um 30 % þar úr jarðgufu.  Í ESB er hlutfall sjálfbærrar raforkuvinnslu innan við 30 %.

Í öðru lagi eru Norðurlöndin tvö sjálfum sér næg með raforku. Í Noregi er reyndar tiltæk í miðlunarlónum 15 % meiri orka en nemur raforkuþörfinni í landinu, en á Íslandi er betri nýting á fjárfestingum raforkukerfisins og sáralítil umframorka.  Það er reyndar vanfjárfest þar, því að ekki er unnt að fullnægja þörfum markaðarins innanlands vegna veikburða flutningskerfis (Landsnets) og teflt er á tæpasta vað með orkuforðann, eins og í ljós kemur í slökum vatnsárum (orkuskerðingar).

Í þriðja lagi er afhendingaröryggi raforku mikið í Noregi.  Á Íslandi á hið sama við, þar sem ekki eru flöskuhálsar og dreifingin er með jarðstrengjum (þriggja fasa).  Á meginlandi Evrópu var löngum mikið afhendingaröryggi raforku, en með "Die Energiewende" í Sambandslýðveldi Þýzkalands hefur snarazt á merinni í þessum efnum, og hefur á hverju ári undanfarið legið við hruni rafkerfisins á háálagstímabilum með litlu sólskini og lygnu veðri. 

Hjá þýzkumælandi merkir "Die Energiewende" eða orkuskipti, enn sem komið er, sjálfbæra raforkuvinnslu, sem er langt í land með að ná.  Á meginlandinu er reynt að leysa kola- og gasorkuver af hólmi með sólarhlöðum og vindorkuverum, en slíkt leiðir til óstöðugs framboðs raforku.  Eins og kunnugt er hafa Norðmenn og Íslendingar sett sér háleit markmið um að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi í samgöngugeiranum og verða fremstir í Evrópu á þessu sviði.  Það verður hins vegar ekki hægt, ef auka á útflutning raforku í Noregi og hefja hann hér. Þannig er ljóst, að sala á "grænu" rafmagni frá Noregi og Íslandi niður til meginlands Evrópu dregur ekkert úr loftslagsvánni.  Bretar hafa í þessum efnum skotið Þjóðverjum ref fyrir rass, því að engin kolakynt raforkuver eru lengur starfrækt á Bretlandi, en meira en þriðjungur raforkuvinnslu Þýzkalands fer fram í kolakyntum orkuverum, og sum þeirra nota jafnvel brúnkol.

Í fjórða og síðasta lagi búa Norðmenn og Íslendingar við ódýra raforku.  Orkuhluti raforkureiknings flestra hérlendis er sennilega á bilinu 4,5-5,5 ISK/kWh, og í Noregi er sá hluti yfirleitt á bilinu 3,3-5,2 ISK/kWh.  Á Bretlandi er verðið samsvarandi um 9,1 ISK/kWh, og í Þýzkalandi getur raforkuverð frá virkjun rokið upp í 30 ISK/kWh.  

Raforkan er á Íslandi og í Noregi alfarið afurð sjálfbærra náttúruauðlinda, en aðeins að litlu leyti í ESB.  Íslendingar og Norðmenn viðurkenna, að stjórnvöldum landanna beri að hafa vald til að beina nýtingu hinna sjálfbæru auðlinda sinna í ákveðinn farveg, sem gagnist öllum íbúum sem bezt, óháð búsetu.  Þetta þýðir að nota raforkuna til stórtækrar verðmætasköpunar, t.d. að breyta raforku í útflutningsvöru vítt og breitt um landið í iðjuverum.  

Þannig er þessu alls ekki háttað í ESB, þar sem litið er á raforku sem vöru, sem "fljóta" eigi hindrunarlaust yfir landamæri til hæstbjóðanda.  Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB, 2009/72/EU frá 13. júlí 2009, er einmitt til að ryðja úr vegi öllum hindrunum í hverju landi við þessu frjálsa flæði.  Til þess eru völd yfir ráðstöfun raforkunnar flutt frá rétt kjörnum þjóðþingum og yfirvöldum í hverju landi til stjórnsýslustofnunar ESB fyrir orku, ACER, sem staðsett er í Slóveníu.  Þar hafa aðeins ESB-ríki atkvæðisrétt og segja útibúum ACER í hverju landi algerlega fyrir verkum um uppbyggingu orkuflutningskerfa og stjórnun raforkuflutninga.

Þessi staða mála er ekki í anda tveggja stoða samstarfsins, sem var grundvöllur upphaflega EES-samningsins.  Að Íslandingar og Norðmenn séu skyldaðir með lagasetningu að taka við skipunum um tilhögun orkumála eða annarra mikilvægra mála frá stofnun, sem ríkjasamband hefur komið sér upp, þar sem Íslendingar og Norðmenn eru ekki aðilar, er óviðunandi og brýtur í bága við stjórnarskrár landanna.  Á sömu lund talaði fjármála- og efnahagsráðherra úr pontu Alþingis 6. febrúar 2018 í umræðu um annað mál.  Ætlar ríkisstjórnin samt fram með þetta mál á vorþingi 2018.  Það væri með miklum ólíkindum, og því mun ekki verða tekið með þegjandi þögninni.  Í stað þess að rýja sig trausti með slíku háttarlagi ætti ríkisstjórnin nú í febrúar að taka þetta mál af dagskrá þingsins og færa það í allt annan farveg og leita í þeim efnum samhljóms hjá norskum stjórnvöldum.

 

 

Í verkefnaskrá Alþingis kemur fram, að fjalla eigi um málið á Alþingi í marz 2018 undir eftirfarandi sakleysislegu lýsingu: "Snýr að mestu að sjálfstæði raforkueftirlits Orkustofnunar", þegar raunin er sú, að færa á stjórnun ráðstöfunar á raforkunni frá Alþingi og ríkisstjórn til ACER með ESA í Brüssel sem millilið.  "Something is rotten in the state of Danemark."  Hér sannast "salamiaðferðin" upp á búrókrata EES, sem Morgunblaðið gerði að umræðuefni í leiðara 9. febrúar 2018:

""Agúrkuvertíð" ESB stendur allan ársins hring, þar sem sneitt er svo fínlega af fullveldi ríkjanna, að einstaka þjóðir taka ekki eftir því, enda gera þeirra eigin forystumenn sitt til að draga athyglina frá þessum lýðræðislegu skemmdarverkum."

Þessari forystugrein lauk þannig:

"Það er ekki líklegt, að nokkur íslenzkur stjórnmálaflokkur muni standa vaktina fyrir landsins hönd, hvað þetta varðar fremur en nokkuð annað, sem kemur úr þessari átt.  Það er ömurlegt."

Vonir standa til, að Sjálfstæðisflokkurinn sé nú að rumska. 

 

   


Næst er það orkusamband

Með vísun til stjórnarskráar sinnar, Lissabon-sáttmálans, sækir Evrópusambandið-ESB nú fram til aukinnar miðstjórnar aðildarríkjanna og EFTA-ríkjanna í EES á hverju sviðinu á fætur öðru.  Nú hefur verið samþykkt á samstarfsvettvangi ESB og EFTA, að orkumál verði næsta viðfangsefni æ nánari samruna (an ever closer union). Þetta mun koma hart niður á hagsmunum Íslendinga og Norðmanna, sem hafa mjög svipaðra hagsmuna að gæta innbyrðis, en eru í ósambærilegri stöðu við ESB-ríkin í orkumálum. 

Þetta stafar af því, að Norðurlöndin tvö framleiða nánast alla sína raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, og þar er enginn hörgull á raforku á hagstæðu verði fyrir notendur, nema staðbundið á Íslandi vegna flutningsannmarka, sem er sjálfskaparvíti. ESB-löndin flytja inn gríðarmikið af orku, rafmagni, gasi og olíu, aðeins 13 % orkunotkunarinnar er sjálfbær og raforkan er þar dýr.  

Í Noregi eru um 20 TWh/ár af raforku til reiðu á markaði umfram innlenda raforkuþörf eða 15 % af vinnslugetu vatnsaflsvirkjana þar í landi.  Þetta er aðeins meira en nemur allri raforkuvinnslu Íslands og er óeðlilega mikið, en stafar af lokun verksmiðja, betri nýtni í notendabúnaði og í virkjunum við uppfærslu þeirra ásamt fjölda nýrra smávirkjana.  Á Íslandi er yfirleitt sáralítil umframorka, þótt forstjóri Landsvirkjunar tilfæri hana sem rök fyrir aflsæstreng til útlanda, og ótryggða orkan er seld tiltölulega háu verði, sem gefur til kynna lítið framboð. 

Hins vegar getur snögglega orðið breyting á þessu, og það er orkustjórnsýslustofnun ESB, ACER, sjálfsagt kunnugt um.  Yfirlýsingar frá framkvæmdastjórn ESB sýna áhuga hennar á að samþætta Noreg í raforkunet ESB, og þá er ekki ósennilegt, að hún renni hýru auga til Íslands, þar sem raforkunotkun á mann er mest í heiminum. Tækin til þess eru að yfirtaka ráðstöfunarrétt raforkunnar með því að flytja æðsta vald raforkuflutningsmála í ríkjunum til ACER, leggja sæstrengi, stofna raforkumarkað og samtengja í hvoru landi og samtengja þá við raforkumarkaði ESB.  BINGO. Raforkan mun stíga í verði í Noregi og á Íslandi og fara til hæstbjóðanda.  Á skrifborði búrókrata kann þetta að líta vel út, en það eru fórnarlömb í þessum viðskiptum: almenningur á Íslandi og í Noregi.  

Í árbók 2018 norsku andófssamtakanna "Nei við ESB" er mikinn fróðleik að finna um ESB, þ.á.m. um "Orkusamband ESB".  Arne Byrkjeflot, stjórnmálaráðgjafi "Nei við ESB" á þar greinina "Energiunionen neste", og er hér að neðan einn kafli þaðan:

"ESB krefst ekki eignarréttarins, það krefst ráðstöfunarréttarins":

"Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB gefur tilefni til að ræða um varanlega auðlind okkar, fossaaflið, í víðu samhengi.  Í þetta skiptið snýst málið ekki um eignarhaldið, heldur um það, hver á að stjórna og setja reglur um nýtingu rafmagnsins.  Það snýst um völd yfir innviðum.  ESB hefur auk þess kynnt áætlun sína um þróun orkusambands síns. Stefnan er sú, að öll tiltæk raforka skuli streyma frjálst yfir landamæri, þannig að þeir, sem mest eru reiðubúnir að borga, fái orkuna.  Þeir geta þá pantað orkuna, hvaðan sem er, frá Nordland (fylki í Noregi) eða frá Bretagne skaga Frakklands.  Þeir fá raforkuna á sama verði og þeir, sem búa við fossinn eða við virkjunina.  Rafmagn er eina varan, sem seld er samkvæmt frímerkisreglunni.

Grunnhugmyndin er sú, að þannig fáist rétt verðlagning á rafmagnið og að það verði þá notað á hagkvæmasta hátt.  [Þetta minnir á málflutning Viðreisnar varðandi verðlagningu á aflahlutdeildum sjávarútvegsins - innsk. BJo.]  Ef Norðmenn hefðu haft þessa stefnu í árdaga orkunýtingar, þá hefðu starfsleyfislögin aldrei verið samþykkt.  [Þessi lög skilyrtu starfsleyfi virkjana við orkunýtingu í héraði eða í dreifðum byggðum Noregs, og voru í staðinn gerðir langtíma orkusamningar á hagstæðu verði fyrir iðjufyrirtækin, sem tryggði alþjóðlega samkeppnishæfni þeirra - innsk. BJo.]"

Á Íslandi verður uppi sama staða og í Noregi eftir lagningu fyrsta aflsæstrengsins til Íslands.  Ef Alþingi samþykkir innleiðingu "Þriðja orkumarkaðslagabálks" ESB í íslenzkt lagasafn, þá missa lýðræðislega kjörin yfirvöld á Íslandi völd á því til ACER (Stjórnsýslustofnun ESB um orkumál), hvort og hvenær slíkur aflsæstrengur verður lagður, og hvar hann verður tekinn í land og tengdur við íslenzka stofnkerfið, og hvernig rekstri hans verður háttað.  Orkustofnun verður samkvæmt téðum lagabálki að töluverðu leyti (varðandi raforkumál) breytt í stofnun undir stjórn útibús ACER á Íslandi, og útibúið verður utan seilingar lýðræðislegra stjórnvalda og hagsmunaaðila á markaði.  Landsnet verður líka sett undir útibú ACER á Íslandi.

Aðild Íslands og Noregs að Orkusambandi ESB þjónar ekki hagsmunum Íslands og Noregs, nema síður sé.  Á þessum tveimur Norðurlöndum hefur áratugum saman öll raforka verið unnin á endurnýjanlegan og mengunarlítinn hátt.  Í ESB er þetta hlutfall um þessar mundir um 26 %, og þar er mikill þrýstingur á að hækka þetta hlutfall.  Það er ennfremur engin þörf á raforkuinnflutningi til þessara Norðurlanda, eins og til ESB, sem vanhagar bæði um eldsneyti og raforku.  

Með nýjum sæstrengjum frá Noregi til Bretlands og Þýzkalands og sæstreng frá Íslandi til Bretlands mun flutningsgeta sæstrengja til útlanda nema um helmingi af vinnslugetu virkjana í hvoru landi.  Það er ACER og útibú þess í Noregi og á Íslandi, sem ráða mun rekstri þessara sæstrengja, þ.e. afli á hverjum tíma og í hvora átt það er sent.  Orkuflutningurinn verður tiltölulega mikill vegna mikillar spurnar eftir grænni orku, og þetta mun leiða til mikillar verðhækkunar á raforku í báðum löndum.  Vegna mikils flutningskostnaðar, sem getur lent með ósanngjörnum hætti á Statnett í Noregi og Landsneti á Íslandi, gætu Íslendingar og Norðmenn lent í þeirri ókræsilegu stöðu að búa við hæsta raforkuverð í Evrópu og nota raforku að stórum hluta úr kolakyntum og kjarnorkuknúnum orkuverum, sem orka er flutt inn frá á nóttunni.  

Hér er um að ræða dæmigert sjálfskaparvíti, sem komið getur upp hjá smáþjóðum, sem ekki gá að sér í samskiptum við öflugt ríkjasamband, sem þróast í átt til sambandsríkis.  Það er engu líkara en nauðhyggja ráði för.  Þessi nauðhyggja snýst um, að Ísland og Noregur verði að vera aðilar að EES, annars sé voðinn vís.  Þetta er sams konar nauðhyggja og beitt var í hræðsluáróðri gegn Bretum 2016 í aðdraganda BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðslunnar.  Þá var því spáð, að efnahagur Bretlands færi í kalda kol við útgöngu.  Það rættist auðvitað ekki.  Þvert á móti jókst hagvöxtur Bretlands og var meiri en hagvöxtur ESB.  

Enn eru menn við sama heygarðshornið.  Hvers vegna í ósköpunum ætti efnahagur Bretlands, Noregs og Íslands að versna við að losna úr viðjum ESB ?  Fríverzlunarsamningar munu tryggja snurðulaus viðskipti, og löndin losna við kostnað reglugerðafargans búrókrataveldisins í Brüssel auk mikilla beinna útgjalda til ESB á hverju ári.  Það mun renna upp fyrir fleiri þjóðum, að hag þeirra verður betur borgið utan en innan við múra ESB (Festung Europa).  Sýnt hefur verið fram á, að talsverð líkindi eru á, að árið 2027 verði lönd sambandsríkisins ESB 13 talsins og aðildarlönd tollabandalagsins EFTA verði 14 talsins.   

 

 


Borgarlína stendst ekki samkeppni

Það er og verður á næstu 20 árum gríðarleg samkeppni um féð, sem Alþingi samþykkir að ráðstafa í samgöngumálin. Þá kemur ekki til mála að leggja úrelta hugmyndafræði í höfði fáeinna skipulagsmanna, stjórnmálamanna og áhugamanna um skipulagsmál (amatöra) til grundvallar, heldur verður að íhuga slysafækkun, tímasparnað og orkusparnað vegfarenda ásamt viðhaldssparnaði vega og tækja að ógleymdum sanngirnissjónarmiðum, þegar ákvörðun um fjárveitingu til samgönguverkefna er tekin. Annars er hætt við, að miklum verðmætum verði á glæ kastað.  

Viðfangsefnið á höfuðborgarsvæðinu er að endurbæta nokkur frumstæð gatnamót, sem setið hafa á hakanum, sumpart sakir áhugaleysis borgaryfirvalda og sumpart vegna verkefna, sem þingmenn hafa sett framar í forgangsröð Vegaáætlunar.  Þessi gatnamót eru allt of hættuleg og afkastalítil fyrir núverandi umferðarálag, hvað þá framtíðarálag, sem vex svipað og landsframleiðslan.  Fyrir vikið eru þau hættuleg, og  ótrúlegt slugs við úrbætur er dýrkeypt á formi harmleikja, árekstra án manntjóns og tíma- og eldsneytissóunar í umferðarbiðröðum, sem þar myndast. Skilvirkasta lausnin er sums staðar að grafa fyrir umferðarstokkum og annars staðar að reisa brýr og leggja vegslaufur og koma þannig upp mislægum gatnamótum af mismunandi gerðum eftir aðstæðum.  Mislæg gatnamót munu kosta miaISK 1,0-2,0 per stk.

Til eru þeir, sem líta hvorki á umferðina né þörf fólks fyrir húsnæði sem viðfangsefni tæknilegs og fjárhagslegs eðlis, heldur sem tækifæri til að breyta smekk og lífsvenjum fólks eftir eigin höfði.  Þeir líta talsvert til útlanda eftir lausnum, en átta sig ekki á því, að til að erlendar fyrirmyndir verði raungerðar með árangursríkum hætti hérlendis, verða forsendur að vera sambærilegar hér og þar.

Forræðishyggjusinnar, sem vilja móta lífshætti almennings að eigin smekk og skoðunum, sem mörgum þykja æði forneskjuleg og sérvizkuleg, vilja beina auknum ferðafjölda í strætisvagna með sérakreinum eða jafnvel í járnbrautarlestir. Þessi hugmyndafræði gengur ekki upp, og að reyna það verður dýrt spaug.  Veðurfar á Íslandi gerir þetta óaðlaðandi ferðamáta, og hann er óþægilegri, tímafrekari og jafnvel dýrari en að fara ferða sinna á fjölskyldubílnum.  Sé hann  rafknúinn, þá er hann ódýrari og mengunarminni (per mann) en strætisvagninn. 

Hann er ódýrari að því gefnu, að fjölskyldan telji sig hvort sem er þurfa á einkabíl að halda.  Fjölskyldubíllinn er oft samnýttur kvölds og morgna. Þá er íbúafjöldinn á svæði Borgarlínu alls ekki nægur fyrir arðsaman rekstur hennar, þótt annað væri sambærilegt við útlönd, og má þó einu gilda, hversu mjög borgar- og bæjaryfirvöld rembast sem rjúpan við staurinn við að þétta byggð meðfram henni, með ósanngjarnri og jafnvel óleyfilegri gjaldtöku af húsbyggjendum til að fjármagna gjörsamlega ótímabært verkefni. Sú gjaldtaka er fyrir neðan allar hellur og brottrekstrarsök fyrir þá borgar- og bæjarfulltrúa, sem hana hafa stutt.   

Af þessum sökum hefur hvorki gengið né rekið með að auka hlutdeild strætisvagna í ferðafjölda á höfuðborgarsvæðinu.  Hún er enn 4,0 % af heildar ferðafjölda þrátt fyrir fjáraustur í hítina.  Forsjárhyggjumenn byggja mikla loftkastala nú á undirbúningsstigum s.k. Borgarlínu og gefa sér, að hún dugi til þreföldunar hlutdeildar strætisvagnanna í ferðafjölda.  Þetta er algerlega borin von; það er ekkert, sem styður þessa draumsýn.  Þvert á móti er sama, hversu miklu fé er ausið í þennan félagslega ferðamáta, síðustu árin úr ríkissjóði tæplega 1,0 miaISK/ár, þá metur fólk þægindin og tíma sinn nægilega mikils virði, til að strætisvagnar gegna enn og munu gegna jaðarhlutverki í ferðum á landinu bláa (blauta, kalda og vindasama).

Það er alveg sama, hversu miklu fé verður ausið í Borgarlínu á næstu árum, umferðaröngþveitið á svæði hennar mun ekkert skána, ef engar framfarir verða á núverandi vegakerfi.  Af þessum sökum er verið að dúka hér fyrir peningalega hít og fjárfestingarhneyksli, fullkomna sóun almannafjár.  Þetta er þyngra en tárum taki, því að vegfarendur um allt land hrópa á umbætur á vegakerfinu, og peningarnir koma úr ríkissjóði, nema þar sem einkaframkvæmd verður samþykkt.  Það kemur af þessum sökum ekki til mála, að þingmenn setji Borgarlínu á 12 ára Vegaáætlun.

Í Bandaríkjunum hefur verið áætlað (The Economist 20.01.2018-Jam tomorrow), að umferðaröngþveiti kosti um 500 miaUSD/ár.  Fært yfir á íslenzkar aðstæður eru þetta um 50 miaISK/ár.  Það er hægt að leysa þetta vandamál til 20 ára með fjárfestingu upp á miaISK 20 í mislægum gatnamótum, vegstokkum og fjölgun akreina.  Þetta er svipuð upphæð og skipulagsyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu hyggjast setja í fyrsta hluta Borgarlínunnar, og það verður þá að koma frá ríkissjóði, því að borgarsjóður hefur ekkert bolmagn, enda er hann á leiðinni í gjörgæzlu að öllu óbreyttu.

Fé er ekki til fyrir úrelt gæluverkefni á borð við Borgarlínu.  Næsta átak á höfuðborgarsvæðinu á eftir ofangreindri mannvirkjagerð verður að undirbúa göturnar með skynjara- og sendibúnaði til samskipta við sjálfakandi farartæki.  Með vel heppnaðri innleiðingu slíks búnaðar, sem þolir íslenzkar aðstæður, ætti slysatíðni að minnka, nýting gatna að batna og kostnaður vegna tafa að minnka, því að farþegar geta þá nýtt ferðatímann til einhvers nýtilegs.

Fyrrverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Jón Gunnarsson, Alþingismaður, skrifaði grein í Morgunblaðið, 25. janúar 2018, þar sem hann útlistaði fjármagnsþörf vegakerfisins á Vestfjörðum og á Vesturlandi.  Komst hann að þeirri niðurstöðu, að brýn fjárfestingarþörf á Vestfjörðum næmi miaISK 30 og á Vesturlandi miaISK 20, eða alls miaISK 50. Er þá Sundabraut ekki meðtalin.  Heildarfjárfestingarþörf vegakerfis landsins, að höfuðborgarsvæðinu meðtöldu (án Borgarlínu, en með Sundabraut), er þá ekki undir miaISK 250.  Þessar tölur sýna svart á hvítu, að það eru engir peningar til fyrir Borgarlínu.

Grein Jóns,

"Ákall um aðgerðir - Vesturland og Vestfirðir", 

hófst þannig:

"Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á ástand þjóðvegakerfisins á Vesturlandi og á Vestfjörðum.  Á þessu svæði er ástandið sennilega hvað verst á landsvísu og brýnust þörf fyrir úrbætur til að fylgja eftir kröfum almennings og atvinnulífs."

Greininni lauk þannig:

"Það er engin þolinmæði hjá almenningi, hvorki á þessu svæði [Vestfjörðum og Vesturlandi] né annars staðar, til að bíða í áratugi eftir þessum framkvæmdum.  Lélegar samgöngur hafa enda mjög hamlandi áhrif á alla uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu." 

 Ráðhús Reykjavíkur


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband