Talsmenn Orkupakka #3 hér og þar

Einn er sá hagsmunahópur í Noregi og á Íslandi, sem heldur uppi áróðri fyrir innleiðingu EFTA-landanna í EES á Orkupakka #3 á mjög svipuðum nótum í báðum löndunum, en það er orkugeirinn sjálfur eða hluti af honum. Hérlendis hefur t.d. mátt greina hliðholla afstöðu til orkupakkans hjá aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, Rögnu Árnadóttur, sem heldur því jafnan fram, að áhrif innleiðingar verði lítil hérlendis, og hjá forstjóra Landsnets, Guðmundi Inga Ásmundssyni, sem mærði frjálsa samkeppni með raforku í orkukauphöll í Fréttablaðinu, 26. janúar 2019, en það er einmitt fyrirkomulag í anda Þriðja orkupakka ESB.

Norska orkugeiranum er mikið í muna, að Þriðji orkupakki ESB öðlist lagagildi í Noregi, en það gerir hann ekki, nema Alþingi staðfesti hann, þótt hann muni hafa miklu alvarlegri áhrif á Íslandi en í Noregi, þar sem Norðmenn eru nú þegar með orkukauphöll í anda ESB og fjölda millilandatenginga, bæði í lofti og í sjó. Þann 17. janúar 2019 birti Energi Norge, sem eru samtök raforkufyrirtækja í Noregi í vinnslu, flutningum og dreifingu, greinargerð, sem þau hafa líklega keypt af norska lagaprófessornum Henrik Björnebye.  Hér verða rýndar 6 fullyrðingar þessa prófessors við lagadeild Óslóarháskóla:

  1. "EES-löndin halda fullum umráðarétti yfir náttúruauðlindum sínum-alveg eins og öll aðildarlönd ESB.  Grein 125 í EES-samninginum tryggir EFTA-löndunum möguleikann á opinberu eignarhaldi á náttúruauðlindum, eins og viðgengst í Noregi með vatnsaflið."----Hér er tvennt að athuga fyrir Ísland.  Frumorkan er eignaréttarlega samtvinnuð virkjuninni.  Sá, sem kaupir vatnsréttindi eða jarðgufuréttindi fyrir virkjun sína, eignast ráðstöfunarrétt yfir viðkomandi orkulindum.  Í ESB er algengast, að eldsneytismarkaðirnir sjái fyrir útvegun frumorkunnar, svo að orkumarkaðslíkan ESB er sniðið við allt aðrar aðstæður en hér.  Í annan stað er ekki þjóðareign á orkulindum á Íslandi, svo að það er ekkert gagn að gr. EES 125 á Íslandi til að verjast erlendri ásælni í orkulindirnar. Hið sama gildir í raun í Noregi.  Þar hafa þýzkir fjárfestingarsjóðir nýlega keypt fjölda smávirkjana vatnsafls í rekstri og byggingu.  Þessar virkjanir hafa vart borið sig til þessa, svo að Þjóðverjarnir veðja augljóslega á mjög hækkandi raforkuverð í Noregi, eins og birtingarmynd hefur sézt af í vetur.  Útlendingar hafa líka reist vindorkugarða í Noregi, m.a. á hálendinu, sem eru Norðmönnum mikill þyrnir í augum.  Augljóslega er þessi þróun mála hagsmunum almennings andstæð, þótt ríkisfyrirtækið Statkraft framleiði þriðjung norskrar raforku.   
  2. "EES-löndin ráða sjálf ákvörðunum um aflsæstrengi eða ekki - alveg eins öll ESB-aðildarlöndin." ---- Hér er Landsreglarinn greinilega talinn með til stjórnsýslu landanna, þótt líkja megi honum við Trójuhest ESB innan stjórnsýslu hvers lands.  Sérstaklega á það auðvitað við um EFTA-löndin.  Landsreglarinn á að fylgja því eftir í hverju landi, að Kerfisáætlun Landsnets hvers lands búi í haginn fyrir verkefni í Kerfisþróunaráætlun ESB um samtengingar orkukerfanna.  Um þetta er getið í ESB-gerð 347/2013, og hún verður áreiðanlega innleidd í kjölfar Orkupakka #3. Ef sæstrengur til Íslands er í Kerfisþróunaráætlun ESB, sbr Icelink, og framkvæmdaaðili sækir um leyfi til að leggja hann, þá varðar höfnun Orkustofnunar eða bann Alþingis einfaldlega broti á EES-samninginum og Evrópurétti eftir innleiðingu Orkupakka #3.  Slíkur ágreiningur lendir endanlega fyrir ESB-dómstólinum í tilviki ESB-landa og fyrir EFTA-dómstólinum í tilviki EFTA-landa.  Þetta er óvéfengjanlegt.  Björnebye reynir að breiða yfir þessa grafalvarlegu staðreynd með óljósu orðalagi.
  3. "EES-löndin ákveða sjálf, hvaða innlenda stjórnvald á að bera ábyrgð á að meta og samþykkja ný sæstrengsverkefni eða hafna þeim. Í Noregi er þetta vald hjá Olíu- og orkuráðuneytinu. ACER getur ekki haft áhrif á þetta." ---- Hér er aðeins hálf sagan sögð hjá Björnebye.  Landreglarinn fylgist auðvitað náið með afgreiðslu umsóknar um aflsæstrengsleyfi, eins og honum ber að gera, þar sem Kerfisþróunaráætlun ESB á í hlut.  Hans fyrsta verk eftir höfnun Orkustofnunar/iðnaðarráðuneytis á slíkri umsókn verður að tilkynna hana til ACER, sem tekur þá ákvörðun um framhaldið í samráði við framkvæmdastjórn ESB.  Það liggur beint við að kæra höfnun til ESA sem brot á skuldbindingum Íslands.  Lagasetning Alþingis hefur engin úrslitaáhrif í þessu sambandi, þar sem innlend löggjöf víkur fyrir Evrópurétti samkvæmt EES-samninginum.  
  4. "Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn er reistur á grundvallaratriðum, sem þegar hafa verið innleidd og hafa tekið gildi samkvæmt Öðrum orkumarkaðslagabálkinum. Það er sem sagt ekki um að ræða að fara inn á innri orkumarkað ESB, heldur fremur að halda áfram og þróa núverandi tengingu okkar við þennan markað." ---- Það eru ýmsar leiðir færar til að hrekja þessa staðhæfingu.  T.d. hefur norski lagaprófessorinn Peter Örebech sýnt fram á, að með samþykkt Orkupakka #3 tekur Evrópurétturinn gildi fyrir millilandaorkutengingar landanna, en hann er ekki við lýði nú fyrir millilandatengingar Noregs, eins og ljóst má vera af rekstri kerfisins og umræðunni í Noregi.  Þetta jafngildir grundvallarbreytingu á réttarstöðu EFTA-landanna á þessu sviði.  Að öðru leyti er mest sannfærandi í þessu sambandi að vitna í Morgunblaðsgrein Elíasar B. Elíassonar frá 25. janúar 2019:"Að misskilja "rétt"": "Ráðuneytið virðist ekki skynja breytinguna frá stefnu framkvæmdastjórnar ESB í tilskipuninni, sem innleidd var hér með orkulögunum 2003 til þeirrar stefnu, sem boðuð er með þriðja orkupakkanum.  Þar er horfið frá því að láta hvert ríki um að aðlagast stefnu innri markaðarins eftir aðstæðum og hagsmunum hvers og eins, en í stað þess skal veita framkvæmdastjórninni síaukið vald til miðstýringar.  Þetta er grundvallarbreyting.                                        Þegar orkulögin voru samþykkt 2003, voru rafmarkaðir með allt öðru sniði en nú.  Samkvæmt þeim lögum virtist vera svigrúm til að koma á frjálsum uppboðsmarkaði með formi, sem gæti gengið upp hér, en svo er ekki lengur.  Með þriðja orkupakkanum kemur landsreglari í öllum ríkjum ESB, sem hvarvetna gegnir því hlutverki að vera reglusetningararmur ACER.  Ein meginskylda hans hér verður að vinna að uppsetningu á frjálsum markaði með sömu reglum og formi og nú er á rafmörkuðum ESB, en þeim mörkuðum er lýst í grein undirritaðs, "Rafmagn til heimila og útflutnings á markaði", á heimasíðu HHÍ, hhi.hi.is/vinnupappirar.  Með fyrirkomulagi núverandi rafmarkaða Evrópu eru markaðslögmál virkjuð í þágu notenda ESB, en ekki okkar.  Niðurstaða greinarinnar er, að vegna sérstöðu íslenzka orkukerfisins þá virkjast þessi sömu markaðslögmál ekki í þágu íslenzkra notenda með sama fyrirkomulagi.  Innleiðing þess hér yrði skaðleg.  Þetta fyrirkomulag verður samt innleitt hér, ef þriðji orkupakkinn hlýtur samþykki."  Þessu vandamáli Íslendinga skautar Henrik Björnebye, hinn norski lögmaður, léttilega framhjá, því að hann er að skrifa fyrir norska hagsmunaaðila í raforkugeiranum, sem eiga þeirra hagsmuna að gæta, að verðið haldist sem hæst á norskum raforkumarkaði, og Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn tryggir þá hagsmuni í Noregi og á Íslandi með innleiðingu Evrópuréttar á sviði milliríkjaviðskipta með orku.  Til að sýna enn betur, hversu forkastanlegt ráðslag það er hjá íslenzkum orkuyfirvöldum að berjast fyrir innleiðingu löggjafar, sem sýnt hefur verið fram á, að er hag almennings á Íslandi stórskaðleg, skal halda áfram að vitna í téða grein Elíasar:  "Landsreglarinn mun taka yfir alla stjórn raforkumála frá ráðuneytinu, en staða hans er sett upp, svo [að] framkvæmdastjórn ESB hafi auðvelda leið til miðstýringar á öllu, er varðar viðskipti með rafmagn á innri markaðinum.  Hér mun sú miðstýring einnig ná yfir auðlindavinnsluna vegna þess, hve nátengd hún er raforkuvinnslu."  Þessar upplýsingar svara líka ágætlega klisjunni, sem fram kemur í lið 1 hér að ofan hjá Björnebye og algeng er hérlendis, að Orkubálkur #3 snerti ekki við auðlindastýringunni.  Hann mundi vissulega gera það á Íslandi.
  5.  "Nýjar reglur, reistar á Evrópuréttinum, s.s. netmálar og vinnureglur samkvæmt Orkupakka #3 ásamt nýlega samþykktum "Vetrarpakka" (Clean Energy for all Europeans) verða lagðar fram sem sjálfstæð mál til afgreiðslu hjá EES-löndum [EFTA] og ESB [væntanlega á Björnebye við Sameiginlegu EES-nefndina - innsk. BJo].  Þannig er ferlið fyrir allar nýjar ESB/EES-reglur." ---- Það er enginn ágreiningur um þetta, svo að eitthvað hafa boðin frá Íslandi til Energi Norge skolazt til.  Því, sem hins vegar hefur verið haldið fram hér, er, að allar orkutengdar reglur, sem ESB hugsar sem viðbót við Orkupakka #3, t.d. gerð nr 347/2013, munu áreiðanlega verða samþykktar í Sameiginlegu EES-nefndinni og væntanlega staðfestar á þjóðþingunum, því að það væri með öllu órökrétt að samþykkja Orkupakka #3, en hafna því, sem við hann á að éta.  Það gengur ekki upp.
  6.   "Þótt Ísland muni ekki samþykkja Orkupakka #3, munu samt áfram  verða í gildi ákvæði aðalsamnings EES um frjálst flæði vara, þjónustu, fjármagns og fólks ásamt regluverkinu um ríkisstuðning og sameiginlegar samkeppnisreglur." ---- Með þessu er Henrik Björnebye, lögmaður, að segja, að þrátt fyrir höfnun Alþingis á Orkupakka #3, verður samt "business as usual" innan EES.  Það er í samræmi við málflutning andstæðinga innleiðingar Orkupakka #3 á Íslandi.  

Af vanhæfi og umkomuleysi á veginum breiða

Tómas Ingi Olrich gerir það ekki endasleppt, heldur ritaði tímamótagrein í Morgunblaðið, 23. janúar 2019, sem hann nefndi:

"Hinn beini og breiði vegur umkomuleysisins".

Þar vakti hann athygli á því, að landsmenn virðast, margir hverjir, fljóta sofandi að feigðarósi Evrópusambandsaðildar með gagnrýnislítilli og að sumra mati sjálfsagðri innleiðingu margra, stórra og smárra, Evrópugerða og ESB-tilskipana í EES-samninginn og þar með í íslenzka löggjöf.  Þrátt fyrir stranga Stjórnarskrá, hvað framsal ríkisvalds varðar, hafa þingmenn ekki skirrzt við að samþykkja risastóra ESB-lagabálka, sem fela í sér framsal ríkisvalds til stofnana, þar sem Ísland er ekki fullgildur aðili, og þetta framsal spannar m.a. vald til íþyngjandi aðgerða gegn einstaklingum og fyrirtækjum og snertir þannig hag alls almennings.  Hafa þingmenn þá gjarna skýlt sér á bak við aðkeypt lögfræðiálit stjórnarráðsins, þar sem skákað er í skjóli loðmullu um "takmarkað framsal". 

Þegar horft er til Þriðja orkumarkaðslagabálksins í þessu sambandi, er erfitt að verjast samsæringskenningum um stórkapítal og skriffinnskubákn Berlaymont (aðalstöðvar ESB) gegn hagsmunum lítillar þjóðar norður í Atlantshafi, sem á miklar endurnýjanlegar og enn ónýttar orkulindir.

Grein sína hóf Tómas Ingi þannig:

"Lögð er áherzla á það af hálfu þeirra, sem vilja, að Ísland samþykki þriðja orkupakkann, að EES-samningurinn hafi reynzt Íslendingum mjög vel.  Jafnvel er ýjað að því, að aðild að EES hafi verið forsenda mikils efnahagslegs uppgangs á árunum 1994-2002.

Nú vill svo til, að engin formleg, fræðileg og ítarleg athugun hefur farið fram á því, hve vel EES-samningurinn hafi reynzt Íslendingum.  Margt hefur breytzt á þeim tíma, sem samningurinn hefur verið í gildi. 

Rétt er að líta til þess árangurs, sem Alþjóða viðskiptastofnunin hefur síðan 1994 náð í viðleitni sinni til að lækka eða fella niður hindranir á viðskiptum landa í millum.  

Það er ljóst, að EES-samningurinn hefur haft í för með sér mikinn kostnað fyrir Ísland, og mikið reglugerðafargan hefur fylgt honum, sem í mörgum tilvikum á hingað lítið sem ekkert erindi, en getur verið skaðlegt."

Þetta er tímabær gagnrýni, enda hverju orði sannari. Það hefur verið reynt að skapa goðsögn um gríðarlegan ávinning EES-samningsins, jafnvel, að hann sé okkur ómissandi, sem er fjarstæða.  Það er fyrir hendi viðskiptalegur ávinningur, en hann er dýru verði keyptur.  Það er tollfrelsi fyrir iðnvarning, en það var fyrir hendi samkvæmt fríverzlunarsamningi EFTA og ESB frá 1973. Fiskafurðir og kjötafurðir eru ekki tollfrjáls inn á Innri markaðinn, af því að Ísland er ekki aðili að sameiginlegri landbúnaðar- og fiskveiðistefnu ESB.  Samt hefur Alþingi innleitt ESB-matvælalöggjöf hér, svo að EFTA-dómstóllinn gat í nóvember 2017 ógilt löggjöf Alþingis frá 2009 um varnir gegn sýklalyfjaónæmi og sjúkdómum í mönnum og dýrum.  Þar gat dómstóllinn brugðið fyrir sig Evrópuréttinum, og íslenzkur réttur víkur fyrir honum samkvæmt EES-samninginum.  Þarna er um líf eða dauða að tefla og helztu sjúkdómaógn næstu áratuga í Evrópu að mati prófessors Karls G. Kristinssonar (banvænir sýklar, ónæmir fyrir lyfjum).  Þetta er ekki sýklahernaður gegn landsmönnum, en það er jafngildi rússneskrar rúllettu að flytja matvæli til landsins án öryggisráðstafana, þar sem íslenzkir sérfræðingar á þessu sviði telja þörf á.  

EES-aðildin kostar bein útgjöld upp á rúma 20 mrðISK/ár, en óbeini kostnaðurinn, sem hlýzt af íþyngjandi, ofvöxnu reglugerða- og eftirlitsfargani, sem dregur úr krafti fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana til framleiðniaukningar allt að 1 %/ár, hefur verið áætlaður allt að tífaldur þessi beini kostnaður á hverju ári.  Þessi kostnaður er meiri en ávinningur aðgengis að Innri markaði EES, ef miðað er við beztu kjör WTO-Alþjóða viðskiptaráðsins.

Langflestir starfsmenn hérlendis starfa hjá fyrirtækjum með undir 50 starfsmenn og margir hjá fyrirtækjum með undir 10 starfsmenn.  Reglugerðafargan ESB er sniðið við mjög ólíkar aðstæður og leggst þess vegna með meiri þunga á okkar þjóðfélag en þjóðfélög meginlandsins.  Þessir ókostir gera meira en að vega upp viðskiptalega umframhagræðið af fjórfrelsinu m.v. viðskiptaskilmála WTO eða fáanlega skilmála með fríverzlunarsamningi, sem líklegt er að EFTA-geri við Breta og gæti orðið fyrirmynd að samningi við ESB.

Tómas Ingi bendir síðan á nauðsyn þess "að komast að því með hlutlausri rannsókn, hver ávinningur okkar er af þessari samningsgerð".  Slík rannsókn verður alltaf í lausu lofti, ef nettó ávinningur EES-aðildar er ekki borinn saman við aðra valkosti, sem fyrir hendi eru.  Norðmenn gerðu slíka rannsókn fyrir nokkrum árum, og er gerð grein fyrir henni í "Alternativrapporten" 2012.  Sú skýrsla varpar ljósi á, að fagurgalinn um EES-samninginn er aðeins goðsögn, sem hentar bezt þeim, sem vilja sem nánasta aðlögun Íslands og Noregs að Evrópuréttinum með fulla aðild að ESB í huga í fyllingu tímans.  Verður þeim kápan úr því klæðinu ?

"Það er ekki viðeigandi að fela þeim þessa athugun, sem hafa þegar komizt að þeirri niðurstöðu, að samningurinn hafi reynzt okkur mjög vel; svo vel, að það eigi að búa honum sérstakt svigrúm með breytingu á stjórnarskrá Íslands.  Hætt er við, að sú ótímabæra niðurstaða leiði til þess, sem við höfum hingað til nefnt fordóma og leiða af sér óhæfi til að fjalla hlutlaust um reynsluna af EES."

Hér fjallar Tómas Ingi um það, að formaður hóps utanríkisráðuneytisins um umrætt mat á reynslunni af EES-samninginum hefur tjáð sig opinberlega með þeim hætti um EES þannig, að hæfi sitt til að komast að hlutlægri niðurstöðu hefur hann rýrt svo verulega, að skýrsluna má fyrirfram telja ónýta vegna slagsíðu.

Nokkru síðar í greininni vék Tómas Ingi að Stjórnarskránni, en hún er auðvitað næg ástæða ein og sér fyrir Alþingismenn til að hafna lagabálki frá ESB á borð við Orkupakka #3:

"Þegar aðildin að EES var rædd og undirbúin, var flestum ljóst, að framsal valds til evrópskra stofnana skapaði vandamál varðandi stjórnarskrá Íslands.  Á þeim tíma var talið, að framsalið væri á takmörkuðu sviði og því hægt að telja það standast ákvæði stjórnarskrárinnar.  Nú hefur þetta framsal aukizt.  Er það meginástæða þess, að ákveðin öfl leitast nú við af fremsta megni að breyta stjórnarskránni á þann veg, að hún heimili framsal.  

Aðrir vilja huga að því, hvort rétt sé að styrkja stjórnvöld í þeirri viðleitni að athuga gaumgæfilega og með gagnrýnum hætti innleiðingu reglugerða ESB og beita neitun, ef mál ganga gegn hagsmunum Íslands.  Enn öðrum finnst kominn tími til að hefja umræður um að endurskoða aðild að EES."

Síðan 1993, þegar EES-samningurinn var samþykktur á Alþingi, hefur mikið vatn runnið til sjávar, og samrunaþróun ESB tekið stakkaskiptum frá samþykkt Lissabonsáttmálans 2007.  Þessi þróun reynist EFTA-löndunum, Íslandi og Noregi, þung í skauti, og nú teygir miðstýringarárátta Framkvæmdastjórnarinnar hramma sína inn á eitt meginauðlindasvið Íslands, orkusviðið.  Þá hljóta landsmenn að spyrna við fótum, eins og Íslendingar og Norðmenn sameinuðust um að gera 1992 varðandi sjávarauðlindirnar. 

Þegar fulltrúar þessara þjóða standa ekki saman í Sameiginlegu EES-nefndinni, eins og gerðist að lokum varðandi Orkupakka #3, þá gefur íslenzka stjórnsýslan eftir, lyppast niður undan fargi þrýstings frá bæði ESB og hinum tveimur EFTA-löndunum í EES.  Þetta er grafalvarlegt í ljósi þess, að innleiðing þessa lagabálks um orkuna mun hafa miklu verri afleiðingar í för með sér fyrir Ísland en Noreg. Þessi alvarlegu mistök íslenzku stjórnsýslunnar getur Alþingi leiðrétt með höfnun lagabálksins.

Næst minnist Tómas Ingi á doðann, sem einkennir EES/ESB sinnana:

"Í stað þess að aðhafast er beðið.  Sá ágæti lögfræðingur, Hilmar Gunnlaugsson, sem ég vitnaði til í fyrri grein, telur, að það sé hægt að horfa með vonaraugum fram til fjórða orkupakka ESB.  Þar verði hugsanlega að finna lausn á orkumálum íslenzkra garðyrkjubænda.  Hvers vegna ættum við að hafa áhyggjur af slíkum málum, ef úrlausnar er að vænta frá ESB ?  Lögfræðingurinn er setztur í biðstofuna."

Það er rétt athugað hjá Tómasi Inga, að ræfildómur og umkomuleysi hafa heltekið EES/ESB-sinnana, sem ganga með grillur í hausnum um það, að regluverk búrókratanna í Brüssel hljóti að vera klæðskerasniðin að viðfangsefnum okkar hér uppi á Íslandi.  Orkupakki #3 er þó prýðisdæmi um, að svo er alls ekki.  Þessi lagabálkur snýr ekki að neinu þeirra viðfangsefna, sem við er að etja í íslenzka orkukerfinu.  Þvert á móti myndi innleiðing hans hér skapa fjölda vandamála og valda miklum deilum og almennri óánægju í þjóðfélaginu. Sá, sem heldur, að s.k. Vetrarpakki ESB muni verða til einhvers nýtur hér, er algerlega úti á þekju um eðli og hlutverk orkustefnu ESB.

Lokaorðin í þessari ágætu Morgunblaðsgrein voru á þessa leið:  

"Höfum við vanizt þeirri afstöðu að samþykkja athugasemdalaust tilskipanir ESB, unz við erum vaxin saman við þær ?  Þegar ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins fullyrðir (í Morgunblaðinu 18. september s.l.), að ekki verði séð, að innleiðing þriðja orkupakkans feli í sér meiri háttar frávik frá fyrri stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki og ekki sé ljóst, hvert það myndi leiða, yrði honum hafnað, vaknar áleitin spurning: Erum við að troða farveg, sem víkkar og þjappast með hverju minniháttar fráviki, unz summa frávikanna verður hinn breiði og beini vegur íslenzks uppburðarleysis í stjórnmálum og umkomuleysis í fullveldismálum ?"

Þarna hittir Tómas Ingi Olrich aftur naglann á höfuðið, og svarið við lokaspurningunni er já.  Öll sólarmerki á Alþingi undanfarin ár við innleiðingu risalagabálka ESB, sem taka af okkur forræðið á sviði heilsuverndar vegna matvælainnflutnings, fjármálaeftirlits, persónuverndar og nú það dýrkeyptasta af þessu öllu, sem er að setja æðstu stjórn orkumálanna undir ESA/ACER/ESB.

Hvernig stendur á blindingsmálflutningi iðnaðarráðherrans um, að innleiðing Orkupakka #3 feli ekki í sér "meiriháttar frávik frá fyrri stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki" ?  Ein skýringin á þessu háttarlagi er sú, að hún hafi enn ekki gert sér grein fyrir þeirri stefnubreytingu í orkumálum, sem átti sér stað frá útgáfu fyrsta orkupakka ESB, sem innleiddur var í lög hér 2003, til útgáfu þriðja orkupakkans árið 2009.  Þarna á milli varð til  stjórnarskrárígildi ESB, Lissabonssáttmálinn, en hann leggur línurnar um æ nánari samruna, sem endi með stofnun sambandsríkis Evrópu.  Þarna á milli varð líka orkukreppa í Evrópu, og það varð í kjölfarið forgangsmál hjá ESB-forystunni að taka orkumál álfunnar í sínar hendur til að forða ríkjum Evrópusambandsins í bráð og lengd frá hörmungum orkuskorts. Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB er afsprengi miklu róttækari stefnumörkunar til miðstýringar en í tilviki fyrri bálkanna tveggja.  Það er ekki kyn þótt keraldið leki í iðnaðarráðuneytinu, ef ráðherrann áttar sig ekki á þessu.  

 

 

 


Fyrrverandi ráðherrar gjalda varhug við orkupakkanum

Í ljósi þess, að talsmenn innleiðingar Orkupakka #3 rembast eins og rjúpan við staurinn, hver sem betur getur, við að telja landsmönnum trú um, að Orkupakki #3 breyti nánast engu frá Orkupakka #2, er einkar athyglisvert að fylgjast með fyrrverandi ráðherrum leggja sig í líma við að vara þjóðina og þar með núverandi þingmenn við afleiðingum samþykktar Alþingis á þessum lagapakka frá ESB, hvað sem líður samþykkt nefndar EFTA og ESB í Brüssel, sem kallar sig "Sameiginlegu EES nefndina", enda væri það hámark hins ólýðræðislega ferlis, ef slík embættismannanefnd ætti að ráðskast með lagasetningu hérlendis án þess, að Alþingi fái þar rönd við reist.  Alþingi hefur enn ekki afsalað sér valdinu til að hafna gjörningum þessarar nefndar í Brüssel. 

Nýjasta dæmið um þessa stöðutöku fyrrverandi ráðherra  er nýlegur greinaflokkur Tómasar Inga Olrich í Morgunblaðinu, en greinin:

"Forgjöf Íslendinga",

sem birtist 19. janúar 2019, verður til athugunar hér. Morgunblaðsgrein hans, 23. janúar 2019, er einnig allrar athygli verð og verða gerð skil í öðrum pistli.  Báðar greinarnar sýna, að höfundurinn hefur kynnt sér málefnið rækilega áður en hann settist niður við skriftir.  Þess vegna er vert að vitna nú í fyrrnefndu greinina og velta fyrir sér því, sem þar stendur.  Grein Tómasar Inga hefst þannig:

"Orka er ein af mikilvægustu forsendum efnahagslegra framfara, og hefur svo verið frá öndverðri 19. öld."

Þetta er alveg rétt og er ástæða þess, að forystumenn Evrópusambandsins, ESB, sáu ástæðu til þess 2009 í kjölfar orkuskorts, sem herjaði á Evrópu þá, að gera róttækar ráðstafanir til að byggja upp þá innviði Evrópu, sem flytja orku á milli landa.  Með orkupakka #3 eru völdin yfir millilandatengingunum færð frá orkuyfirvöldum hverrar þjóðar og til Landsreglara, sem lagalega er óháður innlendum yfirvöldum, en lýtur þess í stað eftirliti og fyrirmælum Orkustofnunar ESB, ACER og framkvæmdastjórnar ESB. Þetta fyrirkomulag getur komið að gagni á meginlandi Evrópu, sem stríðir við staðbundinn orkuskort, en á augljóslega ekki við hér. Það, sem verra er, viðskiptalíkan ESB með raforku getur ekki þjónað hagsmunum almennings hérlendis.  Af þessum ástæðum verður að berjast með kjafti og klóm gegn innleiðingu hins hættulega Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi. 

Áður hafði víðast hvar á meginlandinu verið komið á frjálsri samkeppni um orku frá orkubirgjunum í orkukauphöllum.  Hugmyndafræðin er sú, að orkan sé vara og að sá skuli hreppa hana, sem borga vill og getur hæsta verðið.  Þetta stríðir algerlega gegn því gamla norræna viðhorfi, að orkan, hér raforkan, séu samfélagsgæði, sem nýta eigi til að treysta byggð um allt land og til að ljá framleiðsluatvinnuvegunum samkeppnisforskot við útlönd.  Þar með er ekki sagt, að reka eigi orkuvinnsluna með tapi, heldur skuli stilla ávöxtunarkröfu hennar í hóf, enda er notkunartími fjárfestingarinnar miklu lengri en bókhaldslegur afskriftartími, a.m.k. í tilviki vatnsaflsvirkjananna. Þetta endurspeglast í afkomu Landsvirkjunar.  Rekstarhagnaður hennar eykst með tvennum hætti: hækkun orkuverðs við endurnýjun langtímasamninga og lækkun skuldabyrðar.  

Í engu ríki Evrópu, og þótt víðar væri leitað, er raforkan þjóðhagslega mikilvægari en á Íslandi, enda er raforkuvinnslan hér mest að tiltölu á byggðu bóli, 52 MWh/íb á ári.  Hver íbúi notar þó aðeins 1-2 MWh/ár á heimilinu.  Hitt fer í atvinnustarfsemi, aðallega til að framleiða útflutningsvarning, eins og til var stofnað í upphafi. 

Það er af þessum orsökum Íslendingum þjóðhagslega mikilvægara en nokkurri annarri þjóð Evrópu að þurfa ekki að deila völdum og mikilvægum ákvarðanatökum um orkulindirnar, vinnslu raforkunnar, flutning hennar og dreifingu, og síðast en ekki sízt verðlagningunni, með öðrum þjóðum eða yfirþjóðlegri stofnun, þar sem við eigum ekki jafnréttháa aðild og aðrar þjóðir samstarfsins. Hagsmunir meginlands Evrópu fara alls ekki saman við hagsmuni Íslendinga í orkumálum. Við erum þar á allt öðru róli, og þessu verða ráðamenn þjóðarinnar að fara að gera sér grein fyrir.  Það er ekki seinna vænna.

Ef við höldum vel á spilunum, getum við orðið öðrum óháð með orku á 20 árum, en mikil eldsneytisnotkun og hætta á orkuskorti hrjáir og mun sennilega hrjá meginland Evrópu vestan Rússlands fram yfir miðja þessa öld. Að afhenda meginlandsöflum völd yfir íslenzkum orkumálum jafngildir afglöpum, sem fljótt geta breytzt í leik tröllskessa með fjöregg þjóðarinnar.  Þingmenn, sem að slíku standa, munu þurfa að standa kjósendum sínum reikningsskap gjörða sinna í þessu máli.  Hvernig sagan mun dæma þá hina sömu þingmenn, skal ekki fjölyrða um hér.

Um mikilvægi orkunnar fyrir Íslendinga skrifaði Tómas Ingi:

"Íslendingar eru tiltölulega vel settir, hvað orku varðar.  Meginorkulindir þjóðarinnar - vatnsorka og jarðhiti - eru taldar með þeim umhverfisvænstu, sem til eru.  Þessar orkulindir eru miklar m.v. mannfjölda á Íslandi, en ekki óþrjótandi. Orkan, sem fæst með nýtingu vatnsfalla og jarðhita, er tiltölulega ódýr og sem slík mikilvæg grundvallarforsenda velferðar Íslendinga, bæði fyrirtækja og einstaklinga.  Það, sem sólin er Ítölum og frjósemi jarðvegsins Frökkum, er orkan forgjöf Íslendinga. Það er enn í okkar höndum, hvernig við förum með þá forgjöf [undirstr. BJo]."

Það eru engin rök nógu sterk til að réttlæta það að láta af hendi þessa forgjöf til yfirþjóðlegrar stofnunar með vaxandi völd, ACER.  Að stinga hausnum í sandinn og segja, að innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálksins feli svo takmarkað valdframsal í sér, að ekki geti jafngilt afhendingu "forgjafarinnar", eru falsrök, reist á vanþekkingu, dómgreindarleysi eða vísvitandi blekkingarstarfsemi.

Síðan víkur Tómas Ingi að tengingu Íslands við orkumarkað ESB og skrifar: 

"Ísland er ekki tengt raforkukerfi ESB og getur ekki orðið hluti af orkumarkaði ESB án slíkrar tengingar."

Nú skulum við gera okkur grein fyrir því, að ætlun iðnaðarráðuneytisins er að setja Orkustofnun undir stjórn Landsreglara, fái ráðuneytið vilja sínum framgengt um innleiðingu Orkupakka #3.  Landsreglari, sem verður embættismaður ESB, verður Trójuhestur í íslenzkri stjórnsýslu í dulargervi Orkumálastjóra.  Þetta ráðslag iðnaðarráðherra er með ólíkindum, og t.d. Norðmenn, hverra núverandi stjórnvöld eru harla hrifin af flestu því, sem frá ESB kemur, ætla að takmarka völd Landsreglarans, eins og kostur er, með þvím.a. að halda þessum tveimur embættum aðskildum. Er íslenzki iðnaðarráðherrann kaþólskari en páfinn ? Að fela ACER stjórnun Orkustofnunar er of mikið af hinu góða, þ.e. af óverðskuldugu trausti iðnaðarráðherra Íslands á Framkvæmdastjórninni, sem stjórnar ACER.

Samkvæmt drögum norska orkuráðherrans að hlutverkum Landsreglara verður eitt hlutverka hans að rýna og að lokum samþykkja regluverk fyrir orkumarkaðinn.  Landsreglarinn á Íslandi mun þá sjá til þess, að hér  verði stofnsett orkukauphöll, sem starfi samkvæmt sams konar regluverki og í ESB-löndunum. Fyrsta skrefið verður sem sagt að stofnsetja hér ESB-raforkumarkað, sem snurðulaust getur tengzt öðrum ESB-markaði í fyllingu tímans. Þetta þýðir, að spákaupmennska með íslenzka raforku hefst, og auðlindastýring Landsvirkjunar afleggst, ef núverandi hlutdeild fyrirtækisins á markaði verður talin stangast á við samkeppnislöggjöf ESB. 

Allt mun þetta óhjákvæmilega leiða til hækkunar raforkuverðs til neytenda að jafnaði yfir árið og sérstaklega mikillar hækkunar í þurrkaárum og á árinu næst á undan gangsetningu nýrrar virkjunar.  Þetta brambolt verður allt á kostnað alþýðunnar í landinu, gjörsamlega að óþörfu. Ástand norska raforkumarkaðarins ætti að vera víti til varnaðar, en þar er verð raforkunnar tvöfalt hærra í síðari hluta janúar 2019 en ári áður.  Samt er verðteygni raforku til heimila lítil, þ.e.a.s. rafmagnsnotkun heimila og margra fyrirtækja breytist lítið með verðsveiflum.  Þetta er "kapítalismi andskotans".  Á Íslandi munu sveiflur markaðarins sízt verða minni en í Noregi, því að miðlunargeta lónanna er tiltölulega lítil og umframorkan er sáralítil.  Þessar verðsveiflur koma sér mjög illa fyrir raforkunotendur, verða heimatilbúið vandamál, og eru hér alger óþarfi og ekki til annars en að skemmta skrattanum. 

Eftirfarandi texti Tómasar þarfnast skoðunar:

"Með aðild að þriðja orkupakkanum geta Íslendingar haldið áfram að ákveða, með hvaða skilyrðum orkulindir þeirra eru nýttar (en þau skilyrði mega þá ekki mismuna kaupendum orkunnar), hvaða orkugjafa við veljum (t.d. getum við hafnað gastúrbínum og kjarnorku) og almenna tilhögun orkuafhendingar í samræmi við ákvæði TFEU 194 (2). En í þessum ákvæðum er Íslendingum alls ekki tryggður réttur til að ákveða einhliða, hvort aðrir aðilar, fyrirtæki eða ESB-ríki, fái aðgang að íslenzkri orku."

Ef með "skilyrðum" hér að ofan er átt við hönnunarskilyrði, þá er það rétt, eins og staðan er núna.  Ef hins vegar er átt við í hvaða augnamiði virkjað er, þá hafa stjórnvöld enga heimild til að mismuna aðilum á markaði, t.d. gagnaveri, álveri eða sæstreng samkvæmt EES-samninginum.  Að Evrópurétti verða umhverfisverndarsjónarmið ennfremur að víkja fyrir frelsinu til að flytja út verðmæti.  Með Orkubálki #3 verður Evrópuréttur lögleiddur hér á sviði millilandaflutninga á raforku.  Ef erlent virkjunarfélag kaupir virkjunarrétt einhvers staðar á Íslandi, verður erfitt að hindra það í að nýta virkjunaraðstöðuna til ýtrustu aflnýtingar, þ.e. hámarksstærð á virkjun, og það verður ekki hægt að stöðva línulögn frá virkjun að lendingarstað sæstrengs á grundvelli neikvæðra umhverfisáhrifa.  Það, sem meira er, íslenzkir raforkunotendur verða að standa undir kostnaði við þessar línulagnir með hækkun gjaldskrár Landsnets. Um þetta eru skýr ákvæði í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.

Það er þannig óttalega innihaldslítið að setja á langar ræður um, að Íslendingar muni áfram ráða "með hvaða skilyrðum orkulindir þeirra eru nýttar", eins og er nokkuð áberandi í umræðunni.  Það er, og verður í enn meiri mæli með Orkupakka #3, markaðurinn, sem ræður þessari nýtingu. Forræðið yfir orkulindunum verður í raun farið frá íslenzkum stjórnvöldum, þegar hver sem er innan EES getur virkjað og selt orkuna á markað þangað, sem honum sýnist.  Þessu gerir Tómas Ingi sér glögga grein fyrir, því að hann skrifar í lok meginmáls síns:

"Með öðrum orðum höfum við ekki lengur forræði yfir ráðstöfun orku úr orkulindum okkar, sem markaðir ESB kunna að að ágirnast, ef fjármagn finnst til að leggja streng til landsins.  Slíkur aðgangur að orkumarkaði er eitt af meginatriðum þriðja orkupakkans.  Ef við getum ekki ráðstafað orkunni, sem seld yrði hæstbjóðanda, er stutt í það, að við getum heldur ekki stýrt nýtingu orkulindanna, enda hafa orkuframleiðslufyrirtæki landsins mikinn áhuga - svo [að] ekki sé meira sagt - á að framleiða og selja sem mest. [Undirstr. BJo.]

Ég tel það vera rétt hjá fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni, að með þriðja orkupakkanum sé alls ekki gert skylt að leggja rafstreng til landsins.  En ef þeir aðilar finnast innan EES, sem hafa áhuga á að tengjast íslenzka orkumarkaðinum með sæstreng, þá getum við ekki hafnað því, að sá strengur verði lagður.  Það gengur gegn ákvæðum Evrópuréttar, að íslenzk stjórnvöld reyni að hindra það.  Komi upp deilur um slíka tengingu, fara sjálfstæðar eftirlitsstofnanir með það mál, sem Íslendingar hafa ekki aðild að [undirstr. BJo].

Það orkar tvímælis með skylduna, sem höfð er eftir Bjarna Benediktssyni hér að ofan.  Sú skylda er lögð á herðar Landsreglaranum að láta Landsnet aðlaga Kerfisáætlun sína að Kerfisþróunaráætlun ACER/ESB. Þar liggur sæstrengurinn "Icelink" á fleti fyrir.  Landsreglara ber þannig að róa að því öllum árum að tengja íslenzka raforkukerfið við raforkukerfi ESB. Sú skylda er jafnframt ótvírætt lögð á herðar Landsneti að fjármagna þær stórfelldu línulagnir, sem nauðsynlegar verða fyrir u.þ.b. 1200 MW flutning frá stofnkerfinu og niður að lendingarstað sæstrengs.

Það er mjög mikilvægt fyrir þá, sem haldið hafa uppi andófi gegn Orkupakka #3 hér á landi og varað Alþingismenn við afleiðingum innleiðingar hans, að Tómas Ingi Olrich skuli hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að mæli ACER með samþykkt á umsókn félags um að fá að leggja aflsæstreng hingað og tengja við rafkerfi Íslands, þá geta íslenzk stjórnvöld ekki stöðvað það mál, þótt þau geti tafið það með málaferlum, sem enda hjá EFTA-dómstólinum.  

Tómas Ingi hefur líka komizt að þeirri niðurstöðu, sem ýmsir hafa flaskað á, að Íslendingar munu missa forræði yfir ráðstöfun orkulinda sinna, "sem markaðir ESB kunna að ágirnast".  Vegna þjóðhagslegs mikilvægis orkulinda landsins fyrir rekstur heimila og fyrirtækja og framtíðarnýtingu fyrir orkuskipti, vetnisvinnslu og framleiðsluaukningu af ýmsu tagi, væru þingmenn að tefla hagsmunum þjóðarinnar, ekki sízt komandi kynslóða, í voða með því að samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn. 

Heimsósómi Skáld-Sveins 1614hvdc-kapall-thversnid-2

 

 

 

 


Evran tvítug

Þann 1. janúar 1999 kom sameiginleg mynt Evrópusambandsins, ESB, í heiminn.  Hún virtist eiga efnilega bernsku sinn fyrsta áratug og geta keppt við bandaríkjadal sem heimsviðskiptamynt, en þá urðu reyndar atburðir, sem áttu eftir að reynast henni fjötur um fót, og hún verður vart nokkru sinni jafnoki dalsins úr þessu. 

Þjóðum, sem ekki fullnægðu Maastricht-skilmálunum um inngöngu í myntbandalagið, var hleypt inn bakdyramegin af pólitískum ástæðum, og hafa þær veikt myntina mikið.  Þetta voru Miðjarðarhafsþjóðirnar, Grikkir, Ítalir, Spánverjar og Portúgalir. Talið er, að þýzka markið, DEM, væri a.m.k. 30 % sterkara en evran í bandaríkjadölum talið, ef markið væri enn á dögum. Þetta skýrir hinn gríðarlega kraft í þýzku útflutningsvélinni.

Aðstandendur evrunnar, Frakkar og Þjóðverjar, eru ekki búnir að bíta úr nálinni með hið hagfræðilega fúsk, sem átti sér stað á bernskuárum evrunnar.  Það er staðreynd, að hagkerfi, sem binda trúss sitt við fjarlæga seðlabanka, verða oftar fórnarlömb peningalegrar kreppu en hin.  Milton Friedman spáði endalokum evrunnar í fyrstu kreppunni, sem hún yrði fyrir.  Það gerðist þó ekki, en þá gerðu stjórnendur ESB og ECB (Seðlabanka ESB) mistök, sem evran líður enn fyrir og verður e.t.v. banabiti hennar.

  Í úrtakskönnunum segja tæplega 30 % íbúa evrusvæðisins, að evran hafi slæm áhrif á hagkerfi heimalands síns.  Hvað skyldi stórt hlutfall Íslendinga telja ISK hafa slæm áhrif á hagkerfi þeirra ?  Aftur á móti segja 75 % íbúa evrusvæðisins, að evran sé góð fyrir samheldnina í ESB.  Ekki varð sú reyndin með Breta, sem eru á útleið, enda komst ríkisstjórn Bretlands að þeirri niðurstöðu á fyrsta áratug aldarinnar, gegn skoðun Tonys Blair, að of áhættusamt yrði Bretum að fórna sterlingspundinu fyrir evru, því að of mikil misleitni væri í þróun brezka og evru-hagkerfisins.

Helmut Kohl, þáverandi kanzlari Vestur-Þýzkalands, fórnaði DEM fyrir samþykki Mitterands, þáverandi forseta Frakklands, á endursameiningu Þýzkalands.  "Die Bundesbank" var á móti, en "Bundestag", Sambandsþingið, samþykkti.  Frakkar eiga í mesta basli við að standast Maastricht-skilmálana, og halli ríkissjóðs miðstýrðasta ríkis Evrópu mun sennilega fara yfir mörkin, 3 % af VLF, á árinu 2019.  Frakkar eru nú sjálfir komnir í þá spennitreyju, sem þeir ætluðu að færa Þjóðverja í.

Það hefur verið lítill hagvöxtur í ESB eftir hrun peningamarkaðanna 2007-2008.  Sum ríki evrusvæðisins fóru hræðilega illa út úr þessu hruni vegna viðbragða framkvæmdastjórnar ESB o.fl., sem tóku meira mið af hagsmunum þeirra, sem hafa efni á að hanga í Berlaymont og reka þar áróður fyrir sínum hagsmunum, en almennings í evru-löndunum.  Þetta er skýringin á vaxandi lýðhylli þjóðræknistefnu í Evrópu og vantrú á bákninu, afætunum, sem unga út reglugerðum og tilskipunum, í Brüssel.

Hagur almennings á Ítalíu hefur ekkert skánað síðan árið 1999.  Þar hefur ríkt stöðnun, og opinberar skuldir aukizt eftir upptöku evrunnar. Núverandi ríkisstjórn Ítalíu ætlaði að örva hagkerfið með ríkisútgjöldum, sem hleypa myndi ríkissjóðshallanum yfir 3 % af VLF, en var gerð afturreka með fjárlagafrumvarpið af búrókrötunum í Brüssel.

Spánn og Írland njóta nú hagvaxtar eftir kerfisbreytingar hjá sér, en máttu þola langt stöðnunartímabil vegna gríðarlegrar skuldayfirtöku ríkisins frá bankakerfinu að kröfu Framkvæmdastjórnarinnar.  Atvinnuleysi ungs fólks á Spáni er nú 35 %, sem vitnar um skelfilegt þjóðfélagsástand. Launahækkanir hafa nánast engar verið á evrusvæðinu frá 2008.  Hvers vegna krefjast verkalýðsfélögin þar ekki launahækkana ?  Það ætti að verða íslenzkum verkalýðsleiðtogum verðugt umhugsunarefni.  

Írland nýtur sérstöðu, því að bandarísk fyrirtæki hafa fjárfest gríðarlega þar, enda njóta þau skattalegs hagræðis á Írlandi, þar sem er aðeins 12 % tekjuskattur á fyrirtæki.  Þessi fyrirtæki öðlast auðvitað tollfrjálst aðgengi að EES-markaðinum, hvað sem tollastríði Bandaríkjaforseta við ESB líður.

Verstu mistök ESB í peningamálum voru 2010, er Framkvæmdastjórnin neitaði að viðurkenna, að gríska ríkið gæti aldrei greitt allar skuldir sínar.  Þar opinberaðist hið vanheilaga samband búrókratanna í Brüssel og fjármálavafstrara Evrópu.  Í stað þess að afskrifa a.m.k. helming skulda gríska ríkisins, þá voru þær fluttar frá þýzkum og frönskum bönkum o.fl. og til opinberra sjóða.  Þar með voru skattborgarar lánveitendaríkjanna gerðir ábyrgir fyrir skuldum eins skuldararíkjanna.  Þetta er eitur í beinum sparnaðarsinnaðra skattborgara og mun óhjákvæmilega leiða til gliðnunar í evrusamstarfinu, hvað sem líður Aachen-samningi forseta Frakklands og kanzlara Þýzkalands.  Ríki Karlamagnúsar sundraðist fljótt, og aðeins kirkjan sameinaði Evrópu um tíma, en hún sundraðist líka.  Þjóðverjar þoldu ekki við undir oki Rómar.  

Þegar alvarleg fjármálakreppa ríður yfir næst, mun reyna mjög á greiðsluþol skuldugu ríkjanna vegna vaxtahækkana, sem alltaf verða gagnvart illa stæðum ríkjum við slíkar aðstæður.  Hvorki evrubankinn né lánadrottnarnir munu hafa bolmagn til að hindra skuldugu ríkin á evru-svæðinu í að fara á hliðina.  Evran verður auðvitað ekki söm eftir.  Myntsvæðum Evrópu gæti fjölgað.  Óvíst er, hvað um Evrópusambandið verður í kjölfarið. Munu Bretar enn einu sinni standa eftir með pálmann í höndunum ?

 

 

 

 

 


Verður Orkustofnun sjálfstæðari með Landsreglara innanborðs ?

Í Noregi er búið að stofna embætti Landsreglara (Reguleringsmyndighet for energi-RME), eins og þegar sé búið að lyfta hinum stjórnskipulega fyrirvara varðandi Orkupakka #3 í öllum þremur EFTA-löndum EES-samstarfsins.  Embættið er komið á norsku fjárlögin og er einhvers konar viðhengi við norsku orkustofnunina, NVE, en er ekki undir orkumálastjóranum, heldur undir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) og ACER (Orkustofnun ESB).

Ekki er búið að stofna embætti Landsreglara á Íslandi, þó það nú væri, en enn kyndugra fyrirkomulag er fyrirhugað hér en í Noregi, þar sem Landsreglarann á að fella inn í embætti Orkumálastjóra. Sú naumhyggja gengur varla upp fyrir valdamesta embætti landsins á sviði orkumála. Ef hvort tveggja (Landsreglari og önnur viðfangsefni Orkumálastjóra) verður á hendi sömu persónu, verður hún stundum undir lögsögu ráðherra og stundum undir lögsögu ESA/EFTA/ACER/ESB.  Þetta er líklega einsdæmi, þótt víðar væri leitað.  

Í grein Þrastar Ólafssonar, hagfræðings, í Fréttablaðinu 11. janúar 2019,

"Vera með eða ekki",

virtist hann telja, að Orkustofnun yrði sjálfstæðari fyrir vikið.  Hjá Orkumálastjóra hefur þó komið fram, að ekkert vanti upp á sjálfstæði stofnunarinnar gagnvart ráðuneytunum. Í huga ESB-sinna virðist Ísland fyrst hljóta sjálfstæði við inngöngu í ESB. Þetta er óbjörgulegur hugarheimur, fullur af vanmetakennd gagnvart risavöxnu stjórnkerfi og skilningsleysi á gildi lýðræðis og ákvörðunarréttar sem næst þeim, sem ákvörðunina varðar um.  Er líklegt, að frelsi landsmanna og hagur vænkist við slíkt ?  Nei, af öllum sólarmerkjum að dæma getur innlimun í ríkjasamband ekki orðið til þess.  Þröstur skrifaði þó: 

"Þá gæti þurft að gera Orkustofnun sjálfstæðari en hún er.  Hvað gerist með orkuverð hérlendis, ef svo ólíklega vill til, að íslenzkur orkumarkaður tengist innri orkumarkaði ESB, þá mun þurfa að semja um það, þegar þar að kemur.  Orkupakkinn breytir í engu fullum yfirráðum okkar yfir orkuauðlindinni, um leið og við einir ráðum því á hverjum tíma, hvort orkustrengur verður yfirleitt lagður.  Við höfum öll ráð í hendi okkar."

Þetta er allt tóm vitleysa, eins og nú skal rekja.  Stefnumiðið með Orkupakka #3 var að færa Framkvæmdastjórn ESB völd yfir orkumálum aðildarlandanna, sem dygðu til að koma á nægilega öflugu flutningskerfi raforku og jarðgass á milli landanna til að koma á sæmilegu jafnvægi framboðs og eftirspurnar hvarvetna innan sambandsins, og jafnframt að sjá til þess að setja á laggirnar samræmda orkumarkaði, sem hagnýttu frjálsa samkeppni, svo að orkunotendurnir fengju hagstæðasta mögulega verð á hverjum tíma. 

Þetta er allt saman gott og blessað, en hængurinn á þessu fyrir Ísland er sá, að Íslendingar nota almennt ekki jarðgas (nema í útilegum og í einstaka eldhúsi), og viðskiptakerfi ESB með raforku er m.v., að eldsneytismarkaðir, en ekki náttúran sjálf, eins og á Íslandi, sjái fyrir frumorkuþörfinni.  Þetta misræmi leiðir óhjákvæmilega til þess, að markaðskerfi ESB með raforku getur ekki orðið íslenzkum raforkunotendum til hagsbóta, heldur þvert á móti mundi það einvörðungu virka raforkubirgjunum, virkjanaeigendum og sölufyrirtækjum, til hagsbóta á þeim fákeppnismarkaði, sem verður hér alltaf á raforkumarkaði. Þessu skautar hagfræðingurinn léttilega framhjá, og almannahagur hérlendis liggur þannig óbættur hjá garði. 

Ekki tæki betra við, ef ESB tækist að gera "Icelink" að raunveruleika, því að þá lenda landsmenn í samkeppni við útlendinga um íslenzka raforku.  Það verður "seljendamarkaður", svo að raforkuverð innanlands mun óhjákvæmilega togast í átt að og fylgja sveiflum evrópsks orkuverðs, eins og skýr merki eru um í Noregi.  Þar með fyki einn helzti kostur þess að búa á Íslandi og að stunda þar atvinnurekstur út í veður og vind.

Landsreglarinn gegnir lykilhlutverki hjá ESB við að koma þessu öllu í kring.  Mikilvægir þættir í starfsemi Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytisins munu verða færðir til embættis Landsreglara. Stjórnsýsla þessara mikilvægu mála mun lúta erlendri yfirstjórn, þ.e.a.s. ESA/EFTA að forminu til, en ACER/ESB í raun.  Þetta heitir með ESB-tungutaki "að gera Orkustofnun sjálfstæðari en hún er". Þegar Þröstur skrifar, að "við" munum áfram ráða því, hvort sæstrengur verði hingað lagður, þá á hann í raun ekki við íslenzku ríkisstjórnina eða Alþingi, heldur verður úrslitavald þess máls í raun komið til Framkvæmdastjórnarinnar, sem kært getur allan þvergirðing í þessum efnum hérlendis til EFTA-dómstólsins, eftir að Alþingi hefur leitt Evrópurétt til öndvegis á þessu sviði þjóðmálanna með innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.

Elías B. Elíasson, verkfræðingur, varpaði skýru ljósi á þessa stöðu mála í Morgunblaðsgrein sinni, 13. desember 2018:

"Raforkumarkaður Landsvirkjunar":

"Nauðsynlegt er að koma á auðlindastýringu yfir allt landið með þeim hætti, sem Landsvirkjun hefur og taka jarðvarmann þar með.  Ef við síðan ætlum að koma hér á frjálsum markaði, er álitlegast að þróa áfram þann vísi, sem Landsvirkjun kynnti á morgunverðarfundi sínum [haustið 2018] og hafa náið samráð við fyrirtækin á markaðnum.  Samþykkt þriðja orkupakkans mun gera þetta ferli ómögulegt."

Þröstur, hagfræðingur, opinberar skilningsleysi sitt á þessi mál með eftirfarandi skrifum, eða er hann e.t.v. ófær um að gagnrýna nokkuð það, sem úr ranni búrókratanna í Brüssel kemur ?:

"Það er því óskiljanlegt, hvernig hægt er að gera þjóðarógn úr orkupakkanum.  Komið hefur fram sú fullyrðing, að allt sé í lagi að hafna honum.  Ekkert muni gerast.  Það er nú svo.  Þá myndu tveir fyrri orkupakkar að öllum líkindum falla úr gildi, því að þeir mynda eina heild.  Það myndi valda okkur miklu andstreymi innan ESB og EES, kannski endalokum þess samnings."

Hér eru hafðir uppi tilburðir ESB-sinna til hótana gagnvart sjálfstæðri og lýðræðislegri ákvarðanatöku á Íslandi.  Þótt annar orkupakkinn, sem í raun yfirtók þann fyrsta, falli úr gildi, getur Alþingi fest í lög hér, það sem því sýnist ávinningur af að hafa hér í gildi af téðum orkupakka.  Ef EES-samningurinn verður brotinn með einhverjum öðrum aðgerðum gegn Íslandi í kjölfar fyllilega leyfilegrar höfnunar Alþingis á Þriðja pakkanum, þá væri það merki um svo slæman félagsskap, að réttast yrði að binda enda á hann.  Þá tækju við til bráðabirgða viðskiptaákvæði gamla fríverzlunarsamningsins á milli EFTA og ESB og/eða ákvæði WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, á meðan leitað yrði hófanna um nýja, víðtæka fríverzlunarsamninga á milli Íslands og Bretlands og Íslands og ESB.  Áfram yrði Ísland auðvitað í EFTA.

Hugarheimur Þrastar kemur undarlega fyrir sjónir.  Hann spyrðir saman EES-samninginn og aðildina að NATO, sbr hér að neðan.  Honum er þó fullkunnugt um, að á vegum ESB er starfandi vísir að Evrópuher, Leiftursveitin, og uppi er ráðagerð um stofnun alvöru Evrópuhers, sem varizt geti Rússum, Kínverjum og Bandaríkjamönnum, eins og forseti Fimmta lýðveldisins orðaði það svo óhönduglega.  Gangi Íslendingar í ESB, munu íslenzk ungmenni hljóta herþjálfun hjá lautinöntum Bundeswehr, her Fimmta lýðveldisins og öðrum.  Tæpast verður Evrópuherinn til að styrkja samheldnina í NATO, og án Breta verður hann reyndar hvorki fugl né fiskur.

Aðild Íslands að NATO og EES-samninginum eiga ekkert sameiginlegt annað en það, að Ísland og Noregur eru aðilar að báðum samningunum.  NATO-samningurinn er þjóðréttarlegs eðlis til að styrkja öryggi og þar með fullveldi landsins, en EES-samningurinn felur í sér valdframsal til erlendra stofnana, sem hafa bein áhrif á daglegt líf landsmanna framhjá íslenzkum yfirvöldum og dómskerfi.

"Þrátt fyrir hugsanlegt valdaframsal þá styrkir samningurinn fullveldi þjóðarinnar, því [að] hann, ásamt aðildinni að NATO, neglir öryggi þjóðarinnar fast við nágranna okkar beggja vegna Atlantshafs."

Það er ekki heil brú í þessum texta.  Nú er Bretland, sennilega öflugasta herveldi Evrópu, að yfirgefa ESB, en öryggi Íslands haggast ekki hót við það, því að NATO stendur óhaggað.  

ESB-sinnar virðast vera ónæmir fyrir staðreyndum og faglegri röksemdafærslu um áhættuna, sem upptöku ýmissa lagabálka ESB hérlendis fylgir. Það er út af því, að þeir meta fullveldi landsins einskis. Það vanmat er reist á fullkomnu skilningsleysi á hagsmunabaráttu. Þetta á ekki sízt við um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn.  Fyrir aðra lesendur en ESB-sinna verður hér klykkt út með tilvitnun í málsvara heilbrigðrar skynsemi í þessum efnum, Elías B. Elíasson, í umræddri Morgunblaðsgrein hans:

"Þegar orkulögin voru sett 2003 og við samþykktum að vera í innri orkumarkaði ESB, grunaði engan, að ESB mundi taka þá stefnu að gera allt svæði innri raforkumarkaðarins að einu verðsvæði og breyta mörkuðunum, svo [að] þeir virki betur í þá átt.  Til að koma þeirri stefnu örugglega fram lætur ESB þjóðþing landanna setja sérstakan yfirmann, landsreglarann, yfir raforkugeirann, utan valdsviðs hverrar ríkisstjórnar, en í reynd með ráðherravald og náin tengsl við ACER.  ESB tryggir síðan með reglugerðum, að landsreglarinn sé fulltrúi þjóðar sinnar í viðræðum, sem jafnvel geta valdið henni verulegum fjárskuldbindingum."

Þetta sýnir, hversu óútreiknanlegt EES-samstarfið er.  EFTA-löndin vita ekkert að hverju þau ganga, þegar þau innleiða Evrópugerð, því að hún getur tekið nýja stefnu, eins og breytingin frá Orkupakka #2 til Orkupakka #3 sýnir.  ACER hefur nú þegar úrskurðað í ágreiningsmálum aðildarlandanna, sem nema tugum milljarða ISK. Í þessu sambandi verður að hafa í huga, að Ísland mun ekki öðlast atkvæðisrétt í ACER án inngöngu í ESB.

"Hráorkan hér, vatn og jarðgufa, getur ekki farið gegnum orkumarkað, eins og eldsneyti aflstöðva Evrópu gerir, og því nær vald landsreglarans einnig yfir vinnslu úr auðlindunum.  Þannig virkar þriðji orkupakkinn hér á landiÞetta fyrirkomulag vegur of mikið að fullveldi okkar, og það er Alþingis að kveða fyrst upp þann dóm.  Þingið á að hafna þriðja orkupakkanum."(Undirstr. BJo.)

Elías hefur lög að mæla hér að ofan.  Það er viðkvæðið hjá þeim, sem eru á bandi búrókratanna um innleiðingu Orkupakka #3, að hann snerti ekki nýtingu orkulinda landsmanna.  Þessu halda þeir fram að óathuguðu máli og hafa ekki áttað sig á, að orkupakkinn snýst líka um afhendingaröryggi, og aðföng virkjananna hafa mikil áhrif á afhendingaröryggi raforku.  Þá hefur verið bent á, að erlend orkufyrirtæki geta hæglega keypt sér aðgang að orkulindunum með því að stofna hér til virkjanafyrirtækja.  Ekki má mismuna eftir þjóðernum við úthlutun virkjanaleyfa.  Ef öll raforkuviðskipti hér utan gildandi langtímasamninga verða sett á frjálsan markað og á meðal kaupenda er öflugur aðili, sem yfirbýður aðra, þá er afleiðingin ekki einvörðungu sú, að hann ryður veikari kaupendum af markaðnum hérlendis, heldur stjórnar hann þá óbeint nýtingu orkulinda landsins.

Líklega hugnast fáum Íslendingum þessi skefjalausi kapítalismi á orkusviðinu, heldur vilja þeir líta á orkuna sem afurð sameiginlegra náttúruauðlinda, sem nýta eigi heimilum landsins og fyrirtækjum til hagsbóta.  Það þýðir, að gæta á mikils hófs í arðsemiskröfum til orkufyrirtækjanna, eins og gert hefur verið fram að þessu, og halda spákaupmennsku með orkuna fjarri.  

 

 

 

 

  


Að skilja ekki - kjarnann frá hisminu

Íslenzka verkalýðshreyfingin hefur að sönnu öðrum hnöppum að hneppa núna en að veita EES-samninginum athygli eða þeirri lagasmíð ESB, sem nú bíður staðfestingar Alþingis, svo að hún rati inn í viðauka samningsins nr IV, sem fjallar um orkumálin.  Íslenzka verkalýðshreyfingin mætti þó að skaðlausu taka sér þá norsku til fyrirmyndar að mörgu leyti, hvað vinnubrögð varðar, ekki sízt í kjarasamningum.  Að gaumgæfa fyrst, hvað er til skiptanna hjá útflutningsatvinnuvegunum, og að láta kröfugerð mótast af því, er ekkert annað en heilbrigð skynsemi.  Að koma með fótalausan óskalista í samningaviðræður hefur á sér yfirbragð fúsks og lýðskrums.  

Norska Alþýðusambandið, LO, og Verkamannaflokkurinn, sem er nátengdur LO (Landsorganisasjonen), hefur frá upphafi EES-samningsins (1993) stutt aðild Noregs að honum. 

Frá samþykkt Lissabonssáttmálans 2009, sem er stjórnarskrárígildi Evrópusambandsins, ESB, hefur virðingarleysi ESB-búrókrata og forkólfa í garð EFTA og tveggja stoða forsendu EES-samningsins orðið meira áberandi.  Þetta hefur leitt af sér kröfur ESB á hendur EFTA ríkjunum þremur í EES (Sviss er fyrir utan) um innleiðingu stórtækra gerða sambandsins í átt að samruna ríkjanna í sambandsríki og einsleita innleiðingu á öllu EES-svæðinu.  Það er að renna upp fyrir norsku verkalýðshreyfingunni, að þetta þýðir iðulega skert réttindi norsks verkafólks, verri lífsafkomu og minna atvinnuöryggi. 

Þetta kom berlega í ljós í vetur, þegar áköf barátta með blysförum í norsku vetrarríki fór fram á vegum almennings gegn samþykkt Stórþingsins á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Norska Alþýðusambandið tók þá  sögulega afstöðu gegn honum ásamt stærstu verkalýðsfélögunum.  Í kjölfarið lá við klofningi í Verkamannaflokkinum út af afstöðu þingflokksins, en landsstjórn flokksins samþykkti að lokum með naumum meirihluta fyrirmæli til þingflokksins um að greiða atkvæði með "pakkanum".  Sú afstaða réði úrslitum á þinginu, en nú er komið annað hljóð í strokkinn. Gerjunin hélt áfram á vinstri vængnum, og nú er talið, að á Alþýðusambandsþinginu næsta, 2022, muni verða samþykkt ályktun um að segja upp EES-samninginum. 

Ef þetta leiðir til stefnubreytingar Verkamannaflokksins í sömu átt, getur innan fáeinna ára myndast nýr meirihluti á Stórþinginu fyrir uppsögn EES-samningsins.  Það eru tíðindi til næsta bæjar, enda mun EES þar með lognast út af. Þá blasir við verkefni fyrir EFTA að fara í samningaviðræður um víðtækan fríverzlunarsamning við ESB.  Ágætis undanfari og æfing verður þá gerð fríverzlunarsamnings EFTA og Bretlands.

  

Engin teikn eru á lofti innan íslenzka Alþýðusambandsins um stöðutöku gegn Orkupakka #3 eða EES.  Samt berjast starfsmenn þess við ýmsa óáran, sem rekja má til fjórfrelsis EES-samningsins um frjálst flæði fólks á milli landa og Schengen samkomulagsins, sem leiddi til opinna landamæra innan EES, sem er veruleg öryggisógn, þegar vitað er, að ytri landamæri EES-eru víða illa vöktuð. Það er vitað og hefur verið sýnt fram á opinberlega, að á vinnumarkaðinum viðgengst svindl og svínarí í talsverðum mæli, sem væntanlega væri ASÍ, lögreglu og skattaeftirliti auðveldara viðfangs, ef Ísland stæði utan EES og Schengen.

Þröstur Ólafsson, hagfræðingur og fyrrverandi starfsmaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, er ósnortinn af göllum hins vanheilaga bandalags embættismanna og fjármálavafstrara, ESB, sem verkalýður Evrópu ber ekki lengur traust til. Hvað skyldi þurfa að ganga á, til að Þröstur Ólafsson missi trú sína á ESB ?   Hann reit lofrullu í Fréttablaðið 11. janúar 2019:  

"Vera með eða ekki".

Skrif þessi vitna ekki um sjálfstæðar rannsóknir höfundarins á efniviðnum og eru líklega óttalegt þunnildi fyrir flesta lesendur, eins og nú skal greina:

"Orkupakkinn er afleiðing EES-samningsins og orðinn hluti hans samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar; sem sagt með okkar samþykki.  Í EES-samningnum er enga undanþágu að finna við því, að orka sé markaðsvara, sem fella má undir regluverk innri markaðsins, hvort heldur hún sé hrein (vatn, vindur, sól) eða unnin úr jarðefnum (kol, olía, gas).

Þröstur gerir enga tilraun til að lýsa því, hvernig á að gera raforku að markaðsvöru í anda ESB á Íslandi, og kannski hefur hann ekki hugmynd um, að þar eru mörg ljón í veginum, sem orðið geta raforkukaupendum á Íslandi dýrkeypt vegna þess, hversu ólíkt íslenzka raforkukerfið er raforkukerfinu, sem markaðskerfi ESB er hannað fyrir.  Bæði lögfræðingar og hagfræðingar úr röðum þeirra, sem tjáð sig hafa um málið og gína við orkupakkanum, virðast skella skollaeyrum við þessu vandamáli. Það má vera almenningi hérlendis áhyggjuefni, því að þetta vandamál mun ekki leysast af sjálfu sér.  Íslendingar þurfa frið fyrir ESB og tíma til að þróa markaðskerfi fyrir raforku, sem viðurkennir nauðsyn auðlindastýringar. Við þurfum svigrúm til að hanna markaðskerfi, sem tryggir hagsmuni orkunotenda, eins og framast er kostur.  Andstæðan við slíka ábyrga nálgun viðfangsefnisins er að demba ónothæfu markaðskerfi ESB yfir landsmenn í algeru hugsunarleysi.  Afleiðingin verður skelfileg fyrir kaupmátt landsmanna og samkeppnishæfni fyrirtækjanna.

Um þetta mál fjallaði Elías Elíasson, verkfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, í Morgunblaðsgrein sinni, 13. desember 2018:

"Raforkumarkaður Landsvirkjunar":

"Form þess markaðar, sem Landsvirkjun er þarna að lýsa [LV undirbýr nýtt markaðskerfi fyrir Ísland-innsk. BJo], er byggt upp á grundvelli þeirrar auðlindastýringar, sem fyrirtækið ástundar í orkukerfi sínu og getur því hentað betur hér en form orkumarkaða í ESB. Það verður hins vegar að segja þá sögu, eins og [hún] er, að þessi markaður [Landsvirkjunar] er hvorki vel virkur í skilningi tilskipunar ESB nr 72/2009 né þjónar hann langtímamarkmiðum ESB, svo [að] Landsreglarinn, sem fylgir með í Þriðja orkupakkanum, getur illa samþykkt þetta markaðsform.  Því svipar meira til markaða Evrópu, eins og þeir voru 2003, þegar Fyrsti orkupakkinn var samþykktur [á Íslandi]."  

Af þessu sést, að það er raunverulegt viðfangsefni að þróa markaðskerfi raforku fyrir Ísland, og slík þróun er í gangi.  Það er nauðsynlegt að gefa henni tíma, og það yrði afdrifaríkt slys, ef Alþingi í flumbruhætti myndi klippa á þessa þróun og setja raforkumarkaðinn hér undir erlenda stjórn, þar sem aðeins ein hugsun kemst að: einsleitni.  Slík einsleitni verður á kostnað skynsamlegrar nýtingar íslenzkra orkulinda og mun koma illa við buddu raforkukaupenda hérlendis.

Rödd skynseminnar í þessum efnum kemur fram í skrifum Elíasar Elíassonar, og hann heldur áfram:

"Það hefur ætíð verið og verður að vera áfram hlutverk raforkufyrirtækjanna hér að tryggja orkuna [til notenda], og það gerir Landsvirkjun fyrir sitt leyti með auðlindastýringu.  Hlutverk Landsreglara er skilgreint af hálfu ESB þannig, að hann getur lítið annað en þvælzt fyrir eða skaðað, þegar reynt er að feta sig áfram að nothæfu markaðsformi, sem tekur mið af auðlindastýringu, eins og Landsvirkjun er að gera.  Landsreglarinn er því óþarfur til allra annarra verka en þeirra, sem kerfisstjórinn Landsnet getur ágætlega unnið án hans."

Þetta er tæknilega grundvallarástæðan fyrir því, að hérlendis ber mönnum að berjast með oddi og egg gegn þessu aðskotadýri, sem ESB reynir að troða upp á okkur gegnum EES-samstarfið.  Þetta er stórmál, því að það varðar nýtingu himnasendingarinnar, endurnýjanlegra orkulinda, og þar með varðar þetta mál grundvallarhagsmuni okkar.  Þeir, sem ekki átta sig á því, hlaupa illilega á sig með skrifum á borð við skrif Þrastar Ólafssonar:

"Tilgangurinn með þriðja orkupakkanum er að styrkja samkeppni með raforku og gas innan EES og gera markaðinn gagnsærri.  Eitt ákvæði lýtur að því að stofna orkustofnun Evrópu.  Í tilskipuninni er ekki að finna neina vísbendingu þess efnis, að ACER hafi nokkurt boðvald yfir íslenzkum íslenzkum orkumarkaði."

Hér er helbert froðusnakk höfundar á ferðinni, sem ekki hefur neina haldbæra þekkingu á þeim efniviði, sem hann hefur glapizt til að fjalla um.  

Nú vill svo til, að Norðmenn hafa þegar sett á laggirnar embætti Landsreglara.  Embættið er  botnlangi á Orkustofnun Noregs, sem ekki heyrir undir Orkumálastjórann, heldur undir ESA, sem fær fyrirmæli frá ACER til Landsreglarans.  Landsreglarinn fær fyrirmæli ACER á bréfsefni ESA, til að svo líti út sem forsenda EES-samningsins, tveggja stoða kerfið, sé haldin í heiðri.

Nú hefur orkuráðuneyti Noregs kynnt drög að reglugerð um Landsreglarann.  Þótt Stórþingið hafi sett það skilyrði fyrir samþykki Þriðja orkupakkans, að völd Landsreglarans skyldu verða eins takmörkuð og EES-samningurinn framast leyfir, er ljóst af drögunum, að norski Landsreglarinn mun fá völd yfir kjarnasviðum norska orkumarkaðarins, og skrif Þrastar um þetta eru þannig túður eitt.  Landsreglarinn verður nýtt stjórnvald, í raun með eins konar ráðherravald, sem framkvæma á tilmæli og kvaðir orkustofnunarinnar ACER.  

Samkvæmt reglugerðardrögunum skal norski Landsreglarinn:

  • samþykkja nýjar orkukauphallir
  • meta fjárfestingaráætlanir Statnetts og veita umsögn í ljósi kerfisþróunaráætlunar ESB
  • gefa skýrslu til ESB, ef Noregur ekki samsamar sig kerfisþróunaráætlun ESB
  • ákvarða gjaldskrár eða aðferðina við að ákvarða þær, ákvarða starfsemi jöfnunarorkumarkaðarins og aðgang að orkuinnviðum á milli landa, og ákvarða aðferðir við að útdeila flutningsgetu þessara mannvirkja til orkuseljenda ásamt því að fastsetja ráðstöfun hagnaðar af þessum mannvirkjum. ESB vill t.d. ekki, að Statnett ráðstafi hagnaði af sæstrengjum til lækkunar flutningsgjalds í stofnkerfi Noregs. Hagnaðinn á að nota til að auka flutningsgetuna enn meir samkvæmt forskrift ESB.
Það má ganga út frá því sem vísu, að fari Statnett og Landsnet ekki að vilja Landsreglarans, t.d. um að reisa flutningsmannvirki frá stofnkerfinu og að endabúnaði sæstrengs, þá muni Framkvæmdastjórnin/ACER kæra þann þvergirðing fyrir ESA.  Hafni sá ágreiningur hjá EFTA-dómstólinum, verður ekki að sökum að spyrja.  Hann mun dæma eftir Evrópuréttinum, sem Alþingi hefur þá innleitt hérlendis á raforkusviðinu.  Samkvæmt sömu reglum er kvöð á Landsnet að fjármagna sjálft nauðsynlega styrkingu flutningskerfisins vegna millilandatenginga.  Það þýðir, að kostnaðurinn, yfir mrðISK 100, mun lenda á raforkunotendum innanlands.
 
Þetta er algerlega ólýðræðislegt ferli, sem leiðir til íþyngjandi kvaða á landsmenn.  Að ræna landsmenn þannig stjórn á eigin orkumálum nær ekki nokkurri átt, er gjörsamlega óviðunandi og er bullandi Stjórnarskrárbrot.  

 

 

 

 

 

 

 


Villuljós Þriðja orkupakkans

Guðjón Sigurbjartsson, fyrrverandi fjármálastjóri Rafmagnsveitu Reykjavíkur, skrifaði grein í Morgunblaðið 1. desember 2018 undir fyrirsögninni:

"Orkupakkinn í stóra samhenginu".

Hann gerir þar að umfjöllunarefni, hverju þarf að breyta á Íslandi til að frjáls samkeppni um rafmagnsviðskipti virki vel.  Hann vitnar í danska hagfræðinginn Lars Christensen, en skilyrðin, sem hann telur upp, eru allsendis ófullnægjandi til að hindra, að viðskiptavinir orkubirgjanna beri skarðan hlut frá borði. 

Skilyrðin, sem þarf að uppfylla til að markaðskerfi með raforku í anda ESB virki notendum til hagsbóta, eru vel þekkt, en þau munu einfaldlega aldrei verða uppfyllt á Íslandi vegna eðlis orkulindanna, því að ESB bannar miðlæga orkulindastýringu, sem er nauðsynleg við íslenzkar aðstæður, ef hlutur notenda á ekki að verða algerlega fyrir borð borinn.  Þessu verða stjórnmálamenn og yfirvöld orkumála í landinu að fara að gera sér grein fyrir.  Rafmagn er ekki eins og hver önnur vara á Íslandi, heldur afurð dyntóttra náttúruauðlinda, sem þarf að stjórna nýtingunni á, ef ekki á illa að fara. Að láta frjálsan markað um stýringu auðlindanna krefst aðhalds. Eldsneytiskerfi ESB-landanna er allt öðru vísi farið en orkulindum náttúru Íslands. 

Guðjón hefur téða grein sína þannig:

"Danski hagfræðingurinn, Lars Christensen, skoðaði ásamt teymi sérfræðinga skilvirkni orkumarkaðarins á Íslandi og gaf út skýrsluna, "Our Energy 2030" í maí 2016 fyrir Samtök iðnaðarins.  Samkvæmt henni þarf þrjár breytingar á okkar raforkumarkaði til að frjáls samkeppni virki vel:

1. Skipta þarf Landsvirkjun upp.  Hún framleiðir um 70 % raforkunnar og er því of markaðsráðandi til að markaðurinn virki fullkomlega.  

Almenningur þarf ekki að eiga orkukerfið til að fá arð af auðlindinni og njóta lágs orkuverðs.  Þjóðin getur fengið sínar tekjur af orkuauðlindunum í formi auðlindarentu og skatta sbr sjávarútveginn."

Við þetta er margt að athuga.  Það er þó engum blöðum um það að fletta, að Landsreglarinn á Íslandi, sem verður eftirlitsaðili með því, að frjáls samkeppni ríki á íslenzka raforkumarkaðinum í skilningi samkeppnislaga Evrópuréttarins, eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, mun ekki linna látunum fyrr en ESA gerir athugasemd við ríkisstjórnina um markaðshlutdeild Landsvirkjunar.  Ríkisstjórn og Alþingi munu standa vanmáttug gagnvart kröfu ESA og að lokum EFTA-dómstólsins um að jafna samkeppnisstöðuna á raforkumarkaðinum; ekkert síður en lög Alþingis frá 2009 um varnir gegn innflutningi skaðræðissýkla í matvælum frá hinum EES-löndunum voru dæmd brot á EES-samninginum af EFTA-dómstólinum 2017.  Þannig verður unnið óhæfuverk á öflugasta orkufyrirtæki landsins, sem stundað hefur hér nauðsynlega auðlindastjórnun til að gæta hagsmuna almennings og verið í stakk búið að byggja upp raforkukerfi landsins í krafti langtímasamninga við erlend framleiðslufyrirtæki.  Með því að höggva Landsvirkjun í spað fer orkulindastjórnun landsins í vaskinn, því að undir ACER er hún óleyfileg, nema innan hvers fyrirtækis. Þetta stóreykur hættu á tæmingu lóna og ofnýtingu virkjaðs jarðgufuforða, enda er markaðskerfi ESB alls ekki sniðið fyrir lokað raforkukerfi með þessum náttúruauðlindum sem ríkjandi orkulindum.  Allar munu þessar hagfræðilegu æfingar auðvitað valda stórhækkun raforkuverðs í landinu, enda eru refirnir til þess skornir að auka arðsemi raforkugeirans, sem sumir hagfræðingar telja of lága.

Það er röng ályktun hjá Guðjóni Sigurbjartssyni, að sala á hluta eða hlutum úr Landsvirkjun til fjárfesta hérlendis eða erlendis og markaðsvæðing raforkuviðskipta með orkukauphöll að forskrift ESB muni leiða til auðlindarentu og lágs orkuverðs til almennings ásamt skatttekjum til hins opinbera.  Þetta þrennt fer ekki saman.  Einkafjármagnið kallar á hærri arðsemi fjárfestinganna en opinber fyrirtæki hafa sætt sig við, eins og hagfræðingar, t.d. á Hagfræðistofnun HÍ hafa bent á.  Þar að auki mun frjáls samkeppni án miðlægrar auðlindastýringar hæglega leiða til tæmingar lóna að vetri og ofnýtingar virkjaðs jarðgufuforða og þar með rýrnunar hans.  Auðlindarenta af nýjum virkjunum fæst auðvitað ekki, nema orkuverðið frá þeim verði hækkað upp fyrir það, sem nægir til að standa undir kostnaði virkjunarinnar.  Að afskriftum loknum fæst auðvitað bullandi auðlindarenta, og það er féð, sem ætlunin er að ráðstafa í varasjóð, Þjóðarsjóðinn.

"2. Fjölga þarf hluthöfum að Landsneti, sem flytur orkuna til kaupenda, til að jafna aðgang orkuframleiðenda að markaðinum.  

Landsvirkjun, sem á núna langstærsta hlutann, getur ráðið mestu um, hvað er framkvæmt við flutningsnetið.  Mikilvægt er, að slíkar ákvarðanir séu teknar út frá heildarhagkvæmni."

Eignaraðilar Landsnets eru 4 orkuvinnslufyrirtæki, og 3 þeirra hafa einnig sérleyfi til raforkudreifingar á sínum athafnasvæðum.  Þau eignuðust Landsnet með því að leggja því til eignir við stofnun fyrirtækisins, Landsvirkjun 65 %, RARIK 22 %, OR 7 % og OV 6 %, en Landsnet fjármagnar sig þó sjálft, m.a. á erlendum mörkuðum.  Landsnet má ekki draga taum neins, heldur eiga allir viðskiptavinir hennar að njóta jafnstöðu á markaði og lúta sama regluverki.  Af sjálfu leiðir, að fulltrúar viðskiptavina mega ekki vera í stjórn kerfisstjórans, og þar sem Landsnet nýtur lögbundinnar einokunaraðstöðu, væri glapræði að hleypa fleiri einkaaðilum í eigendahópinn. 

Af þessu leiðir, að eðlilegast er, að ríkissjóður leysi fyrirtækið strax til sín með útgáfu skuldabréfa.  Ríkisendurskoðun hefur fundið að núverandi fyrirkomulagi, og það er óskiljanlegt, að ríkisstjórn Íslands skuli hafa leitað eftir og fengið undanþágu frá ESB til að varðveita óeðlilegt fyrirkomulag, sem var hugsað til bráðabirgða og er örverpi. Í nágrannalöndunum er reglan sú, að systurfyrirtæki Landsnets eru í ríkiseigu.  

"3. Koma þarf upp spottmarkaði (svo ?) fyrir raforku til þess að laða fram sveigjanlega verðmyndun og nýtingu afgangsorku.  

Þetta varðar t.d. hleðslu á rafmagnsbílum í framtíðinni.  Hleðsla rafbíls getur t.d. verið stillt þannig, að hún fer í gang, þegar verð lækkar í tiltekið verð eða undir morgun, ef það næst ekki."

Það er ekki nauðsynlegt að koma upp uppboðsmarkaði eða orkukauphöll til að nýta afgangsorku í landinu.  Þar nægir, að hver orkubirgir bjóði skilmála sína, t.d. á vefsetri sínu.  Orkubirgjarnir hljóta að sjá sér hag í að selja sem mest af orku og verðleggja hana í samræmi við það, breytilega eftir árstíma, til að auka við notkunina að sumarlagi. 

Ef hins vegar á að beina notendum á mismunandi tíma sólarhringsins, t.d. rafbílaeigendum á tímabil eftir kvöldtoppinn og fram að venjulegum vinnutíma, þá þarf snjallmæli hjá notandanum. Í þeim og uppsetningu þeirra felst mikil fjárfesting, ef skipta á um mæla alls staðar, en í nýjum töflum, og þar sem notkun er mikil (rafhitun, sum fyrirtæki), eru þeir eðlilegir.  Þá er ekki endilega um að ræða að nýta afgangsorku, heldur að bezta nýtingu á innviðum raforkukerfisins, virkjunum, flutningskerfi og dreifikerfi, til að fresta fjárfestingum vegna viðbótar notkunar.  Þá getur verið ódýrara að tengja hleðslutækið við rjúfanlega og fjarstýranlega grein í rafmagnstöflu gegn lækkun taxta í gjaldskrá.  Þá er um samið, að dreififyrirtækið megi hindra eða stöðva notkun á viðkomandi grein, ef hætta verður á yfirálagi einhvers staðar uppstreymis í kerfinu.  

"Styrkja þarf orkuflutningskerfið víða um land með tilkomu sæstrengs.  Fá mætti þann kostnað greiddan hjá sæstrengsfyrirtækinu með eins konar aðgöngugjaldi að flutningskerfinu, ef af yrði."

Það er brýnt verkefni að styrkja flutningskerfi raforku innanlands, hvort sem sæstrengur kemur eður ei.  Brýnast er að tengja Eyjafjörð við Kröflu og Fljótsdal með 220 kV línu og að útrýma flöskuhálsum, sem valda aflskorti hjá fiskvinnslum (mjölverksmiðjum) Norð-Austurlands.  Öllum flöskuhálsum, sem hamla orkuskiptum, þarf að útrýma fyrir 2025, ef markmið  ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum eiga að verða meira en orðin tóm.

Fyrir tengingu um 1200 MW sæstrengs til útlanda við stofnkerfi landsins þarf miklu meiri framkvæmdir. Slík tenging útheimtir tvær 400 kV línur, aðra frá Austurlandi (Fljótsdal) og hina frá Suðurlandi (Sigöldu) og að landtökustað sæstrengsins á Suð-Austurlandi, og gera þarf margháttaðar styrktar- og stöðugleikaráðstafanir með dýrum búnaði.  Sterk tenging á milli Norður- og Suðurlands, t.d. jafnstraumsjarðstrengur yfir Sprengisand, um 500 MW, verður þá óhjákvæmileg fyrir stöðugleika kerfisins.

  Ef Alþingi innleiðir Orkupakka #3 í EES-samninginn og íslenzka löggjöf, þá verður óheimilt að nota tekjur af sæstrengnum til að fjármagna flutningskerfið innanlands, heldur verður að fjármagna þessar miklu framkvæmdir, sem munu nema mrðISK 100-200, með hækkun gjaldskrár Landsnets á notendum innanlands. Þetta gæti þýtt 35 % hækkun gjaldskrár Landsnets umfram það, sem ella væri nauðsynlegt.

 

"Sæstrengur verður ekki lagður, nema í einkaframkvæmd á ábyrgð fjárfesta.  Fjárfestar munu ekki leggja í framkvæmdina, nema stjórnvöld styðji framkvæmdina, því að verkefnið kallar á framkvæmdir við raforkuflutningskerfið og útvegun raforku til að nýta strenginn."

Þetta sjónarmið á aðeins við, á meðan Ísland er utan við Orkusamband ESB (ACER).  Eftir samþykkt Orkupakka #3, sem vonandi aldrei verður, stendur lán frá ESB fjárfestum, íslenzkum eða erlendum, til boða, þar sem sæstrengurinn er nú þegar á forgangsverkefnalista ACER.  Skilyrðið er þó, að Landsreglarinn á Íslandi og í hinu hýsingarlandi strengsins verði sammála um alla tæknilega og viðskiptalega skilmála strengsins.

Er hér verður komið sögu, verður komin orkukauphöll hérlendis, sem verður tengd við orkukauphöll í móttökulandi strengsins, þannig að íslenzkir raforkunotendur lenda í beinni samkeppni við raforkunotendur erlendis við tengingu sæstrengsins.  Versnar þá samkeppnisstaða íslenzkra fyrirtækja og kaupmáttur heimila að sama skapi sem orkuverðið hækkar.  Þetta fyrirkomulag gengur þvert á hagsmuni íslenzks almennings, enda er kerfið hannað fyrir aðra en hann. Hljóta atvinnurekendur og verkalýðshreyfing að geta sameinazt í andstöðu við slíkan óþurftargerning.

  "Þó að verðmæti raforkunnar aukist umtalsvert við opnun nýrra markaða um sæstreng, hækkar verð til 90 % heimila ekki.  Fáir hér munu finna fyrir hækkun raforku aðrir en stórnotendur.  Almenningur mun hins vegar hagnast af auðlindagjöldum og fleiru, ef strengur verður að veruleika."

 Það er undir hælinn lagt, hversu mikið verðmæti íslenzkrar raforku hækkar við þetta.  Verðið fyrir raforkuna inn á endabúnað sæstrengsins ræðst af raforkuverðinu, sem kaupandinn erlendis er fús til að greiða, og frá því verði til kaupanda dregst flutningskostnaður um sæstrenginn og endabúnað hans, sem rennur til sæstrengseigendanna.  Þegar sæstrengurinn hefur verið bókhaldslega afskrifaður, getur raforkuverðið til birgja hér aftur á móti hækkað stórlega. 

Það er alveg út í hött að fullyrða, að raforkuverð til 90 % heimila hækki ekki.  Verðið til allra heimila mun hækka, þótt ekki væri nema bara til að fjármagna nýjar framkvæmdir í virkjunum og stofnlínum og aðveitustöðvum.  Stórnotendur með langtímasamninga munu hins vegar ekki finna fyrir þessu fyrst um sinn, nema þeir þurfi að kaupa viðbótar orku á markaði.  Auðlindagjöldin til ríkisins (Þjóðarsjóðs) munu auðvitað koma úr vösum almennings hérlendis, eins og annarra raforkukaupenda, er fram líða stundir, svo að það er hæpið að færa þau á tekjuhlið almennings. Guðjón Sigurbjartsson bregður þannig upp einskærum villuljósum í sambandi við Orkupakka #3.

"Það fylgja sæstreng ýmsir fleiri kostir. Hann eykur afhendingaröryggi, þannig að ef hér verða náttúruhamfarir, sem gera virkjanir óstarfhæfar, mætti e.t.v. flytja inn orku, þar til úr rætist. Þá bætir strengurinn nýtingu vatnsaflsvirkjana, því að hægt er að flytja inn ódýra næturorku, sem stundum stendur til boða."

Líklega er afhendingaröryggi raforku um sæstreng, eins og "Icelink", minna en nú gerist almennt á Íslandi.  Þess vegna er ólíklegt, að slíkt áhættumannvirki auki almennt afhendingaröryggi raforku á Íslandi.  Þá eru meiri líkur á afhendingartruflun raforku í náttúruhamförum vegna línu- og aðveitustöðvarbilana en virkjanabilana.  Boðaður lendingarstaður aflsæstrengs er á Suð-Austurlandi á áhrifasvæði Vatnajökuls, þar sem a.m.k. er að finna 3 eldstöðvar, sem hafa látið á sér kræla. Katla gæti líka slegið út flutningslínum á Suð-Austurlandi. Þetta gerir að verkum, að það er vart hægt að reikna með nokkurri orkuafhendingu að gagni til Íslands í slíkum náttúruhamförum. Sæstrengur getur jafnvel gert illt verra í þessum efnum, ef menn hafa af óforsjálni lækkað mjög í miðlunarlónum og sett traust sitt á strenginn, en hann eða línurnar að honum bila svo, þegar hæst á að hóa. Slíkt mannvirki veitir falskt öryggi.

Það er slæm viðskiptahugmynd út frá hagsmunum íslenzks almennings að flytja inn rafmagn um sæstreng til Íslands að næturþeli til að selja að deginum hér innanlands.  Sjaldan er nokkurt næturrafmagn fáanlegt í Evrópu á lægra verði en hér ríkir nú allan sólarhringinn, og þegar búið verður að bæta flutningskostnaðinum við um strenginn og hér innanlands, verður það margfalt dýrara en núverandi rafmagnsverð á Íslandi.  Allar hugmyndir í þessa veru eru reistar á stórhækkun raforkuverðs á Íslandi.  Sú hækkun hækkar rekstrarkostnað heimila og fyrirtækja, grefur undan samkeppnisstöðu fyrirtækjanna og getur jafnvel tekið lifibrauðið frá fjölda manns.

"Til að nýta sæstreng þarf að auka orkuframleiðslu um sem nemur tveimur virkjunum á borð við Búrfellsvirkjun eða rúmlega það.  Tilkoma strengsins bætir reyndar nýtingu kerfisins um sem nemur einni slíkri virkjun vegna ódýru næturorkunnar.  Umhverfisvæn orka héðan getur dregið úr notkun meira mengandi orku í Bretlandi"

Búrfellsvirkjun er 270 MW að uppsettu afli og 2300 GWh/ár að vinnslugetu.  Guðjón virðist þannig gera ráð fyrir orkuútflutningi um 5 TWh/ár.  Það er bara helmingsnýting á flutningsgetu 1200 MW sæstrengs.  Ekki er ljóst, hvernig kaup á næturorku frá útlöndum um strenginn geta bætt nýtingu íslenzkra virkjana. Sú nýting getur aðeins aukizt með því að selja meira afl, þegar miðlunarlón fyllast, en til þess þarf að auka aflgetu virkjana, líklega aðallega Fljótsdalsvirkjunar.  Að sæstrengur geti aukið nýtingu núverandi virkjana um 2300 GWh/ár umfram það, sem innlendi markaðurinn getur, að teknu tilliti til orkuskipta og jafnvel vetnisframleiðslu, er útilokað.

Guðjón Sigurbjartsson klykkir út með eftirfarandi, þar sem boðskapurinn er ófélegur:

"Þriðji orkupakkinn varðar reglur um sameiginlegan orkumarkað Evrópu með hagsmuni neytenda í forgrunni. Við höfum tekið skref í átt að markaðsvæðingu orkugeirans og þurfum að ljúka því verki fyrir neytendur í landinu. 

Evrópski orkumarkaðurinn er mikilvægur fyrir frændur okkar Norðmenn og vont að bregða fæti fyrir þá. 

Ef reglur markaðarins liggja fyrir, eru meiri líkur á, að einkaaðilar sýni sæstreng áhuga.  Ef af sæstreng verður, verður það mjög hagfellt fyrir almenning í þessu landi.

Það er því ekkert að óttast við að staðfesta þriðja orkupakkann, heldur mögulegt, að það verði okkur mjög hagfellt."

Þótt Þriðji orkupakkinn kunni að henta íbúum meginlands Evrópu, er ekki hægt að hrapa að þeirri ályktun, að hann henti Íslendingum.  Hér eru aðstæður raforkuvinnslunnar og raforkumarkaðarins svo gjörólíkar, að þvert á móti má fullyrða, að almenningur á Íslandi myndi stórtapa á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.

Almenningur í Noregi hefur miklar áhyggjur af því, að Orkupakki #3 muni leiða til enn frekari hækkana raforkuverðs í Noregi og þar af leiðandi verri samkeppnisstöðu norskra fyrirtækja, einkum orkukræfra framleiðslufyrirtækja, sem að nokkru eru á frjálsum raforkumarkaði, þótt megnið af raforkukaupum þeirra sé samkvæmt langtímasamningum.  Margir óttast, að Landsreglari Noregs, sem er aðeins háður ESA/ACER, muni fetta fingur út í endurnýjun langtímasamninga, af því að meginregla ACER er sú, að öll raforkuviðskipti fari fram í Orkukauphöll.  Þar keppa norsk fyrirtæki um norska orku við fyrirtæki innan ESB vegna millilandatenginganna, sem eru margar og fer fjölgandi. Þessi evrópsku fyrirtæki eru mörg hver betur í sveit sett en norsk fyrirtæki m.t.t. aðdrátta, markaða, launakostnaðar og opinberra gjalda.    

Það er rétt hjá Guðjóni, að innleiðing Orkupakka #3 eykur líkur á, að hingað verði lagður sæstrengur.  ESB/ACER virðist hafa á því áhuga til að krækja í raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, sem mikill hörgull er á um þessar mundir í ESB, svo að nálgast örvæntingu þar á bæ vegna óraunhæfrar markmiðssetningar.  Það er hins vegar algerlega úr lausu lofti gripið hjá Guðjóni, að sala rafmagns úr landi verði "mjög hagfellt fyrir almenning í þessu landi".  Það jafngildir því að flytja vinnu og verðmætasköpun úr landi, og ímyndaður arður af þessum viðskiptum til baka til almennings verður aldrei annað en dropi í hafið hjá þeim gríðarlegu verðhækkunum rafmagns, sem sá sami almenningur mun þurfa að bera.

Trúarjátningunum í garð EES og Orkupakka #3 linnir ekki, en þær eru, eins og önnur trúarbrögð, hvorki reistar á tiltækum staðreyndum annars staðar frá né á rökhyggju.  Þær eru reistar á trú, von og kærleika í garð spákaupmanna, sem hyggjast maka krókinn, eins og t.d. hefur gerzt í Noregi við innleiðingu uppboðsmarkaðar á raforku þar og stækkun markaðarins með millilandatengingunum.  Eins dauði er annars brauð (Eines Tod einem anderen Brot).

 

 

 

 

 

 

 

    

 

 

 

 


Að stinga hausnum í EES-sandinn

Það er háttur margra að bera á borð annaðhvort lofgerðarrullu um kosti EES-samstarfsins eða að lýsa göllunum fjálglega.  Þessi aðferðarfræði er haldlaus á 25 ára afmæli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið-EES, því að þar er um æ flóknara fyrirbæri að ræða.  Þá eru ekki margir hérlendis, sem hafa lagt sig eftir valkostum Íslendinga við EES-samninginn, sem þó er nauðsynlegt innlegg í umræðuna um veginn framundan í ljósi stöðunnar í Evrópu og reynslunnar af EES-samstarfinu.  Þetta mat verður ekki inntak þessa pistils, heldur skal hér þrengja umræðuefnið til að spanna einn anga EES-samstarfsins, Þriðja orkumarkaðslagabálkinn.

Tilefnið er greinarstúfur á Sjónarhóli Morgunblaðsins 3. janúar 2019 eftir Ara Guðjónsson, lögmann og yfirlögfræðing Icelandair Group, sem hann nefnir:

"EES-samstarfið í uppnámi".

Það olli vonbrigðum við lestur greinarinnar, hversu þröngt sjónarhornið er og takmarkaður eða alls enginn rökstuðningur í greininni færður fyrir skoðun lögmannsins.  Honum þykir málflutningur andstæðinga innleiðingar Þriðja orkupakka ESB digurbarkalegur, en þeir hafa þó uppi góða tilburði, margir hverjir, til að rökstyðja sín sjónarmið. 

Einkennandi fyrir málflutning skoðanasystkina Ara Guðjónssonar um þetta mál eru fullyrðingar um umdeilanleg lögfræðileg atriði, eins og lögmæti fullveldisframsals m.v. íslenzku Stjórnarskrána og áhrif innleiðing Evrópugerðar eða tilskipunar á gildandi réttarfar hér á landi.  Þá ber mikið á sleggjudómum um viðbrögð samstarfsaðila Íslendinga í EES við höfnun Alþingis á "pakkanum", þótt EES-samningurinn sjálfur fjalli um leyfileg viðbrögð við synjun þjóðþings.  Verður nú vitnað í téða Sjónarhólsgrein, sem hófst þannig:

"Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið um hinn svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins í tengslum við fyrirhugaða innleiðingu Íslands á þeirri löggjöf.  Andstæðingar þessarar nýju löggjafar hafa verið heldur digurbarkalegir í umræðunni og hafa haldið því fram, að regluverkið myndi fela í sér of víðtækt valdframsal á fullveldi Íslands og hafa jafnvel kallað eftir því, að Ísland gangi út úr samstarfinu.  Þrátt fyrir að öll umræða um þessi málefni sé góðra gjalda verð, standast þær fullyrðingar, sem fram hafa komið frá helztu andstæðingum þriðja orkupakkaans enga lögfræðilega skoðun."

Á Evrópuréttarfræðinginum Stefáni Má Stefánssyni, fyrrverandi lagaprófessor, er að skilja, að með Orkupakka #3 verði gengið lengra í framsali fullveldis en samrýmist Stjórnarskránni, enda verði að taka tillit til uppsafnaðs framsals ríkisvalds til ESB.  Það eru þess vegna uppi mjög miklar lögfræðilegar vangaveltur hérlendis, sem og í Noregi, um þetta atriði.  Ari Guðjónsson hefur ekkert í höndunum til að sópa áhyggjum af þessu atriði út af borðinu. Þær eiga sér traustan, lögfræðilegan grundvöll.

Lögfræðileg umræða um framsal fullveldis þarfnast jarðtengingar til skýsringar. Það nægir hér að benda á eitt efnisatriði í þessu sambandi, en það er stofnun embættis Landsreglara, eða, sem væri enn þá verra, að breyta embætti Orkumálastjóra í Landsreglara, sem verður að Evrópurétti, sem á þessu sviði verður æðri íslenzkum lögum við innleiðinguna, algerlega óháður íslenzkum yfirvöldum, löggjafarvaldi og hagsmunaaðilum.  Þetta embætti getur orðið íslenzkum lögaðilum og einstaklingum íþyngjandi með sektargreiðslum, fyrirmæli til embættisins eru samin hjá ACER-Orkustofnun ESB, og ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, sem er umsaminn milliliður, hefur enga heimild til að ógna einsleitni regluverks á milli landa EES með því að breyta fyrirmælunum eða hundsa þau til EFTA-landanna.  

Landsreglarinn verður eftirlitsaðili með flutningsfyrirtækinu Landsneti og dreifiveitunum, semur reglugerðir þeim til handa og staðfestir verðskrár þeirra eða hafnar þeim.  Hann getur farið fram á víðtæka upplýsingagjöf frá fyrirtækjum á íslenzka raforkumarkaðinum að viðlögðum fjársektum, ef ekki er orðið við þeim beiðnum. 

Landsreglarinn mun hafa eftirlit með því, að íslenzki raforkumarkaðurinn starfi, eins og ACER bezt telur henta kaupendum á markaðinum, en svo illa vill til, að kjörfyrirkomulag ACER er frjáls samkeppni í orkukauphöll, sem engan veginn tryggir hag orkukaupenda, þar sem orkukerfið er samsett á þann einstæða hátt, sem hérlendis er raunin.  Það getur hins vegar virkað ágætlega við aðstæður, sem það er hannað fyrir (eldsneytiskerfi, margir birgjar).

Þarna er vikið að innihaldi valdframsals yfir orkumálum til yfirþjóðlegs valds, þar sem við ekki höfum atkvæðisrétt.  Það getur blessazt, en það eru mun meiri líkur á, að ákvarðanataka á grundvelli sameiginlegra hagsmuna ESB/EES gagnist illa íslenzkum hagsmunum á þessu sviði, þar sem aðstæður eru gjörólíkar.  Þar af leiðandi á Alþingi að láta það ógert að taka slíka áhættu.  Stjórnarskráin vísar rétta leið.  Framsal ríkisvalds til útlanda er ávísun á verri stjórnarhætti, sem geta orðið landsmönnum dýrkeyptir.  Þetta veit almenningur, enda er sagan ólygnust.

Ari Guðjónsson kýs að gera minni háttar atriði við Orkupakka #3 að aðalatriðum greinar sinnar, og þannig kemst hann aldrei að kjarna málsins, sem er stefnumörkun um málefni íslenzka raforkumarkaðarins út frá hugmyndafræði ESB, sem kallar á árekstra við hagsmuni almennings á Íslandi. 

Hann gerir mikið úr, að íslenzkum yfirvöldum hafi tekizt að fá undanþágu frá skýrum reglum Orkupakka #2 og #3 um, að flutningsfyrirtækið, hér Landsnet, skuli vera óháð öðrum aðilum á orkumarkaði.  Þessa undanþágu telur hann kost, en hún er alvarlegur ókostur, því að Landsnet, RARIK, OR og OV eiga Landsnet.  Þar með er auðvelt að gera því skóna, að Landsnet mismuni aðilum á markaði, t.d. nýjum vindorkufyrirtækjum, sem gjaldi fyrir áhrifastöðu LV, RARIK, OR eða OV í stjórn LN.

  Með miklum tilkostnaði var lítill raforkumarkaður Íslands brotinn upp í vinnslu, flutning, dreifingu og sölu, að fyrirmælum ESB, til að tryggja frjálsa samkeppni, en skrefið hefur aldrei verið stigið til fulls til að formlegum reglum um frjálsa samkeppni sé þó fullnægt. Ari Guðjónsson er hróðugur yfir þessum óskapnaði og skrifar:

"Að þessu leyti mun þriðji orkupakkinn því engin áhrif hafa á gildandi réttarumhverfi hér á landi, og er þar með búið að tryggja, að ekki þurfi að gera breytingar þar á vegna innleiðingarinnar [á Orkupakka #3-innsk. BJo]."

Að hugsa sér, að þetta skuli vera uppistaðan í röksemdafærslu lögfræðingsins fyrir því, að Orkupakki #3 muni engin áhrif hafa hér á landi.  Ekki tekur betra við, þegar kemur að Landsreglaranum, sem við blasir, að verður einsdæmi í stjórnsýslu á Íslandi og í raun Trójuhestur ESB í stjórnkerfinu á Íslandi, þótt hann kunni (umdeilanlega) að vera eðlilegur þáttur stjórnsýslu ESB í ESB-löndunum.  Þessu snýr Ari Guðjónsson á haus og kveður fyrirkomulagið verða sjálfstæðismál fyrir Orkustofnun.  Hver hefur beðið um það ? 

Það er lýðræðislegt fyrirkomulag, að Orkumálastjóri heyri heill og óskiptur undir íslenzkan ráðherra, en ekki stundum undir forstjóra ACER með ESA sem millilið.  Hvernig í ósköpunum á Orkumálastjóri stundum að vera óháður ráðherra og stundum að vera undir boðvaldi hans ?  Ari skrifar:

"Það liggur hins vegar fyrir, að gera þarf ákveðnar breytingar á raforkulögum og lögum um Orkustofnun vegna innleiðingarinnar.  Þær breytingar munu m.a. tryggja frekara sjálfstæði Orkustofnunar með þeim hætti, að ráðherra mun ekki geta gefið stofnuninni fyrirmæli um úrlausn mála, þrátt fyrir að Orkustofnun muni enn heyra undir yfirstjórn ráðherra."

Það er alveg makalaust, að lögfræðingurinn virðist telja ávinning af innleiðingu þessa aukna og ólýðrýðislega flækjustigs í íslenzka stjórnsýslu, þótt við leikmanni blasi, að breytingin feli í sér Stjórnarskrárbrot.  

Þá kemur rúsínan í pylsuendanum með lofrullu um EES-aðildina og hræðsluáróður um, að EES-samstarfið velti á innleiðingu Orkupakka #3.  Það er ekki fótur fyrir slíku.  Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að m.v. gamla fríverzlunarsamninginn, sem í gildi var á milli EFTA og ESB, nemi viðskiptalegur ávinningur EES-samningsins 4,5 mrðISK/ár.  Kostnaðurinn er hins vegar margfaldur ávinningurinn, því að beinn kostnaður er talinn nema 22 mrðISK/ár (Viðskiptaráð Íslands) og óbeinn kostnaður af ofvöxnu reglugerða- og eftirlitsfargani í örsmáu samfélagi og minni framleiðniaukningu um 1,0 %/ár fyrir vikið, þýðir sóun upp á yfir 100 mrðISK/ár. Alls nemur árlegur nettókostnaður EES-aðildar á annað hundrað milljörðum ISK.  Þetta er nú öll margrómuð himnaríkisdýrð EES-aðildar Íslands.

Til að gefa innsýn í hugarheim EES-trúaðra er fróðlegt að birta jarðteiknasögu Ara Guðjónssonar og "Götterdämmerung" eða syndafallið í lokin:

"Það er jafnframt mikilvægt að hafa í huga, að EES-samningurinn felur í sér eina mestu réttarbót, sem íslenzkt samfélag hefur innleitt.  Samningurinn hefur tryggt Íslandi fullan aðgang að innri markaði Evrópu, en þó með þeim takmörkunum, sem taldar voru nauðsynlegar á sínum tíma, sem aðallega varða sjávarútveg.  Það er ekkert launungarmál, að Ísland hefði líklega aldrei náð að landa slíkum samningi án þess að hafa verið í samstarfi með öðrum stærri ríkjum, þegar samningurinn var gerður.  Ef Alþingi tryggir ekki innleiðingu þriðja orkupakkans hér á landi, gæti það sett EES-samstarfið í uppnám."

Í raun og veru er þetta áróður fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið, því að meint "réttarbót" er Evrópurétturinn og synjunarvald þjóðþinganna á ESB-gerðum er það, sem helzt greinir að réttarstöðu EFTA-ríkjanna (í EES) og ESB-ríkjanna gagnvart stofnunum Evrópusambandsins.

Í Noregi gætir vaxandi efasemda um aðild landsins að EES-samninginum, og er þar athyglisverðust þróunin innan norsku verkalýðshreyfingarinnar.  Ekki er ólíklegt, að BREXIT-dramað endi með gerð víðtæks fríverzlunarsamnings á milli Bretlands og ESB.  Þá liggur beint við, að EFTA leiti hófanna um svipaðan samning við Bretland og ESB.  

 

 

 

 

 

 

 


Af mismunandi stjórnarskrárumræðu

Það hefur mikið verið gert úr því, að Stjórnarskrá lýðveldisins væri með böggum hildar vegna aldurs og uppruna hennar.  Höfundi þessa pistils er samt ekki kunnugt um aðra ásteytingarsteina Stjórnarskrárinnar við alþjóðasamninga en EES-samninginn á milli EFTA og ESB um Evrópska efnahagssvæðið frá 1994, þar sem nú aðeins 3 EFTA-ríki eiga aðild, eftir að nokkur EFTA-ríki fylgdu Bretlandi inn í ESB á sínum tíma.  

Það leikur vart á tveimur tungum, að Alþingi hefur heimild til að staðfesta þjóðréttarlega samninga, sem ríkisstjórnin á aðild að eða óskar aðildar að.  Þar er ekki um að ræða samninga, er varða fullveldisafsal til stofnana, þar sem Ísland á ekki fulla aðild, og það verður heldur engin breyting á réttarstöðu lögaðila (fyrirtækja, stofnana) hérlendis eða einstaklinga, sem eru með íslenzkt ríkisfang.  Slíkir samningar, þjóðréttarlegs eðlis, eru taldir réttlætanlegir til að bæta öryggi ríkisins, bæta stöðu þess á alþjóðavettvangi og tryggja réttarstöðu þess á alþjóðavettvangi, svo að eitthvað sé nefnt.  Dæmi eru NATO-aðildin, SÞ-aðildin, AGS-aðildin og Hafréttarsáttmálinn.  

EES-aðildin er allt annað folald.  Um hana skrifaði Ásgerður Ragnarsdóttir, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, í Morgunblaðið, 1. desember 2018:

"Fullveldi og framsal valdheimilda":

"Frá því að EES-samningurinn tók gildi árið 1994, hafa skuldbindingar íslenzka ríkisins aukizt verulega, og hefur samstarfið krafizt þess, að valdheimildir séu framseldar í vaxandi mæli til stofnana EES.  Almennt er viðurkennt, að lögfesting samningsins hafi á sínum tíma reynt verulega á mörk stjórnarskrárinnar, og því fór fjarri, að samhugur væri um, hvort þörf væri á stjórnarskrárbreytingu.  Nefnd þeirra fjögurra sérfræðinga í lögum, sem leitað var til, taldi, að framsal valdheimilda samkvæmt samningnum stæðist stjórnarskrá og vísaði einkum til þess, að framsalið væri "skýrt afmarkað, ekki umfangsmikið eða verulega íþyngjandi fyrir einstaklinga eða lögaðila.""

Hér er þess að geta, að þáverandi stjórnarandstaða leitaði líka eftir áliti valinkunnra lögfræðinga og fékk frá þeim þá niðurstöðu, að lögfesting EES-samningsins bryti gegn Stjórnarskrá.  Eftir á að hyggja virðist sú niðurstaða hafa verið réttari en niðurstaða lögfræðingateymis ríkisstjórnarinnar, því að EES-samningurinn hefur ekki reynzt vera skýrt afmarkaður og reyndar ófyrirsjáanlegt, hvaða stefnu hann tekur; hann er ennfremur mjög umfangsmikill, og hann hefur reynzt vera afar íþyngjandi fyrir fyrirtækin í landinu og gæti reynzt einstaklingum þungur baggi, eins og fjármálaeftirlitslagabálkurinn og persónuverndarlagabálkurinn eru dæmi um og Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn mun reynast dæmi um, ef hann verður innleiddur af Alþingi.  

Um þetta skrifar Ásgerður Ragnarsdóttir með skarplegum hætti:

"Sé litið til stöðunnar í dag, um aldarfjórðungi síðar, má ljóst vera, að íslenzka ríkið hefur framselt valdheimildir í talsverðum mæli til stofnana EES, og hefur þeim jafnframt verið eftirlátið vald til að taka íþyngjandi ákvarðanir gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum hér á landi, svo sem með álagningu sekta og beinum afskiptum af rekstri fyrirtækja. Hér má nefna sem dæmi, að samkvæmt reglum Evrópusambandsins um fjármálaeftirlit, sem voru innleiddar hér á landi haustið 2016, hefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) heimild til að taka íþyngjandi ákvarðanir gagnvart íslenzkum stofnunum og fyrirtækjum á fjármálamarkaði, sem geta m.a. náð til þess að stöðva starfsemi þeirra.  Frumkvæði að slíkum ákvörðunum og undirbúningur þeirra er í höndum sérstakra eftirlitsstofnana, sem starfa á vettvangi Evrópusambandsins, og á Ísland ekki aðild að þeim.

Þá má jafnframt nefna, að vegna breytinga á samkeppnisreglum EES-samningsins var með samkeppnislögum nr 44/2005 lögfest ákvæði, sem felur efnislega í sér, að ákvarðanir ESA eru í ákveðnum tilvikum bindandi fyrir íslenzka dómstóla við úrlausn mála, þar sem þeir fara með dómsvald. Hefur löggjafinn þar með bundið hendur dómstóla í ákveðnum skilningi vegna reglna EES-réttar [undirstr. BJo].

Þegar meta á, hvort setja eigi í Stjórnarskrá ákvæði, sem heimila framsal ríkisvalds til erlendra valdstofnana, er ljóst, að setja verður einhver mörk í þeim efnum.  Að mati pistilhöfundar yrði of langt gengið með því að heimila það, sem að ofan er lýst, að þegar hafi verið samþykkt vegna innleiðingar ESB-gerða gegnum EES.  Það á hvorki að ganga svo langt að samþykkja íþyngjandi kvaðir á hendur íslenzkum ríkisborgurum, sem rekja má til stofnana, þar sem Ísland á engin raunveruleg ítök, né kvaðir á hendur íslenzkum dómstólum, eins og raktar eru hér að ofan.

Í Noregi er bann í Stjórnarskrá gegn framsali ríkisvalds til annarra ríkja eða yfirþjóðlegra stofnana, nema framsalið sé þjóðréttarlegs eðlis eða takmarkað, fyrirsjáanlegt og vel skilgreint.  Ef fara ætti þessa leið hérlendis, þyrfti að skilgreina slíkt leyfilegt framsal og krefjast 3/4 atkvæða þingheims til samþykktar, eins og fordæmi er um í norsku stjórnarskránni.  

Ásgerður Ragnarsdóttir hélt áfram:

"Telja verður líklegt, að álitaefni um mörk heimils framsals muni aukast í framtíðinni, og væri það í takti við þróun í regluverki Evrópusambandsins, þar sem sjálfstæðum eftirlitsstofnunum eru í auknum mæli veittar valdheimildir gagnvart einstaklingum og lögaðilum.  Skýrt dæmi um þetta er þriðji orkupakki Evrópusambandsins, sem hefur upp á síðkastið verið til umræðu um mörk heimils framsals valdheimilda hér á landi.  

Það er í öllu falli ljóst, að þær forsendur, sem voru taldar styðja þá upphaflegu afstöðu, að ekki væri þörf á stjórnarskrárbreytingu vegna aðildar Íslands að EES-samningnum, hafa breytzt, og að valdframsal er mun meira en gert var ráð fyrir í upphafi.  Í því sambandi er athyglisvert, að höfundar sumra þeirra álitsgerða, sem aflað hefur verið vegna innleiðingar gerða, hafa lagt áherzlu á, að jafnvel þó að framsal samkvæmt einstakri gerð sé talið standast stjórnskipulega, sé ekki þar með sagt, að breytingarnar, virtar heildstætt, teljist innan ramma stjórnarskrárinnar."

 Það verður mjög vandasamt að skilgreina einstakt leyfilegt framsal og uppsafnað leyfilegt framsal fullveldis í tillögu að Stjórnarskrárbreytingu, og það getur orðið torsótt fyrir Alþingi að komast að niðurstöðu um slíkt, jafnvel þótt valinkunnum stjórnlagafræðingum tækist að gera um slíkt tillögu til Alþingis.  Að óreyndu er ólíklegt, að meirihluti reynist um það á meðal þjóðarinnar að leyfa erlendum stofnunum að leggja kvaðir á landsmenn, eins og gerðir og tilskipanir ESB nú á dögum vissulega fela í sér, og þá ekki sízt Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB.   

Hvað skyldi formaður Sjálfstæðisflokksins, fjármála- og efnahagsráðherrann, hafa um þetta að segja ?  Að nokkru leyti kemur það fram í frétt Morgunblaðsins 17. desember 2018:

"Styður ekki framsal auðlinda":

"Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki barizt sérstaklega fyrir innleiðingu þriðja orkupakkans að sögn Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, í viðtali við Pál Magnússon, þáttstjórnanda Þingvalla á K100 og Alþingismann Sjálfstæðisflokksins, í gærmorgun.

Bjarni sagði, að sér fyndist sumt af því, sem rataði til okkar í gegnum EES-samstarfið, varla vera málefni innri markaðarins.  "Í þessu tilviki er ekki nema von, að menn spyrji, þar sem Ísland er eyland, hvers vegna það sé hluti af þátttöku okkar á Evrópska efnahagssvæðinu að undirgangast evrópska löggjöf á því sviði", sagði Bjarni."

Þetta er hárrétt athugað, og á það hafa fjölmargir bent, t.d. fyrrverandi stjórnmálamenn.  Þar má nefna guðföður EES-samningsins fyrir Íslands hönd á sinni tíð, Jón Baldvin Hannibalsson.  Það á engu að breyta um afstöðu þingsins nú, þótt það hafi á árum áður (2014-2016) fengið upplýsingar um málið frá embættismönnum án þess að gera við þær alvarlegar athugasemdir.  Á grundvelli nýjustu og beztu upplýsinga ber að taka ákvörðun.

Þegar þetta mál er sett í rétt samhengi, þ.e. skoðað í samhengi við ákvæði EES-samningsins, t.d. ákvæði um frjálsa samkeppni og bann við innflutnings- og útflutningshindrunum, svo og nýrri gerðir tengdar orkupakkanum með valdeflingu ACER-Orkustofnunar ESB sem meginstef, t.d. gerð #347/2013, sem áreiðanlega verður samþykkt til innleiðingar af Sameiginlegu EES-nefndinni í kjölfar lögfestingar Þriðja orkumarkaðslagabálksins, þá verður ljóst, að framlengdur reglusetningararmur ACER til Íslands, Landsreglarinn, verður gríðarlega valdamikill á Íslandi, enda mun hann verða óháður íslenzkum yfirvöldum og hagsmunaaðilum, en dansa þess í stað eftir flautu ESB.  Landsreglarinn fær í raun valdstöðu jafnstæða ráðherra hérlendis án þess að njóta aðhalds/eftirlits að hálfu þjóðþingsins, og um gerðir hans gildir Evrópurétturinn, sem íslenzkir dómstólar verða að dæma eftir, og slíkir dómar verða áfrýjanlegir til ESA/EFTA-dómstólsins. 

Í ljósi þessa hefur t.d. norski lagaprófessorinn Peter Örebech sýnt fram á, að eftirfarandi fullyrðing ráðherrans orkar mjög tvímælis og vitnar um óvarkárni í ljósi þeirra gríðarlegu hagsmuna, sem eru í húfi fyrir Íslendinga á sviði orkumála:

"Bjarni sagði samtalið undanfarið hafa snúizt um, hvort verið væri að framselja yfirráð yfir auðlindunum.  "Samkvæmt þeim gögnum, sem hafa verið tekin saman, er ekki svo", sagði Bjarni."

Á meðal gagna, sem iðnaðarráðherra hefur "tekið saman" um málið, er minnisblað og greinargerð tveggja innlendra lögmanna.  Nokkur atriði í skjölum þessum hafa verið vegin og léttvæg fundin af fyrrnefndum norskum sérfræðingi í Evrópurétti.  Það boðar ekki gott, ef stjórnvöld ætla að taka kæruleysislegan pól í hæðina og skoða það á grunnfærinn hátt út frá þröngu sjónarhorni í stað þess að setja það í samhengi við EES-samninginn, síðari gerðir ESB á orkumálasviði og líklega þróun þessara mála innan ESB (Fjórði orkupakkinn).  Sé það gert, blasir við, að réttast er fyrir Íslendinga að stöðva nú þegar samstarfið við ESB á orkumálasviði, sem felst í Viðauka IV við EES-samninginn.  Í þessa átt virðist Bjarni Benediktsson einnig hneigjast af eftirfarandi að dæma:

"Hann rifjaði upp, hvað fylgdi því að taka þátt í EES-samstarfinu og sagðist telja, að af hálfu ESB hefði harkan í að krefjast meiri einsleitni vaxið.  "Ég er þeirrar skoðunar, að Evrópusambandið hafi gengið of langt, í of mörgum málum á undanförnum árum, í því að reyna að fá okkar hóp, þ.e.a.s. EFTA-megin, Íslendinga þar með, til þess að fella sig við einhverja stofnanaumgjörð, sem bara gengur ekki upp.  Mér finnst það vera mjög mikið umhugsunarefni, hversu mikil vinna hefur farið í það að sníða sérlausnir, sem standast íslenzku stjórnarskrána.  Þetta hef ég oft gert að umtalsefni í þinginu og er áhyggjuefni í Evrópusamvinnunni; að það þyki bara boðlegt gagnvart Íslandi að krefjast þess, að vald sé framselt til stofnana, sem við eigum enga aðild að", sagði Bjarni.  Hann sagði, að nú væri því haldið fram um þriðja orkupakkann, að í honum fælist slíkt framsal. "Af minni hálfu stendur ekki til að styðja mál, sem felur í sér framsal, hvorki á auðlindum né á meiri háttar ákvarðanatöku um lagaumgjörð fyrir okkur.  Hins vegar er því haldið fram, að málið mögulega standist ekki stjórnarskrá.  Þetta eru atriði, sem við viljum fara vandlega yfir", sagði Bjarni.  Hann sagði það rangt, að með þriðja orkupakkanum yrði gert skylt að leggja rafstreng til Íslands.  Þriðji orkupakkinn myndi ekki breyta því, að Alþingi setti áfram lögin, sem giltu á Íslandi [Undirstr. BJo]."

Rökrétt niðurstaða af þessum hugleiðingum formanns Sjálfstæðisflokksins er að segja hingað og ekki lengra gagnvart Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Nú er svo mikið í húfi, að sýna verður aðilum EES-samstarfsins, að Íslendingar geti ekki undirgengizt einsleitniáráttu ESB og mótun lagaumgjarðar á hvaða sviði þjóðlífsins sem er, enda væru þeir væntanlega þegar gengnir í ESB, ef engar slíkar takmarkanir fyndust í hugskoti landsmanna.  

Um síðasta atriðið, sem ráðherrann nefnir, er vert að spyrja hann, hversu traustum fótum lagasetning Alþingis standi, ef hún brýtur í bága við Evrópurétt á þeim sviðum, sem Alþingi hefur innleitt Evrópurétt, eins og t.d. um inn- og útflutning á hráu, ófrosnu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk.  EFTA-dómstóllinn hefur dæmt innflutningsbann Alþingis frá 2009 brotlegt við EES-samninginn, og lá þar lýðheilsa og búfjárheilsa við, en núverandi ráðherra landbúnaðarmála hefur látið á sér skilja, að hlíta verði dómi EFTA-dómstólsins, sem kveður íslenzku lögin stríða gegn EES-samninginum.  Enn hafa lögin þó ekki verið felld úr gildi, góðu heilli. Mætast þar stálin stinn. 

Nákvæmlega hið sama mun gerast eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins, ef fjárfestar sækja um leyfi fyrir lagningu aflsæstrengs til Íslands frá landi, sem er í Orkusambandi ESB (ACER), og Landsreglarar í löndunum, sem strengurinn á að tengja saman, telja umsóknina uppfylla allar kröfur ESB, t.d. gerð #347/2013, og hugsanleg lagasetning Alþingis um bann við strengnum og þar með við milliríkjaviðskiptum með rafmagn verður kærð fyrir ESA og síðar EFTA-dómstólinum.  Þá myndast hagsmunastríðsástand á milli Íslands og hinna EES-landanna, sem yrði Íslandi miklu þyngra í skauti en höfnun á téðum orkubálki á grundvelli mikilvægra þjóðarhagsmuna getur orðið.  

Margt er skrýtið í kýrhausnum.  Furðulegasta tillaga, sem sézt hefur á prenti um breytingu á Stjórnarskrá lýðveldisins, var sett fram í lok greinar Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra,

"Fullveldið, stjórnarskráin og alþjóðasamstarf"

í Morgunblaðinu 28. desember 2018:

"Fræðimenn getur greint á um, hvort EES-gerð sé þess eðlis, að hún rúmist innan stjórnarskrárinnar.  Þeir eru hins vegar allir sammála um, að laga beri stjórnarskrána að alþjóðasamstarfi.  Eftir þeim ráðum fara stjórnmálamenn þó ekki.

Ótti stjórnmálamanna ræðst af andstöðu við aðild Íslands að ESB.  Þar tengjast allir illu andarnir, sem áður er getið.  Þá má kveða niður með því að festa aðildina að EES eina í stjórnarskrána."

 Þetta er gjörsamlega fráleit tillaga, því að með slíku ákvæði í Stjórnarskrá væri verið að slá því föstu, að allar gerðir og tilskipanir Evrópusambandsins, sem Sameiginlega EES-nefndin mun samþykkja til innleiðingar í EFTA-löndunum, væru í samræmi við Stjórnarskrá lýðveldisins, sama hversu víðtækt og stórtækt fullveldisframsal til stofnana ESB fælist í innleiðingunni, eða hversu mjög viðkomandi lagabálkur ESB gengi gegn hagsmunum íslenzka lýðveldisins.  Þingmenn gætu þá ekki hafnað slíkri innleiðingu á þeirri forsendu, að fullveldisframsalið væri Stjórnarskrárbrot.  Aldrei verður nokkur sátt um slíka Stjórnarskrárbreytingu, og tillaga um hana er andvana fædd. Aðeins ESB-sinnar, þ.e. þau, sem berjast leynt og/eða ljóst fyrir inngöngu Íslands í ESB, geta stutt slíka tillögu.  

 

 

 

 

 


Átta landa gengið innan ESB

Í fersku minni er frá fyrsta ársfjórðungi 2016, er einn helzti fyrrum hvatamaður inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB, líkti slíkri inngöngu við að hlaupa inn í brennandi hús. Það, sem Jóni B. Hannibalssyni ofbauð helzt við hið brennandi hús, var myntbandalagið og meðferð ráðandi afla þar, Frakklands og Þýzkalands, á veikburða suðurríkjum bandalagsins, einkum Grikklandi. 

Aðgerðir ESB, ESB-bankans og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, til að bjarga Grikklandi frá gjaldþroti í kjölfar alþjóðlegs fjármálahruns 2007-2008 voru í raun lenging í hengingaról Grikkja til bjargar lánadrottnum Grikkja, sem að stærstum hluta voru franskir og þýzkir bankar, sem margir hverjir stóðu tæpt og eru enn laskaðir. Síðan þá hefur runnið upp fyrir æ fleirum, hvað ESB í raun og veru er orðið: það er vanheilagt bandalag skriffinnskubákns og stórkapítals.  Hagsmunir hins vinnandi manns og konu á Íslandi og þeirrar klíku geta ekki farið saman.  Var ekki Icesave-deilan áminning um það ?

Það kennir margra grasa innan ESB, og núningurinn er ekki aðeins á milli norðurs og suðurs; hann er einnig á milli austurs og vesturs.  Límið, sem hindrað hefur klofning eftir gamla járntjaldinu, er ótti Austur-Evrópuríkjanna við rússneska björninn.

Eystrasaltslöndin þrjú, sem innlimuð voru í Ráðstjórnarríkin, þegar Wehrmacht hörfaði undan ofureflinu 1944 eftir vanhugsaða "Operation Barbarossa"-Rauðskeggsaðgerðina, stærstu hernaðaraðgerð sögunnar, eru reyndar ekki í bandalagi Austur-Evrópuríkjanna innan ESB, heldur eru þau í Nýja Hansasambandinu, þar sem eru 5 önnur ríki: Írland, Holland, Danmörk, Svíþjóð og Finnland.  Það, sem sameinar þessi ríki, er, að standa fast á Maastricht-skilmálunum um heilbrigðan rekstur ríkissjóðs hvers lands, og þau vilja ekki sjá sameiginleg fjárlög og einn fjármálaráðherra evrusvæðisins né stóran samtryggingarsjóð til að forða veikum ríkissjóðum frá greiðslufalli.  Miðstýrðasta ríki Evrópu, Frakkland, sem að ýmsu leyti stendur veikt, herjar á um þessa óvinsælu samrunaþróun.  Þar horfa Frakkar aðallega til þess, að hinir duglegu, aðhaldssömu og skilvirku nágrannar austan Rínar dragi þá upp úr foraðinu, sem þeir hafa ratað í vegna óráðsíu.    

Ríkin 8 eiga sér reyndar stuðningsríki um þetta í Slóvakíu, sem var austan járntjaldsins í austurhluta Tékkóslóvakíu, og Slóveníu, sem var nyrzta ríki Júgóslavíu.  Þýzkaland er nú hlédrægur bakhjarl Nýja Hansasambandsins, eins og á miðöldum, þegar nokkrar þýzkar verzlunarborgir voru mikilvægur hluti Hansasambands miðalda.

Ástæðan fyrir hæglátri afstöðu Þýzkalands er sú, að Nýja Hansasambandið beinist aðallega að Frakklandi, og Þýzkaland reynir enn að stjórna ESB í nánu samstarfi við Frakkland.  Það verður hins vegar stöðugt erfiðara fyrir Þýzkaland að hlaupa eftir duttlungum Frakklands um "samstöðu", sem snýst um að hlaupa undir bagga með veika manninum í Evrópu, Frakklandi, sem neitar að taka á sínum málum.  Frá þessum veika manni Evrópu koma alls konar blautir draumar með rætur í gamalli og löngu horfinni stórveldistíð, t.d. lágvaxna Korsíkumannsins, eins og  um sameiginlegan herafla, sem varizt geti Rússum, Bandaríkjamönnum og Kínverjum.  Þetta er út í hött á sama tíma og þessi forysturíki ESB og mörg fleiri hafa ekki treyst sér til að standa við skuldbindingar sínar innan NATO um framlög til hermála.

Skattbyrðin er mest í Frakklandi innan OECD, og Macron, forseti, sem verið hefur með digurbarkalegar yfirlýsingar um að láta ekki óeirðaseggi stjórna málefnum Frakklands, hefur reynzt vera pappírstígrisdýr, sem gaf eftir fyrir gulvestungum og skaðaði þannig pólitískt orðspor sitt.  Við það vex hallinn á ríkisbúskap Frakka enn, og það verður fróðlegt að sjá Brüssel hirta Gallana fyrir skuldasöfnun, sem ógnar stöðugleika evrunnar.  Það verður þó aðeins gert með samþykki Berlínar, og þar er þolinmæðin á þrotum gagnvart framferði Gallanna.  Verði Gallinn hirtur, mun hrikta í öxlinum Berlín-París, en verði Gallanum sleppt við hirtingu, mun Nýja Hansasambandið, Ítalir, Grikkir o.fl. móðgast.

Hvatinn að Nýja Hansasambandinu, sem myndað var í desember 2017 að frumkvæði fjármálaráðherra landanna 8, var BREXIT.  Löndin höfðu talið hag sínum vel fyrir komið með Bretland sem boðbera frjáls markaðar og Þýzkaland sem boðbera heilbrigðra ríkisfjármála sem mótvægi við franskan ákafa um "samstöðu" í ríkisfjármálum og verndarstefnu á viðskiptasviðinu.  Valdajafnvægið innan ESB breytist við brotthvarf Breta, Frökkum í vil, og Nýja Hansasambandið á að verða þar mótvægi.  

Í sameiginlegri skýrslu fjármálaráðherra 8-landa gengisins frá marz 2018 er lögð áherzla á, að "fyrst og fremst" eigi ríkin að haga ríkisfjármálum í "fullu samræmi" við ríkissjóðsreglur ESB. Ef allir mundu haga sér með ábyrgum hætti og kæmu reglu á opinber fjármál, þá yrði hægt að takast á við ytri áföll, án þess að skattgreiðendur annarra landa þyrftu að hlaupa undir bagga, skrifuðu þeir.  Haukar ríkisfjármálanna halda því fram, líklega með Ítalíu í huga, að stöðugleikasjóður, sem dreifir áhættu á milli ríkja, mundi einnig virka hvetjandi til óhófs og letjandi á aðhaldssemi.  Nýja Hansasambandið mundi fremur hvetja til eflingar markaðsaflanna innan ESB, t.d. að hraða umbótum á fjármálamarkaðinum eða að gera fleiri fríverzlunarsamninga við ríki utan EES.

Íslendingar mundu að mörgu leyti eiga samleið með hinu Nýja Hansasambandi, en aðild að ESB kemur hins vegar ekki til greina, því að sjálfsákvörðunarrétturinn og umráðaréttur yfir auðlindum landsins færu þá veg allrar veraldar.  Bretar fengu nóg af miðstjórnarvaldinu í Brüssel og klíkustjórnun öxulsins Berlín-París, sem hundsaði Bretland. Slíku getur gamalt stórveldi ekki torgað lengi. Bretar hafa sennilega endanlega fengið sig fullsadda á Evrópusambandinu í útgönguviðræðunum og munu eftir útgönguna taka upp samkeppni við það á mörgum sviðum, sem leitt getur til, að þeirra gömlu bandamenn innan ESB, sem nú mynda Nýja Hansasambandið, segi skilið við ESB með tíð og tíma og gangi í fríverzlunarbandalag, hugsanlega EFTA. Mun þá gamla Hansasambandið ganga í endurnýjun lífdaganna.  Það eru ýmis innanmein í ESB, sem benda til, að þetta vanheilaga samband skrifstofuveldis og stórkapítals muni líða undir lok í sinni núverandi mynd fyrr en síðar.  

Þjóðríkishugmyndinni hefur vaxið fiskur um hrygg í Evrópu síðan ríki Habsborgara leið undir lok 1918.  Íslendingar kærðu sig ekki um að vera í ríkjasambandi við Dani, en meirihluti Færeyinga virðist enn kjósa það.  Skotar, Walesverjar og Norður-Írar verða líklega áfram í sambandsríki með Englendingum, þannig að það er mismunandi afstaða uppi, og tungumálið virðist ráða töluverðu um afstöðu þjóða, t.d. á Bretlandseyjum, þar sem allir tala ensku. 

Heillavænlegast er, að ákvarðanir um málefni íbúa séu teknar í nærumhverfi þeirra.  Þannig eru langflestir hérlendis þeirrar skoðunar, að stjórnun málefna Íslands hafi batnað markvert með Heimastjórninni 1904.  Að sama skapi telja mjög margir, að það yrði dapurlegt afturhvarf til fortíðar að flytja stjórnun málefna Íslands að talsverðu leyti til Brüssel, enda hefur iðulega komið í ljós, að hagsmunir landa á meginlandi Evrópu fara ekki saman við hagsmuni eyjarskeggja langt norður í Atlantshafi.  Það er auðskiljanlegt.

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband