Efnilegasti vaxtarsprotinn

Það hefur komið fram hjá virtum hagfræðingum, hérlendum, að til að varðveita efnahagslegan stöðugleika og núverandi lífskjör þurfi útflutningstekjur landsins að vaxa um 50 mrdISK/ár að jafnaði næstu 2 áratugina. Að öðrum kosti verður sjálfbær hagvöxtur ekki nægilegur til að hér verði viðunandi atvinnustig með núverandi kaupmætti, þ.e. atvinnuleysi undir 3 % af vinnuaflinu.

Þetta er raunhæft markmið næsta áratuginn, ef stjórnvöld gæta að sér varðandi vöxt ríkisbáknsins og þar með skattheimtu, svo að ekki sé reynt að spá lengra fram í tímann.  Samkvæmt spá Sjávarklasans mun Bláa hagkerfið, sem er haftengd starfsemi í landinu, auka útflutning sinn um 30 mrdISK/ár eða 60 % af því, sem landið þarf á að halda.  Þar inni er fiskeldið með 7 mrdISK/ár eða 14 % af nauðsynlegri heildaraukningu. Öðrum sprotum í Bláa hagkerfinu er spáð minni vexti, framleiðendum sjálfvirknibúnaðar 4,4 mrdISK/ár, fullnýtingu aukaafurða og líftækni 3,7 mrdISK/ár, þara og þörungamjöli 0,8 mrdISK/ár og haftengdri ferðaþjónustu er spáð 0,5 mrdISK/ár vexti.

Það, sem vantað hefur í íslenzkt atvinnulíf upp á síðkastið, og er reyndar bannað í sjávarútveginum, eru fjárfestingar erlendra fagfjárfesta í atvinnulífinu, en þær hafa samt raungerzt í sjókvíaeldi fyrir lax hér við land undanfarinn áratug með ágætum árangri.  Þegar starfseminni hefur vaxið fiskur um hrygg, hefur hún lent í mótbyr öflugs þrýstihóps, sem félag veiðiréttarhafa í ám og vötnum landsins hefur forystu fyrir. Nú síðast er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í skotlínu þessara afla fyrir afnám banns við kvíum nærri árósum, sem verður þó úrelt með reglugerð um áhættugreiningu á undan staðsetningu og starfrækslu slíkra kvía.  Varla telja veiðiréttarhafar, að Hafrannsóknarstofnun kunni ekki að meta áhættu lúsasmits !

Hvað segja kunnáttumenn í Noregi um langa reynslu Norðmanna af þessari starfsemi ?  Í Fréttablaðinu 20. desember 2019 birtist áhugavert viðtal við Íslending, starfandi í Noregi:

"Gunnar Davíðsson starfar sem deildarstjóri fyrir fylkisstjórnina í Troms í Noregi, næstnyrzta fylki landsins.  Þar hefur fiskeldi aukizt jafnt og þétt undanfarin 15 ár og er nú á meðal 10 stærstu atvinnuveganna í fylkinu.  Fylkisstjórnin sér um leyfisveitingu fyrir fiskeldisstöðvarnar, og þekkir Gunnar, sem hefur búið í Noregi síðan 1983, vel til í þeim efnum."

Á Íslandi eru miklu meiri hömlur lagðar á sjókvíaeldi laxfiska en í Noregi.  Á Íslandi er það einvörðungu leyft, þar sem ekki eru taldir vera neinir upprunalegir laxastofnar í ám með ósum að viðkomandi firði, en í Noregi er það leyft meðfram allri strönd landsins.  Á Íslandi eru þetta Vestfirðir, Eyjafjörður og Austfirðir.  Á Vestfjörðum námu markaðssettar afurðir sjókvíaeldis á laxi um 12 kt árið 2019, og má áætla andvirðið 10 mrdISK, og er það nánast allt í erlendum gjaldeyri.  Má ætla, að laxeldi í sjó sé nú þegar aðaltekjulind Vestfirðinga.  Á grundvelli núgildandi áhættumats Hafrannsóknarstofnunar má a.m.k. tvöfalda þessa framleiðslu á Vestfjörðum, og ef stofnunin endurskoðar mat sitt og leyfir laxeldi í Ísafjarðardjúpi, verður hægt að fimmfalda þessa framleiðslu á Vestfjörðum og enn meir, ef tök verða á að setja upp úthafseldisstöð úti fyrir Vestfjörðum í framtíðinni.

Það er slíkur kraftur í þessum vaxtarsprota á Vestfjörðum, að alger nauðsyn er á að hraða innviðauppbyggingu þar. Þar er fyrirferðamest þörfin á öruggri raforkuafhendingu og boðlegum vegtengingum á milli Norður- og Suðurfjarðanna og Suðurfjarðanna við Dalina og Hringveginn vegna þess, að aukin raforkuþörf og flutningaþörf fylgir fyrirsjáanlegum vexti atvinnulífs á Vestfjörðum.

Beita þarf beztu þekkingu við hönnun snjóflóðavarna á Vestfjörðum og sjóflóðavarna alls staðar í þéttbýli á landinu og ekki að einskorða varnirnar við 50 manns eða meira, eins og gert er með reglugerð umhverfisráðherra frá 2014.  Það er nóg fé til í Ofanflóðasjóði til að ljúka þessu verkefni með sómasamlegum hætti fyrir 2030, og stjórnarmaður þar (Halldór Halldórsson) hefur upplýst, að a.m.k. 4 verkefni séu þegar fullhönnuð, en bíði leyfis til framkvæmda frá fjárveitingavaldinu.  Það eru fáheyrðir stjórnarhættir að draga lappirnar við framkvæmdir, sem snúast um líf eða dauða.  Stjórn þessa sjóðs ætti sjálf að vera ábyrg fyrir ráðstöfun þess eyrnamerkta fjár, sem í hann berst.  Nú er kjörtími til slíkra framkvæmda og innviðaframkvæmda, sem nefndar voru.  

Á Austfjörðum námu afurðir sjókvíaeldis á laxi um 10 kt árið 2019 og geta a.m.k. þrefaldazt.  Afurðaverðmætið var þá um 8 mrdISK.  Á Reyðarfirði er stærsta álverksmiðja landsins, og gætu tekjur hennar árið 2019 hafa numið um tífaldri þessari upphæð.  Um samsetningu atvinnulífs á Austfjörðum og Vestfjörðum er þess vegna ólíku saman að jafna, en laxeldið gegnir samt mikilvægu hlutverki á Austfjörðum, einkum á Suðurfjörðunum, þar sem það hefur fyllt í skarð brokkgengs sjávarútvegs og tryggt byggðafestu, t.d. á hinum gamla og undurfagra verzlunarstað Djúpavogi.  

Í Troms er mikið sjókvíaeldi á laxi á íslenzkan mælikvarða, og skal nú áfram vitna í Fréttablaðið:

"Á síðasta áratug hefur eldisframleiðslan [í Troms] tvöfaldazt, úr 110 kt/ár upp í tæplega 200 kt/ár. Að mati Gunnars er svæðið að töluverðu leyti samanburðarhæft við bæði Vestfirði og Austfirði á Íslandi.  Gunnar segir, að fiskeldið þjóni mikilvægu hlutverki, hvað byggðastefnu varðar.

"Áhrif fiskeldisins á svæðið eru mikil.  Með því koma störf, sem ekki er hægt að flytja í bæina eða suður eftir, störf, sem þarf að fylla á í þeim byggðarlögum, þar sem eldið er", segir Gunnar.  Bæði störf, sem þarfnast framhaldsmenntunar, s.s. sjávarlíffræðinga og dýralækna, og önnur.  

"Síðan hefur þetta mikil efnahagsleg áhrif fyrir þau fyrirtæki, sem þjónusta eldið, s.s. fraktflutninga, köfunarþjónustu, bátaþjónustu, viðgerðir o.fl. Hvert starf í eldinu skapar 3 eða 4 störf í nærumhverfinu."

 Á meðan reksturinn gengur vel, fylgir fiskeldinu mikið atvinnuöryggi, meira en sjávarútvegi, því að fiskeldið er í minna mæli háð duttlungum náttúrunnar, og fiskeldið verður ekki auðveldlega flutt í annað byggðarlag.  Störfin eru reglubundin og fjölbreytileg og henta báðum kynjum. Spáð er hækkandi verði afurðanna, sem styrkir fyrirtækin, gerir þeim kleift að fjárfesta og greiða sómasamleg laun til framtíðar litið.  Aldursdreifing byggðanna í kring verður eðlileg með þörf á skólum og kennurum, heilsugæzlu, hjúkrunarfræðingum, læknum og dýralæknum.  Fyrir mannlífið í dreifðum byggðum landsins er gríðarlegur fengur að fiskeldinu.  Hafrannsóknarstofnun, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun tryggja, að starfsemin sé stunduð með sjálfbærum og heilnæmum hætti, enda bjóða aðstæður hérlendis með tiltölulega köldum sjó og sterkum straumum upp á umhverfisvænan rekstur með sáralítilli, ef nokkurri, lyfja- eða eiturefnanotkun.  Þetta er grundvallaratriði, þegar íslenzkt laxeldi er borið saman við t.d. skozkt laxeldi. 

"Hvað Ísland varðar telur Gunnar mikilvægt að hlúa að fiskeldinu, til þess að greinin geti komið undir sig fótunum.  Norðmenn spila stóra rullu í íslenzka eldinu, og eru nú 4 norsk fyrirtæki, sem starfa hér.  Fiskeldi hefur langt í frá verið óumdeilt á Íslandi, sérstaklega á meðal laxveiðimanna, sem telja eldið ógna hreinleika villta laxastofnsins.

Gunnar segir, að líkt og hér séu alltaf einhverjir, sem finni eldinu allt til foráttu í Noregi.  

"Engin atvinnuþróun verður án þess, að það kosti eitthvað í samfélaginu.  Okkar reynsla er, að fiskeldi sé þó sú grein, sem skapi hvað minnsta truflun í kringum sig", segir hann.  "Þó að talið sé, að eldið sé til óþurftar fyrir villtu laxveiðina, þá er samt sem áður staðreyndin sú, að gotstærð allra villilaxastofna er sú sama og fyrir 30-40 árum.  Ef áhrif eldisins eru einhver, þá eru þau a.m.k. ekki mikil, þegar á heildina er litið."  [Undirstr. BJo.]

Í Troms eru fiskar ræktaðir í sjókvíum og landeldi enn ekki hafið.  "Fyrsta landeldisstöðin er rétt að byrja og verður væntanlega komin í gagnið á næsta ári."

Lætin í veiðiréttarhöfum villtra laxa o.fl. eru stormur í vatnsglasi, þegar litið er til þess, að til að hafa einhver (neikvæð) áhrif á erfðaeiginleika villtra íslenzkra stofna þarf strok úr kvíum hér við land að vera margfalt á við það, sem búast má við úr sjókvíaeldi því, sem leyft er samkvæmt áhættumati Hafrannsóknarstofnunar, og standa samfellt yfir í á annan áratug.  Það er reyndar nægilega ólíklegt til þess að líklegt má telja, að áhættumatið hérlendis teygi sig fljótlega upp í burðarþolsmörk viðkomandi fjarðar.

Málflutningurinn um hættuna á erfðabreytingum íslenzkra laxastofna tekur á sig fjarstæðukennda mynd, þegar þess er gætt, að sumir handhafar veiðiréttinda á laxi hafa stundað "kynbætur" í nokkrum ám með íslenzkum laxi af öðrum stofnum.  Þá er virðingin fyrir margbreytileika íslenzkra laxastofna farin veg allrar veraldar.

Hvernig hafa íslenzk yfirvöld hlúð að þessum vaxtarsprota íslenzks atvinnulífs ?  Um það mátti lesa í greininni,

"Auðlindagjald frá áramótum": 

Gunnar Davíðsson, sem mikla reynslu hafur af starfsemi fiskeldisfyrirtækja í Noregi, lagði áherzlu á það í ofannefndu viðtali, að íslenzk yfirvöld yrðu að hlúa að þessum íslenzka atvinnusprota, á meðan hann er að komast á legg.  Því virðast þau því miður ekki alls kostar fús til að fylgja vegna varasamrar skattagríðar sinnar.  Fyrir hönd eldisfyrirtækjanna eru höfð uppi varnaðarorð við því, að yfirvöldin fari offari:

"Fyrstu árin fellur til mikill kostnaður við margvíslega fjárfestingu og uppbyggingu á lífmassa.  Á þessum tíma greiða fyrirtækin þó í Umhverfissjóðinn; á næsta ári [2020] 66 % hærra gjald en í ár.  Slík gjaldtaka bitnar því hlutfallslega þyngra á fyrirtækjum á uppbyggingarskeiði."

Stofn þessa gjalds í Umhverfissjóð eru útgefin leyfi óháð eiginlegri framleiðslu.  Þess háttar skattheimta hvetur vissulega til hámarksnýtingar á eldissvæðinu, sem leyfin (starfs-og rekstrarleyfi) taka til, en  vafamál er, að slíkt sé hlutverk yfirvalda.  Þessu gjaldi ætti þess vegna að þrepskipta eftir fjölda fiska í eldiskvíum sem hlutfall af hámarks leyfilegum fjölda.

Hitt gjaldið er auðlindagjald í Fiskeldissjóð og er það háð massa slátraðs fiskjar á ári og "meðaltali alþjóðlegs markaðsverðs á Atlantshafslaxi frá ágúst til október næst fyrir ákvörðunardag". 

"Þegar fyrirtækin eru komin á þá stöðu að fullnýta leyfi, og hinn nýi, sértæki skattur á fiskeldisfyrirtæki, er að fullu kominn til framkvæmda, má ætla, að sérstök skattheimta ríkisins á fiskeldisfyrirtæki nemi um 27 ISK/kg, staðhæfir SFS.  "Þá er ótalin önnur almenn skattheimta á atvinnurekstur auk margs konar gjaldheimtu sveitarfélaga, sem í ýmsum tilvikum er verulega umfram það, sem þekkist í ýmsum samkeppnislöndum okkar.  

Það gefur auga leið, að skattheimta af þessu tagi mun hafa áhrif á rekstur fyrirtækjanna, samkeppnishæfni þeirra á alþjóðlegum mörkuðum og getu þeirra til fjárfestinga til lengri og skemmri tíma."

Ísland er hákostnaðarland í alþjóðlegu samhengi, og þess vegna verða stjórnvöld að ganga sérstaklega hægt um gleðinnar dyr, þegar kemur að hlut þeirra við að bæta við kostnað fyrirtækja með sértækri skattheimtu.  Þegar tekið er tillit til byrða af bæði Umhverfissjóði og Fiskeldissjóði fyrir fiskeldisfyrirtækin, má ætla, að þessi sértæku gjöld muni nema meiru en 5 % af framlegð fyrirtækjanna og verða þess vegna afar íþyngjandi. Á sama tíma er fyrirtækjunum þröngur stakkur skorinn m.v. samkeppnisaðilana. Fyrirtækjunum er þess vegna nauðsynlegt að fá leyfi til að auka framleiðslu sína og þar með framleiðni upp að burðarþolsmörkum fjarðanna, þar sem þessi starfsemi á annað borð er leyfð, nema skýrar niðurstöður áhættugreiningar Hafrannsóknarstofnunar setji fiskafjölda eða lífmassa frekari skorður.  Núverandi niðurstöður um Ísafjarðardjúp eru t.d. ekki skýrar.

 

 

 


Íslenzkur sjávarútvegur er grundvöllur velmegunar í landinu

Af nýlegri umræðu um fiskveiðistjórnunarkerfið íslenzka mætti ætla, að sumir stjórnmálamenn líti á sjávarútveginn sem leikvöll sinn (eða kannski vígvöll ?). Sporin hræða mjög í þeim efnum.  Affarasælla er að líta á sjávarútveginn, veiðar, vinnslu og markaðssetningu, sem vettvang einkaframtaks, sem hafi það hlutverk að hámarka sjálfbæra atvinnusköpun um allt land og sömuleiðis að hámarka verðmætasköpun úr lífríki hafsins. 

Sjávarútveginum er spáð miklum vexti, en rekstur hans er reyndar undirorpinn meiri óvissu en rekstur flestra greina, því að afkoman veltur að miklu leyti á duttlungum náttúrunnar, og þróun lífríkis hafsins getur tekið óvænta stefnu í nánustu framtíð, eins og reyndar oft áður. 

Í "Á bak við yztu sjónarrönd", riti útgefnu af "Íslenzka sjávarklasanum", eru samt settar fram spár um aukningu veltu veiða og vinnslu úr mrdISK 300 árið 2019 í mrdISK 444 árið 2029 (48 % aukning á 10 árum) og í mrdISK 657 árið 2039 (119 % aukning á 20 árum).  Hvernig er þessi bjartsýna spá rökstudd ?

Til að skýra það skal vitna í 200 mílur Morgunblaðsins, 4. desember 2019:

"Þór Sigfússon er stofnandi íslenzka sjávarklasans og einn af höfundum ritsins.  Hann segir vöxt í veiðum og vinnslu m.a. skýrast af því, að vænta má verulegra hækkana á fiskverði á komandi áratugum í takti við fólksfjölgun í heiminum og vaxandi kaupmátt neytenda í öllum heimshlutum.  Þá megi reikna með, að íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki láti að sér kveða erlendis og taki t.d. þátt í verkefnum af ýmsum toga í Evrópu og Bandaríkjunum.  Sjávarklasinn spáir hins vegar hlutfallslega meiri vexti í fiskeldi og áætlar, að þar aukist veltan nærri sautjánfalt á næstu 20 árum."

Í fyrra hækkaði fiskverð erlendis á mörkuðum íslenzkra fyrirtækja meira en sem nemur fólksfjölgun og hækkun kaupmáttar þar.  Það eru fleiri kraftar en þessir, sem styðja við spádóm Sjávarklasans. Í fyrra gekk mikil svínapest, og skáru Kínverjar niður meira en helming síns svínastofns.  Þeir herða ekki sultarólina að sama skapi, heldur auka innflutning á matvælum, ekki sízt fiskmeti, enda hefur það jákvæða umhverfisímynd og hollustuyfirbragð.  Ekki er ólíklegt, að kolefnisspors vottaðra matvæla verði getið á umbúðum eða í kjöt- og fiskborðum verzlana, og þar mun fiskmetið standa sterkt að vígi í samanburði við margt kjötmeti. Á sama tíma fer framboð villts fiskmetis þverrandi vegna breytinga í hafinu og ofveiði. Afli fiskveiðiflota ESB-ríkjanna minnkaði 2019 m.v. 2018, en eftirspurnin jókst, svo að dæmi sé tekið.  Þetta olli yfir 30 % verðhækkun í evrum talið.  Það er mjög mikið á einu ári og mun ganga til baka, ef framboðið nær fyrri mörkum. 

Sjávarútvegurinn er stundaður út frá útgerðarstöðum í öllum landshlutum hérlendis.  Vöxtur og viðgangur hans mun efla landsbyggðina, góðu heilli, og styrkja jafnframt viðskiptajöfnuð landsins, gengi ISK og þar með hag allra landsmanna.  Dreifing veltunnar er um allt þjóðfélagið, eins og Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, gaf ágætt yfirlit um að gefnu tilefni í grein í Fréttablaðinu, 10. janúar 2020, sem hét:

"Slóð makrílmilljarða rakin".

Þar vísar hann í Fréttablaðsgrein sína 18. desember 2019, þar sem hann áætlaði, "að meðalverð hvers útflutts kílós af makríl hefði numið 130 kr/kg."  Síðan segir:

"Sé skattspor KPMG fyrir Vinnslustöðina yfirfært á íslenzkan sjávarútveg í heild, er skipting útflutningsverðmætis makríls [árin 2006-2018] sýnd í töflu, sem greininni fylgir."

Töfluna birti Sigurgeir til að sýna, að Kári Stefánsson, læknir og frumkvöðull á sviði erfðavísinda, óð reyk, er hann illkvittnislega sáði fræjum tortryggni í garð útgerðarmanna og vændi þá um að stela  frá íslenzka þjóðarbúinu, eins og eftirfarandi tilvitnun í grein Sigurgeirs Brynjars sýnir: 

"Kári birti hér í Fréttablaðinu grein 3. desember [2019] undir fyrirsögninni Landráð ? og taldi líklegt, að útgerðarmenn hefðu stolið 300 milljónum króna af verðmæti makríls af íslenzkri þjóð.  Ég sýndi fram á það með rökum hér á sama vettvangi 18. desember, að sú þjófnaðarkenning stæðist enga skoðun." 

Þeir, sem slá sér á brjóst, uppfullir af heilagri vandlætingu yfir framferði útgerðarmanna og ýja jafnvel að landráðum í því sambandi án þess að hafa krufið málin til mergjar, eru greinilega í einhvers konar krossferð gegn núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og telja sig um leið koma höggi á hóp útgerðarmanna, sem þeir meðhöndla sem þjóðaróvini og sérhagsmunaseggi. Hér er verið að draga upp útlínur sýndarveruleika, sem ætlað er að gagnast í áróðursstríði, en mun hitta þessa ofstækisfullu hatursmenn fiskveiðistjórnunarkerfisins fyrir sem bjúgverpill, þegar þeir verða krafðir um valkostina. Að því verður vikið betur í þessum vefpistli, en næst er að skoða makríltöflu Sigurgeirs Brynjars:

  •                mrdISK   %    Skipting 130 ISK/kg
  • Alm. rekstrark.   88   44      57
  • Laun starfsf.     37   18      24
  • Skattar & lífsj.  47   24      31
  • Afkoma VSV        17    9      11
  • Fjármögnun        10    5       7
  • _______________________________________________
  • Samtals          200  100     130     
 
Stærsti liðurinn, almennur rekstrarkostnaður, er orkukostnaður, kostnaður viðhalds og viðgerða, löndunarkostnaður og útflutningskostnaðurn, nemur 44 %. Næst stærsti útgjaldaliðurinn fer til hins opinbera og samtryggingar okkar í lífeyrissjóðunum, 24 %, og þá koma laun starfsmanna, 18 %. Sá liður, sem hælbítar útgerðarmanna fjargviðrast mest út af, án þess að hafa vit á útgerð, er afkoman.  Hún er í þessu tilviki 11 ISK/kg af þessum 130 ISK/kg, sem fengust að jafnaði fyrir makrílinn, eða 9 %. Hún gengur til afborgana af lánum, til nýfjárfestinga og til arðgreiðslu.  Með sanngirni og samanburði við fyrirtæki utan sjávarútvegs er ekki hægt að halda því fram, að 9 % sé hátt hlutfall fyrir allt þetta.
 
Þetta sýnir, að það er engin auðlindarenta í þessum makrílveiðum.  Þá væri afkoman betri en í öðrum greinum atvinnulífsins.  Það er eins og mörgum finnist útgerðarmenn vera forréttindastétt, sem græði óeðlilega á eign þjóðarinnar, aflahlutdeildum í nytjastofnum við Ísland, sem þeir hafi þegið að gjöf frá ríkinu.  Allt er þetta öfugsnúið í meira lagi, því að útgerðarmenn hafa fjárfest í dýrum búnaði til að nýta stofnana, og langflestir þeirra hafa keypt þessar aflahlutdeildir á frjálsum markaði. Ríkið getur ekki hirt þær af þeim si svona á pólitískum forsendum. Það væru kommúnistískir stjórnarhættir.
Þeir gerðu, það sem ríkisvaldið ætlaðist til af þeim á sinni tíð, kvóti gekk kaupum og sölum og útgerðarmönnum og fiskiskipum fækkaði, svo að hallarekstri var snúið í hagnað í sjávarútveginum sem heild.
Íupphafi (1983) var aflahlutdeildum úthlutað á grundvelli veiðireynslu til þeirra, sem þá stunduðu útgerð. Þetta var aðferð, sem Alþingi samþykkti eftir mikla umfjöllun.  Enginn á óveiddan fisk í sjó, en íslenzka ríkið hefur hins vegar óskoraðar stjórnunarheimildir og gjaldálagningarheimildir á miðunum samkvæmt fiskveiðistjórnunarlögunum og hefur góðu heilli falið Hafrannsóknarstofnun ráðgjöfina og fylgt henni í seinni tíð, en verið ærið mislagðar hendur með gjaldaálagninguna og fjármögnun Hafró. Er ámælisvert, að fjármögnun Landhelgisgæzlunnar og Hafrannsóknarstofnunar skuli skuli vera ábótavant þrátt fyrir nægt fé fyrir veiðileyfin frá útgerðunum til að fjármagna þessar grundvallar stofnanir sómasamlega.   
 
Lok tilvitnaðrar greinar Sigurgeirs Brynjars voru þannig:
""Skylt er að hafa það heldur, er sannara reynist", sagði Ari fróði forðum.  Hér liggur sem sagt fyrir gróflega áætluð skipting tekna af makrílveiðum Íslendinga.  Á grunni talna, en ekki sögusagna eða rakalausra fullyrðinga, geta nú Kári Stefánsson og aðrir rökrætt, hvað teljist "sanngjarn hlutur" hvers og eins.  Þá vænti ég þess, að áframhaldandi blaðaskrif hans byggist á þeirri vísindalegu aðferðafræði, sem fleytt hefur honum í hóp færustu vísindamanna heims."
 
 Á það hefur skort, að gagnrýnendur sjávaútvegsins íslenzka bentu á fýsilegri kosti en núverandi kvótakerfi. Á meðan sú staða er uppi, missir gagnrýnin marks. Þar eru mest áberandi gamlar lummur og afdankaðar stjórnunaraðferðir fyrir þessa mikilvægu auðlind. Allt er þetta óboðlegt.  Aðallega er bent á tvær aðferðir:
  1. Að færa byggðunum (sveitarstjórnum, bæjarstjórnum) kvótann.  Kerfi bæjarútgerða var aflóga, þegar kvótakerfið var samþykkt á Alþingi 1983.  Bæjarútgerðir voru reknar með dúndrandi tapi, enda hvernig á annað að vera ?  Það er ekki hægt að ætlast til þess, að stjórnmálamenn hafi meira vit á útgerð en meðallandkrabbi.  Að setja slíkt fólk yfir útgerðirnar er ávísun á ófaglegan, óskynsamlegan og óskilvirkan rekstur, sem mun enda sem baggi á byggðarlögunum og þjóðhagslegt tap upp á tugi milljarða ISK á ári hverju. Það tap er af slíkri stærðargráðu, að það mun verða dragbítur á hagvöxt og rýra lífskjör allra landsmanna til muna.  
  2. Uppboðskerfi veiðiheimilda.  Samfylking og Viðreisn hafa talað fyrir þessu kerfi á Alþingi, en hætt er við, að ESA-Eftirlitsnefnd EFTA með framkvæmd EES-samningsins muni krefjast þess, að slíkt uppboð fari fram á öllum EES-markaðinum, eins og krafan hljómar frá ESA/ESB um uppboð virkjanaleyfa fyrir vatnsorkuver innan EES.  Sannleikurinn er sá, að þetta fyrirkomulag hefur alls staðar gefizt illa, þar sem það hefur verið reynt, og það hefur verið aflagt eftir misstuttan tíma, þar sem það hefur leitt til samþjöppunar, þ.e. fækkunar útgerða, og aukinnar skammtíma hugsunar fyrirtækjanna, sem hafa veikzt og orðið að minnka nauðsynlegar fjárfestingar í nýjustu tækni.  Dæmi eru Eistland og Rússland og nú síðast Færeyjar.  Hér að neðan er byrjun á frétt úr Fiskifréttum, 9. janúar 2020:

"Færeyingar hætta að bjóða upp kvóta":

 

"Veiðiheimildir hafa að hluta verið boðnar upp á opinberum markaði í Færeyjum undanfarin ár.  Frá þeirri leið verður nú horfið.

Færeyska lögþingið samþykkti stuttu fyrir áramót breytta fiskveiðistjórnunarlöggjöf.  Þar er m.a. fallið frá uppboðsleiðinni, en hún fól í sér, að 15 % uppsjávarkvóta og 15 % botnfiskkvóta í Barentshafi hafa verið boðin upp á opinberum markaði.

Áfram verður sóknardagakerfi í gildi um botnfiskveiðar í færeyskri lögsögu, en veiðileyfakerfið notað sem fyrr í uppsjávarveiðum og veiðum á fjarlægum slóðum."

Sjávarútvegi, eins og öðrum atvinnugreinum, hlýtur að vera bezt fyrir komið þannig, að verðmætasköpun hans með sjálfbærum hætti verði í hámarki.  Þannig verður hagur landsmanna sjálfra bezt tryggður. Til að réttlæta umbyltingu stjórnkerfis, sem í heildina hefur reynzt vel og er horft til sem fyrirmyndar sums staðar erlendis, þarf að sýna fram á yfirburði annars kerfis með gildum rökum og helzt vitna til reynslu annarra.  Erlendis er slík fyrirmynd ekki til, enda hefur engum tekizt að sýna fram á, að annað fyrirkomulag hérlendis en núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi sé þjóðhagslega hagkvæmara. 

Hópur manna stendur á hliðarlínunni og hrópar, að skipting teknanna af sjávarútvegsfyrirtækjum sé ósanngjörn.  Dæmið hér að ofan um makrílinn bendir ekki til, að svo sé, en sínum augum lítur hver á silfrið.  Þegar stjórnmálamenn fara að krukka í tekjuskiptinguna, er sú afskiptasemi oftast til bölvunar, þ.e. til þess fallin að draga úr verðmætasköpun greinarinnar og þar með úr hagvexti á landsvísu í tilviki sjávarútvegsins.

Dæmi um þetta er s.k. veiðileyfagjald.  Hugmyndafræðin að baki því er, að fyrirtæki, sem sækja hráefni í greipar náttúrunnar, búi við minni tilkostnað en hin, sem kaupa hráefni sitt á markaði, og þess vegna verði hagnaður hinna fyrrnefndu meiri en hinna, sem þá þurfi að jafna (með skattheimtu) til að gæta réttlætis.  Mismuninn, s.k. auðlindarentu, eigi ríkisvaldið með öðrum orðum rétt á að hirða. Gallinn við þessa kenningu er tvíþættur:

  Hún er fjarri því að vera algild, og t.d. hefur, að því bezt er vitað, enn engum tekizt að sýna fram á auðlindarentu í íslenzkum sjávarútvegi, og styður makríldæmið hér að ofan þá ályktun, að hún sé þar ekki fyrir hendi.  Þá virkar auðlindagjald á sjávarútveginn sem hver önnur viðbótar skattheimta, og slík dregur alltaf úr verðmætasköpun og nýsköpunarkrafti og veikir samkeppnishæfnina í bráð og lengd um fé, fólk og markaði.  Það er vegna þess, að fjárfestingargeta fyrirtækjanna minnkar með aukinni skattheimtu, og þar með hægir á tækniþróun, sem er grundvöllur aukinnar skilvirkni á öllum sviðum, og fyrirtækin eiga á hættu að dragast aftur úr samkeppnisaðilunum.

Hinn gallinn við auðlindagjald á íslenzka sjávarútveginn er einmitt sá, að það tíðkast yfirleitt hvergi, nema á Íslandi og í Færeyjum, heldur þvert á móti nýtur sjávarútvegur víðast hvar ríkisstyrkja á mismunandi formi, meira að segja í Noregi, sem Ísland keppir við á ýmsum fiskmörkuðum. Stærstu útgerðarfyrirtæki Noregs eru þó talsvert stærri en þau stærstu hérlendis, enda má aflahlutdeild þeirra í hverri tegund verða hlutfallslega meira en tvöfalt stærri (25 %) en hér (12 %), og í heildina eru umsvif (velta) norsks sjávarútvegs a.m.k. þreföld á við umsvif hins íslenzka.  

Að tala, eins og sumir stjórnmálamenn tala hér um veiðileyfagjaldið, að það sé sérstakt réttlætismál fyrir landsmenn í ljósi fiskveiðistjórnunarlaganna að hækka gjaldið verulega, er í raun ekkert annað en að saga í sundur greinina bolmegin við okkur öll, sem á henni sitjum.  Talið er helbert lýðskrum, sem auðvelt er að sjá í gegnum.

 

 

 

 


Mörgu er logið í nafni umhverfisverndar

Komið hefur fram, að margir hinna voveiflegu gróðurelda í Ástralíu í vetur (2019-2020) eru beinlínis af mannavöldum, þ.e. brennuvargar hafa kveikt þá.  Gríðarlegur eldsmatur er þarna, af því að græningjar hafa lagzt gegn grisjun og hreinsun, sem þó hefur verið stunduð frá landnámi þarna, og frumbyggjarnir notuðu þetta sem ráð til að draga úr eldhættunni, því að hún er síður en svo ný af nálinni.  Úrkoman í Ástralíu hefur verið lotubundin, og nú er hún í lágmarki, svo að hættan er í hámarki.  Þar sem eldar geisa í þjóðgörðum Ástralíu eiga slökkviliðsmenn í miklu meiri erfiðleikum en áður, því að græningjar hafa fengið því framgengt, að miðlunarlón, sem þar voru, hafa verið tæmd.  Hvassviðri hefur svo gert eldana óviðráðanlega, en sem betur fer hefur rignt duglega í Ástralíu undanfarna sólarhringa, þar sem eldar hafa verið hvað hræðilegastir. 

Græningjar kenna auknum styrk koltvíildis í andrúmsloftinu um ófarirnar, því að CO2 skermi varmaútgeislun jarðar og valdi þar af leiðandi hlýnun lofthjúpsins.  Því er svarað með því, að þessi útgeislun sé á bylgjulengdarsviðinu 8-12 míkrón, og gastegundin CO2 sjúgi ekki í sig orku á því sviði.  Græningjar hafa jafnvel verið sakaðir um að kveikja í til að æsa til reiði í garð þeirra, sem mest losa af CO2, og Ástralir sjálfir hafa vissulega frekar dregið lappirnar við að draga úr losun. Minnir þetta óhugnanlega á bruna Reichstag 1934, sem Adolf Hitler, kanzlari, notaði sem átyllu til að sölsa undir sig forsetaembætti Þýzkalands og þar með æðstu stjórnun hersins, og varð þannig einvaldur. Ekkert slíkt vofir yfir Ástralíu.

Þann 9. janúar 2020 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Guðna Ágústsson, fyrrverandi Alþingismann og ráðherra, sem hann nefndi:

"Hamfarahlýnun - Dómsdagur eða blekking".

Af greininni má ráða, að hann sé efasemdarmaður um "hamfarahlýnun" og vitnar sér til halds og trausts til hins erna öldungs og veðurspámanns Páls Bergþórssonar, eins og síðar verður getið í pistlinum.  Framarlega í greininni gerir hann ofstæki "koltvíildissinna" að umræðuefni:

"Í umræðunni eru efasemdarmenn, sem einnig styðjast við vísindalegar forsendur, sagðir falsspámenn, og um þá marga er rætt sem boðbera fáfræðinnar.  Ef þú vilt hafa frið, ferðu í umræðuna með kór "rétttrúnaðarins" og velur þér að gráta og fylgja fjöldanum og fullyrðingunni um, að jörðin farist innan 30 ára og hamfarirnar séu manninum einum að kenna."

Það er ekki vænlegt til árangurs að reka trippin með þessum hætti, enda er árangur fjölda blaðurráðstefna nánast enginn, og engin samstaða þjóða heims í nánd, af því að boðskapurinn um afleiðingar aukins styrks koltvíildis í andrúmsloftinu er ótrúverðugur, enda reiknilíkön IPCC eðlilega enn í mótun, þar sem flækjustigið er gríðarlegt. Samstaða þjóða heims er þó skilyrði fyrir árangri við að draga úr styrk koltvíildis í andrúmsloftinu.  Þar er ógnarlangt í land, og fundahöld og ráðstefnur um málið farsakennd. Guðni vitnar í Pál Bergþórsson, fyrrverandi veðurstofustjóra: 

"Ég vil taka undir hógvær orð, sem Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, setti inn á "Fasbókina" sína, en Páll er dáður af þjóð sinni sem rökfastur og stilltur maður í öllum boðskap.  Páll segir: "Hamfarahlýnun jarðar er vonandi markleysa".  Svo rakti hann fjölgun mannkynsins úr 2 milljörðum árið 1950 í 8 milljarða árið 2020. Með sömu þróun væri mannfjöldinn orðinn 14 milljarðar árið 2090.  Og 20 milljarðar árið 2160."

Páll Bergþórsson er vel að sér í veðurfarslegum efnum, og það segir mikla sögu um veikan fræðilegan grundvöll kenningarinnar um "hamfarahlýnun" af mannavöldum, að "nestor" veðurfræðinga hérlendis telur mestar líkur á, að hún sé "markleysa".  Þá er nú engin furða, þótt minni spámenn í þessum fræðum kokgleypi ekki allan "bolaskítinn" frá IPCC og áhangendum. Það þarf ekki annað til en hlutfallslega minna af nýju koltvíildi stigi upp í efstu lög lofthjúpsins ("stratosphere") til að gróðurhúsaáhrif lofttegundarinnar verði minni en IPCC reiknar með. 

Hlýnun frá "Litlu ísöld", sem lauk um 1900, er sem betur fer staðreynd, en enginn veit, hversu mikil hún verður.  Hvers vegna varð "Litla ísöld" ?  Jörðin er nú við lok 10 þúsund ára hlýindaskeiðs, og á næstu 10 þúsund árum verður sennilega mikil kólnun. Málflutningurinn um "hamfarahlýnun" er mjög orðum aukinn. Það er ekki þar með sagt, að óskynsamlegt sé að minnka og að lokum losna við bruna jarðefnaeldsneytis áður en þær orkulindir þrýtur, enda fylgja þeim ýmsir ókostir, en það er ekki sama, hvernig það er gert, sbr vindmyllufárið.  

Það er þegar tekið að hægja mjög á fjölgun mannkyns þrátt fyrir minnkandi barnadauðsföll.  Minni viðkoma fylgir bættum efnahag, en örsnauðum í heiminum hefur fækkað mikið á síðastliðnum 40 árum, og er miklum vestrænum fjárfestingum í "þriðja heiminum" þakkaðar hækkandi tekjur þar, þótt sú jákvæða þróun hafi nú stöðvazt um sinn á meðan "merkantílismi" (kaupauðgistefna) tröllríður húsum tímabundið.

  Það er hægt að taka undir boðskap Guðna um mikilvægi dyggðugs lífernis og virðingar fyrir náttúrunni í umgengni við hana.  Það er þó algjör misskilningur hjá græningjum, að sú virðing verði aðeins sýnd með því að snerta hana ekki.  Hófsemi er hinn gullni meðalvegur í þessum efnum sem öðrum. "Að nýta og njóta." Guðni skrifar:

"Verkefnið er hins vegar eitt: að bjarga jörðinni fyrir komandi kynslóðir.  Mikilvægt er að brauðfæða og mennta allt fólk jarðarinnar og framleiða matinn sem næst hverjum munni.  Í því sambandi ber að minna á, að landbúnaðarvörurnar framleiðist hér heima, en komi ekki til okkar erlendis frá með flugvélum.  Draga þarf úr öllu bruðli og muna, að sjórinn tekur ekki endalaust við.  Þetta er verkefni hverrar fjölskyldu, atvinnulífsins og ríkisstjórna þjóðanna.  En stærsti sigurinn mun vinnast, ef Sameinuðu þjóðirnar koma sér saman um markvissar reglur og þeim verði fylgt."

Ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna hefur hingað til mistekizt að komast að samkomulagi t.d. um jafnháa gjaldtöku af koltvíildislosun um alla jörð.  Ef þessi skattheimta er ólík, flýja fyrirtæki með mikla losun, þangað sem hún er lægri.  Þetta er s.k. kolefnisleki.  Það er svo misjöfn efnahagsleg staða þjóða heimsins, að vel skiljanlegt er, að sameiginlegt samkomulag sé ekki í augsýn um skilvirkar aðferðir, sem innleiða þarf til að draga úr koltvíildislosun með skilvirkum hætti.

Ríkar þjóðir hafa varið háum fjárhæðum til að koma upp hjá sér "vistvænni" raforkuvinnslu, og þar hefur mest borið á fjárfestingum í vindorkuverum og sólarhlöðum. Í Danmörku eru t.d. um þessar mundir um 6100 vindmyllur, sem framleiða 13,9 TWh/ár, um 60 % af raforkuvinnslu Íslands.

Það gleymist í írafári umhverfisumræðunnar að taka kolefnisspor og mengun við framleiðslu á þessum "grænu" orkubreytum með í reikninginn. Sem dæmi má taka 2,0 MW vindmyllu.  Í henni eru um 250 t af stáli, og það fara um 125 t af kolum í að framleiða þetta stál.  Við framleiðslu sementsins í undirstöðuna þarf ekki minna en 25 t af kolum að jafnaði.  Þessi 150 t 

  
  
  

kola á hverja vindmyllu mynda a.m.k. 450 t CO2, sem fara út í andrúmsloftið.  

Vindmylla þarf um 200 sinnum meira af hráefnum per uppsett MW en nútímalegt samtvinnað raforku- og fjarvarmaver með orkunýtni yfir 50 %. Nýting uppsetts afls vindmyllu er lélegt eða um 28 % að jafnaði á landi í heiminum (betri úti fyrir ströndum).  Kolefnisspor vindmyllna á MW, svo að ekki sé minnzt á GWh/ár vegna lélegrar nýtingar, er tiltölulega hátt og þetta val á orkugjafa til að draga úr koltvíildislosun er þess vegna sérlega óheppilegt. Miklu nær er að reisa kjarnorkuver í stað kolaorkuvera eða jafnvel gasorkuver sem millibilslausn, en þrýstihópar kolanámanna hafa haft sitt fram, nema á Bretlandi, þar sem síðasta kolaorkuverinu verður lokað 2025. Í Þýzkalandi var hins vegar nýlega gangsett eitt stærsta kolaorkuver þar í landi, 1 GW að rafafli. Öruggari kjarnorkuver eru í þróun, t.d. s.k. saltlausnarkjarnakljúfur.

Út frá orðum Guðna hér að ofan er það bruðl með hráefni jarðar að nýta þau á svona óskilvirkan hátt fyrir raforkuvinnslu með vindmyllum.  Frá umhverfislegu sjónarmiði er miklu nær að reisa í staðinn gasorkuver, þangað til tæknin býður upp á notkun öruggrar kjarnorku, t.d. með kjarnakljúfum fyrir frumefnið þóríum.  Á Íslandi er umhverfisvænst og hagkvæmast að reisa vatnsorkuver, og jarðgufuver koma þar á eftir, vissulega með miklu lægra kolefnisspori en vindorkuver á hvert MW eða MWh/ár.  Þetta þarf að hafa í huga, þegar kemur að endurmati á virkjanakostum í biðflokki Rammaáætlunar.  Auðvitað á að afgreiða Rammaáætlun á Alþingi á undan frumvarpi um allsendis ótímabæran og reyndar óþarfan hálendisþjóðgarð, sem er ekki til annars en að þenja út ofvaxið ríkisbákn, sem ræður reyndar ekki við verkefni sín þrátt fyrir skattheimtu í hæstu hæðum í alþjóðlegum samanburði. Formaður umhverfis- og auðlindanefndar Alþingis hefur rétt fyrir sér um þessa verktilhögun.   

Í Morgunblaðinu birtist 10. janúar 2020 lítil frétt undir eftirfarandi fyrirsögn:

"Vilja beizla vind á Laxárdalsheiði":

Hún hófst þannig:

"Áform eru um að reisa vindorkugarð í landi Sólheima í Dalabyggð, og gætu 27 vindmyllur risið á svæðinu í tveimur áföngum með hámarksafköst upp á 115 MW.  Fyrirtækið Quadran Iceland Development ehf. hefur lagt fram tillögu til Skipulagsstofnunar að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum vindorkugarðsins.

Samkvæmt matstillögu er verkefninu við Sólheima skipt í tvo áfanga.  Í þeim fyrri yrðu 20 vindmyllur með hámarksafköst upp á 85 MW. Í öðrum áfanga 7 vindmyllur til viðbótar með hámarksafköst upp á 30 MW.  Áfangi 2 yrði í biðstöðu, þar til afkastagetan næst í raforkukerfinu [svo ?]. 

 Hér er um að ræða fremur stórar vindmyllur m.v. stærðir, sem oft hefur verið minnzt á í umræðunni hérlendis, eða 4,25 MW, og er það út af fyrir sig ánægjuefni vegna minni landþarfar á MW, en slíkur "vindmylluskógur" mun sjást úr 40-50 km fjarlægð, því að líklega munu spaðar ná 180 m yfir undirstöðu súlunnar og hver vindmylla þurfa um 0,25 km2.  Sé þetta nærri lagi, þá er landnýting Fljótsdalsvirkjunar (aðallega Hálslón) 35 % betri en Sólheimavindorkugarðsins í GWh/ár/km2, og landnýting virkjananna neðan Þórisvatns reyndar margfalt betri; landnýting jarðgufuvirkjananna er líka betri en vindorkugarðsins.  Spurningin er, hvað rekur menn á Íslandi til að setja tiltölulega mikið land undir vindmyllur í km2/MWh/ár ?

  1. Ekki er það umhverfisvernd, því að kolefnisspor við framleiðslu og uppsetningu vindmyllna er stórt m.v. orkuvinnslugetu þeirra í GWh/ár í samanburði við virkjanir á Íslandi úr þeim tveimur "endurnýjanlegu" orkulindum, sem nýttar eru nú þegar á Íslandi að einhverju ráði.  Hráefnanotkun er tiltölulega mikil og skilar litlu til umhverfisins á endingartímanum. Þá hefur verið bent á hættuna, sem fuglum stafar af spöðunum.  Örninn flýgur e.t.v. hærra en spaðarnir ná, en samt berast fréttir frá Noregi af mjög mörgum dauðum örnum í grennd við vindmyllur, þar sem er arnarvarp í grennd.  Þá kemur lágtíðnihljóð frá vindmyllum, sem er bæði óþægilegt og er talið heilsuskaðlegt fyrir íbúa til lengdar innan 2 km frá vindmyllum.  Því er haldið fram, að í segla vindmyllurafala fari sjaldgæft efni, sem grafið sé upp í Innri-Mongólíu og með því fylgi geislavirk og eitruð efni.  Gera þarf grein fyrir þessu í umhverfismati, ef það á að vera vandað.  
  2. Er afl- eða orkuskortur skýring á vindmylluáhuga hérlendis ? Hvort tveggja gæti verið í vændum á Íslandi á næstu árum, af því að markaðinum hefur verið afhent forsjá orkumálanna með innleiðingu löggjafar Evrópusambandsins (ESB) á þessu sviði, en hún virkar illa hér, af því að hún er ekki hönnuð fyrir raforkumarkað af því tagi, sem hér er.  Því fyrr sem stjórnvöld átta sig á þessu, þeim mun betra fyrir alla aðila, vegna þess að orkuöryggi hefur nú verið viðurkennt að falla undir þjóðaröryggi, og fyrir því eru ríkisstjórn og Alþingi ábyrg.  Ekki er hægt að reiða sig á vindmyllur í aflskorti, þar sem þær gefa aðeins frá sér fullt afl talsvert minna en 3 sólarhringa vikunnar, og stöðva verður þær í hvassviðri og ísingarveðri.  Hins vegar er vissulega unnt að spara dálítið vatn í miðlunarlónum með því að kaupa af þeim raforku inn á stofnkerfið. Sólheimavindorkuverið ætti t.d. að geta framleitt 380 GWh/ár, ef/þegar það nær fullum afköstum.  Þetta er um 2,5 % af orkuvinnslugetu núverandi vatnsorkuvera landsins, og má um það segja, að allt er hey í harðindum, en dýrt er það.
  3. Vindmyllur hafa orðið hagkvæmari í rekstri með tímanum.  Annað vindorkuver hefur verið á döfinni í Dalasýslu, og er það á Hróðnýjarstöðum við Búðardal.  Þar reiknaði höfundur vinnslukostnaðinn 53 USD/MWh, en við bætist tengikostnaður við stofnrafkerfi landsins.  Annaðhvort þarf að leggja jarðstreng frá Sólheimum að aðveitustöð Glerárskógum eða Hrútatungu, því að ólíklegt er, að Landsnet samþykki nýjan tengistað á Laxárdalsheiði.  Þetta verð frá orkuveri er ósamkeppnisfært á Íslandi sem stendur, og verður vonandi svo lengi, og þess vegna er vindorkugarður hér ekki góð viðskiptahugmynd.  Grundvöllur mikilla fjárfestinga í vindmyllugörðum í Noregi er orkusala inn á sæstrengi Statnetts. Góð viðskiptahugmynd, en óvinsæl, í einu landi, getur verið slæm í öðru landi, þótt þeim svipi saman. 

 

 


Öflugt orkukerfi grundvöllur vaxandi verðmætasköpunar

Það er til fyrirmyndar, að kunnáttumenn raforkufyrirtækjanna skrifi greinar í dagblöðin um stefnu þeirra og verkefni í fortíð, nútíð og framtíð, almenningi til glöggvunar á þessum mikilvæga málaflokki, sem snertir hag allra landsmanna.  Slíkt hefur Gnýr Guðmundsson, rafmagnsverkfræðingur og yfirmaður greininga hjá Landsneti, tekið sér fyrir hendur meðal annarra, og birtist ágæt grein hans:

"Hvernig bætum við afhendingaröryggi raforku á landsbyggðinni"

í Fréttablaðinu 7. janúar 2020.

Segja má, að tilefnið sé ærið, þ.e.a.s. langvarandi straumleysi á norðanverðu landinu vegna bilana í loftlínum og aðveitustöðvum vegna óveðurs 10.-12. desember 2019.

Gnýr telur lykilatriði að reisa nýja Byggðalínu með meiri flutningsgetu en sú gamla og að hýsa aðveitustöðvarnar.  Í þessu skyni ætlar Landsnet að reisa 220 kV línu á stálmöstrum í líkingu við nýju línuna frá Þeistareykjavirkjun að kísilverksmiðjunni á Bakka við Húsavík.  Hún þótti standa sig vel í jólaföstuóveðrinu í desember 2019, en þó þurfti að stöðva rekstur hennar í 3 klst til að hreinsa af henni ísingu næst sjónum.

Það var s.k. 10 ára veður á jólaföstunni, og það er ekki ásættanlegt fyrir neytendur, að meginflutningskerfið láti undan óveðri í tugi klukkustunda samfleytt á 10 ára fresti að meðaltali. Engin aðveitustöð í meginflutningskerfinu á að verða straumlaus lengur en 1,0 klst á ári vegna óvænt vegna bilunar. 

Á grundvelli margra ára ísingar- og selturannsókna Landsnets ætti fyrirtækið að geta veitt forsögn um hönnun styrkinga fyrir nýju Byggðalínuna, þar sem mest mæðir á vegna ísingar og vinds (samtímis).  Einnig er mikilvægt að hagnýta þekkingu á seltustöðum til að auka s.k. skriðlengd ljósboga yfir einangrunarskálarnar með því að velja skálar með stærra yfirborði en hefðbundnar skálar og að fjölga þeim eftir þörfum. Möstrin og þverslárnar þurfa að taka mið af þessu.  Fé er ekki vel varið í nýja Byggðalínu, nema hún tryggi viðunandi rekstraröryggi, einnig í 10 ára veðri, en við verðum hins vegar að búast við lengra straumleysi í 50 ára veðri og verra ásamt óvenjulegum jarðskjálftum og eldgosum. Á sumum stöðum (veðravítum) kann þá að vera þörf á hönnun lína m.v. 400 kV rekstrarspennu, eins og reyndar er í 5 220 kV línum á landinu og gefizt hafa vel.  Burðarþol og seltuþol þeirra er meira en venjulegra 220 kV lína.

Verður nú vitnað í grein Gnýs:

"Í kerfisáætlun má m.a. finna langtímaáætlun um nýja kynslóð byggðalínu.  Hún verður byggð úr stálmöstrum, sambærilegum þeim, sem byggð voru á NA-landi [Þeistareykjalínur-innsk. BJo], sem síður brotna þrátt fyrir ísingu, og mun hafa flutningsgetu, sem fullnægir þörfum landsins næstu áratugina. [Það er mikilvægt, að hægt verði án línutakmarkana að flytja orku á milli landshluta eftir Byggðalínu til að jafna stöðu í miðlunarlónum, því að innrennsli er misskipt í þau frá ári til árs eftir landshlutum - innsk. BJo.]

Þegar verkefninu verður lokið, verða virkjanakjarnar í mismunandi landshlutum samtengdir með fullnægjandi tengingum, og þannig minnka líkur á, að einstök svæði verði rekin í s.k. eyjarekstri og þar með í hættu á að verða fyrir straumleysi við truflun.  Einnig mun ný kynslóð byggðalínu gefa nýjum framleiðsluaðilum víða á landinu færi á að tengjast kerfinu og auka þannig skilvirkni og afhendingaröryggi enn frekar."

Með nýjum framleiðsluaðilum á Gnýr sennilega við smávirkjanir og vindmyllugarða, en hængurinn á tengingu þeirra er í mörgum tilvikum hár tengingarkostnaður vegna fjarlægðar.  Viðbótar kostnaðurinn lendir á virkjunaraðilum, en samkvæmt Orkupakka #4 á Landsneti. 

Það er brýnt að flýta framkvæmdum Landsnets frá því, sem miðað er við í núgildandi kerfisáætlun, þannig að ný 220 kV lína frá Klafastöðum (Brennimel í Hvalfirði) til Fljótsdalsvirkjunar verði tilbúin í rekstur fyrir árslok 2025. Til að hindra að sú flýting valdi hækkun á gjaldskrá Landsnets er eðlilegt, að arður af Landsvirkjun fjármagni flýtinguna.  Alþingismenn þurfa að beita sér fyrir þessu á vorþingi 2020, sjá tilvitnanir í tvo stjórnarþingmenn í lok pistils.

"En uppbygging meginflutningskerfis dugir ekki ein og sér til að tryggja afhendingaröryggi.  Samkvæmt stefnu stjórnvalda eiga allir afhendingarstaðir [Landsnets-innsk. BJo] í landshlutakerfum að vera komnir með tvöfalt öryggi eigi síðar en árið 2040 (N-1). 

Eins og staðan er í dag, eru þó nokkrir afhendingarstaðir í flutningskerfinu, þar sem ekki er um að ræða tvöfalt öryggi, m.a. á Norðurlandi, en einnig á Austurlandi, Vestfjörðum og á Snæfellsnesi.  Kerfisáætlun Landsnets hefur m.a. tekið mið af þessari stefnu, og í framkvæmdaáætlun má finna áætlun um tvítengingar hluta af þessum afhendingarstöðum.  Má þar nefna Sauðárkrók, Neskaupstað og Húsavík, en aðrir staðir eru einnig á langtímaáætlun, s.s. Dalvík, Fáskrúðsfjörður og sunnanverðir Vestfirðir."

Það er allt of mikill hægagangur í stefnu stjórnvalda við að tvöfalda orkumötun inn að þéttbýlisstöðum, þ.e. að gera rafmagnsflutninginn innan landshlutakerfa að (n-1) kerfi (hringtenging).  Þá má önnur fæðingin detta út án þess, að neytendur verði þess varir.  Stjórnvöld ættu tafarlaust að breyta markmiðinu um þessa tvítengingu úr 2040 í 2030 og fjármagna flýtinguna, eins og hina, með vaxandi arði af starfsemi Landsvirkjunar.  Allir þessir notendur rafmagns, sem hér um ræðir, eiga fullan rétt á því að sitja við sama borð og aðrir landsmenn með tvítengingu  frá stofnkerfi rafmagns, og það er skylda stjórnvalda, að gera raunhæfar ráðstafanir til að koma því í kring.  Alþingi verður að koma orkuráðherranum í skilning um þetta og/eða styðja við bakið á henni til að svo megi verða á einum áratugi frá jólaföstuóförunum 2019.  

Sem dæmi má nefna, að á Dalvík og á sunnanverðum Vestfjörðum á sér stað mikil og vaxandi  verðmætasköpun, þar sem fjárfest hefur verið í milljarðavís ISK í atvinnutækjum.  Að bjóða íbúum og fyrirtækjum þessara staða upp á bið í allt að tvo áratugi eftir viðunandi rafmagnsöryggi er óásættanlegt, og Alþingi hlýtur að vera sama sinnis.  Þingmenn, sem hafna þessari flýtingu, geta varla horft framan í kjósendur í NV- og NA-kjördæmi í næstu kosningabaráttu.  

"Kostnaður við lagningu jarðstrengja á 66 kV spennu er á pari við loftlínur, og lagning 66 kV jarðstrengja er víðast hvar tæknilega möguleg.  Þó eru svæði, þar sem skammhlaupsafl er það lágt, að ekki er unnt að leggja allar nýjar 66 kV línur í jörðu, og er bygging loftlínu því óhjákvæmileg á þeim svæðum."

Á Vestfjörðum er einmitt ein af orsökum ónógra spennugæða m.v. þarfir nútíma tækjabúnaðar og mikillar sjálfvirkni í atvinnurekstri, að skammhlaupsafl raforkukerfis Vestfjarða er lágt.  Það stafar af langri 132 kV geislatengingu við stofnkerfi landsins og fáum og litlum virkjunum á svæðinu.  Það er auðvelt að bæta úr hinu síðarnefnda, því að hagkvæmir virkjanakostir finnast á Vestfjörðum, og er a.m.k. einn þeirra kominn í nýtingarflokk Rammaáætlunar og er þegar í undirbúningi.  Það er brýnt að virkja sem mest af virkjanakostum í Rammaáætlun á Vestfjörðum.  Þar með eru slegnar a.m.k. tvær flugur í einu höggi.  Skammhlaupsaflið vex þá nægilega mikið til að hægt sé að færa allar loftlínur Vestfjarða í jörðu, og afhendingaröryggi raforku eykst til mikilla muna án þess að þurfa að grípa til olíubrennslu í neyðarrafstöðinni á Bolungarvík.  

Það er vaxandi skilningur á Alþingi fyrir því, að núverandi áform stjórnvalda um uppbyggingu raforkukerfis landsins taka allt of langan tíma.  Sigurður Bogi Sævarsson birti frétt í Morgunblaðinu 27. desember 2019 undir yfirskriftinni:

"Þjóðaröryggi í orkumálum verði tryggt".

Hún hófst þannig:

"Endurskoða þarf löggjöf á Íslandi, þar sem helztu innviðir samfélagsins eru greindir og staða þeirra tryggð m.t.t. þjóðaröryggis.  Vegir, brýr, virkjanir, flugvellir og fjarskipti geta fallið undir þessa löggjöf og síðast en ekki sízt flutningskerfi raforku.  

Þetta segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem eftir nýárið ætlar að óska eftir skýrslu frá stjórnvöldum um stöðu þessara mála.  Sé ástæða til, megi leggja fram lagafrumvarp um málið."

Gríðarleg og vaxandi verðmætasköpun á sér stað á þeim landssvæðum, sem urðu fyrir rafmagnstruflunum á jólaföstu 2019.  Það er ein af forsendum frekari fjárfestinga þar, að nægt raforkuframboð og afhendingaröryggi þess til jafns við Suð-Vesturlandið verði tryggt.  Það er jafnframt réttur íbúanna. Það má skoða þetta í samhengi við fína grein Jóns Gunnarssonar, ritara og þingmanns Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, í Fréttablaðinu, 20. nóvember 2019,

"Nei, er svarið".

Hún hófst þannig:

"Tækifæri okkar í uppbyggingu verðmætasköpunar, sköpun nýrra og fjölbreyttari starfa í tengslum við öfluga byggðaþróun, eru mikil.  En stefnu- og aðgerðarleysi okkar í raforkumálum ásamt heimatilbúnum erfiðleikum við uppbyggingu dreifikerfis raforku gerir það að verkum, að fjölmörg tækifæri fara forgörðum eða eiga mjög erfitt uppdráttar."

Ritari Sjálfstæðisflokksins finnur, hvar skórinn kreppir, og veit, hvað þarf til að koma stöðunni í viðunandi horf.  Það er ástæða til að ætla, að sama eigi við um meirihluta þingheims.  Nú er hagkerfið staðnað og þar af leiðandi vaxandi atvinnuleysi.  Til að brjótast út úr stöðnuninni þarf að hefjast handa sem fyrst við virkjanir, sem komnar eru vel á veg í undirbúningi, setja aukinn kraft í styrkingu flutnings- og dreifikerfa raforku og bæta samgöngukerfi landsins, í þéttbýli og í dreifbýli, af nýjum þrótti.  Til að viðhalda samkeppnisstöðu landsins dugar ekki að láta innviðina grotna niður.

 

 

 

 

 

 

 

 


Ógnarlegar náttúruhamfarir - það sem koma skal ?

Ógurlegt ástand hefur skapazt í suð-austanverðri Ástralíu af völdum skógarelda vegna mikilla þurrka á þessu svæði. Úrkoma í Ástralíu sveiflast lotubundið og er nú nálægt hefðbundnu lágmarki. Jafnframt hafa hitamet verið slegin á þessu sumri í Ástralíu, og er þó hefðbundið heitasta tímabil ekki enn gengið í garð. Við vesturjaðar Sidneyborgar fór hitastig yfir 49°C í viku 02/2020.      Í Indónesíu, sem er norðan við Ástralíu, hafa á sama tíma orðið heiftarlegustu flóð í langan tíma.

Þarna virðist hafa orðið hliðrun á veðrakerfum, a.m.k. um stundarsakir, og sökinni er skellt á aukningu styrks koltvíildis í andrúmsloftinu úr 0.03 % í 0.04 % á 170 árum.  Hér skal ekki kveða upp úr með það, heldur viðra röksemdir með og á móti.  

Hvað sem því líður, þá hafa fjárfestingarbankar og tryggingafélög nú tekið til við að hringja viðvörunarbjöllum út af loftslagsbreytingum. Þetta á t.d. við um borgir í Bandaríkjunum, þar sem sjávarflóð geta valdið miklum usla.  Þar er nærtækt að óttast um Flórídaskagann, sem er flatur og lágur allur saman.  Nú er slíkum ríkjum ráðlagt að búast við  meðaltalstjóni af völdum loftslagsbreytinga, sem nemur 0,5-1,0 % á ári af VLF. Ef þetta er heimfært upp á íslenzka efnahagskerfið, fást 15-30 mrdISK/ár.  Tjónið, sem varð á Íslandi í norðanáhlaupinu á jólaföstu 2019 nam e.t.v. þriðjungi af lágmarki þessa bils, og þar var líklega um að ræða óveður, sem búast má við á 10 ára fresti.  Þetta er áhætta, sem Íslendingar hafa búið við frá landnámi, en þá var hlýrra hér en nú er. 

Hagur Íslands er hins vegar háður náttúrunni í meiri mæli en flestra annarra landa, og jafnvægi hennar er óstöðugt. Því má slá föstu, og maðurinn (homo sapiens) er orðinn svo öflugur nú á tímum, að hann getur truflað jafnvægi náttúrunnar.  Náttúrulegar hitasveiflur má m.a. sjá í löngum borkjörnum úr Grænlandsjökli. 

Viðkvæmt jafnvægi á t.d. við um Golfstrauminn, sem veikzt hefur á undanförnum árum, og um lífríki hafsins.  Flytji nytjastofnar sig um set, getur hæglega orðið efnahagslegt tjón hérlendis á ofannefndu bili.  Loðnan sannar þetta.  Hvarf hennar jafngildir um 20 mrdISK/ár tapi útflutningstekna, en á móti hefur makríllinn komið upp að ströndum landsins í ætisleit (étur um 3,0 Mt/ár) og bætt tjónið, þótt ekki séu allir nágrannar okkar þeirrar skoðunar, að við megum nýta hann þrátt fyrir þetta.  Það þykir okkur ósanngjarnt sjónarmið, og þar er verk að vinna fyrir íslenzka hafréttarfræðinga, fiskifræðinga, útgerðarmenn og stjórnarerindreka. Alþjóðlega gæðavottunarstöðin MSC leggur nú lóð sitt á þessar vogarskálar með því að svipta ríkin við norðanvert Atlantshafið gæðavottun á nýtingu norsk-íslenzku síldarinnar.  Innan ESB eru miklar áhyggjur um fiskveiðiaðstöðu ESB-ríkjanna eftir útgöngu Breta.  ESB leggur til, að fyrsta viðfangsefni útgöngusamninganna verði fiskveiðiheimildir innan brezkrar lögsögu.  Bretar geta aðeins fallizt á skammvinna aðlögun ESB að algeru brotthvarfi úr brezkri landhelgi, því að mestu hagsmunirnir eru í hefðbundnum kjördæmum Verkamannaflokksins, sem Íhaldsflokkurinn vann á sitt band í desemberkosningunum 2019, og Boris Johnson lofaði kjósendum þar því strax eftir kosningarnar að ríkisstjórnin myndi standa við bakið á þessum nýju kjósendum Íhaldsflokksins.  

Á hinn bóginn er einsýnt, að landbúnaðurinn hérlendis mun njóta góðs af hlýnun með aukinni uppskeru og fleiri mögulegum tegundum, og aukin úrkoma er jafnframt fylgifiskur hlýnunar, svo að ekki ætti að væsa um vatnsbúskapinn í framtíðinni. Það þýðir, að rekstur vatnsorkuvera verður enn hagkvæmari í framtíðinni en verið hefur.   

Sé líkan IPCC nærri lagi, má nú ljóst vera, að meðalhitastig á jörðu mun hækka meira en var viðmið Parísarsáttmálans, 1,5°C-2,0°C.  Þessu veldur losun manna á 43 mrdt/ár af koltvíildi, CO2, sem er auðvitað til viðbótar enn meiri náttúrúlegri losun.  Til að minnstu líkur yrðu á að halda hlýnun undir 2°C, þyrftu helztu losunarþjóðirnar að draga mun meira úr losun en þær skuldbundu sig til í París, og fæstar þjóðir eru komnar á rekspöl minnkandi losunar.  Aðeins Evrópusambandið, ESB, hefur sýnt vilja til þess nú undir forystu Ursulu von der Leyen, sem senn mun kynna "Græna samninginn" sinn (Green Deal), sem kveða mun á um a.m.k. 55 % samdrátt í losun ESB-landa 2030 m.v. 1990. Þetta er kjörið tækifæri fyrir ESB til að öðlast langþráða stjórnun orkumála Evrópusambandslandanna.  Til þess gagnast óttastjórnun með ragnarök ("inferno") á næstu grösum, nema styrk hönd miðstýringar í Brüssel stemmi á að ósi.  

Það er hins vegar hægara sagt en gert að minnka CO2-losun; "The Devil is in the Detail", og lausn án kjarnorku er ekki í sjónmáli án þess að skaða samkeppnishæfni ESB-landanna meira en góðu hófi gegnir, og þá verður verr farið en heima setið, því að án fjárhagslegs styrkleika er verkefnið vonlaust. Þetta hefur hins vegar Greta Thunberg og hennar fylgifiskar, einnig hérlendis, ekki tekið með í reikninginn.  Ef fótunum verður kippt undan hagvextinum, t.d. með mjög háum koltvíildisskatti, mun hagkerfið skreppa saman, velferðarkerfið hrynja og  fjöldaatvinnuleysi skella á.  Þetta er efnahagskreppa, og í kreppu minnkar auðvitað neyzlan, en ekkert afl verður til reiðu til að knýja fram orkuskipti. Bretar eru líklegir til að taka forystu á þessu sviði, því að þeir hafa ekki útilokað kjarnorkuna sem þátt í lausninni, og hún er sem stendur eini raunhæfi valkosturinn við kolaorkuverin.  Bretar ætla að loka síðasta kolaorkuveri sínu 2025, en Þjóðverjar 2035. Á Íslandi og í öðrum löndum eru núllvaxtarsinnar talsvert áberandi.  Þeir telja hagvöxt ósjálfbæran.  Þetta fólk mun aldrei geta leitt orkuskipti, því að þau krefjast öflugs þróunarstarfs og mikilla fjárfestinga, sem er nokkuð, sem afturhaldsstefnur geta aldrei staðið undir.  Þær bjóða aðeins upp á aukið atvinnuleysi og versnandi lífskjör.

Það var fyrirséð við gerð Parísarsamkomulagsins í desember 2015, að samdráttur í losun (hún hefur á heimsvísu aukizt síðan þá) myndi ganga of hægt til að halda hlýnun undir 2°C m.v. árið 1850 (þá var enn "Litla ísöld" !).  Þess vegna var í samkomulaginu gert ráð fyrir að sjúga CO2 úr iðnaðar- og orkuverareyk og jafnvel beint úr andrúmsloftinu og binda það í stöðugum efnasamböndum neðanjarðar.  Að draga CO2 úr andrúmsloftinu er erfitt, því að þar er það aðeins í styrk 0,041 %.  Þetta er líka mjög dýrt í álverum vegna mjög lítils styrks koltvíildis í kerreyk þeirra (<1 %, í kolaorkuverum hins vegar um 10 %).

Á vegum ESB hefur verið stofnaður sjóður að upphæð mrdEUR 10, sem á að styrkja þróunarverkefni á sviði endurnýjanlegra orkulinda og brottnáms CO2 úr iðnaðarreyk.  Fyrsta auglýsing hans eftir styrkumsóknum verður 2020, og líklegt er, að frá Íslandi muni berast umsóknir til að þróa áfram aðferðir ON (Orku náttúrunnar) á Hellisheiði.  Hjá ON á Hellisheiði er þessi förgun koltvíildis sögð kosta 30 USD/t, sem er aðeins 1/3 af kostnaði þessa ferlis erlendis.  Fyrir álverin er þetta áreiðanlega miklu dýrara en í jarðgufuvirkjuninni á Hellisheiði.  Hvers vegna velja þau ekki fremur hinn örugga kost að semja við skógarbændur á Íslandi um bindingu á a.m.k. hluta af 1,6 Mt/ár CO2 fyrir jafngildi um 30 USD/t ?

Hér sjáum við í hnotskurn vanda baráttunnar við koltvíildi í andrúmsloftinu.  Með því að ferfalda koltvíildisskattinn upp í 100 USD/t CO2 væri hugsanlega hægt að þvinga fyrirtæki til að setja upp CO2-brottnámsbúnað í afsogskerfi sín, en það mundi hins vegar setja viðskomandi starfsemi á hliðina, og þar með hefðu yfirvöld kastað barninu út með baðvatninu.  Eins og sást á 25. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madrid í desember 2019, skortir samstöðu á meðal ríkja heims um sameiginlegar aðgerðir, og þar stendur hnífurinn í kúnni.  Fyrir vikið er rétt að beina hluta af fénu, sem til ráðstöfunar er, til rannsókna á brýnustu mótvægisaðgerðum gegn hlýnun upp á meira en 3,0°C.  

IPCC gaf það út 2018, að til að halda hlýnun undir 2°C þyrfti að fjarlægja 100-1000 mrdt af CO2 úr andrúmsloftinu og/eða losunarreyk fyrir næstu aldamót, og miðgildið var 730 mrdt CO2, þ.e.a.s 17 ára núverandi losun.  Einmitt þetta hafa þörungar og jurtir gert í meira en einn milljarð ára.  Viðarbrennsla er talin kolefnishlutlaus orkuvinnsla, af því að skilað er til andrúmsloftsins því, sem nýlega var tekið þaðan.  Þetta auðveldar viðarkurlsnotendum á borð við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga leikinn.  

Hængurinn við bindingu með skógrækt er mikil landþörf skógræktar. Nýskógrækt að flatarmáli á við Rússland áætlaði IPCC 2018, að myndi aðeins draga 200 mrdt CO2 úr andrúmsloftinu til aldamóta, sem ekki hrekkur til að halda hlýnuninni nægilega í skefjum samkvæmt IPCC. Til mótvægis þessum vanda mætti þá grisja skóga, endurplanta og breyta nokkrum hundruðum af um 2500 kolakyntum orkuverum heims í sjálfbær viðarkurlsorkuver (pellets).  500 slík umbreytt kolaorkuver mundu þá spara andrúmsloftinu 5 mrdt/ár CO2 eða 12 %, og munar um minna.  

Ísland býður hins vegar upp á mikla möguleika fyrir íslenzkan iðnað til að verða kolefnishlutlaus fyrir tilskilinn tíma (2040). Vegna hlýnandi og rakara loftslags eykst gróðursældin hérlendis með hverjum áratugi.  Til að kolefnisjafna núverandi áliðnað á Íslandi þarf 260 kha lands, og slíkt landrými er fyrir hendi í landinu án þess að ganga á aðrar nytjar.  Slíkt gróðursetningarátak mundi skapa talsverða vinnu í landbúnaðinum og efnivið úr grisjun til kurlbrennslu í iðnaðinum og til (kolefnisfrírrar) orkuvinnslu og síðar meir viðarnytjar til húsbygginga o.fl.  Hvers vegna hefur ekki Loftslagsráð frumkvæði að því að koma á samstarfi Skógræktarinnar, skógarbænda og iðnaðarins í þessu skyni ? Slíkt væri ólíkt þarfara en að eiga viðtöl við fjölmiðla með kökkinn í hálsinum út af meintu svartnætti framundan.

Aðeins 19 af koltvíildisspúandi orku- og iðjuverum heimsins fjarlægja hluta af koltvíildismyndun sinni úr reyknum og binda hann neðanjarðar.  Alls nemur þetta koltvíildissog aðeins 40 Mt/ár eða 0,1 % af losun manna.  Hér þarf að geta þess, að hafið sogar til sín 1/4 og landgróður 1/4.  Staðan er engu að síður þannig, að samkvæmt IPCC er orðið vonlaust að halda hlýnun undir 2,0°C og líklegast, að hún verði yfir 3,0°C.

Fólk af alls konar sauðahúsi tjáir sig um loftslagsmálin og á fullan rétt á því, þótt af mismiklum skilningi sé.  Hrokinn og stærilætið leynir sér þó ekki, þegar efasemdarmenn um ýtrustu áhrif aukningar koltvíildisstyrks í andrúmsloftinu eru uppnefndir "afneitunarsinnar". Það er gefið í skyn, að efasemdarmenn afneiti staðreyndum.  Ekkert er fjær sanni. Þetta er hins vegar tilraun til að þagga niður í þeim, sem vilja rökræða þessi mál í stað þess að játast undir hin nýju trúarbrögð um "hamfarahlýnun".  Ein lítil spurning til þöggunarsinna gæti t.d. verið, hvernig kenningar um "hamfarahlýnun" koma heim og saman við þá staðreynd, að þann 2. janúar 2020 var slegið kuldamet á Grænlandsjökli, er þar mældust -66°C ?

Í Morgunblaðinu 29. nóvember 2019 birtist "baksviðsviðtal" Baldurs Arnarsonar við Andra Snæ Magnason, rithöfund, sem hafði þar nánast ekkert fram að færa annað en yfirborðskennda frasa, einhvers konar loftslagsfroðu, sem hann gerir út á í opinberri umræðu.  Viðtalinu lauk með spádómi í dómsdagsstíl án þess að setja málið í tölulegt samhengi af viti.  Umræða af þessu tagi hefur verið kölluð "tilfinningaklám".  Það er gert út á ótta við breytingar:

"Ég held, að sá fjöldi ferðamanna, sem nú koma, sé ágætur.  Ég held, að 5 milljónir ferðamanna væru hvorki æskilegt markmið menningarlega né umhverfislega fyrir Ísland.  Eins og ég ræði um í fyrirlestri mínum [í Borgarleikhúsinu-innsk. Mbl.], held ég, að heimurinn sé að fara að breytast mjög hratt.  Það verða settar hömlur á flug á næstu árum; styttri ferðir verða ekki sjálfsagðar.  Ég held, að Íslendingar þurfi að laga sig að því, að við fáum færri ferðamenn í lengri tíma; að það verði jafnmargir ferðamenn á hverjum tíma.  Það verði hins vegar ekki talið siðferðilega rétt að skreppa í þriggja daga ferðir til útlanda, heldur heldur muni fólk fara [svo ?; verða] miklu lengur og betur [svo ?], þegar það ferðast."

Þótt rithöfundurinn haldi, að núverandi ferðamannafjöldi sé kjörfjöldi hérlendis, þá segja staðreyndir ferðageirans annað.  Gistirými er vannýtt, og tekjur eru of litlar m.v. þann fjölda, sem þar starfar nú, og hefur þó umtalsverð fækkun starfsmanna átt sér stað frá undirritun Lífskjarasamninganna, svo að nú er heildarfjöldi atvinnulausra í landinu kominn í 7600.  Hugmyndafræði rithöfundarins er hugmyndafræði stöðnunar, afturhalds, sem leiða mun til aukins landflótta kunnáttufólks héðan.

Hann heldur, að 5 M ferðamanna sé meira en landið ræður við með góðu móti, en útskýrir ekki, hvað hann á við.  Heildarfjöldinn 5 M getur t.d. verið samsettur af 2 M millilendingarfarþega og 3 M gistifarþega.  Með því að hluti þeirra fljúgi beint til Akureyrar eða Egilsstaða má dreifa þeim betur um landið og takist einnig að dreifa þeim betur yfir árið, þarf lítið að fjárfesta til viðbótar við núverandi innviði, gistirými og afþreyingaraðstöðu.  Góð nýting fjárfestinga er lykillinn að góðum rekstri og traustri atvinnu.  

Rithöfundurinn virðist halda, eins og Greta Thunberg, að flugið sé stórskaðlegt andrúmsloftinu.  Þetta er misskilningur hjá þeim.  Koltvíildislosun flugvéla er innan við 3 % af heildarlosun manna, og innanlandsflug í heiminum losar sennilega innan við 1 %.  Hvers vegna ætti að leggja hömlur á það, eins og rithöfundurinn spáir, að verði gert ?  Heldur hann virkilega, að þetta sé vænleg aðferð til betra lífs ?

Hugarórar rithöfundar eru ekki vænlegur grundvöllur spádóma.  Það, sem nú þegar er í gangi á þessu sviði, er þróun rafknúinna flugvéla fyrir vegalengdir undir 1000 km, nánar tiltekið tvinn flugvélar, þar sem bæði verða rafhreyflar og hreyflar knúnir jarðefnaeldsneyti.  Sennilega munu bæði birtast flugvélar með rafhlöðum og vetnishlöðum á þessum áratugi, fyrst í litlum flugvélum, <20 manna, og síðar í hinum stærri.  Þessar vélar munu smám saman leysa jarðefnaeldsneytisvélar af hólmi á öllum vegalengdum, enda umhverfisvænni og lágværari og auk þess hagkvæmari, er frá líður, í rafhami.

Hinn pólinn í loftslagsumræðunni gaf á að líta í Morgunblaðinu 6. desember 2019, en þar birtist greinin "Loftslagsvísindi hrjáð af fölsunum",

eftir Friðrik Daníelsson, efnaverkfræðing. Þar var óspart vitnað í raunvísindamenn og valvísi gastegunda á bylgjulengd geislunar fyrir varmaupptöku. Friðrik skóf ekki utan af skoðunum sínum frekar en fyrri daginn; hann nýtti sér eðlisfræði gasa, og ólíkt færði hann betri rök fyrir máli sínu en rithöfundurinn, sem veður á súðum og reynir að framkalla hagstæð hughrif áheyrenda og lesenda fyrir áróður sinn. Slíkt hefur lítið vægi í umræðunni til lengdar.  Það ætti að vera tiltölulega fljótgert að sannreyna staðhæfingar Friðriks.  Grein hans hófst þannig:

"Hin 123 ára gamla kenning Arrheniusar um hlýnun loftslags af völdum koltvísýrings frá mönnum hefur nú vakið spár um "hamfarahlýnun".  Arrheniusi yfirsást meginatriðið, áhrif loftrakans.  Hálfum áratug eftir, að kenningin kom fram, var hún hrakin af Knut Ångström, en hefur samt skotið upp kollinum, þegar veðurlag hefur hlýnað (eftir 1920 og 1980)."

Þessari hressilegu grein sinni með tilvitnunum í merka raunvísindamenn lauk Friðrik með eftirfarandi hætti:

"Eðlisfræðileg lögmál sýna, að þau litlu áhrif, sem koltvísýringurinn hefur á hitastigið í lofthjúpnum, eru þegar að mestu komin fram.  Koltvísýringurinn, sem er nú þegar í lofthjúpnum, tekur upp nær alla varmageislun, sem hann getur tekið upp, en það er á bylgjulengdunum 2,7, 4,3 og 15 míkron. Útstreymi varmageislunar út úr lofthjúpnum er ekki á þeim bylgjulengdum, heldur á 8-12 míkrón, sem koltvísýringurinn getur ekki tekið upp.  

Aukið magn af koltvísýringi í loftinu breytir þessu ekki, sem þýðir, að styrkur koltvísýringsins í andrúmsloftinu hefur hverfandi áhrif á hitastigið á jörðinni. Metan hefur sömuleiðis hverfandi áhrif af sömu ástæðum.  Það er geislaupptaka loftrakans, sem er yfirgnæfandi og veldur obbanum af gróðurhúsaáhrifunum.

"... það hefur ekki verið sýnt fram á með sannfærandi hætti, að aukning CO2 í andrúmsloftinu hafi ákveðin áhrif á loftslag." (Prof. em. D. Thoenes, Hollandi.)

Af rannsóknum færustu óháðra vísindamanna er orðið ljóst, að aukinn koltvísýringur í lofthjúpnum hefur hverfandi áhrif á loftslagið á jörðinni." (Undirstr. BJo.)

Hér eru mikil tíðindi á ferð, ef sönn eru, þ.e. að útgeislun jarðar sé á tíðnibilinu 8-12 míkrón og hvorki koltvíildi né metan geti sogað í sig geislaorku á því bylgjusviði.  Það var einmitt skýringin á áherzlunni, sem lögð var á hámarks leyfilega hlýnun 2°C á Parísarráðstefnunni í desember 2015, að við meiri hlýnun mundi ekki ráðast við hana, þ.e. hitastigsþróunin myndi þá lenda í óviðráðanlegum hækkunarspíral, t.d. vegna þiðnunar sífrera Síberiu, sem myndi losa úr læðingi gríðarmagn metans, sem er sögð meira en tvítugfalt sterkari gróðurhúsalofttegund en koltvíildi.  Ef hvorug þessara lofttegunda getur tekið til sín útgeislun jarðar, fellur þessi hamfarakenning um sjálfa sig.  Tiltölulega einfalt ætti að vera að grafa þetta upp.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Umhverfisvernd og afturhaldssemi fara illa saman

Það verður ekki hægt samtímis að ná árangri í umhverfismálum og halda uppi velferðarþjóðfélagi, jafnvel með enn bættum kjörum almennings, eins og kröfur standa til, án þess að nýta nýjustu tækniþróun og koma á nútímalegum innviðum á sviðum, þar sem þeir eru ekki enn fyrir hendi.  Af Morgunblaðsgrein Páls Gíslasonar, verkfræðings, frá Hofi í Vatnsdal, þann 28. desember 2019,

"Svartnætti í skipulagsmálum",

er ljóst, að honum er öllum lokið, þegar kemur að stjórnsýslu hérlendis á sviði svo kallaðrar umhverfisverndar.  Sannast sagna er, að í höndum íslenzku stjórnsýslunnar snýst umhverfisvernd iðulega upp í andhverfu sína. Það, sem gert er í nafni umhverfisverndar, gengur meir á auðlindir jarðar og eykur mengun meir en valkostur, sem hafnað er í nafni umhverfisverndar. Þröngsýnin er svo yfirgengileg, að hún byrgir stjórnvöldum sýn á afleiðingar ákvarðana, og hæfileikann til að greina hismið frá kjarnanum, að sjá skóginn fyrir trjánum, virðist vanta. Þetta er í einu orði sagt slæm stjórnsýsla, sem krystallast í Kjalvegarbúti, sem Skipulagsstofnun, án skynsamlegra raka, vill nú senda í umhverfismat.  Hvenær verður mælirinn fullur hjá framfarasinnuðum öflum í þjóðfélaginu ? 

Gefum Páli orðið, en hann hóf téða grein þannig:

"Táknrænt er, að á sama tíma og sólin nær lágpunkti sínum á norðurhveli jarðar, og svartnætti skammdegis lætur undan síga, birtast okkur enn einu sinni svartnættisviðhorf úreltrar aðferðafræði skipulagsmála: ákvörðun Skipulagsstofnunar 20. desember 2019 um að vísa bráðnauðsynlegum og eðlilegum endurbótum á kafla Kjalvegar í mat á umhverfisáhrifum."

Fyrir hendi er full vitneskja um umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda Vegagerðarinnar á grundvelli verklýsingar hennar og sams konar umbóta á Kjalvegi sunnan Árbúða.  Skipulagsstofnun hefði verið nær að gera athugasemdir við þetta þekkta fyrirkomulag Vegagerðarinnar í stað þess, sem jaðrar við hreinræktaðan fíflagang stofnunarinnar, að biðja um skýrslu um framkvæmd, sem verður að öllu leyti sambærileg við aðra þekkta framkvæmd á sama vegslóða.

Þetta er misnotkun á opinberu valdi, sem sýnir, að Skipulagsstofnun kann ekki með vald sitt að fara. Það verður að draga úr þessum völdum, og það er t.d. hægt að gera þannig, að sá, sem með skipulagsvald viðkomandi verkefnis fer, yfirleitt sveitarfélag á viðkomandi stað, ákveði, hvort það óski eftir úrskurði Skipulagsstofnunar um það, hvort tiltekið verkefni skuli fara í lögformlegt umhverfismat eða ekki, og aðeins sá, sem skipulagsvaldið hefur, geti farið fram á slíkt við Skipulagsstofnun. Hér er nefnilega um kostnaðarsamt og tafsamt ferli að ræða, og það er eðlilegt, að kjörnir fulltrúar íbúanna taki ábyrgð á þessari ákvörðun.  

Páll Gíslason lýsti umræddu verkefni nánar:

"Kjalvegur er einn fjögurra stofnvega á miðhálendinu og staða hans vel skilgreind í landsskipulagsstefnu.  Fyrr á þessu ári [2019] lagði ríkisstjórnin fjármuni í lagningu rafstrengs meðfram Kjalvegi til að flýta fyrir orkuskiptum. Á sama tíma berjast félagasamtök og einstaklingar þeim tengdir stöðugt gegn endurbótum á hálendisvegunum, ef ekki beint, þá með kröfum um matsferla og skrifræði. Þetta er sagt vera gert í nafni umhyggju fyrir miðhálendinu, en er beinlínis í andstöðu við orkuskipti í samgöngum á þessu svæði landsins !" 

Rafstrengurinn er þarfur og orka um hann mun vonandi mörgum gagnast til að endurhlaða rafgeymana í farskjótum sínum, en vegalengdin að hleðslustöðinni getur reynzt mörgum rafbílaökumönnum áhættusöm vegna mikillar orkunotkunar á vegum, þar sem hraðabreytingar eru tíðar og mótstaða mikil í bleytu og frá sterkum vindi, en ekki sízt er rafkerfi í botni bílsins hætta búin, þar sem grjót stendur upp úr slóðum.  Þessi slóðaútgerð yfirvalda í ferðamannalandinu Íslandi er alger tímaskekkja.  

Það, sem höfundurinn skrifaði um leyfisveitingaferli framkvæmda, sýnir, að ferlið er löggjafarlegt klúður, sem þjónar ekki hagsmunum almennings, heldur sérhagsmunum búrókrata, ráðgjafa og sérvitringa, sem engar framfarir vilja sjá á þessu sviði samgangna:

"Kjalvegarframkvæmdir og fjöldi annarra mála undanfarin ár sýna og sanna, að leyfisferli framkvæmda á Íslandi hefur leitt samfélagið í hreinar ógöngur, enda er það mun lengra og flóknara en gerist í grannríkjunum okkar.  Ferlið virðist raunar engan enda ætla að taka, þegar kærugleði ríkir, eins og dæmin sanna.

Sjö skilgreind stig stjórnvaldsákvarðana gefa kærurétt hérlendis, en eitt til tvö annars staðar á Norðurlöndum.  Ekki bara það.  Hvergi nema á Íslandi er til staðar opin heimild til að kæra matsskylda ákvörðun efnislega !"

Hér er líklega komið enn eitt dæmi þess, að íslenzkir laga- og reglusmiðir taka erlenda fyrirmynd og flækja hana til mikilla muna, svo að ferlið verður óskilvirkara og dýrara en nokkurs staðar þekkist á byggðu bóli.  Stjórnlyndi og vanþekking í einni sæng, og afleiðingin verður hreint skelfileg.  Það er löngu tímabært að gera á þessu örverpi uppskurð á grundvelli reynslunnar.  

Í lok greinar sinnar skrifaði téður Páll:

"Flækjustig leyfisveitingaferils framkvæmda hérlendis og viðmið í mati á umhverfisáhrifum samræmast ekki nútímakröfum um sjálfbærni og standa reyndar beinlínis í vegi fyrir því, að orkuskipti í samgöngum nái þeim markmiðum, sem að er stefnt.  Það þjónar nefnilega loftslagsmarkmiðum að gera stofnvegi á hálendi Íslands akfæra."

Þetta er þungur áfellisdómur yfir stjórnkerfi og löggjöf um ferli verklegra framkvæmda á Íslandi.  Annaðhvort hefur þessu kerfi verið komið á af ókunnugleika á aðstæðum og meðvitundarleysi um þann kostnað, beinan og óbeinan, sem flókið ferli og endalausir kærumöguleikar geta haft í för með sér, eða embættismenn og/eða löggjafinn hefur meðvitað verið að leggja stein í götu ákvörðunar réttmætra yfirvalda og stofnana, sem ábyrgð bera á samgönguæðum, orkuæðum og öðrum innviðum í landinu.  Það er ekki hlutverk félagasamtaka á borð við Landvernd eða einstaka hagsmunaaðila eða einstaklinga með sterkar skoðanir á tiltekinni framkvæmd að ráða því, hvort eða hvenær af henni verður.  Hins vegar er öllum frjálst að koma ábendingum sínum og skoðunum á verkefnum á framfæri við yfirvöldin.

Dýrkeyptar tafir hafa orðið á að reisa nýja Byggðalínu, og kennir ábyrgðaraðili hennar, Landsnet, Landvernd og landeigendum um þær.  Allir ættu að vita nú, hversu alvarlegt það er fyrir nútímaþjóðfélag að búa við feyskna innviði.  Okkar tímar kalla jafnframt á orkuskipti, og ef einhver heldur, að þau geti orðið hérlendis án mikilla fjárfestinga í virkjunum, flutningskerfi rafmagns og stofnvegum ásamt dreifikerfi rafmagns og hleðslustöðvum (áfyllistöðvum) um allt land fyrir nýorkusamgöngutæki, þá veður sá hinn sami í villu og svíma.  Þar sem ríkisstjórnin hefur marglýst því yfir, heima og erlendis, að hún setji baráttuna við hlýnun jarðar af völdum gróðurhúsaáhrifa í forgang, þá verður hún að ryðja í brott hindrunum í vegi orkuskiptanna.  Ef hún gerir það ekki á því sviði, sem hér hefur verið fjallað um, þá missir hún allan trúverðugleika.

Morgunblaðinu blöskrar staða þessara mála.  Því til staðfestingar birtist leiðari í blaðinu 30. desember 2019:

"Vegabætur í umhverfismat ?".

Seinni hlutinn var á þessa leið:

"Vegagerðin vill ráðast í þessa uppbyggingu vegarins, sem full þörf er á, enda vegurinn almennt illa farinn á vorin, sem kallar á miklar lagfæringar.  Að sögn oddvita Bláskógabyggðar er vegurinn á aðalskipulagi, uppbyggður, og Skipulagsstofnun samþykkti aðalskipulagið í fyrravor.  Þá hlýtur einnig að skipta máli, að vegurinn er þarna nú þegar.  

Óhóflegar tafir hafa orðið á mörgum innviðaframkvæmdum á liðnum árum, ekki sízt vegna umhverfismats og kæruleiða, sem því tengjast.  Ekki þarf að efast um, að allir vilja náttúrunni vel, en það felur ekki í sér, að réttlætanlegt sé að beita umhverfismati til að tefja eða reyna að koma í veg fyrir sjálfsagðar framkvæmdir.  Og það er þeim sjónarmiðum, sem að baki umhverfismati búa, ekki til framdráttar, nema síður sé, ef þetta tæki er misnotað.  Þetta verða opinberar stofnanir að hafa í huga.  Geri þær það ekki, hlýtur löggjafinn að grípa inn í."

Nærliggjandi túlkun á framferði Skipulagsstofnunar ríkisins er, að hún sé misnotuð til að þvælast fyrir framförum.  Svar löggjafans við slíkri valdníðslu gæti t.d. verið, að setja það í hendur skipulagsvaldsins á staðnum, hér Bláskógabyggðar, hvort Skipulagsstofnun verði falið að ákvarða, hvort fyrirhuguð framkvæmd skuli undirgangast umhverfismat.  Í þessu tilviki segir heilbrigð skynsemi, að Bláskógabyggð hefði ekki talið þörf á umhverfismati, og þá hefði Skipulagsstofnun ekki fengið málið til slíkrar ákvörðunar, og sú ákvörðun Bláskógabyggðar hefði verið endanleg og framkvæmdin einfaldlega farið í leyfisveitingaferli hjá Bláskógabyggð í stað þessa fáránlega tafaleiks Skipulagsstofnunar.

Marz - 2 2012 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Ranghugmyndir og hálendisþjóðgarður

Orkumálasjóri birti gagnmerka jólahugvekju til landsmanna á jólaföstu 2019 eftir jólaföstuóveðrið á norðanverðu landinu og ófarir þess. Þar benti hann á varasamar ranghugmyndir Landverndar um, hverjum flutningskerfi raforku þjónaði, og lævíslega atlögu auðlindaráðuneytisins að fjölbreytilegri auðlindanýtingu hálendisins, sem virðist sjálfsögð, sé sjálfbærni gætt.  Verður nú gripið niður í þennan jólaboðskap Orkumálastjóra, sem nú, "nota bene", gegnir hlutverki Landsreglara á Íslandi samkvæmt Orkupakka 3 (e. National Energy Regulator) fyrir ACER (Orkustofnun Evrópusambandsins). Enn hefur þó ekki frétzt af beinum gjörningum hans í því hlutverki, en þeir eru þó óhjákvæmilegir áður en langt um líður. 

Hann getur væntanlega staðfest, að hvergi á Evrópska efnahagssvæðinu setja stjórnvöld upp viðlíka girðingar gagnvart nýtingu endurnýjanlegra orkulinda og auðlindaráðuneytið er með í undirbúningi hérlendis, og hvergi eru viðlíka kæruheimildir við lýði gagnvart stjórnvaldsákvörðunum um framkvæmdir og hér. Við erum eins og hross í hafti fyrir eigin tilverknað, af því að stjórnkerfi ríkisins gengst upp í því að vera kaþólskari en páfinn.  Sjálfskaparvítin eru verst.

Stjórnkerfi íslenzka ríkisins er á algerum villigötum með samspil nýtingar og verndunar, og framganga þess er í andstöðu við heilbrigða skynsemi og vinnur þess vegna beinlínis gegn orkuskiptum og loftslagsvænni orkunýtingu.  Alþingi verður hér að leiðrétta mjög rangan kúrs, svo að raforkukerfi og samgöngukerfi  landsins geti komizt á réttan kjöl sem fyrst.

Úr jólaboðskap Orkumálastjóra 2019:

"Þeir, sem hafa á undanförnum árum barizt harðast gegn nýjum flutningslínum í raforkukerfinu og lagt stein í götu leyfisveitinga og framkvæmda, hvar sem tækifæri gefast, eiga nú í vök að verjast, þegar menn sjá afleiðingar mikilla veikleika í flutnings- og dreifikerfinu.  Þeir reyna nú að setja þetta í þann búning, að þeir séu ekki andsnúnir línum, sem þjóna hinum almenna hluta kerfisins, heldur einungis framkvæmdum, sem þjóna stóriðju.  

Í umsögn Landverndar um kerfisáætlun Landsnets segir: "Landsnet sem fyrirtæki í eigu almennings ætti að sjá sóma sinn í því að taka þetta [aðgreiningu álags eftir notendahópum-innsk. BJo] skýrt fram í allri umfjöllun um afhendingaröryggi og ætti alls ekki að hafa frumkvæði að hræðsluáróðri, eins og fyrirtækið stóð fyrir í tengslum við ársfund sinn, þar sem talað var um skert þjóðaröryggi.  Ef dregið hefur úr þjóðaröryggi vegna lítillar flutningsgetu raforkukerfisins, þarf að tengja það beint við orsakavaldinn: stóriðju.""

 Hér varpar Orkumálastjóri ljósi á fádæma ábyrgðarleysi Landverndar, sem snýr út úr eða misskilur gjörsamlega málflutning Landsnets og Orkustofnunar á undanförnum árum um hlutverk flutningskerfis raforku fyrir velferð landsmanna.

Þegar ákvörðun var tekin um 2. orkuskipti landsins vegna olíukreppunnar 1973 og a.m.k. 70 % hækkunar olíuverðs þá, var jafnframt tekin ákvörðun um að tengja alla landsmenn við stærstu og hagkvæmustu virkjanir landsins á Þjórsár/Tungnaársvæðinu með s.k. Byggðalínu.  Þessar hagkvæmu virkjanir voru eingöngu mögulegar sem slíkar vegna langtímasamninga um mikla raforkusölu frá þeim til stóriðjuvera.  Það er að snúa staðreyndum á haus að halda því fram, eins og Landvernd ítrekað gerir sig seka um, að Byggðalína sé fyrir stóriðju.  Það er ekki heil brú í slíkum boðskap, hvorki fyrr né síðar, og þessi málflutningur hennar er aðeins ósvífin tilraun til að sá ranghugmyndum á meðal landeigenda og alls almennings um hlutverk þessarar línu nú og í sögulegu samhengi.

Það verður svo að segja hverja sögu, eins og hún er, að sú staðreynd, að stjórnvöld skuli hafa opnað þröngsýnum og ábyrgðarlausum afturhaldsöflum leið til að þvælast nær endalaust fyrir sjálfsögðum framfaramálum landsins alls og þeim réttlætismálum landsbyggðar að sitja við sama borð og flestir íbúar Suð-Vesturlands gera nú, er vanrækslusynd, sem löggjafinn verður að lagfæra hið fyrsta.  

Hálendisþjóðgarður er gæluverkefni, sem fólk af sauðahúsi Landverndar, t.d. auðlindaráðherrann (fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar og kæruglaður þar með afbrigðum), ber mjög fyrir brjósti. Að setja þetta gæluverkefni á oddinn nú vitnar um óábyrga forgangsröðun. Þegar innviðaþörfin hrópar á meira fjármagn, er ekki fjárhagslegt bolmagn til óþarfa leikaraskapar, sem setur skorður við fjölbreytilegri verðmætasköpun úr auðlindum hálendisins.  

Auðlindaráðherra veifar gatslitinni dulu um, að hver króna, sem varið er til þessa hálendisþjóðgarðs, muni skapa 22 krónur.  Þetta er blaður út í loftið.  Hálendisþjóðgarður er ekki gullgæs, heldur byrði og gæluverkefni forræðishyggjunnar, sem ekki getur skapað meira fé en sveitarfélög og fyrirtæki innan þeirra og/eða með starfsleyfi frá þeim geta skapað á þessum vettvangi. Virðisaukinn verður þar af leiðandi enginn við allt þetta umstang.

Það er alger óþarfi að svæla með þessum hætti þriðjung landsins undir forræði ríkisins, þegar ekki hefur enn komið í ljós neinn augljós kostur við eða þörf á miðlægri ákvörðunartöku ríkisins á hálendinu, eins og hins vegar hefur berlega komið í ljós varðandi ýmislegt annað, s.s. þjóðvegi og meginflutningskerfi rafmagns.

Orkumálastjóri, sem er í stöðu til að afla sér víðtækrar yfirsýnar um þessi mál, fordæmdi þessar hálendisþjóðgarðsfyrirætlanir auðlindaráðuneytisins í jólahugvekju sinni í desember 2019:

"Öll starfsemi þar [í auðlindaráðuneyti Íslands-innsk. BJo] virðist mér ganga út á að reisa margfaldar gaddavírsgirðingar í kringum framtíðarkosti okkar til virkjunar jarðhita og vatnsfalla, og koma jafnvel í veg fyrir áframhaldandi rannsóknir á auðlindunum.  Allt er þetta gert undir sakleysislegum og auðseljanlegum formerkjum, eins og stofnun hálendisþjóðgarðs og friðlýsingar náttúrusvæða, en hins vegar vandlega sneitt hjá því að meta áhrif þessa á orkuöryggi, atvinnulíf, hagvaxtarmöguleika okkar til lengri tíma, framlag okkar til loftslagsvænnar raforkuvinnslu og svona mætti lengi telja." [Undirstr. BJo.]

Orkumálastjóri skrifar hér beinum orðum, að undirbúningur auðlindaráðuneytisins fyrir stofnun hálendisþjóðgarðs fari fram undir fölskum formerkjum og að með endemum einstrengingslegum aðferðum sé beitt, þar sem þröngsýni fremur en víð sýn á náttúruvernd ráði för.  Hér eru svo alvarlegar ásakanir um óheilindi og fúsk ráðuneytis á ferðinni, að nauðsynlegt er fyrir Alþingi að grafast fyrir um þetta mál og stöðva það, ef nauðsyn krefur.  Svona vinnubrögð verða engum til gagns, þegar upp er staðið, heldur munu enda sem bjúgverpill í fangi stjórnvalda. Á skal að ósi stemma. 

Í Morgunblaðinu birtist efst á bls. 2 þann 27. desember 2019 frétt Sigurðar Boga Sævarssonar með viðtali við Pál Gíslason, verkfræðing, frá Hofi í Vatnsdal, undir fyrirsögninni:

"Þjóðgarðurinn stöðvi landnýtingu".

Páll Gíslason er öllum hnútum kunnugur um sjálfbæra nýtingu hálendisins, enda hefur hann stundað starfsemi í Kerlingarfjöllum um árabil, sem þykir til fyrirmyndar.  Ljóst er af orðum Páls, að þjóðgarðsstofnun þessi leysir ekkert vandamál, heldur eykur kostnað ríkisins og verður öllum til ama með skrifræði og einstrengingslegri stefnumörkun og stjórnun, enda hræða sporin frá Vatnajökulsþjóðgarði.  Að óþörfu verður gengið hér á forræði sveitarfélaganna yfir skipulagsmálum innan þeirra núverandi vébanda.  Forræðishyggjan mun leggja dauða hönd sína á þróun hálendisins, en það er einmitt höfuðatriði að þróa það með aðstoð nútímatækni og fjölbreytilegum viðhorfum.  Fréttin hófst þannig:

"Hugmynd um um hálendisþjóðgarð ber að taka með fyrirvara, enda er ávinningurinn óljós.  Náttúruvernd á öræfum landsins er forgangsverkefni, en það starf mætti fyrst efla með svæðisbundnu samstarfi sveitarfélaga.  Ríkið á að vinna áfram að uppbyggingu stofnvega og flýta orkuskiptum.  Aðgerðir, er varða umgengni, byggingu og rekstur þjónustumiðstöðva og fleira eru dæmi um verkefni, sem sveitarfélög eða einkaaðilar gætu sinnt betur.  Þetta segir Páll Gíslason hjá Fannborg í Kerlingarfjöllum."

Ríkið á ekki að troða sér inn á svið, sem aðrir geta sinnt betur og eru þekkingarlega betur í stakkinn búnir til að annast.  Útþensla ríkisbáknsins er vandamál.  Báknið ræður ekki við öll þau verkefni, sem það gín yfir núna, þrátt fyrir mjög íþyngjandi skattheimtu, og ýmis innviðauppbygging, sem eðlilegt er að ríkisvaldið sinni, er í skötulíki.  Það er engin ástæða fyrir ríkisvaldið á þessari stundu að þenja sig yfir mestallt hálendi Íslands.

""Ég sé ekki ábata af þunglamalegu stjórnkerfi, þar sem ofuráherzla er lögð á að stöðva nýtingu fallvatna, en það virðist [vera] markmiðið.  Blönduð landnýting áfram væri farsælli, þar sem þróa má samspil landbúnaðar, ferðaþjónustu og afþreyingar og orkuvinnslu", segir Páll og heldur áfram:

"Í frumvarpsdrögunum greini ég sterkan vilja til að þrengja [að] eða stöðva frekari nýtingu lands, þ.e. þróun orkuvinnslu og ferðaþjónustu.  Slíkt tel ég hvorki mæta nútímakröfum um sjálfbærni né hugmyndum um afþreyingarmöguleika.  Virkjanir og uppistöðulón á hálendinu geta stungið í augun, en á móti kemur, að orkan, sem þaðan fæst, er umhverfisvæn og skilar samfélaginu miklu.""

Það er samhljómur með Orkumálastjóra og Páli Gíslasyni, þegar þeir færa fram röksemdir sínar gegn tillögu auðlindaráðherra um hálendisþjóðgarð.  Framgangsmáti ráðherrans er ótækur.  Við ákvörðun um það með hvaða hætti hálendið verður skipulagt og nytjað, er forkastanlegt að ganga einstrengingslega fram, þannig að aðeins eitt sjónarmið, verndunarsjónarmiðið, ráði ríkjum.  Þetta er hættan við að fela einu ráðuneyti í Reykjavík yfirstjórnun þessara mála. 

Sjálfbæra nýtingu og afturkræf mannvirki samkvæmt fjölþjóðlegri skilgreiningu á að leggja til grundvallar á hálendinu, þar sem öll sjónarmið mega sín nokkurs.  Aðeins þannig næst sæmileg sátt um fyrirkomulag hálendismála.  Ráðherrann er á annarri línu og mun þess vegna mæta harðri andstöðu. Saga hans sýnir, að hann á það til að vera nokkuð herskár, þótt mjúkur sé á manninn í fjölmiðlum nú um stundir. 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband