Á heljarþröm í hörðum bardaga

Fjármála- og efnahagsráðherra lýsti því yfir 10. marz 2020, daginn sem framtalsfresti lauk, að forsendur fjárlaga ríkisins væru fallnar.  Ástæðuna kvað hann efnahagslegar afleiðingar baráttunnar við SARS-CoV-2 veiruna. Merkilegar raðgreiningar Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) leiða í ljós, að á meðan sóttvarnaryfirvöld töldu meginhættuna stafa af skíðasvæðum Norður-Ítalíu og Austurríkis, þá smyglaði veiran sér inn í landið annars staðar frá, t.d. frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Þá voru yfirvöld þessara landa ekki meðvituð um vágestinn hjá sér, sem stafar sennilega af því, að sjúklingarnir hafi sjálfir talið sig vera með "venjulega" inflúensu, enda einkennin í mörgum tilvikum svipuð. Þetta er umhugsunarvert fyrir næsta faraldur.  Á þá að setja alla farþega í sóttkví við komuna strax og vitnast um faraldur til að koma í veg fyrir það, sem nú gerðist, að hlutfallslegur fjöldi sýktra af skeinuhættum faraldri yrði í upphafi langhæstur á Íslandi ?   Ítalir sýndu þessum kínverska vágesti í upphafi linkind og kæruleysi, en seint og um síðir (09.03.2020) hafa yfirvöldin séð sitt óvænna og sett alla þjóðina í sóttkví.  Það mundi Þórólfur seint ráðleggja íslenzkum stjórnvöldum, enda var þessi ráðstöfun einstæð í sögunni, þegar til hennar var gripið.  Það, sem verra er, það sér ekki fyrir endann á sóttkví Ítala.  Til að takmarka heilsufarslegar og efnahagslegar afleiðingar veirufaraldra er lykilatriði að grípa þegar í stað til strangra gagnráðstafana.  

Stjórnvöld hérlendis guma af styrkri stöðu íslenzka efnahagskerfisins og nefna til sögunnar stóran (mrdISK 900) gjaldeyrisvarasjóð og lágar skuldir ríkis og einkageira. Því miður eru undirstöðurnar ótraustar, svo að nú blasir við mikið tekjutap ríkisins og kostnaðarauki þess og þar af leiðandi skuldasöfnun. Ferðabann Bandaríkjastjórnar gagnvart Schengen svæðinu kippti grundvellinum undan fjölda fyrirtækja hér í ferðamennskunni.  Sá geiri er svo fallvaltur og ósjálfbær, að óráðlegt er, að hlutfallslegt umfang hans verði jafnmikið í þjóðarbúskapinum og verið hefur.  Það eru fleiri vaxtarbroddar til, sem verðugt er að gefa meiri gaum. 

Við svo búið í ríkisrekstrinum má ekki standa, svo að við blasir, að endurskoðun fjármálaáætlunar verður ekki áhlaupaverk og líklega sársaukafull.  Undirstöðurnar eru auðvitað atvinnulífið, en við blasir tímabundið hrun í ferðageiranum, sem er búinn að fjárfesta töluvert undanfarið, svo að fækkun fyrirtækja verður ekki umflúin. Vegna efnahagsáfalls heimsins mun ferðageirinn ekki ná sér hratt á strik.

Launakostnaður hins opinbera og atvinnulífsins hefur hækkað langt umfram framleiðniaukningu, sem þýðir, að verkalýðsfélögin hafa með kröfugerð sinni valdið því, að fjöldi atvinnulausra hefur og mun vaxa hratt.  Þau voru búin að verðleggja félagsmenn sína út af markaðinum áður en reiðarslagið reið yfir, eins og stjórn Landsvirkjunar hefur í krafti einokunarstöðu sinnar á stórsölumarkaði raforku verðlagt fyrirtækið út af raforkumarkaðinum, en vegna einokunarstöðu þess tekur það tíma fyrir afleiðingarnar að birtast. Þetta er ógæfulegt og sýnir, að skipulag vinnumarkaðar, kjarasamningagerð og orkustefnan (orkulöggjöfin) eru í ógöngum og þjóna í raun engum, en hjakka í gamla stéttabaráttu- og okurfarinu.  

Veiran hefur jafnvel eyðilagt sjávarvörumarkaðina um hríð, svo að allar bjargir gætu virzt bannaðar sem stendur.  Sjávarútvegurinn hefur einnig orðið fyrir barðinu á breytingum í lífríkinu, sem engan veginn sér fyrir endann á.  Fisksendingar frá Kína til Evrópu hafa stöðvazt, sem skapar fiskskort í Evrópu, en fiskmarkaðir þar og í BNA hafa lamazt.  Óvíst er, hversu ginnkeyptir Evrópumenn munu verða fyrir matvælakaupum frá Kína, þegar fram í sækir, en þeir hljóta að ranka við sér fyrr en síðar og treysta þá á matvælagæði úr norðurhöfum.  Nú stendur fastan sem hæst á meðal kaþólskra, og þá er venjulega hámark fiskneyzlunnar þar á bæ.  Hvað eru Evrópumenn eiginlega að éta nú um stundir ? Framtíð skilvirks, sjálfbærs og tæknivædds sjávarútvegs, fiskiðnaðar og fiskeldis á Íslandi, er þó björt að nokkrum vikum liðnum í samanburði við aðra atvinnuvegi landsins. 

Ekki er sömu söguna að segja af iðnaðinum almennt og allra sízt hinum orkusækna þungaiðnaði.  Þar hafa lagzt á eitt offramboð á mörkuðum og hár tilkostnaður innanlands.  Sérstaklega munar um verðkröfur Landsvirkjunar, sem hafa síðastliðinn áratug verið úr öllum takti við raunveruleikann.  Á meðan alþjóðlegt orkuverð hefur lækkað, hefur raforkuverð til atvinnurekstrar hækkað á Íslandi.  Það er engin skynsamleg skýring til á þessu, en öfugþróunina má rekja til fordildar stjórnenda Landsvirkjunar, skorts á viðeigandi orkustefnu í landinu og orkulaga, sem ekki henta hagsmunum Íslands.  

Í þessu sambandi gefur skelegg afstaða Alþingismannsins Ásmundar Friðrikssonar þó góða von um önnur viðhorf á Alþingi en í stjórn Landsvirkjunar, en Ásmundur skrifaði þetta m.a. í grein sinni í Morgunblaðinu 7. marz 2020, sem bar heitið: 

"Ögurstund í atvinnulífinu":

"Í mínum huga er samfélagið, heimili og atvinnulíf, þjóðarsjóðurinn, sem bezt nýtir hagnað ódýrrar raforku".

Þetta er hverju orði sannara hjá Ásmundi, og þess vegna ætti ríkisstjórnin að láta það verða sem lið í aðgerðum sínum gegn taprekstri fyrirtækja í fordæmalausri stöðu, þar sem heilu löndin hafa verið sett í sóttkví og farþegaflug liggur nánast hvarvetna niðri, að gefa Landsvirkjun fyrirmæli um að lækka raforkuverð sitt á heildsölumarkaði umtalsvert og endursemja við þá aðila, sem búið hafa við mestar hækkanir raforkuverðs frá 2011. 

Þann 27. febrúar 2020 birtist í Viðskiptablaðinu grein eftir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóra, Samáls, með heitinu:

"Þegar Ísland tók fram úr Evrópu í lífsgæðum".

Hún hófst þannig:

"Eftir margra ára taprekstur álversins í Straumsvík er komið að því, að eigendur félagsins hyggist taka stefnumarkandi ákvörðun um framtíð álversins og skoða, hvort forsendur séu til að halda starfseminni áfram, eða hvort hún verði lögð niður.  Ekki þarf að orðlengja, að það yrði mikið högg fyrir íslenzkt efnahagslíf. 

Vitaskuld er ekkert "óviðeigandi" við það að vekja máls á stöðu fyrirtækisins og mikilvægi þess, að það búi við samkeppnishæf rekstrarskilyrði.  Skárra væri það nú." 

Það var búið að reifa vandamál stóriðjunnar á Íslandi svo rækilega í fjölmiðlum áður en SARS-CoV-2 var flutt til landsins, að aðvörunarbjöllur hljóta þá að hafa klyngt í eyrum ríkisstjórnarinnar og þar að auki rauð ljós að blikka á skrifstofu iðnaðarráðherra. Hún fer reyndar líka með málefni ferðageirans, sem yfirgnæfa öll önnur vandamál atvinnulífsins um þessar mundir vegna stöðvunar, sem enginn sá fyrir.  Það á eftir að koma í ljós, hvernig hún og ríkisstjórnin bregðast við sérstökum vanda, sem stafar af ósjálfbærri verðlagningu Landsvirkjunar, en ef sú verður raunin í sumar, að RTA/ISAL tilkynni lokun verksmiðjunnar í Straumsvík, þá mun sú tilkynning koma á versta tíma fyrir hagkerfi landsins og bæta gráu ofan á svart. Ber ekki iðnaðarráðherra pólitíska ábyrgð á því, ef ekkert raunhæft hefur verið gert til að hindra það ? Að sama skapi, ef í ljós kemur, að hún hefur náð að beita áhrifum sínum í þá átt, að samningar takist á milli RTA/ISAL og Landsvirkjunar, sem tryggi rekstur fyrirtækisins áfram út samningstímabilið til 2036, þá fær hún pólitíska rós í hnappagatið fyrir sinn þátt.

RTA hefur mikið reynt til að selja ISAL, en án árangurs.  Fyrirtækið er í raun óseljanlegt á markaðnum með núverandi raforkusamning. Hann er líkið í lestinni.  RTA vill draga sig út úr álgeiranum, og þá er ekki annarra kosta völ en að loka verksmiðjunni.  Það yrði mikið áfall fyrir starfsmenn verksmiðjunnar og nærsamfélagið, aðallega Hafnarfjörð, enda hafa ráðamenn bæjarfélagsins lýst yfir miklum áhyggjum vegna málsins og beita sér vonandi gagnvart þingmönnum SV-kjördæmis, enda um gríðarlegt hagsmunamál fyrir hag kjördæmisins að ræða, að ISAL fái að þróast og dafna eðlilega á sinni lóð á næstu árum. 

Pétur Blöndal skrifaði meira í téðri grein sinni:

"Ekki er langt síðan hætt var við kaup Norsk Hydro á álverinu í Straumsvík, eftir að dregizt hafði hjá evrópskum samkeppnisyfirvöldum að gefa samþykki sitt. Það segir sína sögu um stöðu álversins, að kaupverðið var einungis mrdISK 35 [MUSD 350 - innsk. BJo].  Til að setja það í samhengi má nefna, að Rio Tinto hafði nýlokið við mrdISK 60 fjárfestingarverkefni í Straumsvík, hið stærsta á Íslandi frá hruni.  Sú fjárfesting skilaði 15 kt/ár framleiðsluaukningu, og að allar afurðir fyrirtækisins eru nú virðisaukandi, stangir með sérhæfðum málmblöndum fyrir hátt í 200 viðskiptavini." 

 Norsk Hydro hefur að líkindum misst áhugann á þessum kaupum í líkingu við aðra, sem orðaðir hafa verið við kaup á starfseminni í Straumsvík.  Það er ekki vegna uppsetts verðs og ekki vegna þess, að framleiðslan sé ófýsileg.  Hluti af ofangreindum fjárfestingum voru nýjar mengunarvarnir til að mæta kröfum um losun á enn minna af flúoríðum í gasi og ryki á hvert framleitt áltonn.  Mjög góð tæknileg tök eru á rafgreiningunni, svo að losun koltvíildis er niðri við fræðilegt lágmark. 

Áratuga hefð er fyrir framleiðslu á sérhæfðum vörum í steypuskála ISAL.  Það, sem gert var 2011-2013, var að umbylta framleiðslulínum hans, sem áður framleiddu völsunarbarra eftir pöntun viðskiptavina, yfir í að framleiða sívalninga af ýmsum gildleikum, lengdum og melmum.  Þetta var gert til að skapa sér aukna sérstöðu á markaðinum og enn hærra afurðaverð.  

RTA samþykkti árið 2008 fjárveitingu til gríðarlegrar styrkingar raforkukerfisins í Straumsvík, og 2009 var ákveðið að auka afkastagetu þess til að geta séð kerskálunum fyrir enn hærri straumi til framleiðsluaukningar. Það var þannig mikill hugur í eigandanum á þessum tíma, og hann var staðráðinn í að gera verksmiðjuna eins samkeppnishæfa og unnt væri, en því miður heyktist hann á að stíga skrefið til fulls með því að styrkja leiðarakerfi rafgreiningarkeranna, eins og áformað hafði verið til að auka framleiðsluna upp í a.m.k. 230 ktAl/ár.  Er áreiðanlegt, að framkoma Landsvirkjunarmanna með forstjórann, Hörð Arnarson í broddi fylkingar, í viðræðunum um nýjan raforkusamning, átti þátt í að drepa niður áhuga RTA á þeim auknu raforkukaupum, sem áform voru um.  Er líklegt, að allt verði þetta rifjað upp, ef til málaferla kemur á milli RTA og Landsvirkjunar út af stöðvun starfseminnar og þar með stöðvun orkukaupanna.

Álverin eru stórir kaupendur alls konar annarrar þjónustu innanlands. Þar koma við sögu alls kyns verktakar og birgjar.  Pétur skrifaði um þetta:

"Á hverju ári kaupa íslenzk álver vörur og þjónustu af hundruðum fyrirtækja hér á landi, og nam sá kostnaður mrdISK 23 árið 2018; er þá raforka undanskilin.  Það er því rangt, sem stundum er haldið fram, að sala á orku til íslenzkra álvera jafngildi útflutningi á orku - í raun er minnihluti þess mrdISK 86 kostnaðar álvera, sem til féll hér á landi árið 2018, kominn til vegna raforkukaupa."

Þessi heildarkostnaður innanlands jafngildir um 62 USD/MWh.  Þetta er lágmarksviðmiðun um nettó verðið, sem fást þyrfti fyrir orku um sæstreng til útlanda.  Með nettó verði er átt við markaðsverðið að frádregnum flutningskostnaði og kostnaði vegna orkutapa.  Markaðsverðið á Nord Pool var þann 12.03.2020 8,7 EUR/MWh, sem jafngildir 9,7 USD/MWh.  Það er ekkert, sem bendir til þess, að á næsta áratugi geti orðið hagkvæmt að flytja út orku um sæstreng, þótt Landsvirkjun hóti því jafnan í viðræðum um raforkuviðskipti hérlendis eða láti skína í þann möguleika sem valkost fyrir sig.    

      


CoVid-19 og evran

Stefán E. Stefánsson, viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins, er skarpur greinandi.  Þann 18. marz 2020 birti hann í Viðskipta-Mogganum stórmerkilega "skoðunargrein" sína undir fyrirsögninni:

"Endalok evrunnar",

sem ástæða er til að birta hér og leggja út af:

"Það fór ekki vel af stað hjá Christine Lagarde, þegar hún kynnti fyrsta alvarlega inngrip Seðlabanka Evrópu, frá því að hún tók við stofnuninni síðastliðið haust.  Glannaleg yfirlýsing, sem mátti túlka sem svo, að bankinn myndi ekki bakka upp hagkerfi Ítalíu, þegar öll sund eru lokuð, olli því, að markaður með ríkisskuldabréf landsins fór á annan endann.  Hún baðst í kjölfarið afsökunar á framgöngu sinni - en skaðinn er skeður." ?! [Erlendur hortittur í lokin-innsk. BJo.]

Christine Lagarde endurómaði væntanlega þarna umræðurnar innan Seðlabanka evrunnar (ECB), þegar hún tók við stöðu formanns bankastjórnar hans.  Þar sem ítölsku ríkisskuldabréfin fóru í ruslflokk við þessi ummæli, er ljóst, að fjárfestar telja þau illseljanleg á markaði, nema ECB bjóðist til að kaupa þau.  Það er hins vegar ekki víst, að ECB hafi í þetta skiptið getu til að kaupa nóg af þeim.  Það má búast við, að mörg ítölsk fyrirtæki lendi í vanskilum við banka sína á næstu vikum og mánuðum, af því að þau hafa litlar eða engar tekjur haft vikum saman.  Bankarnir eru veikir fyrir, og ríkisstjórnin mun reyna að bjarga einhverjum þeirra, en lausafjárþurrð mun líklega reka bankana og ítalska ríkissjóðinn í þurrð.  

Seðlabanki evrunnar mun þurfa í fleiri horn að líta, t.d. til Spánar og Grikklands, en einnig norður fyrir Alpana.  Deutsche Bank stóð tæpt fyrir þetta áfall, og núverandi hagkerfislömun og vafalaust lausafjárskortur í Evrópu fyrir vikið mun geta riðið honum að fullu. Þýzki ríkissjóðurinn mun sennilega teygja sig langt til að bjarga einhverju af þessum risa, svo að Þýzkaland verður líklega ekki aflögufært fyrir björgunaraðgerðir utan landamæra Sambandslýðveldisins.  Allar þessar sviptingar hljóta að hafa veikjandi áhrif á evruna, sem gæti kannski upplifað fall í líkingu við fall norsku krónunnar, NOK, í viku 12/2020, er hún féll um fjórðung m.v. USD, líklega aðallega vegna helmingunar á verði hráolíu, sem þýðir, að allir olíuborpallar Noregs eru nú reknir með tapi.     

Á óróa- og óvissutímum leita fjárfestar í bandaríkjadal, USD. Þótt forseta Bandaríkjanna hafi brugðizt bogalistin illilega við að veita landinu forystu í vörnum þess gegn CoVid-19 veikinni með þeim afleiðingum, sem Bandaríkin munu væntanlega þurfa að súpa seyðið af (nú er 80 þúsund manns spáð dauðdaga í BNA af völdum SARS-CoV-2 veirunnar), þá er evran þegar farin að tapa talsverðu verðgildi m.v. USD eða tæplega 5 % á vorjafndægri 2020 m.v. marzbyrjun.  Aðeins glannar spá fyrir um gengi gjaldmiðla, en það er hægt að leyfa sér að ýja að því, að núverandi lömun hagkerfa af völdum CoVid-19 pestarinnar muni geta leitt til þess, að evran verði um hríð ódýrari en dalurinn.

"Ríkin í Suður-Evrópu, sem hafa barizt í bökkum allt frá fjármálahruninu 2008, ekki sízt vegna drápsklyfjanna, sem alþjóðlegar fjármálastofnanir fengu að hengja á ríkissjóðina, horfa nú fram á enn eitt rothöggið.  Nú er enginn peningur í kassanum til að bregðast við, og ríkin, sem gátu komið til hjálpar þá, eiga þess varla kost nú.  Merkel þarf ekki að neita þeim um aðstoð; hún er einfaldlega ekki aflögufær."

Þarna stiklar Stefán Einar á stóru um orsakir efnahagsvandræða Suður-Evrópu og þar með orsakir ógnana, sem nú steðja að evrusamstarfinu.  Því miður gliðnaði hin óbrúanlega gjá, sem efnahagslega liggur um Alpana og Rín, enn við hrossalækningu ESB og AGS við fyrstu evrukrísunni, sem náði hámarki 2012. Nokkrar afskriftir lána áttu sér raunar stað, en meginþungi aðgerðanna fólst í því, að stórbankar Frakklands, Bretlands og Þýzkalands, voru losaðir úr prísund áhættusamra lánveitinga og skuldaklafi ríkissjóða Suður-Evrópu aukinn að sama skapi.  Þetta hefur virkað svo vaxtarhamlandi á þessi ríki, að þau hafa ekki borið sitt barr síðan. 

 

Eðlilega mega þau ekki við neinum ytri áföllum við þessar aðstæður, og greiðsluþol ríkissjóða Suður-Evrópu mun verða í uppnámi, þegar hvert fyrirtækið á fætur öðru verður gjaldþrota vegna tekjubrottfalls af völdum SARS-CoV-2 veirunnar, sem tekur feiknarlegan toll af þessum ríkjum.  Þetta eru ill tíðindi fyrir evruna, því að seðlabanki hennar í Frankfurt getur ekki einbeitt sér að björgun Suður-Evrópu, þar sem öll Evrópa er lömuð af völdum veirunnar.  Skyldi nokkurn vísindaskáldsöguhöfund hafa órað fyrir því, að efnahagstjónið yrði jafnmikið af völdum lungnabólguveiru og raunin verður af þessari, en það mun hlaupa á tugum trilljóna bandaríkjadala á heimsvísu áður en yfir lýkur ? 

"Þegar veiran hefur gengið yfir með öllum sínum eyðileggingarmætti, ekki sízt í efnahagslegu tilliti, þurfa ríkin hvert og eitt að ræsa efnahagskerfi sín að nýju.  Það verður nánast ómögulegt innan sameiginlegs myntsvæðis.  Ríkin í suðri þurfa veikara gengi en Frakkar og Þjóðverjar, og við þeim bráða vanda er aðeins ein lausn.  Hún liggur í augum uppi, en enginn vill verða fyrstur til að benda á. Draumurinn um evruna er úti."

 Höfundur þessa vefpistils er alveg sammála málatilbúnaði og höfuðályktun Stefáns E. Stefánssonar hér að ofan, nema honum er til efs, að Frakkar muni fylgja Norður-Evrópu, heldur fremur Suður-Evrópu. Evran er hugarfóstur Frakka til að afnema ráðandi stöðu þýzku myntarinnar, DEM, á fjármálamörkuðum Evrópu.  Þá átti frammistaða franska frankans meira skylt við líruna og pesóann en þýzka markið.  Frakkar urðu ítrekað að biðja Vestur-Þjóðverja um að hækka gengi þýzka marksins til að þurfa ekki að lækka gengi frankans.  Frakkar héldu, að þeir hefðu leyst gjaldmiðilsvanda sinn með evrunni, en misreiknuðu sig.  Þýzka hagkerfið, skilvirkni og framleiðnivöxtur Þjóðverja, hefur haft mest áhrif á gengi evrunnar og haldið því uppi, en nú verða mjög líklega þau kaflaskil, að evran mun veikjast út á við og inn á við.  Til þess þurfti aðeins örsmáan próteinklasa frá Kína, sem sezt að í frumum manna um allan heim og reynir á þanþol og mótstöðukraft ónæmiskerfis þeirra.    

 

 

 


Áhrif CoVid-19 hérlendis

Sóttvarnalæknir hefur beitt hefðbundinni áhættustjórnun hérlendis, sem miðar að lágmörkun heildartjóns, þ.e. heilsutjóns/fjörtjóns og efnahagstjóns.  Það á eftir að koma í ljós, hvernig til tekst, en árangurinn hingað til lofar góðu.  Ef mat tölfræðinga á vegum sóttvarnalæknis gengur eftir, verður CoVid-19 í hámarki um páskana 2020, og mun þá e.t.v. ganga yfir hérlendis á 3 mánuðum. Nú (23.03.2020) er fjöldi smitaðra tæplega 600, en sú tala getur hafa meira en fimmfaldazt um það leyti, sem fjölgun smita nær hámarki. 

Ef svo fer í lok maí, þegar vonazt má eftir, að pest þessi verði um garð gengin, að fjöldi smitaðra hafi ekki farið yfir 6000 manns (1,7 % mannfjöldans), hafa aðgerðir sóttvarnalæknis borið mikinn árangur, þegar fjöldi sýktra af Spænsku veikinni er hafður til samanburðar, en smitnæmi þessara tveggja pesta gæti verið svipað (hver sýktur smitar 2-3, ef ekkert er að gert). Þá gæti heilbrigðiskerfið líka hafa náð mjög góðum árangri við að lækna sjúka, og hlutfallslegur fjöldi látinna af sýktum orðið lægri en annars staðar þekkist.  Hins vegar er hlutfallslegur fjöldi sýktra meiri en annars staðar hefur sézt.

Aðgerðir sóttvarnalæknis hafa verið dýrar, en munu aftur á móti spara mikinn sjúkrahúskostnað og bjarga mannslífum áður en yfir lýkur. Varnarherfræðin hér er svipuð og þar sem bezt hefur til tekizt, þ.e. í Suður-Kóreu, enda er fjöldi skimana hér per milljón íbúa sá langhæsti í heiminum (28 k).    

Fjárhagstapið af völdum CoVid-19 er aðallega fólgið í töpuðum tekjum af erlendum ferðamönnum. Þær gætu numið mrdISK 200 á þessu ári, því að ferðamenn hugsa sér varla til hreyfings fyrr en veiran er hætt að grassera bæði hérlendis og í heimalandi þeirra.  Kostnaður af vinnutapi sýktra og sóttkvíaðra gæti numið mrdISK 10 og annar kostnaður af völdum pestarinnar mrdISK 30, svo að heildarkostnaður nemi mrdISK 240 eða 8 % af VLF. Kynntar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar virðast nema mrdISK 230. Þetta er svakalegt högg, sem mun taka nokkur ár að vinna upp og hlýtur að koma niður á lífskjörum hér.  Það er yfirgengilegt óraunsæi, ef ekki raunveruleikafirring við þessar aðstæður, að stunda hér harða verkfallsbaráttu og beita verkfallsvopninu.  Þessi kröfuharka og stéttabarátta á engan veginn við á gildistíma Lífskjarasamninganna. Slíkt framferði er einsdæmi í veröldinni og getur engan veginn orðið verkalýð til hagsbóta. Fólk á ekki að láta pólitíska loddara teyma sig á asnaeyrunum við þessar aðstæður eða aðrar.  Hér ættu allir að sameinast um að lágmarka tjónið og síðan að hraða uppbyggingunni sem mest í kjölfarið, þótt örugglega verði að rifa seglin um sinn vegna mikilla efnahagsvandræða í viðskiptalöndum okkar.   

Við þessar fordæmalausu aðstæður hafa miklar sviptingar orðið á verðbréfamörkuðum og t.d. hlutabréf ferðaþjónustufyrirtækja hrunið, eins og gefur að skilja, þótt t.d. Icelandair hafi eitthvað rétt úr kútnum.  Þegar flug nánast stöðvast í heiminum vikum eða mánuðum saman, er líklegt, að slíkt muni hafa langvarandi áhrif á flugfélögin og þau týna tölunni.  Komið hefur fram sú hugmynd í Noregi að sameina norrænu félögin Finnair, Icelandair, Norwegian og SAS undir einu eignarhaldsfélagi, en nú eru British Airways og Iberia Airlines undir sama félagi og Air France og KLM undir öðru.  Lufthansa hefur keypt millilandaflugfélögin í Austurríki og Belgíu.  Icelandair yrði sem sagt áfram flugrekandi, en með öflugan fjárhagslegan bakhjarl, sem hugsanlega gæti létt ábyrgðum af ríkissjóði, ef til þeirra þarf að koma.  Eignir lífeyrissjóðanna íslenzku eru þarna og miklu víðar í uppnámi um þessar mundir. Ávöxtun þeirra verður ekki upp á marga fiska 2020.

Hagkerfin hafa lamazt eitt af öðru, og nú virðast Bandaríkin stefna í eitthvað, sem hægt er að líkja við ítalskt ástand.  Það er vegna andvaraleysis stjórnvalda þar, sem hæglega getur kostað Donald Trump embættið í hendur Joe Bidens, sem elliglöp hafa þó hrjáð í forvalsbaráttu demókrata.  Þótt andvaraleysið geti framkallað hjarðónæmi, veldur það miklum veikindum, öngþveiti á heilbrigðisstofnunum og hárri dánartíðni smitaðra. Nú berast fréttir af útgöngubanni í Kaliforníu og í fleiri fylkjum BNA a la Ítalía.  

ISK gaf eftir, þegar ósköpin dundu yfir, enda munar hvert ferðamannaland um það, að innstreymi erlendra ferðamanna stöðvist í 3 mánuði eða meira.  Þótt mikill erlendur gjaldeyrir tapist, um mrdISK 200, sparast erlendur gjaldeyrir líka vegna færri utanlandsferða landsmanna, minni fjárfestinga og minni neyzlu Íslendinga á þessum erfiðu tímum.  Ef þar við bætist, að lífeyrissjóðir flytji stóran hluta af fjárfestingum sínum í evrum "heim ins Reich", sem þeir ættu hiklaust að gera, og stöðvi erlendar fjárfestingar sínar, þá verður sennilega hægt að hindra það, að viðskiptajöfnuðurinn snarist á neikvæðu hliðina yfir allt árið 2020.  Þar með gæti gengi ISK gagnvart EUR jafnað sig (140 ISK/EUR), en gengi USD virðist munu stíga m.v. EUR. Það er venjan, að á óvissutímum leita spákaupmenn í bandaríkjadalinn. Umfjöllun um EUR á tímum CoVid-19 er efni í annan pistil. 

 


CoVid-19-örlagavaldur

Heimsbyggðin er nú undirlögð af veiru, og hagkerfi heimsins eru lömuð um ófyrirsjáanlegan tíma.  Heilsufarslegar afleiðingar, fjöldi ótímabærra dauðdaga, efnahagslegar, peningalegar og pólitískar afleiðingar, eiga eftir að koma í ljós, en hægt er nú þegar að fullyrða, að sumt af þessu verður ærið stórskorið.

Margir alvarlegir sjúkdómar herjuðu á mannkynið á 20. öldinni, og voru margir þeirra kallaðir barnasjúkdómar, sem gengu á Íslandi t.d. á 6. áratuginum, þegar höfundur þessa pistils var að slíta barnsskónum og tók þá flesta þessara sjúkdóma, sem bóluefni voru síðan þróuð fyrir. Nú er verið að þróa bóluefni gegn CoVid-19, en það fer í fyrsta lagi í almenna dreifingu 2021.

Skaðlegasta veirupestin á 20. öldinni var þó líklega Spænska veikin, sem lagðist á öndunarfærin svipað og CoVid-19 nú.  Í Spænsku veikinni smituðust 63 % íbúa í þéttbýli á Íslandi, og var dánarhlutfall þeirra 2,6 % eða um 500 manns hérlendis.  Dánarfjöldi hérlendis af völdum CoVid-19 verður fyrirsjáanlega aðeins brot af þessari tölu, innan við 10, ef fer fram sem horfir, svo er einfaldlega aðgerðum sóttvarnayfirvalda fyrir að þakka, hvað sem gagnrýni á þau líður.

Hver smitberi er talinn hafa smitað 2-3 í kringum sig í spænsku veikinni, sem er sama smitnæmi og fyrir CoVid-19, en meðgöngutíminn var samt aðeins 2 dagar þá, sem er mun skemmri meðgöngutími en nú.  Spænska veikin lagðist þungt á aðra aldurshópa en CoVid-19, þ.e. 20-40 ára í stað elztu aldurshópanna nú, en þá voru reyndar þjóðfélagsaðstæður allt aðrar en nú og miklu minna af háöldruðu fólki. Ein af ástæðum skelfilegs ástands og hárrar dánartíðni á Ítalíu af völdum CoVid-19 er talin vera hár meðalaldur á Ítalíu.  Hann mun vera sá næst hæsti í heimi á eftir Japan, en þar í landi voru gagnráðstafanir líklega mun skeleggari frá upphafi en á Ítalíu.  Hérlendis var frá upphafi tekin upp róttæk stefna til að vernda elztu borgarana.   

Þar sem heilbrigðiskerfi almennings er öflugt, er dánartíðnin lægri en hún var í Spænsku veikinni, en þar sem það er vanþróað eða hefur kiknað undan álaginu, þar verður dánartíðnin hærri af völdum CoVid-19. Öflug smitrakning og sóttkvíun hérlendis hefur berlega dregið úr dreifingunni, og þar með standa góðar líkur til, að álagið á íslenzka heilbrigðiskerfið muni verða innan marka afkastagetu þess, þ.m.t. gjörgæzlan. 

Í byrjun þessarar aldar kom upp stórhættulegur veirusjúkdómur í Vestur-Afríku, sem fékk nafnið ebóla. Það varð mannkyni til happs þá, að hún dreifðist ekki í lofti og náði aldrei til þéttbýlis. Með fórnfúsu heljarátaki heilbrigðisstarfsmanna víða að tókst að hemja þessa veiru og ráða niðurlögum hennar, a.m.k. um sinn. Hún olli innvortis blæðingum, og dánarhlutfall sýktra var yfir 60 %.   

Mannkynið er alltaf óviðbúið veirufaröldrum.  Því verður að breyta.  Á vegum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, þurfa þjóðir heims að sameinast um "varnarlið" heilbrigðisstarfsmanna, sem hafa beztu rannsóknarstofnanir í veirufræðum sem bakhjarla og er reiðubúið að fara á staðinn, þar sem grunur leikur á um veirusmit af nýju tagi og aðstoða heimamenn við að ráða niðurlögum veirunnar sem fyrst. Hérlendis þarf að rýna hönnun nýs Landsspítala m.t.t. einangrunarrýma og stækkunar gjörgæzluaðstöðu.  Þetta mundi líka gagnast baráttunni við fjölónæma sýkla. 

Skilyrði þess, að takast megi að hefta útbreiðslu, er, að grípa strax til gagnráðstafana og hafa opið upplýsingaflæði í viðkomandi landi og um allan heim um þróun mála.  Það virðist algerlega hafa brugðizt í Kína, a.m.k. að þessu sinni, því að talið er, að vart hafi orðið við veiruna í Wuhan í nóvember 2019, og sorgleg er sagan af hálffertugum lækni þar, sem vildi hringja aðvörunarbjöllum í Kína út af áður óþekktum veirufaraldri þegar í desember 2019, en yfirvöld stungu hausnum í sandinn og lögðu áherzlu á að þagga málið niður.  Ungi læknirinn, sem reyndi eftir megni að hjálpa fjölmörgum sjúklingum á sjúkrahúsum í Wuhan í miklu veiruumhverfi, smitaðist sjálfur af CoVid-19 og lézt úr sjúkdóminum í lok janúar 2020, þótt hraustur væri fyrir. Annað eins og þetta má aldrei endurtaka sig, enda má hafa mjög þung orð um slíka framvindu.  Síðan hafa kínversk stjórnvöld reynt að bæta ráð sitt og staðið sig vel í að hefta útbreiðsluna í Kína, en veiran náði samt að dreifa sér út fyrir landamærin, m.a. til Alpanna tiltölulega fljótt, eins og alræmt er.

Það er rannsóknarefni út af fyrir sig, hvers vegna svo margar veirupestir, eins og dæmin sýna, eiga upptök sín í Kína, og er þá skemmst að minnast SARS-veikinnar 2003 af völdum minna smitandi kórónu-veiru en CoVid-19, svo að hún barst ekki á okkar slóðir. Bent hefur verið á matarmarkaðina í Kína, þar sem ægir saman alls kyns kvikindum, lifandi og dauðum, sem Kínverjar leggja sér til munns.  Í þessum kvikindum eru alls kyns veirur, og ein tilgátan er sú, kórónaveirurnar finni sér nýjan hýsil á þessum mörkuðum.  CoVid-19 stökk úr leðurblöku yfir í "homo sapiens" samkvæmt þessari kenningu, en hún veldur þessum nýja hýsli skaða, þótt sambýlið hafi ekki verið svo slæmt við gamla hýsilinn.  Aðferð til að draga úr þessum veiruuppsprettum er þá að auka þrifnað og sóttvarnir á þessum mörkuðum, og enn róttækara væri að hætta að éta þessi kvikindi, en það er nú kannski svipað gagnvart Kínverjum og að biðja Íslendinga um að hætta að éta hangiket. 

Wuhan er mikil háskólaborg, og þar er miðstöð veirurannsókna í Kína.  Önnur tilgáta um uppruna veirunnar er sú, að hún hafi verið þróuð í hernaðarskyni á rannsóknarstofu í Wuhan, en sloppið þaðan út.  Sérfræðingur í veirufræðum hefur látið að því liggja, að CoVid-19 hafi orðið til við að skeyta erfðaefni úr HIV-eyðniveirunni við SARS til að gera hana meira smitandi en kóróna-veirur eru alla jafnan, sbr SARS (Severe Acute Respiratory Syndrome).

Auðvitað vita Kínverjar hið sanna í þessu máli, en leyndarhyggja þeirra veldur tortryggni, sem verður síðan gróðrarstía gróusagna.  Þeir meinuðu WHO aðgang að landinu í upphafi, sem út af fyrir sig er grafalvarlegt mál í ljósi þeirra geigvænlegu afleiðinga, sem útbreiðsla veirunnar hefur um gervallan heim. Sams konar þöggunartilburða í Kína gætti gagnvart upptökum SARS-veirunnar.  Í kjölfarið sögðu yfirvöld, að slíkt myndi ekki endurtaka sig vegna styrkrar stjórnar átrúnaðargoðsins, sem nú fer með æðstu völdin í Kína, en hið sama varð samt uppi á teninginum í Wuhan í a.m.k. 2 mánuði, og á meðan lék veiran lausum hala, og fólk ferðaðist óheft til og frá hinu sýkta svæði og einnig til útlanda. Þar með varð fjandinn laus.

Þótt takist að stöðva dreifingu veirusýkinnar CoVid-19 alls staðar í heiminum í sumar, þá er engin trygging fyrir því, að hún gjósi ekki upp aftur næsta vetur, jafnvel stökkbreytt og þá enn erfiðari viðfangs.  Það er algerlega óbærilegt, að fólk þurfi að búast við því nokkrum sinnum á sama áratugi, að tilvera þess og jafnvel líf verði í fullkomnu uppnámi.  Slíkt ástand mun hafa mjög slæm áhrif á lífskjör almennings hvarvetna í heiminum.  Það eru gríðarlegir sameiginlegir hagsmunir í húfi, og árangur í þessari baráttu næst alls ekki með leynimakki og einleik hverrar ríkisstjórnar fyrir sig, eins og við höfum horft upp á undanfarna daga og vikur, heldur með samstilltu átaki, þar sem höfuðáherzla verður lögð samstundis og veiran uppgötvast á einangrun, sóttkví, að rekja slóðir sýktra og læknisfræðilega aðstoð við upprunalandið á fyrstu dögum, eftir að grunsemdir vakna. Tíminn skiptir öllu máli hér sem oftar. Að sólunda honum er dýrt spaug, kostar tugþúsundir mannslífa og efnahagskreppu.

 

 


Útskýri stefnu á ögurstundu

Kveikjan að þessum vefpistli er stutt frásögn Morgunblaðsins 5. marz 2020 af ályktun Bæjarráðs Akraness undir fyrirsögninni "Útskýri stefnu"  og ljómandi góð og tímabær grein Ásmundar Friðrikssonar, Alþingismanns Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu 7. marz 2020, sem bar hið sláandi heiti:

"Ögurstund í atvinnulífinu".

Víkjum fyrst að frásögn Morgunblaðsins undir áherzluatriðinu: 

"Skagamenn krefja Landsvirkjun svara":

"Útskýringar þarf frá Landsvirkjun á því, hver er stefna fyrirtækisins gagnvart orkusæknum iðnaði á Íslandi.  Þetta segir í ályktun bæjarráðs Akraness, sem vekur athygli á því, að Landsvirkjun hafi í krafti yfirburðastöðu í raforkusölu á stórnotendamarkaði knúið fram mjög miklar hækkanir á raforkuverði til orkusækins iðnaðar.  

Slíkt telja Akurnesingar geta leitt til verulegs samdráttar í starfsemi stórfyrirtækja á Grundartanga með tilheyrandi fækkun starfa. Með slíku sé einvörðungu hugsað um að hámarka arðsemi Landsvirkjunar, en ekki horft til heildarhagsmuna þjóðar." 

Hér er um eðlilega og löngu tímabæra ályktun bæjaryfirvalda Akranesskaupstaðar að ræða, en Elkem á Íslandi (Járnblendiverksmiðjan) glímir nú við afleiðingar raforkuverðshækkunar í kjölfar úrskurðar gerðardóms, sem fór bil beggja, en Landsvirkjun lýsti samstundis yfir óánægju sinni af því offorsi, sem nú einkennir afstöðu einokunarfyrirtækisins Landsvirkjunar til orkuverðs, með þeim afleiðingum, að hún tapar árlega nýjum viðskiptum og gamlir viðskiptavinir eru bókstarflega keyrðir í þrot. Þegar ferðamannageirinn hefur orðið fyrir rothöggi, eins og nú af völdum CoVid-19, ríður á sem aldrei fyrr að keyra allt annað í landinu á fullum afköstum.  Ríkisfyrirtækið Landsvirkjun leggst þversum gegn því með kolvitlausri verðlagsstefnu sinni, sem er algerlega úr takti við þróun orkuverðs í heiminum.

Kannski er einmitt verst af öllu, að Landsvirkjun er ekki með á nótunum um þróun orkuverðs almennt til stórfyrirtækja í heiminum, en það hefur farið lækkandi frá 2011.  Ríkisstjórnir í ESB hafa greitt orkuverðið niður um 10,5 USD/MWh (9,5 EUR/MWh), og norska ríkisstjórnin um 6 USD/MWh.  Á sama tíma okrar ríkisorkufyrirtækið á iðnfyrirtækjum hérlendis, sem berjast í bökkum, og ríkisstjórnin hér, kaþólskari en páfinn að vanda, setur kíkinn fyrir blinda augað og þykist hvergi nærri mega koma (út af EES-samninginum og orkupökkum ESB). Hún bíður nú rétt einu sinni eftir skýrslu.  Núverandi ástand krefst skjótra ákvarðana og leiðtogahæfni.  Yfirvöld, ber að heybrókarhætti, þegar að sverfur, eru ekki á vetur setjandi.  

Viðkvæði forstjóra Landsvirkjunar þess efnis, að henni beri að hámarka ávöxtun náttúrulegra orkulinda þjóðarinnar (í anda orkupakkanna), verður ekki lengur tekið gott og gilt, af því að það á við samkeppnisumhverfi, en Landsvirkjun er hins vegar í einokunaraðstöðu, og þar verður þessi stefna stórskaðleg fyrir atvinnulífið.  Keppinautarnir hefðu einfaldlega hirt viðskiptavinina af Landsvirkjun við þessa hegðun hennar í samkeppnisumhverfi, sem þýðir, að þeir hefðu boðið verð, sem bæði þeir og viðskiptavinir þeirra gætu búið við.  Það þarf að vera sambærilegt verðinu, sem í boði er erlendis, að frádregnum öllum viðbótar kostnaðinum samfara staðsetningu viðskiptavinanna á Íslandi.  Þetta er núna, með flutningsgjaldi, talsvert undir 30 USD/MWh, og er samt vel yfir meðalkostnaði vatnsaflsvirkjana á Íslandi.  Í  gufuvirkjunum er hins vegar úr vöndu að ráða vegna niðurdráttar í virkjuðu gufuforðabúri, og þess vegna erfiðara að slá á meðalkostnað þeirra, en liklega er hann um eða undir 30 USD/MWh.

Í lok frásagnar Morgunblaðsins er þessi tilvitnun í téða ályktun bæjarráðsins:

""Stjórn Landsvirkjunar ber alla ábyrgð á stefnu fyrirtækisins og framgöngu forstjórans, og því kallar bæjarráð eftir því, að stjórnarmenn Landsvirkjunar, og þá sérstaklega stjórnarformaðurinn, Jónas Þór Guðmundsson, stígi fram úr skugga forstjórans og útskýri fyrir íslenzku þjóðinni, hvert stjórn Landsvirkjunar sæki umboð sitt til að ganga fram með þessum hætti", segir bæjarráð Akraness.  Kallar ráðið því eftir útskýringum t.d. á því, hvort ráðagerðir fyrirtækisins samræmist leiðarljósum fyrirhugaðrar orkustefnu um að hámarka samfélagslegan ávinning af nýtingu orku, styðji við atvinnustefnu og jákvæða byggðaþróun."

  Ekkert bólar á svari stjórnar Landsvirkjunar.  Er það með öllu ólíðandi framkoma hjá ríkisfyrirtækinu, ef í ljós kemur, að stjórn Landsvirkjunar ætlar að hundsa ósk Akranesskaupstaðar um útskýringar á því, sem gerzt hefur. Þetta er ekki heilbrigt ástand hjá Landsvirkjun. Eðlilegt væri, að stjórnin mundi skrifa bæjarráðinu svarbréf og bjóðast til að senda formanninn til fundar með bæjarráðinu.  Bréf og fundargerð ættu að vera opinber plögg í lýðræðisþjóðfélagi. Það er rétt hjá bæjarráðinu, að stjórn Landsvirkjunar skuldar þjóðinni skýringar á stefnumörkun sinni.

Sú staða, sem virðist vera að koma upp í samskiptum Landsvirkjunar við landsmenn, er svo alvarleg, að ráðherra iðnaðar verður að kippa strax í taumana, þannig að Landsvirkjun magni ekki upp vanda aukins atvinnuleysis og minnkandi gjaldeyrisöflunar þjóðfélagsins, heldur stuðli að því að koma þeim hjólum atvinnulífsins, sem ekki eru stopp vegna CoVid-19, á fullan snúning.

Ásmundur Friðriksson, Alþingismaður, kom víða við í sinni ágætu grein, sem minnzt var á í upphafi.  Það, sem hann skrifaði um raforkumálin og ráðstöfun orkunnar, kom fram í undirgreininni: 

"Virðisauki raforkunnar":

"Miklu púðri hefur verið eytt í skýjaborgir um sæstreng til Bretlands, verkefni, sem á sér engar efnahagslegar forsendur, nema brezka ríkisstjórnin leggi til stórfelldar niðurgreiðslur í marga áratugi.  Við verðum að átta okkur á því, að draumurinn um sæstreng er áratuga gamall og mun eflaust lifa lengi í huga draumóramanna."

Þetta er hárrétt athugað hjá þingmanninum, og sæstrengsverkefnið missir auðvitað æ meir fótanna með sífelldri raunlækkun orkuverðs síðan 2011.  Undir því er enginn viðskiptagrundvöllur með heildsöluverð rafmagns hjá Nord Pool undir jafngildi 100 USD/MWh (og er þá ekki tekið tillit til virðisaukans, sem rafmagnið myndar við nýtingu á Íslandi), og Nord Pool verðið er jafnvel aðeins 1/10 af þessu lágmarki um þessar mundir. 

Draumar voru bundnir við styrk til verkefnisins frá Evrópusambandinu, ESB, en líkur á slíku dofnuðu verulega við útgöngu Breta úr ESB, enda hefur "Ice-Link"-strengurinn verið tekinn út af forgangsverkefnaskrá ESB um innviðaverkefni innan EES. 

Þá er eftir, það sem Ásmundur nefnir, ríkisstuðningur Breta.  Hann er úr þessu næstum útilokaður, því að þeir hafa einskorðað ríkisstuðning við vindorkuver úti fyrir ströndum Bretlands. Það kom þess vegna eins og skrattinn úr sauðarleggnum, þegar iðnaðarráðherra gat þess um daginn, að hún vildi alls ekki útiloka þátttöku Íslands í enn einni fýsileikarannsókninni á aflsæstreng til útlanda.  Kannski er hún þá með annan lendingarstað í huga en Stóra-Bretland ?  Skattfé eða ráðstöfunarfé íslenzkra ríkisfyrirtækja er hins vegar betur varið í flest annað nú um stundir en sæstrengsdraumsýnina.  Það er ekkert vit í því fyrir stjórnmálamenn að ljá máls á peningum í svo vonlaust verkefni sem hér um ræðir.  Þeir ættu að láta einkaframtakið alfarið um slíkt. 

"Er staða ISAL kannski draumur þeirra, sem vilja [sjá] sæstreng rætast.  Að þar verði störfum og afkomu þúsunda fórnað fyrir rafstreng, sem tengir landið markaðsverði raforku í Evrópu og við flytjum út virðisauka endurnýjanlegrar raforku, sem þjóðin öll á ? Þeir, sem trúa blint á markaðshugsun og telja, að tenging við raforkumarkað Evrópusambandsins sé hin eina sanna lausn, eru að kalla yfir okkur fækkun starfa og stórkostlega hækkun á raforkuverði fyrir íslenzk heimili og atvinnulíf." 

Það er fagnaðarefni, að mætur þingmaður skuli hér velta fyrir sér opinberlega, hvort samhengi sé á milli núverandi orkuverðsvanda í Straumsvík og greinilegum áhuga á að selja raforku um sæstreng til útlanda.  Svo vill til, að þessi mál tengjast bæði einum manni, núverandi forstjóra Landsvirkjunar, sem gekk hart fram gegn RTA/ISAL 2010-2011 og hefur sýnt manna mestan áhuga á, að Evrópumarkaðirnir opnist fyrir Landsvirkjun.  Í ljósi viðbragða hans í febrúar 2020 við neyðarkalli RTA/ISAL 12.02.2020 berast böndin sterklega að forstjóra þessum.

Við þessar aðstæður verður þó að gefa gaum líka að ríkisstjórnarhliðinni, því að Landsvirkjun er alfarið í ríkiseign.  Á stóli iðnaðarráðherra situr nú manneskja, sem virðist "trúa blint á markaðshugsun".  Það kom berlega í ljós í umræðunni um Orkupakka 3 (OP#3), að hún taldi honum það mest til ávinnings, að hann mundi auka samkeppni á raforkumarkaði.  Hún hélt því þá fram, að orkukostnaður almennings hefði lækkað vegna aukinnar samkeppni frá innleiðingu OP#1 árið 2003, en það var hrakið í grein hagfræðiprófessors í skýrslu "Orkunnar okkar" í ágúst 2019.  Hún hefur jafnframt sem iðnaðarráðherra verið jákvæð í garð frekari rannsókna á fjárhagslegum og tæknilegum fýsileika slíks sæstrengs. 

Með sæstreng tengjumst við uppboðsmarkaði Nord Pool í Norð-Vestur Evrópu.  Öll fyrirtæki og heimili munu þá lenda í bullandi samkeppni við fyrirtæki og heimili í NV-Evrópu.  Óneitanlega er þetta raunveruleg samkeppni, því að við munum geta flutt inn raforku, einkum að næturlagi, þegar Landsvirkjun skrúfar verð sitt upp úr öllu valdi.  Er þetta virkilega draumsýn iðnaðarráðherra ?  Almenningur á Íslandi veit lengra en nef hans nær og hefur alltaf gert.  Hann sér í hendi sér, að atvinnulífið á Íslandi verður ein rjúkandi rúst, ef þetta gerist, og að sjálfsögðu mun fólkið fylgja á eftir orkunni, sem þannig er seld úr landi. 

Alþingi endurspeglar ekki nákvæmlega þetta viðhorf, en það er samt að líkindum núna meirihluti gegn sæstrengstrengingu, og ekki væri nú að ófyrirsynju að staðfesta það, iðnaðarráðherra og öðrum til glöggvunar, með því að henda í eina þingsályktunartillögu þess efnis. Hún væri þá innlegg í orkustefnu, sem er í smíðum á vegum iðnaðarráðuneytisins. 

"Í mínum huga er samfélagið, heimili og atvinnulíf, þjóðarsjóðurinn, sem bezt nýtir hagnað ódýrrar raforku.  Ég mun berjast til síðasta manns fyrir því, að virðisauki raforkunnar verði til í landinu, svo [að] samfélagið njóti fjölbreyttra, vel launaðra starfa, sem raforkan mun skapa framtíðarkynslóðum þessa lands."

 "Svona eiga sýslumenn að vera."  Hér talar fulltrúi sannra sjálfstæðismanna, íhaldsmanna, sem vilja halda í upprunalega stefnu flokksins í þessum efnum, allt frá fyrsta formanni flokksins, Jóni Þorlákssyni, landsverkfræðingi, til Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins.  Sú stefna, sem dr Bjarni Benediktsson og Jóhann Hafstein náðu að hrinda í framkvæmd í samstarfi við Alþýðuflokkinn á Viðreisnarárunum, hefur gefizt svo vel, að fullyrða má, að átvinnulíf, raforkukerfi og lífskjör í landinu væru ekki svipur hjá sjón, ef þessi barátta frumkvöðlanna hefði ekki borið árangur.  Atvinnuuppbygging verður að njóta forgangs umfram auðhyggju.  Þá mun landinu vel vegna til lengdar, þótt mótvindar séu óhjákvæmilegir á öllum löngum siglingum.     

 

 


Ráðlegging á röngu róli

Það er ekki á hverjum degi, að ráðlegging um aðferðarfræði og samningsmarkmið til annars aðilans í viðkvæmri og viðurhlutamikilli deilu, allra sízt á sviði raforkuviðskipta, sést opinberlega frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, HHÍ, enda ber sú, sem hér verður rýnd, með sér að vera svo illa ígrunduð og ófræðileg í alla staði, að hún er líklega af pólitískum rótum runnin, enda hefur forstöðumaðurinn áður sett sig í dómarasæti um allt of lága arðsemi Landsvirkjunar.  Þar er hann á öndverðum meiði við Jón Þór Sturluson, sem rannsakað hefur þessi mál sérstaklega og komizt að þeirri niðurstöðu, að m.v. áhættu fjárfestinga Landsvirkjunar hafi arðsemi hennar verið vel viðunandi, sjá lok þessa pistils.  

Í upphafi fréttar Þorsteins Friðriks Halldórssonar og Kristins Inga Jónssonar í Markaði Fréttablaðsins 13. febrúar 2020, sem bar fyrirsögnina:

"Landsvirkjun þurfi ekki að örvænta",

gaf þetta á að líta:

"Engin ástæða er fyrir Landsvirkjun til að örvænta og slá af raforkuverðinu til álversins í Straumsvík, enda er samningur álversins við Landsvirkjun bundinn til ársins 2036.  Fyrirtækin gætu komizt að samkomulagi um að skipta ávinningi á milli sín.  Þetta segir Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands."

Þetta er fljótfærnisleg yfirlýsing af hálfu forstöðumannsins Sigurðar J. m.t.t. til eðlis máls og þess, sem í húfi er.  Forsenda hans virðist vera, að vegna kaupskyldu raforkusamningsins muni RTA heykjast á að loka ISAL, og ef sú yrði samt reyndin, yrði raforkunni strax fundið annað virðisaukandi hlutverk, og þeir 1250 starfsmenn, sem HHÍ áætlar, að hafi bein og óbein störf af starfseminni í Straumsvík, fengju strax jafn vel eða betur borguð störf en þeir misstu.  Forstöðumaðurinn Sigurður J býst einnig við, að deiluaðilar myndu ná samkomulagi um að skipta með sér andvirði raforkusölunnar.  Þetta eru einberar skýjaborgir og hrein fásinna af forstöðumanninum að bera þetta á borð fyrir almenning. Höldum aðeins áfram með þessa mannvitsbrekku:

""Frá viðskiptalegu sjónarhorni", bætir hann við, "sé ég hins vegar ekki ástæðu fyrir Landsvirkjun til að slá af verðinu.  Ef samningurinn er þannig úr garði gerður, að Rio Tinto hefur skuldbundið sig til að kaupa alla þessa raforku, eftir niðurskurðinn í ár, tel ég ekki, að Landsvirkjun sé í slæmri stöðu í bili", segir Sigurður, sem tekur fram, að hann viti ekki með vissu, hvað felist í samningi fyrirtækjanna."

Téður Sigurður virðist telja, að Landsvirkjun eigi að einblína á þrönga fyrirtækishagsmuni sína og láta þjóðarhagsmuni lönd og leið. Það er í samræmi við inntak orkupakkanna frá Evrópusambandinu (ESB), en stríðir algerlega gegn upprunalegu og eðlilegu hlutverki Landsvirkjunar að efla atvinnu og verðmætasköpun í landinu.  Sú stefnumörkun tryggir hins vegar, að afrakstur auðlindanýtingarinnar dreifist um allt hagkerfið, nákvæmlega eins og þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson telur ákjósanlegast og lýsti í Morgunblaðsgrein 07.03.2020. Í ESB er ekki verið að nýta náttúruauðlindir, sem eru stór hluti af þjóðarauðnum, til raforkuvinnslu, eins og hér er gert.

Þá er alveg ljóst, að téðum Sigurði hefur verið tjáð, eða hann ímyndar sér, að Landsvirkjun hafi fullkomna tryggingu fyrir orkukaupskyldu RTA til samningsloka 2036, þótt móðurfyrirtækið neyðist til að loka ISAL, af því að Landsvirkjun þverskallast við að koma nægilega til móts við óskir fyrirtækisins um að létta því óbærilegar fjárhagsbyrðar af völdum orkukostnaðar á tímum mjög lágs álverðs.

Þetta er önnur hæpin forsenda Sigurðar, sem ráðlegging hans hvílir á og sýnir, að óviðeigandi ráðgjöf hans sem forstöðumanns HHÍ hvílir á brauðfótum.  Ef RTA mætir eintómum þvergirðingi af hálfu Landsvirkjunar, er næsta víst, að RTA mun draga hana fyrir dóm, þar sem reynt mun verða að ógilda kaupskylduna t.d. á þeim forsendum alþjóðalaga, að halli svo mjög á annan aðilann á samningstímanum, að samningurinn verði honum óbærilegur, beri hinum að verða við óskum hans um að endursemja í góðri trú um, að samningurinn verði báðum viðunandi út samningstímabilið.  Hvað sem líður efnisatriðum umræddrar ráðleggingar í nafni HHÍ, virðist hún tvímælalaust vera fullkomlega óviðeigandi frumhlaup.

Í "Sögu Landsvirkjunar" árið 2005 skrifaði Jón Þór Sturluson:

"Að teknu tilliti til tímasetningar eigendaframlaga, arðgreiðslna og metins virðis Landsvirkjunar, má reikna út arðsemi þess fjár, sem eigendur hafa bundið í fyrirtækinu á bilinu 5,1 % - 7,4 %  [...].  Niðurstaðan er sú, að ef Landsvirkjun væri rekin sem hvert annað einkafyrirtæki og verðlegði raforkuna í samræmi við hámörkun hagnaðar og samkeppni frá keppinautum, væri arðsemi af þeim fjármunum, sem settir hafa verið í fyrirtækið, væntanlega vel ásættanleg, á bilinu 5,1-7,4 % að raungildi."

Hér er lykilatriði til skilnings að taka eftir orðunum "og samkeppni frá keppinautum".  Meinið er, að nú er engin "samkeppni frá keppinautum", heldur er raforkuverðið skrúfað purkunarlaust upp í ósjálfbærar hæðir í krafti þessi, að viðskiptavinurinn getur ekki leitað neitt annað með raforkukaup sín.  Hann á þá tveggja kosta völ, og eru báðir vondir: að ganga að afarkostum upp á von og óvön um þróun afurðamarkaða sinna eða að afskrifa fjárfestingar sínar og hætta starfseminni (fyrirtækið er óseljanlegt með ósjálfbæran eða engan raforkusamning).  

 


Rangar ákvarðanir í orkumálum verða afdrifaríkar

Ef hrapað er að stefnumörkun í orkumálum, getur það hæglega haft afdrifaríkar afleiðingar á þjóðarbúskapinn, því að nýttar orkulindir landsins leika stórt hlutverk í verðmætasköpun þjóðfélagsins.  Jafnvel Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, sem oft hefur opinberlega sýnt megna andúð á starfsemi stóriðjufyrirtækja í landinu af ástæðum, sem ekki styðjast við rökræna hugsun, þykist þó átta sig á mikilvægi "skynsamlegrar" orkulindanýtingar.  Hætt er þó við, að "skynsamleg orkulindanýting" leiði umræðuna út um víðan völl og út í "eitthvað annað", því að það er eins og gengur; það, sem einum þykir skynsamlegt, finnst öðrum óskynsamlegt.  Að henda inn þessu lýsingarorði án þess að útskýra merkinguna neitt nánar er þess vegna út í hött og leiðir umræðuna aðeins í hringi, sem eru endalausir, eins og kunnugt er.

Björt skrifaði rislitla grein í Morgunblaðið 27. febrúar 2020, sem hún nefndi:

 "Landsvirkjun og Rio Tinto".

Hún kveður "Mining Journal" hafa sagt frá samrunatilraun Rio Tinto og Glencore og heldur, að við það versni samningsstaða einokunarfyrirtækisins Landsvirkjunar við stóriðjuna á Íslandi. Hún lætur sér hins vegar einokunarstöðu Landsvirkjunar á sviði stórsölu raforku í réttu rúmi liggja og horfir algerlega fram hjá því tjóni, sem misbeiting Landsvirkjunar á þeirri einokunarstöðu í landinu hefur haft og mun hafa, ef stjórnendur á þeim bæ ekki bæta ráð sitt.  Miðað við þögn stjórnar Landsvirkjunar  hingað til og hrokafullt framferði forstjórans er slíkt borin von. 

Það hefur reyndar lengi verið ljóst, að boltinn eða öllu heldur "heita kartaflan" er hjá ríkisstjórninni, og hún þarf ekki að halda, að CoVid-19 dragi úr nauðsyn þess, að hún grípi til aðgerða á þessu sviði, því að veiran sú hefur þegar valdið aðalmjólkurkúnni doða (ferðamannastarfseminni), og þá ríður á að gefa hinum kúnum í fjósinu betra hey en hingað til, svo að þær veslist ekki upp og drepist.  Þetta verður einn af prófsteinum ríkisstjórnarinnar á síðari hluta þessa kjörtímabils.  Hún á að geta ráðið við þetta, en til þess nægir þó ekki fagurgali eða reykmerki, heldur verður að hafa bein í nefinu til framkvæmda.  Ef það er ekki fyrir hendi, eru nægir slíkir í þingliði Sjálfstæðisflokksins til að taka við keflinu, þegar á reynir.  Þeim mun ekki vaxa þetta verkefni í augum.

Téð grein Bjartrar Ólafsdóttur hófst þannig:

"Þessa dagana er tekizt á um mikla hagsmuni Íslendinga í deilu Rio Tinto og Landsvirkjunar.  Ég er með raunveruleikann alveg á hreinu.  [Svona skrifa aðeins sanntrúaðir, en þessi sanntrúaði lifir reyndar í sýndarveruleika, eins og fram gengur síðar í þessum pistli - innsk. BJo.] 

Skynsamleg auðlindanýting hefur verið undirstaða allra þeirra ríkja í heiminum, sem hefur í gegnum söguna vegnað vel.  [Það er ekkert annað, en hvað með þær, sem hafa ekki komizt "í gegnum söguna" ?  Þær hafa líklega ekki beitt "skynsamlegri" auðlindanýtingu að mati Bjartrar.  Það mun fara eftir duttlungum Bjartrar, hvað er "skynsamlegt" í þessum efnum, en hvorki mati einkaframtaksins né Skipulagsstofnunar.]  Ef ríkjum hefur svo tekizt að bæta þar ofan á fjölbreyttum leiðum til verðmætasköpunar, í gegnum [svo !?] nýsköpun og aðra snilli, þá hefur þeim áfram vegnað vel, og lífsskilyrði borgaranna hafa verið stöðug og góð."

Þetta er loftkenndur, dönskuskotinn og flatneskjulegur texti, enda vantar raunverulega hugsun í hann, þ.e. að drifkraftur fjárfestinga, atvinnusköpunar og framfara er auðvitað markaðurinn, en ekki stjórnvöld.  Þá gildir einu, hvort um er að ræða nýtingu náttúruauðlinda eða úrvinnsluiðnað, og þessi markaður verður að hafa hvata til að starfa, þ.e. starfsskilyrðin verða að vera samkeppnishæf.  Þar stendur hnífurinn í kúnni núna á Íslandi, og þess vegna er hluti gjaldeyrissköpunarinnar hérlendis að stöðvast um þessar mundir. 

Mannvitsbrekkan, hin stóriðjufjandsamlega Björt Ólafsdóttir, hefur áttað sig á því, að stefna og verk Landsvirkjunar eru nú að rústa stóriðjunni í landinu, sem Björt hefur lengi dreymt um, að gerast mundi, og þess vegna tók hún sig til í lok þessa fimbulfambs og bar lof á Hörð Arnarson og Jónas Þór Guðmundsson, sem eru hetjurnar hennar Bjartrar nú um stundir, en skamma hríð verður hönd höggi fegin.  Grein sinni lauk Björt þannig:

 "Það hefur því miklu meiri áhrif á Rio Tinto að fara fram af ruddaskap [hver er ruddinn ? - innsk. BJo] við Íslendinga, sem lætur þá líta illa út í öllu samstarfi (lækkar þeirra ESG) [= "Environment, Social and Governance" samkvæmt útskýringu Bjartrar] en að lækka raforkusamning hér.  Verkefni stjórnmálanna hlýtur því að vera það að styðja við þá Hörð Arnarson og Jónas Þór Guðmundsson til að standa fast á okkar.  Stjórnmálamenn og hagsmunasamtök geta einmitt gert gagn með því að láta þau skilaboð berast skýrt til þeirra erlendu aðila á mörkuðum, sem Rio Tinto reiðir sig á í miklu stærra samhengi en bara á litla Íslandi.  Svo væri lag að ræða um framtíðina, hvernig ætlum við að halda áfram að auka verðmætasköpunina fyrir auðlindina okkar." 

Þetta er nú meiri endemis samsetningurinn og ekki amalegt fyrir þá Landsvirkjunarkumpána að geta nú hóað í þetta ESG, sem ekkert hefur þó spurzt til áður, þegar mest liggur við.  Ef hins vegar Björt, þessi, Ólafsdóttir hefði snefil af jarðsambandi, þá myndi hún spyrja og svara því í sömu grein, hvernig á að útvega þeim 1250, sem Hagfræðistofnun HÍ kveður hafa beinan og óbeinan starfa af starfseminni í Straumvík, vinnu, sem ekki er síður vel borguð en sú, sem þau hafa nú.

 

 

 

 

 


Styr stendur á milli LV og SI

Það hefur ekki farið framhjá blaðalesendum og sjónvarpsáhorfendum, að styr stendur á milli Landsvirkjunar (LV) og Samtaka iðnaðarins (SI).  Um nokkurra ára skeið hefur stjórn SI verið á öndverðum meiði við orkufyrirtækin um útflutning s.k. upprunaábyrgða fyrir raforku.  Á heimasíðu samtakanna, https://www.si.is, er m.a. greining Samtakanna á þessu fyrirbrigði, frá 19.02.2020, og niðurstaðan er á þann veg, að þessi útrás þjóni ekki hagsmunum íslenzks atvinnulífs í heildina.

Eftir að tilkynning RTA/ISAL í Straumsvík var gefin út þann 12.02.2020 um það, að eigandinn héldi vart lengur út stöðugt og mikið tap af rekstri ISAL, fóru að birtast einkennilegar skeytasendingar frá forstjóra LV um, að orkusamningur LV við ISAL væri sanngjarn og hinn alþjóðlegi eigandi fyrirtækisins væri bara kominn í áróðursstríð við LV, fyrirtæki þjóðarinnar, til að knýja fram raforkuverðslækkun.  Mátti skilja á forstjóranum, að lækkun væri óþörf, enda ætti tapið sér aðrar orsakir.  Þessi málflutningur forstjóra LV er fáheyrður og engu líkara en hann sé kominn í krossferð gegn stærstu viðskiptavinum LV.  Spyrja má, hvort þessi málflutningur sé uppi hafður með samþykki stjórnar LV og eiganda fyrirtækisins, því að forstjórinn er hér kominn langt út fyrir viðskiptaleg mörk og farinn að reka bullandi pólitík.  Allur málflutningur hans er þýddur samstundis og sendur á borð eiganda ISAL og líklega fleiri fjárfesta.  Verður hvorki séð, að hann geti orðið viðskiptahagsmunum LV til framdráttar né orðspori Íslands sem heimahöfn erlendra fjárfestinga til að nýta endurnýjanlegar og kolefnisfríar orkulindir Íslands. Þvert á móti bendir margt til, að málflutningur forstjóra LV verði vegna eignarhaldsins á LV túlkaður erlendis sem stefna stjórnvalda, og það stórskaðar ímynd Íslands sem áhugavert fjárfestingarland.  Skraf forstjóra stærsta orkufyrirtækis landsins getur orðið landinu þungbærari baggi en útflutningur hans á upprunavottorðum orkunnar, sem fyrirtæki hans vinnur úr íslenzkum orkulindum. Stjórnvöld verða tafarlaust að setja forstjóranum stólinn fyrir dyrnar og sýna gjörólíka afstöðu og stefnumörkun í verki.  Linkind og léttúð í þessu máli getur orðið almenningi dýrkeypt.  

Samtök iðnaðarins (SI) hafa með réttu haldið því fram, að raforkuverð til miðlungsstórra og stórra raforkunotenda væri í seinni tíð (frá 2011) ekki lengur samkeppnishæft við alþjóðlega markaði.  Fyrir þetta og fyrir andstöðu SI við útflutning upprunaábyrgða raforku hefur forstjóri LV opinberlega beint spjótum sínum að SI.  Dæmi um þetta gaf á að líta í Morgunblaðinu 22.02.2020 í grein Harðar Arnarsonar undir heitinu:

"Hverra hagsmuna gæta Samtök iðnaðarins ? - Fimm spurningar til samtakanna".

Hún hófst þannig:

"Samtök iðnaðarins og Samál hafa nú um nokkurt skeið staðið í áróðursherferð gegn orkufyrirtækjum í eigu almennings á sama tíma og Rio Tinto, aðildarfyrirtæki þeirra, reynir að fá lækkað raforkuverð. 

Reynt er að halda því að almenningi, að Ísland sé ekki "land endurnýjanlegrar orku, og tilraunir gerðar til að koma í veg fyrir, að orkufyrirtækin geti aukið verðmætasköpun fyrir íslenzkt samfélag með þátttöku í viðskiptum með upprunaábyrgðir." 

Það er með endemum, að forstjóri LV skuli blanda saman þessum tveimur óskyldu málum.  Það er gefið í skyn, að SI og Samál ráðist á LV fyrir útflutning hennar á upprunaábyrgðum, til að hún þurfi að berjast á tveimur vígstöðvum í þeirri von, að Rio Tinto Aluminium verði betur ágengt í viðleitni sinni að draga LV að samningaborðinu.  Þessi málflutningur sæmir ekki forstjóra langstærsta raforkufyrirtækis landsins og bendir til, að forstjórinn sé úti á túni sem slíkur og farinn að stunda sína einkapólitík gegn stóriðjufyrirtækjunum í landinu.  Auðvitað á hann sínar skoðanasystur og -bræður um þetta hugðarefni sitt, en rekur hann erindi stjórnar Landsvirkjunar, þegar hann hagar sér svona, svo að ekki sé nú minnzt á fulltrúa eigandans, ríkisstjórnina og meirihluta þingheims ?

Nú er svo komið, aðallega fyrir tilstilli LV, að í bókahldi EES og Landsreglarans (Orkustofnunar) koma 55 % seldrar raforku hérlendis úr jarðefnaeldsneyti, 34 % úr kjarnorkuverum og aðeins 11 % úr sjálfbærum orkulindum.  Almenn notkun, utan langtímasamninga, nemur um 20 % heildarsölunnar.  Öllum almenningi standa miðað við þetta ekki til boða vottorð um sjálfbæran uppruna raforkunnar, sem hann kaupir, því að ESB leggur bann við tvítalningu sömu orkunnar í þessu bókhaldi, og á því er hnykkt í Orkupakka 4 að viðlögðum sektum. 

Það er grundvallaratriði á Innri orkumarkaði EES, að engum fyrirtækjum sé mismunað á þessum markaði, heldur njóti þau jafnstöðu án tillits til eignarhalds, staðsetningar og starfsemi.  Í Greinargerð SI frá 19.02.2020 er komizt að því, að þessi jafnstöðuregla sé brotin á Íslandi, a.m.k. í tilviki upprunaábyrgðanna:

"Fyrirtækjum á Íslandi er mismunað í kerfi upprunaábyrgða.  Upprunaábyrgðir fylgja raforku til almennings og fyrirtækja á almennum markaði, en orkufyrirtækin undanskilja orkusækin fyrirtæki á borð við álver, kísilver og gagnaver.  Þau fá ekki upprunaábyrgðir, nema greiða fyrir þær.  Það er gagnrýnivert og sætir furðu, að orkufyrirtæki í opinberri eigu mismuni íslenzkum fyrirtækjum með þessum hætti.  Austurríki og Spánn hafa sett lagalegar hindranir fyrir sölu upprunaábyrgða."

 Landsreglaranum ber að líta á jafnstöðu fyrirtækja innan alls Innri markaðar EES.  Hann lætur sig engu varða misskiptingu innan lítils bleðils á því svæði.  Öðru máli á að gegna um Alþingismenn.  Þeir eiga nú að fara að fordæmi þingmanna í Austurríki og á Spáni að þessu leyti og t.d. að semja um það þingsályktunarillögu, að orkufyrirtækjum, sem trúað hefur verið fyrir nýtingu endurnýjanlegra og kolefnisfrírra orkulinda Íslands, og fengið upprunavottorð í samræmi við það (frá Orkustofnun), skuli bjóða viðskiptavinum sínum á heildsölumarkaði "græn skírteini" gegn vægu gjaldi, er spanni kostnaðinn við umstangið af þessum "grænu skírteinum".  

Þannig yrði viðskiptavinum orkufyrirtækjanna sparaður sá kostnaður, sem formaður og framkvæmdastjóri SI hafa fullyrt opinberlega, að hljótist af því að hafa ekki í höndunum þessi skírteini ásamt þeim bletti, sem falli á ímynd Íslands, þegar sjáist þau hlutföll um uppruna orkunnar, sem af útflutningi "grænu skírteinanna" leiðir.  Framkvæmdastjóri SI hefur fullyrt, að heildarkostnaður íslenzks atvinnulís af þessu útrásaruppátæki orkufyrirtækjanna nemi margföldum útflutningsverðmætum þeirra.  Forstjóri LV hefur beðið hann um að sýna fram á þetta, en ekki verður þess vart í svörum SI á heimasíðu samtakanna við 5 spurningum forstjórans.  Ekki verður því trúað, að einvörðungu sé um ágizkun eða huglægt mat framkvæmdastjórans að ræða.

Reynsla höfundar þessa vefpistils er sú, að evrópskir viðskiptavinir hafi verið með á nótunum, en utan Evrópu fylltust menn tortryggni, þegar þeir sáu afleiðingar af útflutningi upprunavottorðanna, og einkum var erfitt að útskýra þessar ankannalegu tölur um uppruna í jarðefnaeldsneyti og kjarnorku fyrir fólki úr Vesturheimi.  Ekki er höfundi þessa pistils þó kunnugt um, að viðskipti hafi tapazt eða viðskiptakjör versnað vegna þess arna.  Það stendur upp á Samtök iðnaðarins að skýra frá því. 

Að lokum er nauðsynlegt að árétta, að verðhækkunarstefna Landsvirkjunar fyrir afurð sína, rafmagnið, er algerlega úr takti við verðþróun orku almennt í heiminum síðan 2011.  Til þess að samkeppnishæfni ISAL nú verði sú sama og á upphafstíma nýja orkusamningsins 2011, þarf raforkuverðið að lækka um 30 %.  Um þetta snýst deilan.  


Úr tvenns konar fjósum

Höfundur þessa vefpistils var fjósamaður m.m. í fáein sumur hjá afa sínum og ömmu fyrir hartnær 60 árum í Vatnsdal í A-Húnavatnssýslu. Lánuðust honum mjaltir þokkalega með mjaltavélinni, svo að heimasætur af næstu bæjum áttu það til að kíkja við og líta á undrin, eða svo hugði ungur fjósamaður.  Höfundur kann þess vegna vel að meta nú, þegar líkingamál skírskotar til mjólkurkúa eða fjósa. 

Elías Elíasson, verkfræðingur, skrifaði merka grein í Morgunblaðið 25. febrúar 2020, þar sem hann gerði "Straumsvíkurdramað" að umræðuefni og setti á skarplegan hátt í samband við orkulöggjöfina, sem hér hefur verið innleidd og er nánast með húð og hári ættuð úr alls ólíku orkuumhverfi því, sem á Íslandi ríkir af náttúrulegum ástæðum, þ.e. úr fjósum hönnuða Innri markaðar Evrópusambandsins, ESB. 

Það er augljós fingurbrjótur að innleiða viðskiptakerfi með raforku, sem reist er á virkri samkeppni birgjanna um viðskiptavini, í fákeppnisumhverfi og raunverulega einokaðan markað á sviði stórsölu til iðnaðar.  Þessi fingurbrjótur var framinn með innleiðingu Orkupakka 1 og raforkulögunum 2003, og síðan var vaðið lengra út í ófæruna með Orkupakka 2 (2008) og arftaka hans nr 3 árið 2019. 

Athugum, hvernig Elías Elíasson hóf téða Moggagrein sína:

"Blóðmjólkun er bágur búskapur":

"Þar kom að því.  Stefna ESB í raforkumálum, innleidd hér með orkupökkum, er farin að ýta stóriðjunni úr landi, og fyrst í röðinni er álverið í Straumsvík.  Þetta er búið að liggja í loftinu í mörg ár, en Landsvirkjun reynir enn að telja þjóðinni trú um, að það sé ekki raforkuverðinu að kenna, hvernig komið er.  Nú er það orðið alveg skýrt. Landsvirkjun telur sér skylt, samkvæmt reglum ESB, að blóðmjólka viðskiptavini sína, svo lengi sem þeir tóra." 

Elías hefur manna mesta þekkingu á orkumörkuðum hérlendis, og það eru yfirgnæfandi líkur á því, að ályktun hans sé rétt.  Næsta þrep ályktunarstigans mundi fela í sér, að Landsvirkjun skirrist ekki við að láta skeika að sköpuðu um það, hvort atvinnureksturinn í Straumsvík (eða annars staðar) kiknar undan byrðunum eður ei.  Landsvirkjun mun einfaldlega segja sem svo, að hún fylgi þeirri meginreglu raforkuvinnslufyrirtækja á Innri markaði EES að verðleggja orkuna eftir jaðarkostnaðarreglunni, sem við hérlendar aðstæður þýðir, að í öllum samningaviðræðum er á þeim bænum sett upp verð, sem er svipað og áætlaður kostnaður við raforkuvinnslu í næstu virkjun með dágóðri ávöxtun, a.m.k. 7,0 % (meðalávöxtun af fjárfestingum Landsvirkjunar frá upphafi hefur verið á bilinu 5,0 %-7,4 %).  Þetta er kolvitlaus aðferðarfræði m.v. íslenzkar aðstæður, þar sem stór hluti fjárfestinganna hefur þegar verið bókhaldslega afskrifaður, og skammtíma jaðarkostnaður (kostnaður við næstu MWh) er nálægt 0.  Þessi leið Landsvirkjunar er glötunarvegur, sem leiðir til þess, að iðnaðurinn hrekst úr landi og margt dugnaðarfólk með, sem við þurfum umfram allt á að halda til verðmætasköpunar í landinu.  Hér er þess vegna í senn um að ræða stórpólitískt mál og efnahagsmál, sem kippt getur stoðunum undan kaupmætti og efnahagslegum stöðugleika hérlendis.  Af þeim orsökum á ekki að líða neinar vífilengjur af hálfu ríkisvaldsins við að leiðrétta kúrsinn hjá sínu fyrirtæki.

Það er algerlega undir hælinn lagt, hvernig orkuverð í Evrópu mun þróast á næstu áratugum.  Þannig hefur heildsöluverð á Nord Pool orkumarkaði Norð-Vestur Evrópu lækkað um helming nú á 3 mánaða tímabili. Samkvæmt lágspá (orkustefna Bandaríkjanna ríkjandi) US Energy Information Agency mun raunverð á jarðgasi standa í stað á næstu 30 árum, hækka um 50 % samkvæmt grunnspá (talin sennilegasta þróunin) og 2,6 faldast samkvæmt háspá (orkustefna ESB ræður för).  Þannig er óásættanlega mikil áhætta fyrir þjóðarbúskap Íslendinga fólgin í því, sem blasir við sem afleiðing af verðlagningu Landsvirkjunar, að leggja iðnaðinn í rúst og flytja orkuna þess í stað út um sæstreng til hæstbjóðanda í Evrópu. 

Í hverju er áhættan fólgin, ef lítið þarf að virkja og erlendir aðilar eiga sæstrenginn ?

Það þarf að reisa 400 kV línur og tengivirki (t.d. afriðla- og áriðlastöð við lendingarstað sæstrengsins), og það þarf að afla gjaldeyristekna, sem vega upp á móti  verðmætasköpun iðnaðarins, sem verður fórnarlamb ruðningsáhrifa sæstrengsins.  Ef þróun raforkuverðsins á Nord Pool, sem verður markaðurinn fyrir raforku til og frá Íslandi, mun fylgja ofannefndri grunnspá fyrir jarðgas, þá verður tap á þessum viðskiptum í samanburði við að halda núverandi iðnaði gangandi í landinu. Þetta þýðir, að núverandi verðlagningarstefna Landsvirkjunar er hreinræktuð ævintýramennska, og það er stórundarlegt, að fyrirtækið skuli komast svona lengi upp með hana. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt og tímabært, að bæjarstjórn Akraness skuli álykta með þeim hætti að fara eindregið fram á það, að stjórnarformaður Landsvirkjunar stígi fram úr skugga forstjórans og geri bæjarstjórninni og landslýð öllum grein fyrir stefnu Landsvirkjunar, og hvaðan stjórninni komi umboð til þeirrar stefnubreytingar, sem átt hefur sér stað hjá Landsvirkjun.  

Verðþróun á áli og orku frá 2010 hefur orðið gjörólík því, sem þá var búizt við eða frá þeirri tíð, er samningaviðræður ISAL/RTA við Landsvirkjun stóðu sem hæst.  Álverð hefur lækkað um 20 % og gasverð um 50 %.  Auðlindin, sem, Landsvirkjun er trúað fyrir, hefur þannig lækkað að verðgildi á alþjóðlegum mörkuðum, en ekki hækkað, eins og búizt var við.  Landsvirkjun hefur ekki aðlagað sig þessari þróun, heldur bætt gráu ofan á svart með verðlagsstefnu, sem fælt hefur nýja viðskiptavini frá og knúið gamla til að draga úr orkukaupum sínum.  Þetta er mjög ógæfuleg stefna, sem endar með skipbroti, ef ekki fer fram aðlögun að raunveruleikanum.

Höldum nú áfram með Elías:

"Árið 2011, þegar skrifað var undir nýja samninga við Straumsvík, var álverð á uppleið á ný og talið var, að það mundi halda áfram að hækka, eins og búizt var við, að orkuverð mundi gera, en það fór á annan veg.  Eftir skammvinnan verðtopp féll álverðið og hefur ekki náð sér á strik síðan."

Það hefur orðið forsendubrestur fyrir þennan umrædda orkusamning frá 2011, og í honum er einmitt endurskoðunarákvæði, sem grípa má til í slíkum tilvikum.  Að vísu er það miðað við árið 2024, en með mrdISK 5-10 tap á ári, er ekki hægt að bíða þangað til. 

Elías vill taka upp sveigjanlega verðlagningu raforku, eins og reyndar var við lýði til álveranna allra fram að 2011.  Hugmyndin var sú, að báðir aðilar deildu með sér súru og sætu eftir þróun álverðsvísitölu, en fleiri vísitölur koma til greina:

"Þegar framangreind áhætta [álverð, orkuverð, ISK/USD] er skoðuð, er ljóst, að sveigjanlegt gengi krónunnar er ekki nóg til að bregðast við þeim áföllum, sem á íslenzka þjóðarbúinu dynja.  Sveigjanlegt raforkuverð gæti bætt þarna úr, en það er tómt mál að tala um markaðsvæðingu að hætti ESB í því samhengi. 

Íslenzka raforkukerfið gegnir því hlutverki einu að flytja orku fallvatna og jarðvarma til notenda, og virkjanirnar hafa það hlutverk eitt að breyta þessari orku í flutningshæft form, sem er rafmagn. Það er því rétt að eðli máls að líta á virkjanir sem hluta flutningskerfisins fremur en sem framleiðslueiningar fyrir vöru, enda eru þær frá náttúrunnar hendi misdýrar og geta því ekki keppt hver við aðra á grundvelli jafnstöðu [og markaðslögmála-innsk. BJo]." 

 Það eru þannig bæði hagsmunir fyrirtækjanna, sem í hlut eiga, og þjóðhagslegir hagsmunir, sem virka hvetjandi til að taka upp sveigjanlega verðlagningu raforku, þar sem hún hefur verið afnumin eða hefur aldrei verið fyrir hendi hérlendis.  

Það er eðlisólíkt að framleiða rafmagn úr náttúruauðlindum, eins og á Íslandi, eða í kolakyntum, olíukyntum eða gaskyntum orkuverum eða kjarnorkuverum, eins og algengast er á Innri orkumarkaði ESB, og þess vegna gengur ekki upp að flytja hugmyndafræði um rafmagn sem vöru þaðan til Íslands.  Uppstilling Elíasar sýnir einnig, að það er eðlilegt hérlendis að flutningskerfi raforku sé í eigu stærsta orkufyrirtækis ríkisins. Það getur þá byggt upp flutningskerfið með ágóðanum af vinnslunni, eins og gert var 1965-2005, og haldið þannig heildarkostnaði raforkunnar í skefjum fyrir notendur.

Í lok greinar sinnar fjallar Elías um íslenzka orkukerfið í samhengi við orkulöggjöf ESB:

"Ísland er afar smátt þjóðfélag, en það merkir, að fall fyrirtækja, sem teljast smá á erlendan mælikvarða, veldur meiri háttar efnahagslegri truflun hér.  Við þurfum því meira svigrúm til að bregðast við slíkum hlutum en orkupakkarnir og EES-samningurinn gefa. Íslenzk stjórnvöld þurfa að losa um þær hömlur, sem þar leggjast á okkur, þannig að við höfum fullt frelsi yfir auðlindum okkar, til mörkunar orkustefnu og mótunar á raforkumarkaði.  Orkuauðlindir Íslands og orka þeirra eiga að vera utan EES-samningsins, eins og ætlað var við gerð hans."  

 

 Fyrir Íslendinga var bæði óþarfi og óheillaspor, sem á eftir að draga langan slóða á eftir sér, að fella orkumálin undir EES-samninginn.  Ísland er ekki á Innri markaði ESB fyrir raforku og landsmenn kæra sig ekki um það, enda mundi slíkt hafa skaðleg áhrif á lífskjörin hér.  Hvort hægt er að nema orkupakkana úr gildi á Íslandi án uppsagnar EES-samningsins, er pistilhöfundi ekki ljóst, en fordæmalaust er það og ósennilegt. 

Hin Morgunblaðsgreinin með skírskotun til fjóss í þessu sambandi birtist einnig 25. febrúar 2020 í Morgunblaðinu og er eftir Magnús Ægi Magnússon, rekstrarhagfræðing og stjórnarmann í hafnarstjórn Hafnarfjarðarbæjar.  Grein hans er undir þeirri sláandi fyrirsögn:

"Straumsvík - að slátra mjóljurkúnni":

"Eins og Stefán E. Stefánsson, blaðamaður, bendir á í Morgunblaðinu 19. febrúar síðastliðinn, er ómögulegt að átta sig á því, hvort það er léttúð eða barnaskapur, sem rekur þetta fólk [gagnrýnendur ISAL] áfram. Freistast maður til þess að halda, að um hvort tveggja sé að ræða auk yfirgripsmikillar vanþekkingar á efnahagsmálum, gangverki efnahagsmála [auk] skilningsleysis á því, hvaðan þeir peningar koma, sem greiða alla okkar gríðarmiklu samneyzlu, svo sem rekstur Landspítala, umhverfisráðuneytisins og Umhverfisstofnunar."  

Í upphafi snerist gagnrýnin á ISAL um ótta við erlendar fjárfestingar og áhrif erlendra fjárfesta á íslenzkt atvinnulíf.  Þetta var heimóttarlegt og ekki reist á mikilli söguþekkingu, því að atvinnusaga síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. mótaðist af erlendum fjárfestingum í atvinnulífi landsmanna, aðallega á vegum Norðmanna, t.d. í hvalstöðvum og síldarverkun.  Þá má ekki gleyma gríðarlegum fjármunum, sem Bretar og Bandaríkjamenn vörðu hér til að búa um sig og klekkja á Þriðja ríkinu.  Allar þessar fjárfestingar, einnig í iðnaðaruppbyggingu á seinni hluta 20. aldar og í byrjun 21. aldarinnar, hafa umbylt verkþekkingu og leitt til mikillar gjaldeyrisaflandi verðmætasköpunar í landinu, enda sækjast allar velmegandi þjóðir eftir beinum erlendum fjárfestingum.  

Næsta ádeiluefnið var mengun, en strax og tæknin leyfði um 1980 var í Straumsvík hafizt handa við umbyltingu í innri og ytri mengunarvörnum með lokun rafgreiningarkera og uppsetningu hreinsibúnaðar fyrir  kerreykinn ásamt fitugildrum og rotþróm á allt frárennsli.  Um langt skeið hafa ummerki verksmiðjunnar varla greinzt í gróðri sunnan verksmiðjunnar eða í kræklingi úti fyrir ströndinni, en ástand hans er notað sem mælikvarði á mengun í sjó.

Þriðja og síðasta gagnrýnisefnið er mikil koltvíildislosun og raforkunotkun áliðnaðarins.  Þessir gagnrýnendur horfa framhjá því aðalatriði málsins, að sé litið á orkuöflun fyrir álframleiðslu og hana sem heild, þá er koltvíildislosunin á Íslandi innan við 14 % á hvert áltonn á við meðaltalið annars staðar í heiminum.  Það gengur ekki upp að vera með miklar áhyggjur af loftslagsmálum í öðru orðinu, en í hinu orðinu að gagnrýna virkjun íslenzkra orkulinda fyrir álframleiðslu.  

"Lengstum var gott samkomulag milli Landsvirkjunar og álversins í Straumsvík um fyrirkomulag sölu og kaupa á raforku.  Báðir aðilar skildu, að það væri hagur beggja, að vel gengi hjá báðum. Svo virðist sem í kringum árið 2010 hafi þarna orðið breyting á.  Komin var til valda í landinu "hrein vinstristjórn", en vinstri menn, sumir hverjir alla vega, hafa alla tíð verið áberandi í andstöðu sinni við byggingu og rekstur álversins og fundið því allt til foráttu. 

Nýr forstjóri var ráðinn til Landsvirkjunar og nokkuð víst er, að dagskipun hafi komið til Landsvirkjunar frá ríkisstjórninni um, að nú skyldi brjóta upp raforkusamninga stóriðjufyrirtækjanna og láta þau finna til tevatnsins.  Enginn velkist í vafa um það, að Landsvirkjun getur hækkað sitt raforkuverð að vild og þarf hvorki að spyrja kóng né prest um það.  En það hafa aldrei þótt mikil búvísindi að slátra mjólkurkúnni."

 

 


Á meðan Róm brennur

Sunnudagspistill iðnaðarráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, 23.02.2020, hét að sönnu:

"Miklir hagsmunir undir".

Hann hófst með minningarorðum um heiðursmanninn Jakob Björnsson, rafmagnsverkfræðing, og var upphafið þannig:

"Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, lézt í liðinni viku.  Hann var orkumálastjóri í tæpan aldarfjórðung, eða frá 1973 til 1996, og tók eftir það virkan þátt í þjóðmálaumræðu um orkumálefni.  Skýr og afgerandi sjónarmið hans um stóriðju voru áberandi í greinaskrifum hans.  [Hann var eindreginn stuðningsmaður þess konar orkunýtingar á Íslandi - innsk. BJo.]"

 Jakob Björnsson kenndi við Verkfræði- raunvísindadeild Háskóla Íslands, þegar þessi pistilhöfundur nam þar til verkfræðiprófs í s.k. fyrrihlutanámi þar og var einmitt skipaður þar prófessor af ráðherra vorið, sem pistilhöfundur útskrifaðist þaðan, 1972.

Á þriðja og lokaári þessa fyrri hluta naut þessi pistilhöfundur leiðsagnar hins góða læriföður um myrkviði doðrants eins mikils eftir sænskan prófessor, og bar doðranturinn nafnið "Electrisitetslära".  Útskýringar, dæmaleiðsagnir og leiðbeiningar í tímum og í föðurlegum samtölum hans við dolfallna stúdenta að kennslustundum afstöðnum féllu í frjóan jarðveg og voru afar uppörvandi yfirhlöðnum stúdentum.  Þannig kynntist pistilhöfundur þessum sómamanni og góða kennara og síðan lítils háttar sem ráðleggjanda eftir heimkomu 1976 að loknu embættisprófi í rafmagnsverkfræði frá Norges Tekniske Högskole í Þrándheimi og vinnu við hönnun rafkerfa um borð í stærsta olíubor- og vinnslupalli Noregs fram að þeim tíma, Statfjord. Minningin um framúrskarandi mann og verkfræðing mun lifa. 

Iðnaðarráðherra tíndi síðan til "margvíslegan ávinning af stóriðju".  Það er þó vonandi ekki þannig, að iðnaðarráðherra ætli að láta skeika að sköpuðu um það, hvort orkusækinn iðnaður heyri brátt sögunni til á Íslandi, en það er engum vafa undirorpið, að sú mun verða raunin, nema ríkisstjórnin grípi strax í taumana og leggi línuna, sem leiða mundi samstarf Landsvirkjunar og viðskiptavina hennar inn á heillavænlegri brautir en raunin hefur verið síðast liðinn áratug. 

Ábyrgð og frumkvæðisskylda iðnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra er mest í þessum efnum, en svo vill til, að þar er um að ræða varaformann og formann Sjálfstæðisflokksins.  Flokkur þeirra bjó þau út með gott veganesti á síðasta Landsfundi, vorið 2018.  Þau þurfa þess vegna ekki að velkjast í vafa um vilja flokksfólks í þessum efnum.  Þeirra er nú að láta hendur standa fram úr ermum.  Eftirfarandi kom fram í ályktun Atvinnuveganefndar, sem Landsfundur samþykkti nánast einróma:

"Landsfundur stendur heilshugar á bak við hugmyndir um atvinnuuppbyggingu innanlands í tengslum við hagkvæma nýtingu orkuauðlinda.  Íslenzk útflutnings- og framleiðslufyrirtæki skulu njóta þess samkeppnisforskots, sem felst í notkun á grænni íslenzkri orku.  Landsfundur leggst gegn því, að græn upprunavottorð séu seld úr landi.  Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."

Á þessum grundvelli hafa ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fullt lýðræðislegt umboð til þess að vinda ofan af þeirri öfgafullu og hættulegu verðlagsstefnu, sem nú er rekin af hálfu ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar gagnvart viðskiptavinum hennar, þar sem stórtækustu afleiðingarnar verða augljóslega þær að binda enda á nýtingu innlendra orkulinda til framleiðslu á áli og kísilmálmi fyrir erlenda markaði. 

Í Kastljósþætti RÚV 24.02.2020 var Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, annar viðmælenda þáttastjórnandans um upprunavottorð raforku.  Þar ýjaði téður forstjóri að því, að erlend stórfyrirtæki á Íslandi stunduðu óleyfilegar bókhaldsbrellur með kostnað aðfanga og afurðaverð sín.  Með þessu er forstjórinn kominn út í pólitík, sem enginn hefur falið honum að stunda og hlýtur að hafa afleiðingar fyrir hann, því að það að sá fræjum grunsemda opinberlega um ávirðingar almennt um alla þessa skráðu viðskiptaaðila í kauphöllum heimsins er grafalvarlegt mál og stenzt auðvitað ekki gagnrýna hugsun.  T.d. RTA/ISAL í Straumsvík framleiðir einvörðungu álsívalninga af ýmsum melmum og gildleikum.  Viðskiptavinirnir eru fjölmargir, yfir 200 framleiðendur alls konar álprófíla fyrir bíla- og byggingariðnaðinn o.fl.  Hvernig dettur þessum manni í hug að bera það á borð fyrir alþjóð, að hugsanlega sé RTA/ISAL að selja þessum fjölmörgu viðskiptavinum sínum sínum vörur á undirverði ? 

Annað úr þessum þætti, sem bendir til illvígrar pólitíkur af hálfu þessa manns í garð viðskiptavina Landsvirkjunar í eigu erlendra félaga, voru viðbrögð hans við gagnrýni Guðrúnar Hafsteinsdóttur á útflutning upprunavottorða "hreinnar" orku.  Hann brást við henni með spurningu um, hvort Samtök iðnaðarins vildu færa alþjóðlegum félögum mrdISK 10-20 á 20 árum.  Þetta er óburðugur málflutningur og nánast óskiljanlegur.  Er Landsvirkjun að selja upprunaheimildir úr landi til að þær standi ekki stóriðjufyrirtækjum á Íslandi til boða ?  Þá verða auðvitað fleiri útundan, því að samkvæmt þessu bókhaldi eru aðeins 11 % seldrar raforku á Íslandi úr endurnýjanlegum orkulindum.  Um þetta barnalega stríð forstjórans við stóriðjuna í landinu á orðtakið við, að sér grefur gröf, þótt grafi. 

Iðnaðarráðherra hefur enn ekki framfylgt skýrum fyrirmælum Landsfundar til sín um að stöðva sölu upprunavottorða úr landi, enda hefur hún ekki heimild til að grípa með svo almennum hætti inn í starfsemi Innri orkumarkaðar EES.  Hún getur hins vegar bannað ríkisfyrirtækjum að stunda þessi viðskipti og gæti t.d. lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis til að freista þess að fá stuðning Alþingis við þá stefnumörkun.  Hvers vegna hreyfir hún hvorki legg né lið ?  Það er sennilega vegna þess, að hún er andstæð slíku banni, en þá er hún sem ráðherra Sjálfstæðisflokksins komin í andstöðu við stefnumörkun flokksins, sem hlýtur að grafa undan hennar pólitíska ferli innan flokksins.  Er þingflokki Sjálfstæðisflokksins stætt á að bera ábyrgð á slíkum ráðherra ?

Þetta er ekki eina stefnumörkun Landsfundar, sem ráðherrar flokksins og reyndar megnið af þingflokkinum hefur beinlínis unnið gegn.  Í fersku minni er baráttan um Orkupakka 3 frá ESB, en ekki fer á milli mála, að Landsfundarályktunin hér að ofan, sem hafnar frekara framsali yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana ESB, samræmist engan veginn stuðningi flestra þingmanna flokksins við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að staðfesta gjörning Sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017, sem fól m.a. í sér stofnun embættis Landsreglara (falið undir hatti Orkumálastjóra), sem hefur m.a. með höndum eftirlit með virkni íslenzks raforkumarkaðar og eftirlit með stofnun orkukauphallar að forskrift ESB.  Landsreglarinn situr samræmingarfundi hjá ACER-Orkustofnun ESB. 

Aftur að tilvitnaðri grein ÞKRG.  Hún taldi þar fram ýmsa kosti stóriðjustefnunnar, og var einn þessi:

"Stóriðjustefnan hefur því verið jákvætt framlag Íslands til loftslagsmála, ekki neikvætt, eins og sumir halda fram."

Jakob, heitinn, Björnsson var einmitt óþreytandi við að benda á þessa staðreynd. Heimsmeðaltal af myndun koltvíildisjafngilda í álverum (rafgreining, álsteypa, forskautasamsetning og kerfóðrun) ásamt raforkuvinnslu fyrir þessa framleiðslu er um 11 tCO2eq/tAl, en á Íslandi er þessi losun vel undir 2 tCO2eq/tAl.  Við núverandi framleiðslustig áls þýðir þetta, að álverin á Íslandi spara andrúmsloftinu að öllum líkindum 9 MtCO2eq/ár, sem er 64 % meira en nemur allri skráðri losun hérlendis.  Til þess liggja 3 meginástæður:  Aðalástæðan er orkuöflunin, en hún losar sáralítið koltvíildi í samanburði við orkuöflun úr jarðefnaeldsneyti, sem er algengust erlendis.  Önnur ástæðan eru góð tæknileg tök á rafgreiningarferlinu hérlendis, sem þýðir, að mjög lítið er losað af sterkum gróðurhúsalofttegundum á borð við CF4 og C2F6.  Þriðja ástæðan er, að rafvæðing steypuskálaofna er langt komin hérlendis og einnig rafvæðing forskautavinnslunnar og kerfóðrunar. 

"Í fimmta lagi er stóriðja þrátt fyrir allt fremur stöðug.  Gríðarleg fjárfesting liggur að baki, sem ekki verður rifin upp með rótum svo glatt, öfugt við ýmsa aðra starfsemi.  Og sveiflurnar geta jafnað út  aðrar sveiflur í hagkerfinu.  Það sýndi sig m.a. eftir bankahrunið, en ISAL var mögulega eina fyrirtækið, sem réðist í tugmilljarða fjárfestingarverkefni [mrdISK 70-innsk. BJo] beint í kjölfar þess."

Álframleiðslan á Íslandi er reyndar dálítið háð duttlungum náttúrunnar, eins og hinir höfuðatvinnuvegir þjóðarinnar, vegna þess að innrennsli í miðlunarlón vatnsaflsvirkjananna er tilviljunum háð.  Ráð er fyrir því gert, að orkubirgirinn geti skert bæði afl og orku í þurrkaárum með vissum skilmálum um allt að 10 % frá hámarksnotkun.  Nú sjáum við, að orkuviðtakinn, ISAL, skerðir forgangsorkukaup sín um 15 % vegna stöðunnar á álmörkuðum og á íslenzka raforkumarkaðinum. 

Það er ekki algengt, að álverksmiðjur séu fluttar á milli staða, en þess eru þó dæmi, a.m.k. að hluta. Hluti af þýzku verksmiðjunni í Töking var t.d. fluttur upp á Grundartanga 1997. 

"Lítill vafi er á því, að sjálf orkusalan hefur orðið arðbærari með hækkandi verði.  Það er ekki óeðlilegt, að verð hækki með tímanum; að afslættir séu einkum í boði í upphafi.  Og það er ekki stefna okkar að nánast gefa stórfyrirtækjum orkuna til þess að fá störf í staðinn, sem hefur verið nálgunin í a.m.k. einhverjum tilvikum í Kanada, svo [að] dæmi sé tekið."

 Hér slær út í fyrir höfundinum.  Hún athugar ekki, að vinnslukostnaður rafmagns hefur hækkað í tímans rás að raunvirði vegna þess, að fyrst völdu menn að virkja á hagkvæmasta stað, næsti virkjunarstaður var dýrari á orkueiningu og svo koll af kolli.  Þess vegna er ekki gefið, að lágt verð í byrjun hafi verið Landsvirkjun óhagstæðara en hærra raforkuverð síðar.  Hitt er aftur á móti staðreynd, að með skuldalækkun Landsvirkjunar hefur meðalkostnaður hennar á MWh lækkað og að ágóðinn hefur þá hækkað mikið, því að samtímis hefur verðið hækkað, og þar stendur hnífurinn einmitt í kúnni.  

Að hætti ESB hefur verðlagning Landsvirkjunar til stórnotenda tekið mið af jaðarkostnaðarverði, þ.e. kostnaði næstu virkjunar á MWh.  Mismunurinn á ESB og Íslandi að þessu leyti er hins vegar sá, að frjáls samkeppni margra birgja heldur aftur af þeim verðhækkunum, sem kaupendur verða að sætta sig við.  Hér er ekkert aðhald að seljanda í einokunarstöðu, þegar hann virðist kæra sig kollóttan um það að tryggja langvarandi viðskiptasamband með sjálfbærum samningum.  Það dettur engum í hug "að nánast gefa stórfyrirtækjum orkuna".  Þótt verðið til ISAL yrði lækkað um 30 %, svo að raforkukostnaður fyrirtækisins sem hlutfall af tekjum yrði svipaður og í upphafi samningsins 2011, yrði samt myljandi gróði af rekstri Landsvirkjunar.

Það er ankannalegur málflutningur af hálfu ráðherrans, að dæmi séu um, að Kanadamenn nánast gefi stórfyrirtækjum orkuna til að fá störf í staðinn.  Í Qubeck og í British Columbia eru stór vatnsföll með stórvirkjunum.  Algengt er þar, að stórfyrirtæki hafi fengið virkjanaleyfi og sjái starfsemi sinni, t.d. álverum, fyrir raforku, og selji afganginn inn á landskerfið.  Þetta er allt annað fyrirkomulag en ráðherrann lýsir.

Nokkru síðar vék Þórdís Kolbrún að aflsæstreng til útlanda:

"Auðvitað er augljóst, að enginn getur látið sér detta það í hug að selja orkuna frekar um sæstreng án þess að taka allan þennan auka-ávinning með í reikninginn.  Jafnaugljóst er, að það væri vitleysa að útiloka um alla framtíð, að það reikningsdæmi geti einhvern tímann gengið upp og banna skoðun á því."

Þetta er þversagnakenndur texti hjá ráðherranum, sem bendir til, að hún sé á báðum áttum.  Það er einmitt stefna orkupakkanna frá ESB, að orkufyrirtækin skuli við verðlagningu sína einvörðungu horfa í eiginn barm og engan gaum gefa að þeim "auka-ávinningi", sem annars konar, mildari og víðsýnni verðlagsstefna kynni að hafa.  Það er sorglegt, að ráðherrann hefur enn ekki skilið inntak orkupakkanna frá ESB.  Í umræðunni um Orkupakka 3 hélt hún því fram, að samkeppnisfyrirkomulag orkupakkanna hefði bætt hag neytenda.  Þetta var rekið ofan í hana með skýrslu "Orkunnar okkar" í ágúst 2019.  Á sviði stórsölu með raforku er nánast engin samkeppni á milli orkubirgjanna á Íslandi, heldur einokunarfyrirkomulag.  Þess vegna eru þessi mál nú komin í algert óefni.

Það er kominn tími til, að þessi iðnaðarráðherra fari að skilja kjarna orkumálanna á Íslandi, hætti að daðra við aflsæstreng á milli Íslands og Innri markaðar ESB, sem núverandi forstjóri Landsvirkjunar vissulega hefur rekið áróður fyrir og er þar trúr orkustefnu ESB, eins og hún birtist í Orkupakka 3, og fari að vinna af einurð í þágu hagsmuna íslenzks iðnaðar og þar með íslenzku þjóðarinnar. 

Að lokum skrifaði ráðherrann:

"Ég hef áður vakið máls á því, að skynsamlegt væri að auka gagnsæi um orkusamninga.  Það er forsenda vitrænnar umræðu í stað misvel ígrundaðra ágizkana um samkeppnishæfni okkar, þar sem gerólík sjónarmið heyrast.  Ég hef lagt mitt af mörkum til þess með því að fá óháð erlent greiningarfyrirtæki til að kortleggja samkeppnisstöðu stóriðju með áherzlu á orkuverð.  Það verður fróðlegt að rýna í niðurstöður hennar vor."

 Nú hafa iðnaðarráðherra og forstjórar ISAL og Landsvirkjunar öll lýst yfir vilja sínum til að opinbera orkusamningana við stóriðju á Íslandi.  Hefði ráðherrann verið sjálfri sér samkvæm, þá hefði hún birt erindisbréf ráðuneytisins til ráðgjafans Fraunhofers á vefsetri ráðuneytisins.  Þetta er enn því miður leyndarskjal.  Hvernig til tekst með að varpa ljósi á samkeppnishæfni íslenzkrar stóriðju, veltur á ýmsu.  Hefur Fraunhofer aðgang að bókhaldi annarra stóriðjufyrirtækja í heiminum, sem eru á sama markaði og íslenzku álfyrirtækin ?  Mun Fraunhofer gera grein fyrir umframkostnaði íslenzkrar stóriðju vegna staðsetningar hennar á Íslandi (t.d. flutningskostnaði og launakostnaði) ?  Þetta eru mikilvæg atriði, og gagnsemi skýrslu frá rándýrum ráðgjafa er alveg undir erindisbréfinu til hans komin.  "Það varðar mest til allra hluta, að undirstaðan sé réttlig fundin."

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband