Að eiga ekkert erindi

 

Vinstra moðverkið í stjórnarandstöðunni hérlendis á ekkert erindi við íslenzka kjósendur.  Það sýndu úrslit Alþingiskosninganna 25. september 2021.  Þessir flokkar voru gerðir algerlega afturreka með stefnumál sín.  Að hætti kreddumanna neitaði jafnaðarmannatrúðurinn Logi Einarsson að viðurkenna, að stefnan væri röng, heldur hefði aðferðarfræðin brugðizt. Kosningabarátta Samfylkingarinnar var að vísu algerlega misheppnuð, en aðalatriðið er, að kjósendur höfnuðu fikti við Stjórnarskrána, fikti við Evrópusambandið og fikti við sjávarútveginn.  Kjósendur vita, að forysta Samfylkingarinnar er óhæf til að fást við þessi mál og höfnuðu þess vegna flokkinum. 

Svipaðar ástæður liggja til grundvallar slöku gengi Viðreisnar.  Úr þeim herbúðum heyrast ásakanir á hendur Seðlabankastjóra fyrir að hafa minnkað byr í segl Viðreisnar með því að mæla algerlega gegn þeirri fullyrðingu formanns Viðreisnar, að auðvelt sé og áhættulítið vegna öflugs gjaldeyrisvarasjóðs að tengja gengi ISK við EUR, og að slíkt muni bæta hag launþega og fyrirtækja. Málflutningur Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur í þessa veru er algerlega órökstuddur og aðeins reistur á innantómum fullyrðingum hennar og samanburði við Króatíu, sem er algerlega út í hött.  Í stuttu máli veltir Viðreisn sér upp úr hreinni þvælu og er ekkert annað en leppur ESB.  Það skín í gegn um sjávarútvegsstefnu hennar, sem er afrit af grænbók ESB um CFP (Sameiginlega fiskveiðistefna framtíðarinnar). Leita þarf allt til sósíalista til að finna ókræsilegra framboð. 

Meginboðskapur pírata, ef boðskap skyldi kalla, var borgaralaun á alla.  Þessi boðskapur fór fyrir ofan garð og neðan hjá kjósendum, sem að þorra til skilja lögmál efnahagslífsins betur en píratar, sem reyndust algerir ratar við að útskýra hugarfóstur í þokuheimum. Einhver hefur sagt þeim, að sjálfvirknivæðing 4. iðnbyltingarinnar muni leiða til fjöldaatvinnuleysis.  Þetta er reginmisskilningur á eðli tæknivæðingar.  Við hana verða ný störf til, en fólki fækkar í öðrum. Nýsköpun og hagvöxtur á grundvelli framleiðniaukningar leiðir til aukinnar spurnar eftir vinnuafli af ýmsu tagi.  Lýðfræðileg þróun þjóðfélagsins veldur fjölgun umönnunarstarfa, og fækkun fæðinga á hverja konu niður fyrir 2,1 (er núna nálægt 1,6 á Íslandi) veldur senn minnkun aukningar framboðs vinnufúsra handa og huga og mun á endanum valda fækkun á vinnumarkaði, eins og þegar er komin fram í Japan.  Skilningsleysi pírata á eðli þess þjóðfélags, sem þeir lifa í, veldur því, að framboð þeirra til forystu í þjóðfélaginu er ekki til annars fallið en skellihláturs. 

Öðru máli gegnir um sósíalistana.  Gagnvart byltingarhjali þeirra og stóryrðum, t.d. um að breyta Valhöll í almenningssalerni og ryðja Hæstarétt, er rétt að vera á varðbergi, því að undanfari slíks hlýtur að vera ofbeldisástand og lögleysa í samfélaginu.  Ekki þarf að fjölyrða um fullyrðingaflaum og sögufalsanir strigakjaftsins Gunnars Smára, enda gengur sá maður varla heill til skógar.  Alla vega áttuðu vissir kjósendur sig í tíma á því, að hann ætti ekkert erindi á þing, og rötuðu heim til föðurhúsanna í VG.

Þann 23. september 2021 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækja í sjávarútvegi, og Ólaf Marteinsson, formann þeirra samtaka, en sjávarútvegurinn mátti sæta linnulausum hótunum af hálfu Samfylkingar, Viðreisnar, pírata o.fl., um aðför stjórnmálamanna að rekstri þessara fyrirtækja með því að ræna þau nýtingarrétti á sjávarauðlindinni í íslenzkri lögsögu, sem fyrirtækin hafa keypt sér eða þau áunnið sér með veiðireynslu, með þjóðnýtingu eða að stórhækka veiðigjöldin, sem eru sérskattur á þessa atvinnugrein og nema þriðjungi hagnaðar, sem er hátt hlutfall.  Viðundrið í formennsku hjá Viðreisn, sem ekki hefur gripsvit á sjávarútvegi, sendi útgerðarmönnum þá köldu kveðju fyrir kosningar, að með núverandi veiðigjaldakerfi væri verið "að verðlauna skussana".  Hvers konar hugarfar býr að baki svona orðaleppum hjá fyrrverandi sjávarútvegsráðherra (þeim versta) ?

"Íslenzkur sjávarútvegur hefur nú þegar náð markverðum árangri í loftslagsmálum.  Á undanförnum árum hefur sjávarútvegur notað helmingi minna af olíu en hann gerði á 10. áratugi síðustu aldar.  Í samanburði við olíunotkun greinarinnar á fyrsta áratugi þessarar aldar nemur samdrátturinn 40 %.  Vissulega er olíunotkun háð framleiðslu á hverjum tíma, en almennt stækkar kolefnisspor atvinnugreina með auknum umsvifum.  Sjávarútvegi hefur á hinn bóginn tekizt að draga úr olíunotkun og minnka kolefnisspor sitt án þess, að það komi niður á framleiðslu og gott betur.  Lykilþáttur í þessari þróun er afgerandi, en hann felst í fiskveiðistjórnunarkerfinu, sem sjávarútvegurinn byggist á."

Sjávarútvegurinn er markaðsdrifinn og er ekki, fremur en önnur atvinnustarfsemi, rekinn til að þjóna einhverjum réttlætishugmyndum sérlundaðra stjórnmálamanna, sem telja sig handhafa réttlætishugtaksins.  Þetta er ekki hlutverk sjávarútvegsins, og þetta er heldur ekki hlutverk stjórnmálamanna með réttu. Frá náttúrunnar hendi býr sjávarútvegurinn við óstöðugleika, eins og alkunna er, og með núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er leitazt við að veita stjórnkerfi hans hámarksstöðugleika, en hið sama verður ekki sagt um sjálfskipaða sérfræðinga á sviði fiskveiðistjórnkerfa.  Þannig verður heildaróvissu fyrirtækja, starfsmanna og byggðarlaga haldið í lágmarki.  Þetta hafa kjósendur skilið, því að þeir lýstu frati á þá stjórnmálaflokka, sem sækjast eftir að setja sjávarútveginn í uppnám.

Enginn vafi er á því, að verði farið að rýra aflaheimildir útgerðanna umfram það, sem núverandi löggjöf heimilar í því skyni að hámarka afrakstur miðanna til langs tíma, þá verður fjármagnsflótti úr greininni, enda er hlutfallslegur hagnaður hennar nú þegar minni en að meðaltali í öðrum atvinnugreinum landsins. Slíkt mun strax leiða til minni fjárfestinga í greininni, sem hægja mun á tækniþróuninni þar.  Það er einmitt hún, sem er undirstaða hins góða árangurs í eldsneytismálum, sem lýst er hér að ofan. Það hefur verið sjávarútveginum hagfellt að stunda þessa tækniþróun, og þess vegna hefur hann náð frábærum árangri við að minnka kolefnisfótspor sitt í t CO2íg/t afla.  Þessu mun hann halda áfram, því að á mörkuðum hans fer fram samanburður á milli samkeppnisaðila á kolefnisfótspori lokaafurðar. 

 

Óvíst er með hagkvæmni framleiðslu metanóls eða annarra s.k. "rafeldsneytisafbrigða", en ef olíuafurðir úr repju og nepju væru framleiddar í meiri mæli hérlendis, mundi sjávarúrvegurinn vafalítið geta notfært sér þær olíuafurðir í talsverðum mæli áður en lokaskrefið verður stigið í orkuskiptum um borð, hvernig sem þau verða. Framleiðsla sjávarútvegsins (án fiskeldis) mun vonandi fara vaxandi og hann samt verða kolefnishlutlaus á næsta áratugi.   

 "Virðisaukning vegna vinnslu á fiski af Íslandsmiðum fer að langmestu leyti fram á Íslandi, og svo mun verða, [á] meðan samkeppnisstaðan er tryggð.  Hina miklu áherzlu á fullvinnsku hér heima má glögglega sjá í mikilli fjárfestingu sjávarútvegsfyrirtækja í hátæknivinnslum víða um land.  Þess þarf hins vegar að gæta, að opinber gjöld úr hófi á heimavígstöðvunum verði vinnslunni ekki fjötur um fót." 

Það er grundvallaratriði fyrir verðmætasköpun í landinu og viðhald blómlegrar byggðar, þar sem útgerð er stunduð að ráði, að fullvinnsla fari þar fram. Til að sú fullvinnsla sé sjálfbær (varanleg), verður hún að fara fram á viðskiptalegum grundvelli, þ.e. að vera samkeppnishæf við erlendar fiskvinnsluverksmiðjur. Launakostnaður er mun hærri á Íslandi en í samkeppnislöndunum, og þess vegna verður samkeppnishæfni ekki náð á þessu sviði hérlendis án mikillar sjálfvirknivæðingar.  Hún útheimtir miklar fjárfestingar, og aðeins fjárhagslega öflugir bakhjarlar með viðunandi tryggingu um stöðugleika í rekstrarumhverfi treysta sér í slíkar fjárfestingar.  Lykilatriði í þessu sambandi er góð nýting framleiðslutækjanna, og þá þarf fjárfestirinn að ráða aðgangi að hráefni. Með ótímabundnum nýtingarrétti á miðunum innan ramma aflamarks í hverri tegund á hverjum tíma og markaðssetningu á einni hendi er hægt að slá tvær flugur í einu höggi, þ.e. að hámarka nýtingu framleiðslutækja á sjó og landi og að hámarka afurðaverðið með því að skipuleggja starfsemina út frá þörfum markaðarins. Þetta er íslenzka kerfið, og það hefur einfaldlega gefizt bezt m.t.t. að hámarka afrakstur fiskveiðiauðlindarinnar. 

Nokkrir stjórnmálamenn hafa ekki fellt sig við þetta fyrirkomulag, talið sig handhafa réttlætisins og kokkað upp eða afritað misheppnað fyrirkomulag annars staðar frá í nafni réttlætisins.  Það er hins vegar ekki hlutverk neins atvinnurekstrar að reyna að fullnægja einhverju tilbúnu og umdeilanlegu réttlæti. Allur atvinnurekstur á að standa jafnt að vígi gagnvart lögunum, þ.m.t. skattalögunum. Íþyngjandi sérákvæði gagnvart einni atvinnugrein ganga í bága við stjórnarskrárgrein um atvinnufrelsi. Hins vegar er almenn sátt um, að löggjöf fiskveiðistjórnunar setji sjávarútvegsfyrirtækjum ramma um nýtingu auðlindarinnar, sem reist er á vísindalegri ráðgjöf um sjálfbæra nýtingu og langtíma hámarksafrakstur.

Eitt af þessum afstæðu "réttlætismálum" (eins réttlæti er þá á kostnað annars) er að þvinga allan afla á markað.  Hængurinn við þetta er, að umboðsmenn erlendra fiskverkenda geta þá yfirboðið íslenzkar fiskvinnslur, af því að kostnaðurinn erlendis er lægri.  Ef þetta gengi eftir, stæðu miklar fjárfestingar vannýttar og afkomugrundvelli fjölda fólks í traustum sjávarbyggðum yrði kippt undan því.  Þannig gæti þetta afstæða réttlæti virkað.  Réttlæti stjórnmálamanna virkar yfirleitt með þessum hætti.  Af kosningaúrslitunum hérlendis í september 2021 má ráða, að almenningur er sér meðvitaður um, að slíkt afstætt réttlæti gagnast ekki hagsmunum hans.  Það, sem gagnast hagsmunum hans, er hámarks atvinnuframboð og hámarks verðmætasköpun í landinu sjálfu.  Á ensku kallast þetta "non nonsense politics" eða stjórnmál án vitleysu. 

"Það, sem hér hefur verið upp talið [um starfsemi sjávarútvegsins], byggist á því, að sjávarútvegsfyrirtæki hafa haft fyrirsjáanleika og trygga úthlutun aflaheimilda. Væri ekki svo, myndu fyrirtækin ekki fjárfesta til langframa, enda væri með því mjög óvarlega farið. Fyrirtæki fjárfesta ekki, þegar sú hætta vofir yfir, að stórfelldar breytingar verði gerðar á rekstrarumhverfinu.  Það segir sig sjálft.  Ef sjávarútvegur hættir að fjárfesta, mun ekki aðeins draga úr samkeppnishæfni, heldur munu mörg önnur fyrirtæki, starfsmenn þeirra og landshlutar, ekki fara varhluta af því."  

Það er grundvallaratriði fyrir vöxt og viðgang sjávarbyggðanna og þar með í raun landsbyggðarinnar, að sjávarútvegurinn hafi bolmagn til mikilla fjárfestinga.  Hann hefur það aðeins, ef sú atvinnugrein gefur sambærilegan hagnað og önnur starfsemi yfirleitt.  Undanfarin ár hefur hagnaður í sjávarútvegi verið undir meðaltali annarra atvinnugreina.  Til sannindamerkis um það, sem Heiðrún og Ólafur rita hér að ofan, er, að strax eftir síðustu kosningahelgi varð veruleg hækkun á markaðsvirði fyrirtækja í Kauphöll Íslands, einkum sjávarútvegsfyrirtækja.  Líkur minnkuðu mjög á pólitískum asnaspörkum í sjávarútveginn, og fyrirtækjunum barst þarna fjármagn, sem þau geta nýtt til fjárfestinga.   

Eigandi gengur betur um eign sína    

 

 


Tilraunaeldhús pólitískra trúða

Leiðtogar vinstri flokkanna (að Viðreisn meðtalinni) virka eins og jólasveinar komnir til byggða á vitlausum tíma til að útdeila gjöfum á meðal barnanna. Gjafir þessar eru afrakstur aukinna millifærslna á vegum ríkissjóðs frá einum til annars í þjóðfélaginu. Venjulega hefur þetta brambolt lítil áhrif til góðs, en þenur ríkisbáknið út enn meira og dregur úr fjárfestingum og hagvexti. Bramboltið leiðir til miklu minni tekjuauka ríkissjóðs en jólasveinarnir höfðu látið reikna út fyrir sig, ef þeir hafa ekki notað vafasamar aðferðir til að komast að vitlausri niðurstöðu, og þá munu þeir grípa til þeirra gamalkunnu kjánaúrræða að slá lán fyrir bramboltinu.  Píratarnir hafa lýst yfir, að það sé allt í lagi, því að þetta sé fjárfesting í fólki til framtíðar !.  Vitleysan hefur verið yfirgengileg. Leiksýning trúðanna náði hámarki á RÚV kvöldið fyrir kjördag. Heilbrigð viðhorf til landsmála voru þar í minnihluta.

Afleiðingin af öllu þessu verður aukin innlend verðbólga og ofan á hana mun leggjast innflutt verðbólga, en verðbólga vex nú um allan heim vegna framboðsskorts á vöru og þjónustu af völdum Kófsins.  Skortur er á jarðgasi, svo að orkuverð hefur rokið upp úr öllu valdi (40 % hækkun á tveimur vikum í september 2021 og tvöföldun á árinu 2021).

Engum vafa er undirorpið, að Seðlabankinn mun gera gagnráðstafanir til að auka trúverðugleika verðbólguviðmiðsins, 2,5 % á ári, með vaxtahækkun og jafnvel draga úr peningamagni í umferð eftir mætti.  Þetta mun fella hlutabréf í verði, reka hagvöxt niður að 0 og valda skuldugum fyrirtækjum og heimilum búsifjum, um leið og húsnæðisverð gæti lækkað.  Smjaðrandi leppalúðar og skessur, lofandi gulli og grænum skógi á kostnað máttarstólpa þjóðfélagsins, reynast ekkert annað en síðasta sort af lýðskrumurum, sem allt snýst í höndunum á, af því að vitið er takmarkað og engan veginn fallið til stjórnunar. 

Samkvæmt gildandi fjármálaáætlun verða vaxtagreiðslur A-hluta ríkissjóðs næstu 5 ára, 2022-2026, tæplega mrdISK 400 eða tæplega 80 mrdISK/ár.  Með Reykjavíkurmódelið í Stjórnarráði Íslands mun þetta hækka mjög og verða tilfinnanlegur baggi á ríkissjóði og getur leitt til verra lánshæfismats, sem allir vita, hvað þýðir.  Óreiðan er aldrei ókeypis. 

Þann 20. september 2021 birtist í Morgunblaðinu útdtáttur úr viðtali við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra.  Hann sagði þar m.a. undir fyrirsögninni:

"Hætt við algjörum glundroða":

 

"Okkar verkefni er að draga fram þá valkosti, sem til staðar eru.  Þeir eru mjög skýrir; annaðhvort erum við áfram í ríkisstjórn og höfum áhrif á þinginu og í stjórnarsáttmála og við stjórnarmyndunina, við ríkisstjórnarborðið, hvort sem það eru mál, sem við sjáum fyrir okkur núna, önnur, sem koma upp á tímabilinu, eða þá að það verður stefnubreyting. Það verður stefnubreyting í átt til hærri skatta, meiri ríkisútgjalda og minni stöðugleika.  Ég segi fullum fetum, að slík stjórn muni missa tökin á efnahagsmálunum, því [að] viðvörunarmerkin eru þegar komin, t.d. frá Seðlabankanum, um, að menn verði að stilla opinberu fjármálin við stöðuna í hagkerfinu." 

Það, sem mun gerast, verður endurtekning frá 2009-2013, þegar forgangsröðun var svo vitlaus, að það var hlaupið eftir öllum verstu kreddunum, en hagsmunir almennings lágu algerlega óbættir hjá garði.  Það má nefna umsóknina um aðlögunarviðræður við Evrópusambandið (ESB).  Það verður byrjað á að rugla fólk og ESB í ríminu með þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, þótt enginn meirihluti verði fyrir málinu á þingi.  Málið verður fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu, nema þátttakan verði mjög lítil.  Ef ekki og aðlögun lýkur á kjörtímabilinu, og niðurstöður þjóðar og þings verða öndverðar, þá kemur upp stjórnarskrárkreppa, algerlega að óþörfu. 

Þá verður reyndar vafalaust tekið til við að reyna að rústa lýðveldisstjórnarskránni á kjörtímabilinu, því að hún leyfir ekki fullveldisframsal, eins og innganga í ESB mundi fela í sér. 

Alls konar gæluverkefni verða sett á flot, sem kosta munu ríkissjóð mikið, en skila engu í auknum tekjum eða framleiðni.  Heilbrigðiskerfið mun sökkva enn dýpra í forað einokunar ríkisrekstrar, sem mun magna skortinn á læknum, hjúkrunarfræðingum og öðrum í þessum geira, og þjónustan við skjólstæðingana mun nálgast það, sem þekkist í kúbanska heilbrigðiskerfinu, þ.e. hægt verður að kaupa sig fram fyrir endalausar biðraðir.  Vitlausasta hugmynd allra tíma, sósíalisminn, mun tröllríða heilbrigðiskerfinu og öllum ríkisrekstrinum. 

"Stjórnarandstaðan hefur verið léleg, ég get tekið undir það.  Ég verð nú að segja, að við erum annars vegar með heilsuvána, veiruna, og hins vegar efnahagslegar áskoranir.  Af hverju gátum við gert þetta, sem við gerðum ?  Af hverju var skuldastaðan svona góð ?  Það er búið að vinna að því baki brotnu í mörg kjörtímabil.  Þegar ég kom í fjármálaráðuneytið á sínum tíma [2013], vorum við föst í höftum, vorum með slitabúin óuppgerð, vorum rétt að skríða í afgang, og við vorum enn þá með marga mjög háa skatta.  Við fórum í að láta auðlegðarskattinn renna út, raforkuskattinn renna út, afnema bankaskattinn, afnema vörugjöld á Íslendinga, [sem] borguðu himinhá vörugjöld af alls konar heimilisvörum, húsbúnaði, fötum og skóm.  Tókum um 1800 vöruflokka í 0.  Við slógum niður tolla, fórum svo í tekjuskattinn, tryggingagjaldið, örvuðum hagkerfið.  Snerum við stöðu þjóðarbúsins."

Allir sjá í hendi sér, hversu þensluvekjandi og hagvaxtarhamlandi öll þessi gjöld voru, sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafði forgöngu um, að Alþingi létti af almenningi.  Tiltölulega mest báru þeir þar úr býtum, sem úr minnstu höfðu að spila.  Sósíalisminn er reistur á þeim misskilningi, að bezt sé fyrir fátæka, að stjórnmálamenn dragi sem mest frá aflaklónum inn í ríkissjóð (eða sveitarsjóði) til að deila verðmætunum aftur út á meðal þegnanna. Við þetta dregur úr hvötum til að afla fjár, og verðmæti rýrna í meðförum hins opinbera við að halda úti bákninu.  Þetta leiðir til minni verðmætasköpunar í samfélaginu, þ.e. minna verður til skiptanna en ella, og allir verða fátækari að efnum.  Þess vegna fer bezt á því að halda vinstri krumlunum frá kjötkötlunum.  Vinstri menn eru upp fullir af meinlokum um eitthvert réttlætishlutverk sitt í stjórnmálum. Réttlæti þeirra er fólgið í því að ganga í skrokk á öflugum launamönnum, sjálfstæðum atvinnurekendum og hirða af þeim enn meira fé til að útdeila til þeirra, sem eru þeim þóknanlegir. Slíkt er ekki réttlæti.  Slíkt er lýðskrum. 

Lengst gengur ofbeldið í garð atvinnurekstrar í landinu um þessar mundir gegn sjávarútveginum, svo að jafna má við einelti.  Öfundaráróðurinn og afskiptasemin gengur svo langt hjá þessum siðlausu stjórnmálamönnum, að þeir fetta fingur út í fjárfestingar fyrirtækja í sjávarútvegi utan greinarinnar. Hvað varðar stjórnmálamenn um þetta, og hvernig dirfast þeir að fjalla um þetta nánast sem glæpsamlegt athæfi ?  Lögmálið er, að þangað leitar fjármagnið, sem það gefur tryggasta og bezta ávöxtun.  Hagnaður er einfaldlega minni í sjávarútvegi en almennt í öðrum atvinnurekstri, og það er m.a. vegna hárra sérgjalda, sem lagðir eru á sjávarútveginn.  Veiðigjöld nema nú 33 % af hagnaði, og síðan kemur auðvitað almennur tekjuskattur.  Þeir stjórnmálamenn, sem fiska í gruggugu vatni með ofsóknum á hendur sjávarútveginum, eru svo herfilega úti að aka um hlutverk sitt í stjórnmálum, að halda mætti, að þeir væru ekki með öllum mjalla. 

Hvað sagði Bjarni Benediktsson um stjórnun handhafa réttlætisins (til vinstri) á heilbrigðismálunum ?:

"Það hefur verið vandamál, að við höfum séð of mikla sóun í kerfinu og of lítinn vilja til að treysta grunninn á bak við blandað kerfi. Við höfum verið föst í kreddum í heilbrigðismálum, sem einmitt lúta að rekstrarforminu, og þess vegna er það áherzlumál okkar í þessum kosningum í þessum málum að líta á heilbrigðisþjónustuna út frá þörfum sjúklinganna.  Við erum alltaf föst í einhverri umræðu um þarfir kerfisins; að þessi aðili þurfi meira fjármagn.  Þetta á ekki að hugsa svona.  Sjúkratryggingar gera þjónustusamninga fyrir hönd sjúklinganna.  Horfum á þetta út frá þörf þeirra, sem sækja þjónustuna."  

  Vinstri flokkarnir eru rígfastir í kreddunum, að ríkisstarfsmenn verði að veita þá þjónusta, sem Sjúkratryggingar Íslands eiga að kaupa handa okkur samkvæmt lögum. Eins og vanalega sjá þeir ekki lengra en nef þeirra nær, þ.e. þeir eru fastir í vonlausum og löngu úreltum kreddum og neita að horfast í augun við afleiðingar þessara vanhugsuðu kenninga sinna.  Þær eru í þessu tilviki einokun ríkisins á starfsemi heilbrigðisgeirans, sem leiðir óhjákvæmilega til bæði dýrari og lakari þjónustu, lakari kjara fyrir starfsfólkið og áhugaleysi á að ráða sig í vinnu hjá einokunaraðilanum.  Það leiðir síðan til s.k. "mönnunarvanda", sem þýðir, að fólk tollir illa á falkinn1_444247vinnustað og nýútskrifaðir leita annað, t.d. til útlanda á tímum frjáls flutnings vinnuafls og mikillar spurnar eftir heilbrigðisstarfsmönnum hvarvetna í heiminum.  Ríkiseinokun í þessum geira er andvana fædd, eins og á öllum öðrum sviðum, enda er sósíalisminn vitlausasta hugmyndafræði, sem maðurinn hefur álpazt til að setja á koppinn.  Sjálfstæð lækningafyrirtæki, stór og smá, eiga að standa jafnt að vígi og ríkisrekin fyrirtæki að taka að sér starfsemi (með útboði) á þeim sviðum, þar sem þau geta boðið fram fullnægjandi gæði á samkeppnishæfu verði.

 

 


Gjaldeyrisvarasjóðurinn yrði hafður að skotspæni spákaupmanna

Morgunblaðið birti afhjúpandi útdrátt úr Dagmálaviðtali við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur (ÞKG), formann Viðreisnar, 16. september 2021. Þar kom í ljós, að keisaraynja ESB-hirðarinnar á Íslandi er ekki í neinu.  Málflutningur hennar stendst ekki rýni.  Hann er reistur á fáfræði um eðli ESB, misskilningi um þetta yfirþjóðlega ríkjasamband eða rangtúlkun á staðreyndum. Engin alvarleg greining hefur farið fram á þeim bænum um kosti og galla aðildar. Það skín í gegnum viðtalið.

Hér er á ferðinni af hálfu Viðreisnar fullkomlega léttúðug og óábyrg umfjöllun um fjöregg þjóðarinnar, fullveldið, svo að það er ekki hægt að láta það átölulaust, að fjallað sé um aðild að Evrópusambandinu (ESB) eða myntsamstarfi þess án þess, að staðreyndir fái að njóta sín á nokkurn hátt.  Hér er ekki hægt að samþykkja, að þýzka máltækið: "der Erfolg berechtigt das Mittel" (tilgangurinn helgar meðalið), eigi við. 

 "Ef við tölum ekki um það [ESB], þá gerir það enginn. Við erum ekki að því bara til þess að fara inn í  Evrópusambandið samningsins vegna.  Við teljum, að lífskjörin muni batna og styrkjast, efnahagslegur stöðugleiki aukast o.s.frv.  En ef og þegar við náum samningum, og þeir eru ekki góðir, þá verður Viðreisn fyrsti flokkurinn til þess að leggjast gegn þeim."

Hér beitir ÞKG samningshugtakinu á kolrangan hátt.  Stöðunni er ekki hægt að líkja við 2 aðila, sem hvor um sig gengur með sín samningsmarkmið til samninga.  Nær er að líkja þessu við háskólastúdent, sem sækir um inngöngu í eitthvert nám í háskóla, og háskólinn skoðar nákvæmlega, hvað stúdentinn hefur lært og árangur hans í hverri grein til að kanna, hvort stúdentinn fullnægi inntökuskilyrðum skólans. 

Þetta kom greinilega í ljós í aðlögunarferli Íslands að ESB 2009-2013.  Þar var hverri "bókinni" á fætur annarri lokað, eftir að aðlögun hafði verið sannreynd, þangað til kom að sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.  Þá fór allt í hund og kött, af því að Alþingi hafði sett skilyrði, sem ekki samrýmdust CFP og CAP-sameiginlegu sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu ESB.  Það er ómerkilegt af ÞKG að vera með þetta "samningskjaftæði". 

Hvernig í ósköpunum getur ÞKG borið það á borð fyrir kjósendur, að lífskjör þeirra muni batna við inngöngu í ESB, þegar þau eru miklu betri á Íslandi en í ESB-löndunum að Lúxemborg undanskilinni (skattaparadís) ?

Það er rangt, að efnahagsstöðugleiki muni aukast við fastgengi með evru.  Þá munu aðrar sveiflur en gengissveiflur þvert á móti aukast, þegar hagkerfið verður fyrir innri eða ytri truflun, t.d. á formi kjarasamninga, sem útflutningsatvinnuvegirnir geta ekki staðið undir, verðhækkunum eða verðlækkunum á erlendum mörkuðum, eða hruni greinar, t.d. ferðageirans. Gengið er nú dempari á efnahagssveiflur. 

" Ég geri mér grein fyrir, að við þurfum meiri umræðu, meiri upplýsingu.  Við erum að heyra alls konar rangfærslur um, að útlendingar fái fiskimiðin okkar og orkan verði tekin - tómt píp, auðvitað - en við þurfum meiri upplýsingu. Þess vegna höfum við lagt til, að þverpólitísk nefnd taki við málinu og undirbúi þá atkvæðagreiðslu, þar sem við spyrjum fólkið, hvað eigi að gera."  

Þetta er léttúðug og óábyrg afgreiðsla á örlögum fiskimiðanna eftir inngöngu.  Stjórnun fiskimiðanna er ekki umsemjanleg af hálfu ESB við aðlögunarríki, af því að kveðið er á um það í sáttmála ESB, að ríki ESB skuli lúta sameiginlegri landbúnaðar- og fiskveiðistefnu ESB, CFP (Common Fisheries Policy). Það var lengi mikið óánægjuefni í strandbæjum Bretlands, að flotar hinna ESB-landanna ryksuguðu fiskimið Breta upp að 12 sjómílum.  Eftir útgönguna losna Bretar af klafa þessarar ofveiði í áföngum á 5 árum. 

Í byrjun þessarar aldar (21.) gaf framkvæmdastjórn ESB út "grænbók" um framtíðarfyrirkomulag úthlutunar fiskveiðiheimilda í lögsögu ESB-ríkjanna.  Þar var stefnt að markaðsvæðingu, þannig að kvótarnir gætu gengið kaupum og sölum á Innri markaði ESB.  Stefna Viðreisnar um þjóðnýtingu aflaheimilda í áföngum og síðan uppboð á þeim er ekkert annað en aðlögun að framtíðarstefnu ESB.  Viðreisn hagar sér sem leppur Evrópusambandsins á Íslandi.  Ef þessi uppboðsstefna á fiskveiðiheimildum verður ofan á, munu þessi uppboð verða talin málefni Innri markaðarins, og þverska gegn því verður kærð til ESA.  Þetta er verra tilræði við efnahagslegt sjálfstæði Íslands en Icesave-svikasamningar vinstri stjórnarinnar 2009-2013. Hvaða heilvita manni dettur í hug, að það verði samþykkt hér í þjóðaratkvæðagreiðslu að aðlagast ESB að fullu ? 

"Hefði það verið ákjósanlegt í kórónukreppunni undanfarna 18 mánuði, þar sem ferðaþjónustan þurrkaðist út, að gjaldmiðillinn hefði ekki haggazt ?"

"Það er oft sagt um krónuna, að það megi láta hana falla til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi.  Samt jókst atvinnuleysi meira hér en víða í sambærilegum löndum.  Ég hefði viljað gjaldmiðil, sem hefði veitt okkur meiri fyrirsjáanleika."

Hvaða "sambærilegu" lönd er ÞKG að tuða um þarna úti í sínu horni evru-trúarbragðanna ?  Það var ekkert land í Evrópu, og þótt víðar væri leitað, með fjölda  erlendra ferðamanna á ári í námunda við 5-faldan eiginn íbúafjölda, þegar Kófið dundi á. Þess vegna varð efnahagsáfallið jafngríðarlegt hér og raun bar vitni um (6,5 % minnkun VLF 2020), og mikið atvinnleysi hlaut að fylgja.  Eitt er mjög líklegt: hefði þessi evru-tilbeiðandi verið búin að festa ISK við EUR, þegar Kófið skall á, hefði gjaldeyrisvarasjóðurinn þurrkast upp. Spákaupmenn hefðu tekið sér stöðu og fellt ISK léttilega og hirt gjaldeyrisvarasjóðinn á spottprís í leiðinni.  Það er þessi "rússneska rúlletta", sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir býður Íslendingum upp á af fláræði sínu eða skilningsleysi.  Hvort tveggja er afleitt fyrir stjórnmálamann. Blaðamenn Morgunblaðsins höfðu þetta líka í huga:

"Í dag eru 29 ár síðan George Soros gerði atlögu að Englandsbanka og Bretar hrökkluðust úr evrópska myntsamstarfinu.  Þegar sú stóra þjóð átti ekki séns (sic !), eigum við meiri séns (sic !) ?"

"Það hafa menn á undan mér í pólitík bent á, að fara ætti einhverja svipaða leið.  Á þeim tíma hefði það ekki endilega verið skynsamlegt, en þar sem staða gjaldeyrisvaraforðans er jafnsterk og raun ber vitni, þá er það raunhæft."

 Þetta svar ÞKG er algerlega út í hött.  Dómgreindarleysið er yfirþyrmandi.  Heldur hún virkilega, að jafnvirði um mrdEUR 5 standi eitthvað í spákaupmönnum að snara út til að græða á gjaldeyrisbraski ?  

Það vill svo til, að Morgunblaðið gerði þessi mál að umræðuefni í forystugrein 16. september 2021 undir fyrirsögninni:

"Að bjóða hættunni heim".

Bretar höfðu þá um 2 ára skeið haldið uppi einhliða fastgengi við þýzka markið innan evrópska myntsamstarfsins (ERM), en áhlaup spákaupmanna hafði staðið um hríð.  Englandsbanki hækkaði stýrivexti sína upp í 10 % og seldi ógrynni af gjaldeyri til þess að verja pundið, en allt kom fyrir ekki. [ÞKG heldur, að gengistenging ISK við EUR muni lækka vexti hér niður að vöxtum evrubankans.  Hún hundsar staðreyndir, ef þær gagnast ekki ESB-trúboði hennar-innsk. BJo.] Hinn 16. september var gjaldeyrisforðinn uppurinn, Bretar gáfust upp og þurftu að draga sig út úr ERM við mikla niðurlægingu.  Englandsbanki tapaði a.m.k. mrdISK 600 í einu vetfangi, ríkisstjórn Íhaldsflokksins náði sér aldrei á strik aftur og galt afhroð í næstu kosningum."

Það er mjög þungur áfellisdómur yfir Viðreisn, að forysta flokksins skuli vera svo óvarkár í fjármálum að leggja til leið í gjaldeyrismálum, sem sagan sýnir einfaldlega, að er stórhættuleg.  Ef ÞKG heldur, að mrdISK 800 gjaldeyrisvaraforði muni veita fastgengisstefnu hennar einhverja vörn, þá hefur hún ekkert lært á sínum pólitíska ferli, sem máli skiptir, og er einfaldari í kollinum en formanni stjórnmálaflokks ætti að leyfast.

Í viðtalinu var haldið áfram að afhjúpa formann Viðreisnar:

"Á hvaða gengi verður ISK fest við EUR ?"

"Á markaðsgengi."

"Á markaðsgengi dagsins, þegar bindingin á sér stað ? Þá verðum við nú fljótt vogunarsjóðunum að bráð.  Dauð á fyrsta degi."

"Ef þú getur sagt mér það, [hvert] gengið er eftir ár, þá skal ég svara þér."

"Það eruð þið, sem eruð að leggja til gengisbindingu."

"Ég er að segja þér þetta: ef þú getur svarað mér því."

"Er það þá stefna ykkar að taka gengisbindingu upp á genginu, sem verður, þegar skrifað verður undir ?"

"Við skulum bara sjá til með það."

"Það skiptir öllu.  Sigmar Guðmundsson, frambjóðandi Viðreisnar, lofaði okkur því hér í þættinum, að þetta yrði gert heyrinkunnugt fyrir kosningar, af því að það skiptir fólk máli.  Þið hljótið að hafa einhverja hugmynd um á hvaða gengi það skuli gert."

"Það er ekkert ólíklegt, að það verði einhvers staðar nálægt markaðsgenginu.  En það fer auðvitað allt eftir samningunum."

Þessi yfirborðslegu og raunar forheimskulegu svör Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sýna, svo að ekki verður um villzt, að keisaraynjan er ekki í neinu í gengisfrumskóginum.  Viðreisn hefur augljóslega enga áhættugreiningu gert á þeirri stefnumörkun sinni að tengja ISK við EUR. Þorgerður Katrín minnir á skessu, sem leikur sér hlæjandi að fjöreggi þjóðarinnar, eins og um getur í þjóðsögunum.  Stefna Viðreisnar er vítaverð, af því að hún endar óhjákvæmilega með ósköpum. 

Áfram með hina fróðlegu forystugrein Morgunblaðsins:

"Bretar voru ekki einir um að falla í þá freistni [að tengja gengið annarri mynt - innsk. BJo].  Það gerðu Svíar og Finnar einnig, en urðu líka fyrir árás spákaupmanna og neyddust til að slíta gengistengingunni og fella gengið haustið 1992.  Hafði þó ekki lítið gengið á, og Svíar í örvæntingu hækkað millibankavexti í 500 % !  Sömu sorgarsögu er að segja af ámóta tilraunum annars staðar, frá Tequila-kreppunni í Suður-Ameríku 1994 til Asíukreppunnar 1998."

 Viðreisn lifir í sérkennilegum, rósrauðum draumaheimi lepps Evrópusambandsins.  Kerling kostar öllu til, til að smygla sál karlsins inn um Gullna hliðið.  Vankunnátta og óraunsæi einkenna vinnubrögðin, enda helgar tilgangurinn meðalið.  Væri ekki ráð, að flokksforystan kynnti sér gjaldmiðlaþátt hagsögunnar ?  Það er reyndar borin von, að heilaþvegnir láti af trúnni.

Kjarninn í tilvitnaðri forystugrein Morgunblaðsins var þessi:

 "Einhliða fastgengi á tímum frjálsra fjármagnsflutninga er einfaldlega skotheld uppskrift að spákaupmennsku, gjaldeyriskreppu, bankakreppu og loks efnahagskreppu.  Þau víti þekkja Íslendingar og verða að varast þau."

Nokkru síðar var Viðreisn rassskellt þannig:

"Einhliða fastgengi er peningastefna fortíðar, sem felur í sér, að allur gjaldeyrisforði þjóðarinnar er lagður að veði og getur hæglega tapazt til spákaupmanna á einni nóttu. Sem er alls ekki ólíklegt, vegna þess að slíkur fjársjóður dregur að sér athygli þeirra og ágirnd. 

Fastgengisstefna myndi - þvert á það, sem boðberar hennar segja - að öllum líkindum hækka vexti, þar sem allt myndi miðast við að verja gengið, en ekki hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu.  Þá myndu Íslendingar ekki lengur hafa sveigjanleika til þess að bregðast við áföllum í útflutningi, líkt og átti sér stað í nýliðinni kórónukreppu, en rétt er að hafa í huga, að allar helztu útflutningsgreinar Íslands - sjávarútvegur, orkunýting og ferðaþjónusta - eru háðar ytri þáttum, sem við fáum engu um ráðið.  Við blasir, að atvinnuleysi hefði orðið miklu meira og útgjöld ríkisins mun hærri, hefði ekki verið unnt að beita peningastefnunni til sveiflujöfnunar, líkt og gert var með afgerandi og farsælum hætti."

Þessi greining Morgunblaðsins er að öllum líkindum hárrétt.  Gengisbindingarstefnan er vanhugsuð og þjóðhættuleg.  Með henni væri kastað fyrir róða mikilvægu sveiflujöfnunartæki, sem er hagkerfi á borð við okkar bráðnauðsynlegt, sem nánast aldrei sveiflast í fasa við meginhagkerfin, sem marka peningastefnu evrubankans í Frankfurt.  Núna er reyndar mikill og vaxandi klofningur á milli germanskra og rómanskra ríkja evrunnar um peningastefnu evrubankans, sem hefur valdið mestu verðbólgu á evrusvæðinu frá stofnun hennar og mestu verðbólgu í Þýzkalandi frá endursameiningu landsins 1990. 

Evran krosssprungin 

 

 

 

 

 

 

  

 

 

 

 

 

  


Furðufugl á jaðri siðmenningar

Fjarstæður hafa tröllriðið málflutningi í þessari kosningabaráttu til Alþingis.  Það er ills viti, þegar frambjóðendur sýna kjósendum algert virðingarleysi sitt með því að kasta fram fjarstæðum og órökstuddum dylgjum, eins og þeir ímyndi sér, að þeir geti borið hvaða þvætting og óhroða á borð án þess að skaðast.

Formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins er ekki barnanna beztur í þeim efnum, enda sýndi hann í viðtali í Dagmálaþætti Morgunblaðsins, sem prentaður var útdráttur úr 13. september 2021, að hann er einræðisseggur, sem hatast við atvinnurekstur í landinu, stjórnkerfið og þrígreiningu ríkisvaldsins, þ.e. grunnstoðir lýðveldisins. Annað eins hefur ekki birzt í kosningabaráttu svo lengi sem elztu menn muna.  Það vitnar um fullkomið dómgreindarleysi að reyna þannig að snúa við gangi tímans. Þjóðfélagið hlýtur að vera í andlegri nauð, ef slíkum gallagripum, sem alls staðar skilja eftir sig sviðna jörð, skolar á þing.

"Nú varstu sjálfur hallur undir frjálshyggju á árum áður, stór-kapítalisti árin fyrir hrun, gekkst næst í múslimafélagið, vildir ganga Noregskonungi á hönd og nú [í sósíalistaflokkinum]. Finnst þér skrýtið, þó[tt] sumir spyrji, hvort þér sé alvara eða hvort þetta sé bara langdreginn gerningur ?"  

"Þarf maður ekki að eiga kapítal til þess að vera kapítalisti ?  Ég átti ekki kapítal."

Nei, til að aðhyllast auðhyggju er ekki nauðsynlegt að vera ríkur.  Fátækur námsmaður getur aðhyllzt kenningar Adams Smith um markaðshyggju og frjálsa samkeppni án þess að eiga bót fyrir boruna á sér.  Hann getur t.d. einsett sér að nýta hæfileika sína, selja sérhæfða þjónustu sína að námi loknu og með dugnaði orðið ríkur.  Hann hefur skapað verðmæti, og enginn orðið fátækari, þótt hann yrði ríkur. Þessi maður á að fá að njóta ávaxtanna af erfiði sínu, og einhverjir öfundsjúkir leppalúðar, sem aldrei hafa gert neitt umfram það, sem að lágmarki var af þeim krafizt, og jafnvel kastað höndunum til alls, ef þeir þá nenntu að lyfta litla fingri, eiga ekki að komast upp með það að skella stórfelldum skattahækkunum á þennan mann. Stjórnmálamenn eru ekki handhafar réttlætisins.  Atvinnurekstur og fólk á að standa jafnt að vígi gagnvart skattheimtu, þótt fallast megi á réttmæti persónuafsláttar og lægri skattheimtu af lægstu launum.  Það ætti þá að gilda um útsvarið líka. 

Þessi ferill Gunnars Smára Egilssonar (GSE), sem blaðamennirnir rekja, ber merki um tækifærismennsku. Hann sogast að trúarbrögðum, sem ekki ríkja einvörðungu yfir persónulegu lífi einstaklinganna, heldur eru altækt valdatæki í þjóðfélaginu.  Þannig eru múhameðstrúin og kommúnisminn.  Af málflutningi GSE að dæma má ráða, að þar er siðblindingi á ferð, siðblindingi án sannfæringar. 

"En nú ert þú að gefa kost á þér til Alþingis, og það er ekki óeðlilegt, að fólk spyrji um ábyrgð þína, þegar þú tekur stórt upp í þig.  Þú leggur til, að sjálfstæðishúsinu Valhöll verði breytt í almenningssalerni og að tiltekinn maður eigi að skúra þar ...  ."   

"Maður, sem hefur borið út alls konar lygar um mig."

Það er ljóst, að til að þessi sjúklegi draumur GSE geti orðið að veruleika, þarf mikið ofbeldi að eiga sér stað, raunverulega blóðug bylting, þar sem byltingarseggirnir ganga á milli bols og höfuðs á andstæðingum sínum og niðurlægja þá, sem lifa af blóðbaðið.  Allt, sem minnir á fyrri valdhafa, er troðið í svaðið.  Ekki þarf að útmála það frekar, hvers konar ofbeldishugarfar býr að baki því, hvernig þessi undirmálsmaður ætlar að fara með miðstöð Sjálfstæðisflokksins.  Að þvílíkur útlagi siðmenningarinnar setjist hugsanlega á Alþingi, er mjög óþægileg tilhugsun.

"Og þú hefur líka haft í heitingum við Hæstarétt, ef hann fer ekki eftir ykkar kröfum."

"Nei, það er ekki alveg þannig."

"Sagðirðu ekki, að það ætti að ryðja Hæstarétt, ef hann dæmdi öðruvísi en ykkur þætti réttast ?"

"Ja, við lifum við það vandamál, að tiltekinn flokkur hefur haft völd í gegnum dómsmálaráðuneytið og raunverulega ráðið dómara á öllum dómstigum meira og minna áratugum saman."

Einræðistilburðir GSE leyna sér ekki.  Eins og einræðisherrar fyrri tíma gerðu, vill hann afnema þrígreiningu ríkisvaldsins með valdi.  Hann vill láta framkvæmdavaldið segja dómsvaldinu fyrir verkum, eins og einræðisherrar gera, og enginn þarf að fara í grafgötur með, að siðblindur einræðisherra afnemur frjálsar kosningar til Alþingis.  Þær henta ekki alræði öreiganna, þ.e. "nómenklatúru" Sósíalistaflokksins.   

"Við gerðum könnun um daginn, sem sýndi, að 60 % töldu, að spilling væri vandamál í íslenzkum stjórnmálum.  Þjóðfélög, sem lenda í, að gömul valdaklíka hefur dreift sér út um allt samfélagið, er í stjórnsýslunni, í dómskerfinu og út um allt ...  ."

"Ertu að segja, að stjórnsýslan á Íslandi og dómskerfið sé valdaklíka ?"

"Já."

Hver gerði þessa könnun fyrir Sósíalistaflokkinn, og hvernig voru spurningarnar ?  Siðblindingi veit ekki mun á réttu og röngu, svo að full ástæða er til að draga í efa, að af marktæku þýði telji telji 60 % spillingu vera "vandamál í íslenzkum stjórnmálum".  Þarna sjáum við uppistöðuna í áróðri GSE.  Hann dreifir sefasýkislegum samsæriskenningum um stjórnsýsluna, dómstólana og atvinnureksturinn í landinu.  Sefasýkin kemst á hástig, þegar sjávarútveginn ber á góma. Þessi aðferðarfræði og fjarstæðukenndu spádómar um hitt og þetta passa alveg við hegðun einræðisherra fyrri tíðar, þegar þeir voru að berjast til valda.  Íslenzka spegilmyndin sýnir þó bara blöðrusel. 

"Það er mjög alvarlegt mál, ef maður, sem er að fá fljúgandi fylgi í könnunum, og koma mörgum þingmönnum inn, sé með það að stefnu að ryðja Hæstarétt, og að því er virðist stjórnkerfið, af því að sá hópur er skilgreindur sem valdaklíka.  Það eru rosaleg orð."

"Það hefur gerzt í sögunni, þar sem fólk hefur misst samfélag sitt í svona, að þá hefur verið gripið til þess ráðs að búa eitthvað til, eins og 2. lýðveldið.  Við erum gerspillt samfélag."

Það kemur hvað eftir annað fram, að GSE gælir við hugrenningar um byltingu á Íslandi, og nú nefnir hann 2. lýðveldið, sem er e.t.v. skírskotun til Frakklands,en hann gæti haft 2. íslenzka lýðveldið í huga.  Þvílíkt og annað eins.  

"Telurðu, að dómsvaldið sé spillt ?"

"Ég tel, að það hafi skipulega verið settir inn menn í Hæstarétt, sem eru líklegir til þess að verja meint eignarhald stórútgerðarinnar.  Að það sé skipulagt samsæri.

Og ef það er þannig, að Hæstiréttur stoppar það, að almenningur fái að nota sínar auðlindir, þá verðum við að bregðast við því.  Ég er að benda á, að aðrar þjóðir hafi brugðizt við [með] því að stofna nýtt lýðveldi."

Hefur nokkurn tíma í Íslandssögunni verið efsti maður á nokkrum framboðslista, sem jafnskefjalaust boðar ofbeldisfulla stjórnarbyltingu ?  Sagnfræðingar geta svarað því, hvort t.d. Brynjólfur Bjarnason eða Einar Olgeirsson hafi nokkurn tíma opinberlega látið sér um munn fara annan eins ofbeldisþvætting og borinn er á borð fyrir íslenzka kjósendur fyrir Alþingiskosningarnar 2021, og blaðamenn Morgunblaðsins veittu lesendum blaðsins þarna innsýn í.  Hvílíkt endemis rugl !

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Bullustampar kveða sér hljóðs í landsmálum

Á enskri tungu er til orðið "Idiocracy", sem e.t.v. mætti snara á íslenzku með orðinu kjánaræði.  Þegar málflutningur ótrúlega margs fólks, sem gefur kost á sér til starfa sem fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi fyrir þessar kosningar, ber fyrir sjónir eða eyru, fallast ýmsum hendur, því að engu er líkara en stefnan sé mörkuð undir áhrifum líffæraskaðandi eiturefna. Munum við þurfa að lifa í "kjánaræði" eftir næstu kosningar ?

Morgunblaðið birti 9. september 2021 úrdrátt úr Dagmálaviðtali Andrésar Magnússonar og Stefáns Einars Stefánssonar við formann þingflokks pírata, Halldóru Mogensen.  Þegar píratar komu fram á sjónarsviðið hérlendis, voru samnefndar hreyfingar í uppgangi í sumum öðrum löndum Evrópu, en þær hafa nú gufað upp eða sameinazt öðrum jaðarhreyfingum. Kjánar höfða yfirleitt ekki lengi til fólks, nema við sérstakar þjóðfélagslegar aðstæður, sem eru hvorki fyrir hendi á Íslandi nú né annars staðar í Evrópu.

Þá átti boðskapurinn eitthvað skylt við stjórnleysisstefnuna (anarkisma), en nú hefur orðið "metamorphosis" eða umbreyting á pírötum hérlendis, svo að þeir virka í pólitíkinni, hvort sem er í Reykjavík, þar sem alger óstjórn ríkir undir stjórn Samfylkingar, pírata, Viðreisnar o.fl., eða í landsmálum (á Alþingi), sem deild í Samfylkingunni. Það gengur vart hnífurinn á milli þeirra, enda er lýðskrum megineinkenni beggja.

Til að gefa nasasjón af bullinu, sem vellur upp úr pírötum, verður hér byrjað á enda úrdráttarins:

"Í tengslum við umræðuna um borgaralaunin telur Halldóra [Mogensen] þó einnig, að spyrja þurfi, hvort samfélagið eigi að leggja áherzlu á sköpun nýrra starfa. 

"Er það eitthvað, sem við eigum að vera að gera.  Eigum við að vera að setja rosalega mikla orku í að búa til störf fyrir fólk í stað þess að setja bara fjármagn í hendurnar á fólki og treysta þeim til að skapa störfin sjálf", spyr hún." 

Hér kveður við nýjan tón í stjórnmálunum á Íslandi og á Norðurlöndunum í heild.  Samkvæmt lífsviðhorfum pírata á hið opinbera ekki að auðvelda fyrirtækjunum nýsköpun til atvinnusköpunar á nokkurn hátt, heldur að senda öllum íbúunum yfir ákveðnum aldri ávísun frá ríkissjóði, sem dugi til "framfærslu", þegar stefnan er að fullu til framkvæmda komin. Þessi hugsun felur í sér purkunarlausan vilja til að bruðla með opinbert fé.  Hún mun leiða til vaxandi atvinnuleysis, óðaverðbólgu, taumlausrar skuldasöfnunar og mikillar óhamingju, enda hafa tilraunir í svipaða veru alls staðar farið í vaskinn, þar sem eitthvað í þessa veru hefur verið reynt. Hér er um að ræða siðferðilegt og hagfræðilegt glapræði.  Að stjórnmálaflokkur á Íslandi skuli leyfa sér að bera aðra eins vitleysu á borð fyrir kjósendur, sýnir, ásamt öðru, að það er stutt í kjánaræðið hér.  

Nú verður rakin byrjunin á úrdrættinum:

"Píratar tala líkt og áður um, að borgaralaun skuli tekin upp og að þeim sé ætlað að tryggja grunnframfærslu allra borgara landsins.  Halldóra Mogensen er þingflokksformaður flokksins á Alþingi og skýrir afstöðu hans í samtali á vettvangi Dagmála. 

Hún segir kostnaðarmat ekki liggja fyrir, verkefnið sé hugsað til langs tíma og verði að skoðast í heildarsamhengi grundvallarbreytinga á samfélaginu.  Hún telur þó rétt að stíga fyrstu skrefin nú þegar, sem geti falizt í hækkun persónuafsláttar, og að þeir, sem kjósi að standa utan vinnumarkaðar eða hafi ekki möguleika á þátttöku á þeim vettvangi, fái fjárhæð, sem svari til persónuafsláttarins, greidda út." 

Það er heilbrigt keppikefli allra vestrænna samfélaga og allra annarra iðnvæddra og þróunarsamfélaga, að nægt framboð sé af atvinnu fyrir alla á vinnumarkaðsaldri.  Það er jafnvel af sumum talið til mannréttinda að fá að vinna fyrir sér.  Píratar eru af öðru sauðahúsi.  Þeir vilja innleiða hvata til að vinna ekki.  Þar með ýta þeir undir leti og ómennsku og skapa alls konar heilsufarsleg og félagsleg vandamál, en þeir hafa sennilega ekki velt þessum neikvæðu hliðum borgaralauna fyrir sér. 

Það, sem fyrir þeim vakir, er að stöðva hagvöxt í efnahagskerfinu og draga úr einkaneyzlu. Þeir hafa ekki gert neina áhættugreiningu fyrir þetta "flopp" sitt, en það, sem við blasir, er versta efnahagsástand, sem þekkist, þ.e. "stagflation".  Hér yrði að prenta peninga til að standa undir ósjálfbærum útgjöldum ríkissjóðs, sem leiðir til hárrar verðbólgu, og hagkerfið mundi ekki standa í stað, heldur dragast saman. 

Ef píratar fengju að reka þessa stefnu sína "to the bitter end", þá yrði hér þjóðargjaldþrot, og Íslendingar mundu missa sjálfstæði sitt.  Allt dugandi fólk mundi flýja óstjórnina, en eftir sætu afætur og   kjánar. Það er makalaust, ef stjórnmálaflokkur, sem boðar slíka kollsteypustefnu, mun fá 10 %-15 % atkvæða.  Það sýnir, að pírötum hefur tekizt að pakka vitleysunni inn í umbúðir, sem fanga athygli allt of margra.  Dreifbýlisfólk sér þó flest, hversu ókræsilegt innihald glansumbúðanna er.  Það er einvörðungu fólk, sem ekki skynjar samhengi þjóðartekna og velmegunar, sem lætur glepjast af silkimjúkum falsáróðri pírata, eins og orð Halldóru Mogensen að ofan eru dæmi um. 

"[...] fyrsta skrefið gæti verið að hækka um kISK 25-30 á mánuði.  Að hækka um kISK 25 myndi kosta, að mig minnir, um 54 mrdISK/ár", útskýrir hún.  Innt eftir því, hvernig flokkurinn sjái fyrir sér að fjármagna þetta og frekari skref í átt að borgaralaunum, bendir hún á, að þessi breyting muni einna helzt nýtast hinum verst settu, sem muni því um leið verja peningunum í neyzlu, og því skili stór hluti fjármunanna sér aftur í ríkissjóð í formi skattgreiðslna."   

Hér kynnir Halldóra Mogensen til sögunnar upphaf stórfelldrar aukningar ríkisútgjalda, sem eru algerlega óþörf, í landi, þar sem ríkisútgjöld eru nú þegar í hæstu hæðum á alþjóðlega mælikvarða og kaupmáttur launa er með því hæsta, sem gerist í heiminum. Hún ber það á borð, að af þeim 180 þús. (180 k) viðtakendum, sem ofangreindar tölur hennar segja, að fái þessi borgaralaun (hvernig hafa píratar valið þá úr miklu stærri hópi fólks 18 ára og eldri ?), muni "hinir verst settu" nota upphæðina í neyzluaukningu og "stór hluti fjármunanna skila sér aftur í ríkissjóð".  "Verst settu" borga hins vegar engan tekjuskatt.  Hvað með alla hina, allt að 120 k ?  Hvers vegna fá þeir ekki náð fyrir augum pírata ?  Hvernig býst Halldóra við, að þeir muni verja auknum ráðstöfunartekjum sínum, þegar þeir fá að auki borgaralaun ?

Þessi ráðstöfun skattpeninga hins vinnandi manns er illa ígrunduð á tímum, þegar þjóðfélaginu ríður á að efla innviði sína á öllum sviðum. Slíkt kostar, en borgar sig á skömmum tíma.  

"Þrétt fyrir það er ljóst, að ef ríkissjóður ætlar sér að takast á hendur að greiða öllum, óháð vinnuframlagi, grunnframfærslu, mun það kosta hundruð milljarða króna.  Halldóra segir, að fjármagna megi það með bættu skattaeftirliti, hækkun veiðigjalda, þrepaskiptum fjármagstekjuskatti og fleiri kerfisbreytingum." 

  Með þessu svari sínu beit Halldóra Mogensen höfuðið af skömminni og sýndi fram á, svo að ekki er um að villast, að hún er alger glópur á þessu mikilvæga sviði, sem ekki á þess vegna nokkurt erindi á Alþing.  Hún er þó þingflokksformaður pírata, og segir það allt, sem segja þarf um þá tætingshjörð.  Ef grunnframfærslan nemur 350 kISK/mán og allir 18 ára og eldri eiga að fá þessa upphæð, þá nemur kostnaðurinn um 1250 mrdISK/ár.  Sparnaður kemur á móti, en nettó upphæðin gæti numið um 1000 mrdISK/ár eða öllum íslenzku fjárlögunum um þessar mundir.  Tekjustofnarnir, sem þingflokksformaðurinn nefnir, standa e.t.v. undir 5 %-10 % af kostnaðinum um stundarsakir, en svo munu þeir skreppa saman vegna ofsköttunar.  Vitleysan ríður ekki við einteyming á þessum bænum. Það er vaðið á súðum endalaust í botnlausri ósvífni, þar sem skákað er í skjóli deyfðar og doða kjósenda. Hvernig stendur á því, að a.m.k. 10. hver kjósandi skuli ætla að ljá þessari endileysu atkvæði sitt ?  Það er hætt að vera fyndið.

""Líka lán. Það er líka allt í lagi að segja það.  Það er allt í lagi að taka lán fyrir fjárfestingum.  Því [að] ef við erum að fjárfesta í fólki, eins og innviðum og öðru, þá erum við að gera það vegna þess, að það skilar sér til baka".  Bendir hún á, að það sé í samræmi við ákall Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem telji, að ekki eigi að skera ríkisútgjöld niður vegna kórónuveirunnar, heldur örva hagkerfin með fjárfestingu og meiri umsvifum hins opinbera.  "Við megum leyfa okkur að fjárfesta þannig í framtíðarsamfélaginu", útskýrir Halldóra."   

Ábyrgðarleysi þingflokksformanns pírata gagnvart þeim, sem greiða verða lánin, er hrollvekjandi. Það vantar gjörsamlega botninn í hagfræðina hennar, enda virðist hún ekki bera skynbragð á þau fræði umfram meðalskynugan heimiliskött.  Hvers vegna er "allt í lagi að taka lán fyrir fjárfestingum" ?  Skilyrði þess er, að fjárfestingin skili lántakanum meiri arðsemi en nemur vaxtakjörum lánsins. Þarna skriplar hagfræði Halldóru á skötunni.

Auk þess fer þingflokksformaðurinn ranglega með hugtakið fjárfesting. Hún á við lán til rekstrar, þ.e. neyzlu heimilanna.  Villukenningar þingmanna af þessu tagi eru ekki til annars fallnar en að rugla almenning í ríminu. Það, sem hún hefur eftir AGS, á ekki lengur við.  Íslenzka ríkisstjórnin jók skuldir ríkissjóðs gríðarlega til að aðstoða fólk og fyrirtæki, aðallega í ferðageiranum, í Kófinu, en það er algerlega óábyrgt að halda lengra út á þá braut.  Hvað ætlar þessi Mogensen að gera, þegar næsta áfall ríður yfir ?  Þá grípur hún í tómt, því að ríkissjóður, sem stjórnað er í anda þessarar Mogensen, mun einskis lánstrausts njóta.

"Talsvert hefur borið á umræðu í kosningabaráttunni, að sækja megi miklar fjárhæðir í hækkun veiðigjalda.  Halldóra telur svo vera og innt eftir því, hver stærðargráðan á slíkri skattheimtu gæti orðið, segir hún:"Við vorum að tala um að tvöfalda auðlindagjaldið".  Í dag er viðmiðið það, að 33 % af afkomu útgerðarfyrirtækjanna fari í að greiða auðlindagjald, og því er Halldóra spurð, hvort hún boði 66 % sértækan skatt á hagnað sjávarútvegsins.

"Ég get ekki svarað þessu algjörlega 100 %.  Þegar þú ert að fara út í svona díteila (sic !) með tölur, þá er það eitthvað, sem við þurfum að gefa út fyrir kosningar ásamt kostnaðinum"."

Þetta er einfeldningslegri málflutningur en búast má við frá þingmanni, og er þá langt til jafnað.  Slengt er fram "tvöföldun veiðigjalda" án nokkurrar greiningar á því, hvaða áhrif slíkur flutningur fjármagns hefur á afkomu sjávarbyggðanna í landinu, á fjárfestingar sjávarútvegsfyrirtækjanna í nýjustu tækni til veiða og vinnslu, á orkuskipti sjávarútvegsins, á nýsköpun og þróun í átt til gernýtingar sjávarafurðanna og síðast, en ekki sízt, á samkeppnishæfni íslenzka sjávarútvegsins um fólk og fjármuni hér innanlands og um fiskmarkaðina erlendis.

Hagnaður í sjávarútvegi er hlutfallslega minni en að jafnaði í öðrum innlendum fyrirtækjum.  Þess vegna þykir pírötum og öðrum rekstrarrötum 33 % sértækur skattur á hagnað gefa of lítið, en auðvitað bætist almennur tekjuskattur við þetta, og skattspor sjávarútvegsins er gríðarlega stórt nú þegar.  33 % sértækur skattur á hagnað er mjög hátt hlutfall, og hærra hlutfall mun valda miklu tjóni á landsbyggðinni og hægja á hinni jákvæðu þróun, sem sjávarútvegurinn stendur alls staðar að. Hvers á sjávarútvegurinn og sjávarbyggðirnar að gjalda að verða beittur slíkum fantatökum af stjórnmálamönnum í Reykjavík, sem ekkert skynbragð bera, hvorki á útgerð né hagsmuni sjávarplássa. Þeir fara offari og brjóta jafnræðisreglu Stjórnarskrár með því að misbeita stjórnvaldi með þessum hætti gegn einni atvinnugrein.  Slíkt er siðlaust athæfi og víst er, að skamma stund mun sú hönd verða höggi fegin.    

 

 

    

 

 


Blómlegt í álgeiranum

"Eins dauði er annars brauð" ("Eines Tod einem anderen Brot".) sannast einu sinni sem oftar í álgeiranum.  Kínverjar hafa valdið álframleiðendum á Vesturlöndum gríðarlegum búsifjum með offramleiðslu, sem leitt hefur til birgðasöfnunar á álmörkuðum heimsins og verðfalls.  Nú hafa þeir neyðzt til að taka nýjan pól í hæðina og draga líklega úr framleiðslu sinni um 5 Mt/ár eða 10 % niður í 46 Mt/ár. Ástæðuna má líklega rekja til yfirþyrmandi mengunar í Kína af völdum kolaorkuvera, en einnig er raforkuskortur í Kína af völdum þurrka, en í Kína eru sem kunnugt er mörg og stór vatnsorkuver.

 Á Vesturlöndum og víðar er nú verið að endurræsa stöðvaða kerskála, setja öll tiltæk rafgreiningarker í rekstur og hækka kerstrauminn til að hámarka afköst álverksmiðjanna, enda hefur álverð LME hækkað um rúmlega 60 % á einu ári í september 2021 og er nú í um 2900 USD/t og hækkandi. Verðið er nú nægilega hátt til að skila öllum verksmiðjum á Vesturlöndum hagnaði, líka í Evrópu, þar sem koltvíildisgjaldið er hæst í heiminum, um 65 USD/t CO2.  Það þýðir, að íslenzki áliðnaðurinn þarf að greiða um 100 MUSD/ár eða tæplega 13 mrdISK/ár í koltvíildisgjöld.  Þetta fer inn í ETS-viðskiptakerfi ESB.  Hvað verður um þetta fé ?  Við þurfum á því að halda hér innanlands í mótvægisaðgerðir á borð við landgræðslu og skógrækt. Íslenzk álver eða kísilver hafa ekki notið fjárhagslegra mótvægisaðgerða af hálfu ríkisins, eins og önnur evrópsk álver, til að styrkja samkeppnisstöðu þeirra gagnvart álverum í ríkjum, þar sem ekkert slíkt kolefnisgjald er lagt á starfsemina. Þess má geta, að kol eru enn niðurgreidd í sumum ríkjum.

Þann 8. september 2021 birti ViðskiptaMogginn  athyglisvert viðtal við nýjan forstjóra Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls á Grundartanga, Jesse Gary.  Þessi náungi er hress og lætur vel af Íslendingum í þjónustu sinni og kynnum sínum af landi og þjóð.  Hann er greinilega opinn fyrir meiri raforkukaupum af Íslendingum til að framleiða enn meira ál en 330 kt/ár, sem brátt verður framleiðslugeta Norðuráls, en hérlendis hefur enginn neitt fram að færa, sem um munar, á framboðshlið raforku.  Á ekki að grípa gæsina, á meðan hún gefst, eða á afturhaldinu að lánast að sitja á öllum tækifærunum til frekari nýtingar náttúruauðlindanna, þótt markaðir vilji greiða hærra verð fyrir græna orku til að framleiða "grænt" ál ?:

     "Blómaskeið hafið í áliðnaði og eftirspurnin á uppleið".

""Við upphaf faraldursins var dregið verulega úr iðnframleiðslu í heiminum.  Allir fóru mjög varlega.  Nú höfum við hins vegar horft fram á V-laga niðursveiflu og loks efnahagsbata.  Eftirspurnin er á hraðri uppleið, og verðið hefur hækkað á ný", segir Jesse." 

Ál fellur vel að þörfum heimsins á tímum orkuskipta, og þess vegna er líklegt, að nýhafið góðæri á álmörkuðum vari lengi, ekki sízt vegna orkuskorts, sem hrjáir heiminn, þar til stórfelld nýting kjarnorku hefst.  Frumálvinnslan er orkukræf, en notkun álvara er orkusparandi, og endurvinnsla útheimtir aðeins 5 % af rafgreiningarorkunni.  Stöðugt meira er nú endurunnið af notuðu áli, og nemur magnið núna um 20 Mt/ár eða tæplega 24 % af heildarálnotkun (85 Mt/ár).

Jesse er forstjóri tiltölulega lítils álfyrirtækis með starfsemi í Bandaríkjunum (BNA) og á Íslandi.  Það hentar Íslendingum að mörgu leyti vel til samstarfs.  Hann sagði um Century Aluminium:

"Starfsmennirnir eru rúmlega 2100, og þar af eru rúmlega 600 á Íslandi [29 %].  Því starfa hlutfallslega flestir hjá álverinu á Íslandi [3 álver í BNA], en um 500 starfa hjá hvoru álverinu um sig í Kentucky og um 350 í Suður-Karólína.  Við það bætast starfsmenn í höfuðstöðvunum og í rafskautaverksmiðjunni í Hollandi. Starfsmönnum hefur fjölgað að undanförnu, þar með talið á Íslandi, samhliða aukinni framleiðslu." 

Það eru mun fleiri launþegar á Íslandi en þessir 600, sem lifa á starfsemi Norðuráls.  Nefna má viðskipti við verkfræðistofur, verktaka, sem veita þjónustu verkamanna og iðnaðarmanna og flutningafélög á sjó og landi. Óbein (afleidd) störf eru hjá Landsvirkjun, Landsneti, ON og hinu opinbera.  Nokkur sveitarfélög koma þar við sögu, því að vinna er sótt til Norðuráls víða af Vesturlandi og af höfuðborgarsvæðinu. 

Hvað segir Jesse um markaðshorfurnar ?:

"En nú hafa Kínverjar greint frá því, að þeir hyggist láta staðar numið við uppbyggingu álvera í því skyni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og miða framleiðslugetuna við 46 Mt/á [70 % heimsmarkaðar fyrir hráál].  Til samanburðar hljóðar eftirspurn í heiminum nú upp á 65 Mt/ár.  Og ef áform Kínverja ganga eftir, mun í fyrsta sinn í 2 áratugi skapast þörf fyrir að byggja upp framleiðslugetu á Vesturlöndum til að mæta vaxandi eftirspurn."

Einhver mundi segja, að komið væri verulegt eggjahljóð í þennan Íslandsvin, því að Ísland er vissulega eitt af þeim löndum, sem tæknilega og fjárhagslega koma til greina fyrir ný álver í ljósi nýrra markaðsaðstæðna.  Það eru þó önnur vatnsorkulönd, sem koma ekki síður til greina, t.d. Kanada, Suður-Ameríka og Noregur. Hérlendis mundi það vafalaust létta slíku verkefni róðurinn, ef eigandinn væri tilbúinn að reisa kolafrítt álver, en slík eru í tilraunarekstri í Kanada og í Frakklandi á vegum vestrænna álfyrirtækja. Eins og jafnan þarf þó pólitískan vilja hérlendis, til að slíkar beinar erlendar fjárfestingar geti orðið að raunveruleika.  Engin heildarstefnumörkun er til hérlendis, sem veitir von um, að Ísland muni blanda sér í keppni um slíka fjárfestingu. 

"Hvar á Vesturlöndum verður álframleiðslan aukin af þessum sökum ?"

"Það á eftir að koma í ljós.  Vonandi, þar sem græn orka er notuð við framleiðsluna.  Og framboðið á grænni orku er stöðugt að breytast, enda er hún í vaxandi mæli framleidd á nýjum stöðum með vindorku og sólarorku, sem kemur til viðbótar vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum.  Þetta þýðir, að orkuverð er á niðurleið, og það væri því auðveldast að mæta eftirspurninni í Evrópu og Bandaríkjunum með uppbyggingu álvera á þeim mörkuðum." 

Í Noregi vex hlutdeild vindorku talsvert.Kannski verður sú uppbygging stöðvuð af nýrri ríkisstjórn Noregs.  Þá verður spennandi að fylgjast með viðbrögðum orkustjóra ACER í Noregi og eftirlitsstofnunar EFTA-ESA. 

Norðmenn hafa í sínu landi mörg og stór miðlunarlón og mörg vatnsorkuver.  Sum þeirra eru með vélasal sprengdan inn í fjöll með svipuðum hætti og Kárahnjúkavirkjun af öryggisástæðum. Þeir eru þess vegna óvanir jafngríðarlegum inngripum í villta náttúru og vindmyllurnar fela í sér. Andstaðan við vindmyllur magnast af þessum sökum í Noregi.  Raforkan frá þeim er aðallega flutt út um sæstrengi. Nú er verið að þróa stórar vindmyllur,> 10 MW, sem eru tjóðraðar fastar við hafsbotninn með stögum og án annarrar botntengingar og  geta þannig verið á miklu dýpi. 

Álverðstenging raforkuverðs hefur undanfarið lyft raforkuverðinu vel yfir 40 USD/MWh hérlendis, sem mundi líklega duga til að gera alla orkuverskostina í 3. áfanga verndar- og nýtingaráætlunar, bið og nýtingu, arðsama. 

"Við hjá Century Aluminium teljum okkur vel búin undir að auka framleiðsluna.  Við erum að auka framleiðsluna í álverinu við Mt. Holly í Suður-Karólína og í álverinu í Hawesville í Kentucky. 

Afkastagetan í Kína var umfram eftirspurn, en er mögulega að ganga til baka nú, þegar eftirspurnin er mikil og vaxandi.  Við sjáum því tækifæri til að auka framleiðsluna og erum því að auka hana í þessum tveimur áður nefndu álverum. Fyrir utan það má auka framleiðsluna í Bandaríkjunum enn frekar, og hér á Íslandi höfum við skoðað leiðir til að auka verðmætasköpunina á Grundartanga." 

Norðurál ætlar að umbylta steypuskála sínum í líkingu við það, sem ISAL gerði fyrir áratug, þ.e. að taka upp framleiðslu þrýstimótunarsívalninga, sem eru núna og oft með miklu verðálagi ofan á LME-verðið á mörkuðum, svo að afurðaverðið er nú komið yfir 4000 USD/t. Þetta er sennilega mesta gósentíð í sögu ISAL. Steypuskálaumbyltingin á Grundartanga er mrdISK 15 fjárfesting og útheimtir um 10 % fjölgun starfsmanna, en sáralitla viðbótar orku. Hins vegar áformar Norðurál framleiðsluaukningu upp á 10 kt/ár upp í 330 kt/ár. 

Hjá ISAL er öllum kerum haldið gangandi og styttist í hámarksstraum í öllum kerskálum, sem gefur ársframleiðslugetu um 215 kt/ár.  Tekjuskattur af fyrirtækinu verður drjúgur í ár, því að hagnaður júlí-ágúst 2021 nam um MUSD 40  eða rúmlega mrdISK 5,0. 

 "Ég get reyndar vart hugsað mér betri stað til að framleiða ál en Ísland.  Hér er framleitt hágæðaál og magn kolefnis, sem fellur til við framleiðsluna, er með því minnsta, sem þekkist.  Það er jafnframt gott að starfa á Íslandi. 

Þróunin á orkumörkuðum mun hafa áhrif í þessu efni. Það er síðan spurning, hvernig Íslendingar sjá fyrir sér orkumarkað sinn í framtíðinni.  Ég segi sem framleiðandi, að Ísland er afar ákjósanlegur staður fyrir álframleiðslu."

Skýrar getur Jesse Gary ekki tjáð sig á þá lund, að hann hefur hug á frekari fjárfestingu og framleiðslu áls á Íslandi.  Til að samningar náist þarf hins vegar 2 til.  Íslandsmegin er vart að sjá nokkurt lífsmark í þá veru að vilja selja álfélagi enn meiri orku og fá hingað tugmilljarða fjárfestingu.  Deyfð og drungi afturhaldsins hefur eitrað út frá sér.  Nú vantar baráttumenn til að brjóta hlekki hugarfarsins, eins og á 7. áratug 20. aldar, þegar innflutningshöft voru afnumin og stórfelld iðnvæðing hafin með Búrfellsvirkjun og iðjuverinu í Straumsvík.  

 

 S1-ipu_dec_7-2011isal_winter

 

   


Eru nýjar virkjanir feimnismál ?

Botninn er suður í Borgarfirði í loftslagsumræðunni fyrir þessar kosningar.  Það er alvarlegt, því að botnlaus umræða leiðir ekki til nokkurs áþreifanlegs árangurs. Botninn felst í að uppfylla raforkuþörfina, sem fyrir hendi er, til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi og jafnframt að standa undir almennt aukinni raforkuþörf vaxandi þjóðar. Þetta knýjandi mál er svo skelfilega vanreifað, að frambjóðendur í þessum þingkosningum fara í kringum það, eins og kettir í kringum heitan graut, hvernig á að afla þessarar orku. Það er algerlega óboðlegt að tala fjálglega um að draga úr eldsneytisnotkun til að uppfylla metnaðarfullt markmið um að draga úr losun CO2 árið 2030 um 55 % m.v. 1990, en þvælast svo fyrir öllum framkvæmdum, sem miðað að því að auka framboð sjálfbærrar raforku og gera kleift að flytja hana til notenda.  

Það er ljóst með nægilegri nákvæmni, hver orkuþörfin er.  Hún er alls um 9,0 TWh/ár og um 1300 MW til að rafvæða með einum eða öðrum hætti allt það, sem nú notar jarðefnaeldsneyti á Íslandi, að meðtöldu millilandaflugi og millilandasiglingum. Þessi orka jafngildir um 45 % af orkugetu núverandi virkjana. Það er ekki eftir neinu að bíða með að hefjast handa við þetta virkjanaverkefni, sem má ekki standa lengur yfir en til 2045, ef stjórnvöld ætla að standa við markmið orkuáætlunar um að losna við allt jarðefnaeldsneyti fyrir 2050.  Það þýðir að taka þarf í notkun 360 GWh/ár eða 65 MW/ár að jafnaði. 

Það er versti ljóður á ráði núverandi stjórnvalda að berja sér á brjóst og lofa öllu fögru til að hægja á hlýnun andrúmsloftsins, en láta lykilatriðið til að gera þetta kleift reka á reiðanum. Loddarar tvíeykisins S&P eru auðvitað ekki hjálplegir heldur.  Stjórnmálaflokkar, sem segja bara A, en berja svo hausnum við steininn og neita að segja B fyrir loftslagið, eru ótraustvekjandi og ótrúverðugir í alla staði.  Þeir meina ekkert með því, sem þeir segja.  Loftslagsstefnan er þar á bæ bara meðal til að fylla upp í tómarúmið, sem er þar, sem réttlæting fyrir tilvist flokksins ætti að vera.  Loftslagsstefnan er þar á bæ með óprúttnum hætti notuð sem réttlæting fyrir aukinni skattheimtu og ríkisumsvifum.  Þessi skattheimta bitnar verst á dreifbýlisfólki og fólki með lágar ráðstöfunartekjur.  Það er tímabært að hefja lækkunarferli á þessum eldsneytissköttum. 

Þann 26. ágúst 2021 birtist í Morgunblaðinu viðtal við Pál Erland, framkvædastjóra Samorku.  Þar á bæ er fullur skilningur á því, hver forsenda orkuskiptanna er, og hversu mikla viðbótar raforkuvinnslu hún útheimtir. Vitneskjan er til um það víða í samfélaginu, en afturhaldsöflin stinga hausnum í sandinn og neita að viðurkenna staðreyndir. Þannig er þeirra pólitík eintóm yfirborðsmennska.

Ef á að takast að standa við markmið ríkisstjórnarinnar og skuldbindingar gagnvart EES/ESB og Parísarsamkomulaginu, verður að fara að hefjast handa við nýjar virkjanir, en þá kemur til kasta Alþingis.  Tíminn til að forða öngþveiti í orkumálum er að renna út. Með stækkun Reykjanessvirkjunar um 30 MW veitist nauðsynlegt svigrúm til að reisa yfir 50 MW virkjun, en Alþingi þarf að taka af skarið með hana.  Með flokkakraðak þar, sem veit ekki í hvora löppina á að stíga í þessum efnum, horfir málið ógæfulega í landi tækifæranna. Samorka kallar á, að "nýtt lagaumhverfi komi í stað rammaáætlunar".  Framkvæmdastjórinn sagði m.a. í téðu viðtali:

"Við þurfum nýja og skilvirkari umgjörð í stað þeirrar, sem við nú búum við í ljósi þess, að það eru 10 ár síðan síðasta rammaáætlun var samþykkt á Alþingi.  Síðan þá hafa 3 umhverfisráðherrar lagt 3. áfanga rammaáætlunar fyrir þingið, en það hefur ekki enn treyst sér til að afgreiða hana.  Það sjá allir, að þetta fyrirkomulag er ekki líklegt til að stuðla að því, að hér verði nægt framboð af grænni orku til framtíðar.  Við getum ekki aðeins horft til okkar kynslóðar, heldur einnig komandi kynslóða."

Það er engum vafa undirorpið, að frekari þróun orkugarða til bættrar orkunýtingar og verðmætasköpunar felur í sér áhugaverð tækifæri fyrir ungt fólk með fjölbreytilegan bakgrunn.  Nú hafa veður skipazt í lofti í álheiminum vegna þurrka í Kína (miðlunarlón í lágstöðu) og fyrirskipunar kommúnistaflokksins að draga úr raforkuvinnslu í kolaorkuverum, þar sem loftmengunin er verst af þeim sökum, svo að eftirspurn áls er orðin meiri en framboðið (Áleftirspurnin eykst um 1,5 Mt/ár, sem er 2/3 meira en álframleiðsla Íslands.)

Þá mun fara að styttast í ásókn álframleiðenda eftir sjálfbærri (grænni) orku í Evrópu og Ameríku. Það kann að styttast í, að álframleiðendur verði tilbúnir til að reisa 1. áfanga álverksmiðju með eðalskautum, sem losar ekkert koltvíildi við rafgreininguna.  Slíkt ál mun seljast á enn hærra verði en ál unnið með hefðbundnum hætti, enda verður framleiðslukostnaðurinn líklega meiri fyrsta kastið þrátt fyrir hátt kolefnisgjald.  Þarna kunna líka að leynast áhugaverð tækifæri fyrir Íslendinga til að skapa tímabundin störf við byggingu virkjana og verksmiðju og varanleg störf við rekstur og viðhald.  Hagkerfið hefur enn ekki skapað næga spurn eftir vinnuafli, sem er á atvinnuleysisskrá. 

Í Morgunblaðinu 30. ágúst 2021 var áhugaverð grein eftir Björgvin Helgason, oddvita Hvalfjarðarsveitar, og Ólaf Adolfsson, bæjarfulltrúa á Akranesi og formann Þróunarfélags Grundartanga um framtíðar tækifæri á Grundartanga:

"Björt framtíð Grundartanga":

"[Þróunar]Félagið hefur staðið fyrir fjölbreyttum þróunar- og framfaramálum.  Þar má nefna skoðun nýrra umhverfisvænna orkukosta, orkuendurvinnslu, hitaveitu og framleiðslu nýrra orkugjafa á borð við rafeldsneyti.  Þá hafa ylrækt og fiskeldi verið skoðuð.  Markmiðið er að fullnýta virðiskeðju framleiðslunnar, forðast sóun verðmæta og byggja upp grænna iðn- og atvinnusvæði í hringrásarhagkerfi í anda sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna."

Hér virðist vanta herzlumuninn til að hrinda einhverjum verkefnum í framkvæmd.  E.t.v. vantar fjárfesti til að hleypa lífi í hugmyndirnar, en kannski sýna arðsemisútreikningar ekki næga arðsemi.  Það vantar eitthvað stórtækt.  Það gæti t.d. verið fjárfestir, sem vill kaupa "græna" raforku til að hefja tilraunaframleiðslu á "grænu" áli með eðalskautum.  Til þess þarf að virkja og að efla flutningskerfi raforku að Klafa.  Landsnet er með 400 kV línu frá Blöndu og að Klafa á undirbúningsstigi.

"Tvö þróunarverkefni undir merkjum klasans ber að nefna: 

Nú í sumar kynnti félagið vandaða skýrslu um möguleika á framleiðslu rafeldsneytis, en það er umhverfisvænt eldsneyti, sem byggir á þekktri tækni um framleiðslu vetnis með endurnýjanlegri raforku og glatvarma frá Elkem ásamt því að nýta koldíoxíð, sem þegar er til staðar í vistkerfi svæðisins.  Þannig verði dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, orkuskipti efld og stuðlað að kröftugri nýsköpun. Með nýtingu þess mikla varma, sem verður til í starfsemi á Grundartanga, væri mögulegt að byggja upp hitaveitu fyrir svæðið og nágrenni þess.  Nú er unnið að undirbúningi og rannsóknum á slíkri hitaveitu.  Takist samningar um verkefnið og tæknilegar áskoranir leystar, er fyrir séð, að hitaveitan gæti tekið til starfa á næstu árum."

Hér eru nokkuð loftkenndar hugmyndir á ferðinni, og kemur þá í hug hið forna orðtak: "kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða".  Byrinn í þessu tilviki eru einfaldlega lögmál varmafræðinnar.  Hitastig afgasa frá verksmiðjunum á Grundartanga er ekki nægilega hátt til að hægt sé að setja þar upp orkuver, sem framleiðir rafmagn fyrir vetnisverksmiðju með arðbærum hætti.  Svipuðu máli gegnir um hitaveitu.  Hún getur varla orðið samkeppnishæf við hitaveitu, sem nýtir heitt vatn úr borholum.  Ef ætlunin er að reisa vetnisverksmiðju á Grundartanga, þarf hún að kaupa rafmagn um flutningskerfi Landsnets.  Að fanga CO2 úr afgösum verksmiðjanna er dýrt. Styrkur CO2 í afgasi strompa álveranna er tæplega 0,9 %. Að framleiða úr því og vetninu ammoníak er þó ólíkt vitrænna en að dæla fönguðu koltvíildi ofan í jörðina, eins og gert er á Hellisheiði með gríðarlegri vatnsnotkun og orkunotkun að tiltölu. Það verður fróðlegt að fá niðurstöður úr tilraun með föngun koltvíildis úr kerreyk í Straumsvík, þar sem komast á að tæknilegum fýsileika og kostnaði slíkrar aðgerðar.  Skógræktin getur veitt förgun CO2 frá verksmiðjunum harða samkeppni á Íslandi - landi tækifæranna í landbúnaði.  

 burfellmgr-7340

 

 

 


Ofstæki mun ekki gagnast náttúrunni

Afbrigðileg og herská viðhorf til náttúruverndar hafa tröllriðið Landvernd bæði undir fyrrverandi og núverandi framkvæmdastjóra þessara samtaka, sem ættu ekki að vera vettvangur ofstækisfullrar náttúruverndar, sem setur sig upp á móti nánast öllum framfaramálum í þágu almannaheilla á sviði samgöngumála (vegagerð) og orkumála (nýjum virkjunum og flutningslínum í lofti, einnig DC-jarðstreng yfir hálendið á milli Norður- og Suðurlands ?).

Núverandi framkvæmdastjóri Landverndar er á móti álframleiðslu á Íslandi á þeim grundvelli, að verði álverin á Íslandi lögð niður, þá minnki heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum að sama skapi. Þetta ankannalega viðhorf verður til í hópi sértrúarsafnaðar á Íslandi, sem berst gegn hagvexti og núverandi neyzlumynztri almennings.  Viðhorfið er hvergi annars staðar í Evrópu að finna, og Evrópusambandið (ESB) er með niðurgreiðslur og tollvernd fyrir evrópskan áliðnað í gangi til að draga úr s.k. kolefnisleka frá Evrópu til ódýrari staða, þar sem m.a. ekki er kolefnisgjald. Losunin er svo miklu meiri á hvert framleitt tonn t.d. í Asíu frá nýjum álverum en frá íslenzkum álverum, að aukningin mundi nema tvöfaldri heildarlosun Íslands án jarðvegslosunar, ef framleiðsla álveranna hér flyttist þangað.  Það getur aðeins þjónað þröngum sérhagsmunum að afneita viðteknum "kolefnisleka" með spuna. 

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar varð alræmdur fyrir kærugleði sína á hendur leyfisveitendum og framkvæmdaaðilum orkumannvirkja.  Hann er nú varaformaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og umhverfis- og auðlindaráðherra og heldur sem ráðherra uppi hernaði gegn hagsmunum almennings á sviði orkumála.  Þetta kemur fram í því, að verndar- og nýtingaráætlun er strönduð á Alþingi, og þar var lagt fram frumvarp af þessum ráðherra um einræði ráðuneytisins yfir öllu miðhálendi Íslands, þar með orkulindum, sem þar er að finna. Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, ritaði um þetta grein í Morgunblaðið 28. ágúst 2021, sem bar heitið:

"Ræðst framtíð hálendis Íslands í miðborg Reykjavíkur ?".

Hún hófst þannig:

"Að vernda náttúruna er göfugt og gott markmið, sem stuðla þarf að með skynsömum hætti. Þessu markmiði þarf að ná í sátt og samlyndi við ferðafélög, bændur og sveitarfélög, sem og aðra náttúruunnendur, en það er einmitt það, sem sárlega vantaði inn í lög [lagafrumvarp] umhverfisráðherra um stofnun hálendisþjóðgarðs; samráð við þá, sem málið varðar.  Það er því mikilvægt að fara aðeins yfir staðreyndirnar."  

Vinnubrögð umhverfis- og auðlindaráðherra, þegar hann hannaði stjórnkerfi miðhálendisþjóðgarðsins, minna á slagorð Leníns um "alræði öreiganna og allt vald til sovétanna (ráðanna)". Í raun fóru öll völd til "nómenklatúru" kommúnistaflokksins í Moskvu.  Ráðherrann hefur búið til samráðsvettvang sveitarfélaganna í stjórnkerfi miðhálendisþjóðgarðsins, en endanlega orðið um öll málefni þjóðgarðsins verður í umhverfisráðuneytinu í Reykjavík.  Þetta er afsprengi hrædds manns í minnihlutahópi, sem óttast nærlýðræði eða grasrótarlýðræði, en treystir því, að með fjarstjórn frá Reykjavík muni takast að koma í veg fyrir öll nýtingaráform á hálendinu. Þessi ógæfulega stefnumörkun ráðherrans strandaði í þinginu. 

Hin eina vitræna nálgun þessa viðfangsefnis er að varðveita ráðstöfunar- og skipulagsrétt sveitarfélaganna óskertan yfir hálendinu; tryggja nærlýðræðið. Ef nærlýðræðið fær að njóta sín, er líklegast, að sáttaleið finnist um jafnvægi á milli nýtingar og verndar.  Það er útilokað með einræðistilburðum úr Reykjavík. 

Fulltrúar sveitarfélaganna á hverju rekstrarsvæði miðhálendisþjóðgarðsins munu skipa meirihluta í s.k. umhverfisráði, sem er hið bezta mál.  Hlutverk umhverfisráðanna á að vera að setja rekstrarsvæðunum, hverju fyrir sig, nýtingar- og verndaráætlun. Stjórn miðhálendisþjóðgarðsins er hins vegar óbundin af samþykktum umhverfisráðanna.  Stjórn þessi er í raun og veru óþörf. Til að bæta gráu ofan á svart hefur ráðherrann heimild til að breyta samþykktum umhverfisráðanna án þess að tala við kóng né prest. Þetta er ósvífin afbökun á nærlýðræðinu og stjórnkerfislegt örverpi í íslenzkri stjórnsýslu, sem á sér hvorki siðferðisgrundvöll né lagahefð. Hugarheimur ráðherrans er hugarheimur minnipokamanns, sem hefur komizt til æðstu metorða, og ætlar að misnota aðstöðu sína þar purkunarlaust í þágu ofstækisviðhorfa sinna.   

Flokkur ráðherrans o.fl. berja sér á brjóst fyrir loftslagsstefnu sína, en hún er algerlega innantóm glamuryrði vegna þess, að flokkurinn, S&P engu skárri, virðist leggjast gegn flestum nýjum virkjunum.  Til að mæta raforkuþörf orkuskiptanna virðast þau vonast til, að starfsemi álveranna á Íslandi verði stöðvuð. Það yrði þó það versta, sem frá Íslandi gæti komið í loftslagsmálum, eins og rakið hefur verið, og yrði meiriháttar efnahagslegt og atvinnulegt áfall. Engar áætlanir standa til þess núna fyrir þann tíma, sem stjórnmálamenn ætla að ná kolefnishlutleysi á Íslandi, 2040.  Þess vegna er holur hljómur í þeim stjórnmálamönnum, sem hæst láta í loftslagsmálum.

Það, sem helzt er hægt að halda sig við varðandi viðbótar orku frá sjálfbærum orkulindum Íslands, fyrir utan smávirkjanir, er 3. áfangi verndar-og nýtingaráætlunar, nýtingar- og biðflokkur (ekki verndarflokkur).  Þar eru 7 vatnsaflsvirkjanir að uppsettu afli 456 MW og orkuvinnslugetu 3241 GWh/ár, 8 jarðgufuver, 730 MW, 6016 GWh/ár og 1 vindorkuver (Blöndulundur), 100 MW, 350 GWh, alls 1421 MW og 10,7 TWh/ár. 

Til að leysa af hólmi alla jarðefnaeldsneytisnotkun á Íslandi (án millilandasiglinga og -flugs) þarf uppsett afl 1000-1200 MW (háð nýtingartíma hámarksnotkunar, snjallmælar lækka aflþörfina) og 6,7 TWh/ár, og að meðtöldum millilandasamgöngunum gæti þurft 1300 MW og 9,0 TWh/ár.  3. áfanginn dugir þannig fyrir orkuskiptunum og aukningu almenns álags á 20 ára tímabili, en ekkert svigrúm verður fyrir eldsneytisframleiðslu til útflutnings, nema virkja eitthvað af þeim orkulindum, sem ekki eru nefndar í nýtingar- og biðflokki "áfanga 3". Það gæti t.d. orðið vindorka, eins og fyrirtækið Qair hefur kynnt til sögunnar, en vegna mikillar fyrirferðar slíkra orkugarða verður að huga vandlega að staðsetningu þeirra út frá náttúruverndarsjónarmiði, og umfram allt verða slíkar framkvæmdir að vera í sæmilegri sátt við íbúa viðkomandi sveitarfélaga, sem sitja munu uppi með svo fyrirferðarmikinn nágranna. 

Iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir,  ritaði hugvekju í sunnudagsblað Morgunblaðsins, 05.09.2021, undir fyrirsögninni: 

"Eitt stærsta hagsmunamál Íslands".

  Hún hófst þannig: 

"Loftslagsváin hefur sent heiminn á hraðferð inn í græna orkubyltingu, og Ísland hefur einstakt tækifæri til að taka þar afgerandi forystu. Það er sjálfbært og loftslagsvænt efnahagstækifæri - risastórt tækifæri - sem við eigum að sækja stíft."

  Þetta má sumpart til sanns vegar færa, en sumpart er þetta ofmælt.  Framleiðsla alrafbíla nemur í ár 4 % af heild nýrra bíla, sem er tvöföldun frá árinu 2020. Þetta er ávísun á umskipti til hins betra.  Öðru máli gegnir um raforkuvinnslu heimsins.  Hún mun fyrirsjáanlega aukast um 5 % í ár og 4 % árið 2022.  Jarðefnaeldsneyti stendur undir 45 % aukningarinnar í ár og líklega 40 % á næsta ári.  Til samanburðar stóð jarðefnaeldsneyti undir fjórðungi aukningar raforkuvinnslu árið 2019. Þetta jafngildir afturför. Vonir bjartsýnismanna um, að samdráttur eldsneytisnotkunar Kófsárið 2020 mundi halda áfram, hafa orðið að engu, enda mun enginn teljandi árangur nást með trúarbragðakenndu orðagjálfri, heldur verða að koma fram raunhæfar tæknilausnir og vaxandi hlutdeild kjarnorku á heimsvísu.

Norðmenn framleiða nánast alla sína raforku, um 150 TWh/ár, með vatnsafli og vindi. Þeir eru með miklu meiri orkukræfan iðnað en Íslendingar og eru komnir lengst alla við rafvæðingu samgöngutækja á láði og legi og eru með áætlanir þar að lútandi fyrir innanlandsflugið.  Þeir leggja þannig miklu meira að mörkum til loftslagsmála en Íslendingar, enda á það ekki að vera neitt keppikefli hér að vera fremstur í röðinni, þar sem sama og ekkert munar um allt það koltvíildi, sem mannleg starfsemi losar hér.  Meira er um vert að grípa tækifærin, eftir því sem tækniþróuninni vindur fram, og nýta þau landsmönnum til efnalegs framdráttar. 

Þannig er t.d. núna verið að þróa hálfleiðara í afriðla til að hækka spennu rafgeymanna úr 400 VDC í 800 VDC.  Þar með léttast bílarnir vegna minni koparþarfar, og hraðhleðslustöðvarnar verða um 350 kW, sem þýðir mikla styttingu hleðslutíma. Þessi þróun ætti að sýna skipuleggjendum innviða, að efla verður dreifikerfið til mikilla muna um allt land til að anna eftirspurninni.

"Til að sækja þetta tækifæri [orkuskiptanna] þurfum við að styðja myndarlega við þróun á þeim nýju lausnum, sem þarf til að skipta út núverandi mengandi orkugjöfum, hafa aðlaðandi og samkeppnishæft umhverfi fyrir fjárfesta, sem vilja byggja upp græna starfsemi og tryggja, að sú orka, sem til þarf, verði til staðar.  Núverandi regluverk stendur í vegi fyrir því, og úr því þarf að bæta án þess að gefa afslátt af kröfum um umhverfisvernd og sjálfbæra nýtingu auðlinda." 

Það, sem virðist liggja beinast við að styðja við, er repjuræktin til að framleiða olíu á dísilvélar og dýrafóður úr afganginum. Athuganir benda til, að þetta sé vænleg viðskiptahugmynd, og einkaframtakið ætti að geta komið þessu á koppinn að mestu ívilnanalaust.  

Það er mjög óeðlilegt, að nú standi ekki yfir framkvæmdir við neina virkjun yfir 50 MW, því að orkuskortur vofir yfir í vetur, nema óvenjumikil hækkun vatnsborðs Þórisvatns verði nú í september, en vatnshæðin þar hefur verið undir sögulegu lágmarki undanfarna 2 mánuði.  Á sama tíma hefur Byggðalína verið þanin til hins ýtrasta í rafmagnsflutningum frá Kárahnjúkavirkjun til Norður- og Suðurlands, en vatnsbúskapur Hálslóns hefur gengið vel í sumar (hlýindi og sólskin), þótt þurrkatíð hafi verið á Héraði.

Ráðherrann virðist kenna regluverkinu um þetta, og víst er, að umhverfis- og auðlindaráðherra hefur í engu reynzt hjálplegur.  Í umhverfisverndinni, sem ráðherrann nefnir, ætti að felast sú verkfræðilega krafa, að umhverfisrask verði eins lítið og tæknin leyfir m.v. virkjanlega orku á staðnum.  Þar með er tryggt, að nýjar virkjanir, eins og reyndar allar á undan þeim, munu falla vel að umhverfinu.  Það hlýtur að verða verkefni umbótaafla eftir komandi kosningar að gera raunhæfa áætlun um nýjar virkjanir, sem gerir mögulegt að losna við jarðefnaeldsneytið fyrir 2050, eins og gildandi orkustefna tilgreinir.  Þá verður að kistuleggja draumóra áhugafólks um bíllausa framtíð og annarra öfgahópa, sem lifir í draumaheimi um hagvaxtarlausa framtíð og Landvernd er gott dæmi um. 

Iðnaðarráðherra orðaði svipaða hugsun þannig í lok téðrar hugvekju sinnar.  Hver, sem kosningaúrslitin verða, verður að bægja afturhaldsöflum frá valdastólunum, ef orkuskiptin eiga nokkurn tíma að verða barn í brók og þar með eitthvað annað en innantómt orðagjálfur afturhaldsins. 

"Spurningin snýst um trúverðuga leið að markmiðinu, og hvort hugur fylgi raunverulega máli um að sækja fram og sækja tækifærin.  Sú spurning er eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands til framtíðar, en henni þarf að svara strax í dag.  Það dugar ekki að segjast vilja orkuskipti og græna nýsköpun, en horfa á sama tíma fram hjá orkunni, sem þarf til.  Hér þarf að fara saman hljóð og mynd."  

    

 


Á skallanum

Formenn stjórnmálaflokkanna mættust í sjónvarpssal RÚV að kvöldi 31.08.2021.  Segja má, að víglína hafi birzt á milli borgaralegu flokkanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Miðflokks annars vegar og kraðaks á vinstri vængnum hins vegar.  Það er síðan list stjórnmálanna að brúa þetta bil, ef nauðsyn krefur, að kosningum afstöðnum í því skyni að mynda starfhæfa ríkisstjórn fyrir landið.

Það var sótt að þeirri utanríkisstefnu Viðreisnar, sem nú starfar með afleitum vinstri meirihluta í Reykjavík og rekur jafnframt sósíalistíska sjávarútvegsstefnu undir öfugmælinu "markaðsverð fyrir auðlindina", og Samfylkingar að ætla að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort taka á upp þráðinn í aðlögunarviðræðunum við Evrópusambandið. Þessa þjóðaratkvæðagreiðslu vilja þau halda óháð því, hvert þingviljinn stefnir eftir kosningar.  Þetta er fáheyrt lýðskrum, enda hafa píratarnir lapið þetta upp, eins og allar mestu vitleysurnar, sem hægt er að rekast á á netinu. Þvílíkar lufsur og lúðulakar í pólitík. 

Það er alveg eðlilegt að halda um þetta þjóðaratkvæði, ef þingviljinn stendur til að taka upp þennan þráð, en sé þingviljinn enn á móti, eins og á nýafstöðnu þingi, þá er verið að hafa þjóðina að fífli með því að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu með svipuðum hætti og vinstri stjórnin álpaðist til á sínum tíma, þegar spurt var, hvort þjóðin vildi hafa ákvæði draga Stjórnlagaráðs, þótt enginn vissi, hvaða útgáfudrög væru í gildi þann daginn, til hliðsjónar við samningu nýrrar Stjórnarskrár.  Hvílíkt klúður ! 

Ef meirihluti gildra atkvæða fellur með því að taka upp þráðinn við ESB, en þingmeirihluti er ekki fyrir málinu, verður ráðherra í þeirri stöðu að þurfa að fara til Brüssel og segjast vilja endurvekja umsóknarferlið frá 2009-2013, en aðildarsamningur verði að öllum líkindum felldur á Alþingi. Hvernig verða viðbrögðin í Berlaymont ?  Það mun kveða við skellihlátur, og íslenzki ráðherrann verður látinn vita, að Framkvæmdastjórnin sé búin að fá nóg af bjölluati og tímasóun yfir íslenzku umsókninni.

Þetta liggur í augum uppi, en íslenzku lýðskrumararnir í ESB-flokkunum eru svo grunnhyggnir að ímynda sér, að kjósendur sjái ekki í gegnum staðleysurnar þeirra.

 Þann 28. ágúst 2021 birtist einstaklega ósmekkleg forystugrein í Fréttablaðinu eftir nýráðinn ritstjóra þar á bæ.  Hún hét:

"Á Kúbunni",

og þar burðaðist Sigmundur Ernir Rúnarsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingar, við að bera saman hjónaband og aðild að Evrópusambandinu.  Að velja þennan samanburð sýnir, hversu firrtur og fjarri rökhyggju boðskapurinn um Evrópusambandsaðild er.  Forystugreinin hófst svona: 

"Dásamlegasta fullveldisafsal, sem nokkur maður getur hugsað sér, er að finna rétta makann og deila með honum kjörum um ókomin ár, jafnt í blíðu og stríðu, en það hefur almennt verið kallað að festa ráð sitt.  Mikilvægasta fullveldisafsal hverrar þjóðar er að taka höndum saman við aðrar þjóðir í verzlun og viðskiptum til að efla atvinnustig og afkomu almennings, svo [að] samfélagsþjónustan geti verið eins þróttmikil og kostur er. 

  Fullveldi eitt og sér án þátttöku í milliríkjasamningum og alþjóðlegu samstarfi ber í bezta falli (sic !) stöðnunina í sjálfu sér, en þó líklega miklu fremur afturför jafnt fyrir almenning og atvinnugreinar í hvaða landi sem er. 

Því er nefnilega svo farið, að fullveldi er nafnið tómt, nema því fylgi efnahagslegt sjálfstæði.  Og efnahagslegu sjálfstæði nær ekki nokkur þjóð, nema að hámarka auðlindir sínar með frjálsum viðskiptum við aðrar þjóðir."

 Það er erfitt að trúa því, að ritstjórinn nýi sé svo illilega úti á túni í viðskiptalegum efnum, að hann telji fullveldisafsal grundvöllinn að frjálsum viðskiptum í heiminum.  Aðild að Evrópusambandinu mundi í viðskiptalegum efnum þýða innlimun Íslands í tollabandalag ESB og aðild að þeim fríverzlunarsamningum, sem ESB hefur gert við lönd þar fyrir utan.  Ísland mætti ekki gera sína eigin fríverzlunarsamninga og yrði skyldugt að hlíta öllum sáttmálum Sambandsins, tilskipunum, reglugerðum og lögum. 

Ísland gengi þannig inn í CAP, landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnuna, en ESB mótar nýtingarstefnuna á þessum sviðum.  Það stefnir á að afleggja núverandi úthlutunarkerfi aflaheimilda og taka upp sameiginlegt útboð innan allrar lögsögu aðildarlandanna utan 12 sjómílna. Með þessu kerfi yrði íslenzkum sjávarútvegi einfaldlega rústað, og sé litið á feril ESB til verndar fiskistofnum, er stórhætta á ofveiði og eyðileggingu nytjastofnanna með tímanum undir slíkri óstjórn. 

Ekki er staðan mikið gæfulegri, sé litið til hinnar meginauðlindar Íslendinga, orkulindanna.  Íslendingar yrðu sem aðilar að ESB skilyrðislaust að innleiða allar tilskipanir, reglugerðir og lög Sambandsins um orkumál. Að áskilja samþykki Alþingis um sæstrengstengingu við landið með viðkomu í Færeyjun eða á Bretlandi á leið til ESB-lands verður þá ekki valkostur, ef einhver fyrirtæki vilja leggja Icelink. Reglur um úthlutun rannsóknar- og framkvæmdaleyfa virkjana ásamt línulögnum yrðu og að lúta ákvæðum orkupakkanna frá ESB. Nýting orkulindanna yrði ekki lengur í okkar höndum frekar en nýting fiskimiðanna. Hvers konar útúrboruháttur er það eiginlega að gera bara gys að alvöru málsins og líkja þessu við samning karls og konu um að arka saman sinn æviveg ? 

Morgunblaðið er af öðru sauðahúsi.  Þar er ekki gasprað út og suður í leiðaraplássi að lítt ígrunduðu máli. Forystugreinin 31. ágúst 2021 fjallaði um systurflokkana 2, Viðreisn og Samfylkingu og slengja mætti við útibúi S, pírötunum.  Þeir "tveir bjóða þjóðinni í bíltúr með farkosti, þar sem hvert einasta hjól er sprungið".  Þessu var fundinn staður í forystugreininni: 

"Flokkar fáránleikans":

"En málstaðurinn eini felst í því að góna í átt að ESB, báðir tveir með síendurteknum hótunum um að kasta sjálfstæðri mynt, en engin almenn umræða snýst um slíkt nú. 

Í þessu sambandi er fróðlegt að horfa til nýlegra skrifa Mervyns Kings, lávarðar og fyrrverandi aðalbankastjóra Englandsbanka. Hann hefur bent á, að ákafamenn á meginlandinu, sem tala fyrir nýjum skrefum í átt að þéttara sambandi, kalla hratt á hörð viðbrögð almennings.  Slík skref myndu ekki einungis ýta undir efnahagslegt öngþveiti, heldur jafnframt til stjórnmálalegs uppnáms:

"Myntbandalag hefur stuðlað að stríði á milli miðstýringarelítu annars vegar og lýðræðisafla á meðal einstakra þjóða hins vegar.  Að ýta undir slíkt er gríðarlegt hættuspil." 

King, lávarður, bendir á, að "stærsta efnahagsveldi ESB hafi staðið frammi fyrir þeim skelfilegu kostum að skrifa undir innistæðulausa skuldbindingu til stuðnings sambandinu með stórbrotnum og óendanlegum kostnaði fyrir skattgreiðendur, eða að stíga ella fast á bremsuna og stöðva þegar tilraunastarfsemina með myntbandalag í álfunni !"  Og hann bætti við:

"Eina færa leiðin, til að þjóðir ESB neyðist ekki lengur til að horfa beint ofan í hyldjúpan samdrátt, samfellt vaxandi fjöldaatvinnuleysi, þar sem hvergi sér fyrir enda á sligandi böggum skuldugu þjóðanna, er að leysa evruna upp !"  Þessi skilaboð geta ekki ljósari verið."  

Einörðustu andstæðingar aðildar Íslands að ESB hefðu ekki getað kveðið sterkar að orði, því að þarna kveður fyrrvarandi seðlabankastjóri Englands upp dauðadóm yfir flaggskipi Evrópusambandsins, evrunni. Sumir hérlendir stjórnmálamenn eru með böggum hildar og virðast alltaf vera á röngu róli eða telja betra að veifa röngu tré en öngu. Það verður að efast um  leiðtogahæfileika þeirra stjórnmálamanna, sem róa að því öllum árum og opna vart ginið eða stinga niður penna án þess að boða frelsun Íslendinga undan krónunni þeirra (ISK) með því að tengja hana fyrst við evruna og að uppfylltum öllum skilyrðum myntbandalagsins að kasta ISK fyrir róða og taka upp EUR. 

Þau Logi Einarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gátu varla verið seinheppnari með merkimiða á ennið á sér en EUR, ef nokkuð er að marka Mervyn King, og það hefur hingað til verið mikið að marka þann mann. 

Annaðhvort hafa þau Logi og Þorgerður misst bæði sjón og heyrn í Kófinu, fyrir utan pólitískt þefskyn, eða þau ganga bæði með steinbarn í maganum, sem heitir evra. Það blasir við, að Ísland hefði efnahagslega ekki siglt jafnhnökralítið út úr Kófinu og raun ber vitni án ISK.  Seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson (frá Hólum í Hjaltadal) hefur staðfest, að gildi þess að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil í Kófinu hafi sannað sig.  M.ö.o. virkni ISK við að deyfa hagsveiflur sannar sig í utan að komandi efnahagsáföllum.  Þótt seðlabankastjóri segi það ekki beint, skín út úr orðum hans, að hann ráðleggur Íslendingum eindregið að varðveita mynt sína.  Þar með er hann andvígur aðild Íslands að ESB, því að hún felur nú orðið í sér skyldu til að taka upp EUR. 

Kveikjan að tilvitnuðum orðum Mervyns King er væntanlega sú samþykkt ráðherraráðs ESB að heimila ESB að taka lán í nafni allra aðildarlandanna til að stofna endurreisnarsjóð eftir Kófið. Til að bjarga evrusvæðinu frá upplausn hafa Þjóðverjar lagt þýzka ríkissjóðinn að veði, því að Miðjarðarhafslöndin, að Frökkum meðtöldum, verða aldrei borgunarmenn fyrir skuldum sínum, á meðan þau verða í spennitreyju evrunnar. Evran átti að bjarga franska frankanum undan stöðugu, niðurlægjandi gengisfalli gagnvart þýzka markinu, DEM.  Frakkar fóru úr öskunni í eldinn og hafa enn ekki roð við fólkinu á milli Rínar og Oder-Neisse. Það verður ókyrrð í þýzkum stjórnmálum, á meðan þýzkur almenningur er látinn axla byrðarnar af skuldsetningu rómönsku þjóðanna. Fróðlegt verður að sjá, hvort tap CDU mun leiða til uppgangs AfD, Alternative für Deutschland, sem nú rekur mjög líflega kosningabaráttu.      

    

 

 


Er rekstrarárangur refsiverður ?

Furðuleg umræða gaus upp í sumum fjölmiðlum í viku 34/2021, er mánuður var til Alþingiskosninga.  Hún var á þá lund, að hagnaður sumra sjávarútvegsfyrirtækja væri svo mikill, að augljóslega þyrfti að hækka veiðigjöldin. Taka verður fram, að hagnaður sjávarútvegs eftir skatt er hlutfallslega minni að jafnaði en við á að jafnaði um annan atvinnurekstur, enda virka veiðigjöldin sem hver annar tekjuskattur á sjávarútvegsfyrirtæki.

Þetta viðhorf til sjávarútvegsins virðist markast af öfund yfir velgengni þeirra, sem náð hafa góðum árangri með sín fyrirtæki. Viðhorfið stenzt ekki jafnræðisreglu Stjórnarskrár um, að allir skuli njóta jafnræðis gagnvart lögum.  Málflutningurinn er einskært lýðskrum, reist á þeirri vitneskju, að flestum þykja skattahækkanir í góðu lagi, ef þær bitna á öðrum en þeim sjálfum.  Þá gleymist reyndar alveg, að með ofurskattlagningu eða hærri skattlagningu en á samkeppnisaðilana er verið að saga í sundur greinina, sem allir sitja á.  Þetta á sérstaklega við um útflutningsgreinarnar, en það má heldur ekki líta fram hjá því, að sjávarútvegurinn á í samkeppni við aðrar atvinnugreinar hér innanlands um fólk og fjármagn.

Þessi öfundsjúki málflutningur á aðallega rætur að rekja til fólks, sem gengur með þá grillu, að það hafi dottið niður á miklu betra og réttlátara fiskveiðistjórnunarkerfi en nú er við lýði hérlendis.  Hér er oftast um að ræða fólk, sem aldrei hefur migið í saltan sjó, eins og þar stendur, þ.e. hefur enga reynslu af rekstri útgerðarfyrirtækja, hvað þá meira vit á þeirri útgerð en þau, sem hana stunda núna, en gengur hins vegar með "frelsarann" í maganum um réttu trúna í málefnum sjávarútvegsins og hið fullkomna réttlæti.  Allt er það eins fjarri sanni og hugsazt getur og reyndar tómar grillur.

Hvar er réttlætið í því að þjóðnýta aflaheimildir með salami aðferðinni, 5 %-10 % á ári, sem flestar hafa verið keyptar á markaði og búið er að fjárfesta gríðarlega í, til að hægt sé að nýta þær ?  Hjá Evrópusambandinu (ESB) tíðkast ekki sá kvótamarkaður, og stefna þess, sem þó enn hefur ekki verið hrint í framkvæmd, er, að bjóða út allar útgefnar veiðiheimildir í lögsögu ESB. Þá munu gufa upp draumórar um "hlutfallslegan stöðugleika".  Íslenzkar útgerðir bjóða þá á móti öllum öðrum útgerðum í ESB, ef Ísland gengur þarna inn.  Er þetta ekki viðfelldin framtíðarsýn fyrir íslenzkar sjávarbyggðir og efnahag landsins ? 

Stefna ESB-flokkanna á Íslandi í sjávarútvegsmálum er ekkert annað en aðlögun að því, sem koma skal hjá ESB.  Það er engin glóra í því að leggja allt í sölurnar, t.d. að fótumtroða eignarréttinn með þjóðnýtingu keypts og löglega fengins nýtingarréttar á Íslandsmiðum (ath.: enginn á óveiddan fisk í sjó), til að innleiða hér fyrirkomulag, sem alls staðar hefur farið í handaskolum, þar sem það hefur verið reynt. Að halda því t.d. fram, að Færeyingar hafi ekki kunnað að hanna uppboðskerfi, er ósvífin drambsemi.  Þetta fyrirkomulag hefur alls staðar farið með útgerðina í hundana, þar sem það hefur verið reynt, t.d. í Eistlandi og í Rússlandi. 

Til að gefa almenningi kost á að hætta fé sínu í sjávarútveg í von um meiri ávöxtun þar en annars staðar er kjörin leið, að stærstu fyrirtækin í greininni verði gerð að almenningshlutafélögum með skráningu í Kauphöll Íslands. Sú þróun er þegar hafin.  Það er ólíkt meiri sáttasnykur af slíku en að þjóðnýta aflahlutdeildirnar.  Varaformaður Viðreisnar, sem er hagfræðingur að mennt, hefur viðurkennt, að leið flokks hans muni til lengdar ekki leiða til tekjuauka hjá ríkissjóði.  Hann breiðir hins vegar yfir eiginlegt ætlunarverk flokks síns með þeim öfugmælum aldarinnar, að þjóðnýting og uppboð aflahlutdeilda sé leið til sátta um sjávarútveginn.  Eru ekki allir með "fulle fem" ?

Fréttablaðið var með fréttaskýringu um málið 26. ágúst 2021 undir fyrirsögninni:

 "Hugnast ekki útboð aflaheimilda":

"Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, leggjast gegn þeirri tillögu Þjóðareignar að bjóða út 5-10 % aflaheimilda árlega.  Í könnun, sem framkvæmd var á vegum Gallup, kemur fram, að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga eða 76,6 % er hlynntur því, að útgerðin greiði markaðsgjald fyrir afnot af fiskimiðum."

Það er fráleitt að gera skoðanakönnun um það, sem enginn þekkir haus né sporð á.  Enginn veit, hvert þetta markaðsverð verður, og útfærsla uppboðsins er í algerri óvissu, því að hún virðist eiga að vera einhvern veginn öðruvísi en aðrir hafa glapizt á hingað til.  Hér ímynda svarendur sér, að ríkistekjurnar muni hækka án þess, að peningar verði teknir úr þeirra vasa.  Samkvæmt varaformanni Viðreisnar er það misskilningur.  Tekjur ríkissjóðs hækka ekkert við þetta feigðarflan. 

""Uppboð afla hugnast okkur ekki.  Reynsla annarra þjóða hefur sýnt, að þau gefa ekki góða raun. Það er aukin samþjöppun, aukin skuldsetning, verri umgengni við auðlindina, og í ljós kemur, að það eru hinir stærri og sterkari, sem bera sigur úr býtum á uppboðum.  Þannig að ef hugsunin er að halda sjávarútvegi í dreifðri eignaraðild, þá er uppboð ekki ákjósanleg leið", segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS."  

Þetta eru óvéfengjanlegar staðreyndir, en hrakfallasaga uppboða erlendis ku vera vegna þess, að þau eru skipulögð og framkvæmd af imbum, sem ekkert kunna til slíkra, eða svo er að skilja á fulltrúa "Þjóðareignar" í sömu fréttaskýringu.  Þar er auðvitað vaðið á súðum í yfirlæti "besserwissers" um útgerðarmál.  Harla ódýr málflutningur á þeim bæ.

""Samkvæmt lögum greiðir sjávarútvegurinn á Íslandi veiðigjald, sem byggir að nokkru leyti á markaðnum fyrir sjávarfang, er 33 % af aflaverðmæti. Veiðigjaldið hefur að þessu leyti tengingu við markað með sjávarafurðir", segir hann [Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra]." "Þegar vel árar, þá hækkar gjaldið, og þegar illa árar, þá lækkar það."

Þriðjungur hagnaðar er engin smáræðis viðbót við almennan tekjuskatt fyrirtækja.  Það er stundum látið, eins og aðföng útgerða séu ódýrari en annarra fyrirtækja.  Þeir hinir sömu horfa fram hjá því, að útgerð er fjármagnsfrek (góður skuttogari kostar um og yfir mrdISK 6), og rekstarkostnaður við að sækja aflann er hár vegna eldsneytiskostnaðar og aflahlutdeildar sjómannanna.  Þessu til staðfestingar er, að s.k. auðlindarenta, sem var hugmyndafræðilegur grundvöllur veiðileyfagjalda á sínum tíma, hefur ekki fundizt í bókhaldi útgerðanna.  Þetta þýðir, að ríkisvaldið hefur enga fjárhagslega ástæðu til að mismuna útgerðunum í samanburði við önnur fyrirtæki, enda tíðkast veiðigjöld ekki í öðrum Evrópulöndum eða  víðast hvar annars staðar, nema að nokkru leyti í Færeyjum. Þvert á móti eru útgerðir í öllum öðrum útgerðarlöndum Evrópu niðurgreiddar.  Íslenzka ríkið teflir á tæpasta vaðið með þessari háu skattheimtu.  Það má fallast á, að viðbótar skattheimtan gangi á hverjum tíma til rekstrar Hafrannsóknarstofnunar og Landhelgisgæzlunnar. 

"Heiðrún Lind segir, að tilraunir Færeyinga til þess að bjóða upp aflaheimildir hafi ekki heppnazt vel:

"Reynsla Færeyinga er sú, að það var engin nýliðun í þeim uppboðum, sem þeir framkvæmdu.  Ég tel uppboð ekki réttu leiðina til að hámarka verðmæti sjávarauðlindarinnar.  Síðan liggur fyrir, að fyrsta skrefið fælist í því að innkalla þær aflaheimildir, sem á að bjóða út.  Þessar æfingar myndu mjög fljótt þurrka upp eigið fé í sjávarútvegi og auka á samþjöppun.  Það hugnast mér ekki", segir Heiðrún."

  Það var endurskoðunarfyrirtæki, sem sýndi fram á það fyrir nokkrum árum, að þjóðnýting aflahlutdeildanna (nýtingarréttarins) mundi á fáum árum eyða upp eigin fé útgerðanna.  Sú niðurstaða stendur óhögguð, þótt hugmyndafræðingarnir berji hausnum við steininn.  Það er ekkert nýtt.  Þótt sósíalisminn leiði alls staðar til siðferðilegs og fjárhagslegs gjaldþrots, er hann samt boðaður enn á þeim forsendum, að sósíalistarnir hafi brugðizt, ekki sósíalisminn.  Það er afkáraleg sjálfsupphafning þeirra, sem enn boða falskt fagnaðarerindi. Það er alveg áreiðanlegt, að stjórnmálamenn eru ekki betur fallnir til afskipta af atvinnumálum en núverandi eigendur og stjórnendur fyrirtækja. 

Sjávarútvegsfyrirtæki eru nú farin að gefa út s.k. samfélagsskýrslur um starfsemi sína.  Slík útgáfa er til þess fallin að draga tölulegar staðreyndir um þessi fyrirtæki fram í dagsljósið og kynna áform fyrirtækjanna. Slíkt helzt vel í hendur við skráningu þeirra í Kauphöll. Hvort tveggja er til þess fallið að skapa betri frið um starfsemina, sem hlýtur í raun að vera öllum landsmönnum í hag. Laugardaginn 28. ágúst 2021 gerði Karítas Ríkharðsdóttir grein fyrir fyrstu samfélagsskýrslu Eskju með viðtali við Pál Snorrason, framkvæmdastjóra fjármála- og rekstrarsviðs Eskju í Morgunblaðinu:

""Eskja er að gefa út sína fyrstu samfélagsskýrslu, og tilgangur með útgáfu hennar er bæði að auka gagnsæi í okkar starfsemi og gera grein fyrir árangri okkar auk áhrifa á umhverfið og samfélagið", segir Páll Snorrason, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Eskju." 

Skattspor fyrirtækisins, einnig nefnt skattaslóð, nam árið 2020 mrdISK 1,4.  Þetta var 17,1 % af rekstrartekjunum (veltunni).  Þetta háa hlutfall er ástæða þess, að hagfræðingurinn á varaformannsstóli Viðreisnar játar, að uppboðskerfi aflahlutdeilda muni ekki auka tekjur ríkissjóðs. Þar að auki er kerfið  ósjálfbært, eins og komið hefur fram. 

"Samsvarar skattaslóðin um MISK 14 á hvern starfsmann fyrirtækisins og kISK 329 á hvert þorskígildistonn af aflaheimilda, sem fyrirtækið hefur yfir að ráða [á ári]."

Þessi gríðarlega skattaslóð gefur feiknarlega virðisaukningu til kynna í fyrirtækinu og sýnir í hnotskurn, að stjórnmálamenn eiga að láta fyrirtækin í friði og ekki að troða vansköpuðum og fáfengilegum hugmyndum sínum upp á þau í nafni þjóðarinnar og þjóðareignar á miðunum, sem á ekkert skylt við eignarrétt, heldur lögsögu íslenzka ríkisvaldsins yfir miðunum.  Ef fyrirtækin fá frið til verðmætasköpunar úr auðlindinni, þá bera sameiginlegir sjóðir landsmanna, ríkissjóður og sveitarsjóðir, mest úr býtum. Horuð og aðþrengd fyrirtæki eru lítils virði eigendum sínum og þjóðarheildinni. Sumir muna enn þrautagöngu útgerðanna fyrir 1984. Atvinnurekstur er bezt kominn hjá þeim, sem þar hafa skarað fram úr, en alls ekki í höndum stjórnmálamanna eða starfandi í umhverfi, skapað af stjórnmálamönnum, sem ekkert fyrirtæki þrífst í.    

 

  

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband