4.5.2013 | 13:55
Allt í frosti
Það er stórhættulegt fyrir stjórnmálamann og stjórnmálaflokk að taka of mikið upp í sig og að lofa einhverju, sem hann ekki mun hafa fyllilega vald á. Dæmi um þetta er jafnaðarmaðurinn Francois Hollande og Jafnaðarmannaflokkur hans í Frakklandi og Framsóknarflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Fór fylgisaukning Framsóknarflokksins fram á fölskum forsendum ? Það mun bráðlega koma í ljós. Verður það aðalforsendubrestur kosninganna 27. apríl 2013 ?
Vinsældir þessa Frakklandsforseta, Hollandes, hafa fallið hraðar en dæmi eru um frá stofnun 5. lýðveldis Charles Hose Maria de Gaulle 1958. Fylgishrapið frá kosningu hans fyrir um ári á rætur að rekja til þess, að hann hefur ekki staðið við stórkarlaleg kosningaloforð sín um að afnema aðhald í rekstri hins opinbera og að eyða atvinnuleysi. 'I sjónvarpsávarpi 28. marz 2013 reyndi hann að snúa þróuninni við, en án árangurs. Traust kjósenda var rokið út í veður og vind á 9 mánuðum.
Undir jafnaðarmanninum Hollande riðar Frakkland á barmi gjaldþrots, m.a. vegna spennitreyju evrunnar. Við blasir nú efnahagslegt hrun vegna kjánalegrar stefnu jafnaðarmanna, sem drepur hagkerfið í dróma. Hallinn á ríkisrekstrinum 2013 verður hátt yfir viðmiðunargildi evru-svæðisins, 3,0 % af VLF, mun vera tæp 5,0 % 2013. Atvinnuleysið versnar og nálgast 11,0 %. Atvinnuleysið í evrulöndunum sem heild hefur aldrei verið meira en nú frá stofnun evrunnar 1999.
Frá upphafi hefur "Evrópuverkefnið" verið leitt sameiginlega af Frakklandi og Þýzkalandi. Sarkozy gætti þess alla tíð að vinna náið með Angelu Merkel við úrlausn Evru-kreppunnar. Nú hefur orðið rof á þessari samvinnu. Merkel telur ráðstafanir Hollandes allsendis ófullnægjandi og raunar gera illt verra. Er þar kominn dæmigerður viðhorfsmunur íhaldsmanns og jafnaðarmanns, en fleira kemur til. Hollande hefur reynt að mynda skúrkabandalag Miðjarðarhafslanda gegn Berlín. Þetta hefur kynt undir hatri á Þjóðverjum í hinum suðlægari löndum Evrópu, sem enginn í Evrópu þarf á að halda núna. Þjóðverjar eru fyrir vikið að verða afhuga hlutverki ríka og góðgjarna afans í Evrópu. Slíkt er löngu tímabært, því að styrkþegar hafa gert léttvægar kerfisbreytingar til styrkingar innviðum sínum.
Óhjákvæmilega færast meiri völd til Berlínar með veikingu Parísar. Þýzkaland er hikandi við að taka að sér að stjórna Evrópu, og á meðan aukast væringar á milli Evrópulanda. Jafnvel bankabandalagið, sem reynt hefur verið að koma á koppinn, svo að gefa mætti út skuldabréf, sem allt evrusvæðið stæði að, virðist vera strandað. Riki og góðgjarni afinn er orðinn fastheldnari á fé sitt.
Hollande framkvæmdi stefnu jafnaðarmanna og hækkaði skatta á efnafólki upp í 75 %. Auðmenn flúðu úr landi, svo að þetta asnastrik skilaði engu. Sama átti sér stað á Íslandi. Vankunnandi og villuráfandi vinstri menn um hagræn málefni hækkuðu stöðugt skattheimtuna, en skatttekjurnar, það sem af er árinu 2013, eru langt undir væntingum. Kortaveltan minnkar hratt, svo að ljóst er, að ráðstöfunartekjur margra eftir skattgreiðslur hrökkva ekki fyrir nauðsynjum. Hagkerfið hverfur undir yfirborð jarðar við þessar aðstæður að stórum hluta. Geðslegt eða hitt þó. Afleiðingarnar af slæmum stjórnarháttum jafnaðarmanna eru alls staðar hinar sömu. Rotnun innviða samfélagsins. Reynslan af Samfylkingunni í stjórn Geirs Hilmars Haarde og í stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, Axarskaptinu, var ömurleg. Nú er þetta fyrirbrigði orðið eitraða peðið í íslenzkum stjórnmálum, sem ekki er hægt að koma nálægt, á fallanda fæti eftir kosningaúrslitin og mun klemmast á milli Bjartrar framtíðar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem er athvarf þeirra, sem telja endimörkum vaxtar náð og vilja þess vegna bara snúa upp tánum og láta aðra færa sér lífsviðurværið.
Hérlendir stjórnmálamenn gerðu sig seka um yfirboð í nýafstaðinni kosningabaráttu. Einn flokkur var þar stórtækastur og fór af hólmi með sigur. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson með sinn Framsóknarflokk stendur nú jafnfætis Sjálfstæðisflokkinum hvað þingmannafjölda varðar, en hann náði þessum árangri með því að reisa sér hurðarás um öxl. Það er ástæðan fyrir hinni kindugu framvindu, sem landsmenn hafa mátt horfa upp á síðan hið kynlega umboð til stjórnarmyndunar var veitt á Bessastöðum; umboð, sem þjóðin auðvitað veitti laugardaginn 27. apríl 2013.
Hugmynd framsóknarmanna um að ganga í skrokk á kröfuhöfum fallinna banka er ekki frumleg. Þetta tíðkaðist t.d. á Norðurlöndunum eftir Hrunið, t.d. tapaði Seðlabanki Íslands stórfé á veði, sem hann átti í dönskum banka, og Glitnir í Noregi fór á brunaútsölu. Að fara þessa leið á Íslandi er ekki eins auðvelt og í Danmörku og í Noregi, af því að íslenzka ríkisins bíða svo háar greiðslur af skuldum sínum árin 2015, 2016 og 2017, að það ræður ekki við þær að óbreyttu. Þess vegna þarf vinsamleg tengsl við lánadrottna til að eiga möguleika á að semja um þessar afborganir og vexti án þess, að ríkissjóður verði hreinlega keyrður í þrot.
Af þessum sökum hefur íslenzka ríkið ekki sama svigrúm og danska og norska ríkið höfðu gagnvart téðum bönkum, sem voru að töluverðu leyti í íslenzkri eigu. Þá má heldur ekki gleyma háum fjárhæðum, sem fóru í súginn hjá Kaupþingi í London 2008-2009 vegna aðgerða brezka ríkisins, og ríkisstjórn jafnaðarmanna á Íslandi hafði ekki þrek til að andæfa gegn brezku kratastjórninni.
Framsóknarmenn eru ekki búnir að bíta úr nálinni með stórfengleg kosningaloforð, sem fleyttu þeim óverðskuldað upp að hlið sjálfstæðismanna að þingstyrk. Fyrir þessum loforðum er engin innistæða, og það er einfaldlega ekki hægt að skera framsóknarmenn niður úr snörunni, sem þeir sjálfir hafa sett um háls sér. Framsóknarmenn og aðrir verða að skilja, að það er ósiðlegt að setja fram kosningaloforð, sem aðilar, sem ekki hafa kosningarétt á Íslandi, eiga að borga. Það hefði við beztu aðstæður Frosta Sigurjónssonar getað gengið upp, en sá valkostur að grípa til ígildi eignaupptöku með háum útgönguskatti er ekki fyrir hendi, af því að skilgreiningin á lánadrottnunum er röng. Þar eru ekki einvörðungu "hrægammar", heldur er þetta fjölbreytilegur hópur.
Að afnema gjaldeyrishöftin er höfuðmálið og það verður einvörðungu unnt með samvinnu margra aðila, þ.á.m. fjármagnseigenda, og alls ekki með yfirgangi og gösslarahætti. Hvernig er unnt að fá það út, að forsendubrestur hafi orðið varðandi verðbólgu á árunum 2008-2009 í sögulegu samhengi, ef rýnt er í grafið hér að neðan ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)