Reykjavíkurflugvöllur á næsta kjörtímabili

Allir þekkja hug núverandi vinstri meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur til Reykjavíkurflugvallar.  Meirihluti Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Pírataflokksins vill eindregið loka þessari samgöngumiðstöð landsins alls árið 2024.  Enginn þarf heldur að velkjast í vafa um, að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni á hauk í horni, þar sem er núverandi samgönguráðherra, Jón Gunnarsson, enda hefur hann hvatt til byggingar nýrrar flugstöðvar við Reykjavíkurflugvöll. 

Ef sams konar meirihluti og nú er í borgarstjórninni, nær völdum í Stjórnarráðinu eftir næstu Alþingiskosningar, verður sótt að starfsemi flugvallarins úr tveimur áttum, gerð að honum tangarsókn, og kraftaverk þarf þá til að bjarga honum úr þeirri kló.  Þetta ættu þeir, sem annt er um áframhald flugvallarstarfsemi í Vatnsmýrinni að hafa ofarlega í huga, þegar þeir ganga að kjörborðinu 28. október 2017, hvar sem er á landinu.  

Flugvöllur verður aldrei byggður í Hvassahrauni.  Staðsetning innanlands- og varaflugvallar þar er glórulaus af tveimur ástæðum.  Önnur er sú, að umrætt flugvallarstæði er á vatnsverndarsvæði Suðurnesjamanna, og hin er sú, að það er á virku jarðeldasvæði. Um fyrra atriðið sagði Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Sandgerðis og formaður Svæðisskipulags Suðurnesja í viðtali við Baldur Arnarson, sem birtist í baksviðsgrein hans í Morgunblaðinu, 27. maí 2017,

"Flugvöllur gæti ógnað vatnsbóli í Hvassahrauni":

"Það eru skilgreind vatnsverndarsvæði í Svæðisskipulagi Suðurnesja.  Hvassahraunið liggur á vatnsverndarsvæði á svo kölluðu fjarsvæði vatnsverndar.  Það eru takmarkanir á því, hvers konar starfsemi má fara fram á vatnsverndarsvæði.  Væntanlega þyrfti skipulagsbreytingar, ef eitthvað ætti að hreyfa það svæði."

Það er alveg áreiðanlegt, að flugvallarstarfsemi og vatnsverndarsvæði, nær eða fjær, fara ekki saman.  Það er alltof mikil mengunaráhætta á byggingartíma og á rekstrartíma flugvalla til að mótvægisaðgerðir geti lækkað áhættuna niður fyrir ásættanleg mörk. 

Það er stórfurðulegt, að tillaga um jafnilla reifaða hugmynd skyldi koma frá "Rögnunefndinni" á sinni tíð og að slíkt skyldi flögra að meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur, því að flokksfélagar þar á bæ eru stöðugt með náttúruvernd á vörunum í öðru samhengi, þar sem hún þó orkar mjög tvímælis m.t.t. hagsmuna, sem víða eru af náttúruauðlindanýtingu. Hugmyndir vinstri grænna um umhverfisvernd eru greinilega afstæðar. Þar sem flugvöllurinn í Vatnsmýrinni þjónar ágætlega sínu hlutverki fyrir landið allt með þremur flugbrautum, er engin brýn þörf á að leggja út í áhættusamt og rándýrt verkefni í Hvassahrauni.  

Það er fullkomlega fráleitt, í ljósi eftirfarandi ummæla Ólafs Þórs, að eyða meira púðri á Hvassahraun sem flugvallarstæði:

"Fyrir utan að grunnvatnsstraumar, sem liggja undan Reykjanesinu og til vesturs, renna allir eftir þessum leiðum [áhrifasvæði flugvallar - innsk. BJo]. Heilbrigðiseftirlitið segir, að á fjarsvæðum skuli gæta fyllstu varúðar í meðferð efna.   Stærri geymsluhylki eru t.d. bönnuð á slíku svæði.  Síðan getur Heilbrigðisnefnd Suðurnesja gefið frekari fyrirmæli um takmarkanir á umferð og byggingu mannvirkja á slíku svæði."  

Það þarf enginn að velkjast í vafa um það eftir þennan lestur, að flugvöllur verður aldrei leyfður í Hvassahrauni.  Þeir, sem halda því fram, að Hvassahraun sé raunhæfur kostur fyrir flugvöll, eru annað hvort einfeldningar eða blekkingameistarar.  

"Allt neyzluvatn á Suðurnesjum rennur þarna undir [flugvallarstæðið], og við hér suður frá hljótum að fara vandlega yfir það, hvaða mannvirki geta risið á slíku svæði.  Þá, hvort sem það er sveitarfélagið Vogar, sem hefur skipulagsvaldið, eða við hjá Samtökum sveitarfélaga á Suðurnesjum um svæðisskipulagið."

Drykkjarhæft vatn beint úr náttúrunni hefur verið nefnt "olía 21. aldarinnar".  Nú þegar er tæplega 60 % meiri spurn eftir henni en framboð á markaði, og með loftslagsbreytingum, fjölgun mannkyns og vaxandi kaupmætti þorra fólks í heiminum er líklegt, að eftirspurnin vaxi mikið á næstu áratugum.  Til Íslands gætu siglt risatankskip til að sækja vatn á verði, sem gæti verið um 1 kUSD/t til seljanda hérlendis.  Með þeim hætti yrðu Íslendingar "olíusjeikar norðursins" á 21. öld. 

Á Suðurnesjum er neyzluvatnið tandurhreint, síað í gegnum hraunlög.  Það er makalaust, að nokkur skuli halda því til streitu nú með þessar upplýsingar í höndunum að flytja Vatnsmýrarvöllinn suður í Hvassahraun, en vinstri grænir, samfylkingar og píratar standa enn á því fastar en fótunum og þrengja stöðugt að flugvellinum með lóðaskipulagningu og lóðaúthlutun.  Þar með sannast, að hugtakið náttúruvernd er ekki hugsjón þeirra, heldur yfirvarp til að breiða yfir "óhreinu börnin hennar Evu", forræðishyggju og ríkisrekna einokun, sem á ekki upp á pallborðið hjá mörgum, hvorki hérlendis né annars staðar.  

Á fundi borgarstjórnar 19. september 2017 var til umræðu skýrsla Þorgeirs Pálssonar, fyrrverandi flugmálastjóra og kennara blekbónda í stærðfræði Laplace við Verkfræðideild HÍ, um hlutverk Reykjavíkurflugvallar í öryggiskerfi landsins.  Þar kemur fram, að Vatnsmýrarvöllurinn hefur þjónað öryggishlutverki sínu afar vel og að nauðsynlegt er, að á SV-horni landsins séu hið minnsta 2 flugvellir.   Þar með hefur ábyrgðarleysi vinstri grænna, samfylkinga og pírata gagnvart flugfarþegum og flugáhöfnum verið afhjúpað, því að þessir blindingjar berjast um á hæl og hnakka til að fá Reykjavíkurflugvelli lokað árið 2024, hvað sem flugvelli í Hvassahrauni líður.  Þetta vinstra lið vinnur þannig að gríðarlegri sóun skattfjár og spilar rússneska rúllettu með líf og limi flugfarþega og áhafna, svo að ekki sé nú minnzt á bráðveika sjúklinga.  Er hægt sökkva öllu dýpra í pólitíska eymd ? 

Hvernig halda menn, að verði fyrir velunnara flugvallarins að halda merkjum hans á lofti, ef vinstri grænir munu ráða ferðinni í Stjórnarráðinu og í Ráðhúsinu við Reykjavíkurtjörn á sama tíma ?

Njáll Trausti Friðbertsson, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins fyrir NA-kjördæmi og flugumferðarstjóri, hefur kynnt sér lokunarmál Neyðarflugbrautarinnar, 06/24, rækilega, og bent á faglega veikleika ferlisins, sem leiddi til lokunar flugbrautarinnar, sem séu svo alvarlegir, að lokun brautarinnar sé í raun ólögmæt.  Njáll Trausti sat í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis á síðasta kjörtímabili.  Þessi nefnd hefur óskað eftir því, að gerð verði stjórnsýsluúttekt á aðdraganda þess, að Neyðarbrautinni var lokað eftir dóm Hæstaréttar í máli nr 268/2016. Ekki var vanþörf á því.

Áhættugreiningin fyrir Reykjavíkurflugvöll, sem lokun Neyðarbrautarinnar var reist á, hefur verið harðlega gagnrýnd af Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og öryggisnefnd félagsins (ÖFÍA).  Gagnrýnin er reist á faglegum rökum, þar sem sýnt er fram á, að útreikningur nothæfisstuðuls flugvallarins án Neyðarbrautarinnar gefi of háa niðurstöðu í téðri áhættugreiningu, og þar af leiðandi sé óverjandi að loka neyðarbrautinni út frá öryggissjónarmiðum.  Ef starfrækja á Reykjavíkurflugvöll sem miðstöð innanlandsflugs, sjúkraflugs, kennsluflugs og sem neyðarflugvöll fyrir millilandaflugið, verður hann að hafa 3 flugbrautir áfram.  

Í baksviðsgrein Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu 5. júlí 2017, Flugvallarmálið sé rannsakað, segir um þátt Samgöngustofu í þessu máli:

"Þá segir Njáll Trausti, að nefndin telji rétt, að úttektin nái til umsagnar Samgöngustofu um áhættumat Isavia vegna lokunar á Neyðarbrautinni.  Í umsögn Samgöngustofu komi m.a. fram, að áhættumatið nái ekki til áhrifa á flugvallakerfið í landinu í heild sinni né til neyðarskipulags Almannavarna eða áhrifa á sjúkraflutninga.  Þá nái það ekki til fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur.  Jafnframt hafi Samgöngustofa rifjað upp, að gera þurfi sérstakt áhættumat, komi til þess, að Neyðarbrautinni verði lokað.  Í ljósi þessa telji nefndin spurningar vakna um, hvort íslenzka ríkið hafi aflað sér gagna eða unnið gögn, sem snúa að umræddum öryggishagsmunum.  Skoða þurfi stjórnvaldsákvarðanir í þessu ferli."

Það hefur verið skoðun blekbónda, að hrapað hafi verið að lokun flugbrautar 06/24, og Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis virðist að meirihluta til vera sama sinnis.  Vonandi leiðir úttekt Ríkisendurskoðunar til þess, að flugbrautin verði opnuð á ný, enda muni Reykjavíkurflugvöllur gegna mikilvægu hlutverki fyrir flugsamgöngur landsins um ófyrirsjáanlega framtíð.  

Það getur verið fróðlegt að bera saman gerðir annarra þjóða í málum af svipuðu tagi.  London City Airport er ekki á förum, þótt á döfinni hafi verið að bæta við einni flugbraut á Heathrow. Í Berlín er enn verið að byggja nýjan flugvöll.  Hvorki tíma- né kostnaðaráætlanir fyrir nýja Berlínarflugvöllinn hafa staðizt og skeikar þar miklu.  Hæðast Suður-Þjóðverjar að hrakförum þessa verkefnis Prússanna, þótt þeim sé ekki hlátur í hug vegna mikilla tafa og kostnaðar við þennan nýja þjóðarflugvöll. Berlínarbúar voru nýlega spurðir, hvort þeir mundu vilja leggja niður hinn sögugræga Tempelhof flugvöll í Berlín, þegar hinn loksins kæmist í notkun.  Það vildu þeir ekki, heldur vilja þeir halda starfrækslu gamla Tempelhofs áfram.  

Njáll Trausti sagði í viðtalinu eftirfarandi um landsölu ríkisins eftir téðan Hæstaréttardóm:

"Við teljum rétt, að úttektin nái til þess, hvort eðlilega hafi verið staðið að sölu lands í eigu ríkisins m.t.t. þeirra nýju upplýsinga, sem komið hafa fram á undanförnum vikum, að flugbraut 06/24 hafi ekki verið varanlega lokað síðast liðið sumar, heldur hafi verið um tímabundna lokun að ræða, enda hafi samþykki Samgöngustofu um lokun ekki legið fyrir."

Þétting byggðar í Vatnsmýri er vanhugsuð út frá umhverfisverndarsjónarmiðum og af umferðartæknilegum ástæðum.  Það er eins og strútar ráði ferðinni í skipulagsmálum borgarinnar, sem stinga bara hausnum í sandinn, þegar þeim er bent á, að aðeins lítið brot af væntanlegum íbúum í þessu dýra hverfi mun nota almenningssamgöngutæki, reiðhjól eða tvo jafnfljóta, til að komast leiðar sinnar.  Þetta er eftir öðru í sýndarveruleika sossanna.

 


Bloggfærslur 13. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband