Sæstreng bar ekki hátt í kosningabaráttu 2017

Sæstrengur á milli Íslands og Skotlands hefur stundum vakið talsverða umræðu hérlendis, en hafi hann borið á góma í nýafstaðinni kosningabaráttu um sæti á Alþingi, hefur slíkt farið fram hjá blekbónda.  Þann 19. október 2017 birtist þó skrýtin grein í sérblaði Viðskiptablaðsins, "Orka & iðnaður", þó ótengd kosningabaráttunni að því, er virðist, og verður vikið að téðri grein í þessum pistli.

Að lítt rannsökuðu máli ætlar blekbóndi að halda því fram, að stjórnmálaflokkarnir hafi ekki tekið skýra afstöðu með eða á móti aflsæstreng til útlanda.  Slíkt afstöðuleysi er hægt að réttlæta með því, að enginn viti enn, hvernig kaupin muni gerast á eyrinni og fyrr sé ekki tímabært að taka afstöðu.  Hér verður sýnt fram á í stuttu máli, að enginn viðskiptagrundvöllur er eða verður fyrir þessari hugmynd.  Áður en menn fara að mæla þessu verkefni bót ættu þeir að sjá sóma sinn í að leggja fram útreikninga, sem benda til þjóðhagslegrar hagkvæmni verkefnisins. Annars er áróður fyrir þessum sæstreng úr lausu lofti gripinn. 

Með vísun til grundvallarafstöðu ættu stjórnmálaflokkarnir hins vegar að vera í færum nú þegar að styðja við hugmyndina um téðan sæstreng eða að hafna henni.  Þessi grundvallarafstaða snýst um það, hvernig siðferðilega er réttmætt að nýta náttúruauðlindir Íslands.  Á að reyna að hámarka verðmætasköpun úr auðlindunum hér innanlands og þar með að nýta þær til að skapa fjölbreytilega atvinnu hér innanlands, eða á að senda þær utan sem hrávöru og láta aðra um að beita hugviti sínu og markaðssamböndum til verðmætasköpunar ?  Þriðji kosturinn er, eins og vant er, að gera ekki neitt.  Það heitir í munni sumra "að láta náttúruna njóta vafans" og er ofnotuð klisja.

Tökum dæmi af áliðnaðinum á Íslandi. Hann notar mikla raforku, eða um 14,5 MWh/t Al og framleiðslan er um 0,98 Mt/ár Al. Ætla má, af upplýsingum um tekjur hans og kostnað að dæma, að jafnaðarlega verði um 40 % af veltu hans eftir í landinu. 

Álverin eru fjölþættir og flóknir vinnustaðir, sem gera miklar kröfur til sjálfra sín um gæði, umhverfisvernd og öryggi starfsmanna.  Allt krefst þetta hátæknilausna, enda eru fjölmargir verkfræðingar, tæknifræðingar, iðnfræðingar o.fl. sérfræðingar að störfum fyrir íslenzku álverin, bæði á launaskrá þeirra og sem verktakar. 

Þess vegna er afurðaverð íslenzku álveranna talsvert hærra en hráálsverðið, s.k. LME.  Má reikna með 20 % "premíu" eða viðbót að jafnaði, svo að um USD 2500 fáist nú fyrir tonnið af áli frá Íslandi.  Þessi framleiðsla væri útilokuð hérlendis án nýtingar hinna endurnýjanlegu orkulinda Íslands, og þess vegna má draga þá ályktun, að með verðmætasköpun hérlendis úr raforkunni fáist: 69 USD/MWh (=2500 x 0,4/14,5) fyrir raforkuna í stað um 30 USD/MWh, sem álverin kaupa raforkuna á.  Verðmætasköpunin innanlands nemur tæplega 40 USD/MWh, sem þýðir 2,3 földun orkuverðmætanna fyrir landsmenn með því að nýta orkuna innanlands.  

Er mögulegt fyrir sæstreng að keppa við 69 USD/MWh ?  Svarið er nei, útreikningar blekbónda hér að neðan benda eindregið til, að sæstrengur sé engan veginn samkeppnisfær við stóriðju um raforkuna á Íslandi.  Til marks um það er útboð á vegum National Grid, brezka Landsnets, í haust um kaup á umhverfisvænni orku inn á landskerfið.  Mun lægri verð voru boðin en áður hafa þekkzt, t.d. var raforka frá vindmyllum úti fyrir ströndum ("offshore windmills") boðin á 57,5 GBP/MWh, sem samsvaraði 76 USD/MWh.  Það verður alls ekki séð, að Englendingar (Skota vantar ekki umhverfisvæna raforku) muni vilja kaupa raforku frá Íslandi við hærra verði en þeir geta fengið innlenda, endurnýjanlega orku á.

Gerum samt ráð fyrir, að vegna niðurgreiðslna brezka ríkisins til vindmyllufyrirtækjanna mundu Englendingar vilja kaupa orku frá Íslandi við enda sæstrengsins í Skotlandi (þá er eftir að flytja orkuna til Englands með talsverðum kostnaði) fyrir 80 USD/MWh.  

Þetta er raunar hærra en þjóðhagslegt virði raforkunnar á Íslandi, en munu íslenzku virkjanafyrirtækin fá á bilinu 30 - 69 USD/MWh í sinn hlut fyrir raforkuviðskiptin við Englendinga ?  Lægra verðið lætur nærri að vera meðaltal núverandi verða fyrir orku til álveranna, og hærra verðið er lágmark þjóðhagslega hagkvæms raforkuútflutnings.

  Virkjanafyrirtækin mundu fá í sinn hlut úr Englandsviðskiptunum: VV=80-FG = 0 (sbr útskýringar að neðan).   

þ.e. mismun enska orkuverðsins og orkuflutningsgjaldsins um sæstrenginn og endamannvirki hans.  Blekbóndi gerði sér lítið fyrir og reiknaði út, hvaða gjald eigandi sæstrengskerfisins yrði að taka, svo að fjárfesting hans gæti skilað 8 %/ár arðsemi yfir 25 ára afskriftartíma að teknu tilliti til 10 % orkutapa um þessi mannvirki og 2 %/ár af stofnkostnaði í annan rekstrarkostnað. 

Ef gert er ráð fyrir 1200 MW flutningsgetu mannvirkjanna og 90 % nýtingu á þeim á ári að jafnaði m.v. fullt álag, nemur orkusalan út af mannvirkjunum 8,6 TWh/ár.  (Þetta er um 45 % af núverandi orkusölu á Íslandi.)  Sé gert ráð fyrir stofnkostnaði sæstrengsmannvirkja 4,7 MUSD/km, eins og gefið hefur verið upp fyrir sambærilegt sæstrengsverkefni á milli Ísrael og meginlands Grikklands, þá mun "ÍSSKOT" verkefnið kosta MUSD 5´640.

Niðurstaða útreikninganna á þessum forsendum er sú, að fjármagnskostnaður (vextir og afskriftir) nema 535 MUSD/ár og rekstrarkostnaður alls er 149 MUSD/ár.  

Heildarkostnaðurinn nemur 684 MUSD/ár, sem útheimtir flutningsgjald um mannvirkin: FG=80 USD/MWh. 

Ásgeir Magnússon, blaðamaður, er höfundur áður nefndrar greinar,

"Hverfandi áhrif sæstrengs á orkuverð".  

Heiti greinarinnar er illa rökstutt, en hún er reist á skýrslu frá brezku Landsvirkjun.  Má benda á þveröfuga reynslu Norðmanna, en norskir raforkuseljendur hafa freistazt til að selja of mikla orku utan og þá lækkað svo mikið í miðlunarlónum Noregs, að þeir hafa orðið að flytja inn rándýra orku til að koma í veg fyrir orkuskort.  Á Íslandi er miðlunargetan tiltölulega mun minni en í Noregi, og hér verður að sama skapi meiri hætta á vatnsleysi á veturna, sem þá mundi útheimta innflutning á margföldu innlendu raforkuverði.  Hér er um hreinræktaða spákaupmennsku að ræða með alla raforkunotendur hérlendis sem tilraunadýr og hugsanleg fórnarlömb. 

Það er ótrúlega yfirborðsleg umfjöllun um orkumál í téðri grein Andrésar, þar sem hvað rekur sig á annars horn.  Hér verður birtur úrdráttur til að sýna, hversu lágt er hægt að leggjast í áróðri fyrir samtengingu raforkukerfa Íslands og Englands (um Skotland), sem á sér marga tæknilega og umhverfislega annmarka, sem ekki verða gerðir að umræðuefni hér:

"Kæmi til þess [tengingar raforkukerfa Englands og Íslands-innsk.BJo], má ljóst vera [svo !], að sæstrengur myndi auka tekjur af orkusölu hér á landi [ofangreindir útreikningar benda til annars-innsk.BJo], auka gjaldeyrisflæði til landsins og rjúfa markaðseinangrun raforkumarkaðarins hér á landi [Englendingar mundu verða stærsti einstaki raforkukaupandinn.  Það felur í sér mikla viðskiptalega áhættu. - innsk. BJo].  Í framhaldi af því myndu rekstrarskilyrði stóriðju á Íslandi taka að breytast [eru refirnir ekki til þess skornir ? - innsk.BJo], þó að það tæki sinn tíma vegna þeirra löngu samninga, sem þar eru í gildi. [Orkusamningar til langs tíma, 25-35 ára, eru ekki síður í hag virkjanafjárfestisins, því að með slíka afkomutryggingu fær hann hagstæðari lánakjör - innsk. BJo.]  Segja má, að stóriðjan hafi verið notuð til orkuútflutnings, en hún getur tæplega keppt við beinan orkuútflutning um sæstreng til lengdar.  [Fyrri setningin er rétt, en sú seinni kolröng, eins og útreikningar blekbónda hér að ofan sýna - innsk. BJo.]

Áhrif sæstrengs á atvinnulíf gætu því reynzt töluverð, en sjálfsagt þykir mörgum ekki síðri ávinningur í umhverfisáhrifum þess, að stóriðjan geti vikið. [Þetta er amböguleg málsgrein og virðist reist á dylgjum um, að stóriðjan mengi.  Þegar um stærstu raforkunotendurna hérlendis, álverin, er að ræða, er umhverfissporið hverfandi og t.d. ekki merkjanlegt í gróðri við Straumsvík og í lífríkinu úti fyrir ströndinni vegna öflugra mengunarvarna - innsk. BJo.]  Fyrir nú utan hitt, að þannig leysi hrein og endurnýjanleg íslenzk orka af hólmi mengandi og óafturkræfa orkugjafa erlendis. [Þetta er hundalógík, því að orkukræf iðjuver hérlendis, sem hætta rekstri, verða að öllum líkindum leyst af hólmi með mengandi og ósjálfbærum orkugjöfum erlendis - innsk. BJo.]

Þekkingarlaust fólk um orku- og iðnaðarmál finnur oft hjá sér þörf til að tjá sig opinberlega með afar neikvæðum og grunnfærnislegum hætti um þennan málaflokk.  Það virðist skorta skynsemi til að átta sig á því, að það hlýtur að gera málstað sínum óleik með því að túðra tóma vitleysu.

Hér hefur verið sýnt fram á, að orkuútflutningur um sæstreng frá Íslandi til Skotlands með landtengingu við England getur ekki staðið undir neinum virkjanakostnaði á Íslandi vegna nauðsynlegs flutningsgjalds um sæstrengsmannvirkin.  Sæstrengurinn verður sennilega aldrei samkeppnisfær við orkusækinn iðnað á Íslandi.   

Tröllkonuhlaup

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 31. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband