Áform ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum

Heilbrigðismálin hafa orðið bitbein í stjórnmálabaráttunni.  Loddarar hafa reynt að nýta sér sárar tilfinningar margra, sem orðið hafa fyrir heilsubresti eða orðið vitni að slíku. Lítið hefur verið gert úr þjónustu heilbrigðiskerfisins, þótt hlutlægir mælikvarðar bendi til, að það veiti býsna góða þjónustu í samanburði við heilbrigðiskerfi annarra landa. Það er hins vegar alveg sama, hversu miklu fé er sturtað í þennan málaflokk; glötuð góð heilsa verður í fæstum tilvikum að fullu endurheimt, og í sumum tilvikum verður hinum óumflýjanlegu endalokum aðeins frestað um skamma hríð með miklum harmkvælum sjúklingsins.

Talsverður hluti kostnaðar heilbrigðiskerfisins fer í að fást við afleiðingar slysa, og þar hefur læknum og hjúkrunarfólki tekizt frábærlega upp við að tjasla saman fólki á öllum aldri. Risavaxinn ferðamannageiri hefur valdið mikilli álagsaukningu á heilbrigðiskerfið, og gjald fyrir þessa þjónustu á auðvitað að endurspegla kostnaðaraukann og má ekki draga úr öðrum framlögum til geirans.

Íþróttirnar taka sinn toll og er ljóst, að of mikið álag er lagt á s.k. afreksfólk í íþróttum, sem slitnar langt um aldur fram.  Afreksfólkið er þannig að sumu leyti eins og þrælar nútímans, þótt sumir í þessum hópi auðgist vel. Ástundun íþrótta er engu að síður ein af þeim forvörnum, sem hægt er að beita gegn vesældómi, heilsuleysi og glapstigum í nútíma þjóðfélagi, þótt íþróttameiðsli séu of algeng og kostnaðarsöm fyrir þjóðfélagið.  Það er auðvitað svo, að betra er heilt en vel gróið, og þess vegna er því fé og tíma vel varið, sem til hvers konar slysavarna fer. Þar hafa fyrirtæki í erlendri eigu á Íslandi, t.d. álverin, farið á undan með fögru fordæmi, og stórgóður árangur hefur náðst til sjós, þótt gallaður sleppibúnaður björgunarbáta hafi kastað skugga á öryggismálin þar.  

Nú eru tæplega 300 þúsund landfarartæki skráð í notkun í landinu, og þau taka allt of háan mannlegan toll.  Fé, sem varið er til umbóta á umferðarmannvirkjum, ætti allt að miða að því að auka öryggi í umferðinni, og það er leiðarstef Vegagerðarinnar, þótt henni beri lögum samkvæmt að velja lausnir m.t.t. stofnkostnaðar og viðhaldskostnaðar, eins og eðlilegt má telja.  Tafir, sem orðið hafa á gerð nútímalegs vegar á sunnanverðum Vestfjörðum á milli Þorskafjarðar og Patreksfjarðar, stinga algerlega í stúf við þá stefnu í slysavörnum, sem hinu opinbera ber að hafa, því að þar er yfir fjallvegi að fara, sem eru varasamir að sumarlagi og stórhættulegir að vetrarlagi.  Ábyrgðarhluti þeirra, sem tafið hafa þær framkvæmdir, er mikill. Ferli umhverfismats, leyfisveitinga og kæra er hringavitleysa, sem yfirvöld verða að straumlínulaga eftir að hafa leitt téðan vegarundirbúning til lykta.   

Hugmyndafræðilegur dilkadráttur hefur afvegaleitt umræðuna um heilbrigðisþjónustuna hérlendis.  Í stað þess að snúast um gæði og skilvirkni í ráðstöfun opinbers fjár til þessa kostnaðarsama málaflokks þá hafa sumir stjórnmálamenn dregið umræðuna niður á hugmyndafræðilegt plan um það, hvort þjónustuaðilinn er opinber stofnun eða einkarekið fyrirtæki, þótt hvort tveggja sé fjármagnað úr opinberum sjóðum. Þetta er nálgun viðfangsefnisins úr öfugri átt, þar sem sjúklingurinn verður hornreka. Með því að láta umræðuna hverfast um þetta, hafa öfgasinnaðir stjórnmálamenn tekið heilbrigða skynsemi í gíslingu, og sjúklingar og skattborgarar eru hin raunverulegu fórnarlömb.  Hugmyndafræðileg öfgahyggja á ekki heima í heilbrigðisgeiranum né við stjórnun hans. Það ber nauðsyn til að styrkja faglega stjórnun þess bákns, sem hann er á íslenzkan mælikvarða. 

Þannig er það óviðunandi stjórnsýsla á þessu sviði, að í meira en eitt ár nú skuli enginn sérfræðilæknir hafa fengið samning við Sjúkratryggingar Íslands.  Þetta hamlar því, að hámenntaðir og reynsluríkir læknar komi heim, setjist hér að og fái tækifæri til að beita þekkingu sinni til farsældar fyrir sjúklinga hér á landi, innlenda sem erlenda, og til góðs fyrir íslenzka ríkiskassann, því að ekkert er jafndýrt í heilbrigðisgeiranum og biðlistar hins opinbera kerfis, svo að ekki sé nú minnzt á fáránleikann, sem felst í því að senda sjúkling í aðgerð utan, þótt hérlendis sé aðstaða og mannskapur, en samning við Sjúkratryggingar Íslands vantar.  Fáránleikinn felst í því, að hugmyndafræði á röngum stað leiðir til þess, að Sjúkratryggingar Íslands greiða margfaldan innlendan kostnað til einkarekinnar stofu í Svíþjóð eða annars staðar ásamt ferða- og dvalarkostnaði sjúklings og fylgdarliðs.  Hugmyndafræði á röngum stað leiðir með öðrum orðum til bruðls með skattfé vegna tilskipunar ESB, sem gildi tók á EES-svæðinu 1. júní 2016. 

Landsspítalinn hefur ekki aðstöðu til að ráða íslenzka, fullnuma lækna sumpart vegna þess, að aðstaða hans er ófullnægjandi, þar sem ákvörðun um úrbætur í málefnum hans dróst úr hömlu á árunum eftir Hrun, en nú hefur ákvörðun verið tekin um að fullnýta Landsspítalalóðina við Hringbraut undir nýbyggingar. Framkvæmdir við s.k. meðferðakjarna, sem er hin eiginlega nýja sjúkrahúsbygging, hefst á næsta ári, 2018, en það eru a.m.k. 4 ár, þar til starfsemi getur hafizt þar, og þangað til verður að brúa bilið með einkarekinni þjónustu, ef vel á að vera, enda sé hún ekki dýrari fyrir stærsta greiðandann, ríkissjóð, en aðgerðir á Landsspítalanum. 

Hvaða máli skiptir það skattborgarana, hvort fjárfestar fá smáumbun fyrir að festa fé sitt í þessum geira, ef hvorki ríkissjóður né sjúklingarnir bera skarðan hlut frá borði ?  Hér er hræðileg fordild á ferð, sem fráfarandi Landlæknir og núverandi forstjóri Landsspítalans eru ekki saklausir af að hafa alið á.  Með slíku framferði liggja hagsmunir sjúklinganna óbættir utan garðs.

Til að styrkja stjórnun Landsspítalans, sem er stærsti vinnustaður á Íslandi, þarf að setja yfir hann stjórn, sem tali máli hans út á við og hafi samskipti við fjárveitingarvaldið og fjölmiðla eftir þörfum og sinni stefnumörkun fyrir spítalann til skamms og langs tíma í samráði við heilbrigðisráðherra, en framkvæmdastjórn hans sinni daglegum rekstri og faglegri þróun háskólasjúkrahússins.  

 

Kaflinn í stjórnarsáttmálanum, núverandi, um heilbrigðismál hefst þannig:

"Íslenzka heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það, sem bezt gerist í heiminum.  Allir landsmenn eiga að fá notið [sic!] góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu."

Það er ómögulegt að henda reiður á fyrri málsgreininni.  Hvað á að leggja til grundvallar fyrir bezt í heimi ?  Barnadauða ?  Hann er nú þegar minnstur á Íslandi, enda er aðbúnaður og mannskapur allur hinn bezti á sængurkvennadeild Landsspítalans og eftirfylgnin heima fyrir til fyrirmyndar.  Bjóða þyrfti upp á gistiaðstöðu fyrir barnshafandi konur utan af landi, sem búa ekki við þá þjónustu í heimahéraði, sem þær þurfa á að halda. Þessi þjónusta kæmi þeim bezt, sem ekki eiga frændgarð á höfuðborgarsvæðinu, t.d. konum af erlendu bergi brotnu.   

Lífslengd ?  Langlífi á Íslandi er á meðal þess hæsta, sem þekkist á jörðunni, eða 82,5 ár, og verða konur 2,6 árum eldri en karlar, sennilega af því að þær lifa heilnæmara lífi. Japanir verða allra þjóða elztir, 1,4 árum eldri en Íslendingar, enda róa Japanir ekki í spikinu, heldur éta hollmeti á borð við hrísgrjón og sjávarafurðir sem undirstöðufæði.

Það á ekki að vera stefnumið heilbrigðiskerfisins að lengja ævina sem mest, heldur að bæta líðanina.  Það er æskilegt, að boðuð "heilbrigðisstefna" fyrir Ísland marki stefnu um líknardauða fyrir frumvarp til laga um þetta viðkvæma efni, sem taki mið af því, sem hnökraminnst virkar erlendis.  Það nær í raun og veru engri átt að nota tækni læknisfræðinnar til að treina líf, sem er líf bara að nafninu til og varla það.  Slíkt er áþján fyrir alla viðkomandi og felur í sér kostnaðarlega byrði fyrir opinberar stofnanir, sem engum ávinningi skilar.  Þróunin hefur gert öfgakennda framfylgd Hippokratesareiðsins ósiðlegan við vissar aðstæður, svo að kenna má við misnotkun tæknivæddrar læknisfræði og opinbers fjár.   

Sennilega er eitt skilvirkasta úrræðið til að viðhalda góðri heilsu og að bæta hana að stunda heilbrigt líferni.  Hvað í því felst er útlistað með s.k. forvörnum og leiðbeiningum til eflingar lýðheilsu.  Þessi grein þarf að koma inn í námsefni grunnskóla um 12 ára aldur, svo að æskan skilji, mitt í hömlulítilli neyzlu, að líkaminn er ekki sorptunna, sem tekur við rusli og eitri án alvarlegra afleiðinga. 

Af ráðleggingum má nefna að halda sig frá fíkniefnum, stunda einhvers konar líkamsrækt og gæta að matarræðinu, halda sig frá sætindum og borða mikið af  grænmeti og ávöxtum.  Íslendingar eru of þungir, bæði líkamlega og andlega.  Á Íslandi eru 58 % fullorðinna íbúa yfir kjörþyngd, sem er allt of hátt hlutfall og hærra en að jafnaði í OECD, og það stefnir í óefni með ungviðið, þar sem 18 % 15 ára unglinga eru of þungir.  Þetta bendir til kolrangs mataræðis og hreyfingarleysis.  Í Japan eru aðeins 24 % fullorðinna yfir kjörþyngd.

Ekki er vafa undirorpið, að með virkri aðstoð við fólk við að breyta um lífsstíl er unnt að lækka útgjöld til lyfjakaupa og sjúkrahúsvistar.  Með starfsemi á borð við þá, sem fram fer á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands-HNLFÍ, er hægt að forða fólki frá örorku eða a.m.k. að draga úr örorkunni, sem að óbreyttu væri óhjákvæmileg.  Fjöldi "útbrunninna" einstaklinga og fólks með áfallastreituröskun eða ofvirkni hefur fengið bót meina sinna á HNLFÍ í Hveragerði.  Það er ekki vanzalaust, að heilbrigðisyfirvöld skuli ekki hafa kynnt sér starfsemi HNLFÍ nægilega til að öðlast skilning á þeim sparnaði, sem í því felst fyrir ríkissjóð, að Sjúkratryggingar Íslands taki þátt í kostnaði við vist og meðhöndlun skjólstæðinga HNLFÍ í þeim mæli, að almenningi verði áfram fjárhagslega kleift að dvelja þar í 3-6 vikur í senn, eftir þörfum, eins og verið hefur undanfarin ár.  Nú er svo komið, að HNLFÍ telur sig vart eiga annarra kosta völ en að krefjast hækkunar á eigin framlagi umsækjanda eða að draga stórlega úr þjónustunni, sem veitt er og flestir telja vera til mikillar fyrirmyndar.  Hefur nýr heilbrigðisráðherra nægan skilning á framtaki frjálsra félagasamtaka til að bæta þjónustu við skjólstæðinga heilbrigðisgeirans og til að lækka heildarkostnað samfélagsins af slæmu heilsufari ?  Það mun bráðlega koma í ljós, hvort þekking og víðsýni ráðherrans er nægileg fyrir hið háa embætti.   

Það hefur verið rætt um sem allsherjar lausn á heilbrigðisvanda þjóðarinnar, sem að miklu leyti er sjálfskaparvíti, að hækka framlög úr ríkissjóði til heilbrigðisgeirans.  Þetta stendst ekki skoðun sem gott úrræði.  Árið 2016 námu útgjöld til heilbrigðismála í Bandaríkjunum (BNA) 10 kUSD/íb og á Íslandi 4,4 kUSD/íb, en íslenzka heilbrigðiskerfið skorar hærra á ýmsa mælikvarða en hið bandaríska, t.d. þá, sem nefndir eru hér að ofan.  Að meðaltali nema þessi útgjöld 4,0 kUSD/íb í OECD.  Íslendingar eru líklega að fá meira fyrir jafnvirði hvers USD, sem í heilbrigðiskerfið fer, en að meðaltali á við um þjóðir innan OECD og vafalaust mun meira en Bandaríkjamenn.

Til að sýna, hversu villandi er að bera saman útgjöld þjóða til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF (vergri landsframleiðslu), þá var íslenzka hlutfallið 2016 8,6 % VLF, en 9,0 % VLF að meðaltali í OECD.  Samt voru útgjöldin á Íslandi 10 % hærri á íbúa á Íslandi en að meðaltali í OECD.  Eitt það vitlausasta, sem hægt væri að setja í heilbrigðisstefnu ríkisstjórnarinnar, væri, að framlag ríkissjóðs til þessa málaflokks skuli vera hærra en hámarkið á Norðurlöndunum, sem árið 2016 var 11,0 % x VLF (í Svíþjóð).  

Það, sem skiptir sköpum hér, er, hvernig kerfið er skipulagt, og hvernig því er stjórnað.  Það fer vafalítið bezt á því hérlendis að hafa blandað kerfi ólíkra rekstrarforma, sem standa fjárhagslega jafnfætis gagnvart aðilanum, sem kaupir megnið af þjónustunni, okkar ríkisrekna tryggingakerfi.  

 

 

 

 


Bloggfærslur 12. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband