Líður EES senn undir lok ?

Engum blöðum er um það að fletta, að BREXIT hefur mikil áhrif á forsendur EES-Evrópska efnahagssvæðisins, þar sem eru ESB-ríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein. Ástæðan er sú, að Bretland er helzta viðskiptaland Íslands og Noregs.

Þann 25. nóvember 2017 birtist þörf hugvekja um EES í Morgunblaðinu eftir Norðmanninn, Morten Harper, rannsóknarstjóra Félags norskra andstæðinga ESB, "Nej til EU".  Í ljósi þess, að EES var sett á laggirnar sem fordyri að ESB, eins konar biðsalur væntanlegra aðildarlanda í aðlögun, þá er tímabært að vega og meta alvarlega útgöngu Noregs og Íslands úr EES, af því að aðild landanna er engan veginn á dagskrá um fyrirsjáanlega framtíð. Áhuginn fyrir inngöngu í ESB fer minnkandi í báðum löndunum og efasemdir um heildarnytsemi EES fara vaxandi.

Það, sem kemur þessari umræðu af stað núna, er vitaskuld útganga Bretlands úr ESB, en Bretland er mesta viðskiptaland Noregs og Íslands.  Bæði löndin undirbúa tvíhliða viðræður um framtíðar viðskiptasambönd landanna, og þá er jafnframt eðlilegt að íhuga tvíhliða viðskiptasamband við ESB, eins og t.d. Svisslendingar notast við. E.t.v. væri samflot EES-landanna utan ESB gagnlegt, ef ESB verður til viðræðu um endurskoðun á EES-samninginum, sem er undir hælinn lagt.

Morten Harper er fullveldisframsalið til ESB ofarlega í huga.  Það er fólgið í flóði reglna og tilskipana frá framkvæmdastjórn ESB; 12´000 slíkar hefur Noregur tekið upp frá árinu 1992.  Hvað skyldi Ísland hafa tekið upp margar af þessum toga frá 1994 ? 

Þá felur valdaframsal til eftirlitsstofnunarinnar ESA og EFTA-dómstólsins klárlega í sér fullveldisskerðingu landanna þriggja utan ESB í EES, og nú virðist eiga að troða hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB ríkjanna upp á hin EES ríkin (utan ESB).  Skemmst er að minnast nýlegs dómsorðs EFTA-dómstólsins, þar sem leitazt er við að þvinga Ísland til að láta af varúðarraáðstöfunum sínum til varðveizlu á heilsufari manna og búfjár í landinu.  

Nú skal vitna í ágæta grein Mortens Harper, 

"Af hverju Norðmenn vilja atkvæðagreiðslu um uppsögn EES-samningsins":

"Lykilatriði í nýju skýrslunni, "25 ár í EES" [okkur Íslendinga vantar vandaða úttekt af þessu tagi], er, hvernig EES-samningurinn veldur einkum skaða á norska atvinnulífinu.  EES-skýrslan sýnir, hvernig norsk lög, kjarasamningar og ILO-samningar (Alþjóða vinnumálastofnunin) víkja fyrir reglum ESB/EES.  [Hér má minna á megna óánægju innan verkalýðshreyfingarinnar íslenzku með skuggahliðar frjáls flæðis vinnuafls innan EES.]  

Í umdeildum úrskurði í lok síðasta árs fylgdi Hæstiréttur [Noregs] ráðgjöf EFTA-dómstólsins og setti reglur ESB um frelsi fyrirtækja framar rétti verkamanna og 137. ákvæði Alþjóða vinnumálastofnunarinnar um hafnarverkamenn.  Nokkur verkalýðsfélög krefjast þess nú, að Noregur yfirgefi EES."

Það má furðu gegna, að slík krafa varðandi aðild Íslands að EES skuli enn ekki hafa birzt opinberlega frá neinu íslenzku verkalýðsfélagi.  Starfsmannaleigur, sem eru regnhlíf yfir þrælahald nútímans á Norðurlöndunum og réttindalausir iðnaðarmenn að íslenzkum lögum, ættu að vera nægilega ríkar ástæður til að segja sig úr lögum við þetta furðufyrirbrigði, sem ESB er.  

Svo kom rúsínan í pylsuendanum hjá Morten Harper:

"Noregur er mikill framleiðandi [raf]orku.  Framkvæmdastjórn ESB vill tengja Noreg eins náið og unnt er við ESB-orkukerfið og stefnir að fimmta frelsinu: frjálsu orkuflæði [undirstr. BJo].  Meirihluti ESB-orkulöggjafarinnar er talinn falla undir EES, [sem] gerir samninginn að verkfæri ESB til að samþætta Noreg í orkukerfið.  

Nánast ekkert hefur meiri þýðingu fyrir norskan iðnað en langtíma aðgengi að raforku á samkeppnishæfu verði.  Sífellt meiri útflutningur rafmagns til meginlandsins og Bretlands getur leitt til þess, að Noregur þurfi að greiða hærra raforkuverð fyrir sín not.  Aðeins við þjóðarorkukreppu getur Noregur komið í veg fyrir útflutning raforku.  Að öðru leyti er öllu stjórnað af samkeppnisreglum ESB/EES."

Blekbóndi þessa vefseturs hefur verið ólatur við að vara við samtengingu raforkukerfa Íslands og ESB með sæstreng til Skotlands vegna þeirrar sannfæringar, á grundvelli útreikninga, að þjóðhagslega hagkvæmast sé að nýta íslenzka raforku innanlands til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar.  Lýsing Mortens Harper bendir til, að Norðmenn finni nú á eigin skinni gallana við útflutning á raforku úr sjálfbærum orkulindum Noregs (fallorku vatnsfalla) á svipuðum grundvelli og blekbóndi hefur varað hérlandsmenn við raforkuútflutningi frá Íslandi um sæstreng á þessu vefsetri.

Forstjóri Landsvirkjunar hefur verið helzti hvatamaður slíkrar tengingar hérlendis, en hefur samt aldrei fengizt til að sýna á spilin sín, enda sennilega ekkert til að sýna.  Blekbóndi þessa vefseturs hefur út frá tiltækum gögnum sýnt fram á með útreikningum, hversu ókræsileg þessi viðskipti yrðu, og hversu alvarlegir tæknilegir annmarkar eru á þeim. 

Nú rifjast það upp, að Hörður Arnarson var einn þeirra, sem málaði skrattann á vegginn um afleiðingar þess að hafna Icesave-samningunum við Breta/Hollendinga/ESB, þegar sú deila var hvað hatrömmust á valdaskeiði vinstri stjórnarinnar 2009-2013.  Ályktunin nú er þess vegna sú, að umræddu sæstrengsverkefni sé ætlað af ESB að verða farvegur fyrir innleiðingu 5. frelsis Innri markaðarins á Íslandi.  Þar með mundi Ísland lenda í sömu stöðu og Morten Harper lýsir fyrir Noreg um hækkun raforkuverðs af völdum mikils raforkuinnflutnings vegna innlends orkuskorts (tæmd miðlunarlón af völdum mikils raforkuútflutnings).  

Hvernig á að standa að endurskoðun á EES-samninginum ? Það verður fróðlegt að fylgjast með þróun mála í Noregi.  Ein leið er sú að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, t.d. samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor, um aðild eða úrsögn.  Önnur leið er, að ríkisstjórnin reyni að tryggja fullveldi Íslands gagnvart ESB undir hatti EES og hugsanlegur nýr samningur verði síðan borinn undir þjóðaratkvæði til synjunar eða samþykkis.  Allur norðurvængur Evrópusambandsins kann að verða í uppnámi á næstu misserum.  

Brezki fáninn-Union JackÞýzkt ESB

 


Bloggfærslur 3. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband