Syndsamlegt líferni kostar sitt

Það er viðkvæðið, þegar mælt er gegn fíkniefnaneyzlu hvers konar, tóbak og vínandi þar ekki undanskilin, að fíklarnir séu samfélaginu dýrir á fóðrum.  

Fíklarnir eru hins vegar sjálfum sér og sínum nánustu verstir.  Nýleg brezk rannsókn sýnir, að peningalega eru þeir minni samfélagsbyrði í Bretlandi en þeir að líkindum hefðu verið, ef þeir mundu hafa lifað miðlungs heilbrigðu lífi og þannig náð meðalaldri brezku þjóðarinnar.  Líklegt er, að rannsókn hérlendis mundi leiða til svipaðrar niðurstöðu um þetta.  

Höfundurinn Óðinn ritar um þetta í Viðskiptablaðið, 10. ágúst 2017.  Hann vitnar í rannsóknarskýrslu eftir Christofer Snowdon og Mark Tovey, sem gerð var fyrir brezku hugveituna "Institute of Economic Affairs" (IEA). Þar voru reykingamenn og drykkjumenn rannsakaðir. Grófasta nálgun við heimfærslu á Ísland er að deila með hlutfalli íbúafjölda landanna, 185, og að breyta sterlingspundum í ISK. Slík heimfærsla gefur aðeins vísbendingu.  

"Skýrslan er um margt drungaleg vegna þess, að í henni er m.a. reynt að skjóta á þann sparnað, sem ríkið fær, vegna þess að reykingafólk deyr almennt fyrr en þeir, sem ekki reykja.  Eins eru teknar með í reikninginn tekjur brezka ríkisins af tóbaksgjöldum."

Skýrsluhöfundar áætla kostnað ríkissjóðs vegna þjónustu heilbrigðiskerfisins við reykingafólk nema um miaGBP 3,6, sem gróflega heimfært nemur miaISK 2,7.  Til viðbótar kemur miaGBP 1,0 vegna óþrifa af völdum reykinga og eldtjóns af völdum glóðar eftir reykingamenn.  Kostnaður alls miaGBP 4,6 eða gróflega heimfært miaISK 3,4.  

Á tekjuhlið ríkissjóðs í þessum málaflokki eru skattar og gjöld af tóbaksvörum, miaGBP 9,5, eða gróflega heimfært miaISK 7,1. Brezki ríkissjóðurinn er með rekstrarhagnað af reykingafólki, sem nemur GBP 4,9 eða gróflega heimfært miaISK 3,7.  

Það er ekki nóg með þetta, heldur veldur sparar ríkissjóður Bretlands fé á ótímabærum dauðsföllum reykingamanna.  Talið er, að 15,9 % dauðsfalla á Bretlandi hafi mátt rekja til reykinga árið 2015, og þau bar að jafnaði 13,3 árum fyrr að garði en hjá hinum.  Hér er einmitt um þann hluta ævinnar hjá flestum að ræða, þegar fólk þarf mest að leita til hinnar opinberu heilbrigðisþjónustu. Þar að auki verða ellilífeyrisgreiðslur til reykingamanna sáralitlar, en á móti kann að koma örorkulífeyrir.  Þetta telst skýrsluhöfundum til, að spari brezka ríkissjóðinum miaGBP 9,8 á ári, eða gróflega heimfært miaISK 7,3 á á ári.  Þannig má halda því fram, að eymd brezkra reykingamanna spari brezka ríkinu miaGBP 14,7 á ári, sem gróflega heimfært á íslenzka reykingamenn yrðu miaISK 11,0.  Þetta er nöturlega há tala m.v. þá eymd og pínu, sem sjúklingar, t.d. með súrefniskúta, mega þjást af, svo að ekki sé nú minnzt á aðstandendur.  Kaldhæðnir segja tóbakið og nikótínfíknina vera hefnd rauðskinnans, en indíánar voru örugglega ekki með í huga á sínum tíma að styrkja ríkissjóði hvíta mannsins.  

Með svipuðum hætti hefur Snowdon í skýrslunni "Alcohol and the Public Purse", sem gefin var út af IEA árið 2015, afsannað fullyrðingar um kostnað brezka ríkissjóðsins af ofneyzlu áfengis.  Því er einnig iðulega haldið á lofti hérlendis, að áfengissjúklingar séu baggi á ríkissjóði, en ætli það sé svo, þegar upp er staðið ? 

Áfengisbölið er hins vegar þyngra en tárum taki fyrir fjölskyldurnar, sem í hlut eiga.  Slíkt ætti þó ekki að nota sem réttlætingu fyrir áfengiseinkasölu ríkisins, steinrunnu fyrirbrigði, sem bætir sennilega engan veginn úr áfengisbölinu.

Í grunnskólum landsins þarf forvarnaraðgerðir með læknisfræðilegri kynningu á skaðsemi vínanda og annarra fíkniefna á líkama og sál, einkum ungmenna.  Þá er það þekkt, að sumir hafa í sér meiri veikleika en aðrir gagnvart Bakkusi og verða þar af leiðandi auðveld fórnarlömb hans.  Allt þetta þarf að kynna ungu fólki í von um að forða einhverjum frá foraðinu. Vinfengi við Bakkus ætti helzt aldrei að verða, en hóflega drukkið vín (með mat í góðra vina hópi) gleður þó mannsins hjarta, segir máltækið.  

Hvað skrifar Óðinn um opinberan kostnað af áfengisbölinu ?:

"Kostnaður hins opinbera vegna áfengisneyzlu er víðtækur.  Kostnaður vegna áfengistengdra ofbeldisglæpa er metinn á um miaGBP 1,0, og kostnaður vegna annarra glæpa - þar á meðal drukkinna ökumanna - er um miaGBP 0,6.  Kostnaður heilbrigðiskerfisins vegna áfengisdrykkju er metinn á um miaGBP 1,9, og annar kostnaður velferðarkerfisins, t.d. vegna greiðslna til fólks, sem drykkjusýki sinnar vegna er ófært um vinnu, nemur um miaGBP 0,29."

Á Bretlandi er metinn opinber heildarkostnaður vegna ofdrykkju Kod = miaGBP(1,0+0,6+1,9+0,29)=miaGBP 3,8.  Yfirfærður til Íslands með einfaldasta hætti nemur þessi kostnaður miaISK 2,8. Á Bretlandi er þessi kostnaður lægri en af tóbaksbölinu, en blekbóndi mundi halda, að á Íslandi sé opinber kostnaður af áfengisbölinu hærri en af tóbaksbölinu og jafnframt hærri en miaISK 2,8 þrátt fyrir verra aðgengi að áfengisflöskum og -dósum hérlendis, eins og allir vita, sem ferðazt hafa til Bretlands.  Það er barnalegt að ímynda sér, að ríkisverzlanir reisi einhverjar skorður við áfengisfíkninni.  Hún er miklu verri viðfangs en svo.

Tekjur brezka ríkisins af af áfengi á formi skatta og áfengisgjalda eru um miaGBP 10,4. Þar að auki felur skammlífi drykkjusjúkra í sér talsverðan sparnað, sem Óðinn tíundaði þó ekki sérstaklega. Brezka ríkið kemur þannig út með nettótekjur af áfengi, sem nemur a.m.k. miaGBP(10,4-3,8)=miaGBP 6,6.  Brúttotekjur íslenzka ríkisins út frá þessu eru miaISK 7,8, en eru í raun miklu hærri, og nettótekjur þess miaISK 4,9.  Kostnaður íslenzka ríkissjóðsins af áfengisbölinu er gríðarlegur, svo að nettótekjur hans af áfenginu eru sennilega ekki hærri en þessi vísbending gefur til kynna, en samt örugglega yfir núllinu, þegar tekið hefur verið tillit til styttri ævi.  

Undir lokin skrifar Óðinn:

"Það er engu að síður áhugavert að sjá, að þvert á fullyrðingar þeirra, sem berjast gegn reykingum og áfengisneyzlu, þá væri staða brezka ríkissjóðsins verri en ella, ef ekki væri fyrir reykinga- og drykkjufólkið."

Ríkissjóðurinn íslenzki hagnast mikið á ýmsum öðrum hópum, sem sérskattaðir eru.  Þar fara eigendur ökutækja framarlega í flokki.  Tekjur ríkissjóðs af ökutækjum nema um miaISK 45, en fjárveitingar til vegagerðarinnar nema aðeins rúmlega helmingi þessarar upphæðar, og hefur Vegagerðin þó fleira á sinni könnu en vegina, t.d. ferjusiglingar.  Fjárveitingar til Vegagerðarinnar hafa nú í 9 ár verið allt of lágar m.v. ástand vega og umferðarþunga, en frá 2015 hefur keyrt um þverbak.  Af öryggisástæðum verður að auka árlegar fjárveitingar til vegamála hérlendis um a.m.k. miaISK 10.  

Nú hefur fjármála- og efnahagsráðherra boðað hækkun kolefnisgjalds á dísilolíu.  Vinstri stjórnin reyndi fyrir sér á ýmsum sviðum með neyzlustýringu, og eitt asnastrikið var að hvetja til kaupa á dísilbílum fremur en benzínbílum með meiri gjöldum á benzínið.  Hækkun nú kemur sér auðvitað illa fyrir  vinnuvélaeigendur, en vinnuvélar eru flestar dísilknúnar, og þeir eiga ekkert val.  Eigendur annarra dísilknúinna ökutækja eiga val um aðra orkugjafa, t.d. fossaafl og jarðgufu, sem breytt hefur verið í rafmagn.  

Stöðugt hefur fjarað undan þessum tekjustofni ríkisins vegna sparneytnari véla.  Innleiðing rafbíla kallar á allsherjar endurskoðun á skattheimtu af umferðinni.  Strax þarf að hefja undirbúning að því að afleggja gjöld á eldsneytið og eignarhaldið (bifreiðagjöld) og taka þess í stað upp kílómetragjald.  Bílaframleiðendur eru að alnetsvæða bílana og "skattmann" getur fengið rauntímaupplýsingar um aksturinn inn í gagnasafn sitt og sent reikninga í heimabanka bíleigenda mánaðarlega, ef því er að skipta.  Í Bandaríkjunum eru nú gerðar tilraunir með þetta, og er veggjaldið um 1,1 ISK/km.  Þar er reyndar einnig fylgzt með staðsetningu og hærra gjald tekið í borgum, þar sem umferðartafir eru. Á Íslandi yrði meðalgjaldið um 5,1 ISK/km m.v. 35 miaISK/ár framlög ríkisins til vegamála.  

 


Bloggfærslur 17. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband