Raforkumál í öngstræti

Í hverri viku ársins verður tjón hjá viðskiptavinum raforkufyrirtækjanna í landinu, sem rekja má til veiks raforkukerfis. Oft er það vegna þess, að notendur eru aðeins tengdir einum legg við stofnkerfið, þ.e. nauðsynlega hringtengingu vantar.

Nýlegt dæmi um þetta varð austur á Breiðdalsvík í viku 34/2017, þar sem stofnstrengur bilaði með þeim afleiðingum, að straumlaust varð í 7 klst.  Auðvitað verður tilfinnanlegt tjón í svo löngu straumleysi, og hurð skall nærri hælum í brugghúsi á staðnum, þar sem mikil framleiðsla hefði getað farið í súginn, ef verr hefði hitzt á.  

Flestar fréttir eru af tjóni hjá almennum notendum, en stórnotendur verða þó fyrir mestu tjóni, því að þar er hver straumleysismínúta dýrust.  Þar, eins og víðar, er líka viðkvæmur rafmagnsbúnaður, sem ekki þolir spennu- og tíðnisveiflur, sem hér verða nokkrum sinnum á ári.  Getur þetta hæglega leitt til framlegðartaps yfir 11 MISK/ár og svipaðrar upphæðar í búnaðartjóni.

Á þessari öld hafa Vestfirðingar orðið harðast fyrir barðinu á raforkutruflunum á stofnkerfi landsins og  straumleysi, enda er landshlutinn háður einum 132 kV legg frá Glerárskógum í Dölum til Mjólkárvirkjunar, og sú virkjun ásamt öðrum minni á Vestfjörðum annar ekki rafmagnsþörf Vestfirðinga.  Hún er aðeins 10,6 MW, 70 GWh/ár eða um þriðjungur af þörfinni um þessar mundir. Þess ber að geta, að talsverður hluti álagsins er rafhitun húsnæðis, sem gerir Vestfirðinga að meiri raforkukaupendum en flesta landsmenn í þéttbýli.

Vestfirðingar verða árlega fyrir meiri truflunum og tjóni á búnaði og framleiðslu en flestir aðrir af völdum ófullnægjandi raforkuframleiðslu og flutningskerfis.  Til úrbóta er brýnt að koma á hringtengingu á Vestfjörðum.  Beinast liggur við að gera það með 132 kV tengingu Mjólkárvirkjunar við nýja virkjun, Hvalárvirkjun, 50 MW, 360 GWh/ár, í Ófeigsfirði á Ströndum.  Þessa nýju virkjun, sem er í nýtingarflokki Rammaáætlunar III, þarf jafnframt að tengja við nýja 132 kV aðveitustöð í Ísafjarðardjúpi, sem Landsnet þarf að reisa og tekið getur við orku frá fleiri vatnsaflsvirkjunum þar í grennd og veitir kost á hringtengingu Ísafjarðarkaupstaðar og allra bæjanna á Norður- og Suðurfjörðunum. Með því jafnframt að leggja allar loftlínur, 60 kV og á lægri spennu, í jörðu, má með þessu móti koma rafmagnsmálum Vestfirðinga í viðunandi horf. Viðunandi hér er hámark 6 straumleysismínútur á ári hjá hverjum notanda að meðaltali vegna óskipulagðs rofs. 

Þegar raforkumál landsins eru reifuð nú á tímum, verður að taka fyrirhuguð orkuskipti í landinu með í reikninginn.  Án mikillar styrkingar raforkukerfisins er tómt mál að tala um orkuskipti. Það er mikil og vaxandi hafnlæg starfsemi á Vestfjörðum, sem verður að rafvæða, ef orkuskipti þar eiga að verða barn í brók.  Aflþörf stærstu hafnanna er svo mikil, að hún kallar á háspennt dreifikerfi þar og álagsaukningu á að gizka 5-20 MW eftir stærð hafnar.  Öll skip í höfn verða að fá rafmagn úr landi og bátarnir munu verða rafvæddir að einum áratug liðnum.

Laxeldinu mun vaxa mjög fiskur um hrygg og e.t.v. nema 80 kt/ár á Vestfjörðum.  Það verður alfarið rafdrifið og mun e.t.v. útheimta 30 MW auk álagsaukningar vegna fólksfjölgunar, sem af því leiðir.  Fólkið á sinn fjölskyldubíl, reyndar 1-2, og rafknúin farartæki á Vestfjörðum munu útheimta 20 MW.  Fólksfjölgun til 2030 gæti þýtt álagsaukningu 10 MW.  Alls gæti álagsaukning á raforkukerfi Vestfjarða á næstu 15-20 árum vegna atvinnuuppbyggingar, fólksfjölgunar og orkuskipta orðið um 100 MW.

Við þessu verður að bregðast með því að efla orkuvinnslu í landshlutanum og hringtengja allar aðveitustöðvar á svæðinu.  Dreifikerfið þarf eflingar við til að mæta þessu aukna álagi, og allar loftlínur 60 kV og á lægri spennu þurfa að fara í jörðu af rekstraröryggislegum og umhverfisverndarlegum ástæðum.  

 

 

 

 


Bloggfærslur 27. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband