Efnahagsstefnan og vinnumarkaðurinn

Efnahagskafli stjórnarsáttmálans er furðulega stuttur.  Á eftir honum kemur enn styttri kafli um vinnumarkaðinn.  Þetta sætir undrun í ljósi mikilvægis málaflokksins fyrir öll landsins börn.  Kaflinn hefst þannig:

"Efnahagslegur styrkur er undirstaða þess, að treysta megi til framtíðar samfélagslegan stöðugleika, velsæld og lífsgæði.  Ríkisstjórnin mun leggja áherzlu á traustar undirstöður í ríkisfjármálum, sem gefa tækifæri til að byggja upp og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir.  Nefnd um endurskoðun peningastefnunnar mun ljúka störfum, og í kjölfarið verða gerðar nauðsynlegar breytingar á ramma stefnunnar."

Hverjar eru forsendur "efnahagslegs styrks" ?  Þær eru arðsöm nýting náttúruauðlinda landsins, sem eru meginundirstaða útflutningsgreinanna.  Öflugar útflutningsgreinar, sem tryggja landsmönnum jákvæðan viðskiptajöfnuð, eru sem sagt undirstaða "efnahagslegs styrks".  Þessar útflutningsgreinar eru hérlendis sjávarútvegur, iðnaður og ferðaþjónusta.  Ekki má gleyma, að landbúnaðurinn sparar landsmönnum háar upphæðir, sem annars færu í enn meiri matvælainnflutning en raunin þó er.  Heilnæmi íslenzks landbúnaðar er vanmetinn af sumum, en heilnæmið er í raun ómetanlegt fyrir heilsufar landsmanna.

Velgengni íslenzks sjávarútvegs á sér margar skýringar, en meginástæðan er auðvitað hagstæðar aðstæður fyrir lífríki hafsins við Ísland, og það hefur verið vitað frá landnámi.  Afkastageta fiskveiðiflota, erlendra og innlends, ofgerði veiðistofnunum á síðustu öld.  Íslendingar leystu þann vanda með útfærslu fiskveiðilögsögunnar í nokkrum áföngum í 200 sjómílur og ruddu brautina í alþjóðlegri hafréttarlöggjöf.  

Þetta dugði þó ekki til, og var þá tekið upp kerfi, sem bæði fækkaði innlendum útgerðum og veiðiskipum, s.k. kvótakerfi.  Þetta kerfi, aflahlutdeildarkerfi á skip, þar sem aflamark er ákvarðað með aflareglu, nú 20 %, af vísindalega ákvörðuðum veiðistofni, hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu (ICES) sem umhverfislega sjálfbært fiskveiðistjórnunarkerfi, og allt bendir til, að það sé efnahagslega sjálfbært líka.

Sjávarútvegurinn er máttarstólpi dreifðrar byggðar með ströndum fram, og með kvótakerfinu fóru þær sumar halloka, eins og við mátti búast.  Nú eru sumum þessara byggða að opnast ný tækifæri með fiskeldi, og það er skylda stjórnvalda að sýna þessari grein jákvætt viðmót, því að hún mætir óverðskuldaðri óvild.  Hún mun þá senn öðlast þjóðhagslegt mikilvægi og verða ein af öflugustu stoðunum undir gjaldeyrisöfluninni og stoð og stytta byggðanna, þar sem henni er leyft að starfa.  

Grundvöllur öflugs útflutningsiðnaðar á Íslandi er hagkvæm raforka, unnin með sjálfbærum hætti úr fallorku vatns og úr mismunandi sjálfbærum forðageymum jarðgufu. Rafvæðing landsins gekk hægt, þar til Viðreisnarstjórnin dembdi sér í djúpu laugina, fékk samþykki Alþingis fyrir stofnun Landsvirkjunar 1965, og árið eftir kom naumlegt og sögulegt samþykki Alþingis fyrir stofnun ISAL-Íslenzka Álfélagsins, sem lagði grunninn að fyrstu stórvirkjun landsins og 220 kV flutningslínum þaðan og til höfuðborgarsvæðisins.

Samningurinn var harðlega gagnrýndur á sinni tíð, en hann reyndist gerður af meiri framsýni en andstæðingarnir áttuðu sig á.  Þessi orkuviðskipti, sem voru til 45 ára, og hafa verið framlengd að breyttu breytanda í 25 ár, lögðu grunn að nútímalegu og öflugu raforkustofnkerfi á SV-landi, en aðrir landshlutar hafa setið eftir, og það er ekki vanzalaust að hálfu yfirvaldanna. Doðinn yfir raforkuflutningsmálum landsins gengur ekki lengur, enda verða orkuskiptin aldrei barn í brók, nema yfirvöld orkumála girði sig í brók og taki til hendinni í þágu íbúanna, sem vantar rafmagn af góðum gæðum.    

Nú hefur frétzt af nýlegri tilskipun frá ESB um orkumál, sem ætlunin er að innleiða í Noregi og á Íslandi árið 2018.  Orkumálayfirvöld á Íslandi hafa enn ekki áttað sig á, hversu hættuleg þessi tilskipun er, en með innleiðingu hennar fær ACER-Orkusamstarfsstofnun ESB - úrslitavald um þau orkumálefni hvers lands, sem hún skilgreinir sjálf sem "sameiginleg verkefni"

Þetta mál minnir á söguna af því, er Noregskonungur falaðist eftir Grímsey af Íslendingum.  Guðmundur, ríki, taldi enga meinbugi á því vera að láta kóngi eftir Grímsey, en Þórarinn Nefjólfsson benti á hættuna, sem var fólgin í því, að kóngsmenn færu á langskipum þaðan og hertækju Ísland.  Þá ætla ég, sagði Þórarinn, efnislega, að þröngt muni verða fyrir dyrum hjá mörgum kotbóndanum.  

Nákvæmlega sama er uppi á teninginum, ef Íslendingar innleiða þessa orkutilskipun í lagasafn sitt.  Þá getur ESB með beinum fjárhagslegum hætti átt frumkvæði að lagningu sæstrengs frá Íslandi til útlanda, stofnað hér orkukauphöll og leyft hverjum sem er innan EES að bjóða í alla raforku, sem ekki er bundin með langtímasamningum, og ACER getur bannað nýja slíka samninga og framlengingu gamalla.  Gangi þetta eftir, má ætla, að þröngt verði fyrir dyrum margra fyrirtækja og heimila hérlendis, því að ekki mun framboð raforku vaxa við þetta, og verðið mun rjúka upp í evrópskar hæðir, sem hæglega getur merkt tvöföldun.    

Það er ekkert minnzt á þetta stórmál í stjórnarsáttmálanum. Það á líklega að læða því, illu heilli, í gegnum þingið, en er meirihluti þar fyrir slíku stórfelldu fullveldisframsali ?

Aftur á móti er skrifað í Stjórnarsáttmálann, að "Þjóðarsjóður [fyrrverandi þingmaður í Kraganum nefndi hann Þjóðbrókarsjóð í blaðagrein] verður stofnaður utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni.  Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum."

Þetta er fallegt og göfugt stefnumið, en hvers virði er öflugur "Þjóðbrókarsjóður", ef atvinnulífið sjálft verður ein rjúkandi rúst ?

Í Noregi er hafin mikil barátta gegn samþykki Stórþingsins á þessum orkumarkaðslagabálki ESB.  Samkvæmt skoðanakönnunum er meirihluti Norðmanna andsnúinn henni.  Með aukinni umræðu og upplýsingagjöf munu línur skýrast.  Það er mikið í húfi.  Höfnun eða frestun á samþykki mun að öllum líkindum þýða útskúfun úr EES. Þess vegna er þessi undirlægjuháttur í málinu, en farið hefur fé betra.  

 

 

 

 


Bloggfærslur 12. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband