Ríki, borg og húsnæðismálin

Húsnæðiskafli stjórnarsáttmálans frá nóvember 2017 er kyndugur.  Þar stendur í upphafi:

"Öruggt húsnæði, óháð efnahag og búsetu, er ein af grundvallarforsendum öflugs samfélags.  [Hér er líklega átt við fjárhagslegt húsnæðisöryggi, en öryggi húsnæðis má ekki síður tengja við verkfræðilega hlið húsnæðis, heilsusamlegt húsnæði eða burðarþolslega traust, t.d. gagnvart jarðskjálftum-innsk. BJo.]  

Í því samhengi skiptir hvað mestu, að hagstjórn stuðli að áframhaldandi lækkun vaxta. [Af þessu er ljóst, að ríkisstjórnin óskar eftir lækkun vaxta.  Nú hefur fyrsta vaxtaákvörðun Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands eftir stjórnarskiptin farið fram, og hélt hún stýrivöxtum sínum óbreyttum, 4,25 %.  Ríkisstjórnin fer ekki vel af stað, hvað þetta varðar, því að hún er með þenslufjárlög 2018, þar sem hún stefnir á að auka ríkisútgjöldin hlutfallslega meira en nemur árshagvexti 2017 og 2018 samkvæmt áætlun. Þá hækkar hún verð á vöru með viðbótar gjaldtöku, sem fer rakleitt inn í vísitölu neyzluverðs. "Er hun inte klog ?"  Útgjöld ríkisins eru áformuð um miaISK 25 of há árið 2018 til að "hagstjórn stuðli að áframhaldandi lækkun vaxta"-innsk. BJo.]

Hingað til hafa ríkisstjórnir aðallega örvað eftirspurnarhlið húsnæðismarkaðarins, en hér örlar þó á skilningi á því, hvert núverandi vandamál húsnæðismarkaðarins er.  Það er of lítið framboð nýrra íbúða, síðan hagkerfið tók að rétta úr kútnum árið 2011. 

Í sveitarfélögum, þar sem húsnæðisverð er yfir kostnaði við nýtt húsnæði, getur ríkið lítið annað gert til að örva framboðið en að selja sveitarfélögunum land í eigu ríkisins, sem þau geta breytt í lóðir.  Það hefur ríkið gert á undanförnum árum, t.d. í Vatnsmýrinni og á Vífilsstöðum í Garðabæ.

Öðru máli gegnir í sveitarfélögum, þar sem húsnæðisskortur ríkir, en verðið er enn undir húsnæðiskostnaði.  Þessi staða er uppi t.d. á sunnanverðum Vestfjörðum, þar sem vaxandi starfsemi fiskeldisfyrirtækja hefur valdið langþráðri fjölgun fólks og góðum kaupmætti. Til úrlausnar getur ríkið stofnað nýjan lánaflokk innan Íbúðalánasjóðs með það hlutverk að veita íbúðakaupendum/húsbyggjendum hagstæðari lán en almennt gerist á markaðinum og/eða veitt lántakendum, sem festa kaup á húsnæði í slíkum sveitarfélögum, rétt til að draga vaxtagreiðslur vegna öflunar húsnæðis frá tekjum á skattframtali til að örva byggingaráhugann, þar til húsnæðisverðið fer upp fyrir stofnkostnað nýs húsnæðis.    

Það er óþarfi hjá höfundum húsnæðiskafla stjórnarsáttmálans að kvarta undan skorti á greiningum og gögnum um húsnæðismarkaðinn, a.m.k. hvað höfuðborgarsvæðið varðar. Helgi Vífill Júlíusson birti baksviðs í Morgunblaðinu 13. desember 2017 viðtal við Ásdísi Kristjánsdóttur, forstöðumann efnahagssviðs SA, þar sem mjög greinargóðar upplýsingar um framboð og eftirspurn á húsnæðismarkaðinum komu fram:

"Við sjáum ekki betur en framboðsskorturinn muni fara vaxandi á næstu þremur árum, ef miðað er við talningu Samtaka iðnaðarins og áætlaða íbúðaþörf á næstu árum.

Að okkar mati er húsnæðisvandinn fyrst og fremst framboðsskortur, og ef fram fer sem horfir, mun skorturinn aukast á næstu árum.  Það þarf því að grípa til einhverra ráða strax til að auka framboð íbúða til að unnt sé að mæta væntri íbúðaþörf.  Að öðrum kosti mun skortur á framboði einfaldlega ýta undir frekari hækkun íbúðaverðs að öðru óbreyttu.

Á það hefur verið bent, að þétting byggðar sé tímafrek aðgerð [og dýr-innsk. BJo], og fyrstu vísbendingar þess efnis eru nú að koma fram. Ef miðað er við 2 síðustu talningar Samtaka iðnaðarins, þá er að hægja á áætluðu framboði um 800 íbúðir fram til ársins 2020.  Það virðist ganga hægar að koma nýju framboði á markaðinn.  

Lítið atvinnuleysi og skortur á vinnuafli leiðir til fjölgunar á erlendu vinnuafli.  Það, sem af er þessu ári, eru aðfluttir umfram brottflutta nú þegar 7000 manns."

Á höfuðborgarsvæðinu verða aðeins fullgerðar um 1200 íbúðir árið 2017, en hefðu þurft að vera a.m.k. 3000 til að fullnægja þörfinni, og þörf er fyrir 10´000 íbúðir á 3 ára tímabili, 2018-2020.  Með horfum á enn meira sleifarlagi, sem nemur 300 íb/ár, á höfuðborgarsvæðinu, er hins vegar útlit fyrir uppsafnaða þörf fyrir a.m.k. 7000 íbúðir við árslok 2020. 

Sleifarlagið hefur leitt til 93 % hækkunar íbúðaverðs síðan 2011.  Á sama tíma hafa laun hækkað um 65 % og vísitala neyzluverðs um 22 %.  Mjög mun hægja á raunlaunahækkunum úr þessu, en með sama ráðslagi munu verðhækkanir á íbúðum halda áfram langt umfram hækkun kaupmáttar.  Það er afleitt útlit fyrir kaupendur fyrstu íbúðar og eiginlega óásættanlegt fyrir stjórnvöld í landinu, sbr stjórnarsáttmálann.  

Þessa hörmulegu stöðu verður að skrifa aðallega á klúður borgaryfirvalda í skipulags- og lóðamálum.  Þau hafa einbeitt sér að þéttingu byggðar, en ekki gætt að því að viðhalda nægu lóðaframboði með því að brjóta nýtt land undir byggð.  Borgaryfirvöld láta hér stjórnast af hugmyndafræði, sem byrgir þeim sýn á raunveruleikann.  Raunveruleikinn er sá, að það er ómögulegt að fullnægja þörfinni fyrir nóg af fjölbreytilegum íbúðum á sanngjörnu verði án þess að byggja upp úthverfi með allri þeirri þjónustu, sem þau útheimta.  Núverandi borgarstjórnarmeirihluti er ekki starfi sínu vaxinn.  Hann skortir þekkingu, nauðsynlega yfirsýn og þjónustulund við borgarbúa, þar sem hann situr uppi í fílabeinsturni og leggur á ráðin um að troða löngu úreltri og óviðeigandi hugmyndafræði sinni upp á lýðinn.     

 

 


Bloggfærslur 3. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband