Orkan á Innri markað EES

Það, sem raunverulega gerist við innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, er, að virkjanir Íslands, Noregs og Liechtenstein (EFTA-landanna í EES) fara á Innri markað EES.  Á þeim markaði er allt falt, ef "næg" greiðsla er í boði. Orkulindirnar eru fasttengdar orkuverunum á Íslandi og í Noregi, og þess vegna munu þær fylgja með í kaupunum. 

Reglur Innri markaðarins um, að ekki megi mismuna eftir þjóðernum innan EES, þegar viðskipti eða fjárfestingar fara fram, munu gilda um raforkufyrirtækin á Íslandi, nema einokunarfyrirtækið Landsnet og sérleyfisháða starfsemi dreifiveitnanna, en Landsreglarinn, handlangari ESB innan orkugeirans, mun hins vegar annast eftirlit og reglugerðaútgáfu með þessum fyrirtækjum og annast eftirlit með raforkumarkaðinum.    

Þetta ásamt því að láta viðskipti með raforkuna sjálfa, nema með raforku, sem bundin er með langtímasamningum, fara fram samkvæmt reglum Innri markaðarins, er höfuðatriði þessa máls, en í málflutningi ráðuneyta iðnaðar- og utanríkismála, svo og í minnisblöðum og greinargerðum, sem þau panta, er hreinlega ekki minnzt á þessi kjarnatriði málsins, hvað þá hinn nýja eftirlitsaðila, Landsreglarann.    

Þess vegna var það hvalreki fyrir þá, sem hafna vilja þessum Þriðja orkupakka, að fá sérfræðing í Evrópurétti, prófessor við háskólann í Tromsö, Peter Örebech, til að tjá sig um greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, BTP, lögmanns, sem hann vann fyrir iðnaðarráðherra um áhrifin af innleiðingu Þriðja orkupakkans á íslenzka hagsmuni.  Í ritgerð prófessorsins kom auðvitað í ljós, að áhrifin verða mjög mikil og öll neikvæð fyrir fullveldi landsins, þvert á niðurstöðu BTP. Gagnrýni prófessorsins verður senn birt opinberlega, en Heimssýn hefur látið þýða hana.  

Hér kemur lokagrein ritgerðar prófessors Örebechs í lauslegri þýðingu pistilhöfundar:

"Í öðru lagi fullyrðir BTP, lögmaður, að ekki komi til beitingar reglna í EES-samninginum, undirköflum 11, 12 og 13, af því að EES-samningurinn - samkvæmt lögmanninum - spanni ekki viðskipti með rafmagn, þótt Ísland samþykki "þriðja orkupakkann", sbr orðalagið, að á meðan Ísland er ótengt við Innri markaðinn með sæstreng, séu nokkrar mikilvægar reglur í EES-samninginum ekki í gildi fyrir viðskipti með rafmagn.

Þetta er röng niðurstaða.  Það er ekkert haldbært til um það, að viðskipti með orku séu undanþegin ákvæðum EES-samningsins, heldur alveg þveröfugt. EES-samningurinn hefur frá samþykkt hans 2. maí 1992 innihaldið gerðir og tilskipanir um orku, sem EES-ríkin eru bundin af, sbr Viðauka IV Orku.  Efnið í viðaukanum hefur tekið breytingum í tímans rás, þar sem ESB hefur aflagt nokkrar reglur og samþykkt nýjar.  "Þriðji orkupakkinn" á að fara inn í þennan viðauka, ef Ísland samþykkir "pakkann".  Þetta er einfalt og augljóst.

Hér verður að bæta við, að vissulega eru í gildi strangar reglur um skylduna til að fara eftir ESB-gerðum og -tilskipunum: þótt EES-samningurinn sæti túlkunum við dómsuppkvaðningu íslenzkra dómstóla, þá er önnur staða uppi gagnvart framkvæmdavaldinu, þ.e.a.s. ríkisstjórn Íslands, ráðuneytum, ráðum og nefndum:

"Lagaígildi, sem er fjallað um í eða tekin inn í viðauka við þennan samning eða samþykktir EES-nefndarinnar, skulu vera bindandi fyrir samningsaðilana." (EES kafli 7.) 

Ákvarðandi verður þá, hvaða gerðir og tilskipanir EES-löndin óska eftir að fella inn í EES-samninginn, eða öðruvísi fram sett: ef Ísland óskar ekki eftir, að kaflar 11, 12 og 13 gildi skilyrðislaust um orkugeirann, verður Alþingi að synja "þriðja orkupakkanum" staðfestingar."

Hér sýnir prófessor Peter Örebech fram á, að með samþykkt "þriðja orkupakkans" virkjast öll ákvæði Innri markaðar EES um allan raforkugeirann frá orkulind til afurðarinnar, rafmagns.  Allt mun þetta geta gengið frjálst og hindrunarlaust kaupum og sölum og með öllu verður óheimilt að mismuna aðilum á markaði eftir þjóðernum innan EES.

Rafmagnið fer á uppboðsmarkað í orkukauphöll og virkjunarfyrirtæki og raforkusölufyrirtæki ásamt virkjunarleyfum og rannsóknarleyfum geta gengið kaupum og sölum.  Kærir ríkisstjórn Íslands sig um þetta ?  Ætlar Alþingi virkilega að leggja blessun sína yfir þetta ?  Mikill meirihluti kjósenda þessara sömu Alþingismanna er þessu algerlega andvígur. Áður en stórslys verður á fullveldis- og orkusviðinu hérlendis verða Alþingismenn að hafna Þriðja orkupakkanum og taka þar með ákvæði IV. viðauka EES-samningsins um orku úr sambandi fyrir Ísland.  Þau eru þar núna eins og tifandi tímasprengja fyrir sjálfstæði og efnahag landsins, eins og ráða má af gagnrýni prófessors Örebechs á "Greinargerð" Birgis Tjörva Péturssonar til iðnaðarráðherra.     

 

 

 


Bloggfærslur 11. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband