Af hræðsluáróðri og Evrópugerð um innviði

 Það kennir ýmissa grasa hjá þeim, sem vinna að eða styðja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  Þau grös eru þó bæði visin og rytjuleg, sem kenna má við gagnsemi fyrir Ísland af innleiðingunni.  Satt að segja alger eyðimörk.  Hitt er fjölbreytilegra, sem snýr að illspám og getsökum, einkum um viðbrögð ESB.  Skuggalegasta dæmið hafa jafnvel þingmenn gert sig seka um að nota, en það snýst um, að hafni Alþingi téðum orkupakka, þá verði Íslandi sparkað út af Innri markaði EES.  

Það væri fróðlegt að vita, hvaðan þessi dauðans della er upprunnin, og síðan étur hana hver upp eftir öðrum án þess að kanna ferlið, sem slík refsitillaga þarf að fara í innan ESB til að öðlast gildi, og gerir hún það þó fyrst að ári liðnu frá samþykkt.  

Gefum okkur eitt andartak í dæmaskyni, að Lúxemborgarinn Juncker, forseti Framkvæmdastjórnarinnar, sannfærist um, að bezt sé fyrir ESB og EES-samstarfið að segja upp EES-samninginum við Ísland.  Til að slík ákvörðun öðlist gildi hjá ESB, þurfa allir þrír meginarmar ESB, Framkvæmdastjórn Junkers, Leiðtogaráð Pólverjans Donalds Tusk og Evrópuþingið að samþykkja slíka tillögu samhljóða.  Öll 28 aðildarríki ESB verða að samþykkja slíka tillögu, til að hún öðlist gildi.

Efnahagslegur ávinningur ESB af slíkri ákvörðun yrði enginn, það hlypi óhjákvæmilega snurða á þráð EES-samstarfsins vegna óánægju Norðmanna með slíkan yfirgang sambandsins, og málið yrði pólitískur hnekkir fyrir ESB ofan í BREXIT-uppákomuna.  Þess vegna eru alveg hverfandi líkur á slíkum viðbrögðum ESB.  Hugmyndin hér uppi á Íslandi er algerlega vanhugsuð og reist á vanþekkingu á kerfi ESB og hagsmunagæzlu þeirra, sem þar ráða för.  Þeir hérlendir menn, sem slíkum hræðsluáróðri dreifa, berskjalda sig og geta hæglega orðið að aðhlátursefni fyrir vikið. Ekki meira um það að sinni.

Ef Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB verður samþykktur á Alþingi, bíður flóð Evrópugerða á orkusviði innleiðingar Alþingis að kröfu ESB.  Hér verður  Innviðagerðin frá 2013, Evrópugerð nr 347/2013, gerð að umfjöllunarefni.  Þegar hún hefur verið innleidd í kjölfar "pakkans", þá myndast brimbrjótur fyrir áhugasöm fyrirtæki innan EES um lagningu sæstrengs fyrir samþykki leyfisumsókna sinna. 

 Umræddar gerðir hafa verið settar í bið hjá Sameiginlegu EES-nefndinni, þar til af inngöngu EFTA-landanna verður í ACER (með áheyrnaraðild), en enginn þarf að velkjast í vafa um vilja utanríkisráðuneytisins til að samþykkja þær þar og Alþingis að staðfesta, ef Þriðji orkupakkinn verður staðfestur á annað borð.  Þess vegna er beinlínis villandi að líta á "pakkann" sem einangrað fyrirbæri.  Það verður að skoða áhrif hans í samhengi við allar reglur Innri markaðarins og í samhengi við allar nýjar gerðir á orkusviði frá útgáfu "pakkans" 2009.  

Samkvæmt 347/2013 gildir:

  1. PCI-verkefni (Projects of Common Interest, þ.á.m. Ice-Link, sæstrengur til Íslands), samþykkt af ENTSO-E, samtökum rafmagnsflutningsfyrirtækja í Evrópu, þar sem m.a. eru Landsnet og norska Statnett, skulu samkvæmt kafla 7 í Innviðagerðinni njóta algers forgangs við áætlanagerð, einnig í Kerfisáætlunum hvers lands, hér Landsnets,og við afgreiðslu leyfisumsókna, sem verður formlega á hendi Orkustofnunar hér.
  2. Fyrir PCI-verkefni skulu, samkvæmt kafla 10, ekki líða meira en 18 mánuðir frá afhendingu leyfisumsóknar til afgreiðslu hennar. Afgreiðslutímann má framlengja um 9 mánuði, en til þess þarf góðan rökstuðning.
  3. Grundvöllur samþykktar eða höfnunar er samfélagslegur ágóði.  Samfélag í þessu sambandi eru ESB- og EFTA-ríkin. Samkvæmt kafla 11 skulu þessi samtök raforkuflutningsfyrirtækja, ENTSO-E, útbúa matsreglur umsóknar, og þær skulu hljóta samþykki ACER og staðfestingu Framkvæmdastjórnar ESB.  ENTSO-E er þannig verkfæri ESB og eins konar flutningsfyrirtæki þess.  
  4. Ef PCI-verkefni rekst á hindrun í einhverju landi, skal, samkvæmt kafla 6, útnefna evrópska samræmingaraðila, sem reyna að ná sáttum, en óleyst deilumál verða útkljáð innan vébanda ACER.
  5. Útnefna skal faglega hæfan aðila í hverju landi, [hér er átt við Landsreglarann, sem starfa mun eftir samræmdum ESB-reglum í öllum ESB/EFA löndunum, utan Sviss], sem skal bera faglega ábyrgð á og greiða götu umsóknar ásamt því að samræma málsmeðferð umsóknarinnar við matsreglurnar.   

Af þessu má draga þá ályktun, að Orkustofnun verður ekki leyft að draga lappirnar við mat á umsókn um millilandasæstreng, og hún mun verða að meta leyfisumsókn um sæstreng í nánu samstarfi við ábyrgan fagaðila, líkast til embætti Landsreglara, eftir samræmdum reglum ESB. Þannig er ljóst, að vilji íslenzkra stjórnvalda  mun alls ekki verða ráðandi við ákvarðanatöku um sæstreng til útlanda, heldur mat á samfélagslegum ágóða, sem reist er á samræmdum reglum ESB, og þar sem samfélagið er ekki Ísland, heldur EES. Að óreyndu má ætla, að öll PCI-verkefni verði samþykkt, því að verkefni komast á þá skrá aðeins að athuguðu máli að hálfu ACER. 

Ef Alþingi ákveður fyrir sitt leyti að banna samþykkt PCI-verkefni, er risið upp mikið deilumál á milli Íslands og ESB.  Landsreglari mun að athuguðu máli tilkynna slíkt bann til ACER, og ACER gefur skýrslu til framkvæmdastjórnar ESB, sem sendir kvörtun um, að þingið leggi stein í götu framkvæmdar samþykkts PCI-verkefnis.  Framkvæmdastjórnin sendir þá kvörtunarbréf til ríkisstjórnar Íslands.  Ef hún þverskallast við að leggja fram frumvarp um afturköllun bannsins, þá mun deilumálið fara til EFTA-dómstólsins, sem dæma mun þetta mál samkvæmt Evrópurétti, og þá er ekki að sökum að spyrja.

Ef Orkustofnun hafnar umsókn og Landsreglarinn er á öndverðum meiði, þá fer ágreiningurinn til ACER, sem úrskurðar um málið.  Hvernig sem allt veltist, verður niðurstaða fullveldisafsalsins, sem í samþykkt Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum felst, sú, að íslenzk stjórnvöld verða að beygja sig fyrir ákvörðunarvaldi ESB um lagningu sæstrengs til landsins.  Við hverju bjuggust menn eiginlega ?  Að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn og allir hans fylgifiskar væru út í loftið og hefðu engin áhrif á Íslandi ?  O, sancta simplicitas !   

 

 


Bloggfærslur 17. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband