Raforkumarkaðurinn og Þriðji orkupakkinn

Á fundi SES (Samband eldri sjálfstæðismanna) í Valhöll í hádeginu 10. október 2018 komu fram hjá gesti SES að þessu sinni, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ÞKRG, fáein atriði varðandi Þriðja orkupakkann, sem þarfnast leiðréttingar:

  1. ÞKRG kvað engar grundvallar breytingar verða á landshögum frá Öðrum orkupakka til Þriðja orkupakka.
  2. ÞKRG kvað engar breytingar verða á raforkumarkaðnum án sæstrengs.
  3. ÞKRG mun ekki samþykkja framsal auðlinda.
  4. KKRG telur tveggja stoða lausn EES-samnings grundvallar atriði.
(1)
Samkvæmt prófessor Peter Örebech, sem er norskur sérfræðingur í Evrópurétti, felur innleiðing Þriðja orkupakkans í sér, að allur íslenzki orkugeirinn lúti reglum Innri markaðar EES undir eftirliti Landsreglara. Þar með fer raforkumarkaðurinn skilyrðislaust í kauphöll og öll virkjanafyrirtækin og sölufyrirtækin verða á EES-markaði, þar sem ekki má mismuna eftir þjóðernum. Landsvirkjun verður óhjákvæmilega skipt um vegna hlutfallslegra yfirburða á innlenda markaðinum. Ekki má mismuna erlendum aðilum í EES við úthlutun rannsóknarleyfa og virkjanaleyfa.
Þetta mun allt gerast undir eftirliti Landsreglarans.
(2) 
Prófessor Peter Örebech (PÖ) hefur hrakið með sinni lögfræðilegu greiningu, sem finna má í viðhengi með þessari færslu, þá staðhæfingu, að nánast engar breytingar verði á raforkugeiranum íslenzka fyrr en sæstrengur hefur tengt íslenzka raforkukerfið við útlönd. PÖ kveður það fráleitt og færir fyrir því rök, sjá II. kafla, grein 1, að það, sem leysir öll ákvæði EES-samningsins um "frelsin 4" úr læðingi fyrir orkugeirann, verði innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn.  "Frelsin 4" eru sem sagt óvirk undir Öðrum orkubálkinum, en hvort sæstrengstenging er fyrir hendi við innleiðingu þess þriðja, breytir nákvæmlega engu um lagalega virkni hans á Íslandi. Þetta þurfa t.d. Alþingismenn að gaumgæfa rækilega.
 
Raforkuviðskipti verða markaðsvædd undir eftirliti Landsreglara.  Á Íslandi eru engar forsendur fyrir hendi til að stofna til markaðsdrifins raforkumarkaðar, sem gagnast gæti fjölskyldunum í landinu og fyrirtækjunum, enda verður hér óhjákvæmilega alltaf fákeppnismarkaður.  Samkvæmt ESB eru forsendur fyrir vel virkandi raforkumarkaði í þágu álmennings þessar, og þær verða allar að vera fyrir hendi:
A) Markaðurinn myndar hæfilegan hvata til að stýra fjárfestingum á hagkvæman hátt.   Á Íslandi myndast þessi hvati ekki fyrr en orkuverð er tekið að hækka vegna orkuskorts.  Þetta stafar af því, að orka frá nýjum virkjunum er dýrari í vinnslu en frá þeim eldri. Þessu er öfugt farið í raforkukerfum, sem að mestu eru knúin jarðefnaeldsneyti.  
 
B) Markaðurinn tryggi, að skammtíma jaðarkostnaður ráði vali á milli tegunda hráorku og framleiðenda.
Á Íslandi eru tegundir hráorku í megindráttum tvær, fallvatnsorka og jarðgufa. Þær eru eðlisólíkar, og virkjanir þeirra eru ólíkar að gerð.  Samkeppnishæfni vatnsorkuvera er miklu meiri, því að afl frá þeim er auðreglanlegt, en frá gufuverum torreglanlegt.  Skammtíma jaðarkostnaður vatnsorkuvera er mun lægri en gufuvera, nema þegar vatnsskortur blasir við í miðlunarlónum.  Valið í B er þess vegna bundið á Íslandi, og þetta getur á frjálsum markaði hæglega leitt til hraðrar tæmingar miðlunarlóna, á meðan jarðgufuverin eru vannýtt.
 
C) Aðföng hráorku verða að vera trygg.  Á Íslandi er þetta algerlega undir hælinn lagt.  Hráorka vatnsorkuveranna er háð duttlungum náttúrunnar, og stöðugleiki jarðgufuforðans á virkjunarstöðunum er óvissu undirorpinn.  Enginn veit með vissu, hver er sjálfbær aflgeta virkjaðs jarðgufusvæðis.
 
(D) Trygging skal vera fyrir virkni til hagsbóta fyrir notendur.   Raforkukerfi ESB eru hönnuð til að hafa nægt afl tiltækt á hverjum tíma.  Þar er þess vegna við venjulegar aðstæður ofgnótt afls.  Á Íslandi er þessu öfugt farið.  Hér eru virkjanir sniðnar við ákveðna orkuvinnslugetu í venjulegu árferði, en umframafl við fulla orkuvinnslu er sáralítið.  Tiltölulega jafnt álag á raforkukerfið allt árið um kring hefur þann kost, að hægt er að lágmarka fjárfestingu í uppsettu afli í hverri virkjun og mjög há nýting verður á véla- og spennaafli virkjananna.  Þetta veldur umtalsvert lægri orkuvinnslukostnaði en ella, en það má hins vegar lítið út af bera.  
 
(E)  Trygging skal vera fyrir eðlilegri samkeppni.  Þetta þýðir, að mörg fyrirtæki eru innan hverrar orkugreinar, t.d. kolaorkuver, gasorkuver o.s.frv.  Þessu er alls ekki til að dreifa á Íslandi, þar sem raforkunotendur verða alltaf að búa við fákeppni.
 
Þrátt fyrir, að engin þessara 5 forsendna fyrir vel virkandi markaðskerfi til hagsbóta fyrir raforkunotendur sé uppfyllt, þá lagði ESB samt ríka áherzlu á það í Sameiginlegu EES-nefndinni, að öll EFTA-ríkin í EES innleiddu hjá sér Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB.  Það sýnir svart á hvítu, að gjörningurinn er ekki ætlaður til að bæta hag Íslendinga, heldur miklu líklegar til að setja orkulindir Íslands á sameiginlegan raforkumarkað EES. Hagsmunir orkunotenda í ESB verða þá hafðir í fyrirrúmi, en hagsmunum orkunotenda á Íslandi verður þannig óhjákvæmilega fórnað.  Það mun t.d. koma fram í sveiflukenndu og yfirleitt hærra raforkuverði.  Vandamálið, þ.m.t. verðhækkanir, fyrir innlenda notendur mun svo magnazt, ef sæstrengur verður lagður til landsins.  Magntakmarkanir á útflutningi raforku eru óleyfilegar á Innri markaði EES.  Til þeirra verður ekki gripið fyrr en hér verður allt komið í óefni, raforkuverð komið upp úr öllu valdi og orkuskortur blasir við (lón nálægt því að tæmast).  Þegar svo er komið, er mjög óvarlegt að reiða sig á "einn hund að sunnan".  
 
(3)
Annað þeirra meginatriða, sem lögfræðileg greining Peters Örebechs (í viðhenginu) leiddi til, var, að íslenzk stjórnvöld glata öllu forræði á orkulindunum og virkjununum í hendur hins frjálsa markaðar, Innri markaðar EES.  Samkvæmt greiningu PÖ tók Birgir Tjörvi Pétursson algerlega rangan pól í hæðina, þegar hann skrifaði í greinargerð sína:
"Þá varða reglur þriðja orkupakkans eða samþykkt sameiginlegu EES-nefndarinnar um aðlögun hans að samningnum ekki á nokkurn hátt eignarrétt á orkuauðlindunum á Íslandi."
 
PÖ sýnir fram á með vísun til dóma ESB-dómstólsins, sem er hinn endanlegi úrskurðaraðili um túlkun Evrópuréttarins, að þessu er þveröfugt farið.  Við samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálksins virkjast allar reglur Innri markaðarins, t.d. um frjálst flæði fjármagns, fyrir orkugeirann í heild sinni, og mismunun eftir þjóðernum verður óleyfileg á öllum sviðum viðskipta innan EES, þ.m.t. á sviði fjárfestinga.   
Hér er um grafalvarlegan misskilning a.m.k. tveggja íslenzkra lögfræðinga, sem tjáð hafa sig um þetta mál, að ræða, og sá misskilningur getur orðið landsmönnum dýrkeyptur.  Iðnaðarráðherra hefur lagt trúnað á þessa íslenzku lagatúlkun, en hún ætti að gefa gaum að því, sem Evrópuréttarfræðingurinn, Peter Örebech, hefur fram að færa, og þingmönnum ber að láta fullveldi Íslands á orkusviðinu njóta vafans, þegar þeir gera upp hug sinn.
 
(4)
Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins hafa sagt, að þau telji vera grundvallaratriði við framkvæmd EES-samningsins, að s.k. tveggja stoða kerfi hans sé virt af ESB, þ.e. að jafnræði sé með EFTA og ESB við innleiðingu og framkvæmd Evrópugerða og tilskipana.  Að túlka hlutverk ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, sem sjálfstæða spegilmynd af framkvæmdastjórn ESB er mjög langt seilzt í vafasamri túlkun varðandi framkvæmd Þriðja orkumarkaðslagabálksins, því að um það var samið, að ESA tæki enga sjálfstæða afstöðu til þeirra boða, sem frá ESB/ACER munu berast til viðkomandi Landsreglara, heldur mun ESA einfaldlega virka sem ljósritunarstofa fyrir boð í báðar áttir, og er þá ljóst, að fyrirkomulagið er sett upp, til að stjórnarskrárbrotin verði ekki jafnaugljós, bæði í Noregi og á Íslandi.
PÖ bendir á í greiningu sinni, að mjög sígi á ógæfuhliðina í þessum efnum með styrkingu ACER í "Orkuáætlun 2019-2021,Project of Common Interest", (PCI) og vitnar í eftirfarandi ESB-texta þessu til sönnunar:
 
"Árið 2013 kynnti TEN-E [Trans-European Energy Network-Electricity] stofnunin nýjan grunn fyrir þróun mjög mikilvægra orkuinnviða - PCI - , þar sem ACER var fengið það hlutverk að finna PCI-verkefni og að aðstoða Landsreglarana við að fást við fjárfestingarbeiðnir [t.d. sæstrengjaumsóknir-innsk. BJo] frá aðstandendum PCI-verkefna, þ.m.t. kostnaðarskiptingu fyrir millilandaverkefni."
 
PÖ bendir á, að gagnvart EFTA-ríkjunum sé tveggja stoða kerfið hundsað með þessu fyrirkomulagi og einnar stoðar kerfi ESB innleitt.  Þetta er brot á EES-samninginum, sem forysta Sjálfstæðisflokksins og annarra stjórnmálaflokka ættu að hugleiða vandlega.  
 
Eins og fram kom hér að ofan, mun innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálksins hafa í för með sér stórhættu á orkuskorti hérlendis að öllu óbreyttu. Þetta er grafalvarlegt fyrir afkomu fjölskyldna, fyrirtækja og fyrir hagkerfi landsins.  Samkeppnisstaða landsins um nýfjárfestingar í iðnaði, gagnaverum og annarri starfsemi, sem þarf að reiða sig á áreiðanlega raforkuafhendingu, fellur þá niður úr öllu valdi, sem þýðir, að fjárfestingar á þessu sviði munu þurrkast upp, og fyrirtæki munu jafnvel flýja af hólmi með sína starfsemi.  
Til mótvægis við þessa áhættu þarf að koma á laggirnar embætti Auðlindareglara, sem hefur vald til að stjórna miðlun úr lónum.  Slík inngrip í markaðinn eru algerlega bönnuð á Innri markaði EES, og þetta er ein ástæðan fyrir því, að hafna á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum hérlendis.
 
Prófessor Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, mun halda fyrirlestur um sitt sjónarhorn á Þriðja orkumarkaðslagabálkinn og greiningar sínar á helztu afleiðingum innleiðingar hans á Íslandi og í Noregi í Háskóla Íslands, Háskólatorgi, mánudaginn 22.10.2018 kl. 1715. Þar mun gestum gefast kostur á að spyrja prófessor Örebech um efni tengt þessum orkubálki ESB og skyldum Evrópugerðum ásamt túlkunum ESB-dómstólsins á þeim, sem enginn gaumur virðist hafa verið gefinn að hérlendis til þessa.    
 
 
 
 
 

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 19. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband