Fundur í HÍ með Peter Örebech 22.10.2018

Prófessor í lögum við Háskólann í Tromsö í Noregi, UIT, hélt ítarlegt erindi í einum af fyrirlestrarsölum Háskóla Íslands, mánudaginn 22. október 2018.  Þar hafa sennilega verið mætt tæplega 80 manns til að hlýða á hinn gagnmerka prófessor, sem einnig kom við sögu "Icesave-umræðunnar" á Íslandi og hefur einnig lagt okkur lið í hafréttarmálum og í sambandi við fiskveiðistjórnun, því að hann er jafnframt sérfræðingur í lögum, er varða fiskveiðar.  Peter veitti nokkrum fjölmiðlum viðtöl á meðan á stuttri dvöl hans á Íslandi stóð að þessu sinni, en hann hefur oft komið til Íslands áður og bregður fyrir sig "gammelnorsk", sem Norðmenn kalla tunguna, sem fornrit okkar eru rituð á.

Á fundinum tók m.a. til máls prófessor emeritus Stefán Már Stefánsson.  Hann lýsti yfir stuðningi við lögfræðilega röksemdafærslu prófessors Örebechs á fundinum, og ekki var annað á honum að heyra en hann væri kominn að þeirri niðurstöðu, að innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB fæli í sér Stjórnarskrárbrot á Íslandi.   

Á fundinum héldu líka erindi Vigdís Hauksdóttir, sem er eindreginn og skeleggur andstæðingur innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, og höfundur þessa pistils og má sjá erindi hans með enskum úrdrætti í viðhengi neðst á síðunni.

Að því bezt er vitað, er allur þingflokkur Miðflokksins sama sinnis og Vigdís í þessu máli.  Það er alveg áreiðanlegt, að langlundargeð sumra núverandi stuðningsmanna stjórnarflokkanna er tekið að dvína yfir því, hversu mjög þingflokkarnir draga lappirnar í þessu máli, og þingmenn eru ófúsir að gefa upp afstöðu í málinu.  Þetta mál getur orðið slíkur ásteytingarsteinn margra flokksmanna stjórnarflokkanna um allt land við flokka sína, ef allt fer á versta veg, að þeir söðli um í næstu kosningum og bregði sér á bak fáki þeim, er skreytir flokksmerki Vigdísar Hauksdóttur.

Það eru 4 grundvallaratriði í erindi prófessors Peters Örebech, sem skipta sköpum í umræðum og mati manna á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum:

  1. Tveggja stoða kerfinu er varpað fyrir róða:  Við málsmeðferð um val á verkefnum inn á PCI-verkefnaskrá ACER um millilandatengingar og síðan við mat á umsóknum um millilandatengingar og við úrskurð í deilumálum um millilandatengingar, t.d. um það, hvort samþykkja eða hafna eigi umsókn, er hreinræktuð einnar stoðar málsmeðferð við lýði, þ.e. EFTA-stoðin kemur hvergi við sögu.  
  2.  Gildistakan: hún hefur af talsmönnum "orkupakkans" verið sögð bundin tengingu millilandasæstrengs við raforkukerfi Íslands.  Peter Örebech hefur sýnt fram á, að það er rangt.  Við staðfestingu Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins taka öll ákvæði EES-samningsins um "fjórfrelsið" gildi fyrir íslenzka raforkugeirann.  Þar með verður stofnað hér embætti Landsreglara, sem verður reglusetningararmur ACER fyrir raforkugeirann á Íslandi.  Hann mun hafa eftirlit með stofnsetningu og starfrækslu orkukauphallar á Íslandi samkvæmt forskrift ESB og líklegt, að Nord Pool verði fengið til að setja hér upp útibú, en þar eru m.a. hin Norðurlöndin, Eystrasaltslöndin, Bretland og Þýzkaland.  Það er ljóst, að Landsvirkjun er hlutfallslega of stór til að samræmast samkeppnisreglum ESB á frjálsum markaði, en þótt Landsvirkjun verði skipt upp og íslenzka ríkið látið selja hana að hluta, þá mun hér alltaf ríkja fákeppni.  Samræmd orkulindastjórnun verður óleyfileg, og það ásamt ófullnægjandi hvötum til nýrra virkjana (án sæstrengs) getur hæglega leitt til ótímabærrar tæmingar lóns með orkuskorti og orkuskömmtun sem afleiðingu.  Áður mun þó raforkuverð í landinu rjúka upp úr öllu valdi.  Hérlendis er ekki hægt að setja á legg frjálsan raforkumarkað til hagsbóta fyrir almenning án samræmdrar orkulindastjórnunar.  
  3. Eignarhald orkulinda:  Því er haldið fram af talsmönnum orkupakkans, að eignarhald á orkulindum Íslands verði áfram á forræði íslenzkra yfirvalda.  Um þetta segir prófessor Örebech, að til að svo megi verða, verði ríkisstjórn og Alþingi að þjóðnýta allan vinnsluhluta raforkugeirans.  Það er engin fjárhagsleg skynsemi í því að binda mörg hundruð milljarða af fé ríkissjóðs í þessum geira aðeins til að geta samþykkt orkupakkann.  Í Noregi voru fyrir löngu sett lög um, að vatnsorkuver og vatnsréttindi þeirra í eigu einkafyrirtækja féllu til ríkisins að 80 árum liðnum án þess, að greiðsla kæmi fyrir.  Þessi eignarhaldstími var síðar styttur niður í 60 ár.  ESB-dómstóllinn dæmdi þetta löglegt samkvæmt Evrópurétti.  Eins og málum er nú háttað á Íslandi, verða þar engar hindranir í vegi erlendra orkufyrirtækja á EES-svæðinu að kaupa sig inn í virkjanafyrirtæki hérlendis, sem verða á markaðinum, og þannig öðlast nýtingarrétt á orkulindunum.  Það mun heldur ekki mega mismuna fyrirtækjum innan EES varðandi úthlutun á rannsóknarleyfum og virkjunarleyfum.  Inngrip stjórnvalda í orkumarkaðinn mun stríða gegn "fjórfrelsinu" eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.  
  4. Ákvörðunarvald um sæstreng: ESB þróar stöðugt kerfi til að lágmarka tímann, sem það tekur yfirvöld að samþykkja leyfisumsóknir fyrirtækja um millilandatengingar.  Fyrst forvelur ACER verkefni inn á s.k. PCI-skrá.  Þaðan fara þau í umsóknarferli hjá viðkomandi Landsreglara og yfirvaldi, sem gefur út leyfi eða hafnar umsókn, hér Orkustofnun.  Evrópugerð nr 347/2013 veitir forskrift um mat á umsóknum.  Ef Orkustofnun hafnar, en Landsreglari samþykkir, þá fer ágreiningurinn til úrskurðar ACER.  Inngrip Alþingis í þetta ferli gæti framkvæmdastjórn ESB kært fyrir EFTA-dómstólinum, og hann verður að dæma samkvæmt Evrópurétti, sem landslög víkja fyrir.  Prófessor Örebech tekur sláandi dæmi: "Við sjáum sem sagt, að gripið verður til reglnanna í "Þriðja orkupakkanum" við aðstæður, eins og þær, að t.d. finnski rafmagnsrisinn Fortun hafi í hyggju, í samstarfi við HS Orku, að leggja rör eða strengi frá Íslandi til t.d. Skotlands.  Setjum svo, að af hálfu íslenzka ríkisins verði lagzt gegn þessu.  Ef Landsreglarinn - framlengdur armur ESB á Íslandi - sem á að sjá til þess, að reglum ESB-réttarins verði framfylgt á Íslandi og sem íslenzk yfirvöld geta ekki gefið fyrirmæli - getur ekki leyst úr deilunni, verður um hana úrskurðað innan ACER, eða jafnvel í framkvæmdastjórn ESB samkvæmt ESB gerð nr 713/2009, sjá grein 4 d), sbr grein 8.1 a) og innganginn, málsgrein 10."  Það er þannig nú þegar kýrskýrt, að með því að staðfesta "Þriðja orkupakkann", þá afsalar Alþingi íslenzkum stjórnvöldum öllum heimildum til að koma í veg fyrir lagningu aflsæstrengs til Íslands, sem fullnægir skilmálum ESB/ACER.  Til hvers héldu menn eiginlega, að refirnir væru skornir ?  Barnaskapurinn og einfeldningshátturinn ríða ekki við einteyming, ef menn halda, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn og Orkustofnun ESB, ACER, séu bara upp á punt.  Það eru stórfelldir hagsmunir í húfi fyrir orkuhungrað Evrópusamband.  Því miður fara hagsmunir Íslands og ESB ekki saman í þessu máli, og það er tiltölulega auðútskýranlegt fyrir búrókrötum framkvæmdastjórnarinnar og stjórnmálamönnum leiðtogaráðs og ESB-þings. 

  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 25. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband