Landsreglarinn og sæstrengurinn

Í frétt Morgunblaðsins 13.11.2018, "Segir ráðuneytið ekki hafa tekið afstöðu", kemur fram furðulegt afstöðuleysi ráðherra til þess, hvort selja skuli rafmagn úr landi um sæstreng.  Það er þó stórmál, því að framtíðar nýting orkulinda landsins, og þar með þróun hagkerfisins, veltur á því, hvort orkukerfi landsins verður tengt við slíkan sæstreng eða ekki.  Slík þögn um stórmál vekur grunsemdir um undirmál.  Þegar einörð, en rakalega og þekkingarlega veikburða afstaða sama ráðuneytis iðnaðar til innleiðingar Orkupakka #3 er lögð við, þá er niðurstaðan sú, að yfirvöld orkumála á Íslandi séu af hreinni glópsku og glámskyggni að framselja ákvörðunarvald um ráðstöfun endurnýjanlegra orkulinda Íslands til Evrópusambandsins, ESB.

Þokkaleg innsýn fæst í hugarheim iðnaðarráðuneytisins með því að virða fyrir sér "spurningar og svör" ráðuneytisins um "orkupakkann" á vefsetri þess.  Þau ósköp eru til skammar, því að þar fara saman fáfræði um innihald og afleiðingar Orkupakka #3 og útúrborulegir tilburðir til útúrsnúninga og orðhengislsháttar.  Slíkt er með öllu óboðlegt að hálfu stjórnvalds, sem á að hafa trausta og faglega yfirsýn um orkumál landsins og meira eða minna fyrirsjáanleg áhrif innleiðingar erlendrar löggjafar hérlendis á þessu örlagaríka málefnasviði.

Það verður að berjast með kjafti og klóm gegn því, að þetta ráðuneyti fái þeim vilja sínum framgengt að leiða Orkustofnun ESB-ACER til öndvegis í Orkustofnun Íslands, OS, með því að fella hana alfarið undir embætti Landsreglara, eins og skilja má af "spurningum og svörum" ráðuneytisins.  Þar með verður OS verkfæri ESB, algerlega háð stefnumótun og úrskurðum ACER og óháð íslenzkum stjórnvöldum.  Þetta er verri forræðissvipting yfir orkumálunum en nokkurn hafði órað fyrir.  

Fyrrnefnd frétt um ráðleysi ráðuneytisins varðandi viðskipti við útlönd með rafmagn hófst þannig:

""Ráðuneytið hefur ekki átt frumkvæði að neinum fundum með fyrirtækinu og hefur hvorki lýst afstöðu sinni til sæstrengs né til tiltekinna verkefna eða hugmynda", segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, við Morgunblaðið og vísar þar til fyrirtækisins Atlantic SuperConnection, sem hefur verið að skoða möguleika á lagningu sæstrengs, Ice-Link, á milli Bretlands og Íslands."

 

Það er engu líkara af þessum orðum en ráðherrann sé þegar orðinn "stikk-frí" frá því að taka afstöðu til orkusölu úr landi um sæstreng, eins og ráðuneytið verður eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  Þetta enska fyrirtæki er með hástemmdar fyrirætlanir um að flytja orku eftir tveimur einpóla sæstrengum, sem að samanlagðri lestunargetu nema rúmlega helmingi alls uppsetts afls á Íslandi.  Í Noregi nemur útflutningur raforku innan við 10 % af vinnslugetu virkjana þar, og eru þeir þó fjölmargir og umframorka fyrir hendi flest ár í norska vatnsorkukerfinu. Hérlendis er umframorkan aðeins brot af flutningsgetu eins sæstrengs af minni gerðinni og mjög háð árferðinu; getur orðið engin og þar með skortur á ótryggðri orku, eins og hér varð síðast á árunum fyrir gangsetningu Búðarhálsvirkjunar, þegar til framleiðsluskerðinga kom víða um land vegna skorts á ótryggðri orku.

Í stað skæklatogs er iðnaðarráðuneytinu sæmst að kynna sér málefnið af kostgæfni og gefa t.d. gaum að eftirfarandi grein Elíasar Elíassonar, verkfræðings, í Morgunblaðinu 23. nóvember 2018,

"Þórdís Kolbrún, mundu landsreglarann" , en þar stendur m.a.:

"Það er einnig ljóst, að með viðbótar reglugerð ESB nr 347/2013 verður allt vald um það, hvort hér kemur sæstrengur eða ekki, tekið úr höndum íslenzkra stjórnvalda og fært í hendur fræmkvæmdastjórnarinnar[ESB].  Í samningaviðræðum um skiptingu kostnaðar á milli landa verður landsreglarinn síðan fulltrúi Íslands, en má þó ekki taka við fyrirmælum íslenzkra stjórnvalda, heldur verður að fylgja reiknireglum og viðmiðum, sem ESB setur einhliða.  Eftir sæstreng stýrir ACER útflutningi orku frá Íslandi."

Allt er þetta hárrétt hjá Elíasi, enda einfalt að sannreyna þetta fyrirhugaða ferli með því að kynna sér gögn ESB, s.s. téða Innviðagerð, sem verður óhjákvæmilegur fylgifiskur Orkupakka #3 við innleiðingu í lagasafnið.  Sú spurning hlýtur að vakna, hvaða kostnaður það er, sem ACER ákveður skiptingu á á milli landanna tveggja, sem verið er að tengja saman.  Vitað er, að orkuflutningsfyrirtæki landanna, hér Landsnet, verða sjálf að standa undir kostnaði við flutningsmannvirkin frá stofnkerfinu og að endabúnaði, en gildir hið sama e.t.v. um endabúnaðinn sjálfan og flutningstöpin á milli stofnkerfa landanna.  Þá fer nú að kárna gamanið fyrir litla Landsnet í þessum hráskinnaleik.

Það er fyrir neðan allar hellur og reyndar orðið til háborinnar skammar fyrir ríkisstjórnina, að á sama tíma fullyrðir ráðherra iðnaðarmála og lætur skrifa á vefsetur ráðuneytisins, að íslenzk stjórnvöld muni ráða því eftir innleiðingu Orkupakka #3 sem áður, hvort sæstrengur verður tengdur við raforkukerfi landsins eða ekki.  Hér er alveg furðuleg forstokkun á ferðinni og fáránleg ósvífni, sem hlýtur að hafa pólitískar afleiðingar.  Ráðherra, sem kann ekki fótum sínum forráð, þegar fjöregg þjóðarinnar er annars vegar, er ekki traustsins verður.  Ráðuneytið verður að snúa við blaðinu hið skjótasta, lýsa því yfir, að það treysti sér ekki til að mæla með innleiðingu Orkupakka #3, heldur styðji stefnu Framsóknarflokksins um, að leitað verði eftir undanþágu við ESB um innleiðingu "pakkans", og fáist hún ekki, muni ráðuneytið einfaldlega framfylgja vilja Alþingis í þessu máli.

Iðnaðarráðuneytið vill ekki kannast við Landsreglarann, sem fara mun með framkvæmdavald ESB á Íslandi, þótt ráðuneytið reyni á óburðugan hátt að telja almenningi trú um annað með því að benda á skipuritið, þar sem búið er í blekkingarskyni að troða Eftirlitsstofnun EFTA-ESA inn á milli Landsreglara og ACER.  Samt var um það samið, og það kemur fram í gögnum norsku ríkisstjórnarinnar til Stórþingsins, að ESA skyldi framvísa öllum gögnum óbrengluðum frá ACER til Landsreglara og til baka. 

Landsreglarinn verður valdamesta embætti á landinu á orkusviði, en samt algerlega óháður innlendum yfirvöldum.  Embættið hefur áhrif á hagsmuni lögaðila og einstaklinga og hefur sektarheimildir.  Er þá ekki augljóst, að um gauksunga í hreiðri íslenzkrar stjórnsýslu er að ræða, en tilvera þessa gauksunga er brot á Stjórnarskrá Íslands.  Iðnaðarráðuneytið þykist ekkert skilja.

Embætti Landsreglara er lýst í ESB-gerð nr 72/2009, og rekur Elías Elíasson hlutverkið m.a. þannig:

""a) að efla, í nánu samstarfi við stofnunina [ACER], eftirlitsyfirvöld annarra aðildarríkja [aðra landsreglara - innsk. BJo] og framkvæmdastjórnina, samkeppnishæfan, öruggan og umhverfislega sjálfbæran innri markað fyrir raforku í Sambandinu og skilvirkan markaðsaðgang fyrir alla viðskiptavini og birgja í Sambandinu og tryggja viðeigandi skilyrði fyrir skilvirka og áreiðanlega starfrækslu rafmagnsstofnkerfa að teknu tilliti til langtímamarkmiða." 

Það fer ekki á milli mála, að hér er verið að tala um að tengja landið við markaðssvæði ESB með sæstreng.  Það sama kemur oftar fram í ákvæðum um markmið landsreglara og einnig það, að landsreglaranum er ætlað að fylgja stefnu ESB í hvívetna."

 Það vitnar um purkunarlaus óheilindi í málflutningi iðnaðarráðuneytisins undir forystu Þórdísar Kolbrúnar, að ráðuneytið skuli hvorki vilja kannast við tilkomu Landsreglara eftir innleiðingu Orkupakka #3 né ofangreint ætlunarverk ESB um öfluga samtengingu allra aðildarlanda Orkusambands ESB, þ.e. aðildarlanda ACER. Það verður aðeins ein ályktun dregin af því, hversu ráðuneytið er utanveltu í málflutningi sínum.  Það er gjörsamlega marklaust.

Samanburður ráðuneytisins á stöðu Landsreglarans annars vegar og forstjóra Fjármálaeftirlitsins, Persónuverndar eða Samkeppniseftirlitsins hins vegar sýnir, svo að ekki verður um villzt, að ráðuneytið hefur enn ekki komizt til botns í því, hvert valdssvið Landsreglarans verður, hvað þá að ráðuneytisstarfsmenn átti sig á, hvaða afleiðingar það hefur, að æðsti valdsmaður orkumála á Íslandi verður í raun undir stjórn framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.  Blindur leiðir haltan í þessu dæmalausa ráðuneyti.  

Elías B. Elíasson fer ekki í neinar grafgötur með það, hvaða afleiðingar yfirstjórn Landsreglara á orkumálum landsmanna mun hafa, þótt ráðuneytið láti enn, eins og engar breytingar muni verða:

"Hvernig sem það er formlega séð, þá er hér um greiða, ótruflaða leið að ræða fyrir framkvæmdarvald ESB inn í orkuvinnslu úr auðlindum okkar, og eftir samþykkt 3. orkupakkans verða ekki settar neinar reglur um vinnslu úr orkuauðlindinni, sem hafa áhrif á framboð og flutning rafmagns, nema þær séu í samræmi við reglur landsreglarans, ákvæði orkupakkans eða stefnu ESB.  

Það merkir t.d., að sjálfstæðri auðlindastýringu verður ekki komið á eftir samþykkt þriðja orkupakkans.  Þarna er um að ræða verulegt framsal á valdi yfir auðlindinni, sem gerist strax við samþykkt orkupakkans, og telja margir landsmenn, að það sé brot á stjórnarskrá Íslands, hvað sem sumir lögfræðingar segja um hina formlegu hlið."

Það liggur í augum uppi, að geti stjórnvöld og Alþingi ekki hagað nýtingu auðlindarinnar að eigin vild, heldur verði að leggja allar tillögur í þeim efnum undir Landsreglarann, þá er búið að færa framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvörðunarvald yfir orkulindunum á silfurfati.  Hver einasti íbúi landsins finnur strax, að þetta getur fullvalda ríki, sem á mikið undir orkulindum sínum komið, ekki samþykkt.  Á þessu sviði sem öðrum tengdum þessum orkupakka er hegðun iðnaðarráðherra hegðun strútsins, þegar hann fær verkefni til úrlausnar: ráðherrann stingur hausnum í sandinn og afneitar viðfangsefninu, sem nú knýr dyra.  Þess vegna nýtur hún að líkindum núna ekki stuðnings meirihluta Alþingis í því orkupakkamáli, sem rekið hefur á fjörur hennar.

 


Bloggfærslur 26. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband