Liggur fiskur undir steini ?

Það er ljóst, að talsverður áhugi er bæði innan orkugeirans íslenzka og fjármálageirans á því að tengja aflsæstreng frá útlöndum við raforkukerfi landsins. Þetta kom síðast fram í viðtali í kvöldfréttum RÚV-Sjónvarps 24.11.2018 við forstjóra Landsnets, Guðmund Inga Ásmundsson.  Forstjóri Landsvirkjunar hefur kyrjað þennan söng, síðan hann settist í forstjórastólinn þar árið 2010, og árið 2017 gaf fjármálafyrirtækið Kvika út skýrslu, sem fegraði hlut sæstrengs meira en góðu hófi gegndi og sleppti ýmsum mikilvægum áhættuþáttum við strenginn, t.d. rekstrarlegs eðlis.

Þess er og skemmst að minnast, að fyrirtæki téðra forstjóra eru tilfærðir ásamt raforkuflutningsfyrirtæki Breta, National Grid, sem "sponsors" eða bakhjarlar "Ice Link", sem er 1200 MW sæstrengur á forgangsverkefnaskrá ACER-Orkustofnunar ESB á milli Suð-Austur Íslands og Skotlands, a.m.k. 1000 km vegalengd, sem þverar um 1,0 km hámarksdýpi. Fyrirtækið er kallað "National Grid Interconnector Holdings Ltd", og þessi sæstrengur yrði lengsti samfelldi sæstrengur sögunnar og sá, sem lagður er á mest dýpi. Forstjóri Landsvirkjunar hefur fullyrt, að tæknin ráði við verkefnið, en óvíst, hvað hann á við með því.  Það, sem strengfyrirtækin vinna að nú, er þróun á plasteinangrun, sem þolir svo háa jafnspennu (DC), að orkutöpin verði kostnaðarlega viðráðanleg fyrir þennan orkuflutning. Hefur Landsnet lagaheimild til að taka þátt í slíku fyrirtæki ?

Þá hefur enska fyrirtækið "Atlantic Superconnector" lýst fjálglega áformum um tvo einpóla 700 MW sæstrengi frá Íslandi til Norð-Austur Englands (Jórvíkurskíri) um 1500 km leið, og sennilega með flutningsmöguleika aðeins aðra leið, suður, enda rekur fyrirtækið áróður í Englandi fyrir þessu verkefni á grundvelli aukinnar endurnýjanlegrar orku, sem skapa muni ný störf á Englandi.  Kynning fyrirtækisins á viðskiptatækifærum þess á Íslandi líkist helzt óráðshjali á krá í Newcastle:

"Through a unique renewable energy partnership with Iceland, we can bring a near-limitless source of clean hydroelectric and geothermal power to the UK - all while delivering jobs, growth and investment opportunities to Britain´s world beating industrial heartland."

Gefur ekki auga leið, að hagkvæmara er fyrir hérlandsmenn að skapa störf, vöxt og laða hingað að fjárfesta með því að bjóða upp á endurnýjanlega orku hérlendis á hagstæðum kjörum í stað þess að flytja hana í rafstrengjum 1500 km leið með ærnum tilkostnaði og miklum orkutöpum ?

Fjármála- og efnahagsráðherra Íslands mun hafa kallað eftir handföstum gögnum frá brezkum stjórnvöldum um raforkuverð og samningstíma, sem þau vilji tryggja orkuseljendum á Íslandi, svo að hægt verði að gera áætlanir af einhverju viti hérlendis um sölu rafmagns inn á sæstreng.  Fullnægjandi tryggingar í þessa veru geta eða vilja brezk stjórnvöld varla gefa fyrir innflutning á rafmagni, þótt "grænt" sé.  Íslenzkt rafmagn mun að líkindum fara á Nord Pool orkukauphöllina, eins og rafmagn frá Noregi eða öðrum löndum til Bretlands. Nord Pool er viðtekin orkukauphöll fyrir Norðvestanverða Evrópu að hálfu ESB, og útibúi frá Nord Pool verður væntanlega komið upp hérlendis eigi síðar en 2020, þótt engar forsendur séu fyrir því, að slík orkukauphöll gagnist orkukaupendum hérlendis, heldur þvert á móti.  Orkukauphöll í anda ESB hérlendis er líkleg til að valda hér sveiflukenndu raforkuverði og umtalsverðri hækkun meðalverðs, því að hún tekur ekki tillit til sérstakrar samsetningar  orkukerfis (frumorkulinda) landsins og fákeppni og lítils fákeppnismarkaðar. 

Það hafa komið fram kenningar um það hérlendis, að á bak við áróðurinn fyrir inngöngu Íslands í Orkustofnun ESB-ACER með innleiðingu  Orkupakka #3 liggi annarlegar hvatir, þ.e.a.s. að fjárplógsmenn muni sjá sér leik á borði að leggjast á árarnar með Framkvæmdastjórninni um að samtengja alla Evrópu,  einkanlega til að nýta alla þá endurnýjanlegu orku, sem fáanleg er til raforkuvinnslu, og maka á því krókinn, ótæpilega. 

Eins og málum er háttað nú á frjálsum orkumarkaði, er ljóst, að slík tenging Íslands getur ekki orðið þjóðhagslega hagkvæm fyrir Íslendinga, þótt hún geti verið þjóðhagslega hagkvæm fyrir EES samkvæmt forskrift Evrópugerðar 347/2013, sem mælir fyrir um slíkt hagkvæmnimat.  Til þess liggja tvær ástæður.  Það verður líklega alltaf þjóðhagslega hagkvæmara að nýta orkuna innanlands til atvinnu- og verðmætasköpunar en að selja hana utan með ærnum flutningskostnaði, sem að lágmarki  nemur 80 USD/MWh að teknu tilliti til 10 % orkutapa í endabúnaði og streng.  Þótt orkuverð erlendis muni hækka á næsta áratugi, þá munu orkukræfar vörur eðli máls samkvæmt hækka líka, enda er 4 % árleg eftirspurnaraukning á áli og meiri á kísli.  Hin ástæðan er sú, að um miðja öldina munum við þurfa á öllum orkulindum landsins að halda, sem nú eru í nýtingarflokki Rammaáætlunar #3, vegna orkuskiptanna og fjölgunar íbúa landsins.  Tal um, að hér sé næg orka fyrir rafmagnsútflutning er þvaður eitt, nema ætlunin sé að kasta Rammaáætlun fyrir róða eða loka stórum verksmiðjum, sem nú standa undir a.m.k. fjórðungi af útflutningstekjum landsins.

Rafmagnsútflutningur kallar á mun fleiri virkjanir en nú eru í nýtingarflokki, og hann mun valda hér miklum hækkunum á rafmagnsreikningum fyrirtækja og heimila, jafnvel meira en tvöföldun, þegar þar að kemur.  Slíkt mun skerða lífskjör íslenzkrar alþýðu og svipta hana lifibrauðinu í hrönnum, því að samkeppnisgrundvellinum verður kippt undan margri starfseminni með slíkum kostnaðarhækkunum og rafmagnsútflutningur skapar hér sáralitla vinnu.  Útflutningur á rafmagni er þess vegna mjög óeðlileg ráðstöfun auðlinda þjóðarinnar.  Málflutningur um, að þolendum atvinnumissis megi bæta tjónið með greiðslum úr ríkissjóði af skatttekjum orkusölunnar er óboðlegt píp.  

Margir nestorar íslenzkra stjórnmála hafa gengið til liðs við það sjónarmið, að alls ekki eigi að rétta skrattanum litla fingurinn á sviði orkumála, því að þá muni hann óðar taka alla höndina, fara að ráðskast með orkunýtinguna (Landsreglarinn) og seilast til áhrifa við leyfisveitingar til áhugasamra sæstrengsfjárfesta. Þetta er allt saman borðleggjandi fyrir þá, sem á eigin spýtur kynna sér stefnumörkun ESB í gerðum þeirra og tilskipunum og virða fyrir sér framkvæmdina í raun, t.d. sæstrengslögn frá Ísrael um Kýpur og til Grikklands, en Ísraelsmenn fundu fyrir nokkrum árum gaslindir í lögsögu sinni, sem eru meiri en þeir telja sig hafa not fyrir, og breyta hluta þeirra í rafmagn.

Einn nestor íslenzkra stjórnmála, Guðni Ágústsson, reit 10. nóvember 2018 grein í Morgunblaðið, þar sem hann varpaði fram í fyrirsögn hinni tímabæru spurningu:

"Hverjir eru hagsmunir Íslands af þriðja Orkupakka ESB ?":

"Hvað sögðu Jón Baldvin og Peter T. Örebech ?  Jón Baldvin sagði á Útvarpi Sögu: "Við höfum ekkert með orkupakka ESB að gera, basta.  Þetta varðar ekki Ísland, og tæknilega kemur þetta Íslandi ekki við.  Við seljum enga orku til Evrópu og ætlum ekki að leggja sæstreng."  Svo bætti hann við: "Íslenzkir hagsmunir eru þeir að gerast aldrei aðilar að orkupakka ESB."  Og ennfremur, að sæstrengur sé draumur þröngsýnnar klíku, sem ein ætlar að græða á uppátækinu ásamt erlendum auðjöfrum.  Kom þetta og margt fleira skýrt fram í máli Jóns Baldvins."

Ef tvípóla sæstrengur til Bretlands með um 1200 MW flutningsgetu á að skila eigendum sínum þokkalegum arði, verður flutningsgjaldið að nema a.m.k. 80 USD/MWh, eigi hann jafnframt að standa undir kostnaði við endabúnað sinn og orkutöpin á leiðinni.  Þetta er svipað og heildsöluverð á raforku á Bretlandi nú um stundir.  Ekkert álag á verð raforku úr endurnýjanlegum orkulindum utan Bretlands er í boði þar núna og engar horfur á slíku.  Miðað við núverandi aðstæður fengist sáralítið fyrir rafmagn inn á streng og verð langt undir kostnaði frá nýjum virkjunum hér fyrir rafmagn til útflutnings. 

Raforkuverð á Bretlandi þarf að hækka yfir 50 % til að eitthvert viðskiptalegt vit (frá þröngu sjónarmiði séð) verði í útflutningi rafmagns héðan.  Ætla má, að það gerist, ef olíutunnan fer í USD 90, og slíkt getur vel orðið á næsta áratugi, ef ekki verður "gegnumbrot" í nýrri tækni til raforkuvinnslu, t.d. í þóríum-kjarnorkuverum. 

Þessi útflutningur verður samt ekki þjóðhagslega hagkvæmur fyrir Ísland, því að virðisaukinn af að nýta innlenda orku innanlands svarar til verðs fyrir raforku frá virkjun u.þ.b. 100 USD/MWh m.v. núverandi verðlag, og þá þurfa að fást a.m.k. 180 USD/MWh fyrir rafmagnið við strengendann Bretlandsmegin.  Slík 2,3 földun heildsöluverðs á rafmagni á Englandi er engan veginn í sjónmáli. 

Ef heildsöluverðið erlendis, reiknað í Bandaríkjamynt, verður hins vegar á bilinu 120-180 USD/MWh er hætt við, að þrýstingur aukist mjög hérlendis á tengingu sæstrengs við erlend raforkukerfi, en það mundi án nokkurs vafa valda hækkun á rafmagni innanlands, sem vissulega yrði mörgum atvinnugreinum þung í skauti og jafngildir lífskjaraskerðingu íbúa landsins.

Statnett (norska Landsnet) á allar millilanda raforkutengingar við Noreg.  Þær eru þannig í eigu ríkisins.  Norðmenn hafa svo miklar áhyggjur af, að ACER/ESB leyfi ekki þessa ríkiseinokun eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans, að Stórþingið gerði það að einu af 8 skilyrðum sínum fyrir samþykki "pakkans", að Statnett héldi eignarhaldi á öllum eldri millilandatengingum og fengi að eiga nýjar tengingar, t.d. NorthConnect frá Hardanger til Peterhead á Skotlandi, en einkafyrirtæki hefur nú sótt um leyfi fyrir þessum sæstreng.  Framkvæmdastjórn ESB hefur engu svarað, enda er hún óbundin af þessum skilyrðum Norðmanna.  NorthConnect verður prófmál á milli Norðmanna og ACER í mörgu tilliti, sérstaklega ef Landsreglari Noregs, RME, verður ósammála mati NVE, norsku orkustofnunarinnar, á leyfisumsókn NorthConnect.  

Guðni Ágústsson hélt áfram í téðri grein:

"Ennfremur ber að nefna hér erindi norska lagaprófessorsins Peter T. Örebech á fundi í Heimssýn, en samkvæmt orðum Örebechs er verið að stefna íslenzkum hagsmunum í orkumálum og þar með sjálfsákvörðunar- og fullveldisrétti þjóðarinnar í stórhættu, ef Alþingi samþykkir að innleiða regluverk ESB á bak við orkupakkann.  Geta má þess, að Örebech var einn þeirra, sem börðust með okkur gegn Icesave og er virtur sérfræðingur í Evrópurétti."

Fyrirlestur prófessors Peters Örebech, sem Guðni nefnir, var gagnmerkur, og það sem þar stóð upp úr var lögfræðileg sönnunarfærsla prófessorsins á þeirri meginbreytingu með Orkupakka #3 frá Orkupakka #2, að með hinum fyrrnefnda er innleidd einnar stoðar ákvarðanataka ESB fyrir millilandatengingar, þar sem EFTA (ESA) kemur hvergi nærri öðruvísi en að framsenda ákvarðanir til landsreglaranna á Íslandi, í Liechtenstein og í Noregi.  Ríkisstjórnir landanna hafa engan möguleika á að skipta sér af þessum boðum, sem eru bindandi fyrirmæli frá ESB-stofnunum eða framkvæmdastjórn ESB til landsreglaranna, og þeir fara með æðstu völd yfir lykilþáttum raforkumálanna í hverju landi.  Þetta er stjórnarskrárbrot á Íslandi og í Noregi.

Þegar við þetta bætist, að Orkupakki #3 virkjar greinar 11 og 12 í EES-samninginum fyrir millilandatengingar, en þær banna takmarkanir á inn- og útflutningi vöru, þjónustu, fjármagni og fólki, þá þarf ekki frekari vitnana við um það, að íslenzk stjórnvöld munu ekki lengur hafa síðasta orðið um það, hvort samþykkja á eða hafna tengingu íslenzka raforkukerfisins við önnur raforkukerfi innan EES. Það mun engu breyta um niðurstöðuna, þótt Alþingi samþykki bann við lagningu sæstrengs; ekki frekar en bann Alþingis 2009 við innflutningi á ófrosnu, hráu kjöti, ógerilsneyddri mjölk og eggjum tekið gilt hjá EFTA-dómstólinum 2017.  Evrópurétturinn ríkir nú yfir landinu á fjölmörgum sviðum, og ætlun ríkisstjórnarinnar hefur fram að þessu verið að gera hann allsráðandi á orkusviðinu líka.  Vonandi tekst að koma í veg fyrir slíkt stórslys, þótt glöggt standi.

 

 


Bloggfærslur 30. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband