Loftslagsátakið og orkupakki 3

Ríkisstjórn Íslands hefur með virðingarverðum hætti blásið til atlögu gegn þeirri loftslagsvá, sem nú steðjar að heiminum og varpað var nýlega ljósi á með frétt um, að hafið tæki upp mun meira koltvíildi, sem losað er út í andrúmsloftið, en vísindamenn hefðu áður gert sér grein fyrir og jafnframt, að hlýnun hafanna  væri meiri en búizt var við.  Þetta eru slæm tíðindi fyrir jarðarbúa og ekki sízt eyjarskeggja.

Áætlanir ríkisstjórnarinnar útheimta að sjálfsögðu nýjar virkjanir, því að kjarninn í baráttu ríkisins við losun gróðurhúsalofttegunda er rafvæðing bílaflotans.  Hvort sem orkugeymslan verður vetni, metanól eða rafgeymar, þá þarf aukna raforkuvinnslu í landinu til að standa undir orkuskiptunum. Alltaf verður að vera fyrir hendi í kerfinu ákveðin umframorka til öryggis, og er þar ekki af neinu að taka nú.  

Markmið ríkisstjórnarinnar er helmingun útblásturs frá farartækjum á landi árið 2030 m.v. núverandi stöðu, þ.e. um 500 kt niður í 500 kt/ár.  Þetta þýðir fjölgun rafknúinna farartækja um 140´000 eða að jafnaði 11´700 farartæki á ári.  Í ljósi þess, að slíkur innflutningur er undir 1000 tækjum á ári núna, virðist þetta vera óraunhæft markmið og algerlega vonlaust, nema að auka hvatann til slíkra kaupa.  Það gæti þýtt niðurfellingu virðisaukaskatts í 10 ár auk vörugjalds og tolla, sem ekki hafa verið lögð á "umhverfisvæn" farartæki um nokkurra ára skeið.  Jafnframt þarf að halda áfram afslætti á bifreiðagjöldum, og væntanleg akstursgjöld eða vegagjöld þyrftu að verða með afslætti á ökutæki með litla losun. Það kostar klof að ríða röftum, eins og þar stendur.

Til að takast megi að ná ofangreindu markmiði ríkisins þarf að auka vinnslugetu virkjana um tæplega 700 GWh/ár árið 2030 einvörðungu til að standa straum af rafbílavæðingunni.  Þetta er tæplega 4 % aukning m.v. núverandi.  Aflþörfin (MW) er þó tiltölulega miklu meiri, því að hleðslutíminn er fjarri því að dreifast jafnt yfir sólarhringinn.  Þannig mun myndast vaxandi framboð afgangsorku á markaðinum, sem hægt er að bjóða með afslætti m.v. forgangsorku, gegn rofheimild á meðan toppálag varir. Gæti slíkt gagnast ýmissi starfsemi á Íslandi, en er þó ekki vænlegt til útflutnings um sæstreng (of lítið magn).

Orkustofnun hefur gefið út raforkuspá fyrir árið 2050.  Í spánni er ekki gert ráð fyrir neinni aukningu samkvæmt langtímasamningum til iðnaðar, gagnavera e.þ.h. og aðeins 2800 GWh/ár og 464 MW aukningu til almenningsnota, þ.m.t. til orkuskiptanna.  Pistilhöfundur telur á hinn bóginn, að aukning raforkuvinnsluþarfar verði um 7010 GWh/ár á árabilinu 2017-2050, muni þá nema um 25´560 GWh/ár, sem er aukning um 37 % á 34 árum, og skiptist aukningin þannig:

  • Stórnotendur:    300 MW, 2580 GWh/ár
  • Alm.notendur:   1155 MW, 4230 GWh/ár
  • Kerfistöp:        23 MW,  200 GWh/ár
  • Raforkuvinnsla: 1478 MW, 7010 GWh/ár 

 Aukningin í almennri notkun er 108 %, en sú aukning er skiljanleg í ljósi þess, að árið 2050 mun rafmagnið hafa leyst nánast allt innflutt jarðefnaeldsneyti af hólmi.  Reikna má með, að eldsneytissparnaður einvörðungu til ökutækja muni þá nema rúmlega 400 kt/ár og að hreinn gjaldeyrissparnaður (innkaupsverð eldsneytis að frádregnum erlendum kostnaði virkjana, flutnings- og dreifikerfa) muni þá nema um 490 MUSD/ár eða um 60 mrðISK/ár. Slíkt er búbót fyrir viðskiptajöfnuðinn.   

Duga orkulindirnar í þetta ?  Í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3 eru virkjanir að uppsettu afli 1421 MW og orkugetu 10´714 GWh/ár.  Það virðist vanta örlítið afl, en umframorkan virðist nema um 3700 GWh/ár.  Skýringarinnar er að leita í stuttum nýtingartíma hámarks aflþarfar almenna álagsins, t.d. hleðslutækja rafmagnsfartækjanna.  Þetta er of lítil orka til að tryggja arðbærni sæstrengs til Bretlands, en gæti hentað sæstreng til Færeyja og rafnotendum innanlands, sem geta sætt sig við straumrof eða álagslækkun á toppálagstíma, sennilega 1-2 klst á sólarhring.

Inn í Rammaáætlun 3 hafa ekki ratað öll þau vindorkuver, sem tengd verða stofnkerfinu fram til 2050.  Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu 1. nóvember 2018 eru þau nú þegar orðin samkeppnishæf hérlendis:

"EM Orka áætlar að reisa 35 vindmyllur á Garpsdalsfjalli í Reykhólasveit, og framleiðslugeta þeirra verði 126 MW.  Áætlað er að taka þær í notkun árið 2022 og líftími verkefnisins verði 25 ár.  Á byggingatíma er reiknað með alls um 200 störfum við verkefnið auk óbeinna starfa, en þegar uppsetningu verður lokið, verða 25 störf við stjórnun, rekstur og viðhald, þar af 20 störf í nærumhverfi.  Áætlað er, að fjárfesting við vindorkugarðinn kosti um mrðISK 16,2.

Fjallað er um verkefnið á heimasíðum EM Orku og Reykhólasveitar, en verkefnið var kynnt á fundi í Króksfjarðarnesi í síðustu viku [viku 43/2018].  Virkjunin er fyrsta verkefni EM Orku á Íslandi, en það er í jafnri eigu danska fyrirtækisins Vestas og írska fyrirtækisins EMPower.  Bæði hafa fyrirtækin mikla reynslu á þessu sviði."

Þetta gæti orðið brautryðjandi vindorkuverkefni hérlendis, því að þarna virðast menn kunna til verka.  Valinn hefur verið vindasamur staður, fjarri byggð og tiltölulega nálægt 132 kV Byggðalínu.  Pistilhöfundur hefur reiknað úr orkukostnaðinn frá þessum vindorkugarði á grundvelli ofangreindra upplýsinga og fengið út:

K=3,9 ISK/kWh eða K=32 USD/MWh.

Þetta er samkeppnishæft heildsöluverð frá virkjun nú um stundir á Íslandi.  Þótt raforkuvinnslan sé ójöfn og hafi þar með verðgildi afgangsorku á markaði, vinnur þessi orkuvinnsla ágætlega með vatnsorkuverum og getur sparað vatn í miðlunarlónum.  Þannig hækkar verðgildi vindorkunnar upp í verð forgangsorku, af því að á ársgrundvelli má reikna með svipaðri orkuvinnslu vindorkugarða ár frá ári.  Kemur þessi viðbót sér vel, ef svo fer, sem ýmsir óttast, að orkuvinnslugeta jarðhitasvæða sé ofmetin.

Það, sem upp úr stendur í þessum vangaveltum er, að m.v. Rammaáætlun 3 verður að virkja allt í nýtingarflokki fyrir innanlandsmarkað, og þess vegna getur Ísland hreinlega ekki borið millilandatengingu um sæstreng.  

Peter Örebech, lagaprófessor, hefur sýnt fram á, að eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn getur engin fyrirstaða orðið í íslenzkum yfirvöldum við tengingu aflsæstrengs við íslenzka raforkukerfið.  Þeir, sem halda því enn fram, að eitthvert hald verði í banni Alþingis við slíkum streng, eftir að það verður búið að afsala fullveldi landsins yfir orkumálum til yfirþjóðlegrar stofnunar, berja enn hausnum við steininn og gera sig seka um óafsakanlega léttúð í meðförum fjöreggs þjóðarinnar.  Hélt þetta fólk, að ACER væri bara stofnað handa nokkrum blýantsnögurum ?  Nei, með ACER og öllum Evrópugerðunum og tilskipunum ESB á sviði orkumála hefur orðið til virkisbrjótur, sem brýtur á bak aftur sjálfsákvörðunarrétt þjóða um millilandatengingar.  Þeir, sem lepja upp áróður sendiherra Evrópusambandsins, þar sem ákvæðum Þriðja orkupakkans er pakkað svo kyrfilega inn í bómull, að hvergi skín í hnífseggina, eru ekki margra fiska virði.  

Þá liggur á borðinu, að verði téður orkupakki ofan á í þinginu, þegar hann kemur þar til atkvæða, geta áhugasamir fjárfestar umsvifalaust setzt niður og farið að skrifa umsókn, reista á leiðbeiningum þar um í Evrópugerð 347/2013.  Ef verkefnið reynist "samfélagslega" hagkvæmt, þar sem "samfélag" hér er allt EES, þá mun Landsreglarinn mæla með samþykkt þess við Orkumálastjóra, og eftir það verður ekki aftur  snúið.

Þessi sæstrengur mun óhjákvæmilega gera orkuskiptin á Íslandi miklu dýrari en nauðsyn ber til, því að innlendi raforkumarkaðurinn lendir í fyrsta skipti í sögunni í beinni samkeppni við erlendan raforkumarkað.  Fyrirsjáanlega mun þetta valda orkuskorti í landinu, tefja verulega fyrir orkuskiptunum og senda raforkuverðið upp í hæstu hæðir.  

Sér ekki forystufólk í Samtökum iðnaðarins og í Samtökum atvinnurekenda skriftina á veggnum ?  Er það fúst til að leggja upp í slíka óvissuferð með stjórnmálamönnum, sem enga áhættugreiningu hafa gert og hafa engin úrræði, þegar allt verður hér komið í óefni vegna þeirra eigin fljótfærni og takmarkalitlu trúgirni á "sölulýsingar" ESB á "orkupakkanum" ? Það er orðið tímabært, að þessi ágætu samtök gefi út yfirlýsingu um afstöðu sína til Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB.  

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 7. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband