Goðsögnin um gagnsemi EES

Blekbóndi þessa vefseturs samdi grein í lok janúar 2018, sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 3. febrúar 2018 undir fyrirsögninni, "Eru dagar EES taldir ?".  Hún hefur nú birzt á heimasíðu norsku andófssamtakanna, "Nei við ESB", 

https://neitileu.no/aktuelt/er-eos-avtalens-dager-talte    á norsku.

Nýlega sýndi Hjörtur Guðmundsson, alþjóða stjórnmálafræðingur, fram á, sbr https://www.mbl.is/200milur/frettir/2018/02/12/fullt_tollfrelsi_med_sjavarafurdir/,

að með nýjum fríverzlunarsamningi við ESB hafa Kanadamenn fengið hagstæðari viðskiptaskilmála með sjávarafurðir en Íslendingar njóta á Innri markaði EES.  Er það með ólíkindum og gefur til kynna, að í vöruviðskiptum væru Íslendingar ekki verr settir með fríverzlunarsamning við ESB og Bretland en með núverandi veru á Innri markaðinum.  Það eru gjörbreyttir tímar í Evrópu með ákvörðun Breta um að yfirgefa ESB.  "Festung Europa" er fallin, þó með öðrum hætti en árið 1944.

Í téðri blaðagrein var látin í ljós ósk um, að til þess fær aðili mundi athuga efnahagsleg heildaráhrif aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu-EES.  Þetta var orðað þannig í greininni:

"Vel væri við hæfi í tilefni aldarfjórðungsafmælis EES-samningsins, að t.d. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands-HHÍ mundi leggja mat sitt á árlegan heildarkostnað hagkerfisins af aðildinni og árlegan heildarávinning miðað við, að Ísland nyti að fullu sömu fríverzlunarréttinda við ESB og Kanadamenn sömdu nýlega um.  Tilgáta höfundar er sú, að þjóðhagslegur ávinningur af uppsögn EES-samningsins sé ótvíræður og vaxandi."

Nú vill svo til, að HHÍ lauk við skýrslu um þetta efni fyrir utanríkisráðuneytið í janúar 2018.  Um er að ræða skýrslu nr C18:01

"Áhrif samningsins um EES á íslenzkt efnahagslíf".

Í stuttu máli sagt stendur þessi skýrsla engan veginn undir nafni, því að því fer fjarri, að höfundarnir geri grein fyrir heildaráhrifum þess fyrir Ísland að standa utan við EES, þ.e. að segja upp EES-samninginum, en gera þess í stað fríverzlunarsamning við ESB og Bretland.  Samkvæmt reglum WTO (World Trade Organisation) á slíkur samningur ekki að vera meira hamlandi á viðskipti en nýjasti samningur aðila þar á undan, sem nú er téður fríverzlunarsamningur  ESB og Kanada, og þá verður nánast um frjálst aðgengi að ræða fyrir allar iðnaðarvörur, sjávarafurðir o.fl. 

Í téðri skýrslu er verið að bera ávinning aðildar saman við fortíðina fyrir aðild og fundið út, að ávinningur sjávarútvegs af EES nemi 4,5 miaISK/ár.  Litlu verður vöggur feginn.  Það er erfitt að sjá, hverjum skýrsla af þessu tagi má verða að gagni.  Það verður að skrifa það að mestu leyti á verkstjórn verkkaupans. Það er gamla sagan: ráðgjöfum verður að stjórna nákvæmlega, ef þeir eiga ekki að hlaupa út undan sér og út um víðan völl og skila af sér gagnslitlu og jafnvel villandi verki.

Aðildin að EES kostar í beinum útgjöldum um 23 miaISK/ár á verðlagi 2018 samkvæmt athugun Viðskiptaráðs Íslands árið 2015, en til baka kemur eitthvert fé á formi styrkja o.fl., svo að mismunurinn má heita bitamunur en ekki fjár í þessu sambandi, og verða ekki eltar ólar við hann hér. 

Það, sem skiptir öllu máli í þessu sambandi, en var ekki snert við í téðri skýrslu HHÍ, er óbeinn kostnaður atvinnulífsins af EES.  Aftur á móti hefur Viðskiptaráð Íslands ráðizt í þetta mikilvæga rannsóknarverkefni og fundið út, að heildarkostnaður af opinberum reglum fyrir athafnalífið nemi 175 miaISK/ár, uppfært til verðlags 2018.  Þetta jafngildir 7,0 % af VLF.  Meginhluti þeirrar upphæðar er reyndar fenginn frá HHÍ fyrir nokkrum árum og nemur 143 miaISK/ár og stafar af minni framleiðniaukningu en ella sökum regluverksbyrði.  Það er grafalvarlegt, að sá kostnaður er talinn vaxa um 1,0 %/ár.  Þetta er hagvaxtarlamandi og hamlandi fyrir samkeppnishæfni landsins, því að fyrirtækin hérlendis eru langflest mun minni en algengast er í löndum ESB.

Óumdeilt er, að lög og reglugerðir ásamt eftirlitsstofnunum verða að vera fyrir hendi í nútíma þjóðfélagi í viðleitni til að treysta frjálsa samkeppni og hagsmuni neytenda og til að tryggja sjálfbæra nýtingu ásamt fleiri ástæðum.  Erlend ríki, sem við eigum í viðskiptum við, krefjast líka, að fylgt sé ákveðnum gæðastöðlum.  Það er hins vegar svo, að lítil fyrirtæki, með 1-9 starfsmenn,bera að jafnaði hlutfallslega tvöfalt hærri kostnað af opinberu regluverki en meðalstór fyrirtæki með 10-49 starfsmenn, ferfaldan á við 50-249 manna fyrirtæki og tífaldan á við fyrirtæki með 250 eða fleiri starfsmenn.  

Ein birtingarmynd þessa er, að reiknað á hvern íbúa lands eru starfsmenn opinberra eftirlitsstofnana 25 sinnum fleiri hér en í Þýzkalandi og 15 sinnum fleiri en á hinum Norðurlöndunum.  

Það eru fyrirtækin, sem líða fyrir þessa skertu samkeppnishæfni, og hún kemur hart niður á afkomu þeirra og þar af leiðandi getu til að standa undir launum, annarri skattheimtu og eðlilegum arðgreiðslum til eigenda.  Það er þess vegna fyllsta ástæða til að spyrna við fótum.  

Fyrir nokkrum árum fann hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands það út, að beinn kostnaður fyrirtækja vegna eftirlits- og reglugerðabákns næmi 22 miaISK/ár, en óbeini kostnaðurinn, sem væri vegna hamlandi áhrifa reglugerðafrumskógarins á framleiðni, næmi 143 miaISK/ár og færi hækkandi um 1,0 %/ár.  Samtals eru þetta 165 miaISK/ár, sem uppfært til verðlags 2018 nemur um 175 miaISK/ár.   

Í ljósi þess, að Ísland mun hafa innleitt a.m.k. 11´000 "gjörðir" ESB, eftir að EES-samningurinn tók hér gildi í ársbyrjun 1994, eða um 460 á ári, þá er varla goðgá að ætla, að 80 % allra laga og stjórnvaldsfyrirmæla á Íslandi, sem áhrif hafa á rekstrarafkomu fyrirtækja, séu upprunnin hjá ESB.  Ekki er þar með sagt, að þeir séu allir óþarfir, en í ljósi sérstaklega íþyngjandi áhrifa þeirra á íslenzkt atvinnulíf er ekki úr vegi að álykta, að létta megi 60 % af umfangi ESB-reglnanna af atvinnulífinu án þess, að slíkt komi niður á markaðsaðgengi þeirra eða gæðastjórnun.  

Niðurstaðan er þá, að árlegur kostnaður ESB-aðildarinnar fyrir Ísland nemi:

KEES=miaISK 175 x 0,8 x 0,6 = miaISK 84,

sem jafngildir 3,4 % af VLF.

Það er ekki nóg með þetta, heldur er nú í undirbúningi í ráðuneytunum frumvarp til Alþingis um, að orkustjórnvaldsstofnun ESB, ACER, verði fengið hér æðsta vald um ráðstöfun raforkunnar, og að Landsnet muni þá alfarið lúta stjórn útibús ACER á Íslandi og að eftirlitshlutverki Orkustofnunar með Landsneti verði einnig fyrir komið í útibúi ACER á Íslandi.  Þar sem útibú ACER á Íslandi mun ekki lúta neinu innlendu stjórnvaldi, getur ESB/ACER ákveðið, að Landsnet skuli taka þátt í að leggja aflsæstreng til Íslands, og síðan verði Ísland innlimað í orkumarkað EES, jafnvel þótt ríkisstjórn og Alþingi leggist gegn því.  ACER hefur nú þegar sett aflsæstreng á milli Íslands og Bretlands á verkefnaskrá sína, og er ætlunin að taka hann í notkun árið 2027.  Þetta er stórmál, en hefur samt ekki hlotið neina viðeigandi umfjöllun hérlendis.  Er þetta það, sem koma skal ?

  Fullveldisframsal til yfirþjóðlegrar stofnunar verður vart skýrara en þetta. Ætlar meirihluti Alþingismanna að láta þetta yfir sig ganga á fullveldisári ?  "Það sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann."  Ef þetta er lagatæknilega hægt í þingsal, er ljóst, að ekkert hald er í Stjórnarskránni, þegar ásælni erlends valds til ráðstöfunar íslenzkra orkulinda er annars vegar. 

Útibú ACER á Íslandi, algerlega óháð íslenzkum stjórnvöldum, mun rýna nýja raforkusamninga og hafna þeim, ef umsamið raforkuverð er dæmt vera undir "markaðsverði" raforku.  Hætt er við, að virkjanafyrirtæki muni ekki lengur hafa hug á slíkum samningum, en kjósa fremur að flytja raforkuna utan.  Óhjákvæmileg afleiðing slíks orkubrotthvarfs úr hagkerfinu er minni verðmætasköpun í landinu, atvinnuleysi og snarhækkun raforkuverðs til almennings og fyrirtækja án langtímasamninga.  Af hverju heyrist ekkert frá verkalýðsfélögum, ASÍ, SA, SI eða Neytendasamtökunum ?  Halló, er nokkur heima ? 

Búast má við tvöföldun orkuverðs frá virkjun og helmingshækkun flutningsgjalds, alls 6 ISK/kWh.  Þetta þýðir hækkun raforkukostnaðar almennings um:

24 miaISK/ár án VSK.

Sé þetta nú lagt við fyrri kostnað af reglugerðabákninu (almenningur borgar allt á endanum), þá fæst: 

Heildarkostnaður EES = 108 miaISK/ár eða 4,3 % af VLF.

 

 

  

 

 

 


Bloggfærslur 13. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband