Sjálfstæð hugsun og EES

Ánægjuleg tíðindi bárust af Alþingi þriðjudaginn 6. febrúar 2018.  Þar var fjármála- og efnahagsráðherra í andsvörum um lög og/eða reglur um fjármálagerninga, en sem kunnugt er hafa bæði Alþingi og Stórþingið norska samþykkt að fella tilskipana- og lagabálka ESB (Evrópusambandsins) um sameiginlegt eftirlitskerfi með fjármálastofnunum inn í EES-samninginn. Sagði ráðherrann frá því, að langan tíma hefði tekið að mjaka ESB að viðunandi lausn þessara mála fyrir EFTA-ríkin, en það verður æ erfiðara og hefur t.d. ekki gengið varðandi orkumálin. Formaður Sjálfstæðisflokksins ræddi á almennari nótum um vaxandi ásælni ESB inn á svið, sem hingað til hafa verið alfarið á forræði lýðræðislega kjörinna fulltrúa hvers lands eða opinberra stofnana í hverju landi. 

Það var engu líkara en ráðherrann væri við þetta tækifæri með hugann við mál, sem er á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir vorþingið 2018 og fjallar einmitt um að fela nýlegri stofnun ESB, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), sem hlotið hefur víðtækar valdheimildir frá æðstu stjórnstofnunum ESB á sviði orkumála, óskorað vald í hverju EES-landi á sviði orkuflutningsmála. Ekki nóg með það, heldur skal setja í hverju landi á laggirnar stofnun, óháða stjórnvöldum, en samt á fjárlögum hvers ríkis, sem stjórnar orkuflutningsmálum hvers lands og lýtur einvörðungu boðvaldi ACER.  Þeir lögfræðingar eru líklega vandfundnir, sem ekki sjá í þessu fyrirkomulagi felast meiri háttar og þar af leiðandi óviðunandi stjórnarskrárbrot. 

Við samþykki Alþingis á því að fella "Þriðja orkumarkaðslagabálk" ESB inn í EES-samninginn, verður sem sagt stofnað útibú frá ACER á Íslandi, sem verður algerlega utan seilingar rétt kjörinna yfirvalda á Íslandi, en mun engu að síður í krafti þessarar samþykktar Alþingis öðlast æðsta vald í málefnum raforkuflutninga á Íslandi.  Þar munu verða teknar ákvarðanir, sem áður voru á verksviði Orkustofnunar og á sviði Landsnets.  

Hér væri með þessu móti komin upp stjórnskipunarstaða á Íslandi (og í Noregi), sem er fordæmalaus, þ.e. yfirþjóðleg stofnun, ACER, skipar hér málum, sem varðar ekki aðeins stöðu ríkisins og málefni þess, heldur einnig beina hagsmuni fyrirtækja og einstaklinga og fyrirmæli frá yfirþjóðlegri stofnun, sem Ísland er ekki aðili að, til fyrirbrigðis, sem ekki lýtur innlendu stjórnvaldi.   Það sagði Bjarni Benediktsson í áður nefndum umræðum á Alþingi, að væri algerlega óásættanlegt fyrir Íslendinga.  

Þar með má ætla, að komin sé upp sú staða í ríkisstjórn, að stjórnarfrumvarp um valdatöku ACER á Íslandi á sviði raforkuflutninga innanlands og til og frá Íslandi um nýja sæstrengi, verði ekki lagt fram. Það er útilokað, að ráðherra orkumála leggi það fram í eigin nafni, enda skal efast um, að málið njóti meirihlutastuðnings á Alþingi, þótt ESB-sinnar séu vafalaust boðnir og búnir að greiða leið þessa víðtæka fullveldisframsals, sem mundi hafa djúptæk áhrif á hagsmuni allra landsmanna og til hins verra fyrir langflesta, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri.

Alþingi hefur í hendi sér að fresta afgreiðslu þessa frumvarps, komi það engu síður fram, og reyna ásamt Norðmönnum og Liechtensteinum að ná fram s.k. tveggja stoða lausn, sem tryggir hagsmuni EFTA-ríkjanna.  Þetta má þó kalla vonlausa leið, því að hún hefur verið reynd í a.m.k. 6 ár af mismunandi ríkisstjórnum í löndunum án árangurs. 

Það er einnig möguleiki hreinlega að fresta málinu um óákveðinn tíma.  Það mun þá koma til kasta ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, sem væntanlega kærir frestunina til EFTA-dómstólsins, sem líklega mun dæma, að frestunin sé brot á EES-samninginum. Þar við mun sitja.  Þessir aðilar geta ekki vísað EFTA-löndunum úr EES.  Hins vegar getur ESB sagt EES-samninginum upp, og það getur hvert EFTA-landanna þriggja, sem aðild á að EES, einnig.  Það væri svo sannarlega engin goðgá. Það er afar ólíklegt, að ráðherraráð ESB samþykki að segja EES-samninginum upp á þessum forsendum á meðan Bretar eru á leið út úr ESB og ótti steðjar að forystu ESB um, að flótti bresti í liðið.  

Í 200-mílum Morgunblaðsins birtist föstudaginn 9. febrúar 2018 fræðandi og vönduð grein eftir Hjört J. Guðmundsson undir fyrirsögninni:

Fullt tollfrelsi með sjávarafurðir.

Hún hófst þannig:

"Meðal þess, sem fríverzlunarsamningur Evrópusambandsins við Kanada, sem tók gildi í lok september á síðasta ári [2017], tekur til, eru viðskipti með sjávarafurðir.  Við gildistöku hans féllu niður tollar Evrópusambandsins af um 96 % allra tollskrárnúmera Evrópusambandsins á kanadískar sjávarafurðir, og á næstu 3-7 árum verður það, sem eftir stendur, einnig afnumið.  

Þannig er stefnt að því, að útflutningur á kanadískum sjávarafurðum til Evrópusambandsins verði 100 % tollfrjáls, þegar upp verður staðið samkvæmt því, sem fram kemur á vefsíðu ríkisstjórnar Kanada, þar sem fjallað er um tækifæri kanadískra útflutningsfyrirtækja, þegar kemur að útflutningi sjávarafurða til sambandsins."

Á sínum tíma, þegar færð voru rök fyrir nauðsyn inngöngu Íslands í EES, var tollfrjálst aðgengi íslenzka sjávarútvegsins að markaði ESB, höfuðröksemdin.  Hafi þetta einhvern tímann verið gild röksemd, er hún það ábyggilega ekki lengur, því að Íslandi mun vafalaust standa til boða fríverzlunarsamningur við Bretland og ESB af sama toga og Kanadasamningurinn, kjósi Íslendingar að segja skilið við EES.  

Hin frelsin 4 á Innri markaði EES eru Íslandi lítils virði, og sum þeirra hafa reynzt landsmönnum stórskaðleg eða munu reynast það í framtíðinni.  Hér er um að ræða frjálst flæði fjármagns, sem var undirrót bankahruns hér 2008, frjálst flæði þjónustu, sem valdið hefur árekstrum hér, t.d. í ferðageiranum, frjálst flæði fólks, sem með Schengen hefur opnað landamærin upp á gátt og valdið hættu, og frjálst flæði orku, t.d. raforku, sem ESB nú reynir með afarkostum að troða upp á EFTA-þjóðirnar.  

Ef Norðmenn og Íslendingar neita að bergja á þessum kaleik, þurfa þeir ekki að óttast afleiðingar, því að í versta tilviki endar málið með uppsögn EES-samningsins.  Þá munu taka við fríverzlunarsamningar, og staða þjóðanna verður ekki lakari eftir en áður.  Það er hægt að sýna fram á, að efnahagslega verður hún mun betri, a.m.k. ef í kjölfarið verður gengið rösklega til verks við grisjun laga- og reglugerðaskógarins frá ESB, sem er sniðinn við annars konar atvinnulíf og minna í sniðum en einkennandi er í ESB-ríkjunum.  

Undir lok greinar sinnar skrifaði Hjörtur:

"Þannig er ljóst, að þegar kemur að beinum tollum, hefur stjórnvöldum í Kanada tekizt að semja um betri aðgang að Innri markaði Evrópusambandsins fyrir kanadískar sjávarafurðir en Íslendingar og Norðmenn njóta í gegnum EES-samninginn, en aðgangurinn að markaði sambandsins fyrir sjávarfang hefur lengi verið talinn einn helzti kosturinn við aðild Íslands að samningnum.  Þannig er fríverzlunarsamningur Evrópusambandsins og Kanada líklegur til þess að leiða til aukinnar samkeppni við kanadísk útflutningsfyrirtæki. Jafnvel þó að íslenzkum stjórnvöldum tækist að tryggja sambærileg kjör fyrir íslenzk fyrirtæki."

 

 

 


Bloggfærslur 15. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband