EFTA-ríkin og miðstýring orkumála ESB

Í Noregi hafa miklar umræður og rannsóknir farið fram um afleiðingar þess fyrir Noreg að gangast undir vald stjórnsýslustofnunar Evrópusambandsins, ESB, á sviði orkumála, í fyrstu atrennu á grundvelli 1000 bls. laga- og reglugerðabálks ESB, 2009/72/EU. Mörgum þykir stjórnarskrárbrot blasa við og haldnar eru blysfarir til að mótmæla valdaafsali þjóðríkisins til yfirþjóðlegrar stofnunar á sviði orkumála.

Hérlendis er allt á rólegu nótunum enn þá, en íslenzkum almenningi kann þó að ofbjóða einnig.      Nú þegar eru í smíðum hjá ESB nokkur þúsund bls. viðbætur við téðan orkulagabálk, sem færa enn meiri völd til orkustjórnsýslustofnunarinnar, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), sem staðsett er í Ljubljana í Slóveníu.  Rannsóknarskýrsla norska De-facto félagsins, "EUs energiunion og norsk tilknytning til ACER ?", er afar fróðleg, og þar sem hagsmunum Íslands og Noregs gagnvart ACER svipar mjög saman, verður birt hér að neðan samantekt á skýrslunni, sem er þýðing á 2. kafla hennar. 

Með innleiðingu Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB í EES-samninginn öðlast ACER völd til að láta leggja til Íslands aflsæstreng þaðan, sem hentugast þykir, og tengja hann við stofnkerfi í báða enda án þess að spyrja kóng eða prest hérlendis.  Eftir það verður staða Norðurlandanna tveggja gagnvart ACER og sameiginlegum raforkumarkaði ESB alveg sambærileg:

Í skýrslunni eru færð eftirfarandi rök fyrir því, að  Noregur á að nota neitunarmöguleika sinn gagnvart innlimun í Orkusamband ESB og tengingu við ACER:

  • Noregur verður með í orkusambandi, sem tekur stöðugum breytingum, og þar sem teknar eru ákvarðanir um stöðugt víðara svið orkumálanna hjá yfirþjóðlegri stofnun ESB, ACER.  Noregur missir innlenda stjórn á þessu mikilvæga stjórnunarsviði.
  • Takmark ESB er, að orka streymi frjálst yfir landamæri og að flutningsgetan verði næg, svo að verðmunur milli ólíkra svæða og landa verði minni en 2,0 EUR/MWh (=0,25 ISK/kWh), í fyrstu atrennu innan skilgreindra svæða.
  • Aukin flutningsgeta og viðskipti með rafmagn mun hækka rafmagnsverð í Noregi.  Það kemur niður á bæði almennum notendum, iðnaði og starfsemi í einka- og opinbera geiranum.
  • Skilmálarnir um viðskipti með rafmagn um sæstrengina verða ákvarðaðir af ESB. Það getur hæglega þýtt sveiflukenndari vatnshæð í miðlunarlónum en hingað til hefur þekkzt. Stórþingið á í marz 2018 að ákveða, hvort tvær ESB-tilskipanir skuli verða teknar í norsk lög og reglugerðir - orð fyrir orð, þ.e. tilskipanirnar um viðskipti með rafmagn þvert á landamæri og um að færa völd frá Noregi til stjórnvaldsstofnunarinnar ACER.
  • Á Noreg kann að verða lögð kvöð af ESB/ACER um að leggja fleiri sæstrengi, ef raforkuverð í Noregi verður áfram meira en 0,25 ISK/kWh lægra en annars staðar á ESB-raforkumarkaðinum.  Ef flutningsgeta sæstrengja í rekstri og í undirbúningi er ekki næg til að jafna út verðmun á milli Noregs og annarra, er mögulegt að þvinga Noreg til að nota tekjurnar frá sæstrengjum í rekstri til að fjármagna nýja sæstrengi.  
  • Núverandi umframorka í norska raforkukerfinu mun hverfa, og þar með verður grundvöllur hagstæðs raforkuverðs fyrir orkusækinn iðnað rýrður verulega. Fleiri langtímasamningar um raforkuafhendingu verða varla gerðir.  Þetta getur sett þúsundir starfa á landsbyggðinni í Noregi í uppnám.  
  • Til að gjörnýta tekjumöguleika sæstrengjanna (t.d. með því að selja að deginum og kaupa að nóttunni) munu eigendur vatnsaflsvirkjana hafa hvata til að auka aflsveiflur virkjananna.  Það þýðir tíðar breytingar á rennsli ánna og hæð miðlunarlónanna, og slíkt hefur miklar neikvæðar afleiðingar fyrir umhverfið, náttúru- og útivistarhagsmunina.
  • Við yfirlestur þessarar skýrslu kom í ljós, að það er mikil andstaða í Noregi við frekari samþættingu í Orkusamband ESB og við tengingu Noregs við ACER í stórum hluta verkalýðshreyfingarinnar.  Náttúru- og útivistarsamtök óttast afleiðingar aukinna aflsveiflna fyrir vatnskerfin.  Það kann þannig að vera meirihluti á norska Stórþinginu gegn því að færa völd yfir orkumálunum til yfirþjóðlegrar stofnunar, ACER.
  • Það sem sameinar andstæðinga valdaframsals úr landinu til ACER, er óskin um, að völdin yfir orkumálum landsins skuli áfram vera í höndum norskra yfirvalda.  Fólk óskar ekki eftir stjórnarfyrirkomulagi, sem flytur völd frá norskum orkumálayfirvöldum til yfirþjóðlegra ESB-stofnana.
  • Varðandi ákvarðanir Stórþingsins veturinn 2018 er spurningin um innlenda stjórnun orkumálanna sett á oddinn í sambandi við hugsanlega samþykkt á tengingu Noregs við ACER.  Andófsfólk slíkrar samþykktar krefst þess, að við nýtum undanþáguákvæði EES-samningsins til að neita norskri ACER-tengingu.  
  • Andófsmenn eru þeirrar skoðunar, að hugsanleg ACER-tenging útheimti 3/4 meirihluta í Stórþinginu samkvæmt grein nr 115 í Stjórnarskránni um fullveldisframsal.  

Norska verkalýðshreyfingin er með þessum hætti á 32  blaðsíðum búin að kryfja viðfangsefnið Orkusamband ESB og tenging Noregs við ACER.  Niðurstaðan er einhlít.  Norska Stórþingið á að hafna þessum gjörningi frá ESB. Ef norski Verkamannaflokkurinn leggst gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar, er úti um það. 

Þá vaknar spurningin hér á Íslandi, hvers vegna íslenzka verkalýðshreyfingin sofi Þyrnirósarsvefni, þegar tenging Íslands við ACER er annars vegar.  Útilokað er, að um sofandahátt eða þekkingarleysi sé að ræða.  Öllu líklegra er, að valdamikil öfl innan verkalýðshreyfingarinnar líti ACER-tengingu Íslands með velþóknun, enda sé hún aðeins enn einn áfanginn í aðlögun Íslands að ESB og muni flýta fyrir væntanlegri aðild. Í raun má halda því fram, að verið sé að innlima EFTA-ríkin bakdyramegin inn í ESB með því að færa ESB-stofnun sömu völd þar og hún hefur í ESB-ríkjunum.  Sjá má nú skriftina á veggnum.   

 


Bloggfærslur 20. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband