Næst er það orkusamband

Með vísun til stjórnarskráar sinnar, Lissabon-sáttmálans, sækir Evrópusambandið-ESB nú fram til aukinnar miðstjórnar aðildarríkjanna og EFTA-ríkjanna í EES á hverju sviðinu á fætur öðru.  Nú hefur verið samþykkt á samstarfsvettvangi ESB og EFTA, að orkumál verði næsta viðfangsefni æ nánari samruna (an ever closer union). Þetta mun koma hart niður á hagsmunum Íslendinga og Norðmanna, sem hafa mjög svipaðra hagsmuna að gæta innbyrðis, en eru í ósambærilegri stöðu við ESB-ríkin í orkumálum. 

Þetta stafar af því, að Norðurlöndin tvö framleiða nánast alla sína raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, og þar er enginn hörgull á raforku á hagstæðu verði fyrir notendur, nema staðbundið á Íslandi vegna flutningsannmarka, sem er sjálfskaparvíti. ESB-löndin flytja inn gríðarmikið af orku, rafmagni, gasi og olíu, aðeins 13 % orkunotkunarinnar er sjálfbær og raforkan er þar dýr.  

Í Noregi eru um 20 TWh/ár af raforku til reiðu á markaði umfram innlenda raforkuþörf eða 15 % af vinnslugetu vatnsaflsvirkjana þar í landi.  Þetta er aðeins meira en nemur allri raforkuvinnslu Íslands og er óeðlilega mikið, en stafar af lokun verksmiðja, betri nýtni í notendabúnaði og í virkjunum við uppfærslu þeirra ásamt fjölda nýrra smávirkjana.  Á Íslandi er yfirleitt sáralítil umframorka, þótt forstjóri Landsvirkjunar tilfæri hana sem rök fyrir aflsæstreng til útlanda, og ótryggða orkan er seld tiltölulega háu verði, sem gefur til kynna lítið framboð. 

Hins vegar getur snögglega orðið breyting á þessu, og það er orkustjórnsýslustofnun ESB, ACER, sjálfsagt kunnugt um.  Yfirlýsingar frá framkvæmdastjórn ESB sýna áhuga hennar á að samþætta Noreg í raforkunet ESB, og þá er ekki ósennilegt, að hún renni hýru auga til Íslands, þar sem raforkunotkun á mann er mest í heiminum. Tækin til þess eru að yfirtaka ráðstöfunarrétt raforkunnar með því að flytja æðsta vald raforkuflutningsmála í ríkjunum til ACER, leggja sæstrengi, stofna raforkumarkað og samtengja í hvoru landi og samtengja þá við raforkumarkaði ESB.  BINGO. Raforkan mun stíga í verði í Noregi og á Íslandi og fara til hæstbjóðanda.  Á skrifborði búrókrata kann þetta að líta vel út, en það eru fórnarlömb í þessum viðskiptum: almenningur á Íslandi og í Noregi.  

Í árbók 2018 norsku andófssamtakanna "Nei við ESB" er mikinn fróðleik að finna um ESB, þ.á.m. um "Orkusamband ESB".  Arne Byrkjeflot, stjórnmálaráðgjafi "Nei við ESB" á þar greinina "Energiunionen neste", og er hér að neðan einn kafli þaðan:

"ESB krefst ekki eignarréttarins, það krefst ráðstöfunarréttarins":

"Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB gefur tilefni til að ræða um varanlega auðlind okkar, fossaaflið, í víðu samhengi.  Í þetta skiptið snýst málið ekki um eignarhaldið, heldur um það, hver á að stjórna og setja reglur um nýtingu rafmagnsins.  Það snýst um völd yfir innviðum.  ESB hefur auk þess kynnt áætlun sína um þróun orkusambands síns. Stefnan er sú, að öll tiltæk raforka skuli streyma frjálst yfir landamæri, þannig að þeir, sem mest eru reiðubúnir að borga, fái orkuna.  Þeir geta þá pantað orkuna, hvaðan sem er, frá Nordland (fylki í Noregi) eða frá Bretagne skaga Frakklands.  Þeir fá raforkuna á sama verði og þeir, sem búa við fossinn eða við virkjunina.  Rafmagn er eina varan, sem seld er samkvæmt frímerkisreglunni.

Grunnhugmyndin er sú, að þannig fáist rétt verðlagning á rafmagnið og að það verði þá notað á hagkvæmasta hátt.  [Þetta minnir á málflutning Viðreisnar varðandi verðlagningu á aflahlutdeildum sjávarútvegsins - innsk. BJo.]  Ef Norðmenn hefðu haft þessa stefnu í árdaga orkunýtingar, þá hefðu starfsleyfislögin aldrei verið samþykkt.  [Þessi lög skilyrtu starfsleyfi virkjana við orkunýtingu í héraði eða í dreifðum byggðum Noregs, og voru í staðinn gerðir langtíma orkusamningar á hagstæðu verði fyrir iðjufyrirtækin, sem tryggði alþjóðlega samkeppnishæfni þeirra - innsk. BJo.]"

Á Íslandi verður uppi sama staða og í Noregi eftir lagningu fyrsta aflsæstrengsins til Íslands.  Ef Alþingi samþykkir innleiðingu "Þriðja orkumarkaðslagabálks" ESB í íslenzkt lagasafn, þá missa lýðræðislega kjörin yfirvöld á Íslandi völd á því til ACER (Stjórnsýslustofnun ESB um orkumál), hvort og hvenær slíkur aflsæstrengur verður lagður, og hvar hann verður tekinn í land og tengdur við íslenzka stofnkerfið, og hvernig rekstri hans verður háttað.  Orkustofnun verður samkvæmt téðum lagabálki að töluverðu leyti (varðandi raforkumál) breytt í stofnun undir stjórn útibús ACER á Íslandi, og útibúið verður utan seilingar lýðræðislegra stjórnvalda og hagsmunaaðila á markaði.  Landsnet verður líka sett undir útibú ACER á Íslandi.

Aðild Íslands og Noregs að Orkusambandi ESB þjónar ekki hagsmunum Íslands og Noregs, nema síður sé.  Á þessum tveimur Norðurlöndum hefur áratugum saman öll raforka verið unnin á endurnýjanlegan og mengunarlítinn hátt.  Í ESB er þetta hlutfall um þessar mundir um 26 %, og þar er mikill þrýstingur á að hækka þetta hlutfall.  Það er ennfremur engin þörf á raforkuinnflutningi til þessara Norðurlanda, eins og til ESB, sem vanhagar bæði um eldsneyti og raforku.  

Með nýjum sæstrengjum frá Noregi til Bretlands og Þýzkalands og sæstreng frá Íslandi til Bretlands mun flutningsgeta sæstrengja til útlanda nema um helmingi af vinnslugetu virkjana í hvoru landi.  Það er ACER og útibú þess í Noregi og á Íslandi, sem ráða mun rekstri þessara sæstrengja, þ.e. afli á hverjum tíma og í hvora átt það er sent.  Orkuflutningurinn verður tiltölulega mikill vegna mikillar spurnar eftir grænni orku, og þetta mun leiða til mikillar verðhækkunar á raforku í báðum löndum.  Vegna mikils flutningskostnaðar, sem getur lent með ósanngjörnum hætti á Statnett í Noregi og Landsneti á Íslandi, gætu Íslendingar og Norðmenn lent í þeirri ókræsilegu stöðu að búa við hæsta raforkuverð í Evrópu og nota raforku að stórum hluta úr kolakyntum og kjarnorkuknúnum orkuverum, sem orka er flutt inn frá á nóttunni.  

Hér er um að ræða dæmigert sjálfskaparvíti, sem komið getur upp hjá smáþjóðum, sem ekki gá að sér í samskiptum við öflugt ríkjasamband, sem þróast í átt til sambandsríkis.  Það er engu líkara en nauðhyggja ráði för.  Þessi nauðhyggja snýst um, að Ísland og Noregur verði að vera aðilar að EES, annars sé voðinn vís.  Þetta er sams konar nauðhyggja og beitt var í hræðsluáróðri gegn Bretum 2016 í aðdraganda BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðslunnar.  Þá var því spáð, að efnahagur Bretlands færi í kalda kol við útgöngu.  Það rættist auðvitað ekki.  Þvert á móti jókst hagvöxtur Bretlands og var meiri en hagvöxtur ESB.  

Enn eru menn við sama heygarðshornið.  Hvers vegna í ósköpunum ætti efnahagur Bretlands, Noregs og Íslands að versna við að losna úr viðjum ESB ?  Fríverzlunarsamningar munu tryggja snurðulaus viðskipti, og löndin losna við kostnað reglugerðafargans búrókrataveldisins í Brüssel auk mikilla beinna útgjalda til ESB á hverju ári.  Það mun renna upp fyrir fleiri þjóðum, að hag þeirra verður betur borgið utan en innan við múra ESB (Festung Europa).  Sýnt hefur verið fram á, að talsverð líkindi eru á, að árið 2027 verði lönd sambandsríkisins ESB 13 talsins og aðildarlönd tollabandalagsins EFTA verði 14 talsins.   

 

 


Bloggfærslur 8. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband