Norsk náttúruverndarsamtök á móti valdatöku ACER

Í Noregi var þegar í kosningabaráttunni fyrir Stórþingskosningarnar 2017 umræða um afstöðuna til þess, hvort Norðmenn ættu að ganga á hönd Orkustofnunar Evrópusambandsins, ACER. Fjórir stjórnmálaflokkar tóku reyndar höndum saman í Orku- og umhverfisnefnd Stórþingsins þegar á árinu 2016 um gagnrýna afstöðu til ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators).  Furðulegt andvaraleysi stafar frá Alþingi Íslendinga og grasrótarsamtökum hérlendis í samanburði við líflega lýðræðislega umræðu í Noregi í 2 ár nú.  Hverju sætir þessi doði ?  Það er verðugt rannsóknarefni, sem líklega hentar bezt stjórnmálafræðingum.

Gleðileg undantekning frá andvaraleysinu hingað til er þó Framsóknarflokkurinn, en hann reið á vaðið með skýrri ályktun á flokksþingi sínu 10.-11. marz 2018, sem er svo skelegg og afdráttarlaus andstöðuyfirlýsing við inngöngu Íslands í Orkusamband ESB, að Framsóknarflokkinum er ókleift að standa að ríkisstjórnarfrumvarpi um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  Framsóknarflokkurinn hefur þar með brotið ísinn og sagt hingað og ekki lengra með valdatöku ESB-stofnana á afmörkuðum sviðum í þjóðfélaginu.    

Í nóvember 2017 sendu 6 náttúruverndar- og útivistarsamtök sameiginlegt bréf til NVE (Norsk vassdrags- og energivesen-Orkustofnun Noregs), þar sem þau létu í ljós áhyggjur vegna gallaðrar umfjöllunar um afleiðingar þess að raungera Kerfisáætlun Statnetts frá 2017 (Statnett er norska Landsnet).  Sama átti við um leyfðu sæstrengina til Þýzkalands og Bretlands og leyfisumsóknina fyrir áformaðan Skotlandsstreng, "North Connect".  Téð samtök fara fram á, að:

"það fari fram óháð, fagleg áhættugreining fyrir ráðgerða þróun stofnkerfisins, mögulegan aflrekstur (sveiflukennt álag) núverandi virkjana og þörfina fyrir aukna raforkuvinnslu vegna evrópskrar tengingar.  Umfjöllun leyfisumsóknar vegna Skotlandsstrengsins skal setja í bið, þar til slíkt mat verður fyrir hendi."

Hér kveður við kunnuglegan tón.  Nú stendur svo mikill útflutningur raforku fyrir dyrum í Noregi, að afgangsorkan í norska vatnsvirkjanakerfinu, 20 TWh, er að verða upp urin, og þá þarf auðvitað að huga að nýjum virkjunum, svo að eðlileg orkuskipti getið farið fram, en eins og kunnugt er leiða Norðmenn rafbílavæðinguna. 

Á Íslandi er staðan hins vegar þannig samkvæmt gildandi Rammaáætlun, að útflutningur raforku um sæstreng og afnám jarðefnaeldsneytisnotkunar með rafvæðingu geta ekki farið saman sökum orkuskorts.  Hlutverk ACER, Orkustofnunar ESB, er að að múlbinda þjóðarhagsmuni í nafni "sameiginlegra hagsmuna" ESB (common interests), og þar af leiðandi verður ekki hlustað á sérhagsmunakvak af þessu tagi frá einstökum þjóðum.  ACER hefur nú þegar fullt vald til að valta yfir slík sjónarmið og mun beita því á Íslandi, fái þessi ESB-stofnun vald til þess.  Á meðan framlagning slíks frumvarps er boðuð á Alþingi, vofir sú hætta yfir. Væri nú ríkisstjórninni sæmst að fá staðfestingu Alþingis á beitingu lögmæts neitunarvalds gegn téðri viðbót við EES-samninginn.  

Samtökin norsku beina síðan sjónum að afleiðingum aflrekstrar vatnsaflsvirkjananna, sem er nýjung í Noregi og bein afleiðing rafmagnsviðskiptanna við útlönd.  Nákvæmlega hið sama mun verða uppi á teninginum hérlendis, verði af aflsæstreng hingað.  Samtökin vitna til skýrslu verkfræðistofunnar Multiconsult frá ágúst 2017, þar sem gerð er grein fyrir afleiðingum aflrekstrar á umhverfið:

"Sameiginlegt fyrir öll vatnsföll er, að aflrekstur veldur verulegum neikvæðum umhverfisáhrifum.  Mikilvægar afleiðingar fyrir lífríkið í vötnum og ám er, að vatn flæðir undan ungfiski, skordýrum og botndýrum við skyndilega breytingu vatnsflæðis.  Hlutverk löggjafarinnar um margbreytileika lífríkis og vatnsreglugerðarinnar er að varðveita lífríki vatnasvæðis, og aflrekstur getur stangazt á við þetta. Það verður erfitt að samþætta aukinn aflrekstur vatnsaflsvirkjana okkar við stefnumið vatnsreglugerðarinnar um góða líffræðilega stöðu á vatnasvæðum, og einkum á þetta við um afrekstur rennslisvirkjana."

Ályktun náttúruverndar- og útivistarsamtakanna norsku er m.a., að "krefjast verði af Statnett að stöðva frekari undirbúningsvinnu við sæstrengsverkefni til Bretlands, þar til gerð hefur verið grein fyrir afleiðingunum fyrir náttúruna".

Þar sem eru aflsæstrengir til útlanda, er stórmál á ferðinni fyrir náttúruvernd í vatnsorkulandi, eins og Noregi eða Íslandi.  Hérlendis hefur stóriðjuálag verið yfirgnæfandi í raforkukerfinu síðan 1970, og einkenni þess er mjög jafnt álag allan sólarhringinn og allan ársins hring.  Það er alger andstæða sæstrengsrekstrar við útlönd. Þar af leiðandi eru skaðleg áhrif hraðfara breytinga á vatnsflæði [m3/s] um vatnsaflsvirkjanir ekki vandamál hér og hljóta þar af leiðandi litla umfjöllun í umhverfismati virkjana.  Þegar kemur að áhættugreiningu hérlendis fyrir sæstreng til útlanda, sem vonandi verður þó aldrei þörf á, verður að taka þetta með í reikninginn, því að eðli raforkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkulindum í ESB er óstöðugleiki umfram annað, og ESB sækist eftir raforku frá Noregi og Íslandi, þegar ekki blæs byrlega og ský dregur fyrir sólu. Þá er ætlunin að tappa af "hinni grænu rafhlöðu" Norðurlandanna.  Almenningur í Noregi áttar sig vel á afleiðingum slíkrar spákaupmennsku fyrir atvinnulífið og náttúruna, eins og ráða má af skoðanakönnun nú í marz 2018, þar sem 9 % lýstu sig hlynnt inngöngu Noregs í Orkusamband ESB, 52 % voru á móti og 39 % voru óviss.  

Það er óheppilegt að reyna að láta jarðgufuvirkjanirnar hérlendis taka upp sveiflurnar í stað vatnsaflsvirkjana.  Gufuvirkjanir þurfa helzt að ganga á stöðugu og tiltölulega miklu álagi m.v. uppsett afl vegna nýtninnar, þar reglunartregða mikil, og heildaraflgeta þeirra er mun minni en vatnsaflsvirkjananna.

Hérlendis hafa hvorki sézt yfirlýsingar með né á móti ACER frá hagsmunasamtökum og stjórnmálaflokkum, nema Framsóknarflokkinum, eins og áður segir, en nú stendur yfir Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, og er þess vænzt, að hann kveði upp úr um afstöðu flokksins til þessa stórmáls.  Það hlýtur að reka að því, að fleiri taki afstöðu, og verður fróðlegt að sjá afstöðu t.d. Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og verkalýðsfélaga.  Áhyggjur stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka í Noregi hafa verið teknar saman á eftirfarandi hátt:

"Áfram skulu innlend stjórnvöld móta orkustefnu Noregs.  Það er ekki óskað eftir orkustefnu, sem felur það í sér að færa völd frá norskum yfirvöldum til yfirþjóðlegra stofnana ESB.  

Þegar kemur að afgreiðslum, sem bíða Stórþingsins veturinn 2018, er spurningin um umráðarétt þjóðarinnar sett á oddinn varðandi ACER.  Andstæðingar valdaafsals ríkisins krefjast þess, að þingmenn nýti sér neitunarvald sitt gagnvart tengingu við ACER.

Markmið andófsmanna er að fá meirihluta Stórþingsmanna til að hafna ACER-tengingu Noregs.  Stjórnmálaflokkarnir AP (Verkamannaflokkur), SP (Miðflokkur), SV (Sósíalistíska vinstrið) og MDG (Græningjar) sömdu sameiginlegt nefndarálit í Orku- umhverfisnefnd í júní 2016, þar sem þeir lýstu efasemdum um tillögu ríkisstjórnarinnar um "ACER-lausn".  Í athugun "Nei til EU" fyrir Stórþingskosningar 2017 lagði Krf, Kristilegi þjóðarflokkurinn, sérstaka áherzlu á andstöðu sína við fullveldisframsal til ACER.  Það er ekkert öðruvísi í frumvarpi ríkisstjórnarinnar nú en í tillögum hennar þá.  Grundvöllur höfnunar á ACER-regluverkinu ætti þess vegna að vera fyrir hendi.  Þar eð regluverkið augljóslega felur í sér fullveldisframsal, ætti Stórþingið að geta sameinazt um, að við afgreiðsluna verði viðhöfð krafa Stjórnarskráarinnar um aukinn meirihluta (3/4)."

Ef draga á dám af stjórnmálastöðunni í Noregi og hefðbundinni andstöðu Sjálfstæðisflokksins við fullveldisframsal Alþingis til yfirþjóðlegra stofnana, verður ekki meirihluti fyrir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn hér.  Flokkar, sem trúandi er til stuðnings við að leiða stofnun ESB  á orkuflutningssviði hér til valda, eru eiginlega bara stjórnarandstöðuflokkarnir Samfylking, Viðreisn og Píratahreyfingin.  Hér má þó benda á, að flótti er brostinn á í liði krataflokksins norska vegna andstöðu meirihluta verkalýðshreyfingarinnar og LO-Alþýðusambands Noregs við fullveldisframsalið.  

    

 

 

 


Bloggfærslur 16. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband