Leikur vafi á um túlkun samþykkta tveggja stjórnarflokka ?

Sézt hafa fullyrðingar hérlendis um það, að Íslendingar verði vegna aðildar sinnar að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, að ganga í Orkusamband ESB, þrátt fyrir samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins 11.03.2018 og samþykktir Landsfundar Sjálfstæðisflokksins 18.03.2018 um hið gagnstæða.  Spyrja má, hver munurinn er þá á fullri aðild að ESB og þeirri aukaaðild, sem aðild að EES jafngildir, ef þjóðþing EFTA-landanna hafa ekki í krafti fullveldis síns heimild til að hafna nýjum tilskipunum ESB. Auðvitað er sá grundvallarmunur á, að aðildarlönd ESB taka þátt í mótun allra reglugerða, tilskipana og laga ESB og hafa sinn atkvæðisrétt, en EFTA-löndin þrjú eru í þeirri þrælslegu stöðu að þurfa að taka við því, sem að þeim er rétt; þó með neitunarvaldi í örlagamálum á Alþingi.

  Þetta á líka við um bann Alþingis við innflutningi á hráu kjöti.  Það er fáheyrður málflutningur að halda því fram, að lög um þetta efni frá 2009 séu að alþjóðarétti dæmd ómerk af EFTA-dómstólinum.  Hann hefur í þessu máli ekki dómsvald á Íslandi, enda aðeins ráðgefandi, og gjörðir hans eru ekki aðfararhæfar hérlendis í þessu máli.  Af hverju stafar þessi dæmalausa þörf ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur til að kyssa á vönd Evrópusambandsins ?

Nú verður fjallað um bréf norska olíu- og orkumálaráðherrans, Terje Söviknes, til Orku- og umhverfisnefndar Stórþingsins, þar sem því er haldið fram, með vísun til upplýsinga úr íslenzka utanríkisráðuneytinu, að eftirfarandi samþykkt atvinnuveganefndar Landsfundar Sjálfstæðisflokksins eigi ekki við um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn:

" Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."

Þýðing á seinni hluta svarbréfs norska ráðherrans við spurningu þingnefndar um það, hvort niðurstaða Landsfundar Sjálfstæðisflokksins muni hafa áhrif á fyrirætlun ríkisstjórnarinnar um að taka frumvarp sitt um innleiðinguna til afgreiðslu í Stórþinginu 22. marz 2018, fer hér á eftir, og bréfið í heild er í viðhengi á þessari síðu:

"Að öðru leyti geri ég ráð fyrir, að ástæða spurningarinnar séu frásagnir í norskum fjölmiðlum um, að einn af stjórnarflokkunum á Íslandi, Sjálfstæðisflokkurinn, muni hafa gert samþykkt á Landsfundi sínum um helgina  gegn ACER. Sendiráð okkar í Reykjavík hafði þess vegna samband við utanríkisráðuneyti Íslands til að átta sig á, til hvers fjölmiðlar væru að vísa.  Utanríkisráðherrann er sjálfstæðismaður.  Íslenzka ráðuneytið veitti sendiráðinu þær upplýsingar, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi samþykkt yfirlýsingu um, að fram fari mat á því, hvernig EES-samningurinn hafi virkað á Íslandi.  Þar er líka sagt, að flokkurinn sé mjög gagnrýninn á upptöku nýrrar löggjafar í EES-samninginn, sem falli utan við tveggja stoða fyrirkomulagið.  

Undirnefnd um atvinnuvegamál lýsti því yfir á Landsfundinum, að Sjálfstæðisflokkinum beri að snúast öndverður gegn framsali valds yfir íslenzkum orkumarkaði til ESB-stofnana. Þessi yfirlýsing þýðir ekki, að Sjálfstæðisflokkurinn snúist öndverður gegn innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins."  

 

Lokamálsgreinin, sem er undirstrikuð af höfundi þessarar vefgreinar, BJo, þarfnast skýringa að hálfu utanríkisráðuneytis Íslands.  Er þessi ónákvæma frásögn af ályktunum á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins 16.-18. marz 2018 frá ráðuneytinu komin, og hefur það klykkt út með vægast sagt villandi túlkun, raunar algerlega öfugsnúinni túlkun, á merkingu ályktunar atvinnuveganefndar og á vilja Landsfundar Sjálfstæðisflokksins.  Það er grafalvarlegt mál, og ekki er síður alvarlegt að gera tilraun til að blekkja norska sendiherran, norsku ríkisstjórnina, Stórþingið og norsku þjóðina, ef þessi túlkun er frá utanríkisráðuneyti Íslands komin.

Þetta mál er þegar á því stigi í Noregi, að stjórnarandstaðan ávítar norska ráðherrann í dag, 20.03.2018, fyrir villandi upplýsingagjöf til þingsins á grundvelli réttrar þýðingar á ályktun atvinnuveganefndar Landsfundar Sjálfstæðisflokksins og vegna þess, að ráðherrann sleppti að geta um stórmerka yfirlýsingu af flokksþingi Framsóknarflokksins 11. marz 2018, sem er svona:

"Framsókn stendur vörð um fullveldi Íslands í orkumálum og hafnar því, að orkulöggjöf Evrópusambandsins verði tekin inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið." 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 20. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband