Höfnun ACER ógnar ekki útflutningi til ESB

Reglur EES-samningsins um frjáls vöruviðskipti munu verða áfram í gildi, þótt Alþingi hafni aðild Íslands að Orkusambandi ESB.  Ótti um, að störf tapist á Íslandi við að hafna því, að ráðstöfunarréttur raforkunnar lendi í höndum Orkustofnunar ESB, er ástæðulaus.  Það er aftur á móti hætta á því, að störf tapist á Íslandi, ef veruleg raforkuverðshækkun verður á innanlandsmarkaði, t.d. vegna tengingar við raforkumarkað ESB. Gangi Ísland í Orkusamband ESB, öðlast ACER-Orkustofnun ESB úrslitaáhrif á það, hvort aflsæstrengur verður lagður frá Íslandi til útlanda, og íslenzk yfirvöld verða að sama skapi áhrifalaus um það.  Það er einmitt hlutverk ACER að ryðja brott staðbundnum hindrunum gagnvart bættum millilandatengingum. 

Það er munur á biðsal ESB, sem kallast EES, og ESB sjálfu.  Þar má nefna neitunarvald EFTA-ríkjanna þriggja í EES gagnvart gjörðum frá ESB og afar takmarkaða aðkomu EFTA-ríkjanna að málum á undirbúningsstigi. Af Stjórnarskrá Íslands, gr. 2, leiðir, að ekki er hægt að gera skuldbindandi og íþyngjandi samninga fyrir Íslands hönd við erlent ríki, ríkjasamband eða yfirþjóðlega stofnun, án þess að Alþingi fjalli um slíkt og afgreiði með atkvæðagreiðslu, þar sem Alþingi hefur frjálsar hendur, bundið af lögum og Stjórnarskrá lýðveldisins.

  Í EES-samninginum eru ESB settar þröngar skorður varðandi rafsiaðgerðir við beitingu neitunarvalds  EFTA-ríkjanna, og þar eru ekki settar fram neinar kröfur um röksemdafærslu við beitingu neitunarvalds.

ESB getur brugðizt við með tvennum hætti:

  • ESB getur viðurkennt, að það er viss stjórnarfarslegur munur á ESB og Íslandi (og hinum 2 EFTA-löndunum í EES).
  • ESB getur sett fram kröfu um það, að sá hluti EES-samningsins, sem málið snertir, falli úr gildi.

Í EES eru ákvarðanir teknar einróma.  Ísland, Noregur og Liechtenstein samræma afstöðu sína í fastanefnd EFTA, sem ekki getur samþykkt ný lög eða tilskipun án samþykkis landanna þriggja.  Þess vegna hefur Ísland neitunarvald gagnvart gagnvart sérhverjum ESB-gerningi.  Þetta leiðir af kafla 93 í EES-samninginum og kafla 6 í samninginum um fastanefnd EFTA-ríkjanna.

 

Fylgispekt við samning styður væg eða engin viðbrögð:

ESB getur samþykkt höfnunina án nokkurra ákveðinna viðbragða.  M.t.t. fyrirsjáanleika fyrir aðilana og fylgispekt við samninginn er þetta líklegast.  Kafli 3 í EES-samninginum leggur aðilum fylgispekt á herðar, sem felur í sér, að enginn aðilanna skal valda óþarfa erfiðleikum í samstarfinu.  Þetta ýtir undir, að hugsanleg viðbrögð að hálfu ESB skulu breyta innihaldi og virkni EES-samningsins eins lítið og hægt er.  M.ö.o.: núverandi viðskiptafrelsi verður óskert.

ESB getur ekki hafið refsiaðgerðir gegn Íslandi, en getur ógilt viðkomandi hluta EES-samningsins samkvæmt kafla 102.  Meiningin er að jafna út ávinninginn, sem Ísland fær við að hafna viðkomandi tilskipun eða lögum.  Meginhluti samningsins og viðaukarnir gilda eftir sem áður.  Reglurnar um t.d. frjáls vöruviðskipti og bann við viðskiptahindrunum verða ekki snertar.

 Öllum tilskipunum og lögum í EES-samninginum er raðað i 22 efnisflokka í viðhengjum.  Orka er viðhengi 4.  Það er hér, sem Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB með ACER-kerfinu, sem Alþingi væntanlega fær til afgreiðslu, verður settur, nema Alþingi hafni málinu.  Það er Sameiginlega EES-nefndin, sem ákveður, hvort og þá hvaða hluti samningsins skuli falla úr gildi.  Þar eru EFTA, þ.e.a.s Ísland, Noregur, Liechtenstein og ESB jafnréttháir aðilar, og ákvörðun útheimtir samkomulag allra.

Í skriflegu svari sínu til Stórþingsins 5. marz 2018 staðfesti Terje Söviknes, olíu- og orkuráðherra, að það er einvörðungu viðkomandi kafli EES-samningsins, hér orkukaflinn, sem hægt er að ógilda.  Ráðherrann skrifaði ennfremur:

"Spurningin um, hvaða kafla samningsins málið snertir, er viðfangsefni stjórnmálamanna og verður ekki áfrýjað til EFTA- eða ESB-dómstólsins".  Með öðrum orðum þarf að fara samningaleiðina og finna lausn.  

Hvað í EES-samninginum snertir ACER beint ?:

Allar aðgerðir og viðbrögð í EES-samstarfinu fara eftir hlutfallsreglunni.  Ásamt fylgispektinni þýðir þetta, að "það sem beinlínis snertir" skal túlka þröngt.  Eðlilegi skilningurinn, sem  einnig er vel þekktur í lögfræðinni, er að takmarka ógildinguna við reglurnar, sem nýju reglurnar áttu að breyta eða koma í staðinn fyrir.  Varðandi Þriðja orkumarkaðslagabálkinn jafngildir þetta, að ESB getur aðeins krafizt ógildingar þeirra ákvæða, sem átti að breyta eða afnema í Öðrum orkumarkaðslagabálkinum (sbr raforkulög Alþingis um aðgreiningu aðila á raforkumarkaði í fernt frá 2003 með síðari breytingum). Þetta mun engin skaðleg áhrif hafa hér og varla í Noregi heldur.

Þótt ESB muni krefjast ógildingar á hluta orkuregluverksins, gætu íslenzk fyrirtæki áfram starfað eins og áður í orkugeira ESB/EES landanna, ef þau hefðu þar starfsemi núna.  Hið sama mundi gilda um fyrirtæki frá EES í hérlendum orkugeira. EES samningurinn á að vernda áunnin réttindi einstaklinga og fyrirtækja, eins og stendur í kafla 102:

"Réttindi og skyldur, sem fólk og markaðsaðilar hafa þegar áunnið sér samkvæmt þessum samningi, skulu standa áfram."

Stuðzt var við grein Mortens Harper, lögfræðings og verkefnastjóra hjá "Nei til EU", dags. 08.03.2018, á vefsetri samtakanna. 

 

  

 


Bloggfærslur 23. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband