Heimsókn formanns "Nei við ESB" til Íslands

Aðild að Evrópusambandinu, ESB, er alls ekkert umræðuefni í norskri þjóðfélagsumræðu lengur og er útilokuð miðað við þróunina á þeim bænum eftir samþykki ESB-ríkjanna á stjórnarskrárígildinu, Lissabon-sáttmálanum, árið 2009, sem kveður á um, að stofnanir sambandsins skuli stefna að sambandsríki í stað ríkjasambands.  Afleiðingar þessa eru óhjákvæmilega þær, að kvarnast mun úr sambandinu, og er Bretland fyrsta dæmið þar um. Bretar hafa nú sýnt öðrum þjóðum ESB fordæmi, og ESB mun ekki takast að gera hlut Breta verri eftir útgöngu en fyrir.  ESB er ekki stætt á því að veita Bretum lakari viðskiptakjör en Kanadamönnum.  Þá standa frjálsir fjármagnsflutningar eftir, en Bretar geta hótað að bjóða fjármálafyrirtækjunum skattaívilnanir, ef ESB ætlar að reyna að knésetja þá á fjármálasviðinu.  

Ef einhver heldur, að þessi samrunaþróun muni engin áhrif hafa á samstarfið innan Evrópska efnahagssvæðisins, EES, þá er slíkt reginmisskilningur, eins og þegar er komið í ljós.  Fulltrúar ESB nenna ekki lengur að eyða tíma í þvarg um sérlausnir við EFTA-löndin, heldur heimta, að lagabálkar ESB séu teknir hráir upp í löggjöf EFTA-landanna, eins og þau væru innan vébanda ESB, þótt þau hafi nánast enga aðkomu að þessum reglugerðum, tilskipunum og lögum.  Nýjasta dæmið er um það, að EFTA-ríkin skuli ganga í orkusamband ESB og leiða þar með orkustofnunina ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators) til úrslitaáhrifa um ráðstöfun raforku hvers lands. Fyrir EFTA-löndin, Ísland og Noreg, er ávinningur af aðild að orkusambandi ESB enginn, en ókostirnir margvíslegs eðlis og alvarlegir.

Bein stjórnun einnar stofnunar ESB, ACER í þessu tilviki, á innri málefnum EFTA-ríkjanna, er stjórnarskrárbrot í bæði Noregi og á Íslandi.  Gerð er tilraun til að klæða þetta stjórnarskrárbrot í dulbúning með því að breyta Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, í myndrita, sem tekur við ákvörðunum frá ACER og sendir þær til Orkustofnunar Íslands eða deildar innan hennar, Orkustjórnsýslustofnunar, sem verður ósnertanleg af lýðræðislega kjörnum yfirvöldum landsins og hagsmunaaðilum innanlands og framkvæmir fyrirskipanir ACER, er varða Ísland.  Þessi orkustjórnsýslustofnun verður útibú ACER á Íslandi.

Téð Orkustjórnsýslustofnun , sem Norðmenn kalla "Reguleringsmyndighet for energi", verður einsdæmi og  algert aðskotadýr innan íslenzkrar stjórnsýslu og brýtur í bága við þrískiptingu ríkisvaldsins, sem með þessu verður fjórskipt, þar sem fjórði hlutinn verður sem ríki í ríkinu, utan við lög og rétt á Íslandi, en undir ESA og EFTA-dómstólinum.  Norskir stjórnlagafræðingar hrista hausinn yfir því örverpi, sem þarna hefur komið undir í samskiptum ESB og EFTA, en íslenzkir stjórnlagafræðingar hafa enn ekki kveðið sér hljóðs opinberlega um þetta fyrirbrigði, svo að vitað sé. 

Hvað sagði formaður "Nei til EU", Kathrine Kleveland, um orkumálin í viðtali við Morgunblaðið, 1. marz 2018 ?:

""Í dag höfum við ástæðu til þess að segja nei við EES vegna orkureglugerðar ESB.  "Nei til EU" vinnur að því að fá norska Stórþingið til þess að neita tilskipun ESB gegnum EES, sem felur í sér, að það taki yfir orkustefnu okkar", segir Kathrine Kleveland, sem gladdist, þegar Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi 6. febrúar 2018, að hann hefði efasemdir um aðild Íslands að EES og tenginguna við ACER."  

Það var líklega í fyrsta skiptið, sem á Alþingi var brugðizt við vaxandi íhlutunarkröfu ESB um innri málefni EFTA-ríkjanna innan EES, þegar fjármála- og efnahagsráðherra lýsti því beinlínis yfir, að hann mundi aldrei samþykkja, að einhver af fjölmörgum stofnunum ESB fengi lagaheimild frá Alþingi til að skipta sér af innri málefnum Íslands, sem væri fjarri anda EES-samningsins um tveggja stoða lausn.  

Þessi yfirlýsing ásamt fleiru, sem fram kom í máli ráðherrans, vakti óskipta athygli í Noregi.  Yfirlýsingin varð vatn á myllu þeirra, sem nú berjast harðri baráttu gegn innlimun Noregs í orkusamband ESB, og að sama skapi urðu sumir ráðherrar og aðstoðarráðherrar óánægðir, þegar kvað við nýjan tón á Íslandi.  Það er á allra vitorði, að hafni Stórþingið frumvarpi ríkisstjórnarinnar um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í norska lagasafnið, þá verður þessari tilraun ESB til að klófesta ráðstöfunarrétt endurnýjanlegrar orku Noregs og Íslands hrint.  Af þessum sökum er mikilvægt, að hérlendir efasemdarmenn um Orkusambandið og ACER á Alþingi og annars staðar láti í sér heyra á norskum vettvangi.  

""Ég trúi því, að Noregur og Ísland geti hjálpazt að með því, að bæði segi nei við orkustefnu ESB.  Það er ógnvekjandi, að ESB hafi nú þegar sett sæstrenginn Ice Link á dagskrá orkusambandsins", segir Kleveland og bendir á, að hitunarkostnaður sé minni á Íslandi en í Evrópu.  Ef regluverk ESB nái fram að ganga, muni rafmagns- og hitunarkostnaður aukast bæði í Noregi og á Íslandi."

""Á meðan við erum í EES, þurfum við stöðugt að taka við lögum og reglugerðum beint frá ESB.  Við verðum að segja oftar nei", segir Kleveland, ánægð með BREXIT, og að Bretar ætli að ganga úr ESB."

Reglufarganið frá Berlaymont er yfirþyrmandi fyrir fámennar þjóðir og margfalt meira en nauðsyn krefur til að halda uppi eðlilegum og hindrunarlausum viðskiptum við ESB-löndin.  Á aldarfjórðungs veru sinni í EES hafa íslenzk stjórnvöld tekið upp að jafnaði 460 ESB-reglur á ári.  Megnið af þeim snertir atvinnuvegina, og í heild mynda þær þungt farg á atvinnuvegunum, sem dregur sérstaklega úr samkeppnishæfni lítilla og meðalstórra fyrirtækja.  Þá, sem stóðu að EES-samninginum að Íslands hálfu fyrir aldarfjórðungi, hefur ekki órað fyrir því regluflóði og kostnaðarauka, sem þeir voru að kalla yfir ríkissjóð og atvinnufyrirtækin. Það er ekkert vit orðið í því lengur að kaupa aðgengi að Innri markaðinum þessu dýra verði, þegar fríverzlunarsamningar við Bretland og ESB verða í boði.    

Í baráttunni fyrir aukinni framleiðni til að varðveita kaupmáttaraukningu almennings er uppsögn EES-samningsins og grisjun laga- og reglugerðafrumskógarins ásamt gerð tvíhliða (eða á vegum EFTA) fríverzlunarsamninga eitt af þeim ráðum, sem hægt er að grípa til.  

Kleveland minnist á það hneyksli, að Ice Link (aflsæstrengur á milli Íslands og Bretlands) skuli hafa ratað á forgangslista ACER um verkefni til greiða fyrir orkuflutningum á milli svæða og á milli landa, svo að orkuflutningarnir verði svo hnökralausir, að raforkuverðmunur verði innan við 2,0 EUR/MWh (0,25 ISK/kWh).  Hver gaf Landsvirkjun og Landsneti, sem tilgreindir eru hérlendir aðstandendur verkefnisins, leyfi til að heimila ACER að setja Ice Link á framkvæmdaáætlun án lýðræðislegrar umræðu hérlendis um þetta afdrifaríka mál ?  

Það er full ástæða fyrir stjórnvöld að krefja Landsvirkjun, sem samkvæmt kerfinu á ekki að skipta sér af orkuflutningsmálum, og Landsnet, um viðhlítandi skýringar á þessum gjörningi.  Hann sjálfur bregður hins vegar birtu á það, að aflsæstrengslögn til Íslands er litlum vafa undirorpin, ef Alþingi samþykkir Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB sem lög frá Alþingi.  Verði sú afdrifaríka ákvörðun tekin á Alþingi, þá verða Íslendingar bráðlega í sömu aðstöðu og Norðmenn með Trójuhest í stjórnkerfi raforkumála, sem setur reglur að eigin geðþótta um raforkuviðskipti Íslands við raforkumarkað ESB (EES).  Hvers konar afmælisgjöf er þetta eiginlega frá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur á 100 ára afmælisári fullveldis Íslands ?  

  

 

 

 


Bloggfærslur 6. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband