Yfirlýsing frá Noregi

Málflutningur íslenzka utanríkisráðuneytisins í s.k. ACER-máli, sem fjallar um afstöðuna til inngöngu Íslands í Orkusamband ESB, hefur vakið hneykslun hér heima og í Noregi.  Hér er átt við það, sem haft er eftir fulltrúum utanríkisráðuneytisins í fréttaskýringu Viðskiptablaðsins 28. marz 2018 í fréttaskýringunni:

"Mikilsverðir orkuhagsmunir ekki í húfi".  Að rakalausum málflutningi um tjón, sem Íslendingar gætu bakað Norðmönnum með höfnun Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, er vikið í yfirlýsingu Trúnaðarráðs norsku samtakanna "Nei til EU", dags. 08.04.2018.  Hér er þýðing höfundar á tveimur af 9 greinum yfirlýsingarinnar, en hún er í heild sinni á norsku í viðhengi með þessari vefgrein:

"Norsk yfirvöld, höll undir ESB, hafa vanizt því að fá vilja sínum  framgengt sem "stóri bróðir" í EES-samstarfinu.  Erna Solberg, forsætisráðherra, fullyrðir, að orkustofnunin ACER "sé ekki mikilvæg" fyrir Ísland, því að landið hefur enn ekki verið tengt evrópska orkumarkaðinum, eins og Noregur.  Á milli línanna gefur hún til kynna, að hún ætlast til, að Ísland muni láta undan norskri kröfugerð í samningum um að innleiða orkubálkinn.

Íslenzk synjun mun ekki hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir Ísland eða Noreg.  ESB getur í mesta lagi ógilt hluta af viðhengi 4 í EES-samninginum, sem fjallar um orku, og slíkt þjónar ekki hagsmunum ESB. Þvert á móti mun íslenzk synjun beinlínis verða til stuðnings þjóðarhagsmunum Noregs.  Baráttan gegn ACER hefur verið einkar öflug á meðal starfsmanna norsks  orkusækins iðnaðar, sem bera ugg í brjósti um störf sín og stöðvun á starfsemi, ef rafmagnsverð nálgast það, sem tíðkast í ESB.  

Miklu máli skiptir, að allir átti sig á alvarlegum afleiðingum þess að samþykkja innleiðingu á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, þótt raforkukerfi landsins sé ótengt við raforkukerfi ESB. Í yfirlýsingu norsku samtakanna "Nei til EU" um tilraun norskra stjórnvalda til að hafa áhrif á stjórnmál Íslands í ACER-málinu, sem Alþingi á eftir að fjalla um, kemur skýrt fram, að Ísland mun alls ekki bera hagsmuni norsku þjóðarinnar fyrir borð með synjun á ACER-löggjöfinni, sem þá um leið jafngildir höfnun EFTA á þessari ESB-samruna löggjöf. Þvert á móti mun mikill meirihluti norsku þjóðarinnar fagna synjun Alþingis. Það er hið eina, sem máli skiptir fyrir hina norsku hlið á þessu máli Íslendinga.

Misskilnings gætir um það, hvenær valdframsals íslenzka ríkisins tæki að gæta hér á landi til ACER.  Þá er ruglað saman völdum til ákvarðanatöku um málefni innlendra raforkuflutningsmála og áhrifum hins sameiginlega raforkumarkaðar ESB á íslenzka raforkumarkaðinn.  Síðar nefndu áhrifin koma vitaskuld ekki fram fyrr en við gangsetningu aflsæstrengs til útlanda.  Kryfjum hins vegar eina hlið á áhrifum  valdframsalsins:

ESB hefur samið kerfisþróunaráætlun fyrir raforkukerfi EES.  Þar er Ice Link örlítill hluti.  Með því að samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB inn í EES-samninginn, mundi Alþingi skuldbinda sig til að styðja við framkvæmd þessarar kerfisþróunaráætlunar að sínu leyti.  Eftir téða samþykkt, verður fyrsta verk ACER hér á landi að stofnsetja útibú sitt, sem samkvæmt þriðja orkubálki ESB fær í hendur bæði reglugerðar- og eftirlitshlutverk með Landsneti.  Í fyllingu tímans koma fyrirmæli frá ACER um stimpilstofnunina ESA þess efnis að semja tæknilega og viðskiptalega skilmála fyrir lagningu, tengingu og rekstur Ice Link.  Þegar þeir eru tilbúnir, verður stofnað félag um Ice Link, sem semur og sendir umsókn um lagningarleyfi, tengileyfi og rekstrarleyfi fyrir Ice Link til Orkustofnunar, OS, þess hluta hennar, sem verður undir íslenzkum yfirvöldum. 

Verður OS stætt á að hafna umsókn eiganda sæstrengsverkefnis, ef hann uppfyllir alla skilmála ?  Það skortir allar lagalegar forsendur fyrir slíkri höfnun.  ESB mun strax saka íslenzk stjórnvöld um samningsrof (EES-samningurinn) og ágreiningsmálið væntanlega fara sína leið um ESA til EFTA-dómstólsins í Lúxemborg.  Dómstóllinn mun vafalaust dæma í samræmi við skuldbindingar í EES-samninginum.  Þar með verður eiganda sæstrengsins veitt leyfi til að leggja hann, tengja og reka, jafnvel í blóra við vilja íslenzkra stjórnvalda.  

Í kjölfarið munu áhrifin af strengnum á raforkukerfið og á hagkerfið koma í ljós.  Raforkureikningurinn mun hækka um á að gizka 75 %, sem leiða mun til meiri ásóknar í virkjanaleyfi, verri samkeppnisstöðu fyrirtækja, minni spurnar eftir vinnuafli og rýrnandi lífskjara.  Miklar sveiflur verða á rennsli virkjaðra vatnsfalla, enda verða virkjanir þandar á fullu álagi á daginn og reknar á sáralitlu álagi á nóttunni, þegar raforka verður flutt inn. 

Það er ekki spáð svo háu raforkuverði í Evrópu, að gróði verði mikill af þessum raforkuviðskiptum, en ESB fær með þessu aukna hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda í sinn hlut.  Botninn getur svo skyndilega dottið úr þessum viðskiptum, ef/þegar tækninýjungar gera ESB-ríkjunum kleift að leysa kolakynt orkuver sín af hólmi með áhættulitlum, kolefnisfríum orkuverum, t.d. þóríum-verum.  Þá sitja landsmenn uppi með ónýtanlegar, miklar fjárfestingar, sem geta ógnað fjármálastöðugleika hérlendis, .  

ACER-málið er sýnidæmi um stórvægilega galla EES-samningsins:

  • hann líður fyrir vaxandi ójafnræði á milli EFTA og ESB.  Samkomulags er ekki lengur freistað í Sameiginlegu EES-nefndinni, þ.e. ekkert svigrúm er lengur veitt að hálfu ESB fyrir sáttaferli á milli EFTA/ESB.
  • hann er ógagnsær og þróun hans er ófyrirsjáanleg. EFTA-ríkin vita ekki, hvað þau samþykkja, því að breytingar og viðbætur eru tíðar.  T.d. er í bígerð 1000 blaðsíðna viðbót við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, sem væntanlega verður kallaður Fjórði orkumarkaðslagabálkurinn.  Þetta verður sagan endalausa. 
  • dómsvaldið er framselt úr landi varðandi öll ágreiningsatriði, þar sem ACER eða útibú þess lenda í ágreiningi hérlendis.
  • framkvæmdavaldið er framselt úr landi, því að útibú ACER á Íslandi verður í gjörðum sínum óháð íslenzka framkvæmdavaldinu (sem og dómsvaldinu).  Útibúið tekur aðeins við fyrirmælum frá ACER. Það er hvorki stjórnlagalegt né siðferðislegt haldreipi fólgið í því að láta ESA afrita þessi fyrirmæli og senda áfram, enda hafa ESA ekki verið veitt nein völd til að breyta ákvörðunum ACER.
  • ákvarðanir ESB verða bindandi fyrir einstaklinga, fyrirtæki og ríkið, því að útibú ACER á Íslandi mun hafa síðasta orðið um flutningsgjald Landsnets, og ákvarðanir í þágu sæstrengsins munu óhjákvæmilega varpast yfir í gjaldskrá Landsnets.

Til að tveggja stoða kerfið verði virt, þarf að stofna sams konar stofnun EFTA-megin.  Fyrir því er pólitískur vilji hvorki í ESB né í EFTA.  Án tveggja stoða kerfisins verður bráðlega gengið af EES-samstarfinu dauðu.  

Hver og einn þessara 5 ásteytingarsteina EES-samningsins við Stjórnarskrá lýðveldisins er alvarlegur, en þegar þeir koma allir saman, mynda þeir frágangssök fyrir þetta fyrirkomulag.  Það er affarasælast fyrir utanríkisráðuneytið að viðurkenna staðreyndir og að hefja þegar í stað undirbúning að því að finna eðlilega valkosti fyrir landið við EES-samninginn.  Hann ber dauðann í sér.  Í þessu skyni er t.d. hægt að fara í smiðju til norska Stórþingsmannsins Sigbjörn Gjelsvik, sem hefur ritað yfirgripsmikla skýrslu um þetta efni.  Gjelsvik er væntanlegur til landsins 16.04.2018.  

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 12. apríl 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband