Raforkuframboð og orkuskipti

Nýlega var lýst í fjölmiðlum þeirri niðurstöðu BS nema í rafmagnstæknifræði við HR, að með álagsstýringu myndi núverandi rafkerfi veitna hjá OR (Orkuveita Reykjavíkur) duga fyrir 50´000 rafmagnsbíla.  Forstjóri OR greip þetta á lofti og fullyrti í fjölmiðlum, að Veitur þyrftu ekki að fjárfesta eina krónu til að anna orkuþörf 50 þúsund rafbíla. 

Þetta er rangtúlkun á niðurstöðu hákólanemans og ábyrgðarleysi af hálaunamanni á jötu almennings að halda slíkri vitleysu fram á opinberum vettvangi. Einhverjir mundu segja, að téður forstjóri ynni varla fyrir helmingnum af kaupinu sínu með slíku háttalagi. 

Sannleikurinn er sá, að búast má við álagi á veitukerfið a.m.k. 500 MW, ef allir 50´000 rafbílarnir eru hlaðnir í einu, og er hér þó reiknað með einvörðungu fólksbílum, en talsverður fjöldi strætisvagna, langferðabíla og vinnuvéla mun senn verða tengdur við rafdreifikerfi OR/Veitna.  Það er tvöföld núverandi aflgeta veitukerfis OR, en núverandi hámarksálag þar er um 220 MW.

Það er hins vegar ólíklegt, að nokkurn tíma séu öll rafmagnsfartækin samtímis í hleðslu, og m.v. núverandi meðalakstur, 13´000 km/ár, meðalorkunýtni 0,25 kWh/km og meðalrafgeymastærð 50 kWh, þá má búast við meðalálagi þessara 50´000 hleðslutækja 90 MW á veitukerfið.  Því fer fjarri, að dreifikerfi Veitna ráði við þetta á daginn, en þar sem meðalálag Veitna yfir árið er um þessar mundir aðeins 133 MW og 133+90=223 MW<250 MW, sem er líkleg geta dreifikerfisins, þá má með snjalllausn koma þessu viðbótar álagi fyrir án samsvarandi styrkingar dreifikerfisins. Það verður þó ekki óhætt að reiða sig einvörðungu á orkuverðslækkun, til að bíleigendur hlaði á nóttunni, heldur verður að hanna rofmöguleika og bjóða upp á roftaxta. Vonandi flýtur OR ekki með sofandi forstjórann að feigðarósi.    

Því fer víðs fjarri, að OR geti setið með hendur í skauti og flotið með forstjóra sínum að feigðarósi.  Veitur verða strax að hefjast handa við 5-10 ára áætlun um snjallorkumælavæðingu allra heimila og fyrirtækja á veitusvæði sínu.  Þetta mun útheimta breytingar á mörgum rafmagnstöflum, því að sértengja þarf greinar með rofrétti fyrir snjallorkumælinn og í leiðinni er rétt að þrífasa töflurnar til að minnka straumtöku og spennufall.

Hér er um fjárfestingu upp á um miaISK 10 að ræða og óskiljanlegt er, að OR-forstjórinn skuli stöðugt reyna að draga dul á, að fjárfestinga er vissulega þörf vegna orkuskipta, t.d. í virkjunum, eða hefur téður forstjóri með sinn jarðfræðibakgrunn fundið upp eilífðarvél ?  Sinnuleysi í þessum efnum getur aðeins endað á einn hátt: með yfirálagi á veitukerfið, flutningskerfið og virkjanir með gríðarlegum óþægindum og samfélagslegu tjóni vegna straumleysis.  Það er mikið í húfi, og ábyrgðarleysi að hálfu forstöðumanna orkufyrirtækja er ólíðandi. 

Raforkuþörfin fyrir téða 50´000 rafmagnsbíla (fólksbíla) verður að lágmarki 163 GWh/ár (bílaleigubílar eru ekki inni í þessum útreikningum), sem er 14 % aukning við orkuna um kerfi Veitna. Á að virkja til að mæta þessari auknu þörf eða á að búa til orkuskort ?  Lítum á, hvað Þorsteinn Þorsteinsson, rekstrarhagfræðingur og framkvæmdastjóri Markaðsrýni skrifar um þetta á Sjónarhóli Morgunblaðsins 8. marz 2018 í greininni:  

"Orka og samkeppnishæfni":

"Orkuskortur er nýtt og alvarlegt vandamál, sem nú blasir við Íslendingum.  Sú tíð er liðin, að ríkið sendi (svo !) nefndir út af örkinni í leit að erlendum raforkukaupendum til að nýta umframorku í landinu. Ljóst er, að eftirspurnin verður meiri en framboðið í náinni framtíð, ef ekkert verður að gert.  Óbreytt ástand mun hamla atvinnuuppbyggingu í landinu.  Markaðir, sem búa við skort, hafa einnig þá tilhneigingu, að verð hækkar, þannig að sú staða gæti blasað við almennum notendum í landinu innan ekki svo langs tíma."

Það stefnir í óefni með raforkukerfi landsins, því að þröngsýni og einstrengingsháttur veldur því, að enginn meginþáttanna þriggja, raforkuorkuvinnslu, flutnings og dreifingar, heldur í við þróun raforkuþarfar þjóðfélagsins, heimila, fyrirtækja og opinberra stofnana. Verst hafa Vestfirðingar, Eyfirðingar og íbúar/fyrirtæki á NA-horninu orðið fyrir barðinu á þessu, en nú síðast ráku Hafnfirðingar upp ramakvein vegna niðurstöðu úrskurðarnefndar um ógildingu framkvæmdaleyfis til Landsnets vegna þess formgalla að taka ekki jarðstreng með í reikninginn yfir fagrar hraunmyndanir og vatnsverndarsvæði, þótt í augum uppi liggi, að jarðstrengur sé miklu síðri lausn í þessu tilviki í umhverfislegu og kostnaðarlegu tilliti.  Löggjöf um þessa úrskurðarnefnd þarfnast endurskoðunar í nafni almannahagsmuna, og svo er um löggjöf framkvæmda frá fyrstu stigum til hins síðasta. Hér stefnir í öngþveiti.

Orkumálastjóri hefur varað við þróun orkumálanna, og fenginn hefur verið erlendur ráðgjafi:

"Fyrir ári sagði dr Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, í viðtali við mbl.is, að komið væri að þolmörkum varðandi raforkukerfið hér á landi og orkuöryggi.  Tilefni þessara orða voru niðurstöður skýrslu, sem þá voru kynntar af Orkustofnun.  Skýrslan var unnin af sérfræðingum frá háskólastofnunum MIT í BNA og IIT Comillas á Spáni fyrir Orkustofnun, Landsvirkjun og Landsnet.

Helztu niðurstöður skýrslunnar voru þær, að sá vöxtur, sem er í raforkunotkun hérlendis, kalli fljótlega á frekari raforkuframleiðslu til að mæta þörfinni.  Í skýrslunni er því kallað eftir langtímastefnu varðandi virkjanakosti, raforkuframleiðslu og raforkuflutning.  

Mögulegur sæstrengur til Bretlands og áhrif hans á orkuöryggi var einnig til umfjöllunar í skýrslunni.  Þar kom m.a. fram, að slíkur strengur væri það bezta, sem væri í boði varðandi fullkomið orkuöryggi, þar sem þá yrði til aðgangur að raforku frá Evrópu, ef skortur verður hér á landi. [Hér verður að gera þá athugasemd, að rekstraröryggi slíks aflsæstrengs kemst ekki í samjöfnuð við rekstraröryggi íslenzka stofnkerfisins, og þess vegna batnar rekstraröryggi íslenzka kerfisins því aðeins með sæstreng, að hann sé notaður til að viðhalda svo hárri stöðu í miðlunarlónunum, að örugglega komi ekki til orkuþurrðar að vori- innsk. BJo.]

Sæstrengur kalli hins vegar á 1000 MW raforkuframleiðslu til að verða raunhæfur kostur.  Þetta þýði, að ódýrari lausn sé fólgin í því að byggja upp frekari raforkuframleiðslu hérlendis án sæstrengs.  Sæstrengurinn var því ekki talinn góður kostur, nema verðið, sem Bretar eða hugsanlega aðrir kaupendur eru tilbúnir til að greiða, væri mjög gott.  Skýrsluhöfunfar töldu sig ekki geta svarað því, hvort það væri raunhæft."

Bretar eru á leið úr ESB og þar með úr Orkusambandi ESB.  Þeir eru ekki lengur fúsir til að greiða yfirverð frá útlöndum fyrir græna orku.  Ef ACER, Orkustofnun ESB, fær tögl og hagldir á orkumálasviði hér, mun hún láta leggja sæstreng á milli Íslands og Bretlands, og verða Bretar þá milliliðir um orkumiðlun frá Íslandi og inn á raforkumarkað ESB.  Þar yrðu viðskiptin á grundvelli markaðsverðs fyrir annars vegar jöfnunarorku, sem gerðir eru samningar um til e.t.v. ársfjórðungs í senn, og hins vegar augnabliksorku til að fylla upp í ófyrirséð brottfall vistvænnar orkuvinnslu (sól, vindur). Augljóslega er hér um mun meiri áhættufjárfestingu í sæstreng og virkjunum að ræða en við fjárfestingu fyrir innanlandsmarkað.

"Einn helzti ókostur sæstrengs væri, að verð hér innanlands myndi hækka, bæði til fyrirtækja og almennra notenda.  Þetta kemur einnig heim og saman við reynslu Norðmanna.  Hækkað verð gæti m.a. haft þau áhrif, að samkeppnisstaða íslenzkra fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum myndi veikjast.  Á hinn bóginn myndi sá orkuskortur, sem blasir við á næstu árum, einnig leiða til hækkaðs verðs og þar með hafa sambærileg áhrif á samkeppnisstöðuna."

Hér hafa verið leiddir fram á völlinn erlendir og innlendur ráðgjafi.  Þeir hafa allir komizt að þeirri niðurstöðu, að aflsæstrengur,Ice Link, sé óheillavænlegur kostur fyrir raforkukerfi og efnahagskerfi Íslands.  Það er hlutverk íslenzkra stjórnvalda á orkumálasviði að stýra skútunni framhjá þeim brimboðum, sem hér hafa verið nefndir til sögunnar, þ.e. því að færa eigin völd yfir raforkuflutningum í hendur ACER og því, að á landinu verði raforkuskortur.  Alþingi þarf að koma að báðum viðfangsefnunum með því að fella ACER-frumvarpið/þingsályktunartillöguna um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, og með því að búa til hrísvönd (skyldu) og gulrót (hvata) fyrir virkjanafyrirtækin að hafa á hverjum tíma lágmarks afgangsorku í kerfinu.   

 

 

 

 


Bloggfærslur 21. apríl 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband