Yfirþjóðleg stofnun leidd til öndvegis

Evrópusambandið (ESB) hefur grafið undan EES-samstarfinu (Evrópska efnahagssvæðið) með því að heimta af EFTA-löndunum í EES, að þau taki við fyrirmælum frá stofnunum ESB, eins og EFTA-löndin væru nú þegar gengin í ESB. Það breytir aðeins forminu, en ekki hinu stjórnlagalega inntaki þessa fyrirkomulags, að ESA - Eftirlitsstofnun EFTA - er látin taka við fyrirmælunum og gera um þau samhljóða samþykktir áður en þau eru send útibúi ESB-stofnunarinnar í EFTA-landinu til framkvæmdar. Útibúið, sem kallað hefur verið landsreglarinn, verður óháð stjórnvöldum landsins og mun móta hér stefnuna í raforkuflutningsmálum þjóðarinnar, verði Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB innleiddur í EES-samninginn.

ESA hefur ekki þegið neinar heimildir til að fjalla efnislega um og breyta fyrirmælum ESB-stofnunarinnar, ACER, og þess vegna er þessi uppsetning lögformlegt fúsk, ætluð til að friða þá, sem enn telja, að EES eigi að starfa samkvæmt upprunalegu tveggja stoða kerfi jafnrétthárra aðila. Tveggja stoða kerfið er sýndarmennska ein og skær. Blekkingariðjan heldur ekki lengur vatni og stenzt ekki Stjórnarskrá.  EES-samstarfið er nú byggt á sandi.

ACER (Orkustofnun ESB) hefur nú þegar tekið bindandi ákvarðanir um kostnaðarskiptingu á milli ESB-landa, sem varða upphæðir, er nema hundruðum milljarða ISK.  Árið 2014 ákvarðaði ACER kostnaðarskiptingu fyrir gaslögn á milli Póllands og Eystrasaltslandanna, þar sem Lettlandi, Litháen og Eistlandi var gert  að greiða sem nemur tugum milljarða ISK til Póllands.  

ACER hefur líka vald til að ákvarða nýtingu á flutningsgetu flutningskerfis yfir landamæri.  Hún  snýst ekki um samningaviðræður, eins og sumir hérlendis hafa látið í veðri vaka, heldur ræður hið  yfirþjóðlega vald, ACER, hvernig flutningsgetan er nýtt.  Bent hefur verið á þá miklu áhættu, sem slíkt felur í sér fyrir nýtingu og rekstur íslenzka vatnsorkukerfisins, sem hefur tiltölulega litla miðlunargetu og má lítt við miklum sveiflum í vatnsrennsli.  

Ef Ísland og ESB-land lenda í orkudeilum, getur ACER úrskurðað í deilumálinu.  ACER gjörðin í Þriðja orkubálkii veitir ákvarðanavald eftir nokkrum leiðum:

  • Kafli 7 veitir ACER vald til ákvarðanatöku um s.k. tæknileg viðfangsefni.  Þannig mun stofnunin ákveða reglurnar um aflflutning um sæstrengina.  Þetta felur í sér mikla áhættu fyrir íslenzka raforkukerfið, sem þarf stjórnunar við til að lágmarka hér hættu á raforkuskorti, og til að girða fyrir of snöggar breytingar á lónsstöðu eða vatnsrennsli.
  • Kafli 8 veitir ACER völd til að úrskurða í deilumálum stofnana eða fyrirtækja í þjóðríkjunum, eða, ef stofnunin telur vera of litla flutningsgetu í sæstrengjum, loftlínum eða gasrörum á milli landa, að fyrirskipa þá nauðsynlegar umbætur, sem oftast felast í nýjum mannvirkjum.  ACER getur ákveðið, hver skal greiða hvað í samstarfsverkefni tveggja eða fleiri landa.  

Ísland mundi ekki eiga aðild að ACER með atkvæðisrétti.  Við aðild að Orkusambandinu yrði Ísland hins vegar bundið af samþykktum ACER.  Í tilviki EFTA-landanna yrði sett á laggirnar kerfi, þar sem Eftirlitsstofnun EFTA-ESA- að forminu til á að gera samþykktir á vegum ACER, en samþykktin verður skrifuð hjá ACER og ljósrituð hjá ESA. Þannig er komið fyrir "tveggja stoða kerfinu". Þetta er dæmigerð sniðganga á upprunalegu tveggja stoða kerfi EFTA og ESB og dæmir EES-samninginn raunverulega úr leik.

Samþykkt ESA fer síðan til nýrrar valdsstofnunar á sviði orkumála, sem Norðmenn kalla RME hjá sér, "Reguleringsmyndighet for energi", sem samkvæmt regluverki ESB verður að vera óháð innlendu stjórnvaldi.  Nýja orkuvaldsstofnunin, sem kalla má útibú ACER á Íslandi, á að taka við fyrirmælunum frá ESA og framkvæma þau upp á punkt og prik; hvorki ríkisstjórnin né Alþingi getur sent henni nein tilmæli, hvað þá fyrirmæli.  Með þessu móti komast fyrirmæli ACER um milliliði óbreytt til íslenzkra aðila. Yfirþjóðleg stofnun, þar sem Ísland ekki er aðili, yrði einráð á mikilvægu málefnasviði á Íslandi.  Á slíkt að verða gjöf Alþingis til þjóðarinnar á 100 ára afmælisári fullveldis hennar ?  Er það draumsýn iðnaðarráðherra og utanríkisráðherra ?  Það eru endemi að þurfa að varpa slíku fram, en málflutningur að hálfu ráðuneyta þeirra gefur því miður tilefni til þess.

Aðrir þættir í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, þ.e. gjörð 714/2009 um raforkuflutning á milli landa, felur í sér valdflutning frá íslenzkum stjórnvöldum til ESA gagnvart einkaaðilum um það að sækja upplýsingar og sekta, ef upplýsingaskyldan er sniðgengin.  Þetta veitir ESA stöðu stjórnvalds á Íslandi, sem er klárt Stjórnarskrárbrot.  

Það er alveg makalaust, að fulltrúi Íslands í sameiginlegu EES-nefndinni skyldi hafa verið látinn samþykkja þessi ósköp 5. maí 2017 í Brüssel. Það á eftir að kasta ljósi á það, hvernig það fór fram, og hverjir komu þar við sögu.  Augljóslega verður Alþingi að synja slíkum mistökum samþykkis.  Hér verður einfaldlega að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.    

  

 


Bloggfærslur 17. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband