Hagsmunir Íslands og Noregs gagnvart Orkusambandi ESB

Noregur er mikið orkuland, og næst á eftir Rússlandi mesti gasbirgir Evrópusambandsins, ESB. Norðmenn minnast enn Fyrstu gasmarkaðstilskipunar ESB frá 1998, sem tók réttinn af birgjum á norsku landgrunni til að standa sameiginlega að samningum við ESB-ríkin um magn og verð. Þar gaf ESB tóninn fyrir það, er koma skyldi í hagsmunagæzlu sinni fyrir hinar orkuhungruðu þjóðir sambandsins.  

Nú vinnur ESB að því að samræma afstöðu kaupendanna, til að þeir komi sameinaðir að samningaborðinu um gasafhendingu af norsku landgrunni.  Þannig breytir ESB styrkhlutfallinu Noregi í óhag, þegar hentar. ESB setur leikreglurnar hverju sinni í samskiptum Evrópuríkjanna og skeytir þá ekkert um jafnræði eða sanngirnissjónarmið. Það er einmitt í þessu samhengi, sem menn verða að líta á ACER sem skref í þá átt að færa ESB völdin yfir innviðunum, ekki með því, að ESB eignist þá, heldur með því, að ESB stjórni notkuninni.

Með ráðgerðum sæstrengjum til útlanda verður unnt að flytja út um helming allrar raforkuvinnslu á Íslandi og í Noregi til núverandi ESB-landa.  Bretland getur orðið milliliður á milli þessara landa hreinna orkulinda og hins stóra orkukaupanda slíkra orkulinda, ESB. Í umræðunni um ACER á Íslandi og í Noregi hefur verið fullyrt, að "Þriðji orkubálkurinn" komi sæstrengjum til útlanda eða orkustjórnsýslunni innanlands ekkert við.  Þetta sjónarmið er úr lausu lofti gripið og ber vott um blekkingaleik eða vanþekkingu. Hvorugt er til vitnis um góða stjórnsýslu eða góða dómgreind. 

Þau, sem halda þessu fram, horfa framhjá þeirri staðreynd, að hlutverk ACER er m.a. að sjá til þess, að aðildarlöndin framfylgi og styðji í hvívetna kerfisþróunaráætlun ESB.  Þar með er einmitt innviðauppbygging fyrir sæstreng orðin að einu af verkefnum hinnar nýju Orkustofnunar, sem nefnd hefur verið "landsreglari" eða orkuvaldsstofnun hérlendis (til aðgreiningar frá stjórnvaldsstofnun), sem lúta á stjórn ACER um milliliðinn ESA (í EFTA-ríkjunum) og verður óháð innlendum stjórnvöldum.

Halda menn, að "Ice Link" sé í Kerfisþróunaráætlun ESB upp á punt ?  Hafa einvörðungu sveimhugar komið að umfjöllun íslenzkra stjórnvalda um Orkusamband ESB, eða eru þar á ferð taglhnýtingar ESB ?  

Í Noregi er umdeildur sæstrengur til Skotlands, "NorthConnect" á vegum einkaaðila og á Íslandi er "Ice Link" á vegum Landsnets, Landsvirkjunar og dótturfélags brezka Landsnets; báðir eru á forgangsverkefnalista ACER um verkefni sameiginlegra hagsmuna ESB-landanna, PCI (Projects of Common Interests). ESB hefur veitt MEUR 10 eða miaISK 1,2 til verkefnisundirbúnings, forhönnunar "NorthConnect", en upplýsingar vantar enn varðandi verkefnisstöðu "Ice Link", nema hann á að taka í notkun árið 2027. 

Ef Alþingi samþykkir innleiðingu Þriðja orkubálksins í EES-samninginn, og Orkustofnun hafnar síðan umsókn um "Ice Link" frá eigendafélagi hans eða umtalsverðar tafir verða á undirbúningi hans, t.d. vegna umhverfismats á flutningslínum að landtökustað sæstrengsins og endabúnaði hans, sem verða gríðarstór tengivirki á íslenzkan mælikvarða, um 1500 MVA afriðla- og áriðlastöðvar ásamt sveifludeyfandi búnaði, þá mun orkuvaldsstofnuninni, "landsreglaranum", verða skylt að tilkynna þá stöðu mála til ACER sem frávik frá kerfisþróunaráætlun ESB. Hver halda menn, að hafi töglin og hagldirnar, ef/þegar þessi staða kemur upp ? Kötturinn eða músin ?  

Það leikur enginn vafi á því, að innan ESB verður ekki tekið á slíku með neinum silkihönzkum, enda túlkað sem brot á grundvallarreglu Þriðja orkubálksins um aukin raforkuviðskipti aðildarlanda Orkusambandsins.  Eigendur "Ice Link" geta kært höfnun leyfisveitingar til íslenzks dómstóls eða EFTA-dómstólsins, en réttarfar ESB mun ráða niðurstöðunni.  Þessi staða dómskerfisins er auðvitað algerlega óviðunandi fyrir "sjálfstæðar" þjóðir í EFTA.  

Völd ACER munu enn verða aukin:

Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB var samþykktur af æðstu stofnunum ESB árið 2009.  Síðan þá hefur Framkvæmdastjórnin kynnt og að nokkru fengið samþykkt áform sín um víðtækara Orkusamband.  Í tilkynningu Framkvæmdastjórnarinnar um þetta kom einnig fram viljayfirlýsing hennar um Noreg: "ESB mun halda áfram á þeirri braut að flétta Noreg að fullu inn í innri orkustjórn sambandsins".   Ekki hefur sézt neitt viðlíka um Ísland, en það á sér líklega pólitískar skýringar.  

Þungvægt atriði í Orkusambandinu er að auka völd ACER.  Stefnumið Framkvæmdastjórnarinnar er, að ákvörðunarferli orkustofnana aðildarlandanna verði allt miðlægt.  Þetta þýðir, að "landsreglarinn", útibú ACER, yfirtekur það, sem eftir er af Orkustofnun.  Jafnframt verða völd ACER aukin varðandi mál, sem snerta fleiri en eitt aðildarland.  Þetta þýðir auðvitað, að sjálfstæði Íslands í raforkumálum hverfur algerlega í hendur ESB.  Þar með nær ESB tangarhaldi á efnahagsstjórnun landsins.  Þessari framtíðarsýn verða Alþingismenn að velta fyrir sér, þegar þeir ákveða, hvernig þeir greiða atkvæði um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn.  Þetta er í grundvallaratriðum önnur sýn en haldið hefur verið fram í algerum óvitaskap eða löngun til að binda sitt trúss við ESB. 

Varðandi Landsnet er hér t.d. um að ræða að semja  netmála, sem ákvarða, hvernig rafstraumnum er stjórnað í flutningsmannvirkjum á milli landa.  Stefnt er að ákvarðanatöku í ACER með einföldum meirihluta, en ekki auknum meirihluta, eins og nú er.  Þegar Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn hefur verið staðfestur inn í EES-samninginn (samþykkt Alþingis vantar), mun koma krafa frá ESB um, að téðar viðbætur verði teknar inn að auki.  Þetta er hin dæmigerða spægipylsuaðferð ESB.  Norska ríkisstjórnin andmælti því í Sameiginlegu EES-nefndinni á sínum tíma, að ACER fengi meiri völd en hún hefur samkvæmt Þriðja bálkinum.  Þróun mála nú innan ESB sýnir, að ESB hefur algerlega hunzað þetta sjónarmið Noregs.  Hver var afstaða íslenzku ríkisstjórnarinnar 2017 um þetta álitaefni ? 

Það er í raun og veru þannig orðið, að stjórnmálaleg stefnumörkun, sem snertir EES-samstarfið, þolir ekki lengur dagsljósið.  Skýringin á því er sú, að hún felur í sér gróft Stjórnarskrárbrot í hverju málinu á fætur öðru.  Þessi hluti utanríkisstefnunnar stefnir í algert óefni, enda virðist bæði skorta þekkingu og vilja til að taka sjálfstæða afstöðu til málanna, sem streyma frá ESB til EFTA.  Þetta ólýðræðislega samkrull mun enda með stórslysi ("point of no return"), ef ekki verður snarlega bundinn endi á það.  

 

 


Bloggfærslur 18. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband